Skutlið

Heilsumolar_Gaua_22agust

Ég hef nokkra síðustu daga farið með sex ára guttann minn í fótboltaskóla Aftureldingar. Við förum viljandi mjög tímalega af stað og ég hef þannig náð dýrmætum mínútum með honum á fótboltavellinum. Þetta eru ekki margar mínútur en ótrúlega gefandi fyrir mig og okkur báða, sérstaklega þegar við náum að gera þetta oft í viku. Við æfum skot á mark, fyrirgjafir og leikum okkur saman þangað til fótboltaskólinn byrjar.

Fólk kvartar oft yfir skutli, að þurfa að skutla krökkunum hingað og þangað. Með því að taka sér meiri tíma, fara annað hvort fyrr af stað eða gefa sér meiri tíma þegar maður sækir krakkana, nær maður í góðar samverustundir með krökkunum þar sem ekkert kemst að nema áhugamálið þeirra. Síminn ekki að trufla, ekki sjónvarpið, ekki vinna eða verkefni.

Ég mæli virkilega með þessu fyrir foreldra, líka og einmitt sérstaklega fyrir þá sem hafa mikið að gera. Að taka sér tíma í svona samverustundir. Þær eru orkugefandi og stresslosandi. Maður fær sömuleiðis meiri innsýn inn í áhugamál barnsins og upplifir betur hvernig andrúmsloftið er á æfingunum þegar maður gefur sér meiri tíma í skutlið og tekur aðeins þátt í áhugamálinu með barninu.

Ekki láta veðrið hafa áhrif. Hásól eða hundslappadrífa, það skiptir ekki máli. Ef barnið þitt getur tekið þátt í áhugamálinu, þá getur þú það líka. Klæða sig bara eftir aðstæðum, flóknara er það ekki.

Ég er líka búinn að skutlast talsvert með eldri bróður þess sex ára í sumar, en hann er líka að æfa fótbolta. Hann kemur sér sjálfur á æfingar og í heimaleiki þannig að skutlið er aðallega í útileikina. Þau skutl hafa líka verið gefandi samverustundir, við fáum tækifæri til að spjalla um leikina, fótbolta almennt og annað sem okkur dettur í hug.
Skilaboðin, tökum skutlinu fagnandi og nýtum það vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. ágúst 2017