Í túninu heima fer fram 27.-29. ágúst

Stefnt er að því að halda bæjarhátíðina Í túninu heima með glæsibrag í lok ágúst. Aflýsa þurfti hátíðinni í fyrra vegna heimsfaraldursins og samkomutakmarkana sem þá voru í gildi. Allt lítur út fyrir að hátíðin verði haldin í ár, helgina 27.-29. ágúst. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá. Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki í Mosfellsbæ eru hvött til að taka virkan þátt í hátíðarhöldunum. Ef þið lumið á hugmyndum eða viljið vera með viðburði, þá endilega sendið póst á ituninuheima@mos.is.

Snemma byrjuð á ævistarfinu

Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir kennari og lesblinduráðgjafi hefur starfað við kennslu hátt í 30 ár.

Kennsla er starf sem krefst mikillar seiglu og sveigjanleika, þolgæðis og samstarfs við marga ólíka nemendur. Kennarinn þarf ósjaldan að beita ýmsum brögðum við að kveikja áhuga nemenda og getur því þurft að vera í senn, leiðbeinandi, fræðari, félagi og fyrirmynd.
Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir er reynslumikil kona sem hefur unnið við kennslu í öllum aldurshópum en hin síðari ár hefur hún unnið við sérkennslu ásamt því að hjálpa lesblindum einstaklingum.

Áslaug er fædd í Reykjavik 13. febrúar 1952. Foreldrar hennar eru þau Kirstín Lára Sigurbjörnsdóttir húsmóðir og handavinnukennari og Ásgeir Ó. Einarsson dýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Systkini Áslaugar eru þau Guðrún Lára f. 1940, Einar Þorsteinn f. 1942, d. 2015, Sigrún Valgerður f. 1944 og Þórdís f. 1948.

Eilíflega þakklát fyrir fjölskylduna
„Ég er Vesturbæingur, uppalin í Ási við Sólvallagötu. Húsið var á tveimur hæðum með risi og kjallara, stór garður og skemmtilegt og líflegt heimilislíf enda vorum við mörg í heimili, foreldrarnir, afi og við systkinin.
Ég er yngst og er eilíflega þakklát fyrir fjölskyldu mína, áhrifin sem ég varð fyrir af samverunni og uppeldi með þeim öllum. Það var farið í kirkju á sunnudögum, mamma með matinn tilbúin, pabbi að undirbúa næsta útkall, afi að sinna ritstörfum inn á kontór og ég lá einhvers staðar með bók og las.“

Snemma byrjuð á ævistarfinu
„Ég á margar skemmtilegar minningar frá æsku. Til dæmis safnaði ég og Þórdís systir saman krökkum úr nágrenninu í skólaleik, m.a. Diddú og Ásdísi systur hennar, settum þau við borð og vorum kennarar, svo það má segja að ég hafi verið snemma byrjuð á ævistarfinu,“ segir Áslaug og brosir.
„Ég man líka eftir viðburðaríkum ferðum með pabba í læknisheimsóknir hingað og þangað, m.a. til bændanna sem voru með bú sín inn í miðri Reykjavík og Kópavogi.“

Hápunkturinn hin árlega brunaæfing
„Ég gekk í Vesturbæjarskóla, Melaskóla og Hagaskóla. Guðrún Lára systir mín kenndi mér að lesa 6 ára og ég hóf skólanám 7 ára. Allir skólarnir höfðu sinn sjarma og ég á bara góðar minningar frá skólaárunum. Í gamla Vesturbæjarskólanum var hápunkturinn hin árlega brunaæfing, að fá að bruna niður rennibrautina af annarri hæð.
Krakkar byrjuðu snemma að vinna í den, ég vann mörg sumur á Hótel Eddu á Eiðum en Guðrún Lára systir var hótelstjóri og síðar mamma. Ég starfaði líka sem ritari á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og sótti svo um flugfreyjuna. Fyrr og síðar var ég ritari, m.a hjá Ungmennafélagi Íslands, Krabbameinsfélaginu og á Kvennadeild Landspítalans.“

Mikil gerjun í gangi
„Leið mín lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík og Kennaraháskóla Íslands. Árin frá Hagaskóla og í MR voru mikil mótunarár, tónlistin var í mikilli uppsveiflu og það komu út nýjar plötur vikulega sem heillaði okkur upp úr öllu valdi.
Við settum spurningarmerki við gamla tímann, vildum breytingar. Rauðsokkur og jafnrétti. Það var mikil gerjun í gangi því við upplifðum svo miklar breytingar í gamla samfélaginu. Eftir útskrift úr Kennaraháskólanum 1975 kenndi ég á Akureyri.“

Sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ
„Ég hitti Halldór Á. Bjarnason í Vestur­bæjarlauginni árið 1979, það var uppáhaldsstaðurinn minn og hann veiddi mig þar,“ segir Áslaug og skellihlær.
„Við eignuðumst þrjú börn, Odd Örn f. 1980, Kirstínu Láru, f. 1983 og Önnu Dúnu f. 1991, barnabörnin eru fjögur.
Við Halldór bjuggum fyrst við Norðlingabraut, og eftir að tvö elstu börnin fæddust fluttum við til Sviss og Hollands og þar var ég heimavinnandi með tvö börn, á hjóli, þetta voru yndisleg ár.
Við vorum alla tíð með hesta og tókum mið af þeim og börnunum þegar við fundum framtíðarheimilið í Leirutanga í Mosfellssveit árið 1987. Við fjölskyldan sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ, ég var hálf spæld yfir því en hér hefur verið gott að búa. Tvær systra minna búa hér líka, við vorum allar þrjár í Leirutanga þegar börnin okkar voru að alast upp, bróðir okkar bjó svo í Álafosskvosinni og sú elsta út á landi.
Við Halldór slitum samvistum 2005, hann lést 2011 en vinátta okkar hélst alla tíð. Eftir að við fluttum í Mosfellsbæ hef ég kennt í Gagnfræðaskólanum, Varmárskóla, Lágafellsskóla og nú í Helgafellsskóla. Ég hef unnið við kennslu í öllum aldurshópum, símenntunarkennslu hjá Mími, elstu deild í Reykjakoti og hin síðari ár í sérkennslu á ýmsum aldursstigum.“

Mér rann það alltaf til rifja
„Áhugamál mín eru ansi mörg, sum bíða í skúffu, önnur eru uppi á borðinu. Það helsta er náttúra Íslands, umhverfismál, íslensk tunga, lestrarvandi, hreyfing í formi útiveru, garðyrkja, hestamennska, myndlist og fegurðin í hinu smáa.
Ég bætti við mig listgreinakennslufræðum um aldamótin og svo kom vinkona mín, Hildur Einarsdóttir og maður hennar, Örn Kjærnested, því til leiðar, að Davis aðferðin yrði kennd á Íslandi en það var árið 2003.
Ég var heppin að vera með í þeim hópi því allt frá því ég hóf kennslu, fann ég svo til þess, að engin þjálfun kom með mér frá Kennaraháskóla Íslands, sem bjó mig undir að hjálpa lesblindum eða hæglæsum börnum. Mér rann það alltaf til rifja að vera bjargarlaus gagnvart lesblindum, því greip ég þetta tækifæri fegins hendi.“

Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni
Áslaug lærði Davis aðferðina með vinkonu sinni, Sigurborgu Svölu Guðmundsdóttur kennara. Þær voru heppnar að læra þetta hér á landi og fengu erlenda leiðbeinendur til sín í eitt ár. Þær opnuðum skrifstofu, ásamt öðrum, og störfuðu við þetta í rúmlega 10 ár.
„Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni, hún er ekki eins hjá neinum og lesblint fólk þarf að leggja mun meira á sig en aðrir. Aðaleinkenni lesblindra er að sjá í myndum og sá hæfileiki að verða skynvilltur og ringlast við það að rýna í þessi tákn á blaðinu. En á móti byggja lesblindir upp þrautseigju í námi sem aðrir hafa kannski ekki myndað. Lestur er mikilvægur, og grundvallaratriði er að greina lesblinduna snemma hjá börnum og koma til móts við þau.
Það er ekki langt síðan að litið var niður á lesblinda, en nú vitum við að lesblinda er náðargáfa og margt hæfileikafólk, á víðu sviði, í þeirra hópi.“

Á eftir að sjá á eftir starfinu mínu
„Ég hef unnið með stórum hópi frábærra einstaklinga á öllum aldri, allt frá 7 ára og sá elsti var 65 ára og er ég ævinlega mjög þakklát og auðmjúk gagnvart þessu fólki, því það, auk allra nemenda minna um ævina, eru mínir kennarar á móti. Þau hafa kennt mér gríðarlega margt. Ef þau lesa þetta, þakka ég þeim eilíflega fyrir.
Nú nálgast sjötugsafmælið mitt og ég á eftir að sjá á eftir starfinu mínu, enda enn í fullu fjöri og í gríðarlega frjóum og skemmtilegum hópi samstarfsfólks í Helgafellsskóla.
Ég sé sjálfa mig fyrir mér í ýmis konar ævintýrum eftir starfslok eins og kennslu og stuðningi við nemendur og verð sjálfsagt kennarinn sem auglýsir: „Tek að mér heimakennslu og prófarkalestur,“ er það ekki bara?“ segir Áslaug og hlær.

Met slegið í íbúakosningu

Minigolfvöllur í Ævintýragarðinn verður dýrasta framkvæmdin.

Enn eitt þátttökumetið var slegið af íbúum Mosfellsbæjar í íbúakosningum sem stóðu yfir frá 31. maí til 6. júní en 20,5% Mosfellinga 15 ára og eldri tóku þátt og er þar um Íslandsmet að ræða.
Þrátt fyrir mikla íbúafjölgun síðustu fjögur ár hefur kosningaþátttakan aukist hlutfallslega í hvert skipti í íbúakosningunni en verkefninu var fyrst hleypt af stokkunum 2017. Um er að ræða mestu þátttöku í sambærilegum kosningum á Íslandi og samkvæmt þjónustuaðila kosningakerfisins er líklega um heimsmet að ræða í kosningum sem þessum.
• 20,5% íbúa á kjörskrá tóku þátt í íbúakosningunni.
• Þátttakan er í senn Íslandsmet og væntanlega heimsmet.
• Kjörsókn 2019 var 19,1% sem þá var jafnframt metþátttaka.

Körfuboltavellir við tvo skóla
Baðaðstaða verður byggð við Hafravatn, jólagarður á Hlégarðstúni, grillskýli rís við Stekkjarflöt og minigolfvöllur verður settur upp í Ævintýragarðinum samkvæmt niðurstöðum íbúakosningarinnar.
Íbúar völdu jafnframt að settir yrðu upp körfuboltavellir við bæði Varmárskóla og Lágafellsskóla auk merkingar hlaupa- og gönguleiða, fjallstoppa og fjallahjólastíga sem er í góðu samræmi við áherslur í Heilsueflandi samfélagi með nálægð við fell og dali.

Höfum skoðun á samfélaginu
„Ég vil þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir frábæra þátttöku og góðan stuðning við það mikilvæga lýðræðisverkefni sem Okkar Mosó er,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Þátttaka íbúa leiðir að mínu mati vel fram hvað við Mosfellingar búum yfir miklum félagsauði og staðfestir að það er mjög gott að búa í Mosó.
Við höfum skoðun á samfélaginu, tökum þátt í samfélagslegum verkefnum og látum okkur umhverfið og hvert annað varða. Við sem störfum fyrir Mosfellinga fundum það líka í þeim aðstæðum sem ríkt hafa í samfélaginu, frá fyrstu bylgju Covid, að við stöndum saman í erfiðum aðstæðum.“


Níu hugmyndir kosnar

1 Merktar hlaupa- og gönguleiðir frá Lágafellslaug. Merkingar á leiðum og kort útbúið. (1 m.)

2 Grillskáli úr timbri við Stekkjarflöt. (2 m.)

3 Níu holu minigolfvöllur í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum, opinn almenningi. (10 m.)

4 Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að eiga góðar stundir. (4 m.)

5 Baðaðstaða við norðurenda Hafravatns. Bílastæði, einföld búningsaðstaða, sturtuaðstaða og pallur í flæðarmálinu. (6 m.)

6 Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Varmárskóla í stað núverandi vallar. (4,5 m.)

7 Stikaðar fjallahjólaleiðir í Mosfelli og Úlfarsfelli. Leiðirnar verða merktar og útbúið kort af leiðum. (1 m.)

8 Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Lágafellsskóla. (4,5 m.)

9 Klára að merkja bæjarfellin Bæjarfell, Lala, Lyklafell og Þverfell. (2 m.)

 

Við förum í fríið

Ljósin á ströndu skína skær
skipið það færist nær og nær
og þessi sjóferð endi fær.
Ég búinn er að puða og púla
pokann að hífa og dekkin spúla.

Við erum búin að standa okkur vel í kóvidinu, Íslendingar. Höfum haft þolinmóða, mannlega og öfluga leiðtoga sem hafa stýrt okkur í gegnum þessa sjóferð, ég held við getum öll verið sammála um það. Nú erum við að detta í langþráð frí. Sumarfrí. Maður skynjar mikla tilhlökkun í mörgum, eðlilega. Ég er sjálfur spenntur fyrir því að fara í frí og ætla að njóta þess með mínu fólki. Ég ætla að leggja sérstaka áherslu á að njóta þess smáa og einfalda sem fríið mun bjóða upp á, er ekki með stór markmið sem ég ætla að ná í fríinu. Þetta er samt ekki einfalt, það er svo margt sem maður vill gera, upplifa og framkvæma. Markmið sem maður vill ná. En ég er alltaf að skilja betur að það er ferðalagið sjálft sem skiptir mestu máli, ekki áfangastaðurinn eða lokatakmarkið.

Við vorum með litla frænku í pössun um helgina. Við fórum tvö saman í tímalausan göngutúr meðfram Varmánni, fylgdumst með fiðrildum, bjuggum til lúpínublómvönd, skoðuðum Álafoss og prófuðum ýmsa leikvelli sem urðu á vegi okkar. Áfangastaðurinn var Varm­árvöllur þar sem lið fólksins, Hvíti riddarinn, átti leik, en við pældum ekkert í honum á leiðinni, heldur nutum við augnabliksins, ferðalagsins sjálfs. Og ferðalagið varð miklu betri upplifun en leikurinn sjálfur. Hann má gleymast fljótt.

Ég ætla að hafa þetta í huga í sumar þegar við förum að ferðast um landið. Að njóta þess að vera á ferðinni, taka eftir hlutum í kringum mig, stoppa ef við sjáum eitthvað sem við viljum skoða betur og spá í. Ekki bara tæta frá A til B ómeðvitaður um allt sem ferðalagið býður upp á.
Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. júní 2021

 

Helga Þórdís nýr skólastjóri Listaskólans

Helga Þórdís Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Listaskóla Mosfellsbæjar frá 1. ágúst. Helga starfaði sem skólastjóri Tónlistarskólans á Tálknafirði í fjögur ár. Hún hefur sinnt tónlistarkennslu í grunnskólum og við ýmsa tónlistarskóla. Hún er prófdómari í samræmdum prófum í prófanefnd tónlistarskóla. Frá árinu 2013 hefur hún gegnt stöðu organista við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Helga hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum og situr meðal annars í skólanefnd Tónskóla Þjóðkirkjunnar og kirkjutónlistarráði, er formaður Félags íslenskra organista og er í stjórn Norræna kirkjutónlistarráðsins. Árið 2020 gaf Helga út námsefnið „Hljómleikur“ sem er nýsköpunarverkefni á sviði tónlistarkennslu.

Mosfellskt hlaðvarp um bókmenntir

Vinkonurnar Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir eru með hlaðvarpið Listin og lífið sem aðgengilegt er á öllum helstu streymisveitum.
Þar fjalla þær stöllur aðallega um bókmenntir á skemmtilegan og opinn hátt. „Við höfum líka alveg tekið fyrir lagatexta, ljóð og langar alveg að fjalla um leikrit og fleira sem tengist bókmenntum.
Við kynntumst á Bókasafni Mosfellsbæjar þar sem við höfum báðar starfað og við deilum sömu áhugamálum sem eru bókmenntir, við skrifum báðar, höfum gengið í sömu skólana, báðar búið í Danmörku og höfum svipaða sýn á lífið og tilveruna,“ segir Ástrós Hind.

Bókmenntaumræða á léttum nótum
Tanja sem er 23 ára og Ástrós Hind sem er 19 ára eru báðar Mosfellingar, Tanja er íslenskufræðingur frá HÍ og Ástrós er nemi í bókmenntafræði og ritlist.
„Þetta ævintýri byrjaði með því að ég gerði nokkra þætti með vinkonu minni úr háskólanum, svo hætti hún og mér fannst engin önnur koma til greina að halda þessu áfram með mér en Ástrós. Við reynum að vera með vikulega þætti þar sem við fjöllum um bækur sem hafa haft mikil áhrif á okkur. Okkur fannst vanta bókmenntaumræðu á léttum nótum sem er ekki of háfleyg, þannig að hver sem er getur hlustað og tengt við okkar upplifun,“ segir Ástrós Hind.

Hlustendur á öllum aldri
„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þáttunum og upplifum að okkar hlustendur eru á öllum aldri. Við reynum að vera virkar á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Facebook og látum vita þegar nýr þáttur er kominn í loftið.
Okkur finnst rosalega gaman að fá viðbrögð frá fólki og tökum vel í allar ábendingar um áhugaverð umfjöllunarefni. Við viljum vera í góðum samskiptum við okkar hlustendur og fá viðbrögð við þáttunum okkar,“ segja þær vinkonur að lokum og hvetja alla Mosfellinga til að fylgja Listin og lífið á Instagram og Facebook.

Ákvað að taka stóra stökkið

Kristín Valdemarsdóttir hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari frá árinu 2019. Myndir hennar hafa vakið mikla athygli enda segja þær sögu og eru draumkenndar og ævintýralegar.
Kristín tekur allar sínar myndir úti við og hefur verið dugleg að nota nærumhverfi sitt og þá helst skógana sem eru eins og allir vita annálaðir fyrir mikla náttúrufegurð.

Kristín er fædd í Reykjavík 17. maí 1973 Foreldrar hennar eru þau Þórdís Kjartansdóttir fv. höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari og Valdemar Jónsson fv. píanókennari.
Systkini Kristínar eru þau Unnur f. 1963 og Kjartan f. 1967.

Kölluðum umhverfið okkar torfuna
„Ég ólst upp í Reykholti, innst í Reykjahverfinu, það var dásamlegt að alast þar upp í sveitasælunni og frelsinu. Við vinkonurnar kölluðum umhverfið okkar torfuna, og gerum enn.
Það var ýmislegt brallað á þessum tíma, skautadans, sundlaugastundir og heyskapur og svo lékum við okkur við krakkana í Reykjahverfinu. Ég fór líka þrjú sumur í sveit á Snæfellsnesi á mínum æskuárum.“

RR bekkurinn
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og var í sama bekknum öll árin, dreifbýlisbekknum. Við vorum víst ansi skrautlegur bekkur og það var ýmislegt brallað.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir var umsjónarkennarinn okkar í Gaggó og hún náði stjórn á bekknum enda vorum við sko í RR bekknum, röð og regla,“ segir Kristín og hlær.
„Ég hóf síðan nám á íþróttabraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla og fór svo sem au pair til New York. Eftir það fór ég í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og útskrifast 1998 og hóf síðan störf hjá ÍTR í félagsmiðstöðinni Árseli. Frá 17-28 ára starfaði ég í sumarvinnu hjá Reykjalundi við hin ýmsu störf.“

Líður eins og stoltri frænku
„Ég byrjaði að kenna íþróttir og sund í Varmárskóla 2006 og starfaði þar til 2019. Ég er búin að eiga frábæran tíma í þessum skóla með æðislegu samstarfsfólki.
Ég hef fylgt ansi mörgum nemendum í gegnum þeirra skólaferil og þykir rosalega vænt um þau öll. Að fylgjast með þeim dafna á vegferð sinni eftir útskrift fær mig til að líða eins og stoltri frænku.
Vorið 2019 fann ég að það var kominn tími á breytingar og ákvað því að taka stóra stökkið, fara úr örygginu og hætta að kenna. Ég skráði mig í nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun, virkilega gefandi nám. Meðfram því prófaði ég að starfa aðeins við áhugamál mitt, ljósmyndun, og það gekk svo vel að ég starfa alfarið við það í dag.”

Þetta er ótrúleg saga
Kristín kynntist Ágústi Hlyni Guðmundssyni rafeindavirkja 1996 en hann starfar sem ráðgjafi hjá AZ Medica. Þau eiga tvær dætur, Matthildi f. 2004 og Karólínu f. 2008, sem báðar eru ættleiddar frá Kína.
„Í frítíma fjölskyldunnar finnst okkur skemmtilegast að ferðast en við höfum einnig verið að sýsla við ýmislegt heimavið. Við keyptum eitt elsta húsið í Mosfellsbæ, Blómvang við Reykjamel en það var byggt 1926 og er fyrsta garðyrkjulögbýli á Íslandi. Við gerðum það upp og bjuggum þar í 18 ár.
Árið 2018 keyptum við æskuheimili mitt, Reykholt, þegar foreldrar mínir fluttu og við gerðum það líka upp. Það er yndislegt að vera komin aftur á æskustöðvarnar í sveitinni. Við eigum einnig sumarbústað með foreldrum mínum á Hellnum á Snæfellsnesi og þar elskum við að vera.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu Mosfellssveitar og stofnaði því hópinn „Gamlar myndir í Mosfellssveit“ á Face­book. Mér fannst vanta vettvang til að halda utan um myndir og fróðleik frá sveitarfélaginu. Þetta er nefnilega ótrúleg saga sem nauðsynlegt er að varðveita og skemmtilegast er þegar hún kemur frá íbúunum sjálfum.“

Alltaf opin fyrir ættleiðingu
Þegar kom að því að stækka fjölskylduna þá gekk það ekki eins og skyldi. Ágúst og Kristín leituðu því til tækninnar sem gekk heldur ekki eftir. Þau voru ávallt opin fyrir ættleiðingu og ákváðu að fara í það ferli frekar en að festast í tækniferlinu.
„Árið 2004 var biðtíminn í Kína frekar stuttur svo við ákváðum ættleiðingu þaðan. Það er heilmikið ferli sem þarf að fara í gegnum áður en endanlegt leyfi er gefið út.
Við biðum í sjö mánuði en okkur fannst þetta heil eilífð. Loksins komu upplýsingar og mynd af eins árs gamalli fallegri stúlku. Þvílík gleði, frá þeirri stundu urðum við foreldrar, hún var fallegasta barn í heimi.“

Þetta var magnað ferðalag
„Það var ólýsanlegt að kynnast Kína, fæðingarlandi dóttur okkar, en maður átti samt erfitt með að upplifa því við vorum að verða foreldrar og hugurinn því annars staðar. Stundin sem við fengum hana í fangið er ólýsanleg, hún var okkar frá fyrstu mínútu og aðlögunin gekk vel.
Við vissum það um leið og við komum heim að þessa tilfinningu vildum við upplifa aftur. Við byrjuðum því næsta ferli um leið og við máttum eða ári síðar. Það ferli tók aðeins lengri tíma þar sem biðtíminn hafði lengst í Kína en við höfðum Matthildi til að knúsa svo biðin var bærilegri.“

Þetta var skrifað í skýin
„Fjórum árum síðar fengum við símtalið frá Íslenskri ættleiðingu að það væru komnar upplýsingar um litla stúlku, tæplega eins árs og hún fékk nafnið Karólína. Við urðum strax ástfangin og gengum með myndina af henni í vasanum í 3 mánuði áður en við flugum út. Matthildur var þá 5 ára og hún kom að sjálfsögðu með okkur.
Aftur upplifðum við þessa töfrandi og ólýsanlegu tilfinningu þegar við fengum hana í fangið, tilfinningu sem enginn skilur nema sá sem hefur ættleitt. Við hefðum ekki getað verið heppnari og hefðum við ekki getað ímyndað okkur fjölskyldu okkar neitt öðruvísi.
Það er bara þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar, ég trúi því að það sé ástæða fyrir öllu. Ástæða okkar var að við áttum í erfiðleikum með að eignast börn á hefðbundinn hátt en fengum samt dæturnar okkar á annan hátt, það var skrifað í skýin.“

Dugleg að nota náttúruna í Mosó
Kristín starfar sem ljósmyndari í dag og tekur aðallega myndir úti í náttúrunni. Stílnum hennar má lýsa sem draumkenndum og ævintýralegum, myndir sem segja sögu.
„Ég er búin að hafa áhuga á ljósmyndun í langan tíma en byrjaði fyrir alvöru þegar dætur mínar voru yngri. Ég tók mikið af myndum af þeim og sótti ýmis námskeið til að bæta við þekkingu mínu. Ég fór svo að fá fyrirspurnir frá fólki hvort ég tæki að mér að taka myndir. Ég ákvað því að prófa að taka stóra stökkið og fór út í sjálfstæðan rekstur sem ljósmyndari, www.kristinvald.com.
Það gengur bara fínt en ég er svolítið háð veðri þar sem ég er ekki með stúdíó og tek því bara myndir úti. Ég hef verið dugleg að nota náttúruna hér í Mosó eins og í Reykjalundar- og Hamrahlíðarskógi.
Þó að ég hafi farið út í ljósmyndun þá er aldrei að vita hvað maður tekur sér fyrir hendur í framtíðinni, ég er nefnilega ekki ennþá búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ segir Kristín og hlær þegar við kveðjumst.

Styrkjum úthlutað úr Klörusjóði

Á dögunum voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið Klörusjóðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem unnin eru í einstökum skóla eða í samstarfi á milli skóla og var í ár lögð áhersla á verkefni á sviði upplýsinga- og tæknimála.
Nafn sjóðsins, Klörusjóður, er til heiðurs Klöru Klængsdóttur (1920-2011). Klara útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1939 og hóf sama ár kennslu við Brúarlandsskóla. Hún starfaði alla sína starfsævi sem kennari í Mosfellsbæ.

ALLT fasteignasala opnar í Kjarna

ALLT fasteignasala hefur opnað útibú í Þverholti 2. Fasteignasalan er staðsett í gamla Íslandsbankarýminu í Kjarnanum en fyrir eru starfsstöðvar í Reykjanesbæ, Grindavík og Vestmannaeyjum.
Kristinn Sigurbjörnsson, annar eigenda ALLT, hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2016. Sjálfur hefur Kristinn búið í Mosfellsbæ í þrjú ár og telur að með allri þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í bæjarfélaginu undanfarið hafi skapast aukið rými fyrir fleiri fasteignasölur.
„Það er auðvitað mikil fjölgun íbúa hér í bænum og ég sé mikla möguleika í að þjónusta fólk í bæði kaupum og sölu með mína þekkingu,“ segir Kristinn sem er byggingafræðingur og húsasmíðameistari að mennt og þekkir því ferlið allt frá grunni. „Einnig get ég aðstoðað byggingaverktakana frá upphafi, þegar þeir eru að hanna og breyta, og komið þannig fyrr að verkefnunum.“

Þjónusta allt höfuðborgarsvæðið
ALLT er framsækin og hágæða fasteignasala sem leggur áherslu á ánægjuvog bæði kaupenda og seljanda, öryggi og nákvæmni í öllum vinnubrögðum og framsækni í framsetningu og kynningu á eignum sem eru til sölu- eða leigumeðferðar hjá fyrirtækinu.
Útibúið í Mosfellsbæ mun þjónusta allt höfuðborgarsvæðið og höfðu þeir lengi haft augastað á húsnæði í Mosfellsbæ. „Fólk er nánast hætt að koma inn á fasteignasölurnar, við vinnum í raun bara heiman frá þeim sem eru að selja og getum því verið hvar sem er,“ segir Kristinn.
Í heildina starfa 15 manns hjá fasteignasölunni, þar af 8 hér í Mosfellsbæ. „Við hvetjum bæjarbúa til að kíkja til okkar í kaffi og spjall eða fá góðar ráðleggingar,“ segir Kristinn og bætir við að skráðum eignum hjá þeim í Mosfellsbæ fari ört vaxandi.

Jóna Benediktsdóttir ráðin skólastjóri Varmárskóla

Jóna Benediktsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Varmárskóla frá 1. ágúst. Hún er með B.Ed gráðu frá KHÍ, meistaragráðu í sérkennslufræðum og diplómu í stjórnun menntastofnana frá HÍ. Hún hefur einnig setið námskeið í stjórnun og opinberri stjórnsýslu.
Jóna hefur starfað sem grunnskóla­kennari, aðstoðarskólastjóri til fjölda ára og sem skólastjóri við grunnskólann á Ísafirði. Frá 2018 hefur hún starfað sem skólastjóri við grunnskólann á Suðureyri. Jóna hefur tekið þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum, haldið námskeið og ritað greinar um skólamál. Jóna hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum og hefur gegnt formennsku í félagi um „Uppbyggingu sjálfsaga“ og hefur réttindi til að kenna þau fræði.

Kosið um 29 tillögur í Okkar Mosó 2021

Rafræn kosning er hafin í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021. Þar gefst íbúum tækifæri á að kjósa sín uppáhalds verkefni til framkvæmda, verkefni sem þeim þykja gera bæinn betri.
Um er að ræða forgangsröðun og úthlutun fjármagns til framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Mosfellsbæ.
Alls bárust 140 fjölbreyttar tillögur að verkefnum í hugmyndasöfnuninni, talsvert fleiri en árin 2017 og 2019. Hugmyndirnar voru metnar af hópi sérfræðinga á umhverfissviði Mosfellsbæjar og lagt var mat á kostnað við hönnun og framkvæmd. Afrakstur þeirrar vinnu var tillaga um 29 hugmyndir sem voru lagðar fram til kynningar í lýðræðis- og mannréttindanefnd og eru þær nú komnar í kosningu meðal íbúa Mosfellsbæjar. Kosningin fer fram á slóðinni kosning2021.mos.is sem stendur yfir þessa vikuna til og með sunnudagsins 6. júní.

Tvöfalt vægi með hjarta
Íbúar velja þær hugmyndir sem þeir vilja kjósa á kosningasíðunni. Hægt er að kjósa áfram hugmyndir fyrir samtals upphæð allt að 35 milljónum. Mikilvægt er að vita að þegar kosið er þarf ekki að fullnýta fjármagnið. Með því að kjósa eitt eða fleiri verkefni velur íbúi að gefa þeim atkvæði sitt. Kjósendur geta líka sett hjarta við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, tvö atkvæði í stað eins.

15 ára og eldri geta kosið
Ungmenni sem verða 15 ára á árinu geta haft áhrif og kosið. Það þýðir að verðandi 10. bekkingar geta komið sínu áliti á framfæri. Um er að ræða íbúakosningu sem er framkvæmd á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga þannig að allir kjósendur þurfa að notast við rafræn skilríki eða Íslykil til þess að greiða atkvæði.

Íbúakosningin er hafin
Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til þess að taka þátt í að velja hugmyndir og að hvetja aðra til þess að kjósa á síðunni kosning2021.mos.is.
Nánari upplýsingar er að finna á mos.is/okkarmoso og í kápunni sem hylur Mosfelling að þessu sinni.
Það er kjörið að losa kápuna af blaðinu til þess að virða allar hugmyndir fyrir sér á einni opnu og jafnvel hengja á ísskápinn til að minna heimilismenn á að kjósa.

Hér getur þú kosið: kosning2021.mos.is

 

Nettó opnar í Mosfellsbæ

Gunnar Egill framkvæmdastjóri verslunarsviðs og Jón Steinar verslunarstjóri Nettó í Mosfellsbæ.

Föstudaginn 4. júní mun Nettó opna nýja verslun við Sunnukrika 3 í Mosfellsbæ. Unnið hefur verið hörðum höndum að því að standsetja rýmið síðustu vikur. Í Sunnukrika er einnig að finna heilsugæslu, apótek, bensíndælur og kjötbúð.
„Við höfum horft til Mosfellsbæjar mörg undanfarin ár og erum ótrúlega spennt fyrir því að opna,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. „Staðsetningin er mjög spennandi og með þeim flottu fyrirtækjum og þjónustu sem er í húsinu er ljóst að þjónusta við íbúa mun stórbatna. Þetta er önnur græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir svo eitthvað sé nefnt.“

Leiðandi í heilsusamlegum og lífrænum vörum
„Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja. Við leggjum mikla áherslu á ferskvöruna og það fyrsta sem mætir þér er brakandi ferskt ávaxta- og grænmetistorg. Nettó er leiðandi í heilsusamlegum og lífrænum vörum og fá þær vörur mikið rými,“ segir Gunnar Egill.
Verslanir Nettó eru staðsettar á 17 stöðum á landinu og bætist nú glæsileg verslun við í Mosfellsbæ. Nettó er í eigu Samkaupa hf. og var fyrsta lágvöruverslunin til að opna netverslun á Íslandi. Þá er verið að innleiða vildarkerfi sem gildir í öllum Nettóverslunum sem ber heitið Samkaup í símann og veitir viðskiptavinum fastan afslátt af innkaupum og aðgang að sértilboðum.

Þrautin

Við héldum KB þrautina nýverið. KB þrautin er utanvegahlaup með fjölbreyttum þrautum sem gera lífið skemmtilegra. Fólk þurfti til dæmis að klifra yfir veggi og upp kaðla, skríða undir gaddavír, labba í djúpu drullusvaði og upp langa og bratta brekku, bera þunga hluti á milli staða og prófa sig á jafnvægis­slá. 100 manns tóku þátt í þrautinni. Sumir fóru þetta sem einstaklingar, aðrir fóru í gegnum þrautina sem lið. Það gladdi mig mikið að sjá og heyra hvað þátttakendur voru ánægðir þegar þeir komu í mark. Ánægðir með að hafa klárað verkefnið, tekist á við erfiðar aðstæður og komist í gegnum þær.

Fólk hafði sérstaklega gaman af þeim þrautum sem komu þeim á óvart, drullugámurinn hans Leibba og A-veggurinn voru oft nefnd í því sambandi. Annað sem gladdi mig mjög var að sjá svipinn á fólki sem var, fyrir þrautina, efins um að það gæti þetta. Það er ólýsanlegur svipur, einhvers konar mögnuð blanda af stolti og gleði.

Mér fannst frábært að sjá öfluga einstaklinga fara í gegnum þrautina af miklum krafti, gefa allt sitt í hana. En það sem mér fannst allra vænst um, var að fylgjast með hópunum sem tækluðu verkefnin sem eitt teymi og fylgdust þannig að í gegnum alla þrautina. Þetta voru ólíkir hópar, vinahópur, stórfjölskylda, vinnufélagahópur og æfingafélagahópur komu meðal annars við sögu í þrautinni og stóðu sig virkilega vel sem sterkar liðsheildir. Sterkari saman, kom vel í ljós í KB þrautinni. Ég er búinn að vera stúdera síðastliðna mánuði hvað einkennir öflug teymi og hvað þarf að hafa í huga við uppbyggingu á sterkum teymum, margt af því sem ég hef verið að læra kom fram hjá þátttakendum í þrautinni.

Það er svo ánægjulegt að geta styrkt aðeins hið góða starf í sumarbúðum Reykjadals eftir hlaupið, en allar tekjur af hlaupinu runnu til þeirra. Njótum sumarsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. júní 2021

Þjónusta jarðvarmavirkjanir og veitur á öllu landinu

Mosfellingarnir Ingvar Magnússon, Baldur Jónasson og Jóhann Jónasson.

Deilir er öflugt og ört stækkandi fyrirtæki sem staðsett er í Völuteig í Mosfellsbæ. Deilir er tækniþjónusta sem býður fjölbreyttar véla- og tæknilausnir til fyrirtækja sem stafa í orkuiðnaði og veitustarfsemi.
Það var Baldur Jónasson sem stofnaði Deili árið 2008, Ingvar Magnússon og Jóhann Jónasson komu svo seinna inn í eigandahópinn. „Fyrst um sinn þjónustaði fyrirtækið eingöngu Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta þróaðist hratt í það að við fórum fljótt að þjónusta öll orkuver á landinu.
Við höfum alltaf verið fókusaðir á græna orku, á jarðorkuverin og veiturnar. Við höfum skapað okkur sérstöðu á þessu sviði,“ segir Baldur sem starfar í dag sem verkefnis- og rekstrarstjóri Deilis.
Nýverið komu nýir eigendur að félaginu sem gefur fyrirtækinu tækifæri á að styrkja þá þekkingu og þjónustu sem Deilir stendur fyrir.

Mennirnir á bakvið tjöldin
„Það má segja að við séum mennirnir á bakvið tjöldin, okkar hlutverk er að notandi raforku og vatns verði ekki fyrir truflun. Okkar hlutverk er að þjónusta vélbúnaðinn, við reynum að hámarka þann tíma sem orkuverin eru í gangi með því að lágmarka bilanir með því að sjá til þess að vélbúnaðurinn sé í góðu ásigkomulagi.
Við mælum árangur okkar í því að rekstur þessara virkjana gangi truflunarlaust árum eða jafnvel áratugum saman. Þegar farið er í að stoppa vélbúnað til að gera við þá pössum við að þau verkefni séu vel undirbúin og taki sem skemmstan tíma og að viðgerðin endist lengur en áður,“ segir Jóhann Jónasson framkvæmdastjóri Deilis.

Starfsmannhópurinn stækkað ört
Í dag starfa yfir 60 manns hjá Deili en fyrirtækið festi kaup á nýju 2.000 fm húsnæði við Völuteig fyrir rúmu ári.
„Eftirspurnin eftir okkar þjónustu er alltaf að aukast. Starfsmannahópurinn okkar hefur stækkað um helming á einu ári.
Við erum duglegir að fylgjast með þróun í þessum málum og höfum komið okkur upp góðu tengslaneti. Við erum í góðum samskiptum við sérfræðinga á þessu sviði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Við flytjum inn vélbúnað og varahluti og fáum oft sérfræðing að utan í viðgerðir og viðhaldsverkefni,“ segir Ingvar sem sér um sölu- og tæknimál hjá Deili.

Þekking til útflutnings
„Hér höfum við byggt upp þjónustumiðstöð fyrir virkjanir og veitur á öllu landinu. Hingað koma fulltrúar þeirra til að ná í sérfræðiþekkingu. Þetta gerum við með að hafa vel þjálfað og hæft starfsfólk í sérhæfða þjónustu. Áreiðanleiki er ein af höfuðdyggðunum okkar því að viðskiptavinurinn þarf að geta treyst á okkur, fengið þá þjónustu sem hann þarf í réttum gæðum og á réttum tíma.
Hér hefur byggst upp mikil þekking og sérhæfing á rekstri og viðhaldi tæknibúnaðar, verðmæt þekking sem við erum að vinna að útflutningi á til annarra landa,“ segir Jóhann að lokum.

Draumurinn orðinn að veruleika

Fyrsti íslenski rjómalíkjörinn, Jökla, er kominn á markað. Pétur Pétursson mjólkurfræðingur hefur þróað drykkinn síðastliðin 14 ár en þetta er í fyrsta sinn hérlendis sem framleiddur er áfengur drykkur úr íslenskri mjólk og þar sem mysa er nýtt við gerð líkjörs.
Pétur fékk hugmyndina eftir að hafa fengið að smakka heimatilbúinn líkjör úr hrímaðri mjólkurkönnu beint úr frystinum hjá bónda á Ítalíu. Hann ákvað þegar heim var komið að gera tilraunir með sinn eigin drykk og nú er sá draumur orðinn að veruleika.

Pétur er fæddur í Reykjavík 30. júlí 1964. Foreldrar hans eru þau Matthildur Jóhannsdóttir söngkona og Pétur Guðmundsson búfræðingur.
Pétur á þrjú systkini, Ragnheiði f. 1959, Baldvin f. 1962 og Alan Má f. 1976.

Man hvað hún skrifaði vel
„Ég flutti í Mosfellssveit þegar ég var tveggja ára gamall og foreldrar mínir byggðu sér hús í Markholti 18. Það var gaman að fá nokkur uppeldisár í sveitinni, svona sveit með sjarma.
Ég man þegar Ragnheiður systir mín keppti í sundi á 17. júní í Varmárlaug. Ég var svo stoltur þegar hún stakk sér til sunds því nánast allir Mosfellingar voru mættir til að horfa.
Þegar ég var 7 ára þá fluttum við til Reykjavíkur og ég ól manninn í Vogahverfinu. Ég var því fyrstu tvö árin mín í skólaskyldu í Varmárskóla og ég man hvað Klara Klængsdóttir kennarinn minn skrifaði vel, ég vildi alltaf skrifa svona vel eins og hún.
Ég fór svo í Vogaskóla og kláraði grunnskólann þar, smíði, skrift og landafræði voru mín uppáhaldsfög ásamt íþróttunum.
Staða mín er því sú að ég held bæði með Aftureldingu og Þrótti,“ segir Pétur og brosir.

Fór til Danmerkur í nám
Pétur var ekki viss um hvað hann langaði til að gera eftir grunnskólanámið svo hann fór að vinna sem aðstoðarbókbindari. Síðar hóf hann störf sem tollvörugeymsluvörður hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Hann byrjaði í rafvirkjanámi en fór síðan til Danmerkur í mjólkurfræðinám og bætti svo við tæknifræðinámi. Árin í Danmörku urðu fimm, bæði við nám og störf.
Eiginkona Péturs er Sigríður Sigurðardóttir viðkiptafræðingur en hún starfar hjá Marel. Þau eiga tvö börn, Sindra Þór f. 1987 sem starfar sem flugumsjónarmaður hjá SunAir í Danmörku og Stefaníu Ósk f. 1995 en hún er í mastersnámi í iðnaðarverkfræði í Danmörku. Barnabarnið Benjamín Thor er fæddur 2020.
„Við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2000 eftir ábendingu um frábæra eign frá Sigrúnu Björgu frænku minni. Hér líður okkur vel og útivera er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni, hlaup, ganga og hjólreiðar og að sjá um að hundarnir fái sína hreyfingu. Við förum öll á skíði og höfum stundað þau vel, fjalla-, svig- og gönguskíði. Það er ekkert betra en að vera úti í náttúrunni,“ segir Pétur.

Tökum púlsinn á búskapnum
„Eftir heimkomu starfaði ég sem mjólkurfræðingur hjá Emmessís en fór síðan út í sölumennsku. Starfaði hjá Sápugerðinni Frigg og sá þar um sölu á hreinlætisvöru fyrir landbúnaðinn. Leiðin lá síðan til Áburðarverksmiðjunnar sem síðar sameinaðist Fóðurblöndunni þar sem ég starfa í dag sem sölustjóri.
Ég hitti bændur reglulega og við tökum saman púlsinn á búskapnum og gerum hann enn betri.“

Hún var stoð mín og stytta
„Ég fór líka út í það að læra óperusöng og hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík, fyrst í almennt söngnám, síðan í ljóða- og aríudeild skólans. Minn aðalkennari var Snæbjörg Snæbjarnardóttir, hún leiddi mig í gegnum námið og var mín stoð og stytta. Einnig kenndi Garðar Cortes mér tæknina í óperukórnum og Signý Sæmundsdóttir.
Að námi loknu tók ég þátt í minni fyrstu óperu, Leðurblökunni eftir Strauss, sem frumsýnd var í Íslensku óperunni árið 1999. Þessi uppfærsla var síðan sýnd einu sinni í Færeyjum og spannar það allan minn erlenda söngferil í óperusöng.
Alls urðu óperurnar 16 sem ég tók þátt í og er mér minnisstæðust fyrsta óperan sem frumsýnd var í Hörpu, Töfraflautan eftir Mozart, en hún var sýnd fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld.
Þannig að það má nú segja að ég hafi fetað í fótspor foreldra minna þar sem ég starfa bæði við landbúnað og söng,“ segir Pétur og hlær.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa
Það hefur alltaf blundað í Pétri að gera eitthvað sérstakt úr mjólk og eins og áður sagði þá fékk hann hugmynd að framleiðslu rjómalíkjörsins Jöklu eftir að hafa smakkað heimatilbúinn mjólkurlíkjör hjá bónda á Ítalíu. Honum fannst þetta skemmtileg stemning og bragðið kom honum virkilega á óvart.
„Ég hófst handa við að koma hugmyndinni í framkvæmd og byrjaði að dunda við þetta í eldhúsinu heima hjá mér. Gestum og gangandi var gefið að smakka, viðbrögðin létu ekki á sér standa svo ég fór yfir á næsta stig og fór alvarlega að huga að framleiðslu á drykknum.“

Sá hvítfyssandi jökulá
Í þróunarferlinu fékk Pétur styrk frá verkefninu „Mjólk í mörgum myndum“ við að vinna að hugmynd sinni en verkefnið var á vegum Auðhumlu og Matís sem veitir nýsköpunarstyrki til að þróa nýjar vörur úr mjólk.
„Ég vildi hafa líkjörinn eins íslenskan og eins mikið unninn úr mjólkinni og hægt er og ég kalla hana hvíta gullið. Ég er að breyta mjólk í vín og nota mjólk og rjóma og eins viðbætt mjólkurprótein í stað þykkingarefna. Eins er sjálfbærni í Jöklu þar sem búinn er til vínandi úr ostamysu sem annars væri hent. Vinsælustu bragðefni Íslendinga eru súkkulaði og lakkrís og var því tilvalið að vinna með það svo ég bætti þeim bragðefnum við drykkinn.
Á upphafsárunum var ég að gera tilraunir með vanillukorn og rjóma. Ég hristi prufuglasið og sá þá fyrir mér hvítfyssandi jökulá með sandkornum á fleygiferð í tilraunaglasinu. Þá hugsaði ég að þetta væri eins og stórbrotin jökulá á Íslandi, þá kom nafnið sjálfkrafa upp í kollinum á mér, Jökla.“

Stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu
„Mér finnst ég standa í þakkarskuld við íslenskan landbúnað og bændur og vona svo sannarlega að hægt verði til framtíðar litið að auka við mjólkurkvótann um heilan helling nú þegar sala á Jöklu hefst frá og með deginum í dag.
Eftir 14 ára þróun er draumur minn loks orðinn að veruleika, þetta er stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu sem hefur staðið þétt við bakið á mér.
Ég held að þessi drykkur eigi eftir að falla vel í kramið bæði hjá landsmönnum og ferðamönnum,“ segir Pétur sem er ekkert annað en bjartsýnn á að vel takist til.