Hugsar um tónlist alla daga

jogvan_mosfellingur

Jógvan Hansen tónlistarmaður segir það forréttindi að starfa við það sem honum þykir skemmtilegast að gera.

Færeyingurinn Jógvan Hansen vann íslensku X-Factor söngvakeppnina árið 2007. Markmið keppninnar var að laða fram í sviðsljósið hæfileikaríkt söngfólk sem unnið gat hug og hjörtu þjóðarinnar með söng sínum og persónutöfrum. Það gerði Jógvan svo sannarlega enda hefur hann verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar síðan.
Jógvan er fæddur í Klaksvík í Færeyjum 28. desember 1978. Foreldrar hans eru Ása Hansen og Helgi Hansen. Jógvan á eina systur, Guri Mörköre.

Fór alltaf með aukaföt að heiman
„Ég lék mér mikið við Levi frænda minn í Klaksvík en hann er árinu eldri en ég. Við þvældumst í klettunum og eltumst við kindur. Ég man enn í dag hvað ég var svekktur þegar hann byrjaði í skóla því þá missti ég besta leikfélagann.
Hjá afa í Klaksvík lærði maður að vinna, ég slátraði rollunum, rúði og meira til. Ég dvaldi líka mikið í Árnafirði sem er ekki langt frá Klaksvík en þar búa um 70 manns. Amma mín og afi í föðurætt bjuggu þar og voru með búskap. Ég gat dundað mér endalaust úti í náttúrunni við að veiða krabba eða fiska á bryggjunni.
Ég fór alltaf með aukaföt með mér að heiman því það klikkaði eiginlega ekki að ég varð alltaf rennblautur.“

Frændi var mikill áhrifavaldur
„Ég var lengi í skátunum og við vorum dugleg að fara í útilegur um helgar.
Ég gekk í Viðósánna skóla frá sex til fimmtán ára aldurs og mér fannst alltaf gaman í skólanum. Þegar ég var 9 ára þá byrjaði ég að læra á fiðlu og lærði á hana í mörg ár. Málið var að frændi minn, Hans Hjalti, spilaði í hljómsveit og þeir spiluðu mikið af írskum lögum og hann leyfði mér stundum að spila með.
Ég leit mikið upp til hans og eflaust er það honum að þakka að ég lærði á fiðlu öll þessi ár,“ segir Jógvan brosandi. „Ég byrjaði síðan að spila með Færeysku sinfóníuhljómsveitinni þegar ég var 13 ára og var yngsti meðlimur sveitarinnar.
Ég eignaðist líka gítar og glamraði á hann en mér fannst það ekki eins gaman, mér fannst miklu skemmtilegra að syngja.“

Var of ungur til að muna eftir Bítlunum
„Þegar ég var fimmtán ára þá var ég að leika í áhugamannaleikhúsi ásamt frænku minni. Einn daginn tók ég gítarinn með og söng fyrir hana lagið „Leaving on a Jet Plane.“
Það voru hljómsveitagaurar í næsta herbergi sem heyrðu til mín. Þeir tjáðu mér að þá vantaði söngvara í hljómsveitina þeirra sem hét Aria og hvort ég væri til í að prófa. Ég sló til og mætti á æfingu hjá þeim. Þeir spurðu mig hvort ég gæti sungið Bítlana en ég var svo ungur að ég vissi ekki hverjir þeir voru en allt hafðist þetta nú. Ég spilaði síðan með þeim á böllum og ég man að ég þurfti sérstakt leyfi til að fá að vera inni á stöðunum vegna aldurs.
Þegar ég var 16 ára söng ég í fyrsta sinn í stúdíói á vegum hljómsveitarinnar. Þar tókum við upp lag sem síðar varð vinsælasta lagið í Færeyjum.“

Flutti til Íslands árið 2004
„Ég fór í verslunarskóla í eitt ár, vann í fiski, fór á sjóinn og fór til Danmerkur í tónlistarnám. Ég fór svo aftur til Færeyja og fór að læra hárgreiðslu og útskrifaðist úr því fagi.
Einn daginn árið 2004 kom Elísabet vinkona mín til mín og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að koma með henni að læra förðunarfræði á Íslandi. Ég hafði mikinn áhuga á því og við fórum saman til Íslands og bjuggum á Færeyska sjómannaheimilinu. Elísabet var ófrísk á þessum tíma og vildi ekki vera mjög lengi í burtu þannig að hún fór aftur til Færeyja en ég varð eftir á Íslandi og hef verið hér síðan. Ég fékk starf á hárgreiðslustofu og leist bara vel á framtíðina hér.“

Vann X-Factor söngvakeppnina
„Árið 2006 söng ég í brúðkaupi hjá vinkonu minni. Eftir brúðkaupið skráðu hún og vinkona hennar mig í X-Factor söngvakeppnina sem átti að byrja um haustið.
Ég hafði ekki hugmynd um eitt eða neitt en fékk síðan tölvupóst um hvar ég ætti að mæta. Ég var nú ekki á því að fara fyrst en lét tilleiðast og vann keppnina. Þetta var mikið ævintýri.“

Skerpukjöt og hákarl í veislunni
Sama ár og Jógvan tók þátt í söngvakeppninni kynntist hann Hrafnhildi Jóhannesdóttur stærðfræðingi. Þau gengu í hjónaband í Hallgrímskirkju árið 2014 og veislan fór fram á Hilton hótelinu þar sem gestum var meðal annars boðið að smakka skerpukjöt frá Færeyjum og hákarl frá Íslandi. Þau eiga tvö börn, Jóhannes Ara fimm ára og Ásu Maríu þriggja ára.
„Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ árið 2010 og hér finnst okkur frábært að vera. Hrafnhildur er alin hér upp svo hún þekkir hér hvern krók og kima. Ég er mikill sveitastrákur og útsýnið hér heiman frá okkur er bara mjög svipað því sem ég hafði í Færeyjum svo þetta er bara frábært.“

Skemmtilegast að sjá viðbrögð fólks í salnum
Ég spyr Jógvan út í sönginn en hann hætti í hárgreiðslunni árið 2008 og hefur starfað eingöngu við söng síðan. „Það eru algjör forréttindi að starfa við það sem manni finnst skemmtilegast að gera.
Það hefur alltaf verið þannig með mig að það er sama hvaða starf ég hef tekið að mér, ég hugsa alla daga til tónlistar. Hún er alltaf efst í huga mér og ég er glaður þegar ég fæ að taka þátt í tónlist í hvað formi sem er. Skemmtilegast við sönginn er að sjá viðbrögð fólks í salnum. Það er ekki hægt að útskýra það, það þarf að upplifa það.
Ég er óendanlega þakklátur Íslendingum fyrir hvað þeir hafa tekið mér vel.“

Græna herbergið
„Við Friðrik Ómar Hjörleifsson opnuðum saman skemmtistaðinn Græna herbergið í fyrra. Við höfðum gengið með þessa hugmynd lengi því okkur langaði að opna stað sem einblínir á tónlist út í eitt.
Við lögðum upp með að geta boðið tónlistar- og listafólki upp á vandaðan aðbúnað til að koma fram. Við erum með allan helsta búnað á staðnum sem eykur þægindi listamanna.
Við störfum báðir á staðnum en erum einnig að syngja út um allt land. Þetta er auðvitað mikil vinna en hún er endalaust skemmtileg og henni fylgir mikil gleði. Er það ekki einmitt það sem lífið snýst um?“ segir Jógvan að lokum.

Mosfellingurinn 22. ágúst 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs