2017

2017_gaui

Þetta verður frábært ár. Ég veit það. Ég byrjaði árið reyndar á því að ná mér í leiðindapest sem gerði sitt besta til að draga úr mér mátt og þor, en hún er farin og ég nú sprækur sem lækur. Ég hef alltaf haft gaman af áramótum. Séð þau sem tækifæri til þess að velta fyrir sér lífinu og gera breytingar til góðs. Það er gott að byrja á því að hreinsa aðeins til, þá býr maður til rúm og tíma fyrir það sem mann virkilega langar til að gera.

Eitt af því sem ég ákvað í þessu ferli var að hreyfa mig meira en ég hef gert undanfarin ár. Ég hef farið í göngutúra og æft reglulega, en það er ekki nóg fyrir mig. Ég er búinn að sitja allt of mikið. Mér líður langbest, bæði líkamlega og andlega, ef ég hreyfi mig mikið yfir daginn. Sit minna við skrifborðið. Ég er núna í því að finna bestu blönduna, hvernig ég get látið þetta tvennt vinna sem best saman. Skrifborðsvinnan gefur mér nefnilega mikið svo lengi sem ég sit ekki of lengi við í einu.

Mín leið, sú sem ég er að innleiða hjá sjálfum mér núna í byrjun árs, er ekki flókin. Hún felur í sér að nota skrifborðstímann í að vinna og læra, ekki í afþreyingu eða andlegt hangs. Þannig bý ég mér til tíma til þess að hreyfa mig meira. Sem gefur mér orku og kraft til þess að vinna betur þegar ég sest aftur við. Hausinn virkar betur þegar líkaminn er búinn að fá sitt. Á hreyfilista ársins eru ketilbjöllu- og útiæfingar, körfubolti á planinu, sjósund, jiu jitsu, klifur, skriðsund og köfun. Langar líka að læra á standandi róðrarbretti hjá Stjána Vald og lofa sjálfum mér hér með að gera það í vor. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. febrúar 2017

Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sett á laggirnar

Góðar hugmyndir óskast frá bæjarbúum. Kannski stingur einhver upp á því að útbúa vatnaveröld á Stekkjarflöt eða koma upp drykkjarstöðvum í Hamrahlíð. Myndirnar eru samsettar.

Góðar hugmyndir óskast frá bæjarbúum. Kannski stingur einhver upp á því að útbúa vatnaveröld á Stekkjarflöt eða koma upp drykkjarstöðvum í Hamrahlíð. Myndirnar eru samsettar.

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur ákveðið að fara af stað með lýðræðisverkefnið Okkar Mosó á árinu 2017.
Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Gert er ráð fyrir að 25 milljónum króna verði varið í að framkvæma þær hugmyndir sem fá brautargengi.

Kosið í rafrænni kosningu
Óskað verður eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum sem síðan verður kosið um í rafrænni íbúakosningu. Hugmyndirnar geta varðað leik- og afþreyingarsvæði íbúa, vistvænar samgöngur, bætta lýðheilsu eða umhverfið almennt.
Hægt verður að skila inn hugmyndum rafrænt í þar til gerðu kerfi sem verður aðgengilegt á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, umræða um hugmyndir og úrvinnsla, kosningar og framkvæmd.

>> Hugmyndasöfnunin hefst 1. febrúar næstkomandi og allar upplýsingar um verkefnið verður að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is.

Skilaboðaskjóðan frumsýnd 22. janúar

skilaboða2

Nú er allt að smella saman í Bæjarleikhúsinu, enda styttist óðum í frumsýningu á Skilaboðaskjóðunni þann 22. janúar.
Um 40 áhugasamir listamenn vinna nú hörðum höndum að leik, tónlist, leikmynd, búningum og öllu því sem þarf til að gera stóran söngleik að veruleika.
Sagan, eftir Þorvald Þorsteinsson, fjallar um Putta litla sem býr í Ævintýraskógi, sem langar mest af öllu að verða hugrakkur ævintýraprins. Hann heldur af stað um miðja nótt í leit að nátttrölli, en verður fyrir því óláni að festast inni í helli nátttröllsins.
Maddamamma og allir íbúar ævintýraskógarins taka höndum saman og með hjálp Skilaboðaskjóðunnar ná þau að bjarga Putta litla úr klóm nátttröllsins.
Tónlist Jóhanns G. Jóhannssonar setur líflegan blæ á söngleikinn sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Sýningar verða á sunnudögum kl. 14 og miðapantanir í síma 566-7788. Miðaverð er aðeins 2.500 kr.

>> Fylgist með leikfélaginu á samfélagsmiðlunum Instagram, Facebook og Snapchat. Þú gætir unnið miða á Skilaboðaskjóðuna!

„Gott að koma heim og hlaða batteríin“

Jökull með splunkunýjan og sérsmíðaðan gítar eftir gítarsmiðinn Peter Turner. Mynd/Raggi Óla

Undanfarin tvö ár hafa verið viðburðarík hjá strákunum í mosfellsku hljómsveitinni Kaleo. Blaðamaður Mosfellings hitti Jökul Júlíusson, söngvara hljómsveitarinnar, sem staddur er hér á landi í fríi yfir hátíðarnar.
„Það er rosalega gott að koma heim og hlaða batteríin. En ég er líka búinn að nota tímann vel í að semja ný lög og texta. Ég fer ekki aftur út fyrr en eftir þorrablótið, sem er frábært því ég var mjög svekktur að geta ekki komið í fyrra.“

Ferðast um í tveimur rútum
„Þetta er lengsta fríið sem við höfum fengið síðan við fórum út fyrir tveimur árum en við höfum verið á fullu síðan. Við fórum til London í febrúar 2015 til að taka upp nýtt efni fyrir erlendan markað.
Í kjölfarið fluttum við til Texas í Bandaríkjunum þar sem við fengum hús í útjaðri Austin. Þar bjuggum við þangað til í apríl 2016 en þá fluttum við til Nashville. Við erum nú minnst þar því við erum alltaf á ferðinni. Við ferðumst um á tveimur lúxusrútum. Ég er með eina rútu og strákarnir með aðra og við erum alltaf með sirka 10 manna „crew“ með okkur.“

Eru búnir að spila í 48 fylkjum
Kaleo gaf út hljómplötuna A/B í júní en hún hefur nú þegar hlotið gull í Bandaríkjunum og platínu í Kanada. „Við vorum að koma úr fimm mánaða túr um Bandaríkin og Evrópu þar sem við erum að fylgja eftir útgáfu plötunnar. Við höfum svo til spilað upp á hvern einasta dag.
Svo gengur þetta líka mikið út á að komast að hjá útvarpsstöðvunum, hitta fólk og byggja upp tengslanet. Þetta er svo svakalega stór markaður. Þetta er alveg þrotlaus vinna, við erum búnir að spila í 48 fylkjum í Bandaríkjunum á þessum tveimur árum. Við eigum Alaska og Havaí eftir, en við spilum á Havaí í apríl,“ segir Jökull.

Um 200 manns koma að hljómsveitinni
Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til ýmissa viðurkenninga en Billboard útnefndi Kaleo sem bestu nýju rokkhljómsveit ársins 2016. Árið 2017 er orðið fullbókað hjá Kaleo og bókanir farnar að berast fyrir árið 2018.
„Umboðsskrifstofan og plötufyrirtækið sjá um öll þessi mál fyrir okkur, þetta er orðið rosalegt batterí. Ég myndi ætla að það séu yfir 200 manns sem koma að hljómsveitinni á einhvern hátt á hverjum degi.“

Vill sjá aðstöðu fyrir unga listamenn
„Það vekur athygli að við komum frá 9 þúsund manna bæ á Íslandi. Og að við séum búnir að vera saman í hljómsveit síðan í Gaggó. Við höfðum æfingaaðstöðu í gamla Selinu sem bærinn bauð upp á, æfðum þar þegar við vildum, meðal annars fyrir Músíktilraunir.
Ég myndi vilja sjá að boðið væri upp á svona aðsöðu fyrir unga listamenn í Mosfellsbæ í dag. Við eigum svo mikið af hæfileikaríkum ungmennum sem þarf að halda vel utan um. Það er mér mjög mikilvægt því ég man hvað þetta gerði mikið fyrir mig. Það er allt annað að spila inni í herbergi eða syngja og spila í míkrafón og magnara,“ segir Jökull að lokum.

Rafræn kosning um íþróttakarl og -konu Mosfellsbæjar

íþróttakjör_vefur

Búið er að tilnefna 17 einstaklinga til íþróttakarls og -konu Mosfellsbæjar 2016. Sjö karlar eru tilnefndir og tíu konur. Íþróttafólkið er kynnt betur til sögunnar annars staðar í blaðinu. Bæjarbúum gefst kostur á, ásamt aðal- og varamönnum í íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa um tilnefningarnar. Kosningin fer fram á vef Mosfellsbæjar www.mos.is dagana 12.-16. janúar. Velja skal karl í 1., 2. og 3. sæti sem og konu í 1., 2. og 3. sæti. Úrslit verða kynnt fimmtudaginn 19. janúar kl. 19 í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þangað eru allir velkomnir.

HÉR ER HÆGT AÐ KJÓSA

Sterk liðsheild skiptir mestu máli

asgeirsveins

Ásgeir Sveinsson framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. og formaður meistaraflokksráðs karla í handbolta fullyrðir að bestu áhorfendur á Íslandi séu í Mosó

Ásgeir Sveinsson hóf störf ungur að árum hjá Heildverslun Halldórs Jónssonar en árið 2008 tók hann við framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins. Þarfir viðskiptavina eru ávallt hafðar í öndvegi og kappkostað er að veita framúr­skarandi þjónustu en fyrirtækið skiptist í þrjár deildir, snyrtivöru-, hárvöru-­ og verslunardeild.
Ásgeir segir að rekstur fyrirtækisins sé svipaður því að þjálfa lið í hópíþrótt. Það þarf að vera með rétta liðið í höndunum, allir þurfa að vera vel þjálfaðir og þekkja sín hlutverk.

Ásgeir er fæddur í Reykjavík 23. janúar­ 1967. Foreldrar hans eru þau Áróra Sjöfn Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sveinn Kjartansson framkvæmdastjóri. Áróra lést árið 1989. Ásgeir er miðjubarnið í systkinahópnum en hann á einnig fjögur hálfsystkini.
„Ég er alinn upp í Breiðholti og í Vesturbænum. Þegar ég var sjö ára þá skildu foreldrar mínir og mamma flutti til Danmerkur til að fara í framhaldsnám. Við systkinin fluttum til móðurömmu okkar og afa og ólumst upp hjá þeim þangað til við fluttum að heiman.“

Forréttindi að alast upp í Selvogi
„Mínar helstu æskuminningar eru frá Hlíðarvatni í Selvogi. Föðurafi minn og amma áttu hús við vatnið og þar dvöldum við bræðurnir með þeim öll sumur. Við fórum í silungsveiði, fjallgöngur og önnur spennandi náttúruævintýri.
Það voru algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í þessu umhverfi og læra til verka í þessari náttúruperlu sem Selvogurinn er.“

Íslandsmeistarar upp alla flokka
„Frá tíu ára aldri tóku íþróttirnar við og ég spilaði mest með Víkingi, fótboltinn á sumrin og handboltinn á veturna. Minn árgangur og árgangarnir í kring voru mjög sterkir í handbolta og við urðum Íslandsmeistarar upp alla yngri flokkana sem var mjög gaman.
Afi og amma sem ég ólst upp hjá voru mjög virk í störfum hjá Víkingi og heimilis­lífið var litað af störfum þeirra fyrir félagið. Þau mættu á alla leiki þannig að maður fékk mjög gott íþróttauppeldi og bjó við mikinn stuðning.
Ég byrjaði ungur að þjálfa handbolta og tók allar þjálfaragráður sem í boði voru hér á landi í þeim fræðum. Ég starfaði sem þjálfari hjá Víkingi, Fram og Aftureldingu.“

Ætlaði að verða kennari
Ásgeir gekk í Breiðagerðis­skóla og svo í Réttarholtsskóla. „Mér fannst alltaf gaman í skólanum og eignaðist góða vini sem ég held ennþá sambandi við.
Ég tók þátt í öllu félagslífi, sérstaklega í Réttó, og var formaður nemendaráðs í tvö ár. Eftir Réttó fór ég í Fjölbraut í Ármúla á íþróttabraut. Ég ætlaði að verða íþróttakennari og fara í ÍKÍ á Laugarvatni. Eftir útskrift, sem var um áramót, sótti ég um á Laugarvatni og fékk inngöngu sem var mjög erfitt á þeim tíma.
Þar sem skólinn átti ekki að byrja fyrr en um haustið þá ákvað ég að fara að vinna og sótti um starf hjá Heildverslun Halldórs Jónssonar. Planið var að vera þar þangað til að ég færi í námið. Ég ákvað svo að fresta því um eitt ár en sá frestur lengdist heldur betur því ég er ekki farinn ennþá,“ segir Ásgeir og hlær.
„Ég starfaði einnig í aukavinnu á íþróttadeild Bylgjunnar í 10 ár við lýsingar á hand- og fótboltaleikjum.“

Fluttu til Noregs
„Hjá Halldóri starfaði ég til ársins 1996 en þá ákvaðum við hjónin að flytja til Noregs en ég er giftur Helgu Sævarsdóttur hjúkrunar- og lýðheilsufræðingi. Sonur okkur Elvar var þá orðinn tveggja ára. Í Noregi fór ég í háskólanám í markaðsfræðum og stjórnun. Plön okkar breyttust vegna veikinda í fjölskyldu Helgu og við fluttum heim ári síðar og þá á Egilsstaði þar sem við bjuggum í rúmt ár en Helga er ættuð þaðan. Þetta ár starfaði ég hjá Landflutningum.
Við Helga eignuðumst tvö börn til viðbótar, þau Ásu Maríu sem er fædd 1998, og Hilmar sem er fæddur 2000. Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ og Helga hóf störf á Heilsugæslunni. Heimilislíf okkar gengur mikið út á íþróttir, útivist og ferðalög bæði innanlands og utan.“

Tókum ekki þátt í góðærispartíinu
„Eftir að við fluttum að austan hóf ég störf hjá Lystadún Markó sem var í eigu HJ og starfaði þar til 2001. Þaðan fór ég aftur til Halldórs og byrjaði sem deildarstjóri en tók svo við sem framkvæmdastjóri árið 2008, korteri í hrun.
Þetta er 60 ára gamalt fyrirtæki og hjá okkur starfa 30 manns. Það var mikil áskorun og lærdómur að taka við sem stjórnandi í innflutningsfyrirtæki á þessum tíma.
Við áttum því láni að fagna að hafa ekki tekið þátt í góðærispartíinu og stóðum því styrkum fótum. Þetta reyndist okkur vel, við náðum að bæta við okkur merkjum og stækka fyrirtækið.
Að reka svona fyrirtæki er eins og að þjálfa lið í hópíþrótt. Sterk liðsheild skiptir mestu máli. Það þarf að vera með rétta liðið í höndunum, allir þurfa að vera vel þjálfaðir og þekkja sín hlutverk. Ég hef lagt mikla áherslu á þessa þætti sem stjórnandi.“

Liðið stefnir á að vinna titla á næstunni
Handboltinn hjá Aftureldingu hefur skipað stóran sess í lífi Ásgeirs. Fyrst starfaði hann sem þjálfari en undanfarin ár hef hann verið formaður meistaraflokksráðs.
„Í kringum meistaraflokkinn starfar öflugur hópur sjálfboðaliða sem hefur unnið faglega og með þolinmæði að markmiðum sínum varðandi liðið undanfarin ár. Okkar stefna er að byggja liðið upp á uppöldum Aftureldingarmönnum. Það hefur tekist og við stefnum að því að liðið vinni titla á næstu misserum. Við erum með mjög hæfan þjálfara, Einar Andra Einarsson, sem er með öflugt teymi með sér sem tryggir faglega og góða þjálfun.“

Finnum fyrir miklum stuðningi
Síðastliðið haust tók til starfa handbolta­akademía hjá FMos í samstarfi við Aftureldingu og er því óhætt að segja að það sé í gangi víðtækt, markvisst og öflugt starf í handboltabænum Mosfellsbæ.
„Við finnum fyrir miklum stuðningi bæjarbúa sem hefur aukist að undanförnu vegna góðs árangurs sem okkar unga lið hefur náð. Stemningin á heimaleikjunum er mikil en við myndum gjarnan vilja sjá enn fleiri fjölskyldur á pöllunum.
Ég get fullyrt að bestu áhorfendurnir í handboltanum á Íslandi eru í Mosó, stemningin er alltaf að verða betri og betri sem er okkar markmið.“

Stærsta og flottasta þorrablótið
Ég spyr Ásgeir hvað hann ætli að gera í tilefni tímamótanna en hann á 50 ára afmæli í enda mánaðarins? „Planið er að halda afmælispartí en fyrst þarf ég að huga að enn stærra partíi sem er Þorrablót Aftureldingar, það verður haldið 21. janúar.
Við Helga höfum starfað í þorrablótsnefnd í nokkur ár með frábæru fólki. Í ár er 10 ára afmælisblót sem verður það stærsta og flottasta hingað til. Undanfarin tvö ár hefur verið uppselt og það stefnir í að það verði aftur í ár.“

Mosfellingurinn 12. janúar 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fyrsti Mosfellingur ársins

fyrstimosfellingurarsins2017

Þann 3. janúar kl. 02:20 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2017 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Það var drengur sem var 3.474 gr og 52 cm.
Foreldrar hans eru Sigurður Grétar Ágústsson og Svanfríður Arna Jóhannsdóttir og búa þau í Einiteig 1. Drengurinn er þriðja barn þeirra hjóna en fyrir eiga þau Hörpu Dagbjörtu 14 ára og Almar Jökul 6 ára.
„Ég átti að eiga hann 1. janúar en hann ákvað að koma þann þriðja. Fæðingin gekk ótrúlega vel, hann kom í rauninni mjög hratt í heiminn. Hann er mjög rólegur og við erum í skýjunum með hann. Við erum búin að búa hér í Mosfellsbænum í rúmt ár. Okkur líkar mjög vel, hér er rólegt og mjög barnvænt,“ segir Svanfríður Arna.

Stærsta innanhússsamkoma ársins

þorró2017

Þorrablót Aftureldingar fer fram laugardaginn 21. janúar. Að vanda fer blótið fram í íþróttahúsinu að Varmá og opnar húsið kl. 19. Miðasala og borðaúthlutun verður föstudaginn 13. janúar á Hvíta Riddaranum og hefst kl. 18.
„Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið í þessari mynd og það er svo til sama fólkið hefur verið í þorrablótsnefnd öll þessi ár,“ segir Rúnar Bragi forseti þorrablótsnefndar.
„Undanfarin ár hefur verið uppselt og færri komist að en viljað. Mikil stemning hefur myndast við borðaúthlutunina en þetta verður í fyrsta skipti sem miðasala hefst á sama tíma. Einungis verður hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða.
Líkt og í fyrra verðum við bæði með langborð og hringborð. Hringborðin eru seld sem svokölluð VIP-borð en þau eru aðeins seld í heilu lagi og þeim fylgja fljótandi veigar og einhver forréttindi.“

Borðaskreytingar í hádeginu
Dagskráin er veigamikil og fjölbreytt en að þessu sinni mun Logi Bergmann sjá um veislustjórnina, Raggi Bjarna mun troða upp og hljómsveitin Made in sveitin mun leika fyrir dansleik með Hreim, Stef­aníu­ Svavars og Eyþór Inga í fararbroddi.
„Það mun verða mikið um dýrðir, Tríóið Kókos mun taka vel á móti gestunum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar en að vanda munu allir finna eitthvað við sitt hæfi. Auk hefðbundins þorramatar mun Geiri bjóða upp á lambalæri og með því.
Borðaskreytingar eru stór hluti af blótshaldinu hjá mörgum hópum og vitum við til þess að undirbúningur er víða hafinn. Við erum alltaf með óháða dómnefnd, en vinningsborðið fær bæði farand- og eignarbikar. Skreytingarnar fara fram á blótsdegi kl. 12-13:30,“ segir Rúnar Bragi.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook síðunni Þorrablót Aftureldingar.

Köngulóarvefurinn

Heilsumolar_Gaua_12jan2017

Ég var að koma heim úr ferðalagi. Fór á staði sem ég hef ekki komið á áður og á staði sem ég hef áður heimsótt. Þetta var frábært ferðalag. Ég lærði margt nýtt og naut þess í botn að vera með mínum nánustu. Það hafði líka mikil áhrif á mig í ferðalaginu að fylgjast með því hvað við mannfólkið erum orðnir miklir netfíklar. Ríkir, fátækir, börn, unglingar, fullorðnir.

Hvert sem maður kemur í dag er síminn í aðalhlutverki. Alls staðar og alltaf er fólk í símanum. Wifi er töfraorð ferðalangsins í dag. Við verðum að vera tengd, alltaf. Símarnir eru frábærir á margan hátt. Við getum tekið myndir á þá, skapað góðar minningar. Notað þá í mikilvæg og gefandi samskipti. Við getum geymt og náð í mikilvægar ferðaupplýsingar í þeim. En við notum þá miklu meira til að deyfa okkur. Ég gægðist yfir öxlina á mörgum af þeim sem voru í símanum, langaði að sjá hvað þeir væru að stússast. Langflestir voru á Facebook, að rúlla í gegnum statusa. Augnaráðið tómt.

Fólk að passa sig að missa ekki af einhverju. Í stað þess að horfa í kringum sig, upplifa það sem virkilega var að gerast, tala beint við þá sem voru með þeim. Á staðnum. Ég er núna að loka Facebookinu mínu og hætta að nota fleiri netmiðla. Ætla að nota minn tíma í staðinn í hluti sem virkilega gefa mér orku. Íþróttir, útivist, lesa bækur. En þetta er ekki einfalt. Maður er eins og fluga í köngulóarvef, Facebook heldur utan um marga þræði í lífi manns með alla sína hópa og tengingar. Kallar sterkt á mann. Eins og eiturlyf á fíkil. Aðal­áskorunin er að halda í fólkið sem maður vill vera í samskiptum við án þess að þurfa að fara í gegnum Mark Zuckerberg og félaga. Það mun takast!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. janúar 2017

Guðni Valur Mosfellingur ársins 2016

Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason.

Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason.

Hefur náð ótrúlegum árangri á stuttum ferli

Guðni Valur Guðnason, 21 árs kringlukastari, er Mosfellingur ársins 2016. Árið hjá honum var vægast sagt viðburðaríkt og toppurinn var að sjálfsögðu þátttaka hans á Ólympíuleikunum í Ríó.
Guðni Valur hefur tekið gríðarlegum framförum í greininni þau þrjú ár sem hann hefur stundað kringlukast af fullum krafti. Áður hafði Guðni æft aðrar greinar í frjálsum, golf, körfubolta og ýmsar íþróttir sem krakki.
„Það skipti í rauninni ekki máli í hvaða grein maður var þegar maður var yngri en langskemmtilegasta mótið var Goggi Galvaski sem haldið var hérna í Mosó,“ segir Guðni Valur.

Sækir reynslu til besta kastara landsins
Guðni Valur æfði með Aftureldingu á sínum yngri árum en keppir nú fyrir hönd ÍR undir dyggri handleiðslu Péturs Guðmundssonar. Þar sækir Guðni Valur mikla reynslu og þekkingu hjá einum besta kastara sem Íslendingar hafa eignast
Guðni Valur kastaði 60,45 m á Ólympíuleikunum í sumar og lenti í 21. sæti af 35 þátttakendum. Þá gerði hann góða ferð til Finnlands á árinu þar sem hann landaði Norðurlandameistaratitli í flokki 23 ára og yngri. Hann vann einnig gull á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru á Möltu.

Ætlar sér stóra hluti á árinu
Guðni Valur setur markið hátt á árinu og ætlar sér að komast á Heimsmeistaramótið í sumar og vinna Evrópumeistaramótið í sínum aldurshópi. Lágmarkið fyrir HM er 65 m en besti árangur Guðna er 63,5 m. „Ég á nóg inni og ætla mér stóra hluti.“ Þá er stefnan tekin á Smáþjóðaleika og fjölda annarra móta og keppnisferða á árinu.
Guðni Valur var á dögunum útnefndur frjálsíþróttakarl ársins og hlaut einnig titilinn íþróttakarl ÍR 2016. „Það er hrikalega skemmtilegt að bæta nafnbótinni Mosfellingur ársins við í safnið og mun ég bera titilinn stoltur,“ segir þessi framúrskarandi íþróttamaður sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.

Nýr klórbúnaður tekinn í notkun í sundlaugunum

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Baldur Hall­dórsson framkvæmdastjóri hjá Vatnslausnum.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Baldur Hall­dórsson framkvæmdastjóri hjá Vatnslausnum.

Fjárfest hefur verið í nýjum klórgerðarbúnaði fyrir sundlaugar Mosfellsbæjar.
Búnaðurinn framleiðir klór úr matarsalti þar sem rafstraumur er notaður til að kljúfa saltið í frumefni sín. Þegar þau efni blandast vatninu myndast efni sem hentar vel til sótthreinsunar í sundlaugum. Mosfellsbær er eitt af fyrstu sveitafélögum landsins til að taka í notkun slíkan búnað.

Umhverfisvænt og hagkvæmt
Kaupin á klórgerðarbúnaðinum samræmast vel umhverfisstefnu Mosfellsbæjar þar sem lögð er áhersla á að minnka notkun hættulegra efna sem skaðað geta lífríkið. Auk þess eru helstu kostir nýrra kerfa lítill framleiðslukostnaður og engin flutningur á hættulegum efnum.
Fyrir sundlaugargesti þýðir þetta að klórlyktin minnkar talsvert. Sviði í augum og húðerting minnkar og efnin fara betur með sundfatnað.

Borgar sig upp á 5-6 árum
Gert er ráð fyrir því að kerfin verði komin upp bæði í Varmárlaug og Lágafellslaug í febrúar næstkomandi. Búnaðurinn kostar um 58 milljónir króna en lækkun á rekstrarkostnaði kemur til með að spara umtalsverðar fjárhæðir sem borgar kerfin upp á 5-6 árum, samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar Mannvits.
Það eru Vatnslausnir ehf. sem selja kerfið frá hollenskum framleiðanda, Van den Heuvel.

>>> Í Varmárlaug voru notuð tæp 12 tonn af klór á árinu 2015. Í Lágafellslaug fóru rúm 25 tonn af klór á árinu 2015.

Með umboð fyrir risaframleiðanda

bilasala2

Bræðurnir Pétur og Októ með glænýjan Fiat.

Bílaumboðið Ís-band hefur opnað glæsilegan sýningarsal nýrra bíla að Þverholti 6 en fyrirtækið flytur inn bíla frá bílaframleiðandanum Fiat Chrysler. Sýningarsalurinn er nú fullur af hinum ýmsu módelum frá Fiat, Jeep og Dodge og er þarna mikið úrval af bílum, allt frá minnstu smábílum upp í stóra jeppa.
Ís-band var stofnað 1998 af Októ Þorgrímssyni og var fyrst með aðsetur á heimili Októs áður en það fluttist í Funahöfða. Frá áramótunum 2008-2009 hefur fyrirtækið verið staðsett í Þverholtinu í Mosfellsbæ. Bílasalan 100 bílar hefur einnig verið staðsett í Þverholti en er nú alfarið flutt í Stekkjar­bakka í Mjódd. Þá er þjónustuverkstæði einnig rekið í Smiðshöfða 5.

Fyrirtækið vel mannað Mosfellingum
Að rekstri þessara fyrirtækja standa bræðurnir Októ og Pétur Þorgrímssynir en þeir hafa búið í Mosfellsbæ frá unga aldri. Þriðji eigandinn sem síðar kom inn í fyrirtækið er einnig Mosfellingur, Jóhannes Jóhannesson, en hann er framkvæmdastjóri þjónustusviðs.
Fleiri Mosfellingar starfa svo hjá Ís-Band. Þorgrímur Októsson faðir bræðranna hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2004. Sigurður­ Valgeir Óskarsson innkaupastjóri er svo borinn og barnfæddur Mosfellingur og Kristína Andrésdóttir sölustjóri fæddist hér og bjó til 5 ára aldurs.
Mosfellingar eru hvattir til að kíkja við í sýningarsalinn og skoða úrvalið en einnig er hægt að skoða á www.isband.is

Opnar ljósmyndaver á Reykjaveginum

harpaljosmyndari

Ljósmyndarinn Harpa Hrund flutti nýlega með ljósmyndaverið sitt í Mosfellsbæinn. „Við vorum búin að leita lengi að húsi sem rúmaði okkur öll, fimm manna fjölskyldu hund, kött og ljósmyndaverið mitt sem ég hef undanfarin 11 ár rekið í Skeifunni.
Við keyptum húsið Borg á Reykjavegi 88. Við tók mikil vinna við að standsetja húsið og núna skiljum við það virkilega hvað fólk meinar þegar það talar um blóð, svita og tár. Við erum enn að gera upp húsið en ég byrjaði að mynda í nýja stúdíóinu í september. Við stefnum á að flytja sjálf inn eftir jól,“ segir Harpa Hrund.

Fjölskyldan alsæl í Mosó
„Við erum rosalega ánægð hér, börnin skilja ekkert í því af hverju við fluttum ekki fyrr í Mosfellsbæinn. Það er mikill léttir að börnin séu svona ánægð því það er auðvitað það sem foreldrar óttast mest þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag.
Umhverfið hér er dásamlegt, við elskum kyrrðina og náttúruna. Húsinu fylgir líka stór garður, við erum með græna fingur og hlökkum mikið til að gera hann enn fínni.“

Verkstæði jólasveinsins
„Margir viðskiptavina minna eru úr Mosfellsbæ og eru þeir ánægðir með flutningana. Ég viðurkenni alveg að ég var smá stressuð að viðskiptavinum mínum þætti langt að koma til mín í Mosó en ég held að allir séu sáttir. Nýja ljósmyndaverið er kósý svo ég tali nú ekki um möguleikana á útitökum í náttúrunni.
Núna er jólatörnin yfirstaðin og hafa verið myndatökur alla daga og vinnsla á stækkunum og jólakortum á kvöldin. Fyrirtækið breyttist í hálfgert verkstæði jólasveinsins og margir hafa hjálpað til.
Þeir sem hafa áhuga á að koma í myndatöku í „sveitina“ geta skoðað heimasíðuna mína, www.harpahrund.is,“ segir Harpa Hrund að lokum.

Hafist handa við Helgafellsskóla

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

helgafellsskoliFyrsta skóflustunga að nýjum leik- og grunnskóla í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ var tekin í dag, miðvikudaginn 7. desember.
Skóflustunguna tóku væntanlegir nemendur skólans sem stunda nú nám í Brúarlandi. Sá skóli er undanfari stofnunar Helgafellsskóla og er rekinn sem útibú frá Varmárskóla. Nemendunum til halds og trausts voru bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.

Helgafellshverfi byggist upp á miklum hraða
Bygging skólans verður stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu misserum. Heildarstærð hússins verður um 7.300 fm og áætlaður byggingarkostnaður um 3.500 milljónir. Skólinn verður byggður í fjórum áföngum og áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018.
Uppbyggingarhraði mun að einhverju leyti taka mið af uppbyggingu hverfisins. En gefin hafa verið út um 400 byggingarleyfi í Helgafellslandi það sem af er ári. Hverfið byggist því upp á miklum hraða um þessar mundir.

Fullbyggður skóli mun hýsa rúmlega 700 börn
Í forsögn verkefnisins er meðal annars hlustað á raddir barna um hvað einkennir góðan skóla. Fullbyggður mun skólinn hýsa um 600 börn á grunnskólaaldri og um 110 börn á leikskólaaldri. Auk þess verður hann vinnustaður um 130 starfsmanna. Hönnuðir eru Yrki Arkitektar og um jarðvinnu sér Karina ehf.

Skólar eru kjarni samfélagsins
„Það er stór stund í hverju bæjarfélagi þegar tekin er fyrsta skóflu­stunga að nýrri skólabyggingu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Skólar eru kjarni samfélagsins og í kringum þá er fjölbreytt og síbreytilegt mannlíf.
Mosfellsbær leggur áherslu á að hlúa vel að skólastarfi og að hér þrífist framsækið og jákvætt námsumhverfi fyrir börn og starfsfólk. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu í Helgafellshverfi að hafin sé framkvæmd leik- og grunnskóla á svæðinu.“

Skálinn í Álafosskvos vígður

skalinn2

Í lok sumars festi skátafélagið Mosverjar kaup á húsi að Álafossvegi 18 í Mosfellsbæ með stuðningi Mosfellsbæjar. Húsið er staðsett í Álafosskvosinni, á frábærum stað fyrir skátastarf.
Með aðstoð og stuðning frá skátum, foreldrum, sjálfboðaliðum og öðrum velunnurum er húsið orðið að heimili, Skátaheimili.

Skátaheimilið fær nafnið Skálinn
Skátaheimilið hefur fengið nafnið Skálinn og fór vígsla fram fimmtudaginn 15. desember. Á annað hundrað manns mættu til að fagna með skátunum og bárust félaginu þónokkrar gjafir í tilefni tímamótanna.
Mosverjar vilja koma á framfæri þakkláti til allra þeirra sem hafa aðstoðað við að gera húsið að heimili.

skalinn3