Ringófjör fyrir 60+

Ringó hefur verið stundað hjá eldri borgurum í Mosfellsbæ í nokkur ár.
Æfingar fara fram í íþróttahúsinu að Varmá á þriðjudögum kl. 12:10-13:10 og á fimmtudögum kl. 11:30-12:30.
Það er íþróttanefnd FaMos sem stendur fyrir þessum æfingum tvisvar í viku. Vel er tekið á móti nýju fólki og er nóg að mæta bara á staðinn og taka þátt.
Hópurinn hefur farið á þónokkur mót en Borgarnes, Hvolsvöllur, Kópavogur og Mosfellsbær hafa skipst á að halda þau. Síðasta var haldið mót hér í Mosfellsbæ í nóvember.
Mikil aukning hefur verið í allri hreyfingu eldri borgara og er ringó ein af íþróttunum sem í boði er.
Ringó er skemmtileg íþrótt sem hentar flestum og svipar til blaks. Í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum.

Nafninu breytt í Bankinn Bistro

Karen Arnardóttir bankastjóri í Þverholti 1.

„Við erum búin að breyta nafninu á staðnum okkar hér í Þverholtinu í Bankinn Bistro, en hér var fyrst opnað í lok árs 2019,“ segir Karen Arnardóttir rekstrarstjóri og nú bankastjóri.
„Staðurinn hét áður Barion og við munum að sjálfsögðu bjóða upp á sömu góðu þjónustuna áfram enda sami góði hverfisstaðurinn í Mosó. Sömu eigendur og sama kennitala en nú færum við okkur nær upprunanum, enda var hér starfræktur banki í fjöldamörg ár, bæði Búnaðarbankinn og síðar Arion banki. Nú verðum við hins vegar eini bankinn í bæjarfélaginu, eins skrýtið og það hljómar. Það verður bara aðeins meiri gleði í okkar banka.“
Í Bankanum er hægt að setjast niður í mat og drykk t.d. í gömlu bankahvelfinguna frá fyrri tíð en hún var flóknasta framkvæmdin á sínum tíma þegar húsnæðinu var breytt í veitingastað.
Bankinn Bistro er veitingastaður, hverfis­bar, sportbar og félagsheimili fullorðna fólksins í Mosfellsbæ.

Öll verð vaxtalaus og óverðtryggð
„Við erum alltaf að betrumbæta matseðilinn okkar og reyna að höfða til sem til flestra. Við bjóðum upp á ýmsar nýjungar og höfum líka náð að lækka verð á einhverju.
Þá erum við komin með pizzur á matseðil sem hafa farið mjög vel af stað en þær eru í boði á kvöldin og um helgar. Í hádeginu alla virka daga bjóðum við svo upp á heitan mat, það hefur mælst einkar vel fyrir og fjöldinn allur af fastaviðskiptavinum sem koma dag eftir dag.
Á föstudögum ætlum við að byrja að bjóða upp á hlaðborð með lambakjöti og meðlæti en ætlunin er að gestir geti tekið hraustlega til matar um leið og þeir koma inn fyrir dyrnar.
Þá verða gerðar einhverjar breytingar hér innanhúss á næstunni og staðurinn fær andlitslyftingu í takt við nýtt nafn.“

Viðburðir í hverri viku
„Viðburðirnir okkar verða einnig á sínum stað áfram en hér eru haldin bingó, pubquiz, prjónakvöld, skákmót, krakkabíó og tónleikar svo eitthvað sé nefnt. Fótbolta­áhugafólk horfir hér líka á helstu kappleiki. Við erum alltaf opin fyrir hugmyndum og hægt er að senda okkur póst á bankinn@bankinnbistro.is.
Hugmyndin að nýja nafninu hefur verið í deiglunni í þónokkurn tíma og verður vel tekið á móti Mosfellingum sem og að sjálfsögðu öllum viðskiptavinum nú sem fyrr í Bankanum,“ segir Karen.

Erfðamál koma okkur öllum við

Margrét Guðjónsdóttir var orðin fimmtug er hún hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands. Hún hafði starfað til fjölda ára á lögmannsstofum áður en hún hóf námið og þekkti því vel til hinna ýmsu sviða lögfræðinnar.
Árið 2016 stofnaði hún eigin lögfræðistofu og fasteignasölu en Margrét er einnig löggiltur fasteignasali. Hún hefur sérstakan áhuga á erfða- og hjúskaparrétti og hefur verið dugleg að hvetja fólk til að vera betur meðvitað um rétt sinn.

Margrét er fædd á Hvolsvelli 30. október 1956. Foreldrar hennar eru Kristbjörg Lilja Árnadóttir húsmóðir og Guðjón Jónsson fv. frystihússtjóri á Hvolsvelli en þau eru bæði látin.
Margrét á þrjú systkini, Rúnar f. 1940, Inga f. 1943 d. 2022 og Ernu Hönnu f. 1952.

Þetta var nafli alheimsins
„Ég er alin upp á Hvolsvelli, yndislegt þorp þar sem allir þekktu alla og allir voru sem einn ef eitthvað bjátaði á. Á mínum uppvaxtarárum voru íbúarnir hundrað og sextíu en í mínum huga var þetta nafli alheimsins.
Foreldrar mínir voru ein af frumbyggjum Hvolsvallar, afi og amma og tvö systkini mömmu áttu heima þarna líka svo þetta var sannkallaður fjölskyldureitur. Ég var svo heppin að róló var á bak við húsið mitt svo það var ekki langt að fara til að leika.
Foreldrar mínir voru mjög dugleg að fara í tjaldferðalög um landið og ég á margar góðar minningar úr þeim ferðum. Allar sundlaugar voru leitaðar uppi og það fannst mér mikið sport.“

Ekki amalegt að komast á böllin
„Ég gekk í Hvolsskóla og fannst það mjög gaman, stúdentinn kláraði ég svo frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég byrjaði ung að vinna og sumarið eftir fermingu hóf ég störf í félagsheimilinu Hvolnum sem þá var eina hótelið á Hvolsvelli. Hvollinn var vel þekktur fyrir sín sveitaböll og það var ekki amalegt að komast svona ung inn á þau.
Eftir að ég flutti til Reykjavíkur þá var ég svo heppin að fá skrifstofustarf hjá Toyota-umboðinu. Það var einstaklega gott að starfa fyrir þau hjónin Pál og Elínu enda frábærir félagar starfsmanna sinna. Ég hóf síðar störf á lögmannsstofu og starfaði þar sem framkvæmdastjóri í mörg ár.“

Sælureitur við Silungatjörn
Margrét giftist Kjartani Óskarssyni í Hlégarði 1994. Rúnar bróðir Margrétar var á þessum tíma starfandi sýslumaður í Reykjavík og gat því gefið þau saman.
Kjartan er menntaður garðyrkjufræðingur en starfar í dag í Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þau hjónin eiga tvö börn, Lilju f. 1988 og Kolfinn Erni f. 1999 en fyrir átti Kjartan Karen f. 1988.
„Við fjölskyldan eldum mikið saman, það eru gæðastundir þegar allir gera saman pizzu á föstudagskvöldum, þessi hefð hefur verið alveg frá því börnin voru ung. Okkur finnst líka gaman að ferðast, hvort sem er að fara í stuttar borgarferðir eða á sólarströnd.
Við hjónin erum búin að gera okkur sælureit við Silungatjörn sem er yndislegur staður. Hlökkum til að eyða þar meiri tíma í framtíðinni,“ segir Margrét og brosir.

Hófu nám á sama tíma
„Mig hafði lengi langað að læra lögfræði en þegar ég var farin að vinna og komin með fjölskyldu þá miklaði ég það fyrir mér. Ég var orðin fimmtug þegar ég ákvað að skoða þann möguleika að fara í þetta nám með vinnu. Ég skráði mig í lagadeild Háskóla Íslands og sé ekki eftir því, í kjölfarið aflaði ég mér málflutningsréttinda en það er nauðsynlegt ef maður ætlar að geta flutt mál fyrir dómstólum.
Við mæðgur hófum nám á sama tíma en Lilja mín fór í verkfræði. Ég lofaði henni að ég skyldi ekkert vera að heilsa henni á göngunum en við höfðum báðar mjög gaman af þessu,“ segir Margrét og hlær.

Mikil vanþekking í gangi
Margrét stofnaði sína eigin lögmannsstofu MG Lögmenn árið 2016 með aðsetur í Mosfellsbæ. Hún er líka löggiltur fasteignasali og hefur verið að sinna því starfi töluvert samhliða lögmannsstörfunum.
Margrét hefur komið að hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar en hún hefur sérstakan áhuga á erfða- og hjúskaparrétti. Hún telur að að það sé töluverður misskilningur og vanþekking í gangi hjá fólki varðandi þau mál og hún vill hvetja fólk til að vera betur meðvitað um rétt sinn.
„Hjúskaparlögin gilda aðeins um hjúskap tveggja einstaklinga eins og segir í 1. gr þeirra. Þar er sérstaklega tekið fram að þau taki ekki til óvígðrar sambúðar. Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, skiptir þá engu hvort aðilar hafi skráð sambúðina, hvað hún hafi staðið lengi eða hvort þeir eigi börn saman.“

Ég óska fólki til hamingju
„Ástæða þess að hjón gera oft kaupmála um að eign sé séreign er sú að hún komi ekki til skipta við skilnað eða andlát. Þá þarf að gæta að því, ef vilji er til, að tiltaka að eignin verði hjúskapareign að því hjóna látnu, því annars þarf að skipta búi hins látna og jafnframt að greiða erfðafjárskatt af eigninni sem getur verið töluverð fjárhæð.
Sambúðarfólk óskar oft eftir því að gera slíkt hið sama þ.e.a.s. að gera kaupmála og vill tryggja sig eins og fólk í hjúskap en það er ekki hægt. Það getur gert erfðaskrá þar sem kveðið er á um að hinn sambúðaraðilinn skuli taka arf eftir þá en eigi það barn, hvort sem þau eru sameiginleg eða ekki þá getur það aðeins ráðstafað 1/3 af arfi sínum á þennan hátt. Réttur til að sitja í óskiptu búi er heldur ekki í boði. Mögulega er hægt að gera yfirlýsingu um vilja fólks en það skjal er hvergi hægt að skrá.
Ég óska fólki til hamingju þegar það hefur gert erfðaskrá, það er nefnilega oft þannig að fólk ætlar sér að ganga frá erfðaskrá við tækifæri en svo verður það of seint. Það skiptir líka máli að hún sé gerð meðan fólk er heilt heilsu.“

Ræktin er mín slökun
Ég spyr Margréti að lokum út í áhugamálin? „Vinnan mín er klárlega aðal­áhugamál mitt, mér finnst mjög gaman að stúdera hinar ýmsu hliðar lögfræðinnar og les mikið um allt sem henni tengist. Mér finnst mjög gott að fara í ræktina en það er mín slökun.
Ég er líka í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar sem er mjög áhugaverður og skemmtilegur félagsskapur og ég er forseti klúbbsins þetta starfsárið. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt og fróðlegt í gangi hjá okkur allt árið um kring,“ segir Margrét brosandi er við kveðjumst.

Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Könnunin hefur verið framkvæmd samfellt frá árinu 2008 og veitir yfirlit yfir þróun afstöðu íbúa til einstaka málaflokka yfir tíma og stöðu Mosfellsbæjar gagnvart öðrum sveitarfélögum.
Á árinu 2022 reyndust 92% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á og hækkaði úr 89% frá fyrra ári og er Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu í þessari spurningu. Mosfellsbær var á síðasta ári fyrir ofan meðaltal sveitarfélaganna í níu spurningum af tólf. Þjónusta grunnskóla og þjónusta við fatlað fólk er hins vegar undir landsmeðaltalinu sem kallar á umbótavinnu næstu misserin og er sú vinna hafin.

Ánægja eykst með skipulagsmál
Ánægja íbúa eykst milli ára í sex spurningum og má þar auk ofangreindrar spurningar nefna ánægju með skipulagsmál þar sem skorið hækkar um eitt stig og óánægðum fækkar um 6%. Þar hækkar Mosfellsbær um tvö sæti milli ára í samanburði sveitarfélaganna. Það sama á við um afstöðuna til gæða umhverfisins þar sem ánægja eykst og Mosfellsbær ferðast upp töfluna.
Afstaða íbúa til þjónustu við barnafjölskyldur stendur í stað en þar sem meðaltalseinkunn annarra sveitarfélaga lækkar þá færist Mosfellsbær upp töfluna og sama hreyfing á sér stað milli ára í afstöðunni til þjónustu leikskóla sveitarfélagsins. Þar er Mosfellsbær í fjórða sæti á landsvísu og þeir sem njóta þjónustunnar gefa sveitarfélaginu einkunnina 4,4 á 5 punkta skala.

Hástökkvarar ársins í menningarmálum
Ánægja íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar í Mosfellsbæ eykst milli ára og færist bærinn upp um tvö sæti á síðasta ári. Hástökkvarar ársins eru menningarmálin og þjónusta sveitarfélagsins á heildina litið þar sem ánægjan eykst og sveitarfélagið hækkar í báðum tilvikum um fimm sæti.
Verulegt tækifæri er hins vegar til umbóta þegar kemur að afstöðu íbúa til þess hvernig starfsfólk Mosfellsbæjar hefur leyst úr erindum þeirra þar sem skorið var 3,5 árið 2021 en lækkaði í 3,4 árið 2022.

Almenn vísbendingu um stöðu mála
Könnun Gallup á þjónustu Mosfellsbæjar hefur verið kynnt í bæjarráði. „Það er mjög gleðilegt að bæjarfélagið hefur hækkað á milli ára þegar kemur að lykilspurningunni um þjónustu bæjarfélagsins þegar á heildina er litið og deilir öðru sætinu á landsvísu með nokkrum öðrum sveitarfélögum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Mikilvægt er að hafa í huga að könnunin veitir almenna vísbendingu um stöðu mála í einstaka málaflokkum og er hluti þeirra gagna sem nýtt eru til að þróa þjónustu Mosfellsbæjar. Það sem er gott við að fá reglulega mælingu á þjónustu bæjarins er að finna þá þætti sem þarfnast helst úrbóta.“

Viljum laga það sem þarfnast úrbóta
„Því miður er það þjónusta við fatlaða einstaklinga í ár eins og undanfarin ár og þar þurfum við einfaldlega að gera betur. Málaflokkurinn fékk aukið framlag í fjárhagsáætlun 2023 og við vonum svo sannarlega að þeir fjármunir skili sér í ánægðari þjónustuþegum og aðstandendum.
Það sama á við um málefni grunnskólans og við bindum miklar vonir við að aukin sérfræðiþjónusta í grunnskólum og vinna við innleiðingu farsældarhringsins verði til þess að styrkja þjónustuna og laga það sem þarfnast úrbóta.
Mosfellsbær vinnur nú að verkefnum til að hraða vinnu við stafræna þróun sveitarfélagsins. Hluti af þeirri vinnu mun fela í sér innleiðingu stafrænna lausna til að auka skilvirkni í svörun erinda og halda utan um samskipti bæjarins við íbúa,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri.

Frískápur nú aðgengilegur í Mosfellsbæ

Gerður og Marco við frískápinn við Kjarna.

Komið hefur verið upp frískáp í Mosfellsbæ þar sem bæjarbúar geta skipst á mat. Góð leið til til að sporna við matarsóun, bæði hægt að deila mat og bjarga mat.
„Ég var búin að sjá svona útfærslu í Reykjavík og hef lengi verið hugsa um hvernig við gætum komið upp slíkum skáp hér í Mosó,“ segir Gerður Pálsdóttir. „Mér áskotnaðist ísskápur og gat ekki hugsað mér að henda honum. Mér var þá bent á hann Marco sem vinnur hjá Mosfellsbæ og hefur einmitt komið á laggirnar svona verkefni í Reykjavík. Hann tók dáldið við keflinu og hefur leitt þetta áfram.“

Treysta á náungakærleika í verki
„Það er t.d. tilvalið að setja hér inn afganga eftir veislu eða frá fyrirtækjum, það getur hjálpað öðrum. Við munum svo skiptast á að hafa eftirlit með skápnum og treystum á náungakærleikann,“ segir Marco Pizzolato.
Góðir vinir komu að því að byggja í kringum skápinn svo hann ætti að geta staðið úti allan ársins hring. Þá hefur Mosfellsbær aðstoðað við staðsetningu og fleira. Sérstakar þakkir fær Byko fyrir byggingarefnið, Krzystof Pakosz og Ania Szymkowiak fyrir uppsetninguna og Birgir Grímsson og Guðmundur Sverrisson fyrir hjálp og flutninga.
Frískápurinn er tilraunaverkefni til næstu sex mánaða og verður spennandi að sjá hvernig Mosfellingar taka þessari nýjung.
Hægt er að fylgjast með stöðunni á frískápnum á Facebook. Skápurinn er staðsettur fyrir neðan Kjarna þar sem Bónus var áður til húsa og var með vöruafgreiðslu.

 


Frískápur er deiliskápur sem hefur það að markmiði að minnka matarsóun með því að deila neysluhæfum mat milli fólks. Öllum er frjálst að setja og taka úr skápnum hvenær sem þeim hentar og nýta þar með matvæli sem annars yrði hent.

Mosfellsbakarí á bæði brauð og köku ársins

Hjá Mosfellsbakaríi starfa bakarar sem hafa tileinkað sér fagleg vinnubrögð og nota einungis góð hráefni í sínar vörur.
Landssamband bakarameistara stendur árlega fyrir keppni um brauð ársins og köku ársins og hlaut Mosfellsbakarí að þessu sinni bæði verðlaunin. Það var Gunnar Jökull bakaranemi hjá Mosfellsbakaríi sem sigraði í keppninni um brauð ársins, en það er kamút súdeigsbrauð og er einstaklega ljúffengt og gott.
Það var svo bakarinn og kondítorneminn hjá Mosfellsbakarí Guðrún Erla Guðjónsdóttir sem vann árlegu keppnina um köku ársins. Sem að þessu sinni var unaðsleg Doré karamellumousse með passion-kremi og mjúkum herslihnetumarengsbotni, kakan er svo hjúpuð með gullglaze og skreytt með handgerðum súkkulaðilaufum. Það var matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir sem tók á móti fyrstu köku ársins 2023.

Hvernig bregstu við krefjandi aðstæðum?

Síðustu daga hef ég verið að hugsa um árin tvö sem ég vann við neyðarvarnir hjá Rauða krossinum. Þetta var mjög lærdómsríkur tími og ég bý enn að ýmsu sem ég lærði á þessum árum.

Eitt af því er hvernig maður bregst við erfiðum aðstæðum. Eldgos, annars konar náttúruhamfarir og alvarleg slys af ýmsum toga var það sem við vorum mest að vinna með, en viðbrögðin gilda um allt mótlæti – sama hversu stórvægilegt eða smávægilegt það er.

Og hvernig bregst maður við mótlæti og krefjandi aðstæðum? Af rósemi og yfirvegun. Það er lykilatriði. Neyðarvarnir snúast annars vegar um að vera eins vel undirbúinn fyrir erfiðar aðstæður og maður getur verið og hins vegar um að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp á yfirvegaðan og skipulagðan hátt. Teikna upp hvað er hægt að gera í stöðunni og velta fyrir sér mögulegum sviðsmyndum. Velta fyrir sér hvaða möguleg áhrif hver sviðsmynd hefur í för með sér og hvaða mögulegar afleiðingar ákvarðanir okkar munu hafa.

Það er sömuleiðis mikilvægt að láta ekki gremju, reiði eða sjálfsvorkunn ná tökum á sér. Af hverju ég? Af hverju þurfti hann/hún að gera þetta? Alltaf þarf eitthvað svona að koma fyrir mig. Og svo framvegis. Við þekkjum þetta öll, að detta í þennan gír. En hann hjálpar engum, leysir ekki úr neinu, gerir ekkert betra.

Sama hvað aðstæður eru erfiðar, virðast jafnvel óyfirstíganlegar, þá er alltaf einhver leið út úr þeim. Jafnvel leiðir. Besta leiðin til að koma auga á þessar leiðir er að nota aðferðafræði neyðarvarnanna, setjast niður og skrifa eða teikna upp stöðuna og hvaða möguleikar eru í henni. Velja svo þá leið sem líklegust er til árangurs, taka ákvörðun og standa með henni. Lífið heldur áfram, við höfum miklu meiri áhrif á hvernig það þróast en við höldum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. mars 2023

Eva Dís nýr eigandi Aristó hárstofu

Eva Dís Björgvinsdóttir er nýr eigandi Aristó hárstofu sem staðsett er í Háholti 14. Hún hefur keypt stofuna af Ingu Lilju Hjálmarsdóttur og Guðrúnu Sveinsdóttur en þær stofnuðu stofuna árið 2003. Aristó verður því 20 ára í nóvember á þessu ári.

„Ég þekki aðeins til Aristó þar sem ég starfaði þar um tíma, þannig að þegar þetta tækifæri bauðst, að kaupa stofuna, sló ég til. Sömu starfsmenn verða áfram á stofunni ásamt því að ég bætist við og vonandi fleiri, það eru alla vega lausir stólar. Ég mun á næstunni fríska aðeins upp á stofuna og gera hana svolítið huggulega. Ég hef opnað fyrir tímabókanir hjá mér í gegnum noona appið þannig að hægt er að bóka tíma í gegnum netið. Einnig er hægt að hringja í síma 566-8989.

Halda stórtónleika í Lundi

Stórsveit Íslands blæs til mosfellskrar veislu á miðvikudaginn.

Miðvikudaginn 22. febrúar blæs Stórsveit Íslands til tónleika í Lundi í Mosfellsdal.
Þar munu mosfellskir stórsöngvarar, þau Sigrún Hjálmtýsdóttir, Sigurður Hansson, Birgir Haraldsson, Stefanía Svavarsdóttir og Davíð Ólafsson, syngja með hljómsveitinni.
Stórsveit Íslands var upphaflega stofnuð árið 2009 af félögum í FÍH sem voru atvinnutónlistarmenn en flestir voru komnir á aldur og vildu halda áfram að spila tónlist saman. Einn upphafsmaðurinn að hugmyndinni að stofna slíkt band var Þórir Þórisson tónlistarmaður og stjórnandi. Hópurinn kallaði sig Öðlingana og hljómsveitin kallaðist Stórsveit Öðlinga.
Með tímanum urðu mannabreytingar og nýir stjórnendur tóku við. Daði Þór Einarsson er núverandi stjórnandi sveitarinnar og var nafnið Stórsveit Íslands tekið upp árið 2018.

Blanda atvinnu- og áhugamanna
Í hljómsveitinni eru 20 hljóðfæraleikarar, blanda atvinnu- og áhugamanna og er æft einu sinni í viku. Ýmsir söngvarar hafa sungið með bandinu í gegnum tíðina og má þar nefna Hjördísi Geirsdóttur, Pál Óskar, Ara Jónsson, Davíð Ólafsson og Viggu Ásgeirsdóttur og Völu Guðnadóttur.
Árið 2019 var ráðist í að útsetja fyrir sveitina ýmis lög eftir Sigfús Halldórsson og Oddgeir Kristjánsson. Þá hefur sveitin einnig staðið fyrir stóru verkefni sem bar nafnið Keflvíska bítlið frá 1967-1977 og voru þá 12 lög útsett af því tilefni.
Tónleikarnir þann 22. febrúar hefjast kl. 20:00 og verður hægt að kaupa aðgöngumiða við innganginn, 1.500 kr. Tónleikarnir fara fram í Lundi í Mosfellsdal, höfuðstöðvum Lambhaga.
Á efnisskránni eru 20 lög og má þar nefna: Fyrsti kossinn, Alveg ær, Ég vil að þú komir, Jarðarfarardagur og Crazy Little Thing Called Love.

Við elskum að vera á jaðrinum

Fríður Esther Pétursdóttir eigandi verslunarinnar kinky.is selur unaðsvörur ástarlífsins og undirföt fyrir konur.

Fríður Esther fékk þá hugmynd í ársbyrjun 2019 að opna vefverslun með undirföt en henni fannst vanta á markaðinn ódýr en vönduð föt í öllum stærðum og gerðum. Salan hefur farið langt fram úr væntingum og í dag hefur Fríður opnað verslun við Laugaveg og hefur aukið vöruúrvalið til muna.
Fríður hefur einnig hug á að þjónusta landsbyggðina betur og hefur keypt litla rútu til að keyra á milli staða. Þetta yrði nýjung á Íslandi og hún er spennt að sjá hvernig móttökurnar koma til með að verða.
Fríður Esther er fædd á Selfossi 19. júlí 1975. Foreldrar hennar eru Elísa Elísdóttir fyrrv. kaupmaður og Pétur Hjaltason fyrrv. sparisjóðsstjóri á Selfossi.
Fríður Ester á tvö systkini, Anton f. 1972 og Guðbjörgu Gínu f. 1978.

Kom heim með mús í vasanum
„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og átti yndislega æsku á þessum fallega stað þar sem allir þekktu alla. Fyrstu fimm árin mín bjuggum við í eldri hluta bæjarins en fluttum svo í nýja hlutann í hús sem foreldrar mínir byggðu. Ég minnist þess að búa innan um hálfkláruð hús með móann í bakgarðinum með tilheyrandi ævintýrum.
Ég elskaði öll dýr og á góðar minningar um kisuna mína, hundinn minn og páfagaukinn. Eitt sinn kom ég heim með hagamús í vasanum, mömmu og vinkonum hennar til lítillar gleði,“ segir Fríður Esther og hlær.
„Foreldrar mínir voru vinamörg og ég minnist dásamlegra ferðalaga en farið var í Galtalæk öll sumur. Þar var tjaldað og grillað og oft var haldið þar upp á afmælið mitt sem mér fannst æðislegt.“

Fer lítið fyrir saumaskap
„Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Selfossi og var heppin að vera með sömu krökkunum í bekk allan þennan tíma. Bekkurinn minn heldur enn hópinn og við stelpurnar hittumst reglulega í saumaklúbb þótt lítið fari fyrir saumaskapnum. Ég á bara hlýjar og góðar minningar frá skólaárunum.
Á sumrin var ég í sveit hjá afa og ömmu í Laugarási í Biskupstungum. Afi var garðyrkjubóndi og ég fékk að skottast um í gróðurhúsunum með honum. Það hefur örugglega samt verið meiri vinna fyrir hann að hafa mig heldur en fyrir hann að fá hjálp frá mér,“ segir Fríður Esther og brosir.
„Ég byrjaði í Fjölbrautaskóla Suðurlands en varð svo ófrísk af tvíburum þegar ég var 18 ára svo það varð lítið úr skólagöngu eftir það. Ég fór síðar á alls konar námskeið og styttra nám tengt störfum mínum.“

Vil hvergi annars staðar eiga heima
Eiginmaður Fríðar Estherar heitir Þorsteinn Magnús Guðmundsson en hann er uppalinn í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Jóhanna Ýr og Þórunn Petra f. 1993, Elís Aron f. 2001 og Aríella og Adríana f. 2011. Barnabarnið Vilhjálmur Þór er eins árs.
„Við fluttum í Mosfellsbæ 2008 og búum í húsi sem tengdaforeldrar mínir byggðu í Arkarholtinu. Hér er alveg hreint frábært að búa og ég vil hvergi annars staðar vera. Við hjónin höfum frá árinu 2013 tekið að okkur fósturbörn sem hafa komið og verið hjá okkur í mislangan tíma sem okkur þykir ofurvænt um.
Við fjölskyldan eigum sumarbústað í Kerhrauni í Grímsnesinu sem við erum að gera upp svo við reynum að vera þar eins mikið og við getum, sérstaklega á sumrin. Ég elska að skoða heiminn og hef verið dugleg að draga fjölskylduna í ferðalög. Við erum líka heilmikil sófafjölskylda, elskum að hafa kósýkvöld og horfa á góða mynd.“

Hefur ræktað hunda í tuttugu ár
„Ég hef nánast alla tíð unnið einhvers konar verslunarstörf, var deildarstjóri í Kaupfélaginu á Selfossi og verslunarstjóri hjá 10-11. Þegar við fluttum í Mosfellsbæ þá rak ég verslunina Hundaheim en ég seldi hana þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Hundaræktarfélags Íslands en þar starfaði ég í nokkur ár.
Ég hef verið að rækta hunda í yfir 20 ár bæði á Íslandi og í Póllandi í samstarfi með góðu fólki en ég á nokkra hunda líka í Póllandi. Hundaræktun á Íslandi getur verið mjög krefjandi vegna erfiðra innflutningsreglna. Ég ferðast mikið á hundasýningar erlendis og á orðið góða vini út um allan heim tengt þessu áhugamáli mínu sem ég er svo þakklát fyrir að geta stundað.“

Löngu hætt að vera gæluverkefni
Fríður Esther stofnaði vefverslunina kinky.is í ársbyrjun 2019 en hugmyndin kviknaði þegar henni fannst vanta á markaðinn ódýr en vönduð falleg undirföt í öllum stærðum og gerðum. Hún fann góðan framleiðanda og flytur vörurnar inn milliliðalaust.
„Ég var heimavinnandi á þessum tíma og ákvað að slá til og opna vefverslun og sé alls ekki eftir því. Ég byrjaði afar rólega og hef hægt og bítandi verið að auka vöruúrvalið og í dag er þetta löngu hætt að vera lítið gæluverkefni. Ég opnaði verslun á Laugaveginum í kjölfarið og jók úrvalið á kynlífstækjunum sem hefur fallið í góðan jarðveg.
Elstu dætur mínar hafa hjálpað mér heilmikið við reksturinn og sjá meðal annars um samfélagsmiðlana.“

Þetta yrði nýjung á Íslandi
„Ferðamenn hér á landi eru duglegir að koma til okkar í búðina og Íslendingar auðvitað líka og við eigum orðið okkar föstu viðskiptavini sem koma hingað aftur og aftur. Við elskum að vera á jaðrinum og gera eitthvað nýtt fyrir okkar viðskiptavini, þeir hafa líka verið duglegir að hafa samband og óska eftir sérpöntunum. Í versluninni bjóðum við einnig upp á vörur fyrir þá allra hörðustu ef við getum orðað það svo,” segir Fríður og brosir og bendir á vörurnar í hillunum.
Hugmyndin er líka sú að útbúa færanlega verslun, við keyptum litla rútu sem við höfum nefnt Kónginn. Okkur langar til að þjónusta landsbyggðina betur og fara með rútuna út á land. Þar gæti fólk komið og skoðað og jafnvel sótt pantanir sem keyptar hafa verið á netinu. Þetta yrði nýjung á Íslandi og ég er mjög spennt að sjá hvernig fólk mun taka á móti okkur.“
Ég spyr Fríði út í nafnið, kinky.is? „Já það er nú bara þannig að það sem einhverjum finnst óhefðbundið getur verið fullkomlega eðlilegt fyrir aðra svo mér fannst þetta bara passa ansi vel, lénið var laust svo ég kýldi bara á þetta,“ segir Fríður Esther að lokum er við kveðjumst.

Arnór Gauti heim í Aftureldingu

Magnús Már þjálfari, Arnór Gauti og Gísli Elvar formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar.

Sóknarmaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson hefur gengið til liðs við uppeldisfélag sitt Aftureldingu á nýjan leik frá Hönefoss í Noregi.
Arnór Gauti skrifaði undir tveggja ára samning við Aftureldingu í vikunni og mun leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar. Hinn 26 ára gamli Mosfellingur skoraði 10 mörk í 14 leikjum í Lengjudeildinni þegar hann var á láni hjá Aftureldingu frá Fylki sumarið 2021 en hann var þá að stíga upp úr erfiðum meiðslum. Það sumarið var hann markahæstur hjá Aftureldingu og var valinn besti leikmaður tímabilsins hjá liðinu. Þá var Arnór Gauti einnig fyrirliði Aftureldingar síðari hluta þess tímabils.
Eftir að hafa skorað 10 mörk með Hönefoss í Noregi síðastliðið sumar er hann nú mættur aftur á heimaslóðir í Mosfellsbænum. „Afturelding hljómaði mest spennandi fyrir mig á þessum tímapunkti. Það er alltaf jafn gaman að koma aftur í uppeldisfélagið. Í ár ætlum við að ná árangri,” sagði Arnór Gauti eftir undirskriftina en hann er að bætast í hóp öflugra leikmanna sem hafa gengið til liðs við Aftureldingu fyrir komandi tímabil. Fram undan er keppni í Lengjubikarnum hjá Aftureldingu áður en Mjólkurbikarinn hefst í apríl og Lengjudeildin sjálf í byrjun maí.

Lemon míní opnar á Olís

Undanfarnar vikur hafa endurbætur og breytingar átt sér stað á Olís Langatanga sem er hluti af umbreytingarferli og nýrri ásýnd allra stöðva.
Stöðin hefur fengið mikla upplyftingu þar sem básum hefur verið komið fyrir í matsalnum og hann aðeins stækkaður svo betur fari um sem flesta. Einnig hefur verið frískað upp á allar innréttingar sem gerir heildaryfirbragð léttara.
Þjónustustöðin hefur aukið á fjölbreytnina og opnað Lemon míní með hollari valkosti fyrir viðskiptavini. Lemon míní er aðeins minni útgáfa af Lemon en þar er í boði fjórar vinsælustu tegundirnar af samlokum og djúsum frá Lemon.
Lemon er ferskur og safaríkur matur og hentar vel þeim sem velja sér hollari kosti. Á sínum stað eru svo ávallt safaríkir hamborgarar frá Grill 66 eins og margir þekkja og frábært úrval af annarri smávöru sem og bílavörum.

Mæta ólíkum þörfum viðskiptavinanna
„Á síðasta ári var gerður samningur við TVG-Zimsen og eiga viðskiptavinir kost á að fá sendar pantanir til okkar til að sækja og í leiðinni tankað bílinn og fóðrað magann. Þannig kappkostum við að mæta ólíkum þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Elsa Forberg verslunarstjóri Olís í Mosfellsbæ.
„Við bjóðum gamla og nýja viðskiptavini hjartanlega velkomna og hlökkum til að þjónusta þá áfram.“

Peningalestin

 

Ég fékk að heyra það nýlega að ég hefði misst af lestinni. Hvaða lest? Peningalestinni. Ástæðan væri sú að ég vildi ekki fórna frelsinu, væri alltof óhefðbundinn og færi ekki réttu leiðina í lífinu. Það er örugglega ýmislegt til í þessu. Það er ekki margt sem bendir til þess að ég verði moldríkur – maður veit samt aldrei … ég hef ekkert á móti peningum og myndi ekki segja nei ef Nottingham Forest hefði samband og byði mér vel launað hlutverk.

En þetta er rétt með frelsið, ég vil ekki fórna því. Ég vil hafa frelsi til þess að móta mitt líf þannig að það samræmist mínum gildum. Tími með mínum nánustu skiptir mig þannig meira máli en mörg aukanúll á bankareikningnum. Ég áttaði mig á þessu fyrir 17-18 árum þegar ég var, þá þriggja barna faðir, farinn að eyða mun meiri tíma í vinnunni en með fjölskyldunni. Þetta var skemmtileg vinna, mikið af ferðalögum á áhugaverða staði, vel launuð og ég fékk frelsi til þess að koma hugmyndum mínum til framkvæmda. En ég saknaði fjölskyldunnar, saknaði litlu guttanna minna.

Það skemmtilegasta sem ég gerði var að vera með þeim, spila fótbolta með þeim, upplifa hluti með þeim. En vinnan takmarkaði þann tíma sem ég vildi hafa með mínu fólki. Vinnan var í fyrsta sæti á tímabili. Þarna ákvað ég að stíga af lestinni og trúa því að ég myndi áfram geta fært björg í bú. Að ég myndi finna leiðir til þess að láta þann draum rætast að fá meiri tíma með fjölskyldunni og að geta skapað tekjur samhliða.

Við höfum á þessum tíma ferðast um allan heiminn saman og fengið miklu fleiri samverustundir en hefðu verið mögulegar ef ég hefði haldið áfram að byggja upp „réttan“ starfsferil. Samveran og sameiginlegu upplifanirnar eru mér mikilvægari en allir peningar heimsins.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. febrúar 2023

Erum sífellt að þróa þjónustuna

Jórunn Edda Hafsteinsdóttir fagstjóri hjúkrunar og svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Jórunn Edda var ung að árum er hún hóf störf á sambýli en það var þar sem hún áttaði sig á við hvað hún vildi starfa í framtíðinni. Hún hóf nám í hjúkrunarfræði og eftir útskrift hóf hún störf á Landspítalanum þar sem hún starfaði í tólf ár. Hún segir árin þar hafa verið góð en starfið hafi oft á tíðum verið krefjandi.
Í dag stýrir hún Heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem flutti í nýtt húsnæði að Sunnukrika árið 2021. Heilsuvernd er stór hluti af starfseminni svo það er sannarlega í mörg horn að líta.

Jórunn Edda er fædd í Vestmannaeyjum 23. mars 1975. Foreldrar hennar eru Guðfinna S. Kristjánsdóttir fv. bankastarfsmaður og Hafsteinn Stefánsson húsasmiður.
Jórunn á tvo bræður, Kristján Helga f. 1978 og Ívar Frey f. 1985.

Tel mig forréttindastelpu
„Ég fæddist í Vestmannaeyjum en bjó þar aldrei en móðir mín er ættuð þaðan. Mér þykir mjög vænt um Eyjarnar og þar á ég stóra fjölskyldu.
Ég ólst upp í sveit, í Túni í Flóa, rétt utan við Selfoss. Ég átti góða æsku og tel mig forréttindastelpu að hafa alist þarna upp og hafa enn aðgang að sveitinni. Foreldrar mínir voru með blandað bú í félagsbúi við afa minn og ömmu sem bjuggu á sama bæ. Það var gæfa að fá að alast upp í nálægð þeirra því þau eru fyrirmyndir mínar í svo mörgu.
Það hafði mótandi áhrif að taka þátt í sveitastörfunum og að valta og snúa á traktornum þegar aldur leyfði. Ég hafði gaman af því að keyra hann, maður sat með vasadiskóið og söng hástöfum lög með Greifunum.“

Hafði góð áhrif að koma fram
„Ófærð og rafmagnsleysi er eitthvað sem maður þekkti vel, þá var kveikt á olíulömpum og kertum. Ein jólin var svo brjálað veður að við þurftum að fara yfir til ömmu og afa á traktornum með jólapakkana bundna aftan á, það var rafmagnslaust þau jólin. Föðurbræður mínir léku alltaf jólasveina og þeir komu með pakkana í stórum poka alla leið inn í stofu, þetta er ljúf æskuminning,“ segir Jórunn og brosir.
„Ég gekk í barnaskólann í Þingborg en þetta var lítill sveitaskóli með um 30 börn, þar var skipt í yngri og eldri deildir. Skólastjórinn var mikill leikhúsáhugamaður og það voru sett upp leikrit fyrir jólin sem allir tóku þátt í. Þetta hafði án efa góð áhrif á það að koma fram og taka þátt.“

Skelltu sér á sveitaböllin
Jórunn gekk í gagnfræðaskólann á Selfossi og segir að það hafi verið mikil breyting að koma í stóran skóla. „Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum þá fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands, það voru góð ár og þar kynntist ég mínum bestu vinkonum. Við vorum duglegar að ferðast og skemmta okkur á sveitaböllunum í Njálsbúð, Hvoli og Aratungu.
Á sumrin tók ég þátt í störfunum í sveitinni en sumarið eftir fermingu fór ég að vinna í humri í Vestmannaeyjum. Þá dvaldi ég hjá ömmu minni Helgu og það var skemmtilegt sumar. Eftir það starfaði ég hjá Kaupfélagi Árnesinga og við hin ýmsu verslunarstörf eftir það.“

Fór til Bandaríkjanna
„Eftir stúdentinn 1995 fór ég í eitt ár sem aupair til Bandaríkjanna. Ég var í New Jersey fylki og var mjög heppin með fjölskyldu. Tilgangurinn með þessari dvöl var að sjá heiminn og læra betur ensku því ég ætlaði í frekara nám.
Þetta var mjög þroskandi för, ég náði að ferðast til Flórída, Mexíkó og Kanada. Þetta var áður en internetið kom til sögunnar þannig að ég skrifaði um 350 bréf til vina og ættingja þetta árið og fékk annað eins til baka,“ segir Jórunn og brosir. „Eftir að ég kom heim þá starfaði ég einn vetur á bensínstöð en eftir það hef ég starfað við umönnun og hjúkrun.“

Ekkert gerist af sjálfu sér
Jórunn Edda er gift Óskari Sigvaldasyni frá Borgarnesi, hann rekur ásamt öðrum fyrirtækið Borgarverk. Þau eiga þrjá drengi, Sigvalda Örn f. 2002, Hafstein Ara f. 2007 og Halldór Orra f. 2011.
„Við fjölskyldan höfum gaman af því að ferðast, bæði um landið og erlendis og við förum mikið í sveitina, eins höfum við verið í jeppaferðum og útivist.
Drengirnir okkar hafa allir æft íþróttir með Aftureldingu, um tíma voru þeir allir í blaki og ég líka. Ég gaf kost á mér í barna-og unglingaráð blakdeildarinnar. Þátttaka í starfi Aftureldingar er gefandi og reyndist mér góð leið til að kynnast skemmtilegu og drífandi fólki. Við sem eigum börn í íþróttum megum ekki gleyma því að ekkert gerist af sjálfu sér og við verðum öll að taka þátt í einhvern tíma til þess að starf félagsins gangi upp, þá uppskera allir.“

Þetta var krefjandi á köflum
„Ég starfaði eitt sumar á sambýli á Selfossi og þar áttaði ég mig á að áhugi minn lægi í hjúkrun. Ég hóf nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist 2001. Ég hóf störf á Landspítalanum og starfaði þar í tólf ár, lengst af á almennri skurðdeild og þvagfæraskurðdeild. Þetta voru góð ár þótt starfið hafi verið krefjandi á köflum. Á þessum tíma tók ég einnig diplómanám í hjúkrun aðgerðasjúklinga við HÍ.
Haustið 2013 ákvað ég að breyta til, komin með þrjú börn og orðið flóknara að vera í vaktavinnu. Ég sótti um starf hjá Heilsugæslu Mosfellsumdæmis og hér hefur mér líkað mjög vel. Ég byrjaði sem skólahjúkrunarfræðingur en hef verið mest í ung- og smábarnavernd og á hjúkrunarmóttökunni.“

Skjólstæðingum fer fjölgandi
„Árið 2016 fór ég í klínískt diplómanám í heilsugæsluhjúkrun við Háskólann á Akureyri, hélt áfram námi og kláraði meistarapróf 2020 í heilbrigðisvísindum með áherslu á klíníska heilsugæslu í héraði.
Vorið 2021 bauðst mér að taka við sem fagstjóri hjúkrunar og svæðisstjóri heilsugæslunnar. Hér starfar gott starfsfólk, tæplega 30 manns, 7 starfsstéttir í mismunandi stöðugildum. Saman vinnum við að því að sinna og leysa úr erindum sem berast með hag skjólstæðinga okkar að leiðarljósi, en skjólstæðingum stöðvarinnar hefur farið fjölgandi.
Heilsuvernd er stór hluti af starfi heilsugæslunnar, mæðravernd, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla og heilsueflandi móttaka. Við erum sífellt að þróa þjónustuna til að sinna okkar fólki sem best. Í haust komum við af stað nýrri heilsueflandi móttöku aldraðra sem er góð og þörf viðbót. Við erum einnig með öfluga hjúkrunarmóttöku og dagvakt sem sinnir bráðveikum og slösuðum, ásamt hefðbundinni læknamóttöku. Á morgnana bjóðum við upp á stutta samdægurs læknatíma og einnig í lok dags.
Álag hefur verið mikið, sér í lagi síðustu tvö árin, það er krefjandi verkefni að sinna vel þeim erindum sem berast en hlúa um leið vel að starfsfólkinu. Árið 2021 fluttum við í nýja húsnæðið okkar í Sunnukrika sem hefur breytt gríðarlega miklu í starfi stöðvarinnar.
Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim góða hópi sem starfar á heilsugæslunni,“ segir Jórunn Edda og brosir er við kveðjumst.

Fyrsti Mosfellingur ársins

Þann 2. janúar kl. 23:24 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2023.
Það var fallegur og hraustur drengur, foreldrar hans eru þau Hafdís Elva Einarsdóttir og Freysteinn Nonni Mánason.
„Við vorum voða glöð að hann skyldi ná 2023, við héldum jafnvel að hann myndi fæðast þann þriðja en hann var komin í heiminn klukkutíma eftir að við komum niður á Landspítala. Fæðingin gekk vel og hann er mjög vær og góður og allt hefur gengið vel,“ segir Hafdís Elva.
Drengurinn er annað barn foreldra sinna en fyrir eiga þau dótturina Marínu Birtu sem er rúmlega þriggja ára. Fjölskyldan hefur búið í Mosfellsbæ í tvö ár og líkar vel.
„Við erum bæði utan af landi og langaði að búa í úthverfi höfuðborgarinnar eða minna samfélagi. Við erum alveg rosalega ánægð með þessa ákvörðun og þjónustuna hér í bænum,“ segir Freysteinn Nonni.
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með drenginn.