Veitir innsýn í líf fólks af erlendum uppruna

Mikael Rafn Steingrímsson varaformaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar, Jewells Chambers og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2020 hlýtur Mosfellingurinn Jewells Chambers. Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en flutti hingað til Íslands árið 2016. Hún er gift Gunnari Erni Ingólfssyni og búa þau saman hér í Mosfellsbæ. Jewells er verkfræðingur að mennt frá Rensselaer Polytechnic Institute og starfar sjálfstætt í dag.

Vekur athygli á kynþáttahyggju og fordómum
Jewells hefur vakið athygli á kynþáttahyggju og fordómum sem byggjast á hörundslit fólks hér á Íslandi. Hún hefur meðal annars tekið áhugaverð viðtöl við einstaklinga sem eru af erlendu bergi brotnir, þar sem upplifun af því hvernig það er að tilheyra minnihlutahópi á Íslandi er lýst. Til að mynda vakti YouTube myndband þar sem hún og Tabitha Laker deila upplifun sinni af því hvernig er að vera þeldökkur einstaklingur á Íslandi mikla athygli á meðal almennings.
Jewells er afar virk á samfélagsmiðlum (Instagram, YouTube og Facebook) þar sem hún veitir innsýn inn í líf fólks af erlendum uppruna. Hún heldur úti heimasíðunni From Foreign to Familiar og er einnig með podcastið All Things Iceland. Mosfellingar eru hvattir til að fylgjast með öllu því áhugaverða sem hún er að gera.

Uppbyggilegt og réttlátt samfélag fyrir alla
Mosfellsbær fagnar fjölbreytileikanum og leggur áherslu á að stuðla að uppbyggilegu og réttlátu samfélagi fyrir alla, óháð uppruna. Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa Mosfellsbæjar sem og aðra til að gera slíkt hið sama.
Gerum jafnréttismálum hátt undir höfði og verum meðvituð um að koma fram við alla af virðingu, jákvæðni og umhyggju. Jewells sýnir aðdáunarverða framsækni og framlag hennar til okkar samfélags er mjög mikilvægt.

RAFRÆNN JAFNRÉTTISDAGUR

Vegna samkomutakmarkana ákvað lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar að jafnréttisdagur Mosfellsbæjar yrði rafrænn í ár.
Þar sem mikil umræða hefur skapast undanfarið um kynþáttafordóma og kynþáttahatur hérlendis og erlendis fannst nefndinni áhugavert að heyra hvernig einstaklingar af erlendum uppruna upplifa þessi mál.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd fékk þær Aldísi Amah Hamilton, leikkonu og Sunnu Söshu Larosiliere, stjórnmálafræðing, til að segja frá því hvernig þær upplifðu það að alast upp hér á landi og hvar skórinn kreppir þegar kemur að fordómum.
Viðtölin við Aldísi og Sunnu og afhending jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2020 verða birt á samfélagsmiðlum Mosfellsbæjar; mos.is, á Instagram- og facebook síðu Mosfellsbæjar og Instagram síðu Mosfellings.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd hvetur Mosfellinga eindregið til að fylgjast með því sem þær hafa að segja. Áhugasamir geta fylgst með þessum flottu konum
á samfélagsmiðlinum Instagram: @aldisamah og @sunnasasha

sdf sdf

Nýtt starfsfólk í Lágafellssókn

sdf sdf

Sigurður Rúnar Ragnarsson, Oddný Sigrún Magnúsdóttir og Bogi Benediktsson. 

Sigurður Rúnar Ragnarsson mun gegna stöðu sem þriðji prestur í Mosfellsprestakalli til júní 2021. Hann er fyrrverandi sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli. Hann vígðist til Mosfellsprestakalls og Lágafellssóknar sem prestur vorið 1998 og starfaði við Lágafellssókn frá vígslu til júní 1999 er hann fékk Norðfjarðarprestakall.
Hér í Mosfellsbæ var hann búsettur frá árinu 1978 til ársins 1999. Hann hefur undanfarið ár, vegna breytinga á prestaköllum á Austfjörðum, verið í sérþjónustu á Biskupsstofu og gegnt ýmsum störfum við prestaköllin á Austurlandi.
Eiginkona Sigurðar Rúnars er Ragnheiður Hall og eiga þau þrjú börn, Ragnar Árna, Þóru Kristínu og Katrínu Halldóru.

Oddný Sigrún nýr rekstrarstjóri
Í byrjun árs tók til starfa nýr rekstrarstjóri Lágafellssóknar, Oddný Sigrún Magnúsdóttir. Hlutverk rekstrarstjóra er daglegur rekstur og bókhald Lágafellssóknar. Oddný Sigrún er viðurkenndur bókari og hjúkrunarfræðingur að mennt. Síðustu 20 ár hefur hún rekið sitt eigið fyrirtæki ásamt manni sínum.

Nýr æskulýðsfulltrúi
Nýr æskulýðsfulltrúi tók til starfa í byrjun september og heitir hann Bogi Benediktsson. Bogi mun hafa umsjón með æskulýðsstarfi Lágafellssóknar, sunnudagaskólanum kl. 13 og unglingastarfinu á þriðjudögum kl. 20. Einnig hefur hann umsjón með kirkjugörðum Lágafellssóknar og sér um heimasíðu og samfélagsmiðla. Allar nánari upplýsingar um starfsemi kirkjunnar má finna á www.lagafellskirkja.is

Óskar Einarsson bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2020

„Þetta er fyrst og fremst frábær heiður að hljóta þessa viðurkenningu og er ég mjög þakklátur og snortinn,“ segir tónlistarmaðurinn Óskar Einarsson, bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2020.
Það er menningar- og nýsköpunarnefnd sem stendur fyrir útnefningunni líkt og síðastliðin 25 ár.
Óskar er fæddur á Akureyri en hefur verið búsettur í Mosfellsbæ síðan árið 2003 og segist hvergi annars staðar vilja vera.
Hann stundaði píanó- og saxófónnám við tónlistarskólann á Akureyri, stundaði nám við FÍH og lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995. Hann hefur lokið mastersgráðu í útsetningum frá University of Miami. Auk píanóleiks og kórstjórnar leikur hann á flautu, saxófón og klarinett.

Þekktastur fyrir gospeltónlist
Gospeltónlist er sú tegund tónlistar sem Óskar er þekktastur fyrir. Hann var stofnandi og stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur og hefur verið tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík í um 30 ár. Hann starfar sem tónlistarstjóri í Lindakirkju í Kópavogi og stýrir þar öflugum kirkjukór sem heldur reglulega gospeltónleika.
Óskar lét ekki sitt eftir liggja í COVID-19 bylgjunni í vor og stóð fyrir viðburðinum Hittumst heima ásamt félögum sínum í Gospeltónum.
Óskar Einarsson er öflugur tónlistarmaður sem hefur komið víða við og er vel að heiðrinum kominn.
„Ég man fyrst eftir að hafa séð mynd af mér í blaði, eins árs gömlum, við píanóið heima þar sem stóð „Litli píanósnillingurinn“. Þar byrjaði þetta. Svo hef ég verið í tónlistarnámi frá því ég man eftir mér, hlustað á músík og unnið við þetta alla ævi.“
Dagarnir hjá Óskari eru mjög fjölbreyttir. „Ég spila í brúðkaupum, útförum og sé um tónlist í sjónvarpi, leikhúsunum og auðvitað í kirkjunni.“
Óskar hefur fylgst með blómlegu kóralífi í Mosfellsbæ og meðal annars útsett og stjórnað tónleikum með Karlakórnum Stefni og verið með tónleika með Álafoss­kórnum. Þá hefur hann fengið sinn kór, Gospelkór Reykjavíkur, til að halda tónleika hér auk þess sem hann hefur margoft spilað með mosfellskum listamönnum eins og Gretu Salóme og Diddú.

Kynnir sig og verk sín á næstunni
Á því ári sem bæjarlistamaður er tilnefndur kynnir hann sig og verk sín innan Mosfellsbæjar í samvinnu við menningar- og nýsköpunarnefnd. Auk nafnbótarinnar er listamanninum veittur menningarstyrkur.
„Ég er strax búinn að undirstinga mitt fólk með að gera eitthvað skemmtilegt hér í Mosfellsbæ á næstunni og fæ jafnvel Pál Rósinkrans með mér í einhver verkefni,“ segir Óskar að lokum og hafði aldrei hugsað svo langt að maður eins og hann, á bakvið tjöldin, væri vel að slíkri viðurkenningu kominn.

 

Þakklæti í verki

Ég var í sambandi við elsta son minn í morgun, spjallaði aðeins við hann um þennan pistil, um hvað hann ætti að fjalla. Hann stakk upp á að pistillinn fjallaði um þakklætisgöngur – það er þegar maður fer í rólegan göngutúr og einbeitir sér að því, hluta göngutúrsins, að hugsa um það sem maður er þakklátur fyrir. Mér leist vel á það.

Hann sagðist vera að vinna með sína eigin útgáfu af þakklætis­göngum. Hún snýst um að byrja daginn á því að hugsa um eitthvað sem maður er þakklátur fyrir og ákveða síðan að gera eitthvað sama dag sem tengist því. Hann kom með dæmi, sagði mér frá því að hann hefði hugsað um fyrir nokkrum dögum að hann væri þakklátur fyrir ömmu Dóru (ég er það líka, svo það sé nú á hreinu, hún er frábær tengdamóðir) og hann fagnaði því þakklæti með því að hringja í hana seinna sama dag og spjalla við hana um lífið og tilveruna. Þetta finnst mér stórsniðugt. Að búa til sína eigin útgáfu af aðferð sem maður lærir af öðrum. Gera hana að sinni, betrumbæta hana.

Ég ætla að prófa þessa tegund af þakklætisgöngu, hugsanlega strax í fyrramálið. Ætla ekki að ákveða núna hvað ég ætla að vera þakklátur fyrir, heldur leyfa því að koma til mín þá.

Fyrst við erum að tala um göngur, þá langar mig að mæla með því að ganga reglulega á einhver af fellunum okkar mosfellsku. Fellagöngur eru frábær útivist og hreyfing. Mátulega langar og stutt fyrir okkur að fara. Ég hef sjálfur verið að labba á Reykjafellið daglega, er að prófa að gera það allan septembermánuð. Hugmynd sem ég fékk lánaða hjá göngugarpinum Pálma Steingrímssyni. Ég lagaði hugmyndina að mér og mínum aðstæðum, gerði hana að minni. Alveg eins og sonur minn gerði með þakklætisgönguhugmyndina.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. september 2020

Opna ilmbanka íslenskra jurta

Í júní opnaði í Álafosskvosinni ilmsýningin Ilmbanki íslenskra jurta og lítil búð sem selur ýmsar vörur sem unnar eru úr íslenskum jurtum.
Það eru þær Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent sem standa að baki sýningunni en þær hafa unnið saman síðastliðin þrjú ár og reka saman fyrirtækið Nordic angan.
„Við höfum verið að vinna að rannsóknarverkefni á ilmum í íslenskri náttúru síðastliðin tvö ár og er sýningin afrakstur þeirrar vinnu. Sýningin hefur fengið góðar viðtökur og er komin til að vera áfram,“ segir Elín. Sýningin er opin allar helgar, aðgangseyrir er 1.200 kr. en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Frábært að vera í Kvosinni
„Við erum rosalega ánægðar með að vera hér Álafosskvosinni en hér erum við bæði með sýninguna og vinnustofuna okkar. Við vinnum með íslenskar jurtir, eimum úr þeim ilmkjarnaolíur og hönnum ilmtengdar vörur. Svo umhverfið hérna smellpassar við okkar starfsemi.
Það er búið að vera mjög áhugavert að vinna að þessari rannsókn því það er sterk hefð fyrir því á Íslandi að nota jurtirnar okkar á ýmsan hátt en engin hefð fyrir því að eima úr þeim ilmkjarnaolíur.
Við höfum unnið að því að rannsaka hvaða jurtir er hægt að eima og hvaða virkni er í olíunum. En svo fórum við líka að vinna með þær jurtir sem ekki var hægt að eima og reyna að ná ilmi út þeim líka.“

Leikið með lyktarskynið
Sýningin er fallega uppsett en þar getur fólk lyktað af ýmsum íslenskum jurtum og trjám á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Einnig er svokölluð ilmsturta sem þær stöllur hönnuðu og kynntu á Hönnunarmars í fyrra en um er að ræða tæki sem gefur frá sér kalda þurrgufu með íslenskum ilmkjarnaolíum.
„Við erum rosalega ánægðar með útkomuna og viðbrögð, það er greinilegt að þessi nýjung með ilmupplifum og jafnvel tengsl á milli lyktar, tilfinninga og minninga er eitthvað sem fólki finnst áhugavert.
Það er alltaf að aukast að við séum að taka á móti hópum s.s. vinkonuhópum, saumaklúbbum, vinnustöðum og öðrum hópum. Við getum boðið upp á leiðsögn um sýninguna og jafnvel léttar veitingar. Best er að hafa bara samband við okkur til að bóka heimsókn fyrir hópa,“ segir Elín að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.

Kjóll með sögu

Þann 22. ágúst fermdist Eydís Ósk í Lágafellskirkju ásamt fleirum krökkum úr bæjarfélaginu. Það er skemmtilegt að segja frá því að kjóllinn sem hún var í við þessa hátíðlegu athöfn hefur áhugaverða sögu að baki en þetta er í fjórða skipti sem þessi kjóll er notaður við stórviðburð í fjölskyldunni.
Kjóllinn var upphaflega saumaður árið 1969 sem brúðarkjóll á Ingigerði Magnúsdóttur sem gekk í hjónaband með Sigurhans Wium það sama ár. Dóttir þeirra Rakel Katrín fermdist svo í kjólnum árið 1993 og báðar dætur hennar, þær Ásta Margrét sem fermdist 2013 og svo Eydís Ósk 2020.

Skemmtilega sígildur kjóll
„Soffía Þórðardóttir sem átti verslunina Kjóllinn sérsaumaði þennan kjól á mig, en hún var afasystir mannsins míns. Kjóllinn er svo skemmtilega sígildur,“ segir Ingigerður sem er ánægð með hvað dóttir hennar og barnabörn hafa verið spenntar fyrir að nota kjólinn.
Rakel tekur undir það og segist ekki hafa fundið neitt sem hana langaði í þegar hún var að spá í kjóla fyrir ferminguna sína. „Ég byrjaði því að gramsa í skápunum hjá mömmu og fann þennan kjól og mátaði. Eftir það kom aldrei neitt annað til greina en að fermast í þessum kjól. Það var svo sama sagan þegar Ásta dóttir mín fermdist, hún skoðaði ekki einu sinni aðra kjóla,“ segir Rakel.
„Í fermingarveislunni hjá Ástu var mikið verið að tala um kjólinn og sögu hans. Eydís var þá 6 ára og sagði strax að hún ætlaði sko líka að fermast í þessum kjól. En kjóllinn er alveg sérstaklega fallegur, klassískur og sniðið er alveg tímalaust,“ segir Rakel að lokum en Eydís dóttir hennar fermdist í kjólnum góða í Lágafellskirkju síðastliðinn sunnudag.

Krefjast lengri opnunartíma

Margir fastagestir sækja Lágafellslaug í Mosfellsbæ enda ein flottasta sundlaug landsins. Hópur fastagesta hittist þar á hverju kvöldi og fer yfir málin. Eftir sund og gufu leggur hópurinn á ráðin yfir engiferskoti í anddyri laugarinnar. „Við erum Mosfellingar og þverskurður samfélagsins á aldrinum 20-80 ára,“ segir Guðmundur Björgvinsson, Makkerinn, einn meðlima sundhópsins.

Hátt í þúsund undirskriftir komnar
Hópurinn hóf að safna undirskriftum í sumar fyrir lengri opnunartíma í Lágafellslaug. Undirskriftarsöfnunin gengur út á að hafa opið alla daga vikunnar til kl. 22:00, einnig um helgar. Lauginni er nú lokað kl. 21:30 á virkum dögum og kl. 19:00 um helgar.
„Opnunartími í Lágafellslaug er styttri en alls staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og á flestum sundstöðum er opið til kl. 22:00 alla daga.“
Rafræn undirskriftasöfnun á island.is stóð yfir frá 17. júní til 17. júlí. Einnig voru undirskriftalistar aðgengilegir á N1 í Mosfellsbæ á þessum tíma. Í ljósi COVID taldi hópurinn að rétt væri að bíða með að afhenda listann til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Enn er hægt að ljá málefninu lið með því að skrifa undir listann á N1, bókasafninu og í Lágafellslaug. Stefnt er að því að afhenda bæjarstjórn listann þann 15. september.

Heilsueflandi og stækkandi samfélag
„Aðstaðan í Lágafellslaug er ein sú besta á Íslandi og það er okkar einlæga ósk að opnunartíminn verði lengdur“, segir Guðmundur sem segir hópinn hafa fengið afar góðar undirtektir.
„Á þessum sérstöku COVID-tímum, þar sem fjöldatakmarkanir eru í heitum pottum og í gufuklefum, er lengri opnunartími enn mikilvægari en áður,“ bætir Svavar Benediktsson við. „Það gengur ekki upp að Mosfellingar þurfi að búa við lakari þjónustu en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er krafa Mosfellinga að opnunartími Lágafellslaugar verði færður til samræmis opnunartíma annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta hefur félagslegt gildi og er gott fyrir sálina í okkar ört stækkandi og heilsueflandi samfélagi.“

Fyrsta afhending úr Klörusjóði

Tanja, Málfríður, Kristín, Alfa, Lísa skólastjóri Lágafellsskóla og Kolbrún formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

Í lok júní voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið Klörusjóðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem unnin eru í einstökum skóla eða í samstarfi á milli skóla og var í ár lögð áhersla á verkefni á sviði upplýsinga-og tæknimála. Alls bárust 10 styrkumsóknir frá leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar.

Til heiðurs Klöru Klængsdóttur
Nafn sjóðsins, Klörusjóður, er til heiðurs Klöru Klængsdóttur (1920-2011). Klara útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1939 og hóf sama ár kennslu við Brúarlandsskóla. Hún starfaði alla sína starfsævi sem kennari í Mosfellsbæ.
Afhending styrkja fór fram í Listasalnum og hlutu eftirfarandi verkefni hlutu styrk 2020:
Útikennsla (Alfa Regína Jóhannsdóttir)
Stærðfræði- og forritunarkennsla (Málfríður Bjarnadóttir og Tanja Stefanía Rúnarsdóttir)
Íslenska í Classroom (Árni Pétur Reynisson)
Lestrarkorts app, smáforrit (Kristín Einarsdóttir)

Ég er algjört félagsmálafrík

Svala Árnadóttir er kraftmikil kona sem vill leggja sín lóð á vogaskálarnar til að koma hlutum í framkvæmd. Hún hefur verið virk í margs konar félagsstarfi í gegnum tíðina sem hún segist hafa haft mikla unun af og er hvergi hætt þótt komin sé á besta aldur.
Í dag sækir hún fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar, situr í öldungaráði bæjarins og svo hefur hún mikinn áhuga á að stofnað verði hollvinafélag fyrir hjúkrunarheimilið Hamra. Á milli funda nýtur Svala lífsins með börnum sínum og barnabörnum.

Svala er fædd í Hveragerði 5. janúar 1945. Foreldrar hennar eru þau Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja og Árni Sigfússon bóndi og garðyrkjubóndi. Svala á tvö systkini, Karólínu f. 1947 og Sigfús Ægi f. 1954.

Náði gamla tímanum í sveitinni
„Ég ólst upp á bæ rétt hjá Laugarvatni sem heitir Böðmóðsstaðir. Ég náði gamla tímanum í sveitinni en foreldrar mínir hófu búskap út frá búi afa míns og ömmu.
Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hélt hita í eldhúsinu og það var ekkert heitt vatn svo það þurfti því að þvo þvottinn niður við ána. Engin voru salernin, bara útikamrar og það þurfti að ganga nokkra kílómetra til að komast í símasamband. Rafmagnið kom ekki fyrr en ég var 16 ára.
Pabbi byggði svo nýtt hús og allt varð nýtískulegra. Okkur leið vel þarna og oft var glatt á hjalla enda þekktum við ekkert annað.“

Léku leikrit fyrir sveitungana
„Ég var heppin að skólastjórinn í barnaskólanum mínum hafði mikinn áhuga á að láta okkur sveitakrakkana læra góða framsögn. Við fengum að leika leikrit einu sinni á vetri fyrir fólkið í sveitinni sem var gaman.
Ég get ekki gleymt að þegar ég var 8 ára skotta þá var ég látin lesa kvæði fyrir fullu húsi af gestum. Eins minnist ég líka ömmu minnar sem var best af öllum, hún fór með okkur krakkaskarann í langan göngutúr að steini sem heitir Grásteinn til að segja okkur sögu.“

Skellti sér í síldina á Raufarhöfn
„Ég gekk í gagnfræðaskólann á Laugarvatni og lauk prófi þaðan 1962. Þar eignaðist ég góða vini sem ég hef haldið sambandi við alla tíð.
Eftir útskrift skellti ég mér í síldina á Raufarhöfn, þar hitti ég flottan mann á balli í lopapeysu með brennivínsflösku í beltisstrengnum. Mér fannst hann meiriháttar sætur og satt best að segja ákvað ég í fyrsta dansi að þessum manni ætlaði ég að giftast, án þess að hann vissi að sjálfsögðu,“ segir Svala og brosir. „Honum var ég svo gift í nærri 50 ár.“
Eftir ævintýrið á Raufarhöfn fór Svala að vinna í farþega­afgreiðslunni á Umferðarmiðstöðinni og í 11 ár vann hún sem ritari hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í TBR og svo á þrjár lögmannastofur. Hún sinnti aðalbókarastarfi hjá Læknafélagi Íslands og endaði starfsferil sinn hjá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Hestarnir átu fyrstu blómin
Svala giftist Vigfúsi Aðalsteinssyni viðskiptafræðingi 1967 en hann lést árið 2017. Hann starfaði hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur en setti síðan á fót sína eigin bókhaldsstofu, Reikniver. Svala og Vigfús eignuðust tvö börn, Árna Gunnar f. 1967 og Aðalheiði f. 1973. Barnabörnin eru fjögur, Daníel Freyr, Almar Nökkvi, Embla Soffía og Svala.
„Við byrjuðum okkar búskap í Reykjavík en fluttum síðan í Mosfellssveitina árið 1974 og mér leist nú ekkert of vel á það í byrjun. Mér fannst eins og við værum að flytja á hjara veraldar,“ segir Svala og hlær. „Vegurinn frá Reykjavík var malarvegur og engin ljós á leiðinni. Garðurinn okkar var malarbingur með engu grasi og hestar átu fyrstu blómin mín.
Nágrannarnir tóku vel á móti okkur og við fundum fljótt að þetta var úrvalsfólk. Við kunnum strax að meta hvað krakkarnir okkar höfðu mikið frjálsræði og stutt var í alla íþróttaiðkun.“

Eljan skilaði sér alla leið
„Við Fúsi fórum fljótlega að starfa með Aftureldingu því sonur okkar var bæði í handbolta og fótbolta. Ég tók að mér að vera gjaldkeri handboltans í eitt ár og satt best að segja var þetta ár erfiðasta árið í lífi mínu vinnulega séð, það var svo mikið að gera. Deildin var rekin eins og lítið fyrirtæki og ekkert var gefið eftir. Eljan skilaði sér alla leið og farið var með unglingana á Partille Cup í Svíþjóð um vorið.”

Er afar stolt af þessari framkvæmd
„Eftir störfin hjá Aftureldingu tók við langt tímabil hjá okkur báðum í Sjálfstæðisflokknum. Við fundum út að þar áttum við heima, fólkið var hresst og skemmtilegt.
Eftir nokkurn tíma var komið að því að kjósa nýjan formann í félaginu, ég bauð mig fram og var kosin, fyrsta konan til að gegna því embætti. Ég ákvað að félagið yrði að eignast sitt eigið húsnæði en það var ekki mikið til í kassanum. Það var því ákveðið að leggja af stað með fjáraflanir og allir lögðust á eitt. Á endanum keyptum við svo húsnæði og var það vígt með mikilli viðhöfn og var formaður flokksins viðstaddur. Ég er afar stolt af þessari framkvæmd,“ segir Svala og brosir.
„Við hjónin tókum þátt í mörgum nefndum hjá félaginu en nú er þetta farið að róast aðeins hjá mér og það er bara ágætt.“

Mér finnst gott að knúsa
„Við hjónin vorum dugleg að ferðast bæði hér heima og erlendis og við veiddum líka í mörgum vötnum og ám.
Ég er algjört félagsmálafrík og Fúsi minn var það líka, við vorum dugleg að sinna félagsmálunum og ég er enn að stússast í þessu,“ segir Svala og hlær. „Ég hef oft komið dauðþreytt heim úr vinnunni en þurft að fara á fund um kvöldið. Þegar heim er komið er ég yfirleitt full af orku, ég fæ svo mikið út úr félagsskap við annað fólk og mér finnst gott að knúsa.
Ég sæki núna fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar og finnst það frábær félagsskapur.
Ég sit líka í öldungaráði Mosfellsbæjar og ég var gjaldkeri FaMos í 4 ár. Ég hef líka mikinn áhuga á að það verði stofnað hollvinafélag hjúkrunarheimilisins Hamra. Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég sífellt meiri áhuga á eldra fólkinu.“

Vil eyða ævikvöldinu hér
„Bærinn okkar hefur vaxið úr sveitamennskunni og í dag búa hér yfir 12.300 manns. Fólki líður vel hér í nálægð við náttúruna, hér er bæði skjólgott og fallegt en samt svolítið sveitó. Íþróttaaðstaðan er frábær, bæði fyrir unga sem aldna og félagslífið blómlegt.
Ég vil hvergi búa nema í Mosfellsbæ og ég vona sannarlega að ég geti eytt ævikvöldinu hér og fái svo að hvíla í Mosfellskirkjugarði, sátt við mitt líf.“

Mosfellingurinn 27. ágúst 2020
ruth@mosfellingur.is

Kaffi Áslákur opnar um helgina

Alli Rúts og Tanja Wohlrab-Ryan hótelstjóri taka vel á móti gestum.

Kaffi Áslákur er nýtt kaffihús sem opnar um helgina. Það er Alli Rúts hóteleigandi á Hótel Laxnesi sem hefur breytt móttökurými hótelsins í kaffihús.
„Það hefur lengi vantað kaffihús í Mosó þannig að við ákváðum að slá til. Hótelmóttakan minnkar í sniðum enda fara öll samskipti meira og minna fram í gegnum tölvur,“ segir Alli. Hægt er að tylla sér niður yfir kaffibolla bæði úti og inni en unnið hefur verið hörðum höndum að því að gera svæðið klárt í sumar.
Þá er aðstaða fyrir krakka að leika sér. Billjardborðið sem var niðri er komið á efri hæðina þar sem hægt er að leika sér í ró og næði.

Spennt að taka á móti Mosfellingum
Aðsóknin á hótelið hefur verið upp og niður eftir ástandinu í þjóðfélaginu. Stúdíóíbúðirnar í neðri hæð hótelsins hafa verið í langtímaleigu auk þess sem nokkrar íbúðir hafa verið leigðar til fólks í sóttkví og hefur því verið tekið vel. Annars hafa Íslendingar verið duglegir að sækja hótelið heim. „Ég byggði þetta hótel fyrir 12 árum, löngu áður en ferðamannabylgjan brast á. Þannig að við erum á svipuðum stað í dag, að þjónusta Íslendinga.
Nú viljum við bjóða Mosfellinga sérstaklega velkomna á kaffihúsið.“
Þá hefur Alli endurbyggt hestarétt í hlaðinu svo fólk geti komið ríðandi eins og hér áður fyrr.

Ljótir skór, sterkir fætur

Ég fæ reglulega að heyra að ég gangi í ljótum skóm. Það er mögulega eitthvað til í því, þetta er auðvitað smekksatriði. Það sem einum finnst ljótt, finnst öðrum fallegt. Skór eru eins og tónlist. Mögnuðustu tónleikar sem ég hef upplifað voru með Sigur Rós í Bjarnarfirði á Ströndum fyrir nokkrum árum. Útitónleikar í göldróttu veðri. Sumum viðstöddum fannst minna til koma. Náðu engri tengingu við hljómsveitina. Á sama hátt tengja sumir við skóna mína, aðrir barasta alls ekki.

Ljótu skórnir snúast ekki beinlínis um fagurfræði, heldur form. Þeir eiga það sameiginlegt að vera þunnbotna, nánast án-botna, og eru yfirleitt breiðir að framan. Það er engin stuðningur í skónum, engin dempun, engin innlegg. Formið gerir að verkum að fæturnar ná góðri tengingu við jörðina og tærnar eru ekki kramdar saman heldur eru óheftar í skónum og ná þannig að grípa í jörðina. Þetta styrkir fæturna, þeir verða hreinlega að styrkjast þegar stuðningurinn er enginn.

Ég kynntist svona skóm fyrir 14-15 árum og hef í mörg ár ekki gengið í öðruvísi. Spariskór, við hátíðleg tækifæri, eru undantekning. Ástæðan fyrir því að ég fór þessa skóleið í lífinu er einföld. Ég var með mjög flatar iljar sem barn, man eftir heimsókn til læknis sem sagði „Þetta á alltaf eftir að verða til vandræða, ungi maður, sérstaklega þegar þú verður eldri.“ Hjá honum fékk ég hnausþykk innlegg sem ég gekk með í mörg ár, alltof mörg. Fæturnir voru til vandræða þangað til ég henti innleggjunum og byrjaði að fikra mig inn í þunnbotna skóheiminn. Ekki bara hafa fæturnir styrkst, þeir hafa líka breyst, flötu fæturnir heyra sögunni til.

Fyrir þá sem hafa áhuga á ljótum skóm og sterkum fótum mæli ég með því að byrja rólega, fæturnir þurfa tíma til að venjast því að fá að ganga aftur á náttúrulegan hátt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2020

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar 2020 aflýst

Bæj­ar­ráð Mos­fells­bæj­ar ákvað í dag að af­lýsa bæj­ar­hátíðinni Í tún­inu heima vegna kór­ónu­veirufar­aldrus­ins. Þetta var ákveðið eft­ir til­lögu neyðar­stjórn­ar bæj­ar­ins sem samþykkt var á fundi menn­ing­ar- og ný­sköp­un­ar­nefnd­ar á þriðju­dag.

Hátíðin var fyr­ir­huguð dag­ana 28.-30. ág­úst. Tinda­hlaup­inu sem fara átti fram sömu helgi er einnig af­lýst, en Mos­fells­bær er einn af fram­kvæmd­araðilum þess.

„Til stóð að halda hátíðina með breyttu sniði og færa hátíðar­höld­in frek­ar út í hverf­in.  Í ljósi hert­ari sam­komu­reglna og þróun Covid-19 far­ald­urs­ins und­an­farn­ar vik­ur sýn­ir Mos­fells­bær ábyrgð í verki og af­lýs­ir þess­um viðburðum.“

Unnið að deiliskipulagi fyrir atvinnukjarna í landi Blikastaða

Mosfellsbær og Reitir fasteignafélag vinna saman að deiliskipulagi fyrir nýjan atvinnukjarna í landi Blikastaða.
Svæðið er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging atvinnukjarna sem skipulagður verður með náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Náttúra og lífríki í ánni Korpu og í skógræktinni í hlíðum Úlfarsfells skapa vistlega umgjörð um hverfið. Deiliskipulag tekur mið af náttúru, hugmyndum um sjálfbærni og samnýtingu innviða á svæðinu.
Vegtengingar eru greiðfærar og Borgarlína er fyrirhuguð gegnum svæðið sem er mikilvægt fyrir eflingu atvinnulífs Mosfellsbæjar.

Atvinna, náttúra og sjálfbærni
„Okkar markmið er að svæðið byggist upp í takt við þarfir fyrirtækja með atvinnu, náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Við viljum velta við hverjum steini og hvetjum íbúa til að taka þátt í mótun svæðisins og hjálpa okkur að finna því viðeigandi nafn,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
Væntingar standa til þess að deiliskipulagsvinnu Blikastaðalandsins ljúki seinnihluta árs 2020 og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2021. Hraði uppbyggingar á svæðinu mun m.a. ráðast af markaðsaðstæðum. Gera má ráð fyrir að það gæti tekið allt að tíu til tólf ár frá því gatnagerð hefst þangað til svæðið verður fullbyggt.

Það er af mörgu að taka

Sveinn Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Miðflokksins segir flokkinn líta á mótlæti sem orku sem ber að virkja.

Sveinn Óskar leiddist ungur út í stjórnmál en það var nú alls ekki á döfinni af hans hálfu. Á unglingsárunum fór Sveinn að fara víða með föður sínum á fundi en hann starfaði bæði sem varaþingmaður og verkalýðsleiðtogi á Suðurlandi. Líklegt er að áhuginn hafi kviknað þar en Sveinn Óskar hefur komið að stjórnmálum allar götur síðan samhliða sínu starfi. Hann leiddi lista Miðflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2018, náði kjöri og starfar sem bæjarfulltrúi í dag.

Sveinn Óskar er fæddur á Selfossi 27. júlí 1968. Foreldrar hans eru Eygló Guðmundsdóttir fv. saumakona og Sigurður Óskarsson fv. framkvæmdastjóri.
Sveinn á fimm systkini, albróðurinn Elís f. 1971 og hálfsystkinin Guðmund f. 1954, Stefán f. 1957, Ragnheiði f. 1960 og Róbert f. 1960, d. 2009.

Umhverfið var krefjandi
„Ég er alinn upp á Hellu á Rangárvöllum þar sem umhverfið var krefjandi og spennandi, eldfjöll, jöklar, sandar, melar og tún. Það var gott að alast þarna upp og ég man fyrst eftir mér þegar ég sigldi um á vörubílaslöngu á stórri tjörn á milli neðri hluta þorpsins og þess efri þar sem fjölskyldan mín bjó.
Ég gleymi líka seint þeim degi sem við bræðurnir fengum hjól en ætli helsta æskuminningin sé ekki fyrsti kossinn. Ein besta vinkona mín gaf mér fulla heimild til að kyssa sig þegar við vorum bæði 10 ára gömul. Það gleymist nú seint en við höfum verið vinir alla tíð,“ segir Sveinn og brosir.

Nýtur lífsins í Tungunum
„Biskupstungurnar eiga stóran part af hjarta mínu þaðan sem móðir mín er ættuð en ég var þar í sveit. Þangað sæki ég mikið enn í dag því fjölskyldan á þar sumarhús og þarna er yndislegt að vera.
Nú, ekki má gleyma Seljavöllum undir Eyjafjöllum, þar áttum við fjölskyldan sumarhús um langa hríð. Þá skrapp maður oft í gömlu sundlaugina en afi minn, Sveinn Óskar, kenndi sund þar í áraraðir.“

Einir um alla fegurðina
„Ég gekk í Grunnskólann á Hellu og fór síðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég lauk BA í heimspeki og hagfræði, MBA í viðskiptafræði og MSc meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja.
Yfir sumartímann á námsárunum starfaði ég hjá Landsvirkjun við girðingavinnu, gróðursetningar, vatnamælingar og önnur tilfallandi verkefni uppi á hálendi Íslands. Oft var farið í Landmannalaugar að kvöldi til, þar voru engir ferðamenn og við starfsmennirnir einir um alla fegurðina, þetta var dásamlegt,“ segir Sveinn og brosir.
„Einnig starfaði ég hjá alþjóðasviði Seðlabanka Íslands þegar ég stundaði nám í hagfræði.
Samhliða mastersnámi starfaði ég í 11 ár á fasteignasölu föður míns, það var góður skóli.“

Kynntust í Pekingháskóla
Eftir útskrift úr HÍ vann Sveinn Óskar að rannsóknum um efnahagsmál í Asíu í Pekingháskóla ásamt því að stunda nám í kínversku. Hann starfaði einnig sem blaðafulltrúi Morgunblaðsins í Kína.
Í háskólanum kynnist hann Samsidanith Chan eða Danith eins og hún er ávallt kölluð. Hún er fædd árið 1978 í Kambódíu og er lögfræðingur að mennt. Þau hófu sambúð árið 2000 og giftu sig ári seinna. Þau eiga saman tvær dætur, Sylvíu Gló f. 2001 og Ingrid Lín f. 2003.
Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast og eins fara þau mikið í bústaðinn í Biskupstungum. Í frítíma sinnir Sveinn ritstörfum, bóklestri, skógrækt og stangveiði.
Sveinn rekur lítið fjölskyldufyrirtæki og vinnur endrum og sinnum að gerð eignaskiptayfirlýsinga. Eins sinnir hann ráðgjöf bæði hér heima og erlendis er varðar greiningavinnu hvers konar sem og áætlanagerð.

Leitum að skynsamlegustu lausninni
„Ég hef starfað lengi í pólitík, ég sat bæði sem varamaður og aðalmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), var formaður Fjölnis (FUS) í Rangárþingi um árabil og ég var einnig formaður félags Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Eftir breytingar á áherslum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega hér í Mosfellsbæ, sá ég mér ekki fært að starfa fyrir flokkinn lengur.
Í dag starfa ég sem bæjarfulltrúi Miðflokksins en stofnfundur flokksins hér í Mosfellsbæ var haldinn 15. febrúar 2018. Við viljum veita og varðveita stöðuleika og standa vörð um vel ígrundaða stefnu flokksins enda flokkur framfara og raunsæis. Þetta er flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir. Við leitum ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Það er af mörgu að taka og við lítum á mótlæti sem orku sem ber að virkja.“

Það þarf að fara vel með skattféð
„Ég sinni starfi mínu fyrir Mosfellinga með því að sækja bæjarstjórnarfundi og aðra fundi sem varðar málefnin er snúa að sveitarstjórnarmálum. Má þar helst nefna málefni eldri borgara, grunnskólabarna og málefni er snúa að fjárhag sveitarfélagsins.
Það skiptir öllu máli að sveitarfélög hagi fjármálum sínum með þeim hætti að fólk skynji að vel sé farið með skattféð. Sjálfstæði sveitarfélags er ekkert sé fjárhagur þess ekki sterkur og það geti ekki eitt og sér stuðlað að velferð aldraða, barna og sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði og innviðum.
Okkar starf er að benda á það sem betur má fara og gæta þess að það sé gert með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.“

Mikilvægt að vinarþel ríki
„Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur fundað um hin ýmsu málefni eins og samgöngumál og málefni ungra drengja sem mér eru mjög svo hugleikin enda alvarleg þróun hvað sjálfsmorðstíðni þeirra á Íslandi er há.
Ég hef, sem faðir og eiginmaður, afskaplega mikinn áhuga á jafnréttismálum kynjanna, ég á líka marga vini sem eru samkynhneigðir og vil ég að starf mitt í stjórnmálum miði að því að bæta stöðu þessa hóps almennt. Ég legg ríka áherslu á í stjórnmálum að þrátt fyrir pólitísk átök og mismunandi skoðanir fólks sé mikilvægt að vinarþel ríki á milli manna.
Mér hefur líkað mjög vel að starfa sem bæjarfulltrúi, ég vona að þekking mín og reynsla komi til með að nýtast mér í starfi. Það er sannarlega af nægu að taka í 12.000 manna bæjarfélagi sem fer ört vaxandi,“ segir Sveinn Óskar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 25. júní 2020
ruth@mosfellingur.is

 

MotoMos í endurnýjun lífdaga

Ný stjórn MotoMos: Pétur Ómar, Egill Sverrir, Jóhann Arnór, Örn og Leon.

Þann 13. maí var kosin ný stjórn í Moto­Mos og við tók ein yngsta stjórn landsins hjá félagi innan MSÍ (Mótorhjóla- & vélasleðasambandi Íslands sem er hluti af ÍSÍ).
Formaður er Jóhann Arnór Elíasson en aðrir stjórnarmenn eru Leon Pétursson, Egill Sverrir Egilsson, Pétur Ómar Þorsteinsson og Örn Andrésson. Varamenn í stjórn eru þeir Egill Sveinbjörn Egilsson og Einar Sverrir Sigurðsson.
Á bakvið stjórn félagsins eru öflugir foreldrar og aðrir velunnarar félagsins. Stjórnina skipa eingöngu heimamenn héðan úr Mosfellsbæ. Með innkomu nýrrar stjórnar má segja að MotoMos gangi í ákveðna endurnýjun lífdaga en takmörkuð starfsemi hefur verið í gangi síðustu þrjú ár.

Grettistak í viðhaldi á svæðinu
Lyft hefur verið grettistaki í viðhaldi á svæðinu sem var komið til ára sinna. Allt húsið hefur verið tekið í gegn, frágangur á dreni á svæði bættur og nú standa yfir miklar viðgerðir á vökvunarkerfi.
MotoMos-brautin var opnuð í fyrsta sinn í ár laugardaginn 13. júní en sjaldan eða aldrei hefur brautin verið opnuð jafn seint á árinu eftir að hún tók til starfa. Stafar það af aðkallandi þörf á viðhaldi sem stendur enn yfir.

Vilja ná til nýrra og ungra iðkenda
Markmið nýrrar stjórnar er að ná til nýrra ungra iðkenda í Mosfellsbæ og koma þeim á einn stað til að stunda þessa skemmtilegu en krefjandi íþrótt. Liður í því er að hafa gott æfingasvæði. Fyrir þá sem þekkja ekki þá er motocross talin ein allra erfiðasta íþrótt í heimi í dag.
Það er mjög misjafnt í hvaða íþróttum börn finna sig. Sannað er að fáar íþróttagreinar höfða jafn mikið til barna með athyglisbrest og motocross.
Nýlega setti félagið á laggirnar æfingar fyrir börn og unglinga og fara þær fram tvisvar sinnum í viku út sumarið. Hver æfing stendur í minnst tvo tíma og er í höndum aðila sem er með þjálfararéttindi og er einnig crossfit-þjálfari í Crossfit Reykjavík.

Halda Íslandsmeistaramót í Mosó
Á döfinni er fyrsta Íslandsmeistaramótið í motocrossi sem haldið verður 27. júní, en ekki hefur verið haldið Íslandsmeistaramót hjá MotoMos síðan 2017. Gert er ráð fyrir um 100 keppendum í öllum aldursflokkum og fjölda áhorfenda en frítt er á svæðið fyrir áhugasama.
MotoMos skorar á þá sem ekki hafa fylgst með svona keppni að koma og sjá bestu ökumenn landsins takast á í afar skemmtilegri braut. Það er einstök aðstaða til að fylgjast með keppninni í MotoMos og eru fáar brautir jafn áhorfendavænar en útsýni er yfir alla brautina frá klúbbhúsi.