Opna ævintýralega gjafavöruverslun

evita

Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson opnuðu í byrjun ágúst gjafa- og lífsstílsverslunina Evíta að Háholti 14.
„Evíta er falleg búð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Við erum með fjölbreytta og árstíðbundna gjafavöru og búðin er aldrei eins.
Mikið úrval er hjá okkur af kertum, kertastjökum, luktum og allskyns dúllerí og fínerí fyrir falleg heimili. Svo reynum við alltaf að vera með góð tilboð í gangi,“ segir Ágústa en Evíta hefur verið starfrækt á Selfossi síðustu 7 ár.

Ævintýraleg Evíta
„Evíta er ævintýraleg búð þar sem fólk þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða og njóta. Ég er búin að reka búðina í eitt ár en áður var hún á Selfossi.
Viðskiptavinahópurinn okkar er stór og fjölbreyttur. Við búum hér í Mosfellsbæ og fannst því tilvalið að opna hér og færa okkur nær okkar helsta kúnnahóp. Við flytjum sjálf inn allar vörurnar í Evítu og reynum að bjóða upp á gott og sanngjarnt verð.
Móttökurnar hafa verð hreint úr sagt æðis­legar. Mosfellingar er greinilega glaðir að fá okkur í bæinn, það er búið að vera mikið að gera síðan við opnuðum.“

Kynningarafsláttur af ilmkertum
„Í tilefni af bæjarhátíðinni Í túninu heima ætlum við að vera með sérstakan kynningarafslátt af ilmkertunum okkar. Þetta eru dásamleg kerti og eru afar vinsæl hjá okkur. Við vonumst eftir að sjá sem flesta Mosfellinga á hátíðinni.
Við erum svo ánægð með staðsetninguna á búðinni og hvað plássið er bjart og fallegt, svo ég tali nú ekki um útsýnið úr öllum gluggum,“ segir Ágústa að lokum.
Opnunartími Evítu er alla virka daga kl. 11-18 og kl. 11-16 á laugardögum.