Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Fyrsti áfangi lýsingar á Tungubakkahringnum vígður

Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Jón Geir Sigurbjörnsson, formaður Hestamannafélagsins Harðar, og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs klipptu á borða á miðvikudaginn í síðustu viku og vígðu þar með fyrsta áfanga lýsingar á Tungubakkahringnum svonefnda.

Mikið öryggismál og lyftistöng fyrir alla
„Það er gleðilegt að fyrsti áfangi af lýsingu Flugvallarhringsins eða Tungubakkareiðleiðar er klár,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
„Í fjárhagsáætlun 2025 settum við 25 milljónir króna í 2. áfanga í lýsingu á þessum sama hring og það er ánægjulegt að segja frá því að það verður strax farið í hönnun en verkið kemur til framkvæmda í sumar og er áætlað að því ljúki um haustið.
Svona lýsing er mikið öryggismál fyrir hestamenn og einnig mikil lyftistöng fyrir alla sem stunda hestamennsku því þá er hægt að fara í reiðtúr eða hreyfa hestana sína á hvaða tíma sem er í skammdeginu. Til hamingju!“

Lýsing á reiðleiðum í forgangi
„Reiðvegirnir eru íþróttamannvirki okkar hestamanna,“ segir Jón Geir Sigurbjörnsson formaður hestamannfélagsins Harðar.
„Hestamennskan er stunduð allt árið um kring og lýsing á okkar helstu reiðleiðum hefur verið í forgangi hjá okkur um árabil. Bæði til að auka nýtingu og ekki síst til að auka öryggi iðkenda okkar.
Við fögnum því þessum fyrsta áfanga í lýsingu á Tungubakkahringnum og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar.“
Með þeim Jóni Geir og Höllu Karen á myndinni er hryssan Fluga en hún ásamt vel völdum félögum úr Herði hleyptu á skeið undir ljósunum í fallegu vetrarveðri.

Ný byggð, nýjar áherslur

1. áfangi Blikastaðahverfis

Um miðjan janúar var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um vinnslutillögu vegna deiliskipulags 1. áfanga í Blikastaðahverfi. Þetta er annar opni fundurinn um uppbyggingaráform í Blikastaðalandi en auk þess voru fyrstu gögn deiliskipulagsáforma, skipulagslýsingin, kynnt í lok ársins 2023.
Jóhanna Helgadóttir, arkitekt hjá Nordic arkitektum, kynnti tillöguna ásamt drögum að umhverfismati og Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, fór yfir samgöngur Blikastaðalandsins, ásamt áhrifum bættra almenningssamgangna og tilkomu fyrirhugaðrar Sundabrautar. Valdimar Birgisson formaður skipulagnefndar var fundarstjóri.
Á fundinum var einnig kynnt áþreifanlegt módel af tillögunni sem gestir gátu rýnt frá öllum sjónarhornum.
Það voru líflegar umræður í kjölfar erindanna og margar spurningar sem brunnu á fundargestum.
Við ræddum við Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar í kjölfar íbúafundarins.

Hvernig á að koma öllum þessum íbúafjölda fyrir í þeim skólum og leikskólum sem eru í bænum í dag og annarri þjónustustarfsemi?
Vorið 2022 var gerður uppbyggingarsamningur um Blikastaði en svæðið er eitt stærsta óbyggða land innan höfuðborgarsvæðisins eða um 90 hektarar að stærð. Samningurinn tók til alls uppbyggingarsvæðisins, en gert er ráð fyrir 3.500 íbúðum í heildina og um 9 þúsund íbúum. Núna er hins vegar verið að kynna skipulag vegna fyrsta áfangans sem er um 1.270 íbúðir og áætlaður íbúafjöldi um 3.500 manns.
Gert er ráð fyrir því að Blikastaðaland byggist upp á 15-20 árum og er því fjölgunin í takt við það sem hún hefur verið í bænum síðastliðin 20 ár. Forsenda íbúðauppbyggingarinnar er að þarna verði a.m.k. einn grunnskóli í fyrsta áfanganum og tveir leikskólar.
Þá verður hugað að verslun og þjónustustarfsemi í kringum Blikastaðabæinn og þar sem Borgarlínan kemur. Enn fremur erum við að skoða þörf á velferðarþjónustu á svæðinu og íþróttamannvirkjum.

Gamli Blikastaðabærinn mun öðlast nýtt hlutverk.

Mun Borgarlínan ekki frestast eins og aðrar framkvæmdir í tengslum við Samgöngusáttmálann?
Borgarlínan á að koma á þetta svæði í kringum 2033. Tímaáætlanir um Borgarlínu til Mosfellsbæjar standa óbreyttar þótt samgöngusáttmálinn hafi verið lengdur til 2040. Það sem kallast lota 6 hefur verið færð framar í forgangsröðun.

Hvernig verður með umferðina til og frá hverfinu?
Það er mat þeirra sérfræðinga sem hafa gert umferðarmælingar að í fyrsta áfanga byggðarinnar verði hægt að nýta Baugshlíðina. Við höfum hins vegar óskað eftir að Vegagerðin komi að útfærslu á aðkomu að svæðinu og við bindum líka miklar vonir við Sundabrautina, að hún minnki álag á umferðinni um Vesturlandsveg í framtíðinni. Þá mun Borgarlínan breyta miklu í samgöngumálum hverfisins og þeim umferðarhnútum sem Mosfellingar upplifa, s.s. í Ártúnsbrekkunni og víða.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. 

Hvernig verður byggðin hvað þéttleika varðar? Mun ásýnd Mosfellsbæjar breytast?
Samkvæmt tillögunum þá verður þéttast byggt í kringum Blikastaðabæinn þar sem Borgarlínan á að koma og húsin eru hæst næst Vesturlandsveginum. Byggingarsvæðið er mun lægra en Vesturlandsvegurinn og það hefur áhrif á ásýndina.
Stærstur hluti svæðisins mun skarta húsum á 2-3 hæðum í anda sveitarfélagsins. Það verður mikið lagt upp úr grænum svæðum og að ásýnd hverfisins verði sem mest í tengslum við náttúruna. Það er oft talað um þéttingu byggðar í þessu samhengi en þarna er um óbyggt svæði að ræða þannig að hugtakið þétting byggðar á ekki við í þessu tilviki. Þétting er þegar nýjum byggingum er komið fyrir í grónum hverfum.
Einnig hefur Helgafellshverfið verið nefnt til samanburðar en á það ber að líta að það hverfi er allt öðruvísi byggt upp, með þéttleika á milli fjölbýlishúsa og mörgum stórum einbýlishúsalóðum á meðan þetta hverfi mun einkennast af litlum fjölbýlishúsum og smærri sérbýlum.
Við mótun byggðarinnar hefur verið tekið mið af skuggavarpi og sólarstundum, eins og kynningargögnin sýna. Byggðin er almennt höfð lágreist en húskroppar í nokkru návígi hver við annan til þess að brjóta upp vind og skapa æskileg vindþægindi þar sem dvalarsvæðin eru hugsuð. Þessir þættir náttúrunnar, sól og vindur, í bland við landfræðilegar aðstæður og gæði, hafa haft verulega mótandi áhrif á það hvernig húsin standa og snúa.

Er það rétt að þarna verði tæpt bílastæði á hverja íbúð?
Í þessari vinnslutillögu er ekki búið að hanna húsin og eyrnamerkja hverri íbúð fjölda bílastæða. Meðaltöl sýna okkur að bílastæðin eru mismunandi eftir íbúðum. Hönnun í rammahluta aðalskipulags gerði ráð fyrir 1,8 bílastæðum á íbúð í landi Blikastaða.
Hvað verður um gamla Blikastaða­bæinn?
Samkvæmt áætlunum um uppbyggingu Borgarlínu er gert ráð fyrir að hún liggi um Blikastaðaland með stoppi við Blikastaðabæinn. Bærinn mun öðlast nýtt hlutverk verslunar og þjónustu á miðsvæði byggðarinnar. Það er einmitt verið að kalla eftir hugmyndum að nýtingu bæjarins um þessar mundir og er Halldór Halldórsson eða Dóri DNA að vinna með eigendum Blikastaðalands að hugmyndavinnunni.

Hvernig hefur undirbúningurinn að verkefninu verið?
Greiningar, undirbúningur og tillögugerð hafa staðið yfir allt frá árinu 2018. Fjöldi fagaðila hefur komið að vinnu verkefnisins, þar á meðal Alta ráðgjöf, COWI verkfræðistofa, Nordic arkitektar, Efla þekkingarfyrirtæki og landslagsarkitektastofa SLA í Kaupmannahöfn.

Hvernig verður ferlið fram undan?
Núna er verið að leggja fram vinnslutillögu að áfanga 1 í skipulaginu. Það er hægt að senda umsagnir í skipulagsgáttina á mos.is til 10. febrúar og eru íbúar og aðrir áhugasamir hvattir til að senda inn ábendingar. Það verður unnið úr þeim og deiliskipulagið mótað og kynnt vonandi í haust. Þá verður aftur boðað til íbúafundar og opnað verður fyrir athugasemdir um deiliskipulagið á ný.
Í stjórnsýslunni er verið að vinna að viðaukum við uppbyggingarsamkomulagið frá árinu 2022 og enn fremur að áhættugreina fjárfestingargetu bæjarins með tilliti til íbúafjölgunar.
Það er mikilvægt að það sé áframhaldandi vöxtur í bæjarfélaginu, til að greiða fyrir þá innviði sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum en að sama skapi þá þurfum við að vanda okkur og stilla uppbyggingunni miðað við fjárfestingargetu okkar hverju sinni.

Verkfall á Höfðabergi

„Vonandi ná aðilar saman svo verkfalli ljúki sem fyrst,“ segir Tinna Rún Eiríksdóttir leikskólastjóri á Höfðabergi.
Verkfall er hafið í 14 leikskólum og 7 grunnskólum víða um land. Kennarar, ríki og sveitarfélög sátu á fundum hjá ríkissáttasemjara alla helgina en hafa ekki náð saman til þessa.
Leikskólakennarar á Höfðabergi, einum fjölmennasta leikskólanum í Mosfellsbæ, eru farnir í verkfall og það hefur áhrif á flestar deildir skólans en leikskólinn er níu deilda skóli og í sex deildum eru fagmenntaðir leikskólakennarar sem deildarstjórar.
Á Höfða­bergi eru börn á aldr­in­um 3-5 ára. Óbreytt starf­semi er á einni deild, tvær deild­ir eru opn­ar að hluta en sex deildir lokaðar.

Mikilvægur hópur í okkar barnmarga samfélagi
„Kennarar eru fjölmennur og mjög mikilvægur hópur í okkar barnmarga sveitarfélagi og það er til mikils að vinna að ná að bæta starfsumhverfi í grunn- og leikskólum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboðið fyrir hönd stjórnar sambandsins og það er mikilvægt að deilan verði leyst við það samningaborð og einstaka bæjarstjórar og sveitarstjórnir hafa almennt ekki tjáð sig opinberlega um deiluna.“

Áskorun til bæjaryfirvalda frá foreldraráðum
Bæjaryfirvöld hafa fengið áskorun frá foreldraráðum í leik- og grunnskólum bæjarins, um að beita sér fyrir því að samningar náist.
„Við skorum á að þau loforð sem gefin voru kennurum árið 2016 verði uppfyllt svo allir megi ganga sáttir frá borði. Við förum fram á að Mosfellsbær skorist ekki undan sinni ábyrgð og nýti atkvæðarétt sinn innan Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að berjast fyrir að komið verði til móts við kröfur kennara,“ segir í tilkynningunni.

Dagur og Danirnir

Ég hefði viljað sjá Dag vinna HM í handbolta með króatíska landsliðinu. Danmörk er frábært land, ég veit það eftir að hafa búið þar í sex ár. En það er bara ekkert skemmtilegt að sama liðið vinni alltaf. Ekki nema auðvitað fyrir Danina sjálfa. Dagur er mjög áhugaverður þjálfari sem hefur náð merkilegum árangri á sínum þjálfaraferli. Hann nær vel til leikmanna og nær öðrum fremur að skapa sterka liðsheild þar sem allir hafa hlutverk og allir skipta máli. Snorri Steinn landsliðsþjálfari Íslands getur lært margt af Degi, til dæmis að búa til þannig umhverfi að allir upplifi að þeim sé treyst og að þeir hafi mikilvægt hlutverk í liðinu. Of margir leikmenn okkar voru utan þess umhverfis á mótinu, fengu mjög fáar mínútur inni á vellinum og var kippt út af nánast við fyrstu mistök. Þetta er mitt mat, hafandi horft á leikina og líkamstjáningu leikmanna.

En, Danirnir, maður minn lifandi! Þetta er magnaður árangur, að vinna heimsmeistaratitil fjórum sinnum í röð. Þetta á ekki að vera hægt. Ég viðurkenni að ég veit ekki helstu ástæður þessa árangurs, en ætla að kafa ofan í þær og komast að þeim. Mig grunar að danska leiðin í samskiptum, að gefa öllum tækifæri á að segja sína skoðun, ræða innan hópsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu sé hluti af skýringunni – það er ein leið til þess að skapa umhverfi þar sem öllum finnast þeir skipta máli. En þetta er enn bara tilgáta.

Hvernig er þetta í þínu umhverfi? Upplifir þú að þér sé treyst? Veistu þitt hlutverk? Treystir þú þínu fólki og gefur því svigrúm til að vaxa og dafna sem einstaklingar og um leið sem liðsheild? Við erum öll á einhvern hátt hluti af teymi. Sama hver staða okkar er í teyminu, þá getum við haft jákvæð áhrif á það.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. febrúar 2025

 

Íþróttafólk Mosfellsbæjar heiðrað

Skarphéðinn Hjaltason og Erna Sóley Gunnarsdóttir.

Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 var heiðrað í Hlégarði þann 9. janúar.
Frjálsíþrótta­kon­an Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir er íþrótta­kona Mos­fells­bæj­ar og júdókapp­inn Skarp­héðinn Hjalta­son er íþrót­ta­karl bæj­ar­ins árið 2024.
Við sama til­efni var karlalið Aft­ur­eld­ing­ar í knatt­spyrnu valið af­rekslið Mos­fells­bæj­ar, Magnús Már Ein­ars­son þjálf­ari liðsins val­inn þjálf­ari árs­ins og móðir hans Hanna Sím­on­ar­dótt­ir val­in sjálf­boðaliði árs­ins.

Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir kúlu­varp­ari
Árið 2024 varð Erna Sól­ey fyrsta ís­lenska kon­an til að keppa í kúlu­varpi á Ólymp­íu­leik­um, þegar hún tók þátt í leik­un­um í Par­ís. Þar kastaði hún lengst 17,39 metra og endaði í 20. sæti af 31 kepp­anda.
Erna Sól­ey setti Íslands­met í kúlu­varpi kvenna sum­arið 2024 þegar hún kastaði 17,91 metra. Erna á einnig Íslands­metið í kúlu­varpi inn­an­húss. Það setti hún þegar hún kastaði 17,92 metra í fe­brú­ar 2023.
Erna var í des­em­ber val­in frjálsíþrótta­kona árs­ins 2024 af Frjálsíþrótta­sam­bandi Íslands.
Erna hef­ur lýst yfir metnaði sín­um til að vera meðal þeirra bestu í heim­in­um og stefn­ir á að keppa á Ólymp­íu­leik­un­um í Los Ang­eles árið 2028.

Skarp­héðinn Hjalta­son jú­dómaður
Skarp­héðinn hóf að æfa júdó hjá Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur ell­efu ára gam­all og er nú, níu árum síðar, orðinn einn besti og öfl­ug­asti jú­dómaður lands­ins. Hann náði mjög góðum ár­angri á ár­inu, varð Íslands­meist­ari bæði í -90 kg flokki karla og opn­um flokki karla.
Skarp­héðinn fékk silf­ur­verðlaun á Norður­landa­meist­ara­mót­inu í Svíþjóð, bæði í karla­flokki og í U-21 árs flokki karla, og á alþjóðlegu móti í Dan­mörku, Copen­hagen Open, vann hann einnig til silf­ur­verðlauna.
Skarp­héðinn var val­inn jú­dómaður árs­ins 2024 af Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur. Hann er þekkt­ur fyr­ir mikla vinnu­semi og metnað, sem hef­ur skilað sér í stöðugum fram­förum.

Magnús Már þjálfari ársins
Magnús tók við sem aðalþjálf­ari meistaraflokks karla í knattspyrnu í nóv­em­ber 2019, eft­ir að hafa verið aðstoðarþjálf­ari tvö ár þar á und­an.
Und­ir hans stjórn hef­ur Aft­ur­eld­ing bætt sig ár frá ári og náði í sept­em­ber síðastliðnum sögu­leg­um ár­angri þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn í sögu fé­lags­ins sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla

Af­rekslið Mos­fells­bæj­ar
Meist­ara­flokk­ur karla í knatt­spyrnu hjá Aftureldingu. Liðið braut blað í sögu fé­lags­ins með því að tryggja sér sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla í fyrsta skipti í sögu þess.
Aft­ur­eld­ing sigraði Kefla­vík í úr­slita­leik um­spils­ins í sept­em­ber og tryggði sér þar með sæti í Bestu deild­inni fyr­ir árið 2025.
Árang­ur liðsins hef­ur haft já­kvæð áhrif á íþrótta­líf Mos­fells­bæj­ar og hef­ur hvatt bæði ungt fólk og aðra íbúa bæj­ar­ins til að taka þátt í íþrótt­um og styðja við knatt­spyrnuliðið.

Hanna Sím­ sjálf­boðaliði árs­ins
Hanna er mjög mik­il­væg­ur hlekk­ur í því frá­bæra starfi sem unnið er inn­an knatt­spyrnu­deild­arinnar. Deild­in og fé­lagið allt á henni mikið að þakka en hún hefur verið öt­ull sjálf­boðaliði inn­an Ung­menna­fé­lags­ins Aft­ur­eld­ing­ar í næst­um þrjá ára­tugi.
Hanna hef­ur af mik­illi þraut­seigju stjórnað Li­verpool-skól­an­um sem hald­inn er á sumr­in þar sem fleiri en 400 krakk­ar af land­inu öllu koma og æfa und­ir hand­leiðslu þjálf­ara frá Li­verpool.
Hanna á stór­an þátt í sögu­leg­um ár­angri meist­ara­flokks karla í sum­ar með frum­kvæði sínu og elju­semi.

Þetta er ótrúlega gaman og gefandi

Þorrablót á uppruna sinn að rekja til 19. aldar, íslensk veisla með þjóðlegum mat, drykkjum og siðum. Mosfellingar láta ekki sitt eftir liggja í þeim efnum en þorrablót Aftureldingar er orðinn fastur liður hjá mörgum bæjarbúum í janúar. Óhætt er að segja að blótið sé einn stærsti viðburður sem fram fer innandyra í Mosfellsbæ ár hvert en það var endurvakið í núverandi mynd árið 2008.
Ása Dagný Gunnarsdóttir forseti þorrablótsnefndar segir undirbúning blótsins ganga vel og það stefni í metþátttöku í ár.

Ása Dagný fæddist í Reykjavík 13. janúar 1975. Foreldrar hennar eru Kolbrún Jónsdóttir verkakona og Gunnar Guðmundsson raftæknir en þau eru bæði látin.
Hálfbróðir Ásu Dagnýjar, samfeðra, er Steinn Gunnarsson f. 1970, kennari.

Erfiður tími í okkar lífi
„Ég bjó í Breiðholti fyrstu fimm ár ævi minnar en árið 1980 fluttum við fjölskyldan í Mosfellssveit en við bjuggum í Garði við Álafossveginn. Það var gott að alast hér upp, umhverfið frjálslegt, fullt af krökkum í hverfinu og alltaf nóg um að vera.
Þegar ég var 12 ára þá breyttist líf mitt í einni svipan, þá lést faðir minn ásamt þremur öðrum í flugslysi á Blönduósi. Við tók mjög erfiður tími í lífi okkar mömmu og hagir okkar breyttust í kjölfarið.“

Spiluðum fótbolta út í eitt
„Ég gekk í Varmárskóla og leið almennt vel í skólanum, var í sama bekknum upp í 12 ára bekk en þá færðumst við yfir í Gaggó Mos og þá var okkur skipt upp í nýja bekki. Við spiluðum fótbolta í frímínútum út í eitt sem okkur fannst ekki leiðinlegt.
Á sumrin lék maður sér á leikja- og fótboltanámskeiðum og á unglingsárunum vann maður víða á sumrin og með námi m.a. í unglinga- og bæjarvinnunni, Álafossi, sjoppum og veitingastöðum og í fiskbúð. Ég var líka leiðbeinandi á leikjanámskeiðum.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á íþróttabraut og útskrifaðist 1995. Þaðan fór ég svo í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og fór svo í sjúkraþjálfun við HÍ og lauk námi þaðan 2004. Ég tók einnig námskeið hjá KSÍ til UEFA-B gráðu í þjálfun.“

Erum dugleg að hreyfa okkur
Eiginmaður Ásu Dagnýjar er Jón Smári Pétursson rafvirki, þau giftu sig árið 2006. Þau eiga þrjá syni, Gunnar Smára f. 2005, Arnar Dag f. 2007 og Steinar Kára f. 2010. „Við fjölskyldan erum dugleg að hreyfa okkur, förum á skíði og spilum golf. Synir okkar eru allir í íþróttum og við Jón erum dugleg að fylgja þeim eftir á knattspyrnumótum og í öðrum keppnum.
Ég spila blak í dag en var í fótbolta, handbolta og badminton sem barn og unglingur. Ég var íþróttastelpa fram í tær og fingurgóma,“ segir Ása og brosir. „Ég spilaði fótbolta til 25 ára aldurs og fór svo aftur að spila um fertugt með Hvíta Riddaranum. Ég var líka knattspyrnuþjálfari hjá Fram á árunum 1996-2001.
Ég flækist stundum með hlaupahópnum Morgunfuglunum og svo fer ég reglulega á Úlfarsfellið og í aðrar göngur. Að öðru leyti finnst mér gott að vera í rólegheitunum heima þegar tækifæri gefst.“

Starfsemin svipuð og áður
Eftir að Ása Dagný útskrifaðist sem sjúkraþjálfari hóf hún störf á Reykjalundi. Hún var þá ófrísk að elsta syninum en eftir fæðingarorlof færði hún sig yfir á Landspíta­lann. Þar starfaði hún í tólf ár, á hjarta- og lungnaskurðdeild og krabbameinsdeildunum.
„Árið 2016 starfaði ég samhliða á Heilsuborg og Landspítalanum en færði mig svo alfarið yfir á Heilsuborg 2018. Fyrirtækið varð gjaldþrota korter í Covid en tveir af samstarfsmönnum mínum stofnuðu þá Sjúkraþjálfunina Stíganda og héldu úti svipaðri starfsemi og áður. Okkur hefur þó fjölgað töluvert en við erum 20 starfsmenn í dag.
Við erum með frábæra aðstöðu, tækjasal og möguleika á hópþjálfun. Ég hef oft sagt að ég sé ofanþindar sjúkraþjálfari því ég hef mikinn áhuga á hjarta- og lungnaþjálfun en er líka töluvert að vinna með kjálka-, axla- og hálsvandamál.“

Horfir til betri vegar
Ása Dagný er öllum hnútum kunnug hjá Aftureldingu bæði sem iðkandi og sjálfboðaliði, hún var í barna- og unglingaráði hjá knattspyrnudeildinni í sjö ár og þar af þrjú ár sem formaður. Hún var útnefnd vinnuþjarkur Aftureldingar 2018 á uppskeruhátíð félagsins.
„Iðkendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár með tilheyrandi áskorunum en helsta vandamálið er æfingaaðstaðan en hún batnaði samt mikið þegar Fellið var tekið í notkun. En það horfir til betri vegar þegar gervigras verður sett á gamla aðalvöllinn og sennilega verður sú aðstaða fullnýtt um leið og hún verður tekin í notkun.“

Stefnir í stærsta blót frá upphafi
Ása Dagný kom inn í þorrablótsnefnd Aftureldingar árið 2016 og tók við sem forseti nefndarinnar 2023. Hún segir að í ár stefni í stærsta blót frá upphafi.
„Það hefur verið ótrúlega gaman og gefandi að starfa í þessari nefnd undanfarin ár. Undirbúningur fyrir svona blót hefst nánast um leið og blóti lýkur ár hvert en fer svo á fullt frá september og fram í janúar. Það er svo margt sem þarf að huga að eins og að bóka aðstöðuna, panta listamenn, hljóðmenn, borðbúnað og fleira til.
Þorrablótið er orðið fastur liður hjá Mosfellingum í janúar, þarna hittir maður gamla kunningja og skólafélaga, foreldra iðkenda í barna- og unglingastarfinu og svo er nýjum Mosfellingum á blótinu alltaf að fjölga.
Þar sem blótið fór stækkandi með ári hverju þá ákváðum við 2023 að nýta allan salinn í íþróttahúsinu að Varmá. Blótið okkar hefur það umfram önnur blót að við bjóðum gestum að mæta í hádeginu á blótsdegi og skreyta borð sín. Þar byrjar stemningin og eftirvæntingin, margir búnir að vera að undirbúa skreytingar í langan tíma og metnaðurinn er svakalega mikill,“ segir Ása og brosir.

Bjóðum alla velkomna
„Það hafa skapast hefðir hjá okkur, hópar mæta saman og margir hafa komið ár eftir ár. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að tilheyra einhverjum hópi til að geta mætt, við bjóðum alla Mosfellinga sem og aðra velkomna.
Það er algjörlega ólýsanleg tilfinning að horfa yfir salinn þegar allir eru búnir að skreyta og allt er að smella, þá er undirbúningi þorrablótsnefndar lokið og stutt í að gleðin taki völd,“ segir Ása Dagný með bros á vör er við kveðjumst.

23 nemendur brautskráðir frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram föstudaginn 20. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt.
Að þessu sinni voru 23 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir þrír nemendur og þrír af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði voru brautskráðir 15 nemendur og af hestakjörsviði tveir.
Í ræðu Valgarðs Más Jakobssonar skólameistara kom fram að áhersla á farsæld í kjölfar innleiðingar farsældarlaga hafi verið mjög ofarlega á baugi undanfarið í FMOS. Hópur kennara við skólann hefur einnig sérmenntað sig í mannkostamennt (Character Education) þar sem áherslan er lögð á að efla dygðir eins og forvitni, seiglu, kurteisi og hugrekki og áfram eru áherslur FMOS í kennsluháttum að vekja töluverða athygli erlendis fyrir að vera í fararbroddi og framúrskarandi.
Í vetur var stofnuð ný braut fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og hófu 16 nemendur nám á brautinni í haust og annar eins hópur byrjar nú um áramót. Einnig var stofnuð ný sérnámsbraut fyrir fatlaða einstaklinga með mikla þjónustuþörf sem kallað hefur á töluverðar breytingar á húsnæði.
Að lokum þakkaði skólameistari stúdentum fyrir samstarfið og óskaði þeim hamingju og velfarnaðar í framtíðinni.

Fyrsti Mosfellingur ársins kom í heiminn á nýársnótt

Snorri, Jakob Hrannar, Jóna Magnea og Þorlákur Hrannar.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2025 er drengur sem fæddist á Landspítalanum kl. 03:25 þann 1. janúar og mældist 3.690 gr og 53 cm.
Foreldrar hans eru þau Jóna Magnea Magnúsdóttir Hansen og Snorri Pálsson, fyrir eiga þau soninn Jakob Hrannar sem er 9 ára. Litli drengurinn hefur fengið nafnið Þorlákur Hrannar en skírn hans mun fara fram í apríl.
„Þau ákváðu Þorlákur en ég ákvað Hrannar,“ segir Jakob Hrannar stoltur stóri bróðir.
Jóna Magnea er uppalinn Mosfellingur og segist hafa spurt Snorra á þeirra öðru stefnumóti hvernig honum líkaði Mosó því hún myndi aldrei flytja héðan en Snorri er úr Garðabænum. Þau segja að á bak við Þorlák Hrannar sé mikil og falleg saga sem nær sex ár aftur í tímann.
„Þegar Jakob Hrannar var um 3 ára fór hann að biðja um systkini, við byrjuð að reyna að eignast barn sem gekk ekki vel og á einu og hálfu ári misstum við þrisvar sem var mjög erfitt. Við héldum áfram að reyna árangurslaust í rúm tvö ár.“

Líkurnar meiri erlendis
„Við fórum svo í eina meðferð hjá Livio hér heima en svo var okkur bent á að líkurnar væru meiri erlendis bæði í Alicante og í Grikklandi. Við fengum stuðning og styrk frá fjölskyldunni til að fara til Alicante í frjósemismeðferð. Litla kraftaverkið okkar kom í fyrstu tilraun og erum við mjög þakklát fyrir þetta allt saman,“ segir Jóna Magnea.
„Hann átti að koma í heiminn 29. desember, en ákvað að koma á nýju ári. Það var mjög gaman að keyra niður á Landspítala í allri flugeldadýrðinni. Þegar við komum á fæðingardeildina var Jóna Magnea komin með 8 í útvíkkun og hafði misst vatnið áður en hún komst upp á skoðunarbekkinn.
Fæðingin var strembin en hann dafnar vel og er alveg dásamlegur,“ segir Snorri. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með Þorlák Hrannar.

Magnús Már valinn Mosfellingur ársins

Mosfellingur ársins 2024 er Magnús Már Einarsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu. Maggi, eins og hann er alltaf kallaður, afrekaði það á síðasta tímabili að koma liði sínu í efstu deild.
Þetta er í fysta skipti sem karlalið Aftureldingar spilar í deild þeirra bestu en síðasta haust átti knattspyrnudeildin 50 ára afmæli. „Ég er mjög þakklátur og snortinn að fá þessi verðlaun frá besta blaði í heimi. Fyrir mig persónulega eru þetta skemmtilegustu verðlaun sem ég hef fengið á ævinni. Hilmar ritstjóri hefði sjálfur átt skilið að fá verðlaunin fyrir magnað starf í bænum og ég vona að hann fái slíka viðurkenningu einn daginn,“ segir Maggi en hann er kvæntur Önnu Guðrúnu Ingadóttur, þau eiga von á sínu þriðja barni en fyrir eiga þau synina Einar Inga og Blæ.

Viðurkenning okkar allra
„Mér finnst þessi verðlaun vera fyrir alla sem hafa hjálpað Aftureldingu að komast upp í efstu deild. Leikmannahópurinn hefur lagt mikla vinnu á sig undanfarin ár og flestir leikmenn okkar eru uppaldir hjá Aftureldingu eða hafa verið mjög lengi hjá félaginu. Þjálfarateymið er frábært og má þar fyrstan nefna Enes Cogic aðstoðarþjálfara en hann hefur starfað með mér frá fyrsta degi og verið mér stoð og stytta.
Sjálfboðaliðarnir og stjórn meistaraflokksráðs, með Gísla formann í broddi fylkingar, eiga ótrúlega mikinn þátt í þessu líka sem og auðvitað stuðningsmenn og styrktaraðilar. Þá vil ég nýta tækifærið og þakka fjölskyldu minni fyrir stuðninginn og sérstaklega foreldrum mínum og Önnu Guðrúnu eiginkonu minni.“

Margt breyst síðan ég sat með hestunum
Maggi er uppalin Mosfellingur, hann byrjaði að æfa fótbolta með 6. flokki árið 1998 og spilaði upp alla yngri flokka í Aftureldingu og tók við sem aðalþjálfari liðsins 2019.
Það hefur verið draumur Magga frá barnæsku að sjá Aftureldingu spila í efstu deild. „Ég byrjaði að mæta á alla leiki hjá meistaraflokki 1999 og hef varla misst úr leik síðan. Ég byrjaði sem boltastrákur á Tungubökkum, sat þar fyrir aftan markið með hestunum. Svo mætti ég sem stuðningmaður, fljótlega tók ég að mér að útbúa leikskrár fyrir alla leiki, síðan varð ég leikmaður, aðstoðarþjálfari og nú þjálfari. Það hefur margt breyst síðan ég sat þarna á Tungubökkunum með hestunum, en þá var Afturelding í neðstu deild,“ segir Maggi en markmiðið var skýrt frá upphafi og það var að koma liðinu upp í efstu deild.

Viljum festa okkur í sessi í efstu deild
„Það verður mjög gaman að spila í Bestu deildinni í sumar. Efstu félögin eru nánast atvinnumannalið og við munum leggja allt í sölurnar til að standast þeim snúning með því að æfa vel og hafa umgjörðina góða.
Við höfum verið mjög heppin með styrktaraðila undanfarin ár og það er gaman að fleiri eru tilbúnir að koma í lið með okkur í þessu stóra verkefni til að við getum haldið áfram að vaxa innan sem utan vallar. Við viljum meira og næsta skref er að festa sig í sessi í Bestu deildinni því að mínu mati á Afturelding heima þar.“

Frábær stuðningur að Varmá
„Það er gríðarlega mikil spenna fyrir fyrsta leik tímabilsins gegn Breiðabliki þann 5. apríl, fyrsti heimleikurinn er svo gegn ÍBV á Malbikstöðinni að Varmá 13. apríl. Ég er viss um að við verðum með besta stuðninginn í sumar. Það er ótrúlega skemmtilegt að spila á Varmá fyrir framan okkar fólk og magnað að sjá hvað áhorfendafjöldinn hefur vaxið ár frá ári. Það er skemmtun fyrir alla fjölskylduna að mæta á völlinn. Sjáumst á vellinum,“ segir Maggi.

Tökum framtíðina í okkar hendur

Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Það er eitthvað heillandi við nýárssólina sem vermir okkur þessa fyrstu janúardaga og gefur fyrirheit um bjartari framtíð.
Aðventan og jólin að baki með jólaskreytingum sem lýsa upp umhverfið í myrkasta skammdeginu.

Desember er skemmtilegur tími í starfi bæjarstjóra, það er mikið um viðburði á vegum bæjarins, kirkjunnar, félagasamtaka og annarra sem er mjög gefandi og mikilvægt að taka þátt í. Hér voru margir markaðir haldnir, tónleikar, aðventukvöld og fleira sem gladdi hugann.
Sá árstími sem nú er runninn upp er hinsvegar tími fyrirheita og framkvæmda og eftir því sem sólin skín hærra á lofti; þeim mun hærra orkustig.
Bæjarstjórn samþykkti á árinu að ganga til samninga við Malbikstöðina og Íslenska gámafélagið um snjó­mokstur og viðmiðum var breytt í nýjum samningum með það að markmiði að bæta þjónustuna. Þá var ákveðið að leggja aukna áherslu á gönguleiðir sem bærinn sjálfur annast og bætt við nýju snjómoksturstæki fyrir þjónustustöðina. Það hefur svo sannarlega reynt á okkar fólk þessa síðustu daga í desember og þá fyrstu í janúar og bæði verktakar og starfsmenn bæjarins eiga hrós skilið fyrir góða vinnu.

Talandi um snjó þá eru það oft litlu verkefnin sem gleðja. Á árinu gerðum við samning við Icebike Adventure sem halda úti facebook síðunni Sporið um lagningu gönguskíðabrauta við Blikastaði og á Hafravatni. Þetta vakti mikla lukku og við höldum því áfram í vetur.
Annað gleðilegt verkefni sem var unnið með sömu aðilum var lagning fjallahjólabrautar í Ævintýragarðinum. Hjólabrautin sem er um eins kílómetra löng var mjög vinsæl í sumar og er skemmtileg viðbót við útivistarmöguleika í bænum. Þá var frísbígolfvöllurinn færður til og stækkaður og það er svo sannarlega hægt að mæla með heimsókn þangað.
Menningin hefur blómstrað sem aldrei fyrr á liðnu ári og þar hefur Hlégarður leikið stórt hlutverk og hver viðburðurinn rekið annan. Ég held að það ríki mikil sátt á meðal bæjarbúa um þá ákvörðun Mosfellsbæjar að taka yfir reksturinn, en á árinu var farið í breytingar innanhúss sem hafa skapað hlýlegri umgjörð og aukið notagildi hússins.
Annað sögufrægt hús í bænum, Brúarland, fékk einnig nýtt hlutverk á árinu, þegar félagsstarf aldraðra og FAMOS fluttu inn með sína starfsemi, en 1. og 2 . hæð hússins hafa verið endurgerðar. Félagsstarfið nýtur sín afar vel í fallega uppgerðu húsinu og það ríkir almenn ánægja á meðal eldri borgara með þessa ráðstöfun.
Húsin Hlégarður og Brúarland eru vissulega falleg og söguleg umgjörð utan um starfsemina, en hjartað í blómlegu starfi beggja húsanna er starfsfólk sem leggur líf og sál í verkefnið. Fyrir það ber að þakka. Sama má segja um okkar góða Bókasafn og listasal, þar hefur mjög fjölbreytt starfsemi verið á árinu.
Í haust fékk Listaskólinn í Mosfellsbæ nýjan flygil sem er staðsettur í Hlégarði en skólinn blómstrar sem fyrr undir forystu okkar góða skólastjóra og kennara. Barna­djasshátíðin í Mosfellsbæ var haldin í annað sinn í vor og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar hélt upp á 60 ára afmæli sitt með flottum tónleikum í Hlégarði.
Einn af eftirminnilegustu viðburðum ársins var útnefning heiðursborgara Mosfellsbæjar þar sem Birgir D. Sveinsson fyrrum skólastjóri Varmárskóla og stjórnandi skólahljómsveitarinnar í 40 ár var útnefndur við hátíðlega athöfn við Varmárlaug á þjóðhátíðardaginn. Skólahljómsveitin lék einmitt í fyrsta sinn opinberlega við vígslu laugarinnar þann 17. júní 1964.

Það má segja að árið 2024 hafi einnig verið viðburðaríkt þegar kemur að íþróttunum. Íþróttafólkið okkar hefur staðið sig afburðavel á árinu. Við fylgdumst gríðarlega stolt með ólympíufaranum okkar í kúluvarpi, Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, sem stóð sig afar vel og allt ætlaði um koll að keyra þegar meistaraflokkur karla í fótbolta fór upp í efstu deild. Meistaraflokkur kvenna í blaki vann deildarbikarinn og meistaraflokkur karla í handbolta fékk silfrið á Íslandsmótinu. Þá er íþróttafólkið okkar í einstaklingsgreinum að gera mjög góða hluti eins og tilnefningar ársins bera glöggt vitni um.
Í vor og sumar voru haldin fjögur stór íþróttamót í Mosfellsbæ. Íslandsmeistaramót í skák, öldungamót Blaksambands Íslands, Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum og alþjóðlegt golfmót eldri kylfinga.
En við erum víðar með öflugt sjálfboðastarf en í íþróttunum. Meðal annars í Leikfélagi Mosfellssveitar sem setti upp tvær metnaðarfullar sýningar á árinu, Línu langsokk og Yl. Þá er öflugt ungmennastarf hjá skátunum og björgunarsveitinni Kyndli. Svona félög eru hverju samfélagi ómetanleg og mörg ungmenni sem finna sína fjöl í slíkum félagsskap. Við sem samfélag misstum mikið þegar Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson formaður björgunarsveitarinnar Kyndils lést við æfingu í byrjun nóvember. Blessuð sé minning hans.

Mörg stór verkefni voru kláruð á árinu 2024 eins og gagngerar endurbætur á jarðhæð Kvíslarskóla og nýr búsetukjarni fyrir fatlaða einstaklinga í Úugötu var tilbúinn í lok árs. Þroskahjálp byggði húsið fyrir Mosfellsbæ. Endurbótum á Reykjakoti var lokið á árinu en þær fólust í byggingu eldhúss og aðstöðu fyrir starfsfólk í nýrri byggingu. Þá er verið að ljúka við íþróttasal og búningsherbergi í Helgafellsskóla og bygging leikskóla í Helgafellshverfinu er langt komin, en það verkefni og endurgerð Varmárvallar eru stærstu uppbyggingarverkefni bæjarins þessi misserin. Þá var hafist handa við gatnagerð á athafnasvæði Reita við Korputún og gatnagerð lokið í 5. áfanga í Helgafellshverfi ásamt yfirborðsfrágangi og gerð leikvallar í 4. áfanga sem fyrirtækið Bakki annaðist.
Starfsfólkið okkar í leik- og grunnskólum, félagsmiðstöðvum og velferðarþjónustu vinnur stóra og smáa sigra á hverjum degi í kennslu og umönnun en við vorum gríðarlega stolt þegar Helgafellsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin fyrir verkefnið Snjallræði en þær Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Málfríður Bjarnadóttir helsti hvatamaður verkefnisins tóku á móti verðlaununum. Þá var Dóra Wild á Hlaðhömrum einnig tilnefnd sem kennari ársins fyrir framúrskarandi starf.

En árið 2024 átti vissulega sínar dimmu hliðar, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga og stríðsátök sem herja víða um heiminn, meðal annars í Úkraínu og á Gasa. Þá eru blikur á lofti í öryggis- og varnarmálum sem við sem þjóð þurfum að taka alvarlega.
Hér á Íslandi fór samfélagið í dimma dali þegar ung stúlka í blóma lífsins lést eftir hnífstunguárás á menningarnótt og skömmu síðar féll önnur ung stúlka, þar sem grunur leikur á um morð af nánum fjölskyldumeðlim. Þá eru ótalin öll þau ungmenni og það unga fólk sem hefur fallið frá, vegna ofneyslu fíkniefna eða vegna sjálfsvíga. Þær tölur hafa vaxið með ískyggilegum hraða og það er ljóst að við verðum sem samfélag að veita þessum málum, ofbeldi á meðal barna og ungmenna, vímuefnavanda og geðheilbrigðismálum miklu meiri gaum. Við höfum hreinlega ekki efni á sem þjóð að missa ungt fólk í blóma lífsins.
Tilkynningum til barnaverndar í Mosfellsbæ fjölgaði um tæplega 50% á árinu og enda í 770 tilkynningum þar sem um 300 börn eiga í hlut. Það eru of háar tölur og ljóst að við verðum líka að bregðast við í okkar kerfi, til að fyrirbyggja frekari þróun í þessa átt.
Það var því gleðilegt skref þegar bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti 27 aðgerðir undir heitinu Börnin okkar og leggur 100 milljónir aukalega í forvarnir á árinu 2025.
Ég hef að undanförnu haldið fundi með kennurum og öðru starfsfólki skólanna í Mosfellsbæ til að kynna verkefnið og átt frábær samtöl við skólafólkið okkar um þessi skref sem við erum að taka. Þá hafa foreldrar tekið vel í aukna þátttöku og foreldrarölt haustsins farið afar vel af stað.
Við ráðum ekki við náttúruöflin og höfum takmörkuð áhrif á gang heimsmála, vegna smæðar samfélagsins. Við ráðum hinsvegar við það verkefni að búa börnum og ungmennum betri umgjörð til að tryggja vellíðan þeirra og öryggi. Það er ákvörðun sem við getum tekið.
Tökum því höndum saman, öll sem eitt í því að viðhalda hér góðu og barnvænu sveitarfélagi í Mosfellsbæ. Ekkert getur verið mikilvægara en það.

Að endingu vil ég þakka ykkur öllum fyrir afar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða, íbúum, starfsfólki Mosfellsbæjar, kjörnum fulltrúum, forsvarsfólki félagasamtaka og stofnana, fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum.
Megi árið 2025 verða ár friðar og farsældar.

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar

100% samvera

Lífið er púsl. Vinna, skóli, verkefni, áhugamál, æfingar, fjölskylda, vinir, viðburðir og svo framvegis. Það getur verið snúið að láta plön ganga upp, ná því sem maður ætlaði að ná. Oftar en ekki kemur eitthvað upp á sem breytir plönum, eitthvað óvænt sem þarf að sinna eða tækla. Ég á stundum erfitt með þetta. Finnst best að byrja daginn snemma, hafa góðan tíma til að sinna sjálfum mér, fara í gegnum morgunrútínuna mína. Það gengur ekki alltaf upp. Ég er að verða að betri í að tækla þetta, er kominn með ör-morgunrútínu sem viðheldur venjum og að rúlla hratt í gegnum hana er miklu betra en að gera ekki neitt.

Samvera með fjölskyldunni gefur mér mikið og er í forgangi hjá mér. Ég upplifði í vikunni mjög góða samverustund með afastrákunum mínum. Var búinn að taka að mér að passa þá í hálftíma á meðan foreldrar þeirra tækju þátt í æfingu. Ég var tæpur að ná þessu, fundur í vinnunni varð aðeins lengri en áætlað og ég þurfti að drífa mig heim til þess að verða ekki of seinn í verkefnið. Það hafðist og það var yndislegt að koma beint á pössunarvaktina. Ég tók við hlutverkinu af mínum yngsta sem var á leiðinni á æfingu sjálfur. Stubbarnir brostu hringinn þegar þeir sáu afa og tóku fagnandi á móti mér. Við horfðum saman á spennandi barnaþátt um smábáta í norsku sjávarþorpi. Settumst svo inn í eldhús þar sem við fengum okkur að borða og fórum saman í gegnum öll þau dýrahljóð sem við kunnum og mundum eftir. Þvílík gæðastund. Ekki nema hálftími. Það var mikil núvitund að detta inn í þeirra heim beint eftir vinnu. Svo kláruðu foreldrar þeirra sína æfingu og skutluðust heim með guttana sína.

Samverustundir þurfa ekki að vera langar til að vera góðar og gefandi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. janúar 2025

Fjórir Mosfellingar taka þátt í Team Rynkeby verkefninu

Börkur, Lárus, Louisa og Jakob á hjólunum. Ragnar ásamt framkvæmdastjóri Team Rinkeby.

Team Rynkeby er góðgerðarverkefni sem hófst í Danmörku árið 2002 þegar nokkrir starfsmenn danska safaframleiðandans Rynkeby Foods ákváðu að hjóla frá Danmörku til Parísar.
Fyrirtækið var aðalstyrktaraðili ferðarinnar, en einnig fengust styrkir frá öðrum fyrirtækjum. Það gekk mjög vel að safna styrkjum, það vel að það varð afgangur og var hann gefinn deild krabbameinssjúkra barna á háskólasjúkrahúsinu í Odense. Team Rynkeby hefur síðan þá stækkað ár frá ári. Þátttakendur hjólaárið 2023-2024 voru um 2.500 hjólarar og aðstoðarfólk í 63 liðum frá 9 löndum. Ísland hefur tekið þátt frá árinu 2017.
Öll liðin hjóla til styrktar börnum með alvarlega sjúkdóma, hvert í sínu landi. Íslenska liðið safnar nú fyrir Umhyggju, félag langveikra barna. Fyrstu árin var safnað fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) en það félag nýtur áfram stuðnings Rynkeby í gegnum Umhyggju.

Hver og einn hjólar 1.300 kílómetra
Nýtt lið er valið að hausti og búið er að velja liðið fyrir 2024-25. Íslenska liðið í ár samanstendur af yfir 40 hjólurum og 8 manna aðstoðarhóp sem kallaðir eru umhyggjuliðar.
Án umhyggjuliðanna kemst liðið ekki langt en það eru alltaf tveir bílar sem fylgja hópnum og sjá um að hafa mat og kaffi tilbúið og eins ef eitthvað kemur upp á. Liðið fer með allan mat út og eru það fyrirtæki hér heima sem hafa gefið liðinu þær vörur. Það er ómetanlegt eins og allir þeir styrkir sem fyrirtæki hafa lagt í söfnunina.
Liðsmenn greiða sjálfir allan sinn kostnað (hjól, búnað, ferðir, fatnað, gistingu o.fl.). Ekki er um keppni að ræða heldur hjólar hvert lið saman alla leið.
Íslenska liðið mun hjóla af stað 5. júlí frá Kolding í Danmörku til Parísar. Öll liðin hittast svo í París 12. júlí. Hver og einn hjólar um 1.300 km á átta dögum þannig að liðsmenn þurfa að leggja sig alla fram við æfingar yfir veturinn til að vera í stakk búnir að takast á við þetta verkefni.

Undirbúningur hafinn fyrir næsta sumar
Gaman er að segja frá því að í liðinu í fyrra voru fjórir Mosfellingar sem hjóluðu frá Danmörku til Parísar. Þetta eru þau Börkur Reykjalín Brynjarsson sem hefur tekið þátt þrisvar sinnum, Ragnar Hjörleifsson sem hefur tekið þátt tvisvar sinnum og hjónin Lárus Arnar Sölvason sem hefur tekið þátt tvisvar sinnum og Louisa Sif Mønster sem hefur tekið þátt einu sinni.
Tvö síðarnefndu ætla að taka þátt aftur í ár. Auk þeirra bættust í hópinn hjónin Úlfar Þórðarson sem ætlar að hjóla og Salóme H. Gunnarsdóttir umhyggjuliði.
Lárus tekur núna þátt í þriðja skipti og Louisa í annað skipti. Við erum sammála um að það sem drífur okkur áfram er ómetanlegur vinskapur, hvatning liðsfélaga, sameiginleg markmið og ólýsanlega góð tilfinning að láta gott af sér leiða.
Við erum með persónulega reynslu af því að vera foreldrar langveiks barns, en dóttir okkar, Júlía Rut, greindist með bráðahvítblæði árið 2017 og útskrifaðist 2020. Ferðin í sumar var mjög krefjandi vegna veðurs því af átta dögum rigndi í fimm. Það getur tekið á að hjóla langar vegalengdir í rigningu en þá er gott að rifja upp hvers vegna við erum að þessu. Við hjólum því við getum það og allt gert til þess að safna fyrir Umhyggju. Æfingar fyrir næsta tímabil eru hafnar og vinnan við að safna styrkjum komin á fullt.
32 milljónir afhentar Umhyggju
Þann 28. september síðastliðinn afhenti Team Rynkeby lið 2024 söfnunarfé til Umhyggju að upphæð 31.945.738, en þetta er stærsta einstaklingssöfnun landsins.
Við afhendinguna kom fram að söfnunarféð verður m.a. nýtt í þágu rannsókna og í almenna þjónustu sem félagið veitir langveikum börnum og aðstandendum þeirra.
Að lokum viljum við hvetja Mosfellinga og fyrirtæki í bæjarfélaginu að kynna sér verkefnið sem hægt er að gera á www.teamrynkeby.is og á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Málefni barna eru mér hugleikin

Leikskólinn Reykjakot tók til starfa í febrúar 1994. Í skólanum eru fimm deildir er rúma 85 börn. Lögð er áhersla á málrækt, sköpun og leik barna. Útivera er mikilvægur þáttur í þroska hvers barns og nýtur leikskólinn góðs af ósnortinni og stórkostlegri náttúru Mosfellsbæjar.
Þórunn Ósk tók við stöðu leikskólastjóra Reykjakots árið 2017. Málefni barna eru henni hugleikin en hún hefur víðtæka reynslu úr skólasamfélaginu.

Þórunn Ósk fæddist í Reykjavík 19. mars 1970. Foreldrar hennar eru Guðrún Gunnarsdóttir og Þórarinn Vagn Þórarinsson sjómaður, d. 1969. Stjúpfaðir Ásgeir Sigurðsson verktaki d. 2024.
Systkini Þórunnar eru Gunnar Svanhólm f. 1971, Rósa María f. 1973 og Rúnar Breiðfjörð f. 1975.

Lékum okkur í böggunum
„Ég flutti í Mosfellssveit 1977 og það var gott að alast upp hér í sveitinni. Mörg börn í hverfinu og mikið um útiveru.
Tangahverfið var í uppbyggingu og hús og grunnar mislangt komin í byggingu, það gaf okkur tækifæri til að rannsaka umhverfið vel. Það var extra gaman þegar það var heyskapur á túninu fyrir neðan Skálatún þar sem Hlíðahverfið er núna. Þar lékum við okkur í böggunum og þá var sko líf og fjör.“

Gerði allt sem iðnaðarmenn gera í dag
„Foreldrar mínir byggðu sér hús í Brekkutanganum. Pabbi vann mikið eins og flestir karlmenn gerðu á þessum tíma enda þurfti að sjá fyrir stórri fjölskyldu. Á sama tíma var mamma heima og gerði allt sem iðnaðarmenn gera í dag, hún pússaði, sparslaði, málaði og flísa- og teppalagði ásamt því að hugsa um heimilið. Hún hóf síðar störf hjá Mosfellsbakaríi þegar við systkinin vorum orðin eldri.
Fjölskyldan átti góðar stundir í fríum innanlands, bróðir pabba átti heima á sveitabæ rétt hjá Grundartanga og við fórum mikið þangað, eins dvöldum við systkinin þar oft með stórum hópi frændsystkina.“

Fengum að sinna fjölda verkefna
„Ég gekk í Ísaksskóla, Árbæjarskóla, Varmárskóla og síðar Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Minningarnar frá skólaárunum eru góðar, það gekk allt sérstaklega vel vegna þess að við vorum með kennara sem náði að halda góðum aga á bekknum, en við vorum frekar óstýrilát.
Ég æfði badminton og handbolta og myndi segja að íþróttahúsið hafi verið mitt annað heimili. Foreldrar vinkonu minnar voru í stjórn handknattleiksdeildarinnar og við fengum að sinna fjölda verkefna fyrir deildina. Okkur fannst við vera aðalskvísurnar í húsinu,“ segir Þórunn og brosir.

Þarna náði ég toppnum
„Í Gaggó Mos leið mér vel en á þessum árum var mikil gelgja í gangi og ég átti til að vera með stæla, ég vildi óska að ég hefði ekki tekið þetta svona út á kennurunum.
Á sumrin bar ég út Morgunblaðið, passaði börn og var í unglingavinnunni. Ég sótti svo um starf í sjoppunni í Háholti og þar fékk ég að vinna með Hönnu í Varmadal. Þarna náði maður toppnum því mig hafði alltaf dreymt um að verða búðarkona.“
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Þórunn í Kvennaskólann í Reykjavík, árið 1996 útskrifaðist hún sem leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands. Hún sótti framhaldsnám í Háskólann á Akureyri og tók þar diploma í stjórnun menntastofnana og öðlaðist kennsluréttindi á grunnskólastigi. Hún er nú að klára mastersnám í stjórnun.
Árið 1997 hóf hún störf á leikskólanum Reykjakoti.

Fluttu til Svíþjóðar
Þórunn Ósk á tvo syni, Arnar Frey f. 1990 og Eið Örn f. 2005. „Árið 1998 fluttum við fjölskyldan til Svíþjóðar þar sem barnsfaðir minn fékk vinnu á Skáni. Við höfðum bæði verið í námi og vorum að feta okkar fyrstu skref inn í fullorðinsárin, ég sem kennari og hann sem tamningamaður.
Þetta var mikið ævintýri og mesta vinnan fyrsta árið var að aðlaga Arnar okkar að nýju samfélagi en hann fór strax að æfa hand- og fótbolta. Ég fór að kenna í leikskóla og æfði handbolta í Ahus. Íþróttirnar voru okkar leið inn í nýja samfélagið og okkur var alls staðar vel tekið.
Þótt dvölin í Svíþjóð hafi verið góð þá var hún líka erfið. Það urðu tímamót í mínu lífi þar sem ég þurfti að takast á við áfengis­neyslu og við fluttum því heim 2002. Ég steig mín fyrstu skref í 12 spora samtökunum og öðlaðist nýtt líf. Ég get ekki lýst með orðum hversu gæfurík árin mín hafa verið eftir þessi skref.“

Lærði af miklum reynsluboltum
„Árið 2012 fluttum við fjölskyldan í Ásahrepp þar sem fjölskyldufyrirtækið Margaretahof var að hefja starfsemi á búgarði þar. Eldri sonur okkar varð eftir í Mosfellsbæ þar sem hann var í háskólanámi en sá yngri fór í grunnskólann Laugaland. Ég hóf störf á leikskólanum Heklukoti á Hellu.
Árið 2014 slitum við samvistum, ég flutti á Selfoss og bjó þar í eitt ár. Hóf störf hjá Sunnulækjarskóla og síðar Ingunnarskóla sem umsjónarkennari. Fór í teymiskennslu og lærði mikið af reynsluboltum hvernig góð teymi í skólum geta virkað en leik- og grunnskóli eru töluvert ólíkar stofnanir.
Mér varð ljóst eftir skilnaðinn að ég þurfti að komast aftur heim í Mosó, til fjölskyldu og vina og byrja nýtt líf. Ég rakst á atvinnuauglýsingu frá Lágafellsskóla um deildarstjórastöðu. Fékk starfið og enn tók við nýr kafli. Þetta var lærdómsríkt ferli, ég hitti margt fólk í skólasamfélaginu sem kenndi mér og studdi mig áfram í minni vegferð.“

Gert í litlum skrefum
„Þótt mér hafi liðið vel í mínum störfum þá kallaði leikskólaumhverfið samt alltaf á mig. Ég sá einn daginn auglýsingu um stöðu leikskólastjóra á Reykjakoti og ákvað að sækja um. Yfirmaður minn til margra ára í þessum leikskóla, Gyða Vigfúsdóttir, var að láta af störfum. Þar fer kona sem ég lærði mikið af, hún býr yfir visku sem aðeins lífið getur kennt þér.
Ég tók við 2017, í skólanum eru fimm deildir er rúma 85 börn. Málefni barna eru mér mjög hugleikin, leikskólinn er núna á vegferð þar sem reynt er að horfa á starfsumhverfi barna og starfsfólks og bæta úr því sem betur má fara. Þetta er verið að gera í litlum skrefum og við fögnum því.
Við þurfum kennara inn í leikskólana, þeir eru sérfræðingar í námi og þroska barna og þeir geta miðlað til annarra starfsmanna.“

Lífið getur verið einfalt og fallegt
Ég spyr Þórunni að lokum um áhugamálin? „Ég fer út að ganga og hlaupa og svo les ég mikið og prjóna. Nýjasta dellan er sund og sauna á kvöldin, þá hitti ég félaga mína, Sundkútana.
Ég hef einnig verið að þjálfa 9. flokk í handbolta hjá Aftureldingu, að þjálfa yngstu iðkendur í handbolta gefur mér innsýn í hreina gleði íþróttarinnar og minnir mig á hvað lífið getur verið einfalt og fallegt,“ segir Þórunn Ósk að lokum er við kveðjumst.

Mosfellskt tónlistarfólk styður við mosfellska knattspyrnu

Arnór Gauti, Guðbjörn Smári og Anna Pálína

Það er frábært að sjá hversu skemmtilegt samstarf hefur myndast á milli mosfellskra tónlistarmanna og knattspyrnunnar hjá Aftureldingu.
KALEO hefur verið framan á búningum meistarflokks karla síðastliðin þrjú ár en um var að ræða sögulegan samning sem hefur vakið heimsathygli frá upphafi. Þrír af meðlimum Kaleo spiluðu fótbolta með yngri flokkum Aftureldingar og þótti Jökull söngvari nokkuð liðtækur leikmaður.
Samstarfið við Kaleo hefur verið frábært í alla staði, haldnir hafa verið styrktartónleikar fyrir félagið og merki félagsins hefur verið sýnilegt um allan heim.

GDRN og Gildran bættust við
Tónlistakonan Guðrún Ýr eða GDRN er framan á búningum meistarflokks kvenna en Guðrún Ýr spilaði upp alla yngri flokkana með Aftureldingu og lék fyrir meistarflokkinn áður en hún meiddist illa og lagði skóna á hilluna.
Guðrún Ýr er ein vinsælasta tónlistarkona landsins og hefur hún haldið tónleika til styrktar meistaraflokki kvenna.
Í vor bættist svo mosfellska hljómsveitin Gildran í hópinn þegar þeir gengu til samstarfs við Hvíta Riddarann. Gildran var stofnuð árið 1985 og heldur því upp á 40 ára afmæli á næsta ári. Þeir félagar voru útnefndir bæjarlistamenn Mosfellsbæjar 2023. Þess má geta að Gildran samdi Aftureldingarlagið á sínum tíma en lagið hefur fylgt félaginu um árabil.

 

Hver er Mosfellingur ársins 2024?

Val á Mosfellingi ársins 2024 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í 20. sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson, Hilmar Elísson, Sigmar Vilhjálmsson, Elva Björg Pálsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir og Dóri DNA.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2025, fimmtudaginn 9. janúar.