Nýjung í lestri örmerkja í dýrum

anitar

Nýsköpunarfyritækið Anitar er komið langt með þróun á örmerkjalesara til að auðvelda skráningu og utanumhald húsdýra. Lesarinn ber heitið The Bullet og er notaður samhliða snjallsímaforriti.
Með þessari samsetningu á lesaranum og snjallsímaforritum verður hægt að skanna og vinna með upplýsingar um fjölda dýra, svo sem hesta, hunda og svín.

Byggt á eigin reynslu
Mosfellingurinn Karl Már Lárusson er stofnandi Anitar: „Ég var úti í haga að sækja hest og sá þá menn sem voru í erfiðleikum með að finna réttan hest.
Mér þótti fyndið að fylgjast með þessu en karmað bítur mann yfirleitt í bakið og ég rölti í burtu með rangan hest þennan sama dag. Í ljósi reynslunnar ákvað ég að setja saman hóp fólks og reyna að finna einfalda lausn á vandamálinu.“

Hópfjármögnun komin langt
Nú stendur yfir hópfjármögnun á vefsíðunni Kickstarter.com og vonast Karl til að safna 40.000 dollurum svo hægt sé að hefja framleiðslu. Hægt er að styðja við verkefnið og forpanta eintak af örmerkjalesaranum til 8. september.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.anitar.is en Anitar stendur fyrir Ani­mal Intelligent Tag Reader.