Verkefnið Karlar í skúrum formlega stofnað

Finnur, Ólafur, Jón og Jónas ganga frá pappírum í Litluhlíð 7a.

Í byrjun þessa mánaðar var verkefnið Karlar í skúrum í Mosfellsbæ formlega stofnað sem félagsskapur með samþykkt laga fyrir félagið og kosningu stjórnar og eru stofnmeðlimir um 30 talsins.
Í stjórnina voru eftirtaldir kosnir: Jón Guðmundsson formaður, Jónas Sigurðsson ritari, Ólafur Guðmundsson gjaldkeri, Finnur Guðmundsson meðstjórnandi og Gústaf Guðmundsson meðstjórnandi.

Vettvangur fyrir handverk og samveru
Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun slíkrar starfsemi hér á landi. Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.
Undirbúningur þessa verkefnis hófst í febrúar sl. er nokkrir karlar hittust að frumkvæði Rauðakrossins og kosin var stjórn til undirbúnings starfsins. Kórónuveiran hefur seinkað öllu starfi en hægt var að halda nokkra fundi til undirbúnings á þeim tíma þegar veiran hafði hægt um sig hér á landi.

Framkvæmdir hafnar í Litluhlíð
Fyrsta verkefnið var að finna húsnæði til starfsins og tókst að fá húsnæði með tilstyrk Mosfellsbæjar. Húsnæðið er að Litluhlíð 7a, Skálatúni og eru þegar hafnar framkvæmdir við breytingu á húsnæðinu.
Næsta stóra verkefnið er að afla tækja fyrir starfið í Skúrnum með því að leita eftir styrkjum hjá einstaklingum og fyrirtækjum í bænum. Um leið og aðstæður í þjóðfélaginu breytast munu kaffi­spjallsfundirnir verða teknir upp að nýju í Skúrnum. Einnig hefur verið stofnuð Facebook-síðan „Karlar í skúrum Mosfellsbæ“.

— Þeir sem vilja komast í samband við karlana eða styrkja tækjakaup fyrir skúrinn geta haft samband við Jón í síma 893-6202 eða Jónas í síma 666-1040.

Stefna að því að framleiða umhverfisvænasta malbik í heimi

Malbikstöðin á Esjumelum var tekin í gagnið í sumar.

Vilhjálmur Matthíasson

Fagverk verktakar hafa tekið í notkun nýja malbikunarstöð á Esjumelum undir nafninu Malbikstöðin ehf. og er hún með afkastagetu sem samsvarar malbiksþörf höfuðborgarsvæðisins á ársgrundvelli. Heildarfjárhæð fjárfestingarinnar í malbikunarstöðinni er í kringum 2,5 milljarðar.
Nýja stöðin gerir fyrirtækinu kleift að framleiða mun umhverfisvænna malbik en mögulegt hefur verið til þessa á Íslandi. Vilhjálmur Matthíasson eigandi segir Malbikstöðina stefna að því að vera leiðandi í umhverfisvænni framleiðslu malbiks á Íslandi. Nýr tækjabúnaður gerir fyrirtækinu kleift að framleiða malbik með mun hærra hlutfalli af endurunnu malbiki en hefur verið hingað til.

Samstarf við Sorpu um kaup á metani
Á dögunum var undirrituðuð viljayfirlýsingu við Sorpu um kaup og sölu á allt að milljón normalrúmmetrum (Nm3) af hreinsuðu metangasi á ári. Það samsvarar tæplega helmingi af afkastagetu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU.
Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri SORPU, segir að töluverð eftirspurn sé eftir metangasi og það komi ekki á óvart.
„Það er okkur heiður að styðja við framleiðslu á því sem gæti orðið umhverfisvænasta malbik í heimi,“ segir Helgi. Vilhjálmur tekur í sama streng og segist stoltur af því að hafa náð að hrinda verkefninu í framkvæmd með starfsfólki SORPU. „Malbikunarstöð okkar verður umhverfisvænni fyrir vikið og það er gleðiefni,“ segir Vilhjálmur.

Skipta út dísilolíu fyrir metan
Esjumelar tilheyra Reykjavík og hefur Mosfellsbær kært Reykjavíkurborg vegna deiliskipulagsbreytinga á Esjumelum varðandi það að stór hluti svæðisins fari úr að vera athafnasvæði yfir í iðnaðarsvæði.
Hvað finnst Vilhjálmi um það?
„Jú, eins og ég hef sagt áður þá leggjum mikla áherslu á umhverfismál og með nýrri hugsun í framleiðslu á malbiki gætum við mögulega farið að framleiða umhverfisvænasta malbik í heimi.
Malbik er nauðsynlegt fyrir vegakerfi landsins og umhverfissjónarmið fyrirtækisins miðar að því að draga enn frekar úr kolefnislosun við framleiðslu á malbiki með því að skipta út dísilolíu fyrir Metan.
Til að útskýra aðeins ferlið þá þarf að hita upp steinefni og þurrka þau við framleiðslu malbiks. Við það er notaður díselbrennari en steinefnin sjálf fara inn í hitatromlu. Þess vegna kemur þessi gufa annað slagið frá stöðinni sem margir telja vera reyk. Risastórir filterar sjá um að sía allt rykið í sér tanka sem er síðan dælt aftur í malbikið. Tjaran sem fer í malbikið er algjörlega sér og henni er haldið heitri með rafmagni og dælt út í steinana þegar búið er að þurrka og hita þá.
Eini óumhverfisvæni útblásturinn er af brennurunum, því erum við að skipta út fyrir metan og verður það vonandi framkvæmt á næsta ári. Þá tökum við út díselbrennarann og skiptum yfir í metanbrennara.“

Ekki þörf á annarri malbikunarstöð
„Ástæða þess að við réðumst í uppsetningu á stöðinni okkar er sú að Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar (Höfði) við Sævarhöfða er að loka. Eins og komið hefur fram í umræðunni bæði á pólitískum vettvangi og á samfélagsmiðlum þá ríkir ekki mikil ánægja með uppbyggingu malbiksstöðvar í nágrenni Mosfellsbæjar.
Reykjavíkurborg sjálf hyggst reisa aðra malbikunarstöð á Esjumelum í nafni Höfða í stað þess að hætta í samkeppnisrekstri. Það er mín skoðun að opinberir aðilar eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri.
Til þess að setja hlutina í samhengi, ef þær malbikunarstöðvar sem eru á markaði í dag yrðu allar settir í gang samtímis og myndu framleiða malbik án þess að stoppa, gætu þær framleitt ársþörf höfuðborgarsvæðisins á u.þ.b. 14 dögum. Og er þá ekki búið að benda á þá gífurlegu fjárbindingu fyrir borgarbúa sem fylgir slíkri uppbyggingu. Þar sem fjármunir borgarbúa eru nýttir í áhætturekstur og í harðri samkeppni við einkaaðila.“

Tæknin er í stöðugri þróun

Ólafur Sigurðsson hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tækni. Hann útskrifaðist sem rafeindavirkjameistari árið 1979 og fór beint út á vinnumarkaðinn og sá m.a. um viðgerðir á ýmsum tæknibúnaði.
Hann stofnaði síðar sitt eigið fyrirtæki, Varmás ehf. sem hann hefur rekið allar götur síðan. Það er óhætt að segja að það kenni ýmissa grasa í Markholtinu þar sem fyrirtækið er staðsett en Ólafur hefur sinnt alhliða tölvulausnum fyrir skóla og aðrar stofnanir í þrjá áratugi.

Ólafur fæddist á Kirkjuteigi í Reykjavík 23. mars 1957. Foreldrar hans eru þau Valdís Ólafsdóttir fv. póstafgreiðslumaður og Sigurður Tómasson loftskeytamaður en hann lést árið 1990. Ólafur á þrjú systkini, Dagmar Elínu f. 1958, Sigríði Unni f. 1961 og Sigvalda Tómas f. 1966.

Aukablöðin fóru í vöruskipti
„Ég ólst upp á Brekkustíg í vesturbæ Reykjavíkur og það var gott að alast upp þar.
Ég bar út blöð, Tímann og Þjóðviljann til að fá smá vasapening og ein af mörgum minningum mínum um útburðinn voru þau aukablöð sem ég fékk og notuð voru í vöruskipti. Á virkum dögum var farið í bakarí Jóns Símonarsonar á Bræðraborgarstíg en þar var skipt á blöðum og bakkelsi en um helgar var ég með fastan kúnna sem starfaði hjá Ölgerðinni og þá var skipt út fyrir Spur og appelsín,“ segir Ólafur og brosir er hann rifjar þetta upp.

Gaman á brunaæfingunum
„Ég byrjaði skólagöngu mína í Öldugötuskóla sem staðsettur var í gamla Stýrimannaskólanum. Ég man hvað það var gaman þegar það voru brunaæfingar í skólanum, allir hlupu upp á aðra hæð til að renna sér niður dúk sem lá frá svölunum. Leiðin lá síðan í Melaskóla og svo í Árbæjarskóla og ég byrjaði að æfa knattspyrnu með Fylki.
Á unglingsárunum vann ég í fiski á sumrin­ hjá Júpiter og Mars en þeir voru með starfsemi á Kirkjusandi. Ég var heppinn því fljótlega eftir að ég byrjaði fékk ég að vinna í tækjasalnum en sú vinna var betur borguð en önnur hjá þeim.“

Seldi myndir á póstkort og almanök
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla lá leiðin í Ármúlaskóla, íþróttakennarinn minn þar var mikill bridgespilari og sá um útgáfu bridgeblaðsins. Hann vissi um áhuga minn á ljósmyndun og fékk mig til að taka myndir fyrir blaðið sem ég gerði á meðan ég var í skólanum. Ljósmyndun hefur alltaf verið eitt af mínum aðaláhugamálum og á tímabili seldi ég myndir á póstkort, almanök og í bækur.
Ég fór svo í skóla hjá Pósti og síma og lærði símvirkjun en árið 1979 útskrifaðist ég sem rafeindavirkjameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík. Mér fannst alltaf gaman í skóla og ég eignaðist marga góða vini sem ég er enn í sambandi við í dag.
Ég hóf síðan störf hjá Sameind á Grettisgötu og sá um viðgerðir á ýmsum tæknibúnaði.“

Sælan við Heklurætur
Eiginkona Ólafs er Sólrún Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau eiga þrjú börn, Valdísi f. 1982 keramikhönnuð, Braga f. 1986 starfsmann EFTA í Luxemborg og Gerði Jónu f. 1992 nema í fatahönnun í Listaháskóla Íslands. Barnabörnin eru fjögur, Aron Gabríel, Ísak Leví, Aníta Marín og Tómas Óli.
„Sælureitur fjölskyldunnar er við Heklurætur og hefur verið það í meira en 40 ár. Þangað förum við mikið og þar unir fjölskyldan sér við leik og störf. Heklubrautin er stundum ófær yfir vetrarmánuðina, þá þarf að ganga um þrjá kílómetra til þess að komast í bústaðinn. Svæðið er stórt, aðeins þrír sumarbústaðir og kyrrðin er mikil.
Stórfjölskyldan er með svokallaða kofahelgi í ágúst á hverju ári og þá koma allir sem geta til að hittast og vera saman.“

Stofnaði eigið fyrirtæki
„Árið 1989 stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki hér í Mosfellsbæ, Varmás ehf. Frá upphafi hef ég selt og þjónustað ýmsan tæknibúnað en tæknin er eins og allir vita í stöðugri þróun. Í upphafi var ég með aðstöðu í bílskúrnum mínum en þegar aðstaðan var orðin of lítil þá keypti ég kjallarann í næsta húsi við mig og var þar til ársins 1996 en þá keypti ég Markholt 2 undir starfsemina. Þremur árum seinna byggði ég við húsið um 100 fermetra og í dag er enn verið að huga að breytingum, meiri stækkun sem mun nýtast undir lagerinn.
Árið 1992 stofnaði ég með kunningja mínum Íhluti ehf. sem er með starfsemi í Skipholti 7, en þar má finna hina ýmsu rafeindahluti.“

Hitarar sem slegið hafa í gegn
„Árið 2001 byrjaði ég að flytja inn gagnvirkar töflur frá Kanada og hef selt slíkan búnað í marga skóla. Í dag er þróunin orðin sú að nú eru komnir gagnvirkir snertiskjáir á hjólaborðum sem hægt er að hækka og lækka og halla í borð.
Nýjasta verkefnið mitt var uppsetning á sex skjáveggjum í skóla í Reykjanesbæ en hver skjáveggur samanstendur af níu 49“ LG skjám sem tengdir eru saman og mynda eina heild. Eins settum við upp 22 gagnvirka skjái í kennslustofum skólans.
Ég er líka með skjávarpa, öryggisbúnað, hljóðkerfi, stjórnbúnað og upplýsingaskjái fyrir skóla og fyrirtæki. Hitarar sem hita vatnið um leið og skrúfað er frá krana hafa slegið í gegn en þessir hitarar eru mikið notaðir í sumarhúsum og á svæðum sem einungis er kalt vatn. Ég er líka með umboð fyrir perlur sem margir föndra með en það þarf ekki að strauja þær heldur er vatni sprautað á þær og þá límast þær saman.
Ég hef ferðast mjög víða um heiminn starfs míns vegna og í 14 ár hef ég tekið að mér fararstjórn á sýningar fyrir Fararsnið ehf. til Birmingham og London.“

Melrakkasléttan varð fyrir valinu
„Um tíma starfaði ég með Leikfélagi Mosfellssveitar sem tæknimaður og fór með þeim til útlanda með Saumastofuna en þessi ferð var mjög skemmtileg í alla staði. Leikfélagið var þá með aðsetur í Hlégarði.
Ég hef líka verið lengi í Oddfellow-reglunni og eignast þar marga góða vini og hef ferðast með Álafosskórnum bæði hérlendis og erlendis, en konan mín er í kórnum.
Við hjónin höfum gaman af því að ferðast og í ár var farið um norðausturlandið og farið m.a. um Melrakkasléttuna og keyrt út á Font á Langanesi.
Það var ekki um annað að velja en að ferðast innanlands á þessu skrítnu tímum, við hlýðum Víði,” segir Ólafur og brosir er við kveðjumst.

 

Rafhlaupahjólin mætt í Mosó

Fulltrúar úr bæjarstjórn og umhverfisnefnd vígðu hjólin ásamt eiganda Oss.

Mosfellingar geta nú nýtt sér umhverfisvænan samgöngumáta innanbæjar þar sem fyrirtækið Oss rafrennur ehf. hóf útleigu á rafhlaupahjólum.
Innan skamms mun fyrirtækið svo bjóða íbúum að leigja rafhjól en bæði rafhlaupahjólin og rafhjólin verða á negldum dekkjum í vetur og því fyllsta öryggis gætt.

Allt að 30 hjól í boði í dag
Til að byrja með verða allt að 30 hjól aðgengileg í Mosfellsbæ og ef eftirspurnin verður meiri verður þeim fjölgað. Leigan fer fram í gegnum smáforrit í snjallsíma þar sem unnt er að sjá hvar næsta lausa rafhlaupahjól er staðsett.
Smáforritið veitir einnig upplýsingar um stöðu á rafhlöðuhleðslu hvers hjóls og hversu mikill koltvísýringsútblástur sparast í hverri ferð ef sama vegalengd hefði verið farin á bifreið.
Upphafsgjald fyrir hverja leigu er 100 kr. og síðan kostar hver mínúta 28 kr.
Smáforrit heldur utan um staðsetningu
Upphafsstöðvar verða við Miðbæjartorg og íþróttamiðstöðvarnar en notendur geta skilið við hjólin þar sem þeim hentar, þar sem smáforritið heldur utan um staðsetningu hjólanna.
Það er þó mikilvægt að skilja við hjólin með ábyrgum hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyrir annarri umferð.
Innleiðing rafhlaupahjóla og rafmagnshjóla í Mosfellsbæ er í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Leggjum umhverfinu lið
„Vistvænar samgöng­ur og áhersla á orkuskipti í samgöngum eru hluti af markmiðum umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Við Mosfellingar tökum áhugasöm þátt í öllum skrefum, stórum sem smáum, sem styðja okkur við að draga úr kolefnisspori okkar því að margt smátt gerir eitt stórt.
Ég vil því hvetja okkur Mosfellinga til þess að njóta þess að ferðast með umhverfisvænum og skemmtilegum hætti þar sem við gætum að öryggi annarra og okkar sjálfra um leið og við leggjum umhverfinu lið,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Lögreglan vonast til að búið sé að koma böndum á ástandið

Lögreglan að störfum í Mosfellsbæ þann 4. nóvember. Mynd: Raggi Óla

Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn og færður í gæsluvarðhald í stórri aðgerð lögreglunnar í Mosfellsbæ miðvikudaginn 4. nóvember.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi húsleit í tveimur húsum að undangengnum dómsúrskurði. Hald var lagt á töluvert magn af þýfi sem hefur gengið þokkalega að koma aftur í réttar hendur að sögn lögreglu. Innbrotafaraldur hafði geisað í nálægum hverfum um töluvert skeið.

Halda eftirliti áfram á svæðinu
Tveimur vikum áður höfðu íbúar í Brekkutanga og nágrenni sent áskorun til sýslumanns, lögreglu, bæjaryfirvalda og fleiri vegna málsins. Óskað var eftir úrræðum en áhyggjurnar snéru að veikindum, fíkniefnaneyslu, ofbeldi, COVID smitum o.fl. sem gæti haft slæm áhrif á nærsamfélagið.
„Við vonum að búið sé að koma böndum á ástandið,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn á Vínlandsleið. „Við komum til með halda uppi eftirliti á svæðinu áfram og vonumst til að hlutirnir fari ekki í sama farveg. Það er óviðunandi fyrir alla, enda skiptir máli fyrir fólk að búa við öryggi á sínum heimilum.“
Elín Agnes vill benda fólki á, sem verður fyrir tjóni, að tilkynna slíkt alltaf til lögreglu þannig að hún hafi allar upplýsingar í höndunum. Ekki bara spjalla inni á íbúasíðum á facebook.

Ein inn, ein út

Ég hlustaði á viðtal við Jóhann Inga Gunnarsson um síðustu helgi. Fékk ábendingu frá nokkrum góðum Mosfellingum um að ég þyrfti að gera það. Og það var rétt. Hann sagði frá sínum bakgrunni, sem er stórmerkilegur, og hvernig hann nálgast sín viðfangsefni og verkefni sem sálfræðingur. Eða öllu heldur sem breytingastjóri.

Ég ákvað í morgun að framkvæma eitt af því sem Jóhann Ingi talaði um. Eins og hann sagði, þá vitum við flest hvað við þurfum að gera til þess að okkur líði sem best, en af einhverjum ástæðum framkvæmum við það ekki allt. Við erum samansafn af venjum og því betri venjum sem við komum inn í lífið, því betra höfum við það.

Ég bætti nýrri venju inn hjá mér í morgun, tengdi hana við aðra góða venju sem ég hef nú stundað í 43 daga í röð. Jóhann segir að það geti tekið nokkra mánuði að koma nýrri venju inn í lífið, en aðrir vilja meina að það geti tekið styttri tíma, jafnvel bara 21 dag. Aðalatriðið er að sinna nýrri venju vel, þá fer hún að toga sterkt í mann og verður sjálfsagður hluti af deginum.

Iðjuþjálfarnir á Reykjalundi kenna að maður eigi að tengja eina venju við aðra til þess að auka líkurnar á því að hún festi sig í sessi. Ég er einmitt að því núna og byrjunin lofar mjög góðu. Eins og Jóhann Ingi ráðlagði er líka gott að losa sig við eina slæma venju í einu. Ég er líka að því, veit að það verður erfiðara en að bæta góðri venju inn.

Hér þurfa bræðurnir agi og viljastyrkur að koma sterkir inn. Slæmir ávanar eru af einhverjum völdum öflugri en góðir vanar. En mér skal takast þetta! Hvet svo alla til að hlusta á Jóhann Inga í hlaðvarpi Snorra Björns.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. nóvember 2020

Áhuginn kom okkur í opna skjöldu

Byggingafélagið Bakki hefur byggt tólf tveggja herbergja íbúðir við Þverholt 21 sem Fasteignasala Mosfellsbæjar auglýsti til sölu í síðstu viku.
Til sölu voru 12 fullbúnar 41-45 m2, tveggja herbergja íbúðir. Auglýst söluverð íbúðanna vakti mikla athygli, enda var ásett verð 25,9 – 28,5 milljónir, sem er lang lægsta verð sem sést hefur á nýbyggðum íbúðum í langan tíma.

Lokað fyrir kauptilboð á degi tvö
Svo mikil var eftirspurnin eftir þessum íbúðum að á fyrstu tveimur dögunum komum 80 hópar af áhugasömum aðilum að skoða íbúðirnar og í hádeginu á degi tvö var ákveðið að loka fyrir frekari kauptilboð í eignirnar, en þá voru komin 48 kauptilboð í 12 íbúðir.
„Við áttum alveg von á því að þessar íbúðir myndu vekja athygli, sérstaklega þar sem verðið var afskaplega hagstætt,“ segir Einar Páll Kjærnested hjá Byggingafélaginu Bakka og bætir við að þessi mikli áhugi hafi komið þeim í opna skjöldu.
„Það sem var sérstaklega ánægjulegt var hversu mörg tilboð komu frá ungu fólki sem vildi kaupa sér sína fyrstu íbúð. Stór hluti var einmitt innfæddir ungir Mosfellingar.
Það hefði verið óskandi að fá tækifæri til að selja hinar 12 íbúðirnar í næstu blokk líka en því miður var ekki áhugi fyrir því í bæjarpólitíkinni. Þær íbúðir skulu leigðar út. Það er sorglegt þegar maður sér að pólitíkin kemur í veg fyrir að góðar hugmyndir verði að veruleika.“

Nýr áfangi hafinn í Helgafellshverfi
Í byrjun október lýkur Byggingafélagið Bakki byggingaframkvæmdum sínum á miðbæjarsvæðinu við Þverholt 21-31 og nýr kafli er hafinn við uppbyggingu áfanga IV í Helgafellshverfinu.
Þar eru nú risin fyrstu tvö fimm íbúða fjölbýlishúsin við Liljugötu 1 og 3, þetta eru sambærileg hús og Byggingafélagið Bakki byggði við Snæfríðargötu 1-9.
„Við reiknum með að sala á þessum húsum hefjist öðru hvoru megin við áramótin og afhending verði á fyrstu íbúðunum í áfanga IV næsta sumar. Í næstu viku hefjum við svo uppbyggingu á tveimur átta íbúða fjölbýlishúsum við Liljugötu 5 og 7, en þar verðum við með 50 m2 tveggja herbergja íbúðir og 70 m2 þriggja herbergja íbúðir.

Uppbygging næstu 5-7 ár
Í áfanga fjögur í Helgafelli er áætlað að byggðar verði 188 íbúðareiningar í litlum fjölbýlishúsum, en einnig munum við byggja þarna raðhús og einbýlishús.
Verkefnið í Helgafelli verður 5-7 ár í uppbyggingu, en Byggingafélagið Bakki sér einnig um gatnagerð og allan frágang á opnum svæðum í áfanganum.

Ástríða mín liggur í að miðla tónlist

Berglind Björgúlfsdóttir tónlistarmiðlari og frumkvöðull segir tækifærin til að mennta og efla ungviðið liggja í náttúrutengingunni.

Hún er söngkona, kennari, tónlistarmiðlari og frumkvöðull og hefur víðtæka menntun og reynslu af tónlistaruppeldi með börnum og fjölskyldum. Hún hefur stjórnað fjölmörgum barnakórum, haldið tónleika víða um heim og námskeið hennar vekja ávallt mikla lukku. Það sem hún tekur sér fyrir hendur gerir hún með mikilli næmni, hún helgar rýmið og spinnur töfraþráðinn þar sem náttúran ræður ríkjum.
Hún stofnaði fyrirtækið Samleikur.is árið 2019 og býður upp á hin ýmsu Uku­lele-námskeið ásamt því að sjá um sérsniðna viðburði fyrir fyrirtæki og hópa. Konan sem um ræðir heitir Berglind Björgúlfsdóttir.

Berglind fæddist í Reykjavík 7. október 1965. Foreldrar hennar eru þau Pálína Jónsdóttir og Björgúlfur Þorvarðarson en þau eru bæði menntuð kennarar. Berglind á fjögur systkini, Þorvarð f. 1962, Bergstein f. 1963, Sigurbjörgu f. 1970 og Bjarka f. 1974.

Lærðum að vinna í sveitinni
„Ég átti mér sumar- og vetrarhaga eins og Samarnir í Norður-Skandinavíu. Ég ólst upp í Garðabænum en var svo farin í sveitina í Rangárvallasýslu í maí ár hvert til að hjálpa til í sauðburði, reka beljur, raka og sæta tún. Í sveitinni upplifði ég mikið frelsi og var mikið út í náttúrunni með mínu fólki. Ég fékk næði til að dunda, rannsaka, skapa, veiða og síðast en ekki síst að umgangast húsdýrin. Í sveitinni lærðum við líka að vinna.“

Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð
„Ég var nemandi í Barnaskóla Garðahrepps sem nú heitir Flataskóli og fór þaðan­ í Garðaskóla. Allt skapandi skólastarf og íþróttir höfðuðu til mín. Mér gekk vel í því sem ég hafði áhuga á, „þar er allur sem unir“, eins og máltækið segir“.
Ég man eftir fyrsta tónlistartímanum, átta ára gömul, hjá Guðmundi Norðdal tónmenntakennara. Við sungum, „Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð, um sólina vorið og land mitt og þjóð“. Þetta er sterk minning og lýsir svolítið mér og mínu lífi“.
Ég byrjaði níu ára í Skólakór Garðabæjar og söng þar hjá Guðfinnu Dóru kórstjórnanda fram undir menntaskólaárin. Fimleikar voru mér hugleiknir og ég stundaði þá hjá Fimleikafélaginu Björk. Ég þurfti svo að velja á milli fimleikanna og söngsins og söngurinn varð fyrir valinu“.

Á nokkra óvenjulega titla
Berglind hefur sterkar skoðanir á menntun og námsumhverfi og vill ekki vera stimpluð eða skilgreind eftir þeim menntastofnunum sem hún hefur sótt en gaf mér samt innsýn í mennta- og atvinnuveginn.
Eftir skólaskyldu fór hún í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild. Á sumrin starfaði hún sem umsjónarmaður skólagarðanna í Garðabæ og á Vífilsstaðaspítala. Hún hélt síðan í Iðnskólann í Reykjavík og lærði tækniteiknun því hún ætlaði sér að verða arkitekt. Leiðin lá svo í Kennaraháskólann með myndmennt sem aðalfag.
Hún lauk 7. stigs söngprófi frá Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1991 og meistaragráðu í listkennslufræðum frá Listaháskóla Íslands árið 2015.
Í nokkur ár starfaði hún á Stöð 2, meðal annars sem þula. Berglind gengur einnig undir nöfnunum, kálkonan og fuglakonan og þykir vænt um þá titla.

Áttum góð ár í Bandaríkjunum
„Ég giftist Sigurði Frey Björnssyni sumarið 1991 og um haustið fórum við í nám til Bandaríkjanna. Hann fór að læra kvikmyndagerð og ég fór í söngnám. Ég sótti tíma hjá óperudívu í San Francisco sem kenndi Belcanto söngtækni. Ég lauk BA prófi í söng 1994 frá Mills College.
Við Sigurður áttum saman góð ár í Bandaríkjunum og þar eignuðumst við dætur okkar þær, Brynhildi f. 1997 og tvíburana, Önnu Pálínu og Ólöfu Pálínu f. 2000. Árið 2005 héldum við fjölskyldan heim til Íslands, við vildum ala dætur okkar upp hér heima.“

Þetta eru einstök lífsgæði
„Það var stutt í náttúruna í Garðbænum í vetrarhögum æsku minnar. Mosfellsbær minnir mig á æskuslóðirnar, sveit í bæ, en hingað fluttum við fjölskyldan árið 2006.
Það eru ómetanleg þessi náttúrutengsl í nærumhverfinu, þetta eru einstök lífsgæði sem ekki allir búa við. Ég var ekki flutt inn þegar ég var farin að skipta mér af umhverfismálum í bæjarfélaginu. Stóð meðal annarra fyrir því að stofna Varmársamtökin og var formaður þeirra fyrstu árin.
Við Sigurður lögðum okkur fram í að ferðast mikið innanlands með dætrum okkar. Við vorum í mosfellskum fjölskyldugönguhóp sem gekk á milli fjallaskála á hinum ýmsu stöðum á landinu. Stórfjölskylda mín er mikið í hestamennsku og við höfum farið í margar fjölskylduhestaferðir með þeim. Mikið sem ég er þakklát þeim fyrir þær ferðir.
Leiðir okkar Sigurðar skildu árið 2018.“

Krílasálmar fyrir foreldra og börn
Ástríða Berglindar liggur í að miðla tónlist og náttúruupplifun í samfélagi okkar, þjóðararfi, menningu, dýralífi og flóru Íslands. Hún hefur kennt mikið í gegnum tíðina, verið með barnakóra í kirkjum og krílasálma fyrir foreldra og ungbörn.
Einnig hefur hún verið með tónlistarleikhús fyrir börn í Kramhúsinu, haldið námskeið í tónlist og skapandi hreyfingu á fjölmörgum leikskólum. Hún kenndi tónmennt í Ísaksskóla og tónlist í Waldorfskólanum Lækjabotnum. Eins hefur hún kennt börnum í alþjóðadeild Landakotsskóla.
Í Mosfellsbæ kenndi hún í yngri deild Lágafellsskóla, þar sá hún tækifærin í umhverfinu, stutt var í fjöruna og út á tún. Berglind lagði sig fram við að efla tengslin við nærsamfélagið með því að láta börnin syngja m.a. fyrir eldri borgara á Eir, heimilisfólkið á Skálatúni og vélavini á Blikastöðum.

Tækifærin liggja í náttúrutengingunni
„Í LHÍ öðlaðist ég sýn, að upplifun, náttúra og listir eru þeir hornsteinar sem ég vil fylgja í aðkomu minni að námi annarra. Ég vil valdefla nemendur mína, efla sjálfstraust þeirra, gefa þeim hvatningu, innblástur og tengsl við jörðina.
Tækifærin til að mennta og efla ungviðið hér á landi liggja að mínu mati í náttúrutengingunni sem við höfum aðgang að í okkar nærumhverfi,“ segir Berlind og brosir.

Úr varð fimm mánaða dvöl
„Ævintýrin elta mig, í ársbyrjun 2020 heimsótti ég bróðurdóttur mína til Marokkó, þar ætlaði ég að dvelja í einn mánuð, en örlögin réðu því að úr varð fimm mánaða dvöl. Í Marokkó býr einstakt hagleiksfólk sem er í mikilli snertingu við hringrás lífsins. Þar bauðst mér starf í alþjóðlegum Waldorfsskóla og ég var yfir leikskóladeild skólans.
Í dag kenni ég tónlist, handverk og myndmennt í Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Öskjuhlíð og Nauthólsvík, þar er stutt í útiævintýri. Ég rek líka mitt eigið fyrirtæki og býð upp á ýmis námskeið og ævintýri.“

Kannski ég gerist náttúruprestur
„Nú er ég komin á þann stað í ljóðinu forðum, sem er mér svo minnisstætt. Hér er seinni ljóðlínan. „En „mömmu“ ég gæfi mín ljúfustu ljóð, hún leiðir mig verndar og er mér svo góð.“
Ég er farin að semja lög um móður jörð og ætla að halda því áfram. Að koma með boðskap með hvatningu til sjálfbærni og að bera virðingu fyrir landinu okkar. Kannski tek ég upp nýtt starfsheiti og gerist bara náttúruprestur,“ segir Berglind og brosir sínu fallega brosi er við kveðjumst.

Æskuvinkonur opna vefverslun

Æskuvinkonurnar Ísfold Kristjánsdóttir og Tanja Rut Rúnarsdóttir opnuðu í júlí vefverslunina Narníu sem selur hágæða barnaföt og barnavörur. Nafnið Narnía hefur yfir sér ævintýrablæ en skírskotar líka til þessa ævintýris þeirra vinkvennanna.
„Ég hef allar tíð haft mikinn áhuga á fallegri hönnun og gæða vörum og mig hefur lengi dreymt um að stofna mitt eigið fyrirtæki. Ég nefndi þetta við Foldu sumarið 2019 og síðan þá höfum við verið að undirbúa þetta.
Styrkleikar okkar skarast fullkomlega og verkaskiptingin hjá okkur er skýr,“ segir Tanja en þær stöllur eru í stórum og barn mörgum æskuvinkvennahópi úr Mosó sem heldur hópinn vel.

Gæði og þægindi
„Það er gaman að segja frá því að við stofnuðum fyrirtækið 22. júní sem er merkisdagur hjá okkur báðum því að við eigum báðar syni sem eiga afmæli þennan dag, en samtals eigum við sjö börn.
Vefverslunin opnaði svo formlega þann 25. júlí, viðtökurnar hafa vægast sagt verið frábærar en við ætluðum alltaf að byrja hægt og rólega og bæta svo í vöruúrvalið.
Þetta hefur samt gengið mun hraðar en við bjuggumst við,“ segir Folda en mikil vinna hefur farið í að velja vel þau merki og þær vörur sem þær bjóða uppá og leggja þær mikla áherslu á gæði og tímalausa hönnun.

Eru með þrjú vörumerki
„Við vorum svo heppnar að komast í samstarf við lítið fyrirtæki í Póllandi sem er með merkið A baby brand sem er með barnalínu úr hágæða lífrænni bómull. Þá erum við með sílikon smekki, snuddubönd og þroskaleikföng frá danska merkinu Mushie og leikfanga- eða skipulagskassa frá Aykasa.
Við erum stoltar af vörunum okkar og ótrúlega þakklátar fyrir viðtökurnar en það hvetur okkur bara til að halda áfram og bæta í. Framtíðardraumurinn okkar er svo að opna búð og þá helst í Mosó.“


Narnía býður öllum Mosfellingum 15% afslátt dagana 8.-15. október. Þetta er hægt að nýta sér með því að nota kóðann MOSO20 í vefversluninni www.narnia.is

Reykjalundur 75 ára

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar á dögunum.

Til stóð að halda afmælisviku á Reykjalundi, með fjölda viðburða í tilefni afmælis hans, en eins og ástandið er í þjóðfélaginu fer lítið fyrir þeim hátíðarhöldum. Forsætisráðherra gaf sér þó tíma, fyrir hertar sóttvarnareglur, til að stilla sér upp með Pétri Magnússyni nýjum forstjóra Reykjalundar.
Reykjalundur er einn stærsti vinnustaðurinn Mosfellsbæjar með tæplega 200 starfsmenn. Pétur segist finna samhug og metnað í að byggja Reykjalund áfram upp sem öflugan, metnaðarfullan og skemmtilegan vinnustað.

Hugmyndin var að vera með afmælisviku 5.-9. október. Hápunktur afmælisársins átti að vera afmælisráðstefna Reykjalundar á hótel Natura undir yfirskrifinni „Mikilvæg endurhæfingar í íslensku samfélagi“ með þátttöku, meðal annars, heilbrigðisráðherra og landlæknis. „Ráðstefnunni hefur verið aflýst og höldum við bara enn glæsilegri viðburð á 80 ára afmælinu,“ segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar.

Einungis berklasjúklingar fyrstu árin
Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. Fyrstu 15 árin dvöldu aðeins berklasjúklingar á Reykjalundi en um 1960, þegar berklaveikin fór að láta undan síga, varð ljóst að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður.
Á næstu árum breyttist starfsgrundvöllur Reykjalundar og áhersla í endurhæfingu varð fjölbreyttari. Reykjalundur breyttist í alhliða endurhæfingarmiðstöð. Nýbyggingar og stærra viðhald á húsnæði Reykjalundar er að meginhluta fjármagnað með hagnaði frá Happdrætti SÍBS.

Yfir 100 sjúklingar sækja þjónustu á Reykjalundi á degi hverjum.

Stærsta endurhæfingarstofnun landsins
Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Endurhæfing Reykjalundar einkennist af samvinnu fagfólks sem mynda átta sérhæfð meðferðarteymi ásamt Miðgarði sem veitir sólahringsþjónustu. Einnig eru fjöldi gistirýma í boði fyrir fólk sem vegna landfræðilegra, eða annarra, ástæðna getur ekki farið heim að lokinni meðferð á daginn. Markmið endurhæfingarinnar er að sjúklingar endurheimti fyrri getu sína eða bæti heilsu sína.
Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustu á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi fólks í viðtal á göngudeild á hverju ári.

Mannauðurinn gegnir lykilhlutverki
Starfsemi Reykjalundar stendur og fellur með því fólki sem hjá Reykjalundi starfar. Reykjalundur hefur notið þeirrar gæfu að hafa haft á að skipa úrvals fólki í gegnum tíðina.
Það er því óhætt að segja að mannauðurinn gegni lykilhlutverki í velgengni Reykjalundar og sé hornsteinn að markvissum og vönduðum vinnubrögðum ásamt því að skapa þægilegt og aðlaðandi andrúmsloft fyrir starfsfólk og sjúklinga.
Reykjalundur hefur verið í efstu sætum í starfsánægjukönnunum árum saman. Starfsánægja hefur mælst mikil og starfsaldur er hár á íslenskan mælikvarða.
Á Reykjalundi starfa tæplega 200 starfsmenn í um 170 stöðugildum.

Hvað er endurhæfing?
Endurhæfing skiptir sköpum þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Eftir alvarleg veikindi, slys, áföll eða aðgerð þá er mikilvægt að fá endurhæfingu til að hjálpa til við að ná aftur fótfestu í hversdagslegu lífi.
Læknisfræðileg endurhæfing er sérhæfð meðferð sem byggir á þeirri hugmyndafræði að taka heildrænt á afleiðingum sjúkdóma og slysa. Endurhæfingin byggir á samvinnu margra fagaðila, sjúklings og hans nánustu. Beitt er sálfræðilegum, líkamlegum og félagslegum aðferðum með það að markmiði að uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingu í færni og virkni sem sjúkdómur eða slys hafa valdið.
Endurhæfing er teymisvinna sem er einstaklingsmiðuð fyrir hvern sjúkling. Tekið er mið af getu hans og færni sem og persónulegum þáttum eins og menntun, fjölskyldu, búsetu, kyni, vinnu og fleira allt eftir því hvað er verið að vinna með. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings. Lögð er áhersla á grunnþætti heilbrigðs lífs svo sem heilsusamlegt mataræði, reykleysi, hæfilega hreyfingu og góðan svefn.
Markmið endurhæfingarinnar er að bæta líðan og lífsgæði sjúklings og getu hans til að nýta sér ýmis bjargráð sem honum eru kennd.

Vettvangur þverfaglegrar samvinnu
Í upphafi voru aðeins læknar og hjúkrunarfræðingar starfandi á Reykjalundi. En fagfólki hefur fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin. Meðal helstu fagstétta sem koma að beinni meðferð sjúklinga á Reykjalundi eru félagsráðgjafar, heilsuþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, iðjuþjálfar, læknar, næringarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar.

Þjálfun í sundleikfimi nýtur mikilla vinsælda.

Saman unnið að betri líðan
Hjartað í starfsemi Reykjalundar er teymisvinna fjölbreytts hóps sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem mynda meðferðarteymi.
Í meðferðarteymunum er sett upp einstaklingsmiðað endurhæfingarprógramm fyrir hvern og einn sjúkling sem miðar að því að bæta líkamlega getu og andlega og félagslega líðan. Misjafnt er hvernig endurhæfingu hver og einn þarf á að halda og því skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk með ólíka sérfræðiþekkingu vinni saman að bættri líðan. Markmið teymisvinnu er að veita þverfaglega, heildræna meðferð byggða á gagnreyndri þekkingu. Áhersla er lögð á samtalsmeðferð, einstaklings- og hópmeðferð, fjölbreytta hreyfingu, námskeið og fræðslu.

Fyrsta flokks aðstaða á Reykjalundi
Á Reykjalundi er fyrsta flokks aðstaða til endurhæfingar á öllum sviðum. Markmiðið er að hafa heimilislegt, vinalegt og þægilegt umhverfi svo öllum líði sem best. Á Reykjalundi er æfingatækjasalur, fullbúinn íþróttasalur, meðferðarstofur, vinnustofur, smíðaverkstæði, rými fyrir alls kyns handmennt, æfingaeldhús, fræðsluherbergi, slökunarsalur, hvíldarherbergi, setustofur, starfsendurhæfingar vinnustaður og tvær sundlaugar svo eitthvað sé nefnt. Á Reykjalundi eru tiltæk hvers kyns hjálpartæki til að aðstoða fólk með mismunandi líkamlega færni við daglega iðju.

Hollvinasamtök Reykjalundar
Hollvinasamtök Reykjalundar voru stofnuð árið 2013. Tilgangur samtakanna er að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á Reykjalundi í samráði við stjórnendur Reykjalundar.
Fyrrum sjúklingar Reykjalundar og aðrir velunnarar stóðu að stofnun samtakanna og hafa þau gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmar 60 milljónir. Allir eru velkomnir í Hollvinasamtökin. Skráning fer fram á heimasíðu Reykjalundar.

Heilbrigðisþjónusta hornsteinninn
„Þrátt fyrir að flestir telji heilbrigðisþjónustu vera einn af hornsteinum samfélagsins, er ljóst að fjármunir í heilbrigðismál eru og munu verða takmarkaðir. Vegna þessa er mjög mikilvægt að nota þessa fjármuni með eins markvissum hætti og mögulegt er með það að leiðarljósi að hámarka þjónustu og gæði.
Mín skoðun er sú að endurhæfing og forvarnir séu vannýttur þáttur í því sambandi og við getum gert töluvert betur. Með fjölgun þjóðarinnar og vaxandi meðalaldri er nauðsynlegt að skoða og tileinka sér aukna þjónustu og nýja möguleika,“ segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar.
„Það eru mörg tækifæri og möguleikar í stöðunni í framtíðarsýn Reykjalundar og ég er spenntur að fá að leggjast á árar með starfsfólki að gera þetta að veruleika með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.“

Endurhæfing Covid-sjúklinga
Í upphafi faraldursins gerðu Reykjalundur og Landspítali samning um að Reykjalundur myndi sinna endurhæfingu Covid-sjúklinga af Landspítala. Það voru þá sjúklingar sem lagst höfðu inn á spítalann með Covid og þurftu endurhæfingu til að geta útskrifast; komast á fætur og aftur út í hið daglega líf. Sextán einstaklingar fóru í gegnum þetta ferli á Reykjalundi í vor.
Í sumar og haust hefur orðið töluverð umræða um eftirköst þeirra sem sýkst hafa af Covid og endurhæfingu þeirra.
„Þetta er hópur fólks sem sýktist en fékk ekki mikil einkenni, a.m.k. ekki það mikil að þurfa að leggjast inn á spítala. Hins vegar eru komnar margar beiðnir á Reykjalund um endurhæfingu þessa hóps. Enginn veit hvað hópurinn er stór en leitt hefur verið að því líkum að það séu að minnsta kosti 10%.
Þó nákvæmari rannsóknir skorti ennþá er flestum að verða ljóst að töluverður hluti þeirra sem sýkjast og jafnvel fá ekki mikil einkenni, geta verið að glíma við eftirstöðvarnar mörgum vikum eftir sýkingu, sem lýsa sér í formi þreytu, úthaldsleysis og öndunarfæraeinkenna svo dæmi séu nefnd. Nú er komnir sjö í meðferð inn á Reykjalund með þessa lýsingu og yfir fjörtíu einstaklingar eru á biðlista,“ segir Pétur að lokum.

Fulli gaurinn í partýinu

Covid er orðið eins og fulli gaurinn með endalausa úthaldið í partýinu sem átti að vera löngu búið, vill ekki hætta, vill ekki fara. Við komum gaurnum ekki út, hann er þarna og við þurfum að sætta okkur við það. Hann fer einhvern tíma, en bara þegar honum sýnist.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt á svona tímum eru einfaldar venjur sem láta manni líða vel. Þessar venjur vilja gjarna verða út undan á erfiðum tímum. En skipta virkilega máli. Ég gleymi venjunum stundum. Átta mig svo á því þegar ég finn þær aftur og kem þeim inn í daglega rútínu, hvað þær gefa mér mikið. Ég fann til dæmis DuoLingo aftur í gærmorgun, hafði „gleymt“ því að opna það og æfa mig í tungumálum. Hafði verið að vinna mikið í þýsku til þess að geta bjargað mér í Ölpunum, en þar átti ég að vera í síðasta mánuði með föngulegum félögum að keppa í Spartan Race. Ég hafði gaman af þýskunni, en spænskan er alltaf uppáhaldið og það var virkilega góð stund þegar ég opnaði Duo í gær og skellti mér í nokkrar umferðir í spænsku. Duo tók vel á móti mér, ég rifjaði upp spænska nútíð og leið vel á eftir.

Ég fór líka í morgungöngu, ekki á fell, heldur bara stuttan hring í hverfinu. Fylgdi þeim yngsta áleiðis í skólabílinn og rölti svo meðfram ánni og aftur heim. Gerði þetta aftur í morgun. Þessi byrjun á degi, smá Duo og stutt ganga er töfralyf þegar fulli gaurinn neitar að fara úr partýinu. Maður steingleymir honum á meðan, hann skiptir engu máli. Og þessar einföldu venjur gefa manni stóran orkuskammt sem endist langt fram á dag. Þá er gott að eiga eina eða tvær góðar venjur í pokahorninu til að endurnýja orkuna fram á kvöld.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. október 2020

Gefa út sína fyrstu plötu

Ísak Andri, Þorsteinn, Kristján Ari og Nói Hrafn.

Rokkhljómsveitin Red Line hefur gefið út sína fyrstu hljómplötu á Spotify.
Hljómsveitin er skipuð fjórum ungum og efnilegum Mosfellingum, þeim Kristjáni Ara Haukssyni söngvari, Nóa Hrafni Atlasyni bassaleikara, Ísaki Andra Valgeirssyni gítarleikara og trommaranum Þorsteini Jónssyni.
„Við stofnuðum hljómsveitina í janúar og sömdum þrjú lög fyrir Músík­tilraunir en vegna COVID19 var hætt við keppnina í ár. Þarna kviknaði neisti hjá okkur, við höfum allir einbeitt okkur að þessu síðan og nú er árangurinn að koma fram með þessari plötu,“ segir Kristján Ari.

Spenntir að fá viðbrögð
Á plötunni má finna átta frumsamin lög og nefnist platan 13:18. „Nafnið 13:18 varð hugmynd vegna þess að við leigðum hús á Laugaveginum til að semja og spila lög. Fyrsta daginn þar dó veggklukkan okkar á tímanum 13:18 svo öll lögin okkar eru samin á þeim tíma í þessu húsi, sem er einnig húsið framan á plötuumslaginu.
Við höfum fengið mjög góð viðbrögð, við sjáum að þeir sem hafa hlustað á plötuna gera það aftur og aftur. Nú þurfum við bara að gera okkur sýnilega og fá fleiri til að hlusta og erum spenntir að fá meiri viðbrögð,“ segir Kristján Ari.
Lagið Summer Nights er mest spilaða lag hljómsveitarinnar og hefur sveitin gefið út myndband með því lagi sem meðal annars er tekið upp hér í Mosfellsbæ.

Þoli illa tvíverknað og tilgangsleysi

Ítalski Mosfellingurinn Michele Rebora eða Tittí eins og hann er ávallt kallaður flutti til Íslands árið 2001 en hann er alinn upp í þorpi nálægt Genova.
Það var aldrei ætlun hans að flytja frá heimalandi sínu en eftir að hann hitti bláeygða draumadís frá Laugarvatni var hann fljótur að slá til.
Þau hjónin hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsbænum og eru orðin fjórum börnum ríkari.

Michele fæddist 20. október 1978 í heimahúsi í Sant’Olcese sem er lítill bær rétt fyrir utan Genova á Ítalíu. Foreldrar hans eru þau Alessandra Toni húsmóðir og Luigi Rebora líffræðingur, verktaki á sviði vatnshreinsunarstöðva.
Michele á einn bróður, Vittorio f. 1977.

Með villisvín og dádýr í bakgarðinum
„Það má segja að ég sé alinn upp í sveit þótt það hafi ekki sömu merkingu og hér á landi. Ég bjó ekki á bóndabæ þar sem voru stórgripir en húsið okkar var hluti af strjálbýlu þorpi í fjallshlíðunum á bak við Genova. Það er umkringt skógi og túnum og við vorum með villisvín og dádýr í bakgarðinum. Föðurfjölskylda mín á rætur sínar að rekja til þessara slóða langt aftur í aldir.
Ég á stóran frændsystkinahóp þannig að það var alltaf nóg að krökkum til að leika við.“

Ólumst upp við frjálsræði
„Við bræðurnir ólumst upp við frjálsræði, við vorum berfættir frá skólalokum í júní til septemberloka. Við hlupum um í skóginum, svömluðum í ám og bjuggum til ævintýraheima.
Það var ekki búið að finna upp snjall­símana á þessum tíma og lítið var af tölvuleikjum en það voru til svona stórir spilakassar sem gleyptu 500 lírur eins og enginn væri morgundagurinn.“

Innleiddi pappírsflokkun
„Ég gekk í sveitaskólann í bænum og við vorum einungis fimm í fyrsta bekk. Ég elskaði kennarann minn hana Marisu og ég tíndi oft blóm handa henni.
Mér gekk vel í skólanum og átti auðvelt með að læra. Það er gaman að segja frá því að í þriðja bekk innleiddi ég pappírsflokkun í skólanum með aðstoð pabba sem sá um að tæma tunnurnar.
Ég fór svo í gagnfræðaskóla í Campo­morone sem er höfuðstaður sveitarfélagsins og ég man hvað mér fannst hann vera langt í burtu. Ég var vinamargur og mjög virkur í félagslífinu, það mætti jafnvel segja að ég hafi verið fyrirferðarmikill,“ segir Tittí og brosir.

Heimurinn stækkaði til muna
„Þegar ég var 14 ára gekk ég í latínuskóla í Genova og heimurinn stækkaði til muna. Maður vaknaði eldsnemma til að fara í skólann, fór smá spöl á vespu, svo í rútu, síðan í lest og svo gekk maður restina af leiðinni. Ég kynntist nýjum krökkum sem ég held enn sambandi við í dag, þar á meðal Fabio sem er minn besti vinur en hann hefur búið á Íslandi í 16 ár.
Ég lét strax til mín taka í skólapólitíkinni, ég var fyrst kosinn bekkjarfulltrúi og svo fulltrúi nemanda í skólaráði. Ólga var í skólasamfélaginu á þessum árum og mikið um kröfugöngur og verkföll sem við tókum iðulega þátt í. Haustið sem ég var í 2. bekk yfirtóku nemendur skólann og þar réðu þeir ríkjum í um tvær vikur. Það er skrítið til þess að hugsa núna en þetta var merkileg reynsla.
Leiðin lá síðan í háskólann í Genova þar sem ég nam alþjóðleg stjórnmálafræði.“

Sendi mömmu og vinkonu á svæðið
„Fjölskylda mín á hús í fjöllunum heima og þar eyddum við vinirnir oft helgunum, sérstaklega eftir að við fengum vespu 16 ára gamlir. Við grínuðumst oft með það þegar bankað var á dyrnar hjá okkur að nú væri kominn hópur af sænskum skátastelpum.
Eitt sinn þegar við vorum að ganga upp að fjallakofanum spurði ég vin minn hvort hann vissi hvort fleiri ætluðu að koma. Hann nefndi einn og svo annan sem ég þekkti ekki. Sá gat ekki komið og ætlaði að senda mömmu sína og vinkonu hennar í staðinn. Frábært, hugsaði ég, fertugur maður sem kemst ekki og ætlar að senda þær tvær í staðinn, það verður eitthvað,“ segir Tittí og hlær að minningunni.
„Það kom svo á daginn að þessi vinkona var í raun undurfögur tvítug pía, ljóshærð og bláeygð og ég féll strax fyrir henni. Hún var sem sagt í heimsókn hjá vinkonu sinni og ég varð að leggja mig allan fram til að vinna hana á mitt band. Hún var nefnilega staðráðin í því að finna sér ekki mann á Ítalíu. Seiglan og þrautseigjan urðu til þess að við byrjuðum saman og ég elti hana til Íslands sumarið 1999.“

Tek kveðjuna góðu alltaf til mín
„Fyrstu tvö árin bjuggum við og störfuðum hér á landi á sumrin en vorum svo úti í Genova á veturna. Við fluttum síðan alfarið heim 2001. Heim, segi ég, því hér á ég heima, ég hef alltaf tekið kveðjuna góðu til mín um borð í flugvélum Icelandair þegar sagt er velkomin heim.
Draumadísin mín er frá Laugarvatni, heitir Heiða Björg Tómasdóttir og starfar sem ráðgjafi. Við eigum saman fjögur börn, Aldísi Leoní f. 2004, Elio Mar f. 2007, Þórdísi Láru f. 2012 og Livio Frey f. 2015.“

Vaskar upp og lætur leirtauið þorna
„Ég hóf störf sem gæðastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs í febrúar á þessu ári, korter í COVID. Það var mjög spes þar sem vinnustaðurinn dreifðist mjög fljótt og allir fóru að vinna heima. Ákveðin áskorun að byrja á nýjum stað svona en þarna er mjög gott að vera.
Ég starfaði áður í 14 ár sem ráðgjafi í gæðastjórnun. Aðstoðaði aðallega fyrirtæki við að greina ferli sín og undirbúa sig fyrir vottun en líka varðandi umhverfismál, upplýsingaöryggi, jafnréttismál o.s.frv.
Ég þoli illa tvíverknað og tilgangsleysi og hef því gaman af því að velta fyrir mér leiðum til að einfalda hlutina og spara vinnu. Eins og í daglega lífinu, t.d varðandi uppvaskið, þá vaskar maður upp og lætur svo leirtauið þorna en þurrkar það ekki.“

Nýt þess að vera úti í náttúrunni
„Ég hef líka gríðarlegan áhuga á umhverfismálum og þá helst „ruslinu“. Í gegnum starf mitt sem ráðgjafi hef ég m.a. fengið tækifæri til að hafa áhrif og hef tekið þátt í heildarendurskoðun á flokkunarreglum fyrir höfuðborgarsvæðið og framsetningu þeirra á vef SORPU.
Ég nýt þess að vera úti í náttúrunni og finnst æðislegt að komast í „óbyggðir“ með því að ganga í nokkrar mínútur að heiman. Ég er virkur í bæjarmálunum og líka í samfélagi Ítala hér á landi og læt mig málin varða.
Ég er líka nokkuð óvirkur sportkafari og nokkuð virkur mynt- og seðlasafnari svo ég hef alltaf nóg að gera,“ segir Tittí er við kveðjumst.

Skógræktarfélagið hlýtur umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar

Á myndinni má sjá formenn Skógræktarfélags Mosfellsbæjar síðustu ára eða fulltrúa þeirra.

Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar veitti á dögunum árlegar umhverfisviðurkenningar. Viðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum.

Skógræktarfélag Mosfellsbæja  fær viðurkenningu fyrir góð störf að skógræktarmálum í Mosfellsbæ um margra ára skeið. Skógræktarfélagið hefur áratugum saman unnið óeigingjarnt starf við skógrækt í Mosfellsbæ með uppbyggingu fallegra skógarlunda og útivistarsvæða og þannig stuðlað að fallegra umhverfi í bænum og aukinni útivist og heilsurækt íbúa.
„Við erum gríðarlega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og fyllumst stolti. Þetta hvetur okkur svo sannarlega til að halda áfram á sömu braut,“ segir Björn Traustason formaður skógræktarfélagsins en viðurkenningin var veitt í Hamrahlíð, glæsilegu útivistarsvæði Mosfellinga.
Til stóð að aðalfundur Skógræktarfélags Íslands yrði haldinn með mikilli dagskrá í Hlégarði í byrjun september. Vegna sóttvarnarreglna og fjöldatakmarkana þurfti því miður að fresta honum og þeirri dagskrá sem búið var að undirbúa í tilefni 90 ára afmæli félagsins.

Þá fengu þrír garðar verðlaun. 

Bergholt 10
Guðlaug Helga Hálfdánardóttir og Ásbjörn Þorvarðarson fá viðurkenningu fyrir fallegan og fjölskrúðugan garð að Bergholti 10 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um langt skeið.

Einiteigur 4
Guðlaug Anna Ámundadóttir og Snorri Böðvarsson fá viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel skipulagðan garð að Eini­teig 4 þar sem lögð er áhersla á fallegt umhverfi og tengingu við náttúruna í kring.

Litlikriki 68
Ragnhildur Sigurðardóttir og Jón Andri Finnsson fá viðurkenningu fyrir fallegan og vel skipulagðan garð að Litlakrika 68 þar sem lögð er áhersla á frumlega hönnun og tengingu við náttúruna.

 

Handbolti.is kominn í loftið

Ívar Benediktsson og Kristín Reynisdóttir láta hendur standa fram úr ermum.

Þann 3. september opnaði vefurinn Handbolti.is. Vefurinn er gefinn út af Snasabrún ehf, sem er í eigu Mosfellinganna Ívars Benediktssonar blaðamanns og Kristínar B. Reynisdóttur sjúkraþjálfara.
Ívar er ritstjóri og ábyrgðarmaður. Hann var í hartnær aldarfjórðung íþróttafréttamaður hjá Morgunblaðinu og mbl.is og fylgdist á þeim tíma grannt með handknattleik, jafnt innanlands sem utan.

Öflugur fréttaflutningur af handbolta
„Það urðu breytingar í vinnu hjá mér, mér var sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu og þar af leiðandi var ég atvinnulaus. Það höfðu margir haft á orði við mig að fara af stað með miðil tengdan handboltanum og ætli mig hafi ekki bara alltaf vantað þor til þess að stíga þetta skref,“ segir Ívar.
„Handbolti.is mun halda úti öflugum fréttaflutningi af handknattleik, bæði innanlands og utan, af þeirri íþrótt sem hefur sameinað þjóðina á ótal gleðistundum í gegnum tíðina.“
„Auk fregna af innlendum og erlendum vettvangi og landsliðum Íslands í öllum aldursflokkum er ætlunin að vera með fingur á púlsi fjölmenns hóps íslensks handknattleiksfólks og þjálfara sem starfa utan landssteina Íslands. Og ekki stendur til að gleyma dómurunum.
Handbolti.is verður opinn fyrir skoðunum þeirra sem að íþróttinni koma og vilja viðra á opinberum vettvangi. Ýmislegt fleira er í bígerð,“ segir Ívar en vefinn hannaði Daníel Rúnarsson hjá Kasmir vefhönnun og merki vefjarins teiknaði Mosfellingurinn Pétur Baldvinsson.

Góðar viðtökur
Vefurinn hefur fengið frábærar viðtökur en um þessar mundir er allt að fara í gang í handboltanum. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð, erum að fá skilaboð og pósta frá fólki úr öllum áttum sem er þakklátt fyrir þetta framtak og vilja jafnvel leggja vefnum lið á margan hátt allt frá því að kaupa auglýsingar, skaffa mér myndir og aðstoða mig á allan hátt.
Það er okkur mjög mikilvægt að fá þessi viðbrögð og hvetur okkur til dáða að halda áfram. Auk þess að vera með vefsíðuna þá erum við líka á Instagram, Twitter og Face­book,“ segir Ívar að lokum og hvetur alla sem áhuga hafa á handbolta til að fylgjast með.