Ókeypis bókasafnskort fyrir íbúa

bokasafnokeypis

Haldið er upp á 30 ára afmæli Mosfellsbæjar um þessar mundir. Af því tilefni hefur bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkt að framvegis standi íbúum Mosfellsbæjar til boða ókeypis bókasafnskort.
Markmiðið er að hvetja til lesturs og minna á bókmenntaarf Mosfellsbæjar. Í bænum er öflugt og vel sótt bókasafn sem þjónar bæjarbúum og hefur þróast með bænum í gegnum tíðina. Saga Bókasafns Mosfellsbæjar nær aftur til ársins 1890 með stofnun Lestrarfélags Lágafellssóknar og er saga þess samofin þróun byggðar í Mosfellsbæ.
Ráðist í hönnunarsamkeppni
Tilkynnt var um þessar afmælisgjafir á hátíðardagskrá í Hlégarði sem fram fór á afmælisdaginn 9. ágúst. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri kynnti auk þessa nýjar stefnuáherslur og framtíðarsýn fyrir starfsemi Mosfellsbæjar. Hún verður kynnt nánar fyrir íbúum á næstunni.
Bæjarfulltrúar kynntu einnig að ráðist verði í hönnunarsamkeppni vegna merkinga við bæjarmörk Mosfellsbæjar og keypt leiktæki í Ævintýragarðinn sem er staðsettur í Ullarnesbrekkum. Garðurinn hefur verið í uppbyggingu síðustu 10 ár og var einmitt afmælisgjöf til bæjarins á tuttugu ára afmæli hans. Unnið hefur verið ötullega að gróðursetningu og uppbyggingu síðustu ár. Í Ævintýragarðinum er hundagerði, frisbígolfvöllur, bekkir og stígar og leiktæki fyrir börn.