Snyrtistofan BeautyStar opnar í Sunnukrika

Snyrtistofan BeautyStar opnaði með pomp og prakt á bæjarhátíðinni Í túninu heima en stofan er staðsett í Sunnukrika 3, fyrir aftan Apótekarann.
Það er snyrtifræðingurinn Ágústa Nellý Hafsteinsdóttir sem er eigandi stofunnar en þess má geta að Ágústa er að láta áratugagamlan draum rætast.
„Ég hef starfað í faginu í rúm 20 ár og alltaf langað til að opna mína eigin stofu. Ég er að koma úr krabbameinsveikindum og í þessu veikindaferli þá ákvað ég að nú væri tími til að láta verkin tala og draumana rætast. Ég er í endurhæfingu og ætla mér að sigrast á þessu,“ segir Ágústa sem er í skýjunum með viðtökurnar og segir að fullt hafi verið út að dyrum í opnuninni.

Brúnkusprautun og göt í eyru
„Við bjóðum upp á alla almenna snyrtingu, litun og plokkun, hand- og fótsnyrtingu, vaxmeðferðir, naglaásetningu og fleira. Við bjóðum upp á brúnkusprautun sem ég held að sé nýjung hér í Mosfellsbæ. Við getum sett göt í eyru og í framtíðinni munum við bjóða upp á nudd og ýmsar líkamsmeðferðir.
Við erum í frábæru húsnæði, stofan er 180 fm rúmgóð og björt. Hér er pláss fyrir alla og aðkoman hentar öllum hvort sem fólk notast við hjólastól eða göngugrind.“

20% afsláttur í september
Opnunartilboð BeautyStar er 20% afsláttur á öllum meðferðum sem pantaðar eru í september. „Við erum uppfullar af hugmyndum, nú er opnunartilboðið í gildi og okkur langar að taka þátt í bleikum október með einhverjum hætti þar sem það málefni stendur mér nærri.
Við verðum með sérstakt tilboð á öllum bleikum vörum sem við bjóðum upp á og viljum gefa áfram af okkur til Krabbameinsfélagsins. Svo langar okkur að gera okkar eigið jóladagatal og fleira í þeim dúr. Okkur langar að sjá stofuna okkar vaxa og dafna í takt með bæjarbúum, tökum fagnandi á móti hugmyndum og viljum gera okkar besta til að verða við þörfum og óskum Mosfellinga,“ segir Ágústa að lokum en hægt er að panta tíma í gegnum Noona.is eða í síma 8680844.

Persónuupplýsingar í dreifingu

Kennarinn sem átti hlut að máli þegar persónuupplýsingar um nemendur Lágafellsskóla fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum er farinn í leyfi frá kennslu.
Skólayfirvöld líta málið alvarlegum augum og það er til skoðunar hjá Persónuvernd.
Upplýsingarnar komust í hendur nemanda þegar hann fékk lánaða stílabók til að skrifa í hjá kennara sínum.
Í bókinni, sem kennarinn taldi vera auða, fann nemandinn tvær blaðsíður með upplýsingum um nemendur í 8. bekk. Hann tók myndir af þeim og setti á samfélagsmiðla. Umræddar upplýsingar hafði kennari skráð í minnisbók í kjölfar skilafundar í ágúst þegar árgangurinn var að flytjast milli stiga innan skólans.

Verkefnið fram undan að endurvekja traust
Lísa Greipsson skólastjóri segir að næstu daga verði lögð áhersla á að hlúa að þeim nemendum sem málið snertir með beinum hætti. Hún segir mikilvægasta verkefnið fram undan að endurvekja traust.
Ljóst þykir að skráning, innihald og orðalag minnispunktanna sem ritaðir voru í minnisbókina voru settir fram á ófaglegan hátt og þannig óásættanlegir og óviðeigandi.
Atvikið er harmað og skólinn og skólayfirvöld biðjast auðmjúklega afsökunar.

Vellíðan á líkama og sál helst í hendur

Guðrún Ásta Húnfjörð heilsunuddari og snyrtifræðingur sá tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu.

Guðrún Ásta stofnaði Dharma nudd- og snyrtistofu árið 2020. Þar hefur henni tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft þar sem áhersla er lögð á slökun og vellíðan.
Guðrún býður einnig upp á kennslu í nuddi ásamt því að vera með ráðgjöf m.a um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl.

Guðrún Ásta er fædd í Keflavík 16. mars 1979. Foreldrar hennar eru Brynja Sif Ingibersdóttir og Óskar Ingi Húnfjörð eigendur Íslandshúsa ehf.
Guðrún á tvö systkini, Auði Ingibjörgu f. 1976 og Brynjar Marinó f. 1983.

Tókum þátt eftir aldri og getu
„Ég ólst upp á Blönduósi og á mjög góðar minningar þaðan. Það var gott að búa í litlum bæ þar sem maður gat gengið á milli staða og þurfti aldrei að láta skutla sér neitt. Allir þekktu alla og það var óþarfi að læsa húsunum. Ég hefði samt alveg viljað fleiri tækifæri til tómstunda en það var því miður takmarkað framboð á þeim.
Mínar helstu æskuminningar snúast um að vinna með fjölskyldu minni í fjölskyldufyrirtækjunum sem voru allnokkur. Ég kem af miklu athafnafólki sem var og er alltaf að og fjölskyldan vann mikið saman, hvort sem það var að baka í Brauðgerðinni Krútt, þjóna á Sveitasetrinu, elda og afgreiða í Blönduskálanum, hreinsa og pressa í efnalauginni, selja snyrtivörur í versluninni Hjá Brynju eða afgreiða áfengi í vínbúðinni sem móðir mín sá um. Nú eða gera upp hótelið og húsið sem við bjuggum í, það var alltaf nóg að gera og við systkinin tókum þátt eftir aldri og getu.“

Það þurfti að stía okkur í sundur
„Ég gekk í Grunnskóla Blönduóss og var ánægð alla skólagönguna enda alltaf átt auðvelt með að læra. Í elstu bekkjum grunnskólans var ég ein af þeim sem þurfti svolítið að sussa á og það þurfti stundum að stía okkur vinkonunum í sundur sökum ófriðar í kennslustofunni, það var bara svo gaman að vera til,“ segir Guðrún og brosir. „Á sumrin var maður mestmegnis að leika sér úti við, það var ekki mikið af námskeiðum og sumarstörfum eins og er núna, maður lék svolítið lausum hala.
Nokkur sumur var ég send með rútu til afa og ömmu í Keflavík ásamt systur minni og við vorum hjá þeim nokkrar vikur í senn. Ég var tólf ára fyrsta sumarið mitt í bæjarvinnunni og svo starfaði ég í fjölskyldufyrirtækjunum.
Fyrsta árið mitt í framhaldsskóla tók ég á Sauðárkróki og bjó þá á heimavistinni. Ég flutti síðan suður og leigði herbergi með vinkonu minni í miðbæ Reykjavíkur og hóf nám í snyrtifræði.“

Flutti til Danmerkur
Eftir að Guðrún Ásta lauk samningstíma og sveinsprófi í snyrtifræðinni fór hún til New York borgar í hálft ár og starfaði þar sem au-pair og sem einkasnyrtifræðingur og nuddari hjá amerískri fjölskyldu. Þaðan fór hún til Danmerkur og var í hálft ár hjá foreldrum sínum sem voru í námi í Horsens, þar lærði hún dönsku og starfaði við þrif. Guðrún fór aftur heim til Íslands, kláraði stúdentinn og flutti svo til Kaupmannahafnar þar sem hún bjó í sjö ár.
„Ég lærði viðskipta- og markaðshagfræði úti og fékk síðan starf sem verkefnastjóri í markaðsdeild Nordea banka, hjá þeim starfaði ég í fjögur ár. Eftir að ég flutti aftur heim til Íslands starfaði ég sem vörumerkja- og markaðsstjóri í sjö ár.“

Heimakær fjölskylda
Eiginmaður Guðrúnar Ástu heitir Þorsteinn Kr. Haraldsson, hann er eigandi að Hreinum Görðum og Hoist vinnulyftum. Þau eiga tvo syni, Ísak Elí Húnfjörð f. 2011 og Dag Frey Húnfjörð f. 2013.
„Við erum heimakær fjölskylda og okkur finnst notalegt að spila og horfa saman á bíómyndir. Við hjónin höfum aðeins stundað fjallgöngur en sumarið er háannatími hjá Þorsteini svo að við gerum ekki eins mikið af því og við vildum. Við eigum líka stóra fjölskyldu sem við verjum miklum tíma með og bjóðum gjarnan litlum frænkum og frændum í gistingu til okkar um helgar.
Ég er svo að prjóna heilmikið og hekla og á það til að föndra og mála, ég hef líka mikinn áhuga á alls kyns heilsu- og geðrækt.“

Lít á kulnunina sem tækifæri
Fyrir sex árum lenti Guðrún í alvarlegri kulnun og var í veikindaleyfi í rúmt ár. Hún tók þá ákvörðun að líta á kulnunina sem tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu þegar hún var komin upp úr hjólförunum sem henni fannst hún vera föst í.
„Ég skráði mig í heilsunuddaranám og tók það nám samhliða bataferlinu. Um leið og ég kláraði námið 2020 ákvað ég að opna Dharma nuddstofu hér í Mosfellsbæ og tveimur árum síðar ákvað ég að bjóða líka upp á almenna snyrtiþjónustu. Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir viðtökurnar sem bæjarbúar hafa sýnt mér,“ segir Guðrún Ásta og brosir.

Hef styrkst meira í þeirri trú
Guðrúnu hefur tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft á stofunni hjá sér þar sem áhersla er lögð á slökun og endurnæringu. „Ég nýti alla mína menntun og lífsreynslu til að bæta heilsu, útlit og líðan fólks, enda hef ég alltaf hallast að því að vellíðan á líkama og sál haldist í hendur. Eftir reynslu mína af kulnun hef ég styrkst enn meira í þeirri trú.
Ég býð einnig upp á kennslu í sjálfsnuddi og ungbarnanuddi og veiti ráðgjöf m.a. um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl. Það jákvæða í þessu öllu saman er að það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl.
Ég sinni líka kennslutímum á Heilsunuddarabraut Fjölbrautaskólans við Ármúla, þá helst nuddmeðferðir, leiðsögn í stofnun og rekstri nuddstofa og sjálfsrækt heilsunuddara. Ég er einnig í stjórn Félags íslenskra heilsunuddara.“

Tilgangur lífsins
En hvaðan kemur nafnið á stofunni, Dharma? „Það kemur úr búddisma og þýðir tilgangur lífsins. Samkæmt Dharma lögmálinu erum við öll með einstaka hæfileika sem við síðan tjáum á okkar einstaka hátt, hvert og eitt. Þegar við nýtum þessa hæfileika í þjónustu við aðra upphefjum við eigin anda og upplifum ótakmarkaða sælu og gnægð. Það má því með sanni segja að mitt „Dharma“ sé að hjálpa fólki til bættrar heilsu, jafn að innan sem utan.“

Bæjarlistamenn Mosfellsbæjar 2023

Þórhallur Árnason, Karl Tómasson, Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson. 

Á sér­stakri há­tíð­ar­dag­skrá í lok bæj­ar­há­tíð­ar­inn­ar Í tún­inu heima var hljóm­sveit­in Gildr­an út­nefnd bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar árið 2023.
Menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd Mos­fells­bæj­ar sér um val bæj­arlista­manns ár hvert og veitti Hrafn­hild­ur Gísla­dótt­ir formað­ur nefnd­ar­inn­ar hljóm­sveit­inni Gildrunni verð­launa­grip eft­ir lista­kon­una Ingu El­ínu ásamt við­ur­kenn­ing­ar­fé sem fylg­ir nafn­bót­inni. Sveit­in er skip­uð þeim Þór­halli Árna­syni, Karli Tóm­as­syni, Birgi Har­alds­syni og Sig­ur­geiri Sig­munds­syni.
Hljóm­sveit­in Gildr­an var stofn­uð 1985 í Mos­fells­bæ og sam­an­stend­ur að stór­um hluta af ein­stak­ling­um sem hófu sinn tón­list­ar­fer­il sem ung­ling­ar í Gagn­fræða­skóla Mos­fells­bæj­ar og hef­ur átt því sem næst órofa fer­il síð­an þá. Gildr­an starf­aði í ára­tugi í Mos­fells­bæ og er órjúf­an­leg­ur hluti af menn­ing­ar­lífi bæj­ar­ins.
Gildr­an hef­ur gef­ið út sjö plöt­ur og mun koma fram á tón­leik­um í Hlé­garði í haust.
Hljóm­sveit­in hef­ur stutt við menn­ing­ar­líf í Mos­fells­bæ á liðn­um árum og leik­ið á fjölda styrkt­ar­tón­leika fyr­ir fé­laga­sam­tök í Mos­fells­bæ. Gildr­an samdi Aft­ur­eld­ing­ar­lag­ið og veitti jafn­framt fé­lag­inu veg­lega pen­inga­gjöf vegna fyrsta gervi­grasvall­ar­ins í Mos­fells­bæ svo nokk­uð sé nefnt.
Gildran þakkaði fyrir sig á dögunum með því að setja í loftið lagið „Veturinn verður hlýr“ sem er endurútgáfa á lagi sem kom út á safnplötu fyrir 20 árum.
„Við erum sannarlega þakklátir fyrir þann mikla meðbyr sem við höfum fengið að undanförnu og hlökkum mikið til að sjá ykkur á tónleikum haustsins.“

Hvert næst?

Við fórum 14 saman úr Kettlebells Iceland æfingahópnum til Austurríkis um síðustu helgi til að taka þátt í Spartan Race þrautahlaupi. Kaprun þrautahlaupið þykir með þeim erfiðari en það fer að mestu fram í háum skíðabrekkum og hækkunin mikil. Þrautirnar eru fjölbreyttar og flestar krefjandi. Þetta var frábær ferð, allir kláruðu sín hlaup með stæl og komu stoltir og ánægðir í mark.

Þetta var erfitt. Það verður að segjast. Það erfiðasta sem ég hef gert, sagði einn. Við þurftum öll að kafa djúpt í orkubrunninn til þess að klára þetta. Sumir föðmuðu tré og fögnuðu hinu kyngimagnaða umhverfi, aðrir blótuðu og tóku erfiðustu kaflana á uppsafnaðri reiðiorku. Báðar aðferðir virkuðu.

Það sem mér finnst skemmtilegast og mest gefandi við að taka þátt í svona áskorunum með góðu fólki er sjá fólki takast að gera hluti sem það hélt einhvern tíma að það gæti ekki. Það er ekkert sem toppar það. Mér finnst líka ótrúlega gaman að leysa þrautirnar, klára þær og ef ég næ ekki að klára þær, finna leiðir til þess að gera það í næsta þrautahlaupi. Greina hvað ég þarf að bæta og æfa það reglulega. Ég einbeitti mér að því fyrir þetta þrautahlaup, að æfa mig fyrir ákveðnar þrautir sem ég hafði verið í veseni með í síðustu þrautum. Og tilfinningin að upplifa það takast var geggjuð, ólýsanleg eiginlega.

En þessi félagsskapur, maður lifandi! Margar sögur eiga eftir að lifa lengi, bjallan á toppnum, straumharða áin og ljónhressi hvetjarinn svo nokkrar séu nefndar. Það er magnað að vera í félagsskap fólks sem er til í svona léttruglaðar áskoranir, þorir að stíga út fyrir þægindarammann og búa saman til orku sem er hvetjandi fyrir einstaklingana í hópnum. Það tók okkur ekki langan tíma að byrja að pæla í næsta þrautahlaupi, spurningin er ekki hvort heldur hvenær!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. september 2023

 

 

Nýr kórstjóri Karla­kórs Kjalnesinga

Lára Hrönn Pétursdóttir hefur verið ráðin kórstjóri hjá Karlakór Kjalnesinga en hún tekur við keflinu af Þórði Sigurðarsyni sem lætur af störfum vegna flutninga út á land.

Lára hefur víðtæka reynslu úr tónlistarlífinu, hefur komið að stjórnun barnakóra og sönghópa, hún þekkir aðeins til starfsins hjá Karlakór Kjalnesinga en hún hefur komið fram með kórnum á tónleikum. Lára Hrönn hefur lokið 8 stigum í söng og þrælvön að koma fram, bæði með einsöng og kórum.

Lára Hrönn er búsett í Mosfellsbæ ásamt fjölskyldu sinni og þess má geta að hún gegndi hlutverki fjallkonu Mosfellsbæjar á 17. júní í ár.

Hjálmurinn bjargaði miklu

Rúnar Óli var tvo sólarhringi inni á gjörgæslu.

Rúnar Óli Grétarsson, 15 ára Mosfellingur, lenti í alvarlegu reiðhjólaslysi þann 15. ágúst í Álafosskvosinni.
Rúnar Óli var á leið heim úr vinnu en hann hefur verið að vinna sem leiðbeinandi við skátanámskeið í sumar. Hann missir stjórn á hjólinu á mikilli ferð og stingst beint fram fyrir sig með alvarlegum afleiðingum.
„Sjúkrabíllinn var fljótur á staðinn og í fyrstu virtust meiðslin ekki eins alvarleg og síðar kom í ljós. En Rúnar Óli hlaut miklar innvortis blæðingar, rifið milta, úlnliðsbrot á annarri hendi og stóran og ljótan skurð á hinni hendinni auk þess að vera marinn og krambúleraður.
Hann var tvo sólarhringa á gjörgæslu og var í framhaldinu fluttur á Barnaspítalann þar sem hann er ennþá en vonast til að vera kominn heim fyrir næstu helgi,“ segir Eva Ósk Svendsen móðir Rúnars Óla.

Afleiðingar slyssins hefðu verið alvarlegri
Þau mæðgin vilja fyrst og fremst greina frá þessu slysi í forvarnaskyni því hjálmur Rúnars Óla bjargaði miklu. Rúnar Óli er virkur í björgunarsveitinni og vill því leggja mikla áherslu á forvarnir eins og að vera með hjálm á hjóli, alveg sama á hvað aldri einstaklingurinn er.
„Læknarnir á gjörgæslunni töluðu um að það væri ekki sjálfsagt að 15 ára unglingsdrengur væri með hjálm en að það væri alveg á hreinu að afleiðingar slyssins hefðu orðið meiri og alvarlegri ef hann hefði ekki verið með hjálminn.
Sem betur fer slapp hann við að fara í aðgerð vegna innvortis blæðinga en fram undan er langt og strang bataferli,“ segir Eva Ósk að lokum og vill koma á framfæri þakklæti fyrir stuðning til fjölskyldunnar.

Þakklát fyrir traustið

Regína Ásvaldsdóttir tók við sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ 1. september 2022. Hún býr yfir víðtækri reynslu af stjórnun og rekstri á vettvangi sveitarstjórnarmála og hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og starfshópum.

Regína segist þakklát fyrir það traust sem henni var sýnt með ráðningunni, fram undan séu stór verkefni, meðal annars í uppbyggingu og stefnumótun til framtíðar.

Regína fæddist í Reykjavík 30. júní 1960. Foreldrar hennar eru þau Erna María Jóhannsdóttir fv. þjónustufulltrúi hjá Sýslumanninum í Kópavogi og Ásvaldur Andrésson bifreiðasmiður en hann lést árið 2020.

Regína á tvær systur, Hönnu Sveinrúnu f. 1956 og Ragnhildi f. 1966.

 

Varði mörgum stundum í Birkihlíð

„Ég bjó fyrstu árin mín í Birkihlíð í Kópavogi með foreldrum mínum og eldri systur á meðan foreldrar mínir byggðu sér hús í Löngubrekku sem var skammt frá. Í Birkihlíð ráku afi minn og amma gróðrarstöð og þar varði ég mörgum stundum á mínum uppvaxtarárum.

Ég gekk í Kópavogsskóla og síðar Víghólaskóla, lærði að lesa fjögurra ára gömul og leiddist oft í skólanum fyrst árin því mér fannst ég ekki hafa nóg fyrir stafni, ég var frekar baldin sem barn og unglingur.

Ég vann alltaf á gróðrarstöðinni á vorin frá 10 ára aldri en seinni hluta sumars var ég í alls konar störfum, m.a. að passa börn í Neskaupstað, í sveit á Sómastöðum við Reyðarfjörð og síðar við afgreiðslustörf í Njarðarbakaríi og í mötuneytinu á Hrafnistu.“

 

Meistarapróf frá Skotlandi

„Eftir landspróf fór ég í Menntaskóla Kópavogs en á sumrin starfaði ég á hóteli í Balestrand í Sognfirði í Noregi. Eftir annan bekk tók ég ársfrí með vinkonum mínum og við fórum í langa Evrópuferð eftir sumarið í Balestrand. Við störfuðum á vínræktarbúgarði í Suður-Frakklandi og síðan í skíðabænum Geilo í Noregi. Ég kláraði svo stúdentsprófið árið 1981.“

Eftir útskrift úr menntaskóla fór Regína í nám til Noregs og lærði afbrotafræði og félagsráðgjöf. Hún bætti svo við sig diplóma námi í opinberri stjórnsýslu og eftir það fór hún til Skotlands í háskólann í Aberdeen þar sem hún tók meistarapróf í hagfræði með áherslu á breytingastjórnun og nýsköpun.

 

Í frábærum golfhópi

Regína er gift Birgi Pálssyni deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu en þau kynntust árið 1992. Regína á tvær dætur frá fyrra hjónabandi, Ernu Maríu f. 1981 sem starfar sem flugmaður hjá Icelandair og Ýr f. 1984 sem er fatahönnuður. Birgir á eina dóttur,  Auði Kolbrá f. 1989, en hún starfar sem lögfræðingur hjá Kópavogsbæ.

„Ég hef brennandi áhuga á starfinu mínu og öllu því sem viðkemur rekstri Mosfellsbæjar og það tekur svolítið yfir núna,“ segir Regína aðspurð um áhugamálin. „Golf er aðaláhugamál okkar hjóna en Birgir stundar það betur en ég þótt mér finnist dásamlegt á vellinum þegar ég gef mér tíma. Við erum í frábærum golfhópi með vinum okkar og ferðumst mikið saman. Ég er að sjálfsögðu búin að skrá mig í Golfklúbb Mosfellsbæjar og finnst skemmtilegt að taka kvöldstund á Bakkakotsvellinum.

Við erum líka í gönguhópi á vegum Ferðafélagsins en mér finnst mjög gaman að klífa fell og fjöll og svo keyptum við okkur lítinn sumarbústað í landi Efstadals fyrir þremur árum og höfum verið að gera hann upp og það fer nú töluverður tími í það líka.“

 

Þakklát fyrir traustið

Regína hefur tekið að sér ýmis krefjandi störf í gegnum tíðina, hún starfaði sem félagsmálastjóri í Skagafirði, við velferðarþjónustu, stýrði þjónustumiðstöðinni Miðgarði í Grafarvogi, var skrifstofustjóri og staðgengill borgarstjórans í Reykjavík auk þess að sinna víðtækum stjórnkerfisbreytingum, bæjarstjóri á Akranesi og sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Auk stjórnunarstarfa hefur Regína verið stundakennari við Háskólann á Bifröst og við Háskóla Íslands.

„Ég hóf störf í Mosfellsbæ 1. september 2022 og er gríðarlega þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt að fá að stýra þessum fallega bæ. Mosfellsbær hefur orð á sér fyrir að vera mjög fjölskylduvænn bær og það er mikilvægt að þær áherslur haldi sér.

„Ég er í einstaklega góðu sambandi við oddvitana þrjá sem mynduðu meirihlutann, þær Höllu Karen, Önnu Sigríði og Lovísu og við ræðum okkur í gegnum mál á hreinskiptinn hátt sem ég met mikils.

Ég er líka ánægð með samstarfið við alla bæjarstjórnina og hef lagt mig fram við að kynna stór mál sem eru í gangi á sérstökum vinnufundum með öllum fulltrúum hvort sem þeir eru í meiri- eða minnihluta. Auðvitað kastast stundum í kekki eins og oft vill verða í pólitík vegna einstakra mála en í langflestum tilvikum tekst að ná sátt um mikilvæg mál.“

 

Góður hópur starfsfólks

„Það er einstaklega góður hópur fólks sem starfar hjá Mosfellsbæ, hópur sem hefur mikinn metnað. Stofnanir bæjarins eru mjög vel reknar með sterkum stjórnendum en auðvitað getur ýmislegt komið upp á eins og óvæntar framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði.

Rekstur Skálatúns hefur verið erfiður en það náðist að lenda því máli farsællega í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og innviðaráðuneytið. Á landi Skálatúns munu rísa byggingar sem eru ætlaðar til þjónustu við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra og Mosfellsbær mun þjónusta fatlaða íbúa Skálatúns eins og aðra fatlaða einstaklinga sem búa í bænum.“

 

Mikil uppbygging

„Breytingar hafa verið gerðar á stjórnsýslu bæjarins sem ég vona að verði til góðs þar sem við leggjum meðal annars áherslu á stafrænar breytingar. Það sem við erum í vanda með eins og mörg sveitarfélög sem eru í örum vexti er skuldastaðan sem er erfið á þessum verðbólgutímum. Hér hefur verið mikið byggt upp, meðal annars nýr grunnskóli í Helgafellslandi og við vorum að skrifa undir samning við fyrirtækið Alefli ehf.  í Mosfellsbæ um byggingu nýs leikskóla. Lóðin er erfið og þetta verða því miður kostnaðarsamar framkvæmdir en við munum fá mjög vandaðan og góðan 150 barna leikskóla í hverfið.

Nýtt gervigras var sett á æfingavöllinn við Varmá og við erum að skoða frekari framkvæmdir á Varmársvæðinu. Þá er að hefjast uppbygging á viðbyggingu við hjúkrunarheimilið í bænum með 66 viðbótarrýmum.“

 

Í túninu heima um helgina

„Fjölmargt skemmtilegt er fram undan, menningarlífið blómstar og Hlégarður hefur fengið aukið hlutverk eftir að við réðum Hilmar Gunnarsson sem viðburðastjóra. Bæjarhátíðin Í túninu heima er svo á næsta leiti, hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá.

Við vorum að ráða fleira fólk inn í stjórnendateymið okkar og væntum mikils af þeim góða hópi. Það er því ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt hér í Mosfellsbæ með áframhaldandi uppbyggingu í þágu bæjarbúa,” segir Regína og brosir þegar við kveðjumst.

 

Pop-up kaffihús í Lágafellslaug

Fimmtudaginn 24. ágúst opnar Kaffisæti pop-up kaffihús í Lágafellslaug. Eftir að hafa byrjað mjög seint að drekka kaffi hefur Andrés Andrésson hent sér út í djúpu laugina og meira til. Baristanámskeið í Flórens á Ítalíu, heimsókn í kaffiræktun á Gran Canaria og samtöl við fólk úr bransanum.
„Þetta eru ákveðin kaflaskil hjá mér eftir að hafa unnið skrifstofustarf síðustu 15 ár. Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað allt annað. Það er mikil spenna í bland við hæfilegt magn af stressi fyrir þessu öllu.“

Ég elska góðan espresso
Hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Ég á það til að byrja ný áhugamál af miklum móð en oft hverfur áhuginn á nokkrum vikum. Það gerðist hins vegar ekki með kaffið, og áður en ég vissi af var ég byrjaður að lesa doktorsverkefni um hvernig á að gera espresso. Ég elska góðan espresso.
„Síðasta vetur ákvað ég að best væri að fara til mekka espressogerðar og læra af meisturunum á Ítalíu og ég sé sko ekki eftir því. Það er miklu skemmtilegra að hitta fólk og læra af því heldur en að horfa endalaust á YouTube. Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið.“

Getur aukið lífsgleðina
Hvernig er ítölsk kaffimenning miðað við íslenska?
„Fyrir það fyrsta þá er kaffi bara espresso. Ekkert sem heitir espresso. Magn af kaffi, og þar af leiðandi koffíni, er minna í hverjum bolla. Það leyfir manni að drekka fleiri kaffidrykki yfir daginn, sem er kostur fyrir kaffiþyrsta. Einnig er vinsælt að hittast í kaffi en það eru miklu styttri hittingar heldur en hér heima. Kannski bara 10 mín, rétt til að taka stöðuna á vinunum. Svo fleiri kaffibollar og fleiri samtöl, það getur bara aukið lífsgleðina.“

Gera eitthvað fyrir Mosfellinga
En af hverju Lágafellslaug?
„Ég vildi einfaldlega gera eitthvað skemmtilegt fyrir Mosfellinga. Mér datt Lágafellslaug í hug þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar en mér fannst vanta að geta fengið sér gott kaffi. Ég ræddi við bæinn og allir tóku bara vel í þessa hugmynd.“
Kaffisæti verður með opið 10-14 frá fimmtudeginum 24. ágúst og fram á sunnudag. Svo verður opið á sama tíma fyrstu þrjár helgarnar í september (laugardag og sunnudag).

Kjúllinn klekst út

Ásgeir, Einar og Steindi.

„Okkur langaði fyrst og fremst að taka þátt í þróa og stækka bæjarhátíðina enn frekar,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr.
„Markmiðið er að bjóða upp á eitthvað nýtt á hátíðinni og vonandi byggja ofan á það á komandi árum,“ bæta Ásgeir Jónsson og Einar Gunnarsson við en þremenningarnir standa fyrir viðburðinum Kjúllanum sem fer fram föstudaginn 25. ágúst á bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.

Kjúllagarðurinn fram að brekkusöng
„Á Kjúllanum er eitthvað fyrir alla. Við opnum Kjúllagarðinn kl. 15.00 á föstudaginn og öll dagskrá miðast svo við setningarathöfnina sem bæjarbúar þekkja svo vel og brekkusönginn í Álafosskvos,“ segir Ásgeir en á dagskrá eru matarvagnar, bar og ýmis afþreying fyrir fullorðna og börn.
„Við verðum með geggjaða aðstöðu í garðinum og við viljum fá bæjarbúa í stuðið til okkar áður en haldið er í Kvosina.
Meistaraflokkarnir í handbolta henda í borgara, það koma matarvagnar frá Götubitanum, Kastalar verða með hoppukastala, teygjurólu, vatnabolta og veltibílinn verður á staðnum,“ segir Ásgeir og Steindi bætir við: „Þeir sem eru svo í algjöru stuði henda sér inn á Tix.is, kaupa miða og mæta svo í partí í Hlégarði eftir brekkuna.“

Gamla góða Mósó-partíið
Aðspurðir hvaða áskoranir fylgi svona verkefni hlæja þeir félagar. „Aðeins fleiri en komu upp í hugann þegar við vinirnir settumst niður yfir einum köldum snemma í sumar,“ segir Einar.
„Við vorum ákveðnir í að henda í alvöru partí og erum að henda upp geggjuðu hljóðkerfi, ljósum og öllum pakkanum sem þarf undir þetta line-up,“ segir Steindi en ásamt honum koma fram Auðunn Blöndal, Aron Can, Bríet og Sprite Zero Klan.
„Við viljum fá fólk á öllum aldri. Það hefur alltaf verið einn helsti kostur Mosó að hér þekkjast flestir og geta skemmt sér saman. Þetta hefur verið rauður þráður í skemmtanalífi okkar Mosfellinga um árabil,“ bætir Ásgeir við.

Kjúklingabærinn
En hvaðan kemur nafnið?
„Kjúllinn hefur loðað við okkur lengi enda handboltaliðin okkar árum saman verið studd dyggilega af bændum hér í bæ, frosnir kjúllar flogið inn á völlinn og fleira skemmtilegt. Okkur fannst það bara smellpassa,“ segja þremenningarnir og hlakka til helgarinnar.

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar haldin um helgina

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.   Mynd/RaggiÓla

Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 24.-27. ágúst. Hátíðin heppnaðist gríðarlega vel í fyrra eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival og Pallaball, en einnig opið hús á slökkvistöðinni við Skarhólabraut sem notið hefur mikilla vinsælda.

Setning og ullarpartý á föstudagskvöld
Dagskrá hátíðarinnar verður veglegri með hverju árinu er dagskráin farin að teygja sig langt fram í vikuna. Formleg setning fer þó fram á föstudeginum. Skrúðgöngur í hverfalitunum fjórum leggja af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:30 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem hátíðin er sett. Að því loknu verður Ullarpartý með brekkusöng og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Álafosskvos fer fram markaður og skátafélagið Mosverjar skapar notalega kaffihúsastemningu.
Nýjung við hátíðina í ár er Kjúllinn, sem er tónlistarveisla í Hlégarði á föstudagskvöldið auk upphitunar fyrr um daginn.

Heilsueflandi dagskrárliðir
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og því vel við hæfi að á dagskrá séu Fellahringurinn, fótboltamót og Tindahlaupið, en það er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fjórar vegalengdir eru í boði, einn, þrír, fimm eða sjö tindar á fellunum umhverfis bæinn.

Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingar taka vel á móti gestum og gangandi, skreyta hús og garða sína í hverfislitunum og bjóða heim.
Fjölbreytileg dagskrá er í görðum bæjarbúa og opnar vinnustofur víða.

Hápunktur á torginu
Stórtónleikar á Miðbæjartorgi eru hápunktur hátíðarinnar. Þar skemmta landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum. Kynnir verður Dóri DNA.
Frítt verður í Varmárlaug og á Gljúfrastein allan laugardaginn. Dagskrá hátíðarinnar má finna hér.

Í TÚNINU HEIMA – DAGSKRÁ 2023

Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 24.-27. ágúst. Hátíðin heppnaðist gríðarlega vel í fyrra eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival, Pallaball, brekkusöngur, tónleikar, opið hús á slökkvistöðinni, markaðir og heimboð svo eitthvað sé nefnt.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

Þriðju­dag­ur 22. ág­úst

 

13:00-16:00 Hannyrðir í Hlégarði
Opið hús fyrir alla sem hafa áhuga á að taka þátt í handavinnu og njóta samveru. Unnið að veflistaverki sem prýða mun Hlégarð og eru allir hvattir til að setja sitt spor í verkið.

 

17:00-20:00 Perl­að með Krafti
Kraft­ur kem­ur í Hlé­garð og perl­ar arm­bönd með Aft­ur­eld­ingu og Mos­fell­ing­um. Kraft­ur er stuðn­ings­félag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein.

 

18:00 Prjóna­skreyt­ing­ar
Kven­félag Mos­fells­bæj­ar skreyt­ir asp­irn­ar við Háholt í miðbæ Mos­fells­bæj­ar með handverki. Íbúar geta tek­ið þátt og kom­ið með það sem þeir eru með á prjón­un­um.

 

Miðviku­dag­ur 23. ág­úst

 

15:00 Kynning fyrir eldri borgara
Kynningarfundur í Hlégarði um þá þjónustu sem stendur til boða í sveitarfélaginu. Þjónustuaðilar með kynningarbása og heitt á könnunni.

 

18:45-20:15 Ball fyrir 7. bekkinga
Í túninu heima ball í Hlégarði.DJ Swagla spilar. 1.000 kr. inn.

 

20:30-22:30 Unglingball í Hlégarði fyrir 8.-10. bekk
Í túninu heima hátíðarball á vegum félagsmiðstöðvarinnar Bólsins. DJ Ragga Hólm, Aron Can og leynigestur. 2.000 kr inn.

 

20:00 Tónveisla í kirkjunni
Rock Paper Sisters býður til tónveislu í Lágafellskirkju. Hammondleikari hljómsveitarinnar er enginn annar en fráfarandi organisti kirkjunnar, Þórður Sigurðarson. Aðrir meðlimir eru þeir Eyþór Ingi, Davíð Sigurgeirsson, Þorsteinn Árnason og Jón Björn Ríkarðsson. Ókeypis aðgangur.

 

Fimmtu­dag­ur 24. ágúst

 

ÍBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR Reykja- og Helgafellshverfi

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

16:00-16:45 Sumarfjör 60+
Sumarfjör á frjálsíþróttavellinum að Varmá fyrir 60+ með Höllu Karen og Bertu.

 

17:00-18:00 Útifjör með hressum konum á Varmárvelli
Útifjör fyrir konur á öllum aldri á frjáls­íþróttavellinum að Varmá. Geggjuð æfing með Höllu Karen og Bertu.

 

17:00 Uppskeruhátíð sumarlesturs á bókasafninu
Bókasafnið kveður sumarlesturinn með stæl og fagnar góðu gengi duglegra lestrarhesta. Einar Aron töframaður mætir  í heimsókn með töfrasýningu.

 

17:00 Listamannaspjall í Listasalnum
Henrik Chadwick Hlynsson verður með listamannaspjall um sýningu sína Fjallaloft í Listasal Mosfellsbæjar.

 

17:30-19:00 Opið hús hjá Borðtennisfélagi Mosfellsbæjar
Nýstofnað Borðtennisfélag Mosfellsbæjar verður með opið hús í Lágafellsskóla. Fyrstu 20 í 1.-10. bekk sem mæta fá gefins spaða. Öll velkomin.

 

17:00-22:00 Sundlaugarkvöld
Húllumhæ og frítt inn í Lágafellslaug á fimmtudagskvöldið. Blaðrarinn gleður börnin kl. 18-20. DJ Baldur heldur uppi stuðinu. Leikhópurinn Lotta verður með atriði kl. 18:15 og 19:15. Aqua Zumba kl. 18:45 og 19:45. Splunkuný Wipeout-braut tekin í notkun, opin fyrir yngri krakka kl. 17-20 og fyrir þá eldri kl. 20-22. Ís í boði. 

 

19:00 Fellahringurinn – samhjól
Hjóladeild Aftureldingar stendur fyrir samhjóli þar sem hjólaður verður bæði litli Fellahringurinn sem er 15 km og stóri Fellahringurinn 30 km. Samhjólið hefst að Varmá og endar á smá veitingum í boði hjóladeildarinnar að Varmá. Útivera, samvera og gleði. Nánar á facebook.

 

19:00 Söguganga
Safnast verður saman í Álafosskvos, gengið niður með Varmá með Bjarka Bjarnasyni. Þema göngunnar verður íþróttalíf í og kringum Varmá, m.a. verður sagt frá dýfingum á Álafossi, tarsanleik í Brúarlandi og fyrsta Varmárvellinum sem var stundum lokaður vegna aurbleytu. Göngunni lýkur við Harðarból. Að venju tekur söngflokkurinn Stöllurnar lagið á vel völdum stöðum.

 

20:00 Bíla­klúbbur­inn Krúser
Bíla­klúbbur­inn Krúser safn­ast sam­an á bíla­plan­inu við Kjarna. Til­val­ið að kíkja á flott­ar dross­íur og klass­íska bíla frá lið­inni tíð. Fjöldi glæsi­vagna á svæð­inu ef veður leyf­ir og eru heima­menn hvatt­ir til að mæta.

 

20:00 Við eigum samleið – Hlégarði
Tónleikar með lögunum sem allir elska. Jógvan Hansen, Guðrún Gunnars og Sigga Beinteins flytja sígildar dægurperlur ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara. Miðar á Tix.is

 

21:00 Hátíð­ar­bingó í Bankanum
Bingó full­orðna fólks­ins í Bankanum með stór­glæsi­leg­um vinn­ing­um að vanda. Bingóstjóri: Hilmar Mosfellingur. Hægt að tryggja sér spjöld á Bankinnbistro.is/boka.

 

Föstu­dag­ur 25. ág­úst

 

07:30 Mos­fells­bakarí
Baka­ríið í hátíð­ar­skapi alla helg­ina og býður gest­um og gang­andi upp á ferskt brauð og frábæra stemn­ingu. Bakk­elsi í hver­fa­lit­un­um og vöffl­ur til hátíð­ar­brigða.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

10:00 og 11:00 Söngvasyrpa með Leikhópnum Lottu
Elsta árgangi leikskólanna í Mosfellsbæ er boðið á leiksýningu í bókasafninu. Leikhópurinn Lotta flytur söngvasyrpu sem er stútfull af sprelli, fjöri og söng. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garður­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

15:00-21:00 Kjúllagarðurinn við Hlégarð
Matur, drykkir og afþreying fyrir alla. Matarvagnar frá Götubitanum, hoppukastalar, vatnabolti og teygjuhopp frá Köstulum, Veltibíllinn og Handboltaborgarinn frá UMFA. Bjór, léttvín og kokteilar. Tilvalið stopp fyrir skrúðgöngu og brekkusöng. 

 

16:00-18:00 Opið í Þjón­ustu­stöð
Opið hús og kynning á starfsemi Þjón­ustu­stöðvar Mos­fells­bæj­ar að Völu­teig 15. Margt að skoða. Boðið upp á grill­aðar pyls­ur, kaffi og klein­ur.

 

17:00-20:00 Opið hús listamanna í Álafosskvos
Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistarmaður og Þórir Gunnarsson Listapúki fagna listinni í Kvosinni með vinnustofusýningu að Álafossvegi 23, 3. hæð. Leiðsögn kl. 18. Velkomin og njótið lista, gleði og samveru.

 

17:00-19:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjarási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

18:00 Námskeið í Lectio Divina – Biblíuleg íhugun
Námskeið í safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, helgina 25.-27. ágúst á vegum Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi. Skráning og upplýsingar á: lagafellskirkja.is

 

18:30-20:00 Lifandi tónar á Gloríu
Lifandi ljúf tónlist og stemning á kaffihúsinu Gloríu áður en skrúðgangan leggur af stað. High Tea og happyhour alla helgina.

 

19:00-23:00 Kaffihús Mosverja
Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúk­andi heit­ar vöffl­ur og kakó/kaffi ásamt góðgæti.

 

19:00-23:00 Súpu­veisla Frið­riks V í Ála­fosskvos
Mat­reiðslu­meist­ar­inn Friðrik V galdr­ar fram kraft­mikla kjötsúpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja

 

19:30-23:00 Opin vinnustofa í Álafosshúsinu
Sigfríður Lárusdóttir og Lárus Þór Pálmason verða með opna vinnustofu að Álafossvegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli hússins). Myndlist, olíu-, akríl- og vatnslitamyndir.

 

19:30-22:00 Úti­mark­að­ur í Ála­fosskvos
Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi.

 

20:15 Íbú­ar safn­ast sam­an á Miðbæj­ar­torgi
Gul­ir, rauðir, bleik­ir og bláir.
All­ir hvatt­ir til að mæta í lopa­peysu.

 

20:30 Skrúð­göng­ur leggja af stað
Hesta­manna­félag­ið Hörður leiðir göng­una með vösk­um fák­um. Göngu­stjór­ar frá Leik­félagi Mos­fells­sveit­ar. Tufti Túnfótur, þriggja metra hátt tröll, tekur þátt í göngu.

 

21:00-22:30 Ullarpartý í Ála­fosskvos
Brekku­söng­ur og skemmti­dag­skrá. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar set­ur hátíð­ina. Greta Salóme hitar upp brekkuna. Tónlistarkonan Gugusar tekur nokkur lög. Hilm­ar Gunnars og Gústi Linn stýra brekku­söng. Kynd­ill kveik­ir á blys­um.

 

22:00 Kjúllinn 2023 í Hlégarði
Tónlistarveisla í Hlégarði föstudagskvöldið 25. ágúst. Fram koma: Sprite Zero Klan, Aron Can, Bríet, Steindi & Auddi, Dj. Geiri Slææ. Húsið opnar 22.00 og standandi partí til 01.30. Miðasala á Tix.is

 

22:00-01:00 SZK og DJ Seðill í Bankanum
DJ Seðill og Sprite Zero Klan gera allt vitlaust í Bankanum.

 

Laug­ar­dag­ur 26. ág­úst

 

Frítt í Varmár­laug • Frítt á Gljúfra­stein

Tív­olí við Miðbæj­ar­torg um helg­ina. Aðgöngu­miðar seld­ir á staðn­um.

 

8:00-20:00 Golf­klúbb­urinn
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helgina.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um
Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Weet­os, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

9:00-16:00 Tinda­hlaupið
Nátt­úru­hlaup sem hefst við Íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Ræst verður í þrem­ur rás­hóp­um, 5 og 7 tind­ar kl. 9:00, 1 tind­ur og 3 tind­ar kl. 11:00. Fjór­ar vega­lengd­ir í boði, 7 tind­ar (38 km), 5 tind­ar (34 km), 3 tind­ar (19 km) og 1 tind­ur (12 km). Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar er í boði Nettó.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

10:00-12:00 Krakkahestar og kleinur á Blikastöðum
Á Blikastöðum, við gömlu útihúsin, verður boðið upp á Krakkahesta og kleinur.

Viðburðurinn hentar vel fyrir yngstu kynslóðina en teymt er undir krökkunum og boðið upp á hressingu og kleinur.

 

10:00-17:00 Frítt á Gljúfra­stein
Gljúfra­steinn – hús skálds­ins opn­ar dyrn­ar að safn­inu upp á gátt og verður frítt inn í til­efni bæj­ar­hátíð­ar Mos­fells­bæj­ar, Í tún­inu heima. Gljúfra­steinn var heim­ili og vinnu­staður Hall­dórs Lax­ness og fjöl­skyldu hans um hálfr­ar ald­ar skeið.

 

10:00-16:00 Sumarhátíð Miðnættis í Bæjarleikhúsinu
Tjaldið, Þorri og Þura, brúðusmiðja, veitingasala, andlitsmálning o.fl. Ókeypis inn, miðar fyrir atriði á sal fást í miðasölu Bæjarleikhússins 30 mínútum fyrir hvert atriði. Sjá dagskrá: www.midnaetti.com

 

10:00-17:00 grænmetismarkaður
Græn­meti frá Mos­skóg­um, sil­ung­ur frá Heiðar­bæ, rós­ir frá Dals­garði og önn­ur ís­lensk holl­usta á boðstól­um. Síðasti markaður sumarsins í Dalnum.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garður­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

11:00-16:00 Markaðstorg
Ljósmyndastofan Myndó, hannyrðabúðin Sigurbjörg og Folda Bassa hafa opið fyrir gesti og gangandi í Þverholti. Einnig verða konur frá Úkraínu búsettar í Mosfellsbæ að gefa smakk af þjóðarsúpunni þeirra kl. 13–15 í sal Samfylkingarinnar. Fullt af frábærum tilboðum, markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og skottmarkaður.

 

11:00-17:00 Kaffihús Mosverja
Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúk­andi heit­ar vöffl­ur og kakó/kaffi ásamt góðgæti.

 

11:00-15:00 Leikja­vagn UMFÍ á Stekkjarflöt
Afturelding opnar leikjavagninn fyrir káta krakka. Fót­bolta­tenn­is, ringó, krolf, boccia, mega jenga, spike ball, fris­bí, kubb, leik­ir, sprell, tónlist og margt fleira.

 

11:30-16:00 Súpu­veisla Friðriks V í Ála­fosskvos
Mat­reiðslu­meist­ar­inn Friðrik V galdr­ar fram kraft­mikla kjötsúpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja.

 

12:00 Barnaskemmtun við Hlégarð – Ævintýrið
Leiksýningin Ævintýrið – frábær skemmtun fyrir börn og fullorðna. Fjallar um Jónatan og Dreka. Þeir vinirnir bregða sér í alls kyns leiki og sjá börnin hvernig hugarheimur þeirra lifnar við á sviðinu. Boðskapur verksins er um mikilvægi vináttu og virðingu fyrir náunganum. Frír aðgangur á Hlégarðstúnið.

 

12:00-16:00 Opin vinnustofa í Álafosshúsinu
Sigfríður Lárusdóttir og Lárus Þór Pálmason verða með opna vinnustofu að Álafossvegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli hússins). Myndlist, olíu-, akríl- og vatnslitamyndir.

 

12:00-20:00 Opið hús listamanna í Álafosskvos
Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistarmaður og Þórir Gunnarsson Listapúki fagna listinni í Kvosinni með vinnustofusýningu að Álafossvegi 23, 3. hæð. Leiðsögn kl. 14 og 18. Verið hjartanlega velkomin og njótið lista, gleði og samveru.

 

12:00-17:00 Wings and Wheels – Tungu­bakka­flug­völl­ur
Gaml­ar flug­vél­ar, drátt­ar­vél­ar úr Mos­fells­bæ, mótor­hjól, forn­bíl­ar og flug­sýn­ing. Heitt á könn­unni fyr­ir gesti og kara­mellukast fyr­ir káta krakka kl. 16:30.

 

12:00 Hópakst­ur um Mos­fells­bæ
Fergu­sonfélag­ið stend­ur fyr­ir hópakstri drátt­ar­véla og forn­bíla. Lagt af stað frá Tungu­bakka­flug­velli og keyrt um bæinn.

 

12:00-17:00 KARLAR Í SKÚRUM – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis og karlar að störfum. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar o.fl. Komið og fræðist um starfsemina.
Kaffi og meðlæti.

 

12:00-16:00 Úti­mark­aður í Ála­fosskvos
Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi og ýms­ar uppákom­ur á sviði.
12:00 Varmárkórinn
13:00 Djasskrakkar
14:00 Dúettinn Gleym mér ei
14:30 Daniel Moss
15:00 Tufti Túnfótur á ferðinni
15:30 Hljómsveitin Slysh

 

12:30 Grenibyggð 36 – Mosfellingar bjóða heim
Jokka og Sjonni verða með örtónleika í garðinum í Grenibyggð 36. Svo tekur kvennakórinn Stöllur við og flytur nokkur lög kl. 13.

 

13:00-16:00 Klifurveggur við skátaheimilið
Sigraðu vegginn og láttu þig síga rólega niður. Átta metra hár veggurinn er áskorun fyrir börn á öllum aldri.

 

13:00-15:00 Kynnist Úkraínu
Opið hús í Þverholti 3 þar sem gestir geta kynnst Úkraínu og þeirra menningu. Úkraínsk stemning og smakk af þjóðarsúpu þeirra í boði fyrir gesti.

 

13:00 Afturelding – Leiknir R. á Malbikstöðinni að Varmá
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu spilar gegn Leikni R. að Varmá. Afturelding er í mikilli toppbaráttu í Lengju-deildinni um þessar mundir. 

 

13:00-17:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjarási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

13:00 Stöllurnar bjóða heim – Grenibyggð 36
Tónleikar í garðinum. Kvennakórinn Stöllurnar býður upp á úrval íslenskra og erlendra laga undir stjórn Heiðu Árnadóttur kòrstjóra.

 

13:00- 16:00 Opin vinnustofa Lágholti 17
Heiða María er 18 ára listakona sem er ein af þeim sem fékk styrk sem íþrótta- og tómstundanefnd veitti til ungra og efnilegra ungmenna. Hún ætlar að sýna og selja þau verk sem hún hefur unnið að í sumar ásamt eldri verkum.

 

14:00-16:00 Umhyggjudagur í Lágafellslaug
Frítt í Lágafellslaug kl. 14-16, gefins sundpokar fyrir börnin meðan birgðir endast.

 

14:00-16:00 Kjúk­linga­festi­val
Stærstu kjúk­linga- og mat­væla­fram­leið­end­ur lands­ins kynna af­urð­ir sín­ar, selja og gefa smakk við íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Mat­ur og skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una. Ýmis skemmti­at­riði, tónlistar­atriði, Greip­ur Hjalta­son með uppistand, Kristján og Elsa úr Frozen verða á röltinu.

 

14:00-16:00 Suðræn veisla á Gloríu
Gloría við Bjarkarholt býður gestum og gangandi upp á paellu beint af pönnunni. Happy Hour alla helgina.

 

14:00 Akurholt 21 – Mosfellingar bjóða heim
Stormsveitin ásamt Arnóri Sigurðarsyni, Þóri Úlfarssyni og Jens Hanssyni. Efnisskráin er bland af lögum sem Stormsveitin hefur sungið síðustu 12 ár auk laga af plötunni Fótspor tímans.

 

14:00-17:00 Stekkj­ar­flöt
Frítt fyr­ir káta krakka í hoppu­kastala og auðvit­að ærslabelg.

 

15:00 Ástu-Sólliljugata 9 – Mosfellingar bjóða heim
Söngkonan og fiðluleikarinn Greta Salóme býður heim til sín í 30 mínútna tónleika.Eitthvað fyrir alla á boðstólum og grillaðar pylsur. Með henni leikur gítarleikarinn Gunnar Hilmarsson. Opið hús kl. 14:45-16.

 

15:00 Álm­holt 10 – Mos­fell­ing­ar bjóða heim
Hrönn og Davíð bjóða að venju upp á glæsilega óperutónleika. Eva Þyri Hilmarsdóttir píanisti leiðir hóp ungra óperusöngvara. Sérstakir gestir verða Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Kristín Mäntylä mezzosópran. Svo verða Davíð, Stefán og Helgi Hannesar með fasta liði eins og vejulega. Kaffisala til góðgerðarmála.

 

15:00 Reykjabyggð 33 – Mosfellingar bjóða heim
Íris Hólm og Ingibjörg Hólm syngja við undirleik Sveins Pálssonar sem leikur á gítar, Davíðs Atla Jones sem leikur á bassa og Þóris Hólm sem leikur á slagverk

 

15:00-16:00 Hesta­fjör
Teymt und­ir börn­um á Stekkj­ar­flöt­inni í boði Hesta­mennt­ar.

 

15:30 Brekkutangi 24 – Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingurinn Hlynur Sævarsson og Kjalar Kollmar sameina krafta sína í dúett og halda heimatónleika í Brekkutanga 24. Þeir leika sígild íslensk lög ásamt erlendum djass útsett fyrir bassa og söng.

 

16:15 Brekkutangi 24 – Mosfellingar bjóða heim
Gleðisveitin Látún spilar frumsamið balkan-ska-fönk í garðinum. Fyrir utan Mosfellinginn Sævar Garðarsson sem spilar á trompet, eru Þorkell Harðarson á klarinett/altósax, Hallur Ingólfsson á trommur, Albert Sölvi Óskarsson á bariton/alto-sax, Sólveig Morávek á tenórsax og Þórdís Claessen á rafbassa.

 

16:30 Kara­mellukast
Karamellukast á Tungu­bökk­um.

 

17:00 Kvíslartunga 98 – Mosfellingar bjóða heim
Karlakórinn Esja kemur fram á heimatónleikum í Kvíslartungu. Léttur og hefðbundinn kór með óhefðbundnu ívafi. 

 

17:00-21:00 Götugrill
Íbúar í Mos­fells­bæ halda götugrill í vel skreytt­um göt­um bæj­ar­ins.

 

21:00-23:00 Stór­tón­leik­ar á Mið­bæj­ar­torgi
Skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem Mos­fells­bær býður upp á stór­tón­leika á Mið­bæj­ar­torg­inu. Fram koma: Sigga Ózk, Mugison, Páll Rósinkranz úr Jet Black Joe, Sprite Zero Klan, Diljá Pétursdóttir og Páll Óskar. Kynn­ir verður Dóri DNA. Björgunarsveitin Kyndill skýtur upp flugeldum af Lágafelli skömmu eftir að tónleikum lýkur.

 

22:00-01:00 Bryndís í Bankanum
Leik- og söngkonan Bryndís Ásmundsdóttir syngur sín uppáhaldslög. Með henni verður Franz Gunnarsson á gítar. Frítt inn.

 

23:30-04:00 Stórd­ans­leik­ur
Páll Ósk­ar mæt­ir í íþrótta­hús­ið að Varmá og heldur hátíðarball með Aftureldingu. Miðaverð á Palla­ball 4.500 kr. í for­sölu og 5.500 kr. við inn­gang. For­sala í íþrótta­hús­inu að Varmá (20 ára ald­urstak­mark).

 

Sunnu­dag­ur 27. ág­úst

 

8:00-20:00 Golf­klúbb­urinn
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helgina.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um
Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Weet­os, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum. Opið verður áfram næstu þrjár helgar.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garð­ur­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

12:00-17:00 KARLAR Í SKÚRUM MOSFELLSBÆ – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar o.fl. Komið og fræðist um starfsemina. Kaffi og meðlæti.

 

14:00 Hátíð­ar­dag­skrá í Hlégarði

– Um­hverf­is­nefnd veit­ir um­hverfis­við­ur­kenn­ing­ar Mos­fells­bæj­ar 2023. Einnig eru veittar viðurkenningar fyrir tré ársins og plokkara ársins.
– Mos­fells­bær heiðr­ar starfs­menn sem eiga 25 ára starfsaf­mæli.
– Út­nefn­ing bæj­arlist­a­manns Mos­fells­­bæj­ar 2023.
– Krakkar úr Helgafellsskóla taka lagið.
– Óvænt tónlistaratriði.
– Heitt á könn­unni og öll vel­kom­in.

 

14:00-16:00 Opið hús á slökkvistöðinni
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal. Öll velkomin.

 

14:00-17:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjar­ási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

16:00 Stofu­tón­leik­ar
Á Gljúfrasteini koma fram Kolbeinn Ketilsson tenór og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari. Síðustu stofutónleikar sumarsins. Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni, aðgangseyrir er 3.500 kr.

 

17:00 Mosfellingar bjóða heim – Túnfótur
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og félagar halda tónleika á garðpallinum í Túnfæti í Mosfellsdal. Verið velkomin. 

 

18:00 Kyrrðarbæn
Biblíuleg íhugun í Mosfellskirkju og ganga í nánasta umhverfi. Bylgja Dís Gunnarsdóttir og sr. Henning Emil Magnússon leiða stundina. Hressing í kirkjunni

 

20:00 Kvöldmessa
Lágstemmd stund í Mosfellskirkju með mikla áherslu á íhugun, iðkun og söng. Góð leið til að undirbúa sig fyrir komandi viku. Þórður Sigurðarson, organisti, leiðir tónlistina. Sr. Henning Emil þjónar.

Tilhlökkun

Ég las viðtal við unga konu í síðustu viku. Hún er á leiðinni til Ungverjalands með eiginmanni sínum og börnum, en þar ætla þau að búa næstu árin. Hún sagði í viðtalinu frá ástæðum þess að þau væru að flytja og hvernig þau hefðu undirbúið sig fyrir þetta spennandi stökk. Mér finnst alltaf gaman að lesa um fjölskyldur sem láta vaða, þora að kýla á draumana og framkvæma þá. Láta ekki mögulegar hindranir standa í veginum, heldur finna leiðir til þess að breyta hindrunum í verkefni sem hægt er að leysa. Það sem drífur þessa ungu konu áfram í lífinu er tilhlökkunin – að hafa eitthvað að hlakka til. Eitthvað spennandi, áskorun, eitthvað sem brýtur upp rútínuna.

Eitt þarf ekki að útiloka annað. Tilhlökkun fer vel saman með því að njóta dagsins, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og gera það besta úr hverjum degi. Tilhlökkunin getur einmitt verið sterkur hvati til þess að njóta hversdagsins betur. Ég hlakka til að fara í þrautahlaup með frábæru fólki eftir nokkrar vikur, það hvetur mig til að njóta þess að fara á fell og fjöll og gera eitthvað daglega til þess að auka líkurnar á því að þrautahlaupið sjálft verði skemmtilegt og gefandi.

Bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima, er helgi sem margir hlakka til, enda fjöldi viðburða í boði fyrir unga sem aldna. Eitt af því besta við hátíðina er hvað margir taka þátt í að gera hana skemmtilega, það er pláss fyrir alla og ótal tækifæri til þess að búa til viðburð eða vera með í þeim viðburðum sem eru í gangi.

Tilhlökkun snýst líka um daginn í dag og daginn á morgun. Ég hlakka þannig alltaf til þess að vakna á morgnana, hella upp á kaffi og fara í gegnum morgunrútínuna mína – það er mikilvægt að byrja daginn vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. ágúst 2023

 

Vínbóndinn býður upp á lífrænt frá Ítalíu

Mosfellingurinn Arnar Bjarnason hefur síðastliðin sjö ár rekið vefverslunina Vínbóndinn.is sem er lífræn vefverslun bæði með mat og vín, allt gæðavörur frá Ítalíu.
Arnar hefur yfir 20 ára reynslu í að flytja inn vín og mat og stofnaði og rak meðal annars verslunina Frú Laugu um tíma.
„Ég er eingöngu að flytja inn lífrænar matvörur og svokölluð náttúruvín og eiginlega allt frá Ítalíu,“ segir Arnar sem er tónlistarmenntaður og hefur starfað sem tónlistarkennari meðfram rekstrinum.

Eingöngu með lífrænar vörur
Vínbóndinn býður upp á fjölbreytt úrval af lífrænum matvörum svo sem ólífuolíur, tómatafurðir, pasta, ávaxtasafa, blandaða matarkassa og margt fleira, beint frá bónda á Ítalíu.
„Ég hef sérvalið þá bændur sem ég versla við, er búinn að heimsækja þá og á í mjög góðum samskiptum við þá. Margar af vörunum sem við bjóðum upp á eru með allar bestu vottanir sem hægt er að fá í lífrænni ræktun. Það má segja að viðskiptavinir okkar sem byrja að versla við okkur panta aftur og aftur. Við erum með fría heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu ef pöntun fer yfir 12.000 kr.“

Náttúruvín eru alltaf að verða vinsælli
Vínbóndinn flytur inn fjölda vína sem hægt er að kaupa í völdum verslunum Vínbúðarinnar og enn fleiri vín er hægt að sérpanta og fá send í hvaða vínbúð sem er.
„Náttúruvín eru lífræn en það má segja að það sé gengið skrefinu lengra. Náttúruvín eru hrein afurð hreins landbúnaðar, óspilltur vínsafi án aukaefna, best fyrir mann og náttúru. Við erum með rauðvín, hvítvín, rósavín og freyðandi vín, svo erum við líka með svokölluð gulvín sem eru að verða mjög vinsæl. Þetta er eiginlega hvítvín þar sem berin eru notuð með hýðinu og gefur þeim svokallað tannin og líkjast í raun meira rauðvíni á bragðið,“ segir Arnar en það kostar ekkert aukalega að gera sérpantanir og lágmarksmagn er ekki nauðsynlegt.

Vinsælar vörur í fjáraflanir
Margir eru að standa í fjáröflunum þessa dagana og býður Vínbóndinn upp á sérhannaða pakka með ítölskum gæðamatvörum. „Það er alltaf að verða vinsælla að bjóða matarpakka frá okkur í fjáraflanir, það er nýjung á þessum fjáraflanamarkaði og margir fegnir að fá gæðamatvöru á góðu verði.
Við erum með nokkra staðlaða pakka með t.d. ólífuolíu, pasta, pastasósum, pestói og ólífum, svo er alltaf hægt að útbúa eftir óskum hvers og eins. Við bjóðum líka upp á kaffi, súkkulaði, hunang og sultur, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Arnar að lokum, en allar upplýsingar eru á vinbondinn.is og hvetur hann Mosfellinga til að fylgja Vínbóndanum á samfélagsmiðlum.

Snemma farinn að huga að viðskiptum

Daníel Már Einarsson var ungur að árum er hann fór að hafa áhuga á viðskiptum. Hann hefur komið að ýmiss konar rekstri í gegnum tíðina en í dag rekur hann heildsöluna Esjaspirits sem selur áfengi og hágæða matvöru frá Andalúsíu á Spáni.
Daníel segist leggja áherslu á gæði og traust vörumerki og að vörulína þeirra sé ört stækkandi, hann sé því ekkert nema spenntur fyrir komandi framtíð.

Daníel er fæddur í Reykjavík 11. febrúar 1976. Foreldrar hans eru Einar Magnús Nikulásson bifvélavirkjameistari og Herdís Jóhannsdóttir fóstra, Einar lést árið 2019.
Daníel á tvo bræður, Nikulás f. 1973 og Atla Jóhann f. 1986.

Tímarnir voru öðruvísi þá
„Mínar fyrstu æskuminningar eru úr Barrholtinu hér í Mosó en þar bjó ég frá þriggja til sex ára aldurs. Foreldrar mínir keyptu fokhelt hús sem var nú hálfpartinn enn fokhelt þegar við fluttum í það, tímarnir voru bara öðruvísi þá. Það voru malargötur og við krakkarnir lékum okkur mikið úti.
Við fluttum svo til Reykjavíkur og þar bjó ég þangað til að ég flutti að heiman en nú er ég fluttur aftur hingað í sveitina.“

Maður hitti alls kyns fólk
„Þegar maður hugsar til baka til æskuáranna þá rifjast nú ýmislegt upp. Ég man þegar ég fékk gat á hausinn og það þurfti að labba með mig upp á Reykjalund frá Barrholtinu því heilsugæslan var staðsett þar, bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma.
Eftir að við fluttum til Reykjavíkur þá bárum við bræðurnir út Nútímann í hverfinu okkar. Ég man hvað það var mikil vinna að rukka inn áskriftina um hver mánaðamót. Maður hitti alls kyns fólk við þau störf og oft þurftum við að koma mörgum sinnum til þeirra sem gátu ekki borgað á réttum tíma. Rukkunaraðferðin er töluvert auðveldari í dag.“

Seldi með ágætis gróða
„Ég gekk í 6 ára bekk í Varmárskóla og þótt ég hafi verið stutt í Mosó þá kannaðist ég við marga eftir að ég flutti aftur í bæinn. Ég fór svo í Æfingadeildina en það var hverfisskólinn minn eftir að við fluttum til höfuðborgarinnar. Ég var nú kannski ekki uppáhald kennarana, það verður að viðurkennast, og ég hefði líklegast fengið einhverjar greiningar ef út í það hefði verið farið.
Ég byrjaði snemma að vinna og á enn fyrsta launaseðilinn minn, hann er frá því ég var 12 ára en þá starfaði ég hjá Hagkaup, var kerrustrákur og í áfyllingum. Ég færði mig svo yfir í Miklagarð þar sem ég vann í nokkur ár á sumrin og með skóla.
Þegar ég var 10 ára þá fór ég stundum í lakkrísgerð, keypti kílópoka og skipti í tvennt og seldi með ágætis gróða, svo ég var ansi snemma farinn að hafa áhuga á viðskiptum sem hafa fylgt mér æ síðan,“ segir Daníel Már og brosir.

Fluttu til Ísafjarðar
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf Daníel störf hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en þar sá hann um viðhald á orlofshúsum og um tjaldvagnaleiguna á sumrin. Starfaði svo hjá Húsasmiðjunni um tíma en um tvítugt hóf hann störf hjá Ölgerðinni.
„Ég var ráðinn sem svæðisstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum með aðsetur á Ísafirði. Við fjölskyldan fluttum því þangað en þá vorum við bara tvö með lítið ungbarn.
Við bjuggum á Ísafirði í tvö ár og litum á þetta sem pínu ævintýri. Góð reynsla að hafa búið úti á landi sem við sjáum alls ekkert eftir. Ég var í björgunarsveitinni og þegar allt var ófært þá þurftum við að ferðast um á snjósleða sem kom nú oft fyrir á þessum árum.“

Erum dugleg að ferðast
Daníel er giftur Sædísi Jónasdóttur deildarstjóra hjá Samgöngustofu. Þau kynntust ung og eiga þrjá syni, Einar Björn f. 2000, Jónas Inga f. 2008 og Sigurð Helga f. 2012.
„Við vorum frumbyggjar í Krikahverfinu en þar byggðum við okkur hús árið 2007 og búum þar enn. Sædís mín er uppalin í Mosfellsbæ og vildi hvergi annars staðar búa. Það þurfti nú ekkert að sannfæra mig mikið um að koma aftur hingað upp eftir,“ segir Daníel og brosir.
„Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast, förum mikið út á land og til Spánar en þar eigum við íbúð, okkur finnst líka gaman að skoða nýja staði.“

Góðar reiðleiðir í Mosó
„Við höfum stundað hestamennsku lengi og erum með hestana okkar í hestamannafélaginu Herði sem er frábært félag, framúrskarandi aðstaða og svo eru svo góðar reiðleiðir hér í Mosó.
Það er ekkert eins skemmtilegt og að fara í hestaferðir í góðra vina hópi, ég er svo líka í félagi sem heitir Áttavilltir en við erum nokkrir félagar úr Herði sem ríðum út hálfsmánaðarlega og borðum svo saman á eftir, alltaf líf og fjör.
Í gegnum tíðina hef ég líka alltaf átt fjórhjól eða einhver mótorsporttæki, ég er bara ekki rólegur nema eiga eitt slíkt í bílskúrnum, svo hef ég aðeins verið í því að flytja inn Buggy bíla.“

Stoltir með gullverðlaunin
Eftir árin hjá Ölgerðinni á Ísafirði fór Daní­el Már út í sjálfstæðan rekstur, rak kaffihús á Laugavegi í smá tíma og var með fyrirtæki sem sá um umsjón með orlofsíbúðum fyrir verkalýðsfélög í 14 ár. Húsgagnahreinsun sem sérhæfði sig í myglusveppi og svo opnaði hann skyrbar í Danmörku til að kynna Danina fyrir íslenska skyrinu. Hann var framkvæmdastjóri hjá Rolf Johansen og hjá Vöku björgunarfélagi.
„Í dag rek ég áfengisheildsöluna Esja­spirits en nafnið kom til þar sem við hjónin horfum alltaf á fallegu Esjuna út um stofugluggann hjá okkur. Við erum með gott úrval af bæði áfengi og matvörum og leggjum áherslu á gæði og traust vörumerki. Það er nú gaman að segja frá því að við erum nýbúin að fá gullverðlaun fyrir besta ginið á Íslandi, Old Islandia, og einnig fyrir Volcanic vodka.
Við erum með bæði innlend og erlend vín og seljum í ÁTVR og á veitingastaði. Við sérhæfum okkur í veisluþjónustu, erum með vínráðgjöf sem felur í sér að velja réttu vínin í veisluna og hjálpum til við að áætla magn. Við höfum líka verið í innflutningi á matvöru aðallega frá Andalúsíuhéraði, olíur, hnetur, súkkulaði, marmelaði og fleira.
Ég hef óskaplega gaman af viðskiptum og elska að vera í einhverju brasi í kringum þau, kaupa og selja. Við erum með ört stækkandi vörulínu svo við erum bara spennt fyrir framtíðinni,“ segir Daníel að lokum er við kveðjumst.