Setur upp rokktónleikasýningu

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur í stórræðum þessa dagana ásamt góðum hópi af hæfileikaríku fólk en þau eru að setja á svið tónleikasýningu sem nefnist Halloween Horror Show.
„Þessi hugmynd er búin að blunda lengi í mér. Þegar ég var að vinna með Disney þá kynntist ég því hvernig hægt væri að blanda saman alls konar tilefnum og tónlist. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Halloween og mér hefur fundist vanta alvöru viðburð í kringum hrekkjavökuna á Íslandi. Fólk er í auknum mæli farið að halda Halloweenpartý en nú gefst öllum tækifæri á að koma á alvöru hryllings rokktónleikasýningu,“ segir Greta Salóme sem er framleiðandi sýningarinnar.

Öllu tjaldað til í Háskólabíói
Auk Gretu Salóme koma fram á sýningunni Eyþór Ingi, Salka Sól, Stebbi Jak, Andrea Gylfa, Selma Björns, Sirkus Íslands, Ólafur Egill, stórsveit Todmobile, kór og dansarar.
„Ég myndi segja að þetta sé 70% söngur og 30% dans en við leggjum rosalega mikið í þessa sýningu. Ég fullyrði að þessi tónleikasýning á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Við munum flytja lög eins og Highway to Hell, Zombie, Thriller, lög úr Litlu Hryllingsbúðinni og Rocky Horror og margt fleira.“

Vegleg verðlaun fyrir flottustu búningana
Sýningin verður í Háskólabíó 28. október og á undan verður boðið upp á fordrykk í samstarfi við Partýbúðina með alls kyns ­uppákomum. „Það er sýning kl. 20 en það er eiginlega uppselt á hana þannig að við vorum að bæta við sýningu kl. 22:30 og fer miðasala fram á Tix.is. Ég hvet alla til mæta í búningum en það verða vegleg verðlaun fyrir þá flottustu,“ segir Greta Salóme.