Gefur út heilsudagbók

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir hefur gefið út dagbók sem hún nefnir Heilsudagbókin mín. Í vor hlaut Anna Ólöf þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellbæjar fyrir það verkefni.
„Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í langan tíma og var búin að gera margar útfærslur af bókinni áður en endanleg útkoma varð til. Heilsudagbókin er heildræn nálgun á bættar lífsvenjur, þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og ekki síst huglæga eða andlega vinnu,“ segir Anna Ólöf en heilsudagbókin er 6 vikna ódagsett dagbók.

Hlaut þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar
„Það skipti mig miklu máli að hljóta þessa viðurkenningu, þá aðallega að fá jákvæð viðbrögð á bókina. Ég hannaði bókina í rauninni sem verkfæri fyrir mig til að öðlast betri heilsu og þannig aukin lífsgæði. Það er því ánægjuleg viðbót ef bókin getur hjálpa öðrum.
Bókin er einföld í notkun og hentar í raun öllum sem langar að bæta líf sitt. Lögð er áhersla á að fólk fari aðeins inn á við og finni hvað það er sem það vill fá út úr lífinu og hvað það er sem raunverulega veitir meiri hamingju.“

Frábærar viðtökur
„Ég ákvað til að byrja með að selja bókina í gegnum Facebook-síðuna Heilsudagbókin mín, en svo stefni ég á koma henni í sölu á einhverjum útsölustöðum. Bókin kostar kr. 2.900 en verður á kynningartilboði til 15. september á aðeins 2.500 kr.
Ég er eiginlega orðlaus yfir viðtökunum sem bókin hefur fengið. Ef einhverjir hafa áhuga á að vita meira eða jafnvel verða sér út um Heilsudagbók þá endilega hafið samband við mig,“ segir Anna Ólöf að lokum.