Ætlar að breiða út boðskapinn

beta_mosfellingurinn

Elísabet Jónsdóttir kennari fékk styrk frá Sprotasjóði til að búa til kennsluáætlun í markmiðasetningu fyrir unglinga.

Beta er algjör perla og er falleg bæði að utan sem innan. Hún er sannur vinur vina sinna og það er alltaf hægt að treysta á hana. Það er aldrei lognmolla í kringum hana, hún er mikill stuðbolti og ávallt þétt skipuð hjá henni dagskráin en hún hefur samt alltaf tíma fyrir mann til að spjalla eða aðstoða á einhvern hátt,“ segir Edda Davíðsdóttir æskuvinkona Betu er ég bið hana um að lýsa vinkonu sinni í stuttu máli.

Elísabet, eða Beta eins og hún er ávallt kölluð, fæddist í Reykjavík 30. maí 1969. Hún ólst upp í Varmadal en foreldrar hennar eru þau Hanna Sigurjónsdóttir og Jón Sverrir Jónsson vörubílsstjóri og verktaki.
Beta á þrjá bræður, þá Jón, Andrés og Björgvin. Andrés lést árið 1997.

Alltaf gaman að koma á Skálatún
„Andrés bróðir minn bjó á Skálatúni frá sjö ára aldri og frá því góða heimili á ég margar góðar minningar. Það var til dæmis alltaf gaman að vera þar á 17. júní, þá mættu fjölskyldur þeirra sem bjuggu þar og glöddust úti við hina ýmsu leiki og svo voru grillaðar pylsur.“

Átti farsæla og ánægjulega skólagöngu
„Ég gekk í Varmárskóla þar sem ég var svo heppin að hafa heimsins besta umsjónarkennara, hana Sigríði Johnsen, nær allan barnaskólann. Ég átti mjög farsæla og ánægjulega grunnskólagöngu umvafin góðum vinum sem enn halda hópinn.
Ferðamáti okkar unglinganna var með öðru sniði þá en gengur og gerist í dag, við vorum puttalingar ef við vorum ekki hjólandi.“

Vann hin ýmsu störf á unglingsárunum
„Eins og flestar stelpur þá byrjaði ég í vist ásamt því að vera í unglingavinnunni. Ég vann líka í sjoppu en síðan lá leiðin á Western Fried sem var kjúklingastaður í Þverholtinu. Þar vann ég með skóla og á sumrin í mörg ár hjá Ragga vini mínum Björns.
Að loknu grunnskólaprófi fór ég eins og við flest úr Mosfellssveitinni í Menntaskólann við Sund þar sem félagslífið og vinir áttu hug mig allan. Þar hætti ég svo eftir annað árið í einu af mörgum verkföllum sem þá voru en kláraði svo stúdentsprófið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.“

Hætti í bankanum og fór að kenna
„Eftir stúdentinn hóf ég störf hjá Íslandsbanka og það var þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir skólastjóri tók mig tali því henni fannst ég ekki vera á réttri hillu í lífinu, henni fannst ég fædd til að verða kennari. Sigríður Johnsen sem þá var aðstoðarskólastjóri í Varmárskóla var henni hjartanlega sammála svo úr varð að ég hætti í bankanum og fór að vinna hjá þeim báðum. Svo það má segja að það sé þeim stöllum að þakka að ég varð kennari og ég sé alls ekki eftir því,“ segir Beta brosandi.

Fluttu til Hollands
Beta kynntist eiginmanni sínum, Agli Sveinbirni Egilssyni, árið 1988 en þau höfðu þekkst í mörg ár enda bæði uppalin í Mosfellssveit. Þau eiga þrjú börn, Hönnu Lilju fædda 1991, Emmu Íren fædda 2000 og yngstur er Egill Sverrir fæddur 2004.
„Árið 1997 fluttum við fjölskyldan til Hollands. Egill fór í hönnunarnám við Hönnunarakademíuna í Eindhoven. Á meðan nýtti ég tímann og lærði hollensku ásamt því að taka eitt ár í innanhússhönnun og eignast miðjubarnið.
Við bjuggum úti í fjögur ár og eignuðumst marga góða vini þar. Að námi loknu stóð til að vera áfram í Hollandi en Agli bauðst gott starf á Íslandi svo við fluttum heim haustið 2001. Hann starfar í dag sem yfirhönnuður hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.“

Njótum útivistar alla daga
„Áhugamál okkar hjóna og störf hafa einkennst af áhuga á fagumhverfi okkar og þróun þess í samfélaginu. Egill hefur starfað mikið við Hönnunarmiðstöð Íslands, Rannís og Listaháskólann en einnig stundað fjölbreytt kórastarf. Ég hef mikinn áhuga á menntamálum, börnum og ungmennum og þaðan er sú þörf sprottin að gera betur hjá þeim sem koma til með að skapa framtíð okkar. Ég er félagi í Rótarýklúbb Mosfellssveitar þar sem áhersla er lögð á mannúðarmál.
Við höfum byggt okkur heimili í Varmadal og þegar maður býr í svona náttúruperlu þá nýtur maður útivistar alla daga í nánd við náttúru og dýr.“

Hóf nám í markþjálfun
„Árið 2001 byrjaði ég að vinna sem leiðbeinandi í Lágafellsskóla, tók við kennslu í 1. bekk og hóf ári síðar nám í Kennaraháskólanum þaðan sem ég svo útskrifaðist sem grunnskólakennari.
Ég hef verið umsjónarkennari í nær öllum árgöngum ásamt því að vera deildarstjóri yngsta stigs um árabil. Undanfarin ár hef ég þróað lífsleiknikennslu á unglingastigi og kennt það af miklum áhuga.
Ég ákvað að bæta við mig þekkingu og hóf nám í markþjálfun sem ég lauk fyrir um ári síðan. Sú ákvörðun var afar farsæl fyrir mig sem manneskju og sem kennara. Í kjölfar námsins fékk ég styrk frá Sprotasjóði til að búa til kennsluáætlun í markmiðasetningu fyrir unglinga og bauð svo nemendum upp á að taka þetta í vali á síðustu önn.“

Tækifæri til að öðlast aukna ábyrgð
Kveikjan að því að sækja um þennan styrk var sú að ég sem lífsleiknikennari hef lengi talið vanta að ungmennum sé boðið upp á að læra að setja sér markmið. Mig langaði að þróa valáfanga sem gæfi nemendum tækifæri til að öðlast aukna ábyrgð með því að fara inn á við, kynnast sjálfum sér, skoða eigin styrkleika og áhugasvið og út frá því að gera það að vana sínum að setja sér sín eigin markmið.
Ég kenndi tveimur hópum af unglingum markmiðasetningu á vorönn og það var afar notalegt að finna að ánægjan með áfangann var mikil. Ég fékk tölvupósta frá foreldrum sem tjáðu mér ánægju sína með námið og sögðust sjá mikla og jákvæða breytingu á unglingnum sínum.
Það er einmitt svona uppskera sem gleður mann svo mikið þegar maður leggur sig fram um að sá, að ná árangri er svo hollt og hvetjandi.“

Kominn tími á breytingar
„Alla mína starfsævi hef ég starfað í Mosfellsbæ og í sumar ákvað ég að það væri kominn tími á breytingar. Ég sótti um starf deildarstjóra eldra stigs við Álfhólsskóla í Kópavogi sem ég fékk. Þar mun ég takast á við mörg ný og krefjandi verkefni, m.a. spjaldtölvuvæðingu. Ég mun líka koma að lífsleiknikennslu og markmiðasetningu.
Ég er einnig að undirbúa almenn námskeið í markmiðasetningu svipað því sem ég bauð upp á í Lágafellsskóla. Ég stefni á að byrja með fyrsta námskeiðið strax á nýju ári. Það verður áhugavert og skemmtilegt að breiða út boðskapinn,“ segir Beta með bros á vör er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 23. ágúst 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Mosfellingar bjóða heim – Í túninu heima

Íbúar Mosfellsbæjar gera sig klára fyrir bæjarhátíðina. Bænum er skipt upp í fjóra liti, rauðan, gulan, bleikan og bláan.

Íbúar Mosfellsbæjar gera sig klára fyrir bæjarhátíðina. Bænum er skipt upp í fjóra liti, rauðan, gulan, bleikan og bláan.

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin um helgina. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Boðið verður upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Tindahlaupið festir sig í sessi
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og íþróttatengdir viðburðir eru nokkrir. Til dæmis er hægt að nefna Tindahlaup Mosfellsbæjar sem er samstarfsverkefni bæjarins og Björgunarsveitarinnar Kyndils. Í fyrra var metþátttaka eða um 120 hlauparar. Boðið er upp á fjórar vegalengdir og er enn stefnt að því að fjölga þátttakendum. Lagt er upp úr því að hafa umgjörðina veglega og markmiðið er að hlaupið verði eitt af vinsælustu náttúrhlaupum ársins. Fellin í kringum Mosfellsbæ, nálægðin við náttúru og þéttbýli gera hlaupið einstakt og aðlaðandi fyrir hlaupara, bæði byrjendur og lengra komna. Hlaupið er hluti af þríþraut sem nefnist Íslandsgarpurinn.

Fjölbreytt dagskrá að Varmá
Kjúklingafestivalið er komið til að vera en því hefur verið vel tekið af gestum hátíðarinnar. Þar koma saman allir helstu kjúklingaframleiðendur landsins og bjóða upp á framleiðslu sína. Auk þess selja þekktir veitingastaðir smáskammta. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun á svæðinu fyrir alla fjölskylduna.

Mosfellingar bjóða heim
Sérstaða bæjarhátíðarinnar í Mosfellsbæ felst í boði Mosfellinga í garðana sína. Víða er boðið upp á metnaðarfulla dagskrá og landsfræga listamenn í einstöku umhverfi. Nemendafélag FMOS býður upp á vöfflu­kaffi í Framhaldsskólanum og rennur ágóðinn til Reykjadals.

Tökum þátt
Mosfellsbær vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg við að gera Í túninu heima að þeirri stóru hátíðarhelgi sem hún er orðin ár hvert. Verum stolt af bænum okkar og njótum samverunnar um helgina.
Sérstakt hátíðarlag hefur nú verið gefið út en það er eftir þær Sigrúnu Harðardóttur og Agnesi Wild úr Leikfélagi Mosfellssveitar. Þær hafa fengið stórskotalið Mosfellinga með sér í lið og glæsilegt myndband hefur litið dagsins ljós.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2016 (pdf)

 

Stórskotalið Mosfellinga tekur þátt í hátíðarlagi

ituninuheimalag

Sigrún Harðardóttir og Agnes Wild eru höfundar lags og texta.

Sigrún Harðardóttir og Agnes Wild eru höfundar lags og texta.

Vinkonurnar Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir hafa samið og gefið út hátíðarlagið Í túninu heima. Þær eru gamlar vinkonur úr Mosó og hafa unnið saman í tónlist og leiklist síðan þær voru 13 ára.
Agnes lærði leiklist og leikstjórn í London og Sigrún lærði tónlist og fiðluleik í Bandaríkjunum. Báðar hafa þær mikið komið við sögu í Leikfélagi Mosfellssveitar auk þess sem þær bralla heilmikið með sviðslistahópnum þeirra, Miðnætti.
Lagið hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur en það fór í loftið í byrjun vikunnar.

Tónlistarmyndband í loftið
„Lagið varð til seint að kvöldi fyrir um ári síðan þar sem við vorum að æfa leikritið „Út úr hól“ sem er byggt á íslenskum þjóðsögum og var sýnt á bæjarhátíðinni,“ segja þær stöllur. „Okkur langaði að vekja athygli á sýningunni svo að fólk kæmi að sjá hana. Við sungum lagið inn seint um kvöld og hentum því á Facebook, en sólarhring síðar vorum um 5.000 manns búnir að horfa á myndbandið.“
„Svo fóru hjólin að snúast og nú ári seinna höfum við tekið lagið upp og gert tónlistarmyndband í samstarfi við Mosfellsbæ og fjölda frábærra listamanna og bæjarbúa. Arnór Sigurðarson upptökustjóri og Ágúst Elí Ásgeirsson kvikmyndagerðamaður unnu með okkur frábært starf, sem og allir söngvararnir og leikararnir, en um 100 manns tóku þátt í verkefninu.“

Hátíðarlag með gítargripum

 

Í túninu heima

Lag: Sigrún Harðardóttir, texti: Agnes Wild

Er sumrinu lýkur þá sjáum við sólina minna.
Ég fyllist af þreytu og skríð síðan beint uppí ból.
Hausinn legg ég á koddann minn
og hugsa‘ um næsta dag.
Var næstum búin/nn að gleyma – Í túninu heima!

Ég vakna um morgun og maginn
er fullur af spennu.
Ég skreyti allt húsið og keppnina vinna skal.
Klæðist í hverfa litinn minn, þetta byrjar allt í dag.
Er mig kannski að dreyma? – Í túninu heima!

Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
en hann lifnar alltaf við í túninu heima.
Barabbabararara, barabbabarara
Ég ætla alls ekki’ að gleyma – Í túninu heima!

Gunna á móti er búin að taka út grillið.
Ég háma‘ í mig pylsu og skunda í brekkusöng.
Hitti góða kunningja og kannski gamlan séns.
Um sveitina ég sveima – Í túninu heima!

Í gulu og rauðu og bleiku og bláu er bærinn.
Nú gleðjumst við saman og allir í góðum gír.
Í öllum regnbogalitunum og til í hátíðarhöld.
Hey, þarna er köttur að breima! – Í túninu heima!

Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
En hann lifnar alltaf við í túninu heima.

Kjúklingahátíð og tónlist úr görðunum ómar.
Klæðum okkur upp og kíkjum á sveitaball.
Fjölskyldur gleðjast saman hér á miðbæjartorginu.
Allir í bæinn streyma! – Í túninu heima!

Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
en hann lifnar alltaf við í túninu heima.
Barabbabararara, barabbabarara
Ég ætla alls ekki’ að gleyma – Í túninu heima!

Barabbabararara, barabbabarara
Því að bærinn lifnar alltaf við,
já ég hlakka allt of mikið til
og ég ætla‘ alls ekki að gleyma í túninu heima.

 

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2016 (pdf)

Dagskrá bæjarhátíðarinnar

tunid_cover

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 26.-28. ágúst. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Boðið er upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2016 (pdf)

 

MIÐVIKUDAGUR 24. ÁGÚST

20:00 – 22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga.
Fram koma: Úlfur Úlfur, Sprite Zero Klan og DJ Anton Kroyer. Aðgangseyrir: 800 kr.

 

FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST

BÆJARBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

09:00-16:00 HLÍÐAVÖLLUR – UNGLINGAEINVÍGI Í GOLFI
Allir bestu unglingar landsins taka þátt Unglingaeinvíginu í Mosfellsbæ á vegum GM.

17:00-19:00 SKÁTAHEIMILIÐ – HUGREKKI
Samsýning Ástu Gríms, Ástu Bjargar og Andrésar Þórarins á akrýlmyndum og ljósmyndum.

17:00-19:00 LISTASALUR MOSFELLSBÆJAR – SMIÐUR EÐA EKKI
Opnun á sýningunni SMIÐUR EÐA EKKI sem hverfist um ævi og störf Birtu Fróðadóttur innanhússarkitekts og húsgagnasmiðs sem settist að í Mosfellsdal og var fyrsta konan hér á landi menntuð í innanhússarkitektúr. Að sýningunni stendur sonardóttir og alnafna hennar, Birta Fróðadóttir arkitekt.

18:00-21:00 KJARNINN – HERNÁMSSÝNING
Sýning á áhugaverðum munum frá hernámsárunum á Íslandi og þá sérstaklega Mosfellsbæ. Til sýnis eru ljósmyndir, fatnaður, dagblöð, bækur og annað sem tengist stríðsárunum í kringum 1939-1945. Minjarnar eru í eigu Tryggva Blumenstein sem hefur safnað þeim frá unga aldri. Sýningin fer fram í gamla húsnæði Íslandsbanka, Þverholti 2.

19:00 – 21:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Tímataka í Wipeoutbrautinni. Aqua Zumba, fjör og gleði. Björgvin Franz og íþróttaálfurinn mæta á svæðið ásamt góðum gestum. DJ Baldur stjórnar tónlistinni.

21:00 STEBBI OG EYFI Í HLÉGARÐI
Stebbi og Eyfi fagna 25 ára afmæli Nínu auk þess sem stiklað verður á stóru í gegnum Eurovision-söguna. Gamanmál og gleðisöngvar úr ýmsum áttum.
Miðasala á www.midi.is.

 

FÖSTUDAGUR 26. ÁGÚST

11:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Opið alla daga 11:00-17:00. Aðgangur 600 kr.

14:00 ARION BANKI
Skólakór Varmárskóla syngur nokkur lög. Bíbí og Blaki verða á svæðinu auk þess sem boðið verður uppá andlitsmálun fyrir börnin.

18:00-21:00 KJARNINN – HERNÁMSSÝNING
Sýning á áhugaverðum munum frá hernámsárunum á Íslandi og þá sérstaklega Mosfellsbæ. Til sýnis eru ljósmyndir, fatnaður, dagblöð, bækur og annað sem tengist stríðsárunum í kringum 1939-1945. Minjarnar eru í eigu Tryggva Blumenstein sem hefur safnað þeim frá unga aldri. Sýningin fer fram í gamla húsnæði Íslandsbanka, Þverholti 2.

19:00-21:00 SKÁTAHEIMILIÐ – HUGREKKI
Samsýning Ástu Gríms, Ástu Bjargar og Andrésar Þórarins á akrýlmyndum og ljósmyndum.

19:30 – 22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR – Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ Í ÁLAFOSSKVOS
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum.
Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar ræsa einn lit af stað í einu.

21:00 – 22:30 Ullarpartý Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, setur hátíðina.
Sveppi og Villi taka lagið.
Hilmar og Gústi stýra brekkusöng.
Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum.

22:15 GRÍNKVÖLD RIDDARANS
Uppistand og lifandi tónlist á Hvíta Riddaranum. Jóhann Alfreð, Ari Eldjárn og Andri Ívars sjá um að kitla hláturtaugarnar. Síðan taka föstudagslögin við með Stebba Jak söngvara Dimmu í fararbroddi. Miðaverð: 3.000 kr. eða 1.500 kr. eftir miðnætti.

 

LAUGARDAGUR 27. ÁGÚST

•  Frítt í leið 15 í strætó allan daginn  •  Frítt í Varmárlaug og Lágafellslaug í dag

8:00 – 18:00 MOSFELLSBAKARÍ
Mosfellsbakarí er með opið lengur í tilefni af bæjarhátíðinni. Múffur í hverfislitunum og skúffukökubitar, þessir gömlu góðu með súkkulaði á köntunum.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. 7. og 8. flokkur karla og kvenna.

9:00 – 16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

9:30 KETTLEBELLS ICELAND – ENGJAVEGUR 12
Opin Ketilbjölluæfing fyrir hrausta Mosfellinga. Gengið með ketilbjöllur upp á Reykjafell þar sem æfing verður tekin á toppnum. Lagt af stað frá Engjavegi.

9:30 – 11:00 WORLD CLASS – MOSFELLSBÆ
World Class Mosfellsbæ. Tökum á því í hverfislitunum- 3 skemmtilegir og fjölbreyttir 30 mín. tímar í boði. Þorbjörg og Unnur halda uppi stuði, puði og stemningu.
Allir að sjálfsögðu hvattir til að mæta í sínum hverfislit. Tabata kl. 9:30 – Þorbjörg, Fight FX kl. 10:00 – Unnur og Fit Pilates kl. 10:30 – Unnur.

10:00 – 16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Úrslit í sultukeppni kl. 15:00.

11:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Hafdís Huld og Alisdair Wright syngja lög af plötunni Barnavísur kl. 14:00.
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Opið alla daga 11:00-17:00. Aðgangur 600 kr.

11:00-18:00 KJARNINN – HERNÁMSSÝNING
Sýning á áhugaverðum munum frá hernámsárunum á Íslandi og þá sérstaklega Mosfellsbæ. Til sýnis eru ljósmyndir, fatnaður, dagblöð, bækur og annað sem tengist stríðsárunum í kringum 1939-1945. Minjarnar eru í eigu Tryggva Blumenstein sem hefur safnað þeim frá unga aldri. Sýningin fer fram í gamla húsnæði Íslandsbanka, Þverholti 2.

12:00 – 14:00 VARMÁRLAUG – FJÖR Í SUNDLAUGINNI
Koddaslagur á rörinu góða fyrir 10 ára og eldri. Hin sívinsæla Wipeout-braut verður á staðnum. Frítt í laugina og allir fá ís í boði Kjörís.

12:00 – 17:00 WINGS AND WHEELS – FLUGVÖLLURINN Á TUNGUBÖKKUM
Fornvélasýning: Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla.
Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00 – 17:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur á sviði.
Blaðrarar á svæðinu sem gefa börnunum blöðrudýr.
12:00 Álafosskórinn
12:30 Úti-Zumba með Röggu Ragnars
13:00 Mosfellskórinn
13:30 Danshópar frá Dansstúdíói World Class
14:00 Karlakórinn Stefnir
14:30 Óperukór Mosfellsbæjar
15:00 Kammerkór Mosfellsbæjar
15:30 Djasshljómsveitin Pipar úr tónlistardeild Listaskóla Mosfellsbæjar.
16:00 Sirkus Íslands

12.45 – 16.00 SVART OG SYKURLAUST Á RÁS 2
Útvarpsþátturinn Svart og sykurlaust á Rás 2 með Sólmundi Hólm sendur beint út frá bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ.

13:00 GALLERÍ HVIRFILL Í MOSFELLSDAL – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Bjarki Bjarnason les úr væntanlegri bók sinni sem heitir Ljón norðursins og fjallar um Leó Árnason frá Víkum á Skaga.
Kl. 13:45 mætir Kammerkór Mosfells­bæjar og tekur nokkur lög.

13:00 LISTASALUR MOSFELLSBÆJAR – SMIÐUR EÐA EKKI
Í tilefni af bæjarhátíð verður sérstök leiðsögn um sýninguna sem hverfist um ævi og störf Birtu Fróðadóttur innanhússarkitekts og húsgagnasmiðs sem settist að í Mosfellsdal og var fyrsta konan hér á landi menntuð í innanhússarkitektúr. Að sýningunni stendur sonardóttir og alnafna hennar, Birta Fróðadóttir arkitekt.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐRA
FaMos-félagar og aðrir velunnarar velkomnir í heimsókn í aðstöðu félagsstarfsins á Eirhömrum. Fjölbreytt vetrar­dagskrá kynnt. Vorboðarnir taka lagið kl. 13:00.

13:00-17:00 SKÁTAHEIMILIÐ – HUGREKKI
Samsýning Ástu Gríms, Ástu Bjargar og Andrésar Þórarins á akrýlmyndum og ljósmyndum.

13:00 BARNADAGSKRÁ Á TÚNINU VIÐ HLÉGARÐ
Einar Mikael mætir með brot af því besta úr sínum vinsælu töfrasýningum. Sjónhverfingar og ótrúleg töfrabrögð. Sýningin hefst stundvíslega kl. 13:00

13:00 – 16:00 SKOTTMARKAÐUR VIÐ KJARNA
Mosfellingum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr skápum og bílskúrum og bjóða gestum og gangandi til sölu. Einnig er handverksfólk velkomið. Nánari upplýsingar um viðburð á facebook. Skráning hjá Elísabetu S. Ólafsdóttur í síma 898 4412.

13:00 – 24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

14:00 HVÍTI RIDDARINN – ÍSBJÖRNINN
Topplið Hvíta Riddarans tekur á móti Ísbirninum á Varmárvelli.
Liðin leika í 4. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

14:00 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stöllurnar syngja nokkur íslensk og erlend lög í Amsturdam 6 við Reykjalund.

14:00 – 16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL KJÚKLINGARÉTTIR FYRIR ALLA
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Biggi Haralds, loftboltar, uppistand, áskorun í ólympískum lyftingum og Danshópar frá Dansstúdíói World Class sýna dansa.

14:00 – 16:00 ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐIN AÐ VARMÁ – AFTURELDING KYNNIR VETRARSTARFIÐ
Kynning á vetrarstarfi Aftureldingar. Fulltrúar deilda verða á svæðinu og kynna starfsemi sína.
Aftureldingarbúðin verður opin.

14:00 – 17:00 VÖFFLUKAFFI Í FMOS
Nemendafélag Framhaldsskólans Mosfellsbæ verður með vöfflukaffi í skólanum og rennur ágóðinn til Reykjadals þar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumar- og helgardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni.
Óperukór Mosfellsbæjar syngur kl. 15:30.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:30 SÚLUHÖFÐI 16 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Lifandi tónlist og kaffihúsastemning. Ásbjörg Jónsdóttir syngur og spilar ljúfan djass ásamt félögum sínum. Kaffi frá Te & Kaffi + heimabakað bakkelsi verður til sölu og rennur ágóði sölunnar óskiptur til starfs Rauða krossins í Mosfellsbæ.

15:00 – 16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum í boði Hestamannafélagsins Harðar.

15:00 AKURHOLT 21 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Siggi Hansa og fjölskylda bjóða upp á tónleika í Akurholti. Rokk-karlakórinn Stormsveitin, Stefanía Svavars, Jóhannes Freyr Baldursson og djasshljómsveitin Kaffi Groove ásamt fleiri góðum gestum.

16:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Davíð Ólafsson óperusöngvari býður til útitónleika í garðinum heima. Meðal gesta verða Dísella Lárusdóttir, Bragi Jónsson, Gissur Páll Gissurarson, Stefán Helgi Stefánsson, Jónas Þórir Þórisson og fleiri.

16:00 LITLA HAFMEYJAN Í BÆJARLEIKHÚSINU
Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur sem byggður er á ævintýri H.C. Andersen. Miðaverð er 1.000 kr. og miðapantanir fara fram í síma 566-7788.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

16:30 SKÁLAHLÍÐ – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Útitónleikar í garðinum heima. Tríóið Kókos skemmtir í brekkunni fyrir neðan Skálahlíð. Dægurlög sem allir þekkja.

17:00 – 21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins

21:00 – 22:45 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Hljómsveitin Albatross undir tónlistarstjórn Halldórs Fjallabróður leikur ásamt góðum gestum.
– Sverrir Bergmann
– Friðrik Dór
– Matti Matt
– Helgi Björns
– Stórskotalið Mosfellinga flytur hátíðarlagið Í túninu heima

22:45 BJÖRGUNARSVEITIN KYNDILL MEÐ FLUGELDASÝNINGU

23:30 DÚNDURFRÉTTIR MEÐ MIÐNÆTURTÓNLEIKA Í HLÉGARÐI
Hljómsveitin mun flytja bland af því besta í gegnum árin. Að tónleikunum loknum mun Ólafur Páll Gunnarsson Rokklandskóngur þeyta skífum fram á nótt. Miðasala á www.midi.is

23:30 – 04:00 STÓRDANSLEIKUR MEРPÁLI ÓSKARI AÐ VARMÁ

 

SUNNUDAGUR 27. ÁGÚST

8:00 – 18:00 MOSFELLSBAKARÍ
Mosfellsbakarí er með opið lengur í tilefni af bæjarhátíðinni. Múffur í hverfislitunum og skúffukökubitar, þessir gömlu góðu með súkkulaði á köntunum.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. 7. og 8. flokkur karla og kvenna.

11:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Opið alla daga 11:00-17:00. Aðgangur 600 kr.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í MOSFELLSKIRKJU
Helgum lífið, höldum litríka bæjarhátíð, Í túninu heima.
Prestur sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn.

11:00-18:00 KJARNINN – HERNÁMSSÝNING
Sýning á áhugaverðum munum frá hernámsárunum á Íslandi og þá sérstaklega Mosfellsbæ. Til sýnis eru ljósmyndir, fatnaður, dagblöð, bækur og annað sem tengist stríðsárunum í kringum 1939-1945. Minjarnar eru í eigu Tryggva Blumenstein sem hefur safnað þeim frá unga aldri. Sýningin fer fram í gamla húsnæði Íslandsbanka, Þverholti 2.

13:00-16:00 SKÁTAHEIMILIÐ – HUGREKKI
Samsýning Ástu Gríms, Ástu Bjargar og Andrésar Þórarins á akrýlmyndum og ljósmyndum.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
Umhverfisnefnd veitir umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2016.
Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2016.
Heitt á könnunni og allir velkomnir.

16:00 LITLA HAFMEYJAN Í BÆJARLEIKHÚSINU
Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur sem byggður er á ævintýri H.C. Andersen. Miðaverð er 1.000 kr. og miðapantanir fara fram í síma 566-7788.

 

Apótek MOS opnar í Háholti

apotekmos

Þór Sigþórsson lyfsali hefur opnað nýtt apótek í Mosfellsbæ. Apótek MOS er einkarekið og staðsett í Krónuhúsinu í Háholtinu. Apótekið er í björtu og rúmgóðu húsnæði og allt hið glæsilegasta með fjölbreytt vöruúrval. „Hér er kominn mjög öflugur verslunarkjarni og mér fannst því vænlegt að láta slag standa,“ segir Þór sem opnaði dyrnar fyrir viðskiptavinum 29. júlí sl.
„Við höfum fengið mjög góðar móttökur og fólk er greinilega ánægt með þessa viðbót við heilbrigðisþjónustu í bæjarfélaginu. Við erum búin að koma okkur vel fyrir og erum að kynna starfsemina.“
„Mosfellsbær er ört vaxandi sveitarfélag og fer íbúafjöldi brátt yfir 10.000. Almennt eru 4.500 – 5.000 manns á bakvið hvert apótek í öðrum sveitarfélögum og því ætti að vera góður rekstrargrundvöllur fyrir tvö apótek hér í Mosfellsbæ. Eitt af megin­markmiðum okkar er að vera vel samkeppnishæf í verði og þjónustu.“

Nína Hildur Oddsdóttir, Bryndís Birgisdóttir, Þór Sigþórsson og Salvör Þórsdóttir.

Nína Hildur Oddsdóttir, Bryndís Birgisdóttir, Þór Sigþórsson og Salvör Þórsdóttir.

Nýjungar á Íslandi
Þór er ekki allsókunnugur Mosfellsbæ en hann bjó hér um árabil áður en hann fluttist til Noregs og dætur hans báðar búa hér í dag. „Ég hef því miklar taugar til Mosfellsbæjar og finnst gott að vera kominn af stað hér með eigin rekstur.“
„Ég var lyfsöluleyfishafi í þrjú ár í Bergen í Noregi og vann þar fyrir stærstu apótekakeðju Noregs, sem í dag rekur 330 apótek. Í Noregi kynntist ég skandinavíska módelinu sem grundvallast á því að aðgreina afgreiðslu lyfseðilskyldra lyfja frá annarri afgreiðslu, þar með talið lausasölulyfja.”
„Þannig er skipulagið í Apótek MOS frábrugðið öðrum íslenskum apótekum. Við höfum tvær afgreiðslustöðvar fyrir lyfseðla, þar sem við lyfjafræðingarnir afgreiðum viðskiptavininn beint frá móttöku lyfseðils til afhendingar lyfja og síðan er afgreiðslukassi við útgang apóteksins fyrir aðra afgreiðslu. Með þessu leitumst við við að tryggja friðhelgi viðskiptavinarins, þannig að þeir sem koma til að kaupa lausasölulyf eða aðra vöru eftir atvikum eru ekki afgreiddir við hlið hinna sem eru að sækja lyf samkvæmt lyfseðli. Með þessu fyrirkomulagi verja lyfjafræðingar yfir 90% af starfstíma sínum með viðskiptavinum.”
Við munum leggja okkur fram við að veita persónulega og góða þjónustu og með mér í liði er einungis fagmenntað fólk.

Lengri opnunartími
Þór hefur staðið í fyrirtækjarekstri mest alla tíð. Hann starfaði sem yfirlyfjafræðingur í Laugavegsapóteki um nokkurra ára skeið. Þá gerðist hann forstjóri Lyfjaverslunar ríkisins, síðar Lyfjaverslunar Íslands, og stofnaði síðar sitt eigið fyrirtæki á sviði klínískra lyfjarannsókna áður en hann hélt til Noregs.
„Apótek Mos býður upp á lengri opnunartími en áður hefur tíðkast hér í bæ. Virka daga er opið 09:00-18:30 og um helgar 10:00-16:00. Við stefnum að því að vera vel samkeppnishæf í verðlagningu og þjónustu og tökum vel á móti Mosfellingum,“ segir Þór að lokum. Boðið er upp á ýmis opnunartilboð þessa dagana auk þess sem bæjarbúar fá fría heimsendingarþjónustu.

Ólympíuskrokkar

Heilsumolar_Gaua_23agust

Eitt af því skemmtilegasta við Ólympíuleika er að spá í líkamsbyggingu keppenda. Maður sér litla, stóra, mjóa, breiða, langa, stutta, þétta og þunna skrokka. Allt eftir því í hvaða íþrótt skrokkarnir eru að keppa í. Blakarar eru hávaxnir, körfuboltaspírunar líka. Kastararnir eru þungir og þéttir. Fimleikafólkið vöðvaþrungið. Langhlauparar vöðvarýrir. Hver íþróttagrein á sinn uppáhaldsvöxt. Það er frábært. Það er virkilega gaman að sjá að allir þessir ólíku skrokkar og líkamsbyggingar hafi fundið íþróttagrein við hæfi. Þetta er eitthvað sem við, sem erum ekki keppendur á Ólympíuleikum, getum lært af. Við höldum nefnilega mörg að við getum breytt okkur, sama hvaða líkamsbyggingu við höfum, í einhvern annan. Bara ef við æfum eins og viðkomandi.

Ég, sem er rétt tæplega 1.80 cm á hæð og með létta líkamsbyggingu, get auðveldlega selt mér þá hugmynd að ef ég æfi og borða eins og Usain Bolt, þá geti ég orðið frábær spretthlaupari. Nánast eins hraður og hann. Ég þurfi bara að komast yfir æfingaplanið hans og borða yams í morgunmat eins og menn gera á Jamaica. Þangað til ég skoða og ber saman líkamana sem við fengum í vöggugjöf. Usain Bolt er 1.95 cm og rúmleg 25 kg þyngri en ég – af vöðvum. Hann hefur forskot og sama hvað ég æfi mikið og borða mikið yams, þá verð ég aldrei 15 cm hærri og 25 kg þyngri af vöðvum.

Ég hef hinsvegar fína líkamsbyggingu í að klifra og gera ýmsar líkamsæfingar sem þyngri skrokkar eiga erfitt með. Þar hef ég forskot. Skilaboðin með þessum samanburði á mér og Bolt eru þessi: Pældu í líkamsbyggingunni þinni. Vertu sáttur við hana og nýttu þér styrkleika þína. Þeir eru þarna. Þú þarft bara að uppgötva þá, vera þakklátur fyrir þá og rækta þá. Hver veit, hugsanlega kemstu á Ólympíuleikana ef þú finnur rétta sportið fyrir þína líkamsbyggingu.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. ágúst 2016

Lét æskudraum sinn rætast

HlífMosfellingur

Hlíf Ragnarsdóttir hefur margra ára reynslu sem hársnyrtimeistari en hún rak áður hárgreiðslustofu í Þorlákshöfn. Árið 2013 færði hún sig um set og opnaði stofu í Mosfellsbæ. Hún segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun því hér finnst henni gott að vera og hún er þakklát bæjarbúum sem hafa tekið vel á móti henni.

Hlíf er fædd í Vestmannaeyjum 5. ágúst 1967. Foreldrar hennar eru þau Anna Jóhannsdóttir húsmóðir og Ragnar Þór Baldvinsson fyrrverandi slökkviðliðsstjóri. Systkini Hlífar eru þau Jóhann Freyr, Þórunn og Ragna.

Taldi víst að pabbi myndi slökkva í þessu
„Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Ég var á sjötta ári þegar það byrjaði að gjósa í Eyjum og mínar æskuminningar tengjast því flestar gosinu.
Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar foreldrar mínir vöktu mig og bróður minn þessa örlagaríku nótt. Þau klæddu okkur systkinin og sýndu okkur svo út um stofugluggann það sem blasti við.
Pabbi var í slökkviliðinu og þess vegna varð ég ekkert óttaslegin, taldi víst að pabbi myndi bara slökkva í þessu. Ég átti erfitt með að skilja að við þyrftum að fara niður á bryggju í bát sem átti að flytja okkur til Þorlákshafnar.“

Var svakalega sjóveik þessa nótt
„Það var þéttsetið í hverjum bát. Okkur fjölskyldunni var komið fyrir í klefa og var okkur börnunum gert að deila kojum en mæðurnar sátu á stólum.
Reglulega kom maður inn sem tæmdi jólakökuformin sem við ældum í. Ég var alveg svakalega sjóveik þessa nótt og hefur það því miður fylgt mér fram á fullorðinsár. Pabbi kom með í bátnum til Þorlákshafnar en sigldi síðan strax aftur til Eyja þar sem hann vann við björgunarstörf.
Fyrst um sinn bjuggum við hjá ömmu og afa því við vorum allslaus en mamma lét okkur aldrei finna fyrir því. Seinna leigðu foreldrar mínir íbúð í Laugardalnum. Ég þekkti pabba ekki í eitt skiptið þegar hann kom upp á land, hann var alskeggjaður enda enginn tími til að hugsa um útlitið á hamfaratímum.“

Fluttu í Mosfellssveit
„Á meðan gosið stóð yfir var óljóst hvort við gætum flutt aftur til Eyja. Foreldrar mínir keyptu því lóð við Arnartanga í Mosfellssveit. Amma mín og afi, Þórunn og Baldvin, byggðu sér hús í sömu götu. Það leið ekki langur tími þangað til það kom í ljós að við gátum flutt aftur heim, húsið okkar fór ekki undir hraun.
Ég fór á hverju sumri til afa og ömmu í Mosó. Mér fannst það alveg dásamlegt því í minningunni var alltaf svo gott veður og gróðurinn svo fallegur. Þetta voru mínar utanlandsferðir í æsku.“

Ákváðum að prófa hvor á annarri
„Eftir gos eignaðist ég góða vinkonu sem bjó í næsta húsi. Við áttum sameiginlegan draum, við ætluðum að verða hárgreiðslukonur þegar við yrðum stórar.
Við ákváðum að prófa okkur áfram hvor á annarri. Hún var með ákaflega fallegt ljóst og liðað hár. Við ákváðum að hún myndi fyrst spreyta sig á mér og var ég orðin vel stuttklippt þegar mamma kom að okkur. Ég missti því af tækifærinu að klippa ljósu lokkana hennar.
Í dag erum við báðar lærðar í faginu og því ekkert að óttast að setjast í stól hjá okkur,“ segir Hlíf kímin.

Erfitt að ná endum saman
„Eftir grunnskóla hóf ég sem sagt nám í háriðn. Ég flutti upp á land til afa og ömmu og komst á samning hjá Hársporti Díönu í Þverholti. Mér leið vel í sveitinni, afi vann þá sem húsvörður í íþróttahúsinu og ég var oft samferða honum á morgnana og byrjaði daginn á sundspretti í Varmárlaug.
Nemalaunin voru léleg og það var erfitt að ná endum saman svo með náminu vann ég á vídeóleigu. Ég leigði mér síðar herbergi í Breiðholti.
Þegar námi mínu var að ljúka keypti Ingibjörg Jónsdóttir Hársport og breytti nafninu í Pílus, ég starfaði hjá henni um tíma.“

Klæddi mig í betri fötin
„Þegar ég var búin með námið langaði mig svakalega til að eignast mína eigin hárgreiðslustofu. Í Eyjum voru margar stofur og ég þorði ekki í eigin rekstur þar.
Ég sá tækifæri í Þorlákshöfn, þar var engin stofa. Ég klæddi mig í betri fötin, pantaði viðtal hjá bankastjóranum og bað um lán. Mér er það óskiljanlegt hvernig honum datt í hug að lána þessari tvítugu stúlku peninga en hann sá aumur á mér og lánið dugði til að opna stofuna. Ég rak hana síðan í yfir 20 ár.“

Kynntust á Hótel Örk
„Í Þorlákshöfn leið mér vel, ég vann mikið og um tíma rak ég einnig stofu á Hótel Örk. Þar kynntist ég Stefáni sem síðar varð eiginmaður minn. Þetta var árið 1992. Fyrir átti ég ársgamla dóttur, Önnu Mjöll og hann ársgamlan dreng, Birgi Frey.
Stefán flutti til mín til Þorlákshafnar og við giftum okkur 5. ágúst 1997. Stefán er viðskiptafræðingur að mennt og starfar í Umhverfis-og auðlindaráðuneytinu. Árið 1999 stækkaði fjölskyldan þegar við Stefán eignuðumst stúlku, hana Elínu Perlu.“

Fór langt út fyrir þægindarammann
„Anna Mjöll hóf nám í Reykjavík og var keyrð á morgnana til Hveragerðis til að taka rútu í bæinn og svo sótt aftur. Eftir nokkur ár í þessari rútínu ákváðum við að nú væri tímabært að flytja nær höfuðborginni. Ég hóf störf sem sölustjóri hjá heildverslun sem þjónustaði hárgreiðslustofur á landinu. Ég fór langt út fyrir minn þæginda­ramma en lærði um leið ákaflega margt.“

Sé ekki eftir neinu
„Á þessum tíma sótti ég nám til viðurkennds bókara í Háskóla Íslands og hafði gaman af en mig langaði í hárgreiðsluna aftur. Ég fór markvisst að leita mér að stofu til kaups og fann eina í Mosfellsbæ, Texture. Ég ákvað að stökkva á þetta tækifæri og sé ekki eftir því. Ég breytti nafninu í Hárnýjung hárstúdíó enda hefur það nafn fylgt mér nánast alla tíð.
Við erum þrjár sem vinnum á stofunni og okkur hefur verið afar vel tekið hér. Svo hefur Arna Eir snyrtifræðingur opnað aðstöðu hjá okkur en hún rekur Snyrtistofuna Eir snyrtihof. Samstarf okkar allra gengur ákaflega vel og við eigum okkar föstu viðskiptavini.“

Ítalía í uppáhaldi
„Við Stefán erum ákaflega lánsöm í leik og starfi. Börnin okkar eru öll í námi og þeim gengur vel. Við eigum tvö barnabörn.
Helstu áhugamál mín eru göngur, mat­seld, ferðalög og samvera með fjölskyldunni. Ítalía er uppáhaldsland fjölskyldunnar og við stefnum á að fara í góða ferð þangað á næsta ári og njóta lífsins.“

Mosfellingurinn 23. júní 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Ísak Snær á leið í atvinnumennsku

Ísak Snær ásamt foreldrum sínum og tvíburasystrum.

Ísak Snær ásamt foreldrum sínum og tvíburasystrum.

Hin ungi og efnilegi knattspyrnumaður Ísak Snær Þorvaldsson flytur nú í júnímánuði til Norwich ásamt fjölskyldu sinni.
Ísak er 15 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril með Aftureldingu. Hann er sonur hjónanna Þorvaldar Ásgeirssonar og Evu Hrannar Jónsdóttur.
„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri, ég mun æfa og keppa með U16 og U18 liðum Norwich,“ segir Ísak. „Þetta byrjaði þannig að þeir buðu mér í gegnum umboðsmanninn minn að koma á reynslu hjá þeim í apríl 2015. Síðan þá hef ég farið fjórum sinnum til þeirra og æft með félaginu auk þess að taka þátt í Rey Cup með þeim í fyrrasumar.“

Draumur að verða atvinnumaður
„Þetta er mikið tækifæri fyrir Ísak sem hefur lengi stefnt að því að verða atvinnumaður í fótbolta. Við fjölskyldan lítum líka á þetta sem ævintýri og erum ákveðin í að njóta þess,“ segir Þorvaldur. „Ísak byrjar á því að fara í einkaskóla þar sem hann mun klára 10. bekk en í framhaldinu verður hann svo alfarið í akademíunni hjá þeim þegar hann hefur náð 16 ára aldri.
Við komum til með að búa í nágrenni við æfingasvæði, okkur líst mjög vel á þessa borg og það hefur verið einstaklega vel tekið á móti okkur.“
Þeir feðgar eru sammála um að Norwich sé góður klúbbur, frábærir þjálfarar og góður andi meðal strákanna. „Þetta er búið að vera draumur hjá mér lengi og aðalmarkmiðið hjá mér núna er að hafa gaman af þessu og njóta en að sjálfsögðu að gera mitt besta,“ segir Ísak að lokum.

Söfnuðu sér fyrir sumar­búðum í Bandaríkjunum

bmx

Fyrir um ári síðan ákváðu fjórir strákar úr Mosó að reyna að komast inn í BMX sumar­búðir til Bandaríkjanna. Þetta eru þeir Guðgeir, Hlynur, Kristján og Tjörvi.
Fóru þeir af stað með söfnun og gengu í hús í Mosfellsbæ. Þeir söfnuðu dósum, seldu klósettpappír og sælgæti.
Ferðin varð svo að veruleika strax eftir skólaslitin í vor. Flogið var til New York og þaðan farið til Woodward í Pennsylvaníu.
Í Woodward er aðstaða til BMX iðkunar eins og best verður á kosið. Strákarnir fengu góða kennslu, eignuðust fullt af nýjum vinum og nutu lífsins í botn. Þeir vilja koma á framfæri kærum þökkum til allra Mosfellinga sem tóku vel á móti þeim í vetur, keyptu af þeim varning eða gáfu dósir. Og auðvitað þeim sem styrktu með öðrum hætti.
Um leið vilja þeir skora á bæjarstjórn Mosfellsbæjar að setja upp góða aðstöðu í bænum til BMX iðkunar.

Áfram Ísland!

heilsumolar_gaua_23juni

Fátt er betra fyrir heilsuna en samvera með jákvæðu fólki. Á sama hátt og fátt er verra fyrir heilsuna en mikil samvera með leiðinlegu fólki. Ég fór í þriggja daga æfingaferð með frábæru fólki núna í júní. Það gaf mér mikið, bæði líkamlega og andlega, og ég kom endurnærður heim.

Þessi ferð var tilraunaferð. Hugmyndin var að tengja saman fjölbreyttar æfingar, útiveru, gott veður (pantað með löngum fyrirvara), lifandi landslag, jákvætt fólk, góðan mat og hæfilegar áskoranir af ýmsu tagi. Mér fannst þetta takast frábærlega og hlakka mikið til næstu ferðar.

Íslendingar eru að upplagi jákvætt fólk. Okkur líður best þegar við getum sameinast um eitthvað skemmtilegt og spennandi. EM í fótbolta er skýrt dæmi. Stór hluti þjóðarinnar fór til Frakklands og allar fréttir af okkar fólki eru jákvæðar. Enginn með vesen, allir brosandi og kátir, að njóta þess að vera til. Þetta smitar út frá sér til okkar sem erum heima. Við samgleðjumst með þeim sem eru úti og fjarstyðjum strákana til dáða.

Það hlustar enginn á Útvarp Sögu þessar vikurnar og enginn nennir að velta sér upp úr lúalegum kosningabrögðum, það tekur enginn eftir þeim þannig að menn geta alveg eins hætt að reyna. Ég legg til að við höldum fast í þessa jákvæðni að EM loknu. Pössum okkur á að detta ekki í neikvæðu gildrurnar þegar þær laumast upp að okkur. Pössum okkur á neikvæða fólkinu. Þeim fáu sem þrífast best í eymd og volæði og engjast um eins og ormar á öngli þegar allir jákvæðu EM straumarnir fljóta á milli Íslendinga.

Við höfum margt að vera þakklátir fyrir, Íslendingar, landið, miðin, tækifærin, hvert annað. Því jákvæðari sem við erum í hugsun og samskiptum, því lengra komumst við í því sem við fáumst við í okkar daglega lífi. Og því betur líður okkur öllum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. júní 2016

Möguleikar á byggingu gagnavers

gagnaver

Síminn hf. hefur óskað eftir því að skipulögð verði lóð fyrir gagnaver í landi Sólheima við Hólmsheiði. Óskað er eftir 5.000 fm lóð til uppbyggingar í fyrsta áfanga með möguleika á stækkun.
Fjallað hefur verið um málið í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar og í kjölfarið hefur bæjarráð falið bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa að vinna áfram að málinu.

Staðsetningin vandlega valin
„Gagnaver hafa verið talin grænn iðnaður og að mínu mati ætti því að vera sjálfsagt að kanna möguleika á þessari uppbyggingu nánar. Staðsetningin er valin með tilliti til þess að rafmagn er aðgengilegt og spennistöð er staðsett á Geithálsi. Allar hugmyndir um uppbyggingu inni á öryggissvæði vatnsverndar lúta að því að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir ef til framkvæmda kemur,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Opið óbyggt svæði
Landspildan sem um ræðir heitir Sólheimaland og er eigu Mosfellsbæjar. Spildan er nokkuð stór eða í heildina um 28,2 ha en einungis er verið að óska eftir hluta af því.
Landið liggur í um 100-130 metra hæð yfir sjávarmáli við Nesjavallaveg, gegnt nýja fangelsinu á Hólmsheiði. Um er að ræða opið óbyggt svæði samkvæmt núgildandi aðalskipulagi og því ljóst að samkvæmt skipulagsákvæðum þyrfti að breyta aðalskipulagi verði þessar hugmyndir að veruleika.

Færðu hælisleitendum reiðhjól

arnarholt

Rauði krossinn í Mosfellsbæ hefur fært hælisleitendum í Arnarholti á Kjalarnesi fimm reiðhjól ásamt hjálmum og lásum.
Deildin stóð fyrir hjólasöfnun og færir fólki bestu þakkir fyrir hjálpina og sérstaklega Barnaheillum sem útveguðu nokkur hjól. Byko gaf svo myndarlegan afslátt á hjálmum og fylgihlutum.
„Það er okkar von að með komu hjólanna verði auðveldara fyrir þá að fara ferða sinna því það er rúmur hálftíma gangur að næsta strætóskýli eða yfir höfuð í einhverja þjónustu og enn lengra til dæmis í sund,“ segir Hulda M. Rútsdóttir verkefnastjóri Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Stefnt er að því að fara með fleiri hjól til þeirra fljótlega ef vel gengur.
Í Arnarholti eru á fjórða tug manna á aldrinum 20-50 ára sem bíða þess að hælisumsóknir þeirra verði teknar fyrir. Þeir hafa lítið við að vera og fara margir hverjir daglega til Reykjavíkur.

Bæting á samgöngum hafi góð áhrif
„Rauði krossinn í Mosfellsbæ þjónar Kjalarnesi og Kjós og eftir að við komumst að tilveru þeirra þarna og skoðuðum aðstæður, fórum við að velta fyrir okkur hvað við gætum gert til að aðstoða þá. Augljósast var að bæting á samgöngum hefði góð áhrif,“ segir Hulda.
Hælisleitendur mega ekki afla tekna á meðan umsókn þeirra er tekin fyrir en mega sinna sjálfboðnu starfi. Hulda bendir á að það vanti vinnufúsar hendur í fataflokkun RKÍ í Skútuvogi.
„Það væri vel þegið ef einhverjir hafa tök á því að taka þrjá til fjóra menn með í bæinn frá Arnarholti á morgnana endrum og eins. Þar gefst upplagt tækifæri til að spjalla og kynnast þeim betur í bílferðinni,“ segir Hulda (hulda@redcross.is).

Rokkum á ósamstæðum sokkum

sigrun

Sigrún Guðlaugardóttir er vel kunnug fjölbreytileikanum. Hún er hvatamanneskjan að viðburðinum Rokkum á sokkum sem fer fram föstudaginn 10. júní nk.
Þann dag hvetur hún alla til að ganga í ósamstæðum sokkum til að vekja athygli á fjölbreytileikanum í hvaða formi sem hann er. Allir geta tekið þátt á þeim forsendum sem standa þeim næst hvort sem það eru málefni fatlaðra, kynhneigð, trúarbrögð, sjúkdómar eða eitthvað annað.

Sigrún er fædd 21. apríl 1986 og hefur alla tíð búið í Mosfellsbæ. Foreldrar hennar eru þau Guðlaug Gísladóttir og Hjörtur Sveinn Grétarsson. Sigrún á fimm systkini, Gísla Pál, Eygló Svövu, Ólafíu Mjöll, Grétar Snæ og Kristrúnu Ósk.
„Ég og bróðir minn, Grétar Snær, ólumst upp saman hjá móður okkar. Grétar er með Asperger-heilkenni og að fá að alast upp með honum held ég að sé stóri þátturinn sem hefur mótað mig í þá manneskju sem ég er í dag.
Fjölskylda mín er náin og við búum flest í Mosfellsbæ. Það er líka ómetanlegt að hafa afa og ömmu hér innan seilingar.“

Ögrandi hormónasprengja
„Ég gekk í Varmárskóla og síðan Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Ég var alltaf sterkur námsmaður en þvældist oft fyrir sjálfri mér. Alla mína skólagöngu hlustaði mamma á sömu rulluna í kennurunum, hún stendur sig vel í námi en talar ósköp mikið.
Ég var virk í félagsstarfi, söng meðal annars fyrir hönd Bólsins í Söngkeppni félagsmiðstöðvanna og svo lék ég knattspyrnu með Aftureldingu frá 6-15 ára aldurs.
Ég varð holdgervingur unglingaveikinnar, skapstór ögrandi hormónasprengja. Ég skil ekki enn í dag hvernig mamma hélt geðheilsunni. Ég róaðist nú fyrir rest og gerði tilraun til stúdentsnáms en lauk ekki náminu.“

Hjarta mitt er í Mosfellsbænum
„Þegar ég hélt út á vinnumarkaðinn þá fór ég að vinna á Hlein við Reykjalund. Það var þar sem ég áttaði mig á að ég vildi vinna með fólk. Ég lærði hvernig litlir hlutir geta verið gríðarlega stórir sigrar.
Árið 2007 flutti ég á Höfn í Hornafirði, ég var búin að fá starf í grunnskólanum sem stuðningsfulltrúi. Mig langaði líka til þess að vera nær Ólafíu Mjöll systur minni en við höfum alla tíð verið nánar. Ég bjó á Höfn í hálft ár og sá þar enn betur styrkleika mína í starfi með einstaklingum með þroska- og hegðunarfrávik.
Höfn er yndislegur staður en hjarta mitt er í Mosfellsbænum og það kallaði mig aftur heim.“

Verð seint þekkt fyrir kvenlegheit
„Frænka mín hvatti mig til að sækja um starf í álverinu á Grundartanga. Ég hóf störf þar í byrjun árs 2008. Karlmenn eru í miklum meirihluta þar og það hentaði mér vel þar sem ég verð seint þekkt fyrir kvenlegheit. Mér fannst æðislegt að vera skítug upp fyrir haus og vinna á stórum þungum tækjum.
Árin 2009 og 2010 voru mér og minni fjölskyldu erfið. Ólafía Mjöll systir fór í aðgerð þar sem mistök áttu sér stað. Á tímabili var mjög tvísýnt um hvort hún myndi lifa af en systir mín er mikil baráttukona og hafði það af. Hún var á Grensás í endurhæfingu í rúmt ár. Ég er óendanlega stolt af systur minni, hún er hetjan mín.“

Gerðist stuðningsforeldri
„Ég hóf störf við Krikaskóla árið 2011 og þar starfa ég sem stuðningsfulltrúi. Í skólanum kynntist ég Ísabellu Eir en hún er með Smith-Magenis-heilkenni (SMS) en á Íslandi eru einungis þrír greindir með heilkennið svo vitað sé. SMS er litningagalli sem veldur miklum svefntruflunum, einstaklega erfiðri hegðun, röskun á mál- og vitsmunaþroska og sjálfsskaði er líka mjög algengur.
Málin þróuðust þannig að ég gerðist stuðningsforeldri fyrir hana árið 2013 þegar hún var rúmlega þriggja ára. Ísabella kemur reglulega til mín í vistun til að hvíla fjölskyldu hennar enda mikil þörf á þar sem heilkennið er þungt í burðum.
Fjölskylda mín hefur tekið Ísabellu opnum örmum og hún fær frá þeim afmælis-og jólagjafir og hún kallar mömmu mína ömmu. Að sama skapi hefur fjölskylda hennar verið mér ótrúlega góð.
Í gegnum dvöl sína hjá mér kynntist Ísabella hundunum mínum en ég á þrjá Labradora og hafa þau samskipti vakið þó nokkra athygli. Samskipti hennar við hundana hafa verið ótrúlega jákvæð og ég stend föst á því að þeir hjálpi gríðarlega við umönnunina á henni.“

Hundarnir eru minn lífsstíll
„Ég hef verið forfallinn hundavitleysingur síðan 2009. Ég ræktaði Labrador-hundana mína með mömmu en hún sér alfarið um ræktunina í dag.
Elsti hundurinn minn, Loki, var heiðraður sem afrekshundur ársins 2015 hjá Hundaræktarfélagi Íslands sem er mikill heiður. Hundarnir eru minn lífsstíll og í gegnum þá hef ég kynnst aragrúa af frábæru fólki með sama áhugamál, þar á meðal kærastanum mínum, Lárusi Eggertssyni.“

Bjó til viðburð á Facebook
„Rokkum á sokkum er viðburður sem ég bjó til á Facebook í fyrra. Hann má að hluta til rekja til hundanna minna og einskærs áhuga þeirra á sokkaáti. Það er ekki hlaupið að því að finna samstæða sokka hér á bæ og ég er því gjarnan í ósamstæðum sokkum og hef gert það að mínum stíl.
Frænka mín sem var í heimsókn hjá mér rak augun í stílinn minn og fór að tala um viðburð sem hafði verið í Svíþjóð. Þar hafði ung stúlka biðlað til fólks að ganga í ósamstæðum sokkum í einn dag til að vekja athygli á því að við erum ekki öll eins. Mér fannst þetta prýðisgóð hugmynd og var viss um að ég gæti platað einhverja af vinum mínum til að taka þátt í svona uppá­komu.“

Litla hugmyndin varð risavaxin
Ég spyr Sigrúnu hvort hún hafi fengið góð viðbrögð. „Já, viðbrögðin voru stjarnfræðilega meiri en ég bjóst nokkurn tímann við. Litla hugmyndin við eldhúsborðið var allt í einu orðin risavaxin og vakti strax athygli fjölmiðla og það var bara gaman að því.
Nú á að endurtaka leikinn þann 10. júní og gaman væri ef fólk tæki mynd og setti við hana #rokkumasokkum og það málefni sem það stendur fyrir. Því fleiri málefni sem koma fram því betur undirstrikum við fjölbreytileikann í samfélaginu.
Við höfum einmitt rætt við börnin í Krikaskóla um að við séum öll ólík en jöfn og það er í raun það sem allir ættu að hafa í huga,“ segir Sigrún brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 2. júní 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Kristófer Fannar gengur til liðs við Aftureldingu

Ásgeir Sveinsson formaður meistara­flokksráðs og Kristófer Fannar handsala samninginn.

Ásgeir Sveinsson formaður meistara­flokksráðs og Kristófer Fannar handsala samninginn.

Markvörðurinn öflugi, Kristófer Fannar Guðmundsson, hefur gengið til liðs við Aftureldingu. Kristófer Fannar er 25 ára Mosfellingur, uppalinn í Aftureldingu. Síðustu fjögur tímabil hefur hann leikið með ÍR og Fram. Kristófer er einn allra besti markvörður á Íslandi í dag og er kominn með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann á því eftir að styrkja hóp meistaraflokks Aftureldingar í handbolta til muna fyrir næstu leiktíð.
Pálmar Pétursson sem hefur verið varamarkvörður Davíðs Svanssonar hjá Aftur­eldingu síðustu tvö ár hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.
Eftir frábæran árangur Aftureldingar í Olísdeildinni tvö ár í röð er ljóst að Mosfellingar ætla að halda áfram að styrkja og efla liðið sitt og verður stefnt að því að keppa um alla titla sem eru í boði á næsta tímabili.
Þá er stefnt að því að styrkja liðið um 1-2 leikmenn í viðbót auk þess sem Elvar Ásgeirsson er tilbúinn í slaginn eftir krossbandsmeiðsli sem héldu honum frá keppni á nýliðnu tímabili.

 

Gunnar Malmquist, Birkir og Gestur.

Gunnar Malmquist, Birkir og Gestur.

Ungir lykilmenn framlengja
Í síðustu viku framlengdu einnig ungir lykilmenn Aftureldingar samninga sína við félagið til þriggja ára.
Þetta eru þeir Gunnar Malmquist Þórsson, Birkir Benediktsson og Gestur Ólafur Ingvarsson.
Þrátt fyrir ungan aldur spila þessir leikmenn stórt hlutverk í toppliði Aftureldingar og er gríðarleg ánægja hjá stjórn og Einari Andra þjálfara með þessa nýju samninga.
Þessir leikmenn tóku miklum framförum og voru lykilmenn í vörn og sókn hjá Aftureldingu í vetur. Þeir áttu frábæra leiki í hinni mögnuðu úrslitakeppninni sem er nýlokið. Það verður því gaman að fylgjast með þessum drengjum halda áfram að vaxa og dafna á næsta tímabili en þar ætla menn sér stóra hluti.

Fyrsta líkamsrækt barnsins

ungbarnasund

Í Mosfellsbæ er boðið uppá ungbarnasund á tveimur stöðum, hjá Snorra Magnússyni á Skáltúni og hjá Ólafi Ágústi Gíslasyni á Reykjalundi.
Þeir Snorri og Óli eru báðir menntaðir íþróttakennarar, Snorri sem er frumkvöðull á þessu sviði hefur verið með ungbarnasund frá árinu 1990 og Óli frá árinu 2001
„Það er talið að ungbarnasund hafi byrjað árið 1962 í Ástralíu en ég vil meina að það hafi byrjað í Mosfellsbæ.
Í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxnes sem fyrst var gefin út 1934-5 er samtalskafli milli Ólafs í Ystadal og Guðnýjar ráðskonunnar frá Útirauðs­mýri. Þar segir Ólafur það kunni að vera sannað að ungbörn geti synt af sjálfsdáðum séu þau sett ofan í vatn. Sem segir okkur það að Halldór vissi ótrúlega margt sem hann lætur svo koma svona fram í bókum sínum,“ segir Snorri.

Eflir líkamlegan og andlegan þroska
Ungbarnasund nýtur mikilla vinsælda hjá foreldrum en helsti tilgangur og markmið með ungbarnasundi er að veita markvissa örvun barna á aldrinum 0-2 ára, aðlagast vatninu, efla líkamlegan og andlegan þroska og þjálfa ósjálfráð viðbrögð.
„Ég kynntist ungbarnasundi fyrst þegar ég fór með strákinn minn í sund til Snorra, en svo lærði ég í Noregi og hef starfað við kennslu á Reykjalundi frá árinu 2001,“ segir Óli Gísla. „Ég segi alltaf að ungbarnasund sé fyrsta líkamsrækt barnsins. Það er heil­mikil örvun sem fer fram bæði fyrir hjartað, lungun og æðakerfið. Æskilegasti aldurinn til að byrja með börn í ungbarnasundi er í kringum þriggja mánaða en það er alveg hægt að byrja bæði með eldri og yngri börn, nálgunin er þá bara öðruvísi.“

Unnið með tengslamyndun og traust
„Það er mjög gaman að fylgjast með börnunum í sundinu en við vinnum með fjölmarga þætti eins og jafnvægi, samhæfingu, eftirtekt og athygli,“ segir Snorri. „Við vinnum mikið með söng og tengslamyndum milli foreldra og barns og ekki síst traust.
Það sem er mikilvægast er vellíðan bæði foreldranna og barnanna í ungbarnasundinu, samveran og félagsskapurinn. Ég veit til þess að í sundlauginni hjá mér hafa myndast góð vináttusambönd. Ég er farin að fá til mín foreldra sem sjálfir voru hjá mér í ungbarnasundi, sem mér finnst mjög skemmtileg staðreynd.“

Slógu í gegn á samnorrænni ráðstefnu
Árið 1994 stofnuðu ungbarnasundkennarar félagið Busla en þar eru þeir Óli og Snorri báðir virkir félagsmenn.
„Það er gaman að segja frá því að annað hvert ár er haldin samnorræn ráðstefna ungbarnasundkennara. Árið 2006 héldum við þessa ráðstefnu hér á landi. Við Snorri töluðum við Ragnheiði Ríkharðs sem þá var bæjastjóri og spurðum hana hvort að Mosfellbær vildi með einhverjum hætti styrkja okkur. Það varð úr að framlag Mosfellsbæjar til þessarar ráðstefnu var að Diddú kom og söng ásamt undirleikara. Við slógum algjörlega í gegn og það er enn verið að tala um þetta atriði,“ segir Óli.