Rótarýklúbburinn styrkir Píeta samtökin

Alfreð S. Erlingsson, forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar, Ellen Calmon, framkvæmdastjóri
Píeta samtakanna og Þorkell Magnússon, formaður verkefnanefndar.

Á síðasta starfsári Rotary International var geðheilsa meginþema.
Síðastliðið vor kom Benedikt Þór Guðmundsson, verkefnastjóri og einn af stofnendum Píeta samtakanna, á fund Rótarýklúbbs Mosfellssveitar og hélt afar fróðlegt erindi um starfsemi samtakanna.
Píeta samtökin eru frjáls félagasamtök sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, sinna meðferð skjólstæðinga í sjálfsvígshættu og styðja við aðstandendur þeirra og aðstandendur þeirra sem hafa tekið eigið líf.
Píeta samtökin starfa eftir hugmyndafræði samnefndra samtaka á Írlandi. Samtökin njóta styrkja almennings á Íslandi og eru því í eigu þjóðarinnar og háð henni varðandi rekstrarfé.
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar ákvað að styrkja Píeta samtökin og þann 12. september var styrkurinn afhentur. Það gerðu Alfreð Svavar Erlingsson, forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar, og Þorkell Magnússon, formaður verkefnanefndar. Þau Ellen Calmon, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna og Benedikt Þór Guðmundsson veittu styrknum móttöku á starfsstöð samtakanna á Amtmannsstíg 5a í Reykjavík.

Félagsstarfið í Mosfellsbæ fær Brúarland til afnota

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Jónas Sigurðsson formaður FaMos og Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfsins klippa á borða í Brúarlandi við formlega opnun hússins 28. ágúst.

Hið sögufræga hús Brú­ar­land hefur form­lega verið af­hent fé­lags­starf­inu í Mos­fells­bæ og félagi aldraðra, FaMos.
Há­tíð­leg at­höfn fór fram þann 28. ágúst þar sem Ólaf­ur Ingi Ósk­ars­son formað­ur vel­ferð­ar­nefnd­ar Mos­fells­bæj­ar flutti ávarp og fór yfir sögu húss­ins. Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri, Jón­as Sig­urðs­son formað­ur FaMos og Elva Björg Páls­dótt­ir for­stöðu­mað­ur fé­lags­starfs­ins klipptu síð­an á borða sem tákn um opn­un húss­ins.

Mikilvægt hlutverk í sögu bæjarins
Brú­ar­land hef­ur ávallt haft mik­il­vægt hlut­verk í sögu bæj­ar­ins. Til­komu þess má rekja til Kven­fé­lags Lága­fells­sókn­ar sem var með það sem bar­áttu­mál að byggt yrði nýtt sam­komu- og skóla­hús í Mos­fells­sveit. Tíu árum eft­ir að hreyft var við hug­mynd­inni árið 1922 var hús­ið tek­ið í notk­un.
Brú­ar­land þótti eitt glæsi­leg­asta barna­skóla­hús í sveit á Ís­landi á sín­um tíma og þar var einn­ig sím­stöð og fé­lags­heim­ili. Árið 1929 var byggt ofan á hús­ið og var það rými hugsað sem skóla­stofa, heima­vist og skóla­stjóra­í­búð. Brú­ar­land var ekki ein­göngu skóli held­ur mið­stöð sam­komu­halds í sveit­ar­fé­lag­inu allt þar til fé­lags­heim­il­ið Hlé­garð­ur var vígt árið 1951.
Eft­ir að Varmár­skóli var byggð­ur og tek­inn í notk­un árið 1962 var Brú­ar­land þó áfram notað til kennslu. Brú­ar­land var tón­list­ar­skóli allt til árs­ins 2000. Þá var Fram­halds­skóli Mos­fells­bæj­ar í hús­inu frá 2009 til 2013. Frá ár­inu 2016 var úti­bú frá Varmár­skóla og má segja að það hafi ver­ið fyrstu skref­in að stofn­un Helga­fells­skóla sem var tek­inn í notk­un árið 2019.

Endurbætur á húsinu
Unn­ið hef­ur ver­ið að end­ur­bót­um á Brú­ar­landi und­an­far­ið ár og nú er það fé­lags­starf­ið sem fær af­not af Brú­ar­landi fyr­ir starf­semi sína sem mun von­andi efla enn frek­ar starf­ið og auka fjöl­breytni þess.
Áfram verð­ur fé­lags­st­arf í Eir­hömr­um auk þess sem þar er veitt ým­iss þjón­usta við íbúa og aðra bæj­ar­búa.

Huldumenn á heiðinni

– um textagerð Þóris Kristinssonar á plötunum Huldumenn og Hugarfóstri með Gildrunni.

Viðtalið sem hér fer á eftir er unnið upp úr ritgerð sem Hjördís Kvaran Einarsdóttir skrifaði vorið 2007 í áfanganum Dægurlagatextar og alþýðumenning við deild íslenskra fræða við Háskóla Íslands. Það fjallar fyrst og fremst um texta Þóris Kristinssonar á fyrstu tveimur plötum Gildrunnar, Huldumenn (1987) og Hugarfóstur (1988), en með aðaláherslu á Huldumenn þar sem hún átti 20 ára útgáfuafmæli á þeim tíma sem ritgerðin var samin. Viðtalið byggir eingöngu á viðtölum við Þóri, Birgi Haraldsson og Karl Tómasson, þó eingöngu sé vitnað í Þóri eðli málsins samkvæmt.

Platan Huldumenn var aðeins gefin út á vínyl í 700 eintökum og er með öllu ófáanleg í dag. Hægt er að nálgast flest lögin af plötunni á Spotify á plötunni Gildran í tíu ár, en ekki verður hægt að setja plötuna sjálfa þar inn þar sem allar upptökur og masterar eru ónýtir og að sama skapi verður ekki hægt að gefa hana aftur út. Hugarfóstur kom út á vínyl og geisladisk og er aðgengileg á Spotify.

 

Við vorum bara að skemmta okkur

„Það er fullt af persónulegum bröndurum í textunum. Við vorum auðvitað metnaðarfullir, en við vorum umfram allt bara ungir strákar sem sturtuðum í okkur víni um helgar og hlógum og hlógum og gerðum grín að hverjum öðrum og höfðum gaman af þessu. Við vorum bara að skemmta okkur.“ segir Þórir Kristinsson.

Þegar flett er í gömlum dagblöðum frá árinu 1987 verður lesandi fljótt var við að hin óopinbera orðræða í þjóðfélaginu snerist að miklu leyti um tónlist. Þessi orðræða, undiraldan, var ekki mjög sýnileg enda unnu mörg öfl að því bæði leynt og ljóst að halda henni neðanjarðar. Hún fann sér þó leið upp á yfirborðið og eitt af vopnum hennar var lesendadálkar dagblaðanna, það leið varla sá dagur að ekki væri lesendabréf um tónlist og útvarp í þessum dálkum. Síðla sumars 1986 hóf fyrsta einkarekna útvarpsstöðin á Íslandi, Bylgjan, rekstur sinn og varð um leið, ásamt þeim útvarpsstöðvum sem á eftir fylgdu, að dyravörðum (gatekeepers), ásamt útgefendum, og stjórnuðu því hvað komst út til almennings og til þess að komast þangað út varð tónlistin að hafa réttu merkimiðana og aðallega rétt útgáfunafn. Einkaútgefið efni og merkimiðar eins og rokk og þungarokk áttu  einfaldlega ekki upp á pallborðið.

Fólkið út í samfélaginu gerði gífurlegar kröfur til stöðvanna og hafði sitt álit á því hvað þótti boðlegt og hvað ekki. Dag frá degi má lesa bréf frá fólki sem telur sig vita hvað þjóðinni er fyrir bestu í þessum efnum. Þegar betur er að gáð er það áberandi hvað bréf, frá fólki sem vill fá meira þungarokk í spilun á stöðvunum eru í miklum meirihluta, og að sama skapi bréfin frá fólkinu sem mótmælir harðlega spilun þungarokks. Þetta er á tímum þar sem það var í tísku að allir væru eins, steríótýpur og guð hjálpi þeim sem vogaði sér að ganga í öðru en einu úlpunni sem var viðurkennd eða öðruvísi skóm en allir hinir voru í.

Það sama gilti um viðurkenndu tónlistina. Hún var hálfgeld, a.m.k. sú sem naut mestrar hylli útvarpsstöðva og var mest spiluð og af því að fólki stóð ekki svo auðveldlega til boða að meta annað en það sem var spilað á útvarpsstöðvunum gefur augaleið að vinsældalistarnir voru í samræmi við það og í kjölfarið var því haldið blákalt fram að þetta væri það sem að fólkið vildi, það veldi vinsældalistana, það stjórnaði.

Það er því augljóst hvaða hugmyndafræðilegu stefnur voru hér að verki, tónlistargildið var ekki talið mikið í tónlist sem ekki flokkaðist annað hvort undir sígilda tónlist eða það niðursoðna glundur sem réð ríkjum á tónlistmarkaðnum á 9. áratugnum.

Það var því ekki auðvelt að vera sjálfstæður og ósvikinn á þessum árum, a.m.k. ekki ef hljómsveitir spiluðu rokk og þungarokk. Þó að þessi tónlist fengi ekki hljómgrunn á yfirborðinu eins og áður segir þreifst hún neðanjarðar og upp spruttu tónleikastaðir víða þar sem að vinsælt varð að halda tónleika með misþekktum hljómsveitum og bílskúrsböndum. Fimmtudagskvöld urðu heitustu kvöld vikunnar og fyrir þá sem vildu eitthvað annað en ritskoðaða tónlistarstefnu ljósvakamiðlanna var þetta eins og að komast í himnaríki.

 

 

Gildran

Það er inn í þetta þjóðfélagsumhverfi sem hljómsveitin Gildran stígur fram á sjónarsviðið í maí 1987 þegar fyrsta plata hennar, Huldumenn, kemur út. Gildruna skipuðu á þessum tíma Mosfellingarnir Karl Tómasson (trommur, slagverk, söngur), Birgir Haraldsson (söngur, gítar) og Þórhallur Árnason (bassi, söngur). Hljómsveitin og platan vöktu strax feikna athygli þó ekki hafi þeim verið hampað á útvarpsstöðvunum frekar en öðrum hljómsveitum sem spiluðu framsækið rokk á þessum tíma: „Platan kemur eins og skrattinn úr sauðleggnum inn í flóruna á þessum tíma. Hún var á skjön við allt en samt voru tónleikastaðir ítrekað fylltir“ segir Þórir.

Það var greinilegt að eitthvað við tónlist hljómsveitarinnar höfðaði vel til rokkþyrstra áheyrenda og að fólki þótti hljómsveitin hafa eitthvað ósvikið fram að færa. Það vakti athygli að textar hljómsveitarinnar voru allir á íslensku og voru ekki hugarsmíð hljómsveitarinnar sjálfrar heldur fjórða aðilans, Þóris.

Þórir er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1965 og flutti til höfuðborgarsvæðisins í kjölfar gossins 1973. Í Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit kynntist hann þeim félögum Karli (1964) og Þórhalli (1965) og þegar fram liðu stundir bættist Birgir (1958) í hópinn. Þeir reyndu fyrir sér sem þungarokkshljómsveitin Pass sem flutti allt sitt efni á ensku. Þegar ekki gekk að koma sér á framfæri sem Pass, þar sem enginn vildi gefa þá út, var nafni hljómsveitarinnar breytt í Gildran. Gildran spilaði mun áheyrilegri tónlist. Það var lægð í rokkinu á Íslandi á þessum tíma og það vildi enginn gefa út tónlist Pass og þess vegna hét plata hinnar nýju hljómsveitar Huldumenn: „Pass var hulduhljómsveit, neðanjarðar. Það hefur aldrei, að mínu mati, verið til jafn góð þungarokkshljómsveit á Íslandi og það þekktu hana sárafáir og hluti af því var vegna þess að hljómsveitin Pass gaf aldrei neitt út. Nafnið á plötunni er bein vísum í gömlu hljómsveitina þó þeir spili þar undir nýju nafni“ segir Þórir.

Enda kom það í ljós þegar farið var að leita að útgefanda fyrir Huldumenn að það vildi enginn gefa þá út, frekar en fyrri daginn, svo að raunin varð sú að þeir gáfu sjálfir út plötuna undir merki félags síns, Grodda hf. Töluverðs misskilnings gætti með nafn hljómsveitarinnar í byrjun. Margir héldu að hljómsveitin héti Huldumenn en platan Gildran, það var svo klassískt, alls konar „menn“ voru til. Gildran er alls ekki hljómsveitarlegt nafn og er í raun heldur djarft val á nafni á hljómsveit þar sem það er í eðli sínu tvírætt. Karl átti heiðurinn að þessu nafni sem og á nafni útgáfu þeirra félaganna, Groddi hf. Gildran er tilraun til að fá að staðsetja sig á íslenskum markaði. Huldumenn kom út til að þeir fengju að spila og það gekk eftir. Þeir fóru um allt og alls staðar mætti fólk. Þetta er að sumu leyti alþýðleg tónlist því að tónleikahald rótgekk jafnvel þó að fólk þyrfti að borga sig inn, það var alltaf húsfyllir. Enda eru margir á því máli að Gildran eigi skilið hásætið í rokkflóru íslenskrar tónlistarsögu. Gildran hafði skemmtigildi sem tónleikaband og dansiballaband, það var alltaf stuð, fjör og ekkert mikið af rólegum vangalögum.

Hljómsveitin gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og æfði mjög stíft. Það var greinilega eitthvað ósvikið, frumlegt og skemmtilegt við tónlistina: „Þetta var svo skothelt og vel æft þegar það var farið með þetta í stúdíó, platan er bara life og þess vegna lá hún svo vel á tónleikum. Fólkið sem keypti plötuna kom á tónleika og heyrði að þetta var bara eins og á plötunni. Það voru engar stúdíófiffingar í gangi.“ segir Þórir.

Það líður ekki nema rétt ár frá útkomu Huldumanna þar til önnur plata Gildrunnar, Hugarfóstur, kom út. Þessar tvær plötur eru systurplötur og því er ekki hægt að fjalla um aðra nema hafa hina í huga líka. Á Hugarfóstri eru allir sömu menn að störfum og áður.

Það að Þórir fer að semja texta fyrir hljómsveitina kemur til vegna þess að hljómsveitin og Þórir þekktust mjög vel eins og áður sagði og hljómsveitin var ákveðin í að gera plötuna, breyta til. „Tónlistarlega séð var Pass að gera stórkostlega hluti. Menn voru búnir að reyna með hana, en uppskáru aldrei neitt, en það gerðist með Huldumönnum, þá uppskáru menn bæði umfjöllun og peninga. Lögin fóru að heyrast í útvarpi og allt í einu gátu strákarnir spilað út um allt.“ segir Þórir.

 

Textar Huldumanna

Það sem vekur athygli þegar textarnir eru skoðaðir á plötuumslaginu er að þeir virka í fljótu bragði eins og þeir séu ristir með rúnum og er því einkum um að kenna að hver einasta lína hefst með stórum staf. Þetta var ekki djúpt, útspekúlerað bragð af hálfu Þóris heldur voru þetta einfaldlega mistök af hendi þess sem setti textana upp: „Kannski olli þetta því að menn tóku þetta sem eitthvað enn þá dýpra, menn hafa haldið að þetta væri enn þá pældara. Ég var bara tvítugur gríslingur og pældi ekki svona djúpt.“ segir Þórir.

Þetta hefur líklega valdið því að textarnir hafa m.a. fengið það orð á sig að þeir þykja torræðir með meiru. Vegna þessara mistaka og þeirrar staðreyndar að hvergi er punktur í textunum til þess að bakka þessa stóru stafi upp, getur verið erfitt að greina hvar setning eða hugsun byrjar eða endar því þá eru aðeins eftir erindaskil til að styðja sig við. En þetta gerir textana líka þess virði að takast á við þá.

Bygging textanna minnir um margt á fornan bragarhátt bæði í lengd vísuorða og eins þegar textarnir eru lesnir upphátt. Ástæðan fyrir þessari tilfinningu lesanda er vafalítið sú að vísuorðin eru áberandi stutt, og oft og tíðum niður njörvuð í atkvæðafjölda í vísuorði. Þetta er áberandi í þeim textum þar sem er hljómstríð hrynjandi eins og í Leiðtogunum þar sem samspil þessa knappa stíls, atkvæðafjölda og harðra samhljóða valda því að við upplestur skynjar lesandinn gremjuna í hinum pólitíska texta mjög sterkt enda er textinn ortur um leiðtogafundinn 1986: „Þetta var bara svona okkar diss, við vorum bara að gefa skít í þessa náunga, það kom ekkert út úr þessum fundi“ segir Þórir. Í textanum um Svarta blómið, sem er fyrsti textinn sem Þórir samdi, þá 16 ára og var ort um afa Þóris sem þá var nýlátinn, kemur þessi þunga hrynjandi einnig mjög sterkt fram, það drynur bókstaflega í þungri sorginni.

Rétt tæplega helmingur laglínanna í textunum eru þrjú orð, sum eru eitt orð en fæst eru fleiri en fjögur. Þessi orðaskortur í vísuorðunum veldur því að stíllinn verður mjög knappur og snöggur. Þetta kemur sterkt fram í textum eins og Vorbragur, Förumaður og Pass. Þar eru langflest vísuorðin þrjú orð, þó eitthvað bregði út af þeirri reglu í Pass. Það sem einnig er áberandi í þessum þremur textum er að í hverri einustu laglínu eru sex atkvæði. Þarna er um að ræða atriði í stíl Þóris sem er nær alveg horfið í textum hans á Hugarfóstri. Þar er fágunin orðin meiri og textarnir renna betur við lestur. Þar er greinilegt að Þórir er kominn í meiri æfingu, en það eitt og sér skýrir ekki af hverju þessi mikli munur er á textum platnanna.

Á Huldumönnum virðist það vaka fyrir Þóri að eyða ekki óþarfa orðum í að koma orðum að því sem hann vill segja. Ástæðan fyrir þessu er sú að þó allir hljómsveitarmeðlimir hafi átt sinn þátt í að semja lögin var samstarf Þóris hvað mest við Birgi söngvara. Það samstarf er svo nýtt á Huldumönnum að Þórir vildi ekki gera kröfur um að laglínum yrði breytt fyrir textann og því var það hans mesti hausverkur að velja orðin þannig saman að úr yrði merkingarbær heild sem gengi upp bæði í texta og lagi. Þannig er að Birgir hefur þann háttinn á þegar hann semur lög að hann semur sjálfur texta við þau á ensku þar sem hann ákveður hvernig textinn skuli liggja með tilliti til t.d. atkvæða. Þórir reynir að gæta þess að þetta haldi sér þegar hann tekur til við að semja textann, til þess að lagið breytist sem minnst. Þannig mótar Birgir, ásamt Karli og Þórhalli, rammann sem Þórir þarf síðan að mála sína mynd inn í. Á Hugarfóstri er samstarf þeirra farið að taka á sig skýrari mynd og Þórir er farinn að gera kröfur sem m.a. lúta að minni háttar breytingum á laglínum til þess að textinn fari betur. Það má fullyrða að þessi vinnubrögð þeirra félaga hafði bæði mótað og agað Þóri mikið sem textahöfund og ljóðskáld. Þetta hefur líklega verið honum dýrmæt reynsla, því svona ströng skilyrði hljóta að reyna á menn og valda því að það besta næst út úr verkinu.

Textinn við Vorbrag fjallar hreinlega um hvernig er að vera ungur í miðbæ Reykjavíkur á vormorgni eftir glaum og gleði næturinnar: „Vorbragur er lag sem er fullt af von og gleði og er um þessa staði sem við vorum gjarna á niðr´í bæ á vorin að morgni til búnir að drekka alla nóttina og skemmta okkur. Miðbærinn var okkar heimavöllur á þessum tíma og við drukkum mikið og skemmtum okkur en því lýkur eins og öðru enda endar textinn á orðunum „dýrðardagar líða““ segir Þórir.

Það er ekki hægt að fjalla um textana á plötunni öðruvísi en að hafa tónlistina við þá með því annars fæst ekki heildarsýn. Huldumenn t.d. er ótrúlegt lag þar sem virðast krauma allra handa áhrif sem hefur verið slegið í eitt og niðurstaðan er alveg frábær. Mikið ber á þungum og hörðum takti sem minnir á trölladans. Það ber þó mest á Gildrunni sjálfri í þessu lagi enda er lagið um þá félaga og vísar til þess að þeir upplifðu sig sem huldumenn á íslenska tónlistarmarkaðnum á þessum árum. Þetta sýnir það að texti, sem virkar ekki sem sennilegur söngtexti á að líta, verður fullkominn með rétta laginu.

Allir textarnir, nema Svarta blómið, voru samdir fyrir plötuna eftir að lögin urðu til. Lögin voru líka samin sérstaklega fyrir plötuna nema eitt lag, lagið við Svarta blómið. Það var gamalt lag frá Pass sem hafði áður haft enskan texta en við gerð Huldumanna var þessum öldungum tveimur skellt saman í eitt lag og úr varð eitt besta lag plötunnar að mati höfundar enda hennar uppáhaldslag plötunnar.

Þó textarnir virðist við fyrstu sýn vera þunglyndiskomplexar eru þeir í raun léttir og fullir af prívathúmor. Það eru trúarlegu tilvísanirnar, sem eru þunglyndislegar, enda eru þeir textar oft samdir um þannig efni að annað er ekki hægt. „Við vorum allir meðvitaðir um að við vorum hver á sinn hátt listamenn. Ég var ekki meðvitaður um það fyrst en þegar ég fékk þessi ofboðslegu viðbrögð við þessum textum þá fór ég að líta á sjálfan sig sem listamann“ segir Þórir.

Hluti af torræðni textanna er að þeir eru oft um persónulega hluti, prívat brandara, sem ekki er fyrir alla að skilja. Sigurlagið er þannig texti. Lagið er létt og hugmyndin á bak við það er sú að þeir af félögunum sem ekki voru í sjálfri hljómsveitinni þ.e. Þórir, Þröstur Þorgeirsson hljóðmaður, Vígmundur Pálmarsson rótari og Sveinn Ólafsson textahöfundur Pass-textanna ætluðu sko að sýna landsmönnum að þeir gætu malað þá. Þeir sögðust vera í hljómsveit sem hét Við sigruðum heiminn. Auðvitað var þetta ekki hljómsveit en þetta var út frá sömu hugsun, ungir menn sem ætla að sigra heiminn. Auðvitað var þetta bara brandari.

 

Trúarlegar tilvísanir

Eins og áður segir er töluvert um trúarlegar tilvísanir í nokkrum textanna, enda eru félagarnir allir trúaðir menn, halda í heiðri sína barnatrú sem þeir ólust upp við: „Ein ástæða þess að Gildran var á skjön við allt á þessum tíma er að það er trúarlegur undirtónn í rokkinu. Trúarlegar tilvísanir í textunum eru alveg meðvitaðar og strákarnir voru sáttir við það“ segir Þórir.

Eitt lag af plötunni, Mærin, fékk þónokkra spilun og náði inn á vinsældalista. Lagið fjallar um Maríu mey, Guð skapara og Krist. Það fór af stað mikil umræða hjá fólki um að þeir væru að stæla U2 og sérstaklega þá nýútkomna plötu hennar, Joshua Tree. Sá trúarlegi tónn sem var í textunum átti sinn þátt í að ýta undir samlíkinguna við U2 þar sem sú sveit er með trúarlegar tilvísanir í sínum textum. Gildran og Þórir hafa alltaf verið einkar ósátt við þessa samlíkingu: „Það var alltaf verið að reyna að klastra á strákana einhverjum U2 stimpli sem var hreint úr sagt hlægilegur. Sannleikurinn var sá að við vissum alveg hver U2 var en allir hefðum við nefnt einhverjar allt aðrar hljómsveitir sem áhrifavalda í tónlist. Ef ég var undir áhrifum frá einhverjum þá var það Black Zabbath og Ozzy Osbourne og þessu svarta þunga þungarokki“ segir Þórir. Þess má geta að Huldumenn komu út á undan Joshua Tree.

Annar texti Þóris sem er með trúarlega skírskotun er titillagið Huldumenn, þrír menn, krossfarar, sverðhafar, krossberar. Þó að yrkisefnið í þeim texta sé ekki trúarlegt í grunninn, þar sem að textinn fjallar um Gildrustrákana sjálfa, þá er óneitanlega trúarlegur blær yfir því. Enn annar texti á Huldumönnum með trúarlegar tilvísanir er Svarta blómið og á Hugarfóstri eru það Værð, Ævisagan, Hugarfóstur og Hinsta sýn.

 

Rjóðrið og heiðin

Báðar þessar plötur voru algjörlega unnar í Rjóðri og allnokkrir textar Þóris eru samdir um heiðina þeirra og Rjóður. Rjóður var sumarbústaður sem var æfingahúsnæði Gildrunnar upp við Mosfellsrætur. Þangað var iðulega lagt í miklar svaðilfarir, nánast upp á líf og dauða á hálf aflóga Benz-kálfi sem þeir áttu: „Þetta var heiði sem við þurftum að fara yfir og þetta var æði skuggalegt að fara á veturna í miklum snjó, kolniðamyrkri og Vimmi og Benzinn að þræða veginn eftir minni þegar hafði snjóað. Fyrst þegar menn komu inn í Rjóður þá var svo kalt að við þurftum að kveikja á svona 200 kertum inni til þess að fá hita í kroppinn. Þessi staður er alveg óskaplega fallegur. Þarna vorum við, komnir út úr öllu og ekkert heyrðist og nóttin er svo stjörnubjört og það er svo fallegt þarna. Ég var undir miklum áhrifum frá þessum stað í textagerðinni“ segir Þórir.

Myndin framan á Huldumönnum, ramminn utan um myndina af Gildrunni, er af hjólförunum á veginum upp eftir og er því bein tilvísun í Rjóður. Þegar í Rjóður var komið tóku við stífar æfingar en stundum var slegið á léttari strengi og fengið sér í glas og haft gaman af lífinu: „Talandi um góðan anda í Rjóðri – þegar við komum þarna og vorum að fóðra hagamýsnar á Pripps og sykurmolum, þetta voru drykkfelldustu mýs Íslandssögunnar og þær voru ekki fáar, það var stundum mjög ört í bænum, en það var bara allt í lagi“ segir Þórir.

Þarna upp frá urðu margir textanna til og fjalla flestir um Rjóðrið eða það ævintýri sem það var að komast þarna upp eftir. Villtur og Förumaður af Huldumönnum og Heiðin og að ekki sé talað um Værð af Hugarfóstri eru allt textar sem eru samdir um þennan stað. Villtur er lýsandi fyrir það sem áður var nefnt, tilfinningin um heiðina á leiðinni upp í Rjóður í alls konar veðri og einstaklega miklum snjó. Heiðin er um það sama, að vera einn og villtur á heiðinni á leiðinni í Rjóðrið. Það er öllu léttari tónn í ljóðunum Förumaður og Værð. Förumaður er enn og aftur um einhvern á leiðinni yfir heiðina en að þessu sinni er sumar og bjart yfir öllu, lóan er komin.

Sú túlkun sem fólk hefur lagt í lagið Værð, sem er eitt þekktasta lagið af þessum plötum, einkennist af eins konar bricolage þar sem fólk hefur hent það á lofti og gert að sínu enda er það sívinsælt jafnt í brúðkaupum sem jarðarförum. Í textanum segir: „Þú söngst í Rjóðri við sólarlag“ en fólk hefur oftar en ekki álitið stóra r-ið vera prentvillu í textanum. Almennt er álitið að ljóðið sé ástarljóð af klassísku gerðinni en textinn er enn ein persónuleg tilvísun Þóris. Textinn er alls ekki klassískt ástarljóð heldur er hann saminn til Birgis söngvara hljómsveitarinnar og Rjóðurs. Lagið við Værð er eitt elsta lagið sem Birgir hefur samið og hann hafði samið við það texta þar sem hin fallega lína: „um ástir og eilífan dans“ kemur fyrir. Þórir hélt þessari línu inni þegar hann samdi nýjan texta og úr varð þessi fallega ballaða. Í textanum er annað persónulegt djók Þóris þar sem kemur hendingin „í húminu værðist vindurinn“ og margir hafa álitið vera prentvillu í textabókinni og eiga að vera bærðist, en er það ekki, þetta á að vera svona og Birgir syngur alltaf værðist.

 

Nú eða aldrei …

Þegar litið er til baka yfir farinn veg er augljóst að lögin á Huldumönnum og Hugarfóstri hafa elst mjög vel. Þegar platan Huldumenn kemur út er hún á skjön við vel flest það sem var að gerast, og það er kannski þess vegna sem að hún lifir svona góðu lífi í dag, hún var eitthvað nýtt, ósvikið. Enn í dag er hún sívinsæl og hefur ekki misst þann ósvikna tón sem hún vakti svo mikla athygli fyrir í upphafi. Það vita allir hver Gildran er þó ekki hafi farið mikið fyrir henni í gegnum tíðina á vinsældalistum, þó hún hafi vissulega átt topplög þar af seinni plötum sínum. Í dag er hljómsveitin orðin hálfgert költ og nýtur t.d. mikillar virðingar hjá ungum bílskúrsböndum sem eru að reyna fyrir sér í dag. Hún er virt sem einn af hornsteinum íslenskrar alþýðumenningar og -tónlistar. Gildran þykir töff hljómsveit í dag. Síðasta árið hefur Gildran komið saman á ný eftir um 13 ára hlé, ásamt Sigurgeiri Sigmundssyni gítarleikara, sem gekk í hljómsveitina í kringum 1990 og Pálma Sigurhjartarsyni píanóleikara sem leikur með hljómsveitinni sem sessjónmaður. Hljómsveitin hefur haldið fantagóða tónleika víða um land sem uppselt hefur verið ítrekað á og eru langt í frá hættir. Þessi túr þeirra heitir Nú eða aldrei … því það bókstaflega var nú eða aldrei að koma saman aftur eins og þeir gerðu.

Gildran hefur, auk þeirra platna sem hér hafa verið nefndar, gefið út plöturnar Ljósvakaleysingjarnir, Gildran (Saumaða platan), Út, Gildran í tíu ár (safnplata) og tónleikaplötuna Vorkvöld, auk einstaka laga sem ekki eru á plötum sveitarinnar en voru samin til styrktar einhvers góðgerðar málefnis. Gildrumenn eru alltaf með eitthvað nýtt í smíðum og hver veit hvort ekki komi út ný plata með þeim áður en yfir lýkur. Gildran var kosinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2023, löngu tímabær titill sem hljómsveitin var vel að komin.

 


Textar: Þórir Kristinsson

 

HULDUMENN

 

Leiðtogarnir

Svífa á milli skýja
Svika fuglar
Svartir englar
Af illum eldsins krafti knýja
Kaldir vindar
Og kvikir djöflar
Hatri heimum vígja

Vígamenn nú er stjarnan rauð
Aftur enn er vonin dauð
Vígamenn farnir heim

Þið svikuð okkar þjóð
Og heima alla
Brátt mun renna blóð

Þið af öllum ljúgið
Með bros á vör
Og burtu fljúgið svo
Á burtu ykkar böl
Ykkar bræður svíkja
Engra kosta völ.

 

Vorbragur

Vaknar allt á vorin
Vermir sólin landið
Grænu laufin borin
Brotið verður bandið

Blíður syngur blærinn
Brosir gulli sólin
Vaknar aftur bærinn
Börnin vantar í bólin

Opin Laugarvegur
Iðar Austurstræti
Digur andann dregur
Dúfa í heiðursæti

Fuglum iðar tjörnin
Fegra loftið sönginn
Brauði kasta börnin
Dapur er nú enginn

Situr bakvið sundin
Esjan undur fríða
Léttist aftur lundin
Dýrðar dagar líða.

 

Villtur

Rýnir út í myrkrið
Ratar ekki heim
Haustið er að koma
Kaldan bíður seim

Svífur út í sortann
Svartur Hrafn á leið
Á meðan bíður máninn
Þá nornir særa seið

Óttans klærnar læsast í
Hjartans djúpu rætur
Þar situr fugl
Á naktri grein
Og næturljóðin grætur

Fjöllin á þig stara
Ofan á þína eimd
Bráðum ertu dauður
Og sálin öllum gleymd

Villtur allra vega
Vonin orðin dauf
Kanski ertu fallinn
Fölnað lítið lauf.

 

Svarta blómið

Þekkirðu myrkrið þunga
Þagnarinnar sjávarnið
Næturskugga dauðans drunga
Drottins djúpu harmamið

Sorgin ein
Ég sit og bíð
Komir þú
Og gef mér frið
Vonin ein
Gefur grið

Sárt það er að syrgja
Þá sálin vætist blóði
Sorgina inni að byrgja
Brotna tára flóði

Hugann fyllir haustið
Horfin út í tómið
Birtan bak við brjóstið
Blómstrar svarta blómið.

 

Sigurlagið

Við sjáum einn
Sigur enn
Þar vinna víst
Okkar menn

Við höfum allt
Og meira til
Fjandann í salt
Okkur í vil

Við burstum þá
Og beygjum vel
Þeir endir fá
Og þegja í hel.

 

Mærin

Meyjan hrein
Sér þú til mín
Alltaf ein
Bænin ein
Ber mig til þín
Meyjan hrein

Faðir vor
Sér þú til mín
Engin orð
Himna storð
Tak mig til þín
Faðir vor

Bregður birtu
Mærin sofnar
Dofnar dagur burtu
Daufri varpar glóð

Kristur kær
Kom þú til mín
Himni nær
Hatri fjær
Tak mig til þín
Kristur kær.

 

Huldumenn

Þrír huldumenn
Þeir lifa enn

Synir þessa lands
Viltan stíga dans

Krossfarar
Sverðhafar
Krossberar

Lifa á sinni trú
Aldrei hverfur hún

Fyrnist aldrei slóð
Lifa þeirra ljóð.

 

Förumaður

Ljúfir Svanir líða
Um loftsins bláu lindir
Klaka hjörtun þíða
Gleymdar allar syndir

Halda yfir heiðar
Hópur friðar engla
Skiljast aftur leiðar
Horfnir yfir hengla

Friður býr í fjöllum
Förull ferðamaður
Hulinn heimum öllum
Brosir aftur glaður

Brosa þögul blómin
Birta yfir móum
Hljóma heiða óminn
Herir af Lóum

Sindrar sól á tjörnum
Sálin tindum ofar
Geislar gleði stjörnum
Guði vorum lofar.

 

Pass

Þú sérð sólu síga
Syndum vafða drauma
Drukkna fullum lyga
Deyja veröld auma

Friður skiptir máli
Stríðið er ei sjálfsagt
Reynum þessu að breyta
Sínum það í verki

Hatrið hrími kalda
Hellist yfir heima
Vondar sálir valda
Voninni þeir gleyma.

 

 

HUGARFÓSTUR

 

Værð

Þú komst með vorið
um vetrarnótt
og vaktir huga minn
í húminu
værðist vindurinn
hann himneskan
heyrði sönginn þinn

Um ástir og eilífan dans

Þú söngst í Rjóðri
um sólarlag
og fluttir sálminn þinn
í kyrrðinni
kvaddi helkuldinn
hann heilagan
kveikti neistann minn

Um ástir og eilífan dans

Þú varst með völdin
um vetrarnótt
og sýndir styrkinn þinn
á heiðinni
heyrðist hljómurinn
hann háfleygan
hreyfði drauminn minn

Um ástir og eilífan dans.

 

Heiðin

Nú er heiðin heimsins endi
hola í sjálfu helvíti
eftir haustsins hrjúfu hendi
er hún hrikaleg í útliti

Og í daufri birtu dagsins
þá dofnar kjarkur þinn
í skini sólarlagsins
þá efinn læðist inn

Og þegar skímu nætur skýin fela
og skuggar flæða að
þá iðrastu þess að vera
einn á þessum stað

Og hér er eitthvað á seyði
þú finnur það á þér
kannski er ná á vindaheiði
sem enginn maður sér.

 

Snjór

Ég kvíði hverjum degi
og hvika alltaf frá
ég sannleik engum segi
snjórinn er mín þrá

Mín tryggð er drukknuð tárum
og treginn nístir mig
sálin þakin sárum
er sjúk í fíknilyf

Snjórinn blindar augu mín
Snjórinn byrgir mína sýn

Sú spurning sífellt dynur
en svarið svíkur mig
minn vægðarlausi vinur
get ég hætt við þig

Og svartur hafur svarar
hann svikull freistar mín
svo festan burtu fjarar
ég fell í kókaín

Snjórinn blindar augu mín
Snjórinn byrgir mína sýn

Sameina krafta sína á Mosó­torgi

MosóTorg er gjafa-, hönnunar- og hannyrðaverslun sem opnuð hefur verið að Háholti 14.
Þar sameina krafta sína þær Sigurbjörg Kristmundsdóttir sem rekur hannyrðaverslunina Sigurbjörgu og Slikkerí.is, Ólína Kristín Margeirsdóttir sem er með Instaprent ásamt því að reka ljósmyndastofuna Myndó og Ísfold Kristjánsdóttir (Folda) með fyrirtækið Foldabassa.art.
„Sagan á bak við þetta samstarf okkar er að við vorum allar að reka okkar fyrirtæki í Þverholti, við vorum í miklum samskiptum og þegar við fréttum að þetta húsnæði hér í Háholtinu alveg við Miðbæjartorgið okkar væri laust þá ákváðum við að stökkva til og sameina krafta okkar,“ segir Folda og bætir við að alltaf sé að bætast í vöruvalið hjá þeim þar sem bæði bjóði þær litlum fyrirtækjum að leigja hillupláss og taki inn nýjar vörur frá fjölbreyttum söluaðilum.

Fjölbreytt vöruval í heimabyggð
Sigurbjörg opnaði sína prjóna- og hannyrðabúð fyrir tveimur árum og er ánægð með viðtökurnar hjá Mosfellingum. Einnig rekur hún Slikkerí.is þar sem hægt er að fá allt hráefni, búnað og umbúðir til brjóstsykursgerðar.
Ólína rekur ljósmyndstofuna Myndó en ljósmyndastúdíóið verður áfram til húsa í Þverholtinu. Hún hefur verið með netverslunina Instaprent síðastliðin 11 ár þar sem hægt er að fá fjölbreytt úrval af persónulegum sérhönnuðum gjafavörum. Með opnun MosóTorgs eru vörur hennar aðgengilegri fyrir viðskiptavinum.
Foldabassa hefur sérhæft sig í heimsíðum og markaðsefni fyrir minni fyrirtæki auk þess að hanna og framleiða ýmislegt fyrir viðburði, s.s. boðskort, gestbækur og fleira.
„Við í raun rekum allar okkar fyrirtæki en sameinumst hér á MosóTorgi, þetta gefur okkur óendanlega möguleika á að stækka, vaxa og dafna. Við erum opnar fyrir því að fá fleiri með okkur í lið og viljum efla verslun í heimabyggð og auðvelda Mosfellingum aðgengi að góðu vöruúrvali,“ segir Sigurbjörg.

Notalegt andrúmsloft
„Við erum með fullt af hugmyndum varðandi það að MosóTorg verði eins konar miðstöð Mosfellinga. Okkur langar að upplifun viðskiptavinarins sé jákvæð og skemmtileg, við viljum hafa hérna notalega kaffihúsastemningu. Við erum alltaf með heitt á könnunni og viljum að fólk gefi sér tíma í að skoða vel torgið okkar og setjast niður í rólegheitum og þiggja veitingar.
Við erum með frábæra aðstöðu til að halda hérna námskeið og eru nú þegar margar hugmyndir í gangi. Við bjóðum líka upp á að taka á móti hópum, hvort sem það er á opnunartíma eða utan. Við leggjum vel við hlustir hver þörfin er og reynum eftir bestu getu að uppfylla óskir markaðarins,“ segir Ólína að lokum en bætir við að allar upplýsingar megi finna á mosotorg.is og á helstu samfélagsmiðlum undir MosóTorg.

Þetta mót er komið til að vera

Fyrir fjórum árum tóku Páll Örn Líndal og Golfklúbbur Mosfellsbæjar höndum saman og héldu styrktarmót í golfi, Palla Open. Öllum var velkomið að taka þátt og þátttökugjöldin runnu óskipt til styrktarmála.
Mótið sem nú er orðið að árlegum viðburði hefur vaxið mikið með árunum en á síðasta móti mættu 246 kylfingar til leiks, sem er metfjöldi.

Páll Örn er fæddur á Héraðshælinu á Blönduósi 22. maí 1967. Foreldrar hans eru Kristín Hjördís Líndal bóndi og hjúkrunarfræðingur og Eggert Egill Lárusson bóndi og verkstjóri. Eggert lést árið 2007.
Páll á fjögur systkini, Sigríði Jónu f. 1958, Soffíu f. 1964 l. 2024, Þröst Heiðar f. 1972 og Jónatan f. 1973.

Gott að alast upp í sveitinni
„Ég ólst upp í Hjarðartungu í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og það var gott að alast upp í sveitinni, við mikið frjálsræði. Það var alltaf mikið líf og fjör, við krakkarnir fórum í útreiðartúra og brölluðum mikið saman.
Foreldrar mínir voru fjár- og hrossabændur en þau unnu líka önnur störf utan búsins. Mamma sem hjúkrunarkona á Héraðshælinu og pabbi við minka- og tófuvinnslu á vorin og í sláturhúsinu á Blönduósi á haustin.
Æskuminningarnar eru margar og flestar góðar, bestu minningarnar eru hvað maður fékk snemma að taka þátt í öllum störfum í sveitinni, maður naut mikils trausts. Líka það að fá tækifæri til að vera í svona mikilli nánd við náttúruna og kynnast af eigin raun hvað fjöllin og heiðarnar hafa upp á að bjóða í lífsbaráttunni.“

Þarna hrundi veröldin mín
„Æskuárin áttu líka sína skuggamynd sem var vel læst í huga mínum í 40 ár. Allt þar til ég komst að því að ég hefði ekki verið sá eini sem hafði lent í klóm einstaklings sem misnotaði mig, þarna hrundi veröldin mín.
Þetta gerist haustið 2021 og ég missti alveg fótanna í lífinu en með góðri hjálp fjölskyldunnar, vinnuveitanda, heilbrigðiskerfisins og lögreglunnar komst ég á lappirnar aftur. Árið 2022 lagði ég fram kæru gegn þessum einstaklingi og niðurstaðan varð sú sem ég var búinn að undirbúa mig fyrir, málið var fyrnt. Hinir sem kærðu líka fengu sömu niðurstöðu.“

Skólaárin voru skemmtileg
Páll gekk í barnaskóla á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal hjá Guðrúnu Bjarnadóttur sem kenndi börnum á aldrinum 7-9 ára. Þaðan fór hann í Húnavallaskóla og var fyrstu árin í heimavist. Eftir að skólaakstur var tekinn upp þá þurfti að keyra um 90 km á dag. Páll ákvað því að taka 9. bekk í Þingholtsskóla í Kópavogi og bjó hjá föðurbróður sínum og og fjölskyldu hans þann veturinn.
„Ég átti góðan og skemmtilegan tíma á skólaárunum og þá sérstaklega í Þingholtsskóla, þar komst ég að því að ég gæti lært og staðið mig vel í námi. Á sumrin starfaði ég við hefðbundin landbúnaðarstörf heima í Hjarðartungu.“

Sýndum fyrir fullu húsi
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég einn vetur í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki í járniðn. Ég tók þátt í leiklistarklúbbi skólans og við settum upp leiksýninguna Umhverfis jörðina á áttatíu dögum, þar fékk ég þann mikla heiður að leika aðalhlutverkið, Phileas Fogg. Við sýndum nokkrar sýningar fyrir fullu húsi.
Leið mín lá síðan í Iðnskólann í Reykjavík þaðan sem ég lauk námi í bifvélavirkjun. Ég hef einnig lokið diploma í markaðsfræðum frá HR og verkefnastjórnun frá HÍ.“

Alltaf nóg um að vera
Eiginkona Páls er Rakel Ýr Guðmundsdóttir mannauðssérfræðingur hjá Eflu. Dóttir þeirra er Andrea Líf f. 2009. Fyrir átti Páll Eydísi Örnu f. 1990 og Arnar Geir f. 2000.
„Við hjónin spilum golf, hjólum og ferðumst saman erlendis en svo er ég í skot- og stangaveiði og í félagsmálum, það er alltaf nóg um að vera,“ segir Páll aðspurður um áhugamálin.

Tækifæri til að vaxa í starfi
„Mín fyrsta launaða vinna var þegar ég var 12 ára en þá var ég aðstoðarmaður föður míns við minka- og refavinnslu. Alvörulaunaseðil fékk ég svo 13 ára gamall en þá vann ég við uppskipun á áburði við bryggjuna á Blönduósi. Vann síðan um haustið og næstu þrjú haust í sláturhúsinu á Blönduósi. Á þessum tíma hófst skólinn ekki fyrr en í lok september.
Ég fór síðan á samning hjá meistara mínum í bifvélavirkjun og vann aukavinnu í Stjörnubíó og við þrif hjá SS. Eftir útskrift úr bifvélavirkjun var hugur minn kominn annað og ég fór að starfa sem sölumaður hjá SS. Þaðan lá leiðin í eigin rekstur í nokkur ár og það var mikill skóli fyrir mig. Seldi reksturinn og fór að vinna sem sölu og markaðsstjóri hjá Vífilfelli, og sem markaðsstjóri hjá B&L og Sindra, stutt á hvorum stað.
Ég hóf svo störf hjá ESSO, síðar N1, og þar hef ég verið í 21 ár, hef verið heppinn að fá tækifæri til að vaxa í starfi en í dag er ég rekstrarstjóri einstaklingssviðs.“

Sælla er að gefa en þiggja
„Hugmyndin að Palla Open golfmótinu kviknaði í Covid. Mig langaði til að safna saman skemmtilegu fólki og spila golf eftir miklar samkomutakmarkanir sem fóru ekki vel í félagströll eins og mig.
Ég viðraði hugmyndina við Ágúst Jensson framkvæmdastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem tók vel í þetta hjá mér og úr varð að við þróuðum hugmyndina saman. Leikfyrirkomulagið er tveggja og fjögurra manna Texas-mót þar sem allir geta tekið þátt. Yfirskrift mótsins er sælla er að gefa en þiggja. GM gefur alla sína vinnu og þátttökugjöldin renna óskipt til styrktarmála.“

Tvær flugur í einu höggi
„Fyrsta árið mættu 164 kylfingar til leiks, annað árið 198, þriðja 244 kylfingar og í ár 246. Það er búið að vera virkilega skemmtilegt að sjá hvað mótið hefur vaxið og dafnað, ég átti bara alls ekki von á þessu. Það er gefandi að taka þátt í að safna fjármunum sem maður veit að koma til með að renna í góð málefni.
Palla Open er komið til að vera, það er búið að festa sig í sessi sama hver stýrir því. Það væri samt gaman að fá tækifæri til að sjá um mótið árið 2027 og halda það 22. maí á sama degi og það byrjaði. Þá myndi maður slá tvær flugur í einu höggi og skella svo í gott afmælispartý, Pallaball í Hlégarði um kvöldið, við sjáum hvað setur,“ segir Páll og brosir er við kveðjumst.

Fjölmennt á foreldrafundi

Opinn fundur með foreldrum og forsjáraðilum elstu bekkja grunnskóla var haldinn á þriðjudaginn. Fundurinn var mjög vel sóttur en hátt í 300 foreldrar fylltu Hlégarð.
Mosfellsbær boðaði til fundarins með foreldrum í Mosfellsbæ, starfsfólki Fræðslu- og frístundasviðs og Velferðarsviðs ásamt Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og öðrum góðum gestum.
Erindi á dagskrá voru m.a. frá Kára Sigurðssyni frá Flotanum, samfélagslögreglunum Elísabetu og Alexander og Guðrúnu Helgadóttur frá Bólinu. Regína Ásvaldsdóttir tók á móti gestum og Ólafía Dögg stýrði umræðum.
„Heilmikill efniviður safnaðist saman eftir þennan fund sem hægt verður að nýta í aðgerðaáætlun bæjarins í fyrirbyggjandi starfi með börnum og ungmennum. Við erum þakklát fyrir frábæra mætingu og umræðu,“ sagði Regína bæjarstjóri að loknum fundi.

Þóra útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Á sér­stakri há­tíð­ar­dagskrá við setn­ingu bæj­ar­há­tíð­ar­inn­ar Í tún­inu heima í Mos­fells­bæ fimmtu­dag­inn 29. ág­úst var leir­lista­kon­an Þóra Sig­ur­þórs­dótt­ir út­nefnd bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar 2024.
Menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd Mos­fells­bæj­ar sér um val bæj­arlista­manns ár hvert og veitti Hrafn­hild­ur Gísla­dótt­ir formað­ur nefnd­ar­inn­ar leir­lista­kon­unni Þóru Sig­ur­þórs­dótt­ur verð­launa­grip eft­ir lista­kon­una Ingu El­ínu ásamt við­ur­kenn­ing­ar­fé sem fylg­ir nafn­bót­inni.

Framúrskarandi í leirlist
Þóra Sig­ur­þórs­dótt­ir stund­aði nám við Mynd­list­ar­skóla Reykja­vík­ur og lauk prófi frá leir­list­ar­deild Mynd­list­a- og hand­íða­skóla Ís­lands árið 1989.
Að loknu námi opn­aði hún vinnu­stofu í Ála­fosskvos og tók mik­inn þátt í því fjöl­skrúð­uga list­a­lífi sem blómg­að­ist næstu árin í kvos­inni. Marg­ir lista­menn voru þar með opn­ar vinnu­stof­ur, tóku á móti gest­um og héldu sam­sýn­ing­ar á staðn­um.
Þóra vinn­ur jafnt nytja­hluti sem skúlp­túra og nýt­ir ásamt leir og járni ann­an efni­við í list­sköp­un sinni, til dæm­is hross­hár og kinda­horn.
Þóra hef­ur hald­ið fjöl­marg­ar einka­sýn­ing­ar og tek­ið þátt í sam­sýn­ing­um bæði hér á landi og er­lend­is. Hún er bú­sett í Mos­fells­bæ og starf­ræk­ir vinnu­stofu að Hvirfli í Mos­fells­dal.
Þóra hef­ur ver­ið framúrsk­ar­andi í leir­list hér á landi síð­ustu ára­tugi og því vel að heiðr­in­um komin sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024.

Sjálfboðaliðar

Ég hef verið sjálfboðaliði síðan ég var gutti. Fannst það eðlilegur hluti af tilverunni að hjálpa til í kringum fótboltann hjá Þrótti þar sem ég tók mín fyrstu sjálfboðaliðaskref. Sjálfboðaliðastarf er risastór hluti af íslensku samfélagi. Viðbragðsaðilar Almannavarna eru að stórum hluta sjálfboðaliðar. Björgunarsveitirnir eru þar í aðalhlutverki en hlutverk sjálfboðaliða Rauða krossins er sömuleiðis mjög mikilvægt. Íþróttir á Íslandi byggja á sjálfboðaliðum. Það eru engin Manchester City eða Nottingham Forest hér. Það á enginn íþróttalið á Íslandi. Við eigum þau saman, samfélagið. Sjálfboðaliðar mynda stjórnir, taka ákvarðanir og fá aðra með sér í að halda mót og fjárafla. Halda starfinu gangandi. Gera börnunum okkar mögulegt að æfa hjá sínu félagi.

Sumir sjálfboðaliðar eru áberandi í samfélaginu. Drifkraftar sem brenna fyrir félaginu sínu, björgunarsveitinni sinni, íþróttinni sinni. Þessir drifkraftar eru mjög mikilvægir. Stundum of mikilvægir. Við treystum svo mikið á frumkvæði þeirra og getu þeirra til að leiða verkefni að við förum að treysta of mikið á þau. Hanna græjar þetta, engar áhyggjur. Þessir drifkraftar stoppa aldrei, en við hin þurfum að passa upp á þau, taka af þeim álagið og dreifa ábyrgðinni.

Aðrir sjálfboðaliðar eru minna sýnilegir en jafn mikilvægir. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem opna fjöldahjálparstöðvar og sinna sálrænum stuðningi og áfallahjálp eru minna sýnilegir en sjálfboðaliðar í leitar- og björgunarstörfum úti á vettvangi, en jafn mikilvægir. Einar Þór, vinur minn, sem verður 60 ára á þriðjudaginn er jafn mikilvægur Hönnu sinni, þótt hann sé ekki eins sýnilegur í samfélaginu. Einar er bóngóður, úrræðagóður, traustur vinur og félagi. Alltaf tilbúinn til að hjálpa til og finna lausnir á verkefnum og áskorunum. Ég hvet alla Einarsvini til að koma með okkur í Þrautahlaup Einars á þriðjudaginn til að heiðra manninn bak við tjöldin og sýna í verki að allt sem hann hefur gert fyrir Mosó skiptir okkur miklu máli!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. september 2024

Ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar, en hún var valin úr hópi 23 umsækjenda.

Sem framkvæmdastjóri mun hún koma til með að bera ábyrgð á rekstri sóknarinnar, mannauðsmálum, umsjón með kirkjugörðum, fasteignum og sitja sóknarnefndarfundi. Jóhanna Ýr hóf störf í byrjun ágúst. Hún er með B.A. í guðfræði, diploma próf í kennslufræðum ásamt því að hafa lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá EHÍ. Jóhanna Ýr hefur áður unnið við kennslu í Grunnskólanum í Hveragerði og Sunnulækjarskóla á Selfossi, var verkefnastjóri fræðslustarfs við Selfosskirkju, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og skrifstofustjóri hjá Framsókn. Þá er Jóhanna Ýr bæjarfulltrúi Framsóknar í Hveragerði og fyrrum forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

Jóhanna Ýr býr í Hveragerði ásamt sambýlismanni sínum Ara Guðmundssyni og samtals eiga þau sex börn. Jóhanna Ýr segist vera afar spennt fyrir nýja starfinu, hlakkar til að vinna með samstarfsfólki og sóknarnefnd að þjónustu og frekari uppbyggingu sóknarinnar.

Líf mitt snýst um íþróttir

Gunnar Birgisson þekkja margir af skjánum en hann hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli sem íþróttafréttamaður. Gunnar hefur einnig sinnt öðrum dagskrárliðum hjá RÚV eins og Landanum, Skólahreysti og Eurovision söngvakeppninni en hann fylgdi íslensku Eurovisionförunum eftir í Malmö í Svíþjóð sl. vor.
Gunnar sem hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 2010 segir Eurovisionævintýrið og Ólympíukvöldin frá nýafstöðnum Ólympíuleikum vera það skemmtilegasta sem hann hefur gert á sínum starfsferli.

Gunnar er fæddur á Sauðárkróki 14. júlí 1994. Foreldrar hans eru Þorgerður Sævardóttir kennari og nuddari og Birgir Gunnarsson framkvæmdastjóri Þjóðkirkjunnar. Gunnar á tvö systkini, Sævar f. 1988 og Birgittu f. 2001.

Allt til staðar á þessum tíma
„Ég er alinn upp á Sauðárkróki og bý að því í dag að hafa notið þeirra forréttinda að alast upp úti á landi. Þetta var lítið og samheldið samfélag og allt sem maður þarfnaðist var til staðar á þeim tíma. Maður lék sér úti allan liðlangan daginn með systkinum sínum og vinum. Á veturna var vinsælt að vera á skíðum í götunni okkar og á sumrin lék maður sér í fótbolta eða körfubolta.
Við flytjum í Mosfellsbæ þegar ég var á leið í 8. bekk og ég er þakklátur fyrir það þótt ég hafi verið allt annað en sáttur við foreldra mína þegar þau tilkynntu flutninginn á sínum tíma. Hér í Mosó hef ég eignast mína bestu vini, kynnst kærustunni minni og búið til dásamlegt líf.“

Sumarkvöldin voru góð
„Æskuminningarnar eru margar og góðar, ég fékk frábært tónlistaruppeldi heima í Hólatúninu, Bubbi, ELO, Bob Dylan, Eagles og Michael Jackson. En keppnir milli okkar systkinanna í hinum ýmsu íþróttagreinum og þá einna helst gönguskíðum á veturna standa upp úr. Sævar bróðir kunni á alla takkana mína eins og ég síðan eflaust með Birgittu litlu systur. Ég á enn þann dag í dag eftir að finna eitthvað sem ég get unnið hann í,“ segir Gunnar og brosir.
Árlegar ferðir á Andrésar Andar leikana á skíðum á Akureyri voru líka eftirminnilegar, árið miðaðist svolítið við þá keppni. Sumarkvöldin voru líka góð, þá lék maður sér úti í fótbolta eða gerði einhver prakkarastrik. Í minningunni var alveg nóg af þeim og eflaust of mikið af þeim. Hugsa að ég hafi verið nokkuð krefjandi ungur maður með mikið skap sem kom mér oft í vandræði.“

Keppnisskapið fleytti mér langt
„Ég byrjaði í Árskóla á Sauðárkróki og var þar þangað til í 6. bekk, frábær skóli með skemmtilegum kennurum. Árið 2006 flytjum við fjölskyldan til Noregs í eitt ár og þá fór ég í Sore Ål skole í Lillehammer, stórkostlegt ár.
Árið 2008 flytjum við fjölskyldan svo í Mosfellsbæ og þá fór ég í Varmárskóla, sá skóli þótti mér til fyrirmyndar í öllu. Ég verð seint talinn afburða námsmaður en keppnisskapið fleytti mér nægilega langt til að standast allt saman með sæmd.
Á sumrin með skólagöngunni vann ég á útisvæðinu við Reykjalund, auk þess starfaði ég við knattspyrnuþjálfun hjá Aftureldingu.“

Flutti til Siglufjarðar
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla ætlaði ég mér beint í Verzlunarskóla Íslands en komst ekki inn. Í einhverju gríni setti ég Menntaskólann á Egilsstöðum í annað sætið í vali því ég var svo viss um að komast inn en allt í einu stóð ég uppi skólalaus.
Ég flutti þá norður á Siglufjörð til ömmu minnar og tók eina önn í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fór síðan í hálft ár til Svíþjóðar til að æfa með sænskum skíðamenntaskóla í Jonsköping og komst svo inn í Verzló ári seinna en planlagt var.“

Það þurfti smá sannfæringarkraft
Þegar Gunnar var á síðasta ári í Verzlunarskóla Íslands sótti hann um að verða íþróttalýsandi hjá RÚV í kringum Ólympíuleikana í Sochi árið 2014. Hann var ráðinn til starfa og hefur verið þar allar götur síðan.
„Það þurfti smá sannfæringarkraft til að fá skólastjórnendur til að trúa því að þetta væri eitthvað sem ég myndi vilja starfa við í framtíðinni. Þeir gáfu mér sem betur fer leyfi til að fara og lýsa og ég held að það sé akkúrat það sem skólakerfið ætti að gera þegar svona tækifæri bjóðast.
Árin á RÚV hafa verið frábær, ég er alinn upp í íþróttaumhverfi og það er mikill heiður að fá að starfa við sitt aðaláhugamál, sem íþróttafréttamaður,“ segir Gunnar og brosir.

Sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð
Gunnar hefur ekki eingöngu séð um íþróttafréttir fyrir Ríkissjónvarpið því hann hefur einnig komið að dagskrárgerð í Landanum, verið kynnir í Skólahreysti og svo fylgdi hann íslensku Eurovisionförunum til Svíþjóðar sl. vor.
„Eurovision er líklega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert á starfsferlinum. Þetta kom upp með stuttum fyrirvara og ég sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð, að fara út sem fréttamaður og fjalla um þessa áhugaverðu keppni. Það er svo mikil gleði, allt svo risastórt og stærra en maður hafði ímyndað sér.
Það skemmir ekki fyrir að við Mosfellingar erum svo rík af listamönnum að þeir spretta upp á hverju strái. Að fá að fylgja Heru Björk eftir í þessari keppni voru þvílík forréttindi, eitthvað sem maður lærði mikið af.“

Þetta starf er mér mjög kært
„Ég hef verið knattspyrnuþjálfari í 15 ár samhliða starfi mínu hjá RÚV, fyrst hjá Aftureldingu og nú hjá Breiðabliki og það starf er mér mjög kært. Að fá að taka þátt í uppeldi og að móta ung börn er eitthvað sem ég ber mikla virðingu fyrir og reyni að gera eins vel og ég mögulega get.
Mér þykir óskaplega vænt um að sjá litlu drengina sem ég þjálfaði fyrir 10-15 árum vera orðna að fullorðnum mönnum og standa sig vel í lífinu.“

Stefnumót í sundlaug
Unnusta Gunnars heitir Velina Apostolova, hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Högum og er einnig fyrirliði blakliðs Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna. Þau eiga saman dótturina Önnu Sóleyju f. 2020.
„Við Velina erum bæði mikið í íþróttum og á veturna þá fara kvöldin mikið í æfingar hjá okkur. Anna Sóley fylgir okkur hvert fótmál þannig að hinn hefðbundni kvöldmatartími er svo sem ekki til á okkar heimili. Fjölskyldan sameinast líka oft í sundlaugum Mosfellsbæjar sem er viðeigandi því fyrsta stefnumót okkar Velinu var einmitt í sundi,“ segir Gunnar og brosir.
„Um helgar fylgjum við dóttur okkar eftir í fimleikatímum hjá Aftureldingu og í íþróttaskólanum. Okkur finnst líka gaman að fara út að leika í okkar frábæra Helgafellshverfi og sömuleiðis að hitta ættingja og vini yfir kaffibolla.“

Mosfellsbær leitar að samstarfsaðilum fyrir þróunarverkefni

Bæjarráð hefur samþykkt tillögu um að skoða áhuga mögulegra samstarfsaðila á tveimur þróunarverkefnum á Varmársvæðinu.
Annars vegar þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og hins vegar þróun og uppbyggingu á lóð við Háholt 5. Markmiðið er að veita áhugasömum og hæfum aðilum tækifæri til að koma fram með hugmyndir að þróun og uppbyggingu á svæðinu. Opnað verður fyrir umsóknir fyrir bæði verkefnin í byrjun september.

Spennandi vegferð
„Við erum á spennandi vegferð í Mosfellsbæ með uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og frekari nýtingu aðliggjandi svæða. Þessi þróunarverkefni eru liður í þeirri vinnu,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Þegar við fórum í þarfagreiningu á íþróttahúsinu og nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu þá kom í ljós þörf á stærra rými og umfangsmeiri breytingum en ráð var fyrir gert. Þess vegna viljum við freista þess að fá áhugasama aðila til samstarfs með samnýtingu á þjónustu- og aðkomubyggingunni.
Við viljum líka skoða hvaða tækifæri eru í nýtingu lóðarinnar við Háholt sem liggur nálægt Varmársvæðinu. Þetta ferli skuldbindur ekki Mosfellsbæ en gefur okkur tækifæri til að kanna áhuga aðila á markaði og félagasamtaka áður en næstu skref varðandi uppbyggingu verða tekin.“

Upplýsingaöflun um hugmyndir
Eingöngu er um markaðskönnun að ræða á grundvelli 45. gr. laga um opinber innkaup, þ.e. upplýsingaöflun um hugmyndir áhugasamra aðila á markaði hvað varðar nýtingu á svæðinu og hvernig hún fellur að þörfum og væntingum Mosfellsbæjar og Aftureldingar.
Ekki er tryggt að markaðskönnun leiði til útboðs og þátttaka í henni ekki talin forsenda þátttöku í síðara innkaupaferli/útboði.


Þjónustu- og aðkomubygging íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá:
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun, byggingu og/eða nýtingu á uppbyggingu á nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá.
Þjónustu- og aðkomubygging verður nýtt af Mosfellsbæ og Aftureldingu. Byggingin getur að hámarki orðið 3.000 m2, en ný þarfagreining Mosfellsbæjar og Aftureldingar gerir ráð fyrir allt að 1.700 m2 aðstöðu.
Starfsemi sem kæmi til greina í þjónustu- og aðkomubyggingu er íþrótta- og heilsutengd starfsemi á borð við líkamsrækt, sjúkraþjálfun, verslun, veitingarekstur og skrifstofuaðstöðu.


Háholt 5
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun og uppbyggingu á lóð að Háholti 5. Markmið með uppbyggingu á þróunarsvæðinu að Háholti 5 er að styðja við uppbyggingu Varmársvæðisins til lengri tíma, tengja við miðbæjarsvæðið og styrkja starfsemina á svæðinu.
Um er að ræða nýja 4.000 m2 lóð sem er á skipulögðu miðsvæði við Vesturlandsveg með aðkomu frá Háholti.
Fjölbreytt tækifæri til uppbyggingar í miðbæ Mosfellsbæjar á sviði verslunar, þjónustu, afþreyingar, hótels eða með öðrum þeim hætti sem nýst getur íbúum og gestum sveitarfélagsins. Lóðin er í nálægð við menningar- og samkomuhús Hlégarðs auk íþróttasvæðis að Varmá.

Mosfellingar taka bílaþvottastöð í Háholti fagnandi

Eftir nokkurra ára hlé opnaði N1 aftur þvottastöð í Háholti í Mosfellsbæ og Guðbergur Björnsson, þjónustustjóri þvottastöðva hjá N1, þakkar góðar viðtökur.
„Við erum að fá rosalega góðar móttökur í Mosfellsbæ. Það er frábært hvað hefur verið mikið að gera.“

Þvottastöðvar og -básar á sjö stöðvum
N1 hefur einnig opnað þvottastöð á Gagnvegi í Grafarvogi og á næstu vikum verða opnaðar sjálfvirkar stöðvar hjá N1 í Stórahjalla í Kópavogi, Lækjargötu í Hafnarfirði, í Keflavík og á Akureyri, og í Holtagörðum verða þvottabásar. Eins er N1 í Mosfellsbæ eini staðurinn þar sem eru bæði básar og sjálfvirk þvottavél.
„Við höfum lagt mikinn metnað í stöðvarnar. Húsnæðið var allt nýlega tekið í gegn. Vélarnar eru nýjar, bæði í þvottavélum og -básum, og við reynum að standa eins vel að þessu og hægt er – eins og N1 er von og vísa, allt snyrtilegt og fínt,“ segir Guðbergur. Hann hvetur fólk til að prófa nýju stöðvarnar.

Vandaðar finnskar vélar
Í sjálfvirku þvottastöðvunum er hægt að velja burstaþvott eða snertilausan þvott, með eða án tjöruhreinsis. Verðið fer eftir því hvers konar þvottur er valinn og er á bilinu 3.090–3.690 kr.
Síðan er ekið inn í þvottastöðina og beðið í bílnum á meðan þvottavélin þvær. „Þetta er finnsk smíði og mjög vandaðar vélar sem hafa verið notaðar lengi á Norðurlöndunum,“ útskýrir Guðbergur. Þvottaefnin eru einnig mjög vönduð og koma frá sama framleiðanda. Flest efnin eru Svansvottuð.
Eftir þvottinn er tilvalið að fá sér kaffi, nasl eða eitthvað ferskt og fljótt hjá Nesti. Þvottastöðvarnar eru ómannaðar og opnar alla daga frá 8 til 24. „Ef eitthvað kemur upp á er vegaaðstoðin okkar til taks,“ segir Guðbergur.

Gera sam­komulag um upp­færð­an sam­göngusátt­mála

Styttri ferða­tími, minni taf­ir, auk­ið um­ferðarör­yggi, áhersla á að draga úr kol­efn­is­spori, stór­bætt­ar al­menn­ings­sam­göng­ur, fjölg­un hjóla- og göngu­stíga og upp­bygg­ing stofn­vega eru kjarn­inn í upp­færð­um sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins sem und­ir­rit­að­ur var á dögunum.
Sátt­mál­inn fel­ur í sér sam­eig­in­lega sýn fyr­ir allt höf­uð­borg­ar­svæð­ið, þar sem lögð verð­ur höf­uð­áhersla á skil­virka og hag­kvæma upp­bygg­ingu sam­göngu­inn­viða. Mark­mið­ið er að sam­göng­ur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu verði í fremstu röð þann­ig að svæð­ið og Ís­land allt sé sam­keppn­is­hæft um bæði fólk og fyr­ir­tæki.

Sameiginlegt félag stofnað um skipulag og rekstur
Rík­ið og sex sveit­ar­fé­lög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, Garða­bær, Hafn­ar­fjörð­ur, Kópa­vog­ur, Mos­fells­bær, Reykja­vík og Seltjarn­ar­nes, hafa gert sam­komulag um upp­færð­an sátt­mála sem fel­ur í sér upp­bygg­ingu á sam­göngu­inn­við­um og al­menn­ings­sam­göng­um á svæð­inu til árs­ins 2040.
Á sama tíma var und­ir­ritað sam­komulag um sam­vinnu um rekst­ur og stjórn­skipu­lag al­menn­ings­sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Mark­mið­ið er að efla al­menn­ings­sam­göng­ur, m.a. með aukn­um stuðn­ingi rík­is­ins, en sam­eig­in­legt fé­lag verð­ur stofn­að um skipu­lag og rekst­ur.

Borgarlínu flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholt
„Þessi uppfærði samningur er mikið gleðiefni, ekki síst að ríkið komi að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu en það var sterk krafa okkar sveitarfélaganna,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er mjög ánægjulegt að Borgarlínu verði flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholtið í Mosfellsbæ en það helgast meðal annars af mikilvægi þess að fara af stað í uppbyggingu á Keldnalandi þar sem sala lóða þar skapar tekjur fyrir verkefnið. Sundabraut mun einnig skipta miklu máli fyrir umferðina á Vesturlandsvegi en fjármögnun hennar er utan við sjálfan sáttmálann.“

Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
All­ar lyk­ilfram­kvæmd­ir eru þær sömu og áður í sam­göngusátt­mál­an­um en breyt­ing­ar eru gerð­ar á ein­stök­um verk­efn­um.
Heild­ar­fjárfest­ing á fyrsta tíma­bili í upp­færð­um sam­göngusátt­mála, til árs­ins 2029, er að jafn­aði rúm­lega 14 ma. kr. á ári. Það sam­svar­ar þriðj­ungi af ár­leg­um sam­göngu­fjár­fest­ing­um á fjár­lög­um. Á tíma­bil­inu 2030-2040 er heild­ar­fjárfest­ing að jafn­aði 19 ma. kr. á ári. Heild­ar­fjárfest­ing til árs­ins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Verk­efni sam­göngusátt­mál­ans skipt­ast í fjóra meg­in­flokka sem eru: Stofn­veg­ir, Borg­ar­lína og strætó­leið­ir, göngu- og hjóla­stíg­ar og verk­efni tengd um­ferð­ar­stýr­ingu, flæði og ör­yggi.
Skipt­ing fjár­mögn­un­ar milli rík­is og sveit­ar­fé­lag verð­ur hin sama og áður, þ.e. sveit­ar­fé­lög með 12,5% og rík­ið 87,5%.

Hélt 70 ára afmælismót í minningu barnabarns

Hrefna, Ágúst framkvæmdastjóri golfklúbbsins og Jón Kjartan formaður Umhyggju.

Þann 10. júlí síðastliðin hélt Hrefna Birgitta Bjarnadóttir upp á 70 ára afmælið sitt með því að halda styrktargolfmót á Hlíðavelli.
Mótið var til styrktar Umhyggju en félagið vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Styrkurinn var til minningar um barnabarn hennar sem hefði orðið 10 ára í sumar.
„Mér fannst tilvalið að halda svona upp á afmælisdaginn minn, en þegar ég varð 60 ára þá var lítið barnabarn nýfætt, hann var því miður mikið lasinn og dó einu og hálfu ári seinna. Umhyggja hefur hjálpaði fjölskyldunni mikið í gegnum allt þetta ferli. Drengurinn hefði orðið 10 ára 4. júlí og fannst mér þá tilvalið að halda upp á sjötugsafmælið með þessum hætti,“ segir Hrefna Birgitta.
„Golfklúbburinn gaf eftir öll vallargjöld og því rann allur peningurinn sem kom inn fyrir mótið ásamt afmælisgjöfum beint til Umhyggju, alls um hálf milljón.
Mig langar að þakka Golfklúbbnum, Blik og öðrum styrktaraðilum sem komu að þessu með einum og öðrum hætti fyrir stuðninginn.“

Íþróttahátíðin

Et, drekk og ver glaðr, segir í Hávamálum og sömuleiðis, Sjaldan liggjandi úlfur lær um getur né sofandi maður sigur. Bæjarhátíð Mosfellsbæjar snýst um þetta. Hreyfingu, næringu og gleði. Það er heldur betur margt í gangi í Mosfellsbænum á bæjarhátíðinni þegar kemur að hreyfingu og hreysti. Hundahlaupið er mætt í bæinn, Ævar Mosverji leiðir göngu á Reykjaborg, fjallahjólakeppnin Fellahringurinn er á sínum stað, nýja hjólabrautin og nýuppfærði frisbí­golfvöllurinn í Ævintýragarðinum verða formlega vígð, meistaraflokkar Aftureldingar í knattspyrnu spila bæði heimaleiki í Lengjudeildinni, það verður frítt í sund í nýuppgerðri Varmárlaug, Afturelding og Gæðabakstur halda stórt mót fyrir 6. og 7. flokk karla og kvenna á Tungubökkum, Tindahlaupið fagnar 15 ára afmæli og fyrsti opni fjölskyldutími vetrarins verður um helgina – svo nokkur dæmi séu nefnd. En það er margt fleira í gangi í íþrótta– og útivistarbænum og það er ýmislegt í gangi sem ekki allir vita af. Það er til dæmis komið borðtennisfélag í bæinn, bardagaíþróttaflóran stækkar og UMFA mun senda meistaraflokkslið karla til leiks í körfubolta.

Ég er búinn að gefa það út að ég ætla, í góðum félagsskap, að prófa æfingu eða tvær hjá öllum þeim sem bjóða upp á skipulagðar æfingar í Mosfellsbæ. Sé fyrir mér að vera eina viku á hverjum stað, kynnast íþróttinni og þeim sem leiða hana og kynna svo í framhaldinu fyrir öðrum bæjarbúum. Ég tek fagnandi á móti upplýsingum og tillögum um íþróttir á gudjons@mos.is.

Knattspyrnutímabilið er að klárast. Kvennalið UMFA er í uppbyggingarfasa og verður áfram í Lengjudeildinni að ári. Karlalið UMFA er þegar örfáar umferðir eru eftir í baráttu um að komast í úrslitakeppni um sæti í Bestu deildinni. Hvíti riddarinn er að berjast fyrir að halda sér í 3. deild og Álafoss átti frábært tímabil í 5. deild og var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni þar.

Hreyfi– og hreysti­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2024