Börn læra mest í gegnum leik

mosfellingurinn_sveinbjorg

Sveinbjörg Davíðsdóttir leikskólastjóri á Hlaðhömrum segir að í leikskólanum sé lögð sérstök áhersla á gæði í samskiptum, með aðaláherslu á virðingu, vináttu og kærleik.

Leikskólinn Hlaðhamrar er elsti leikskóli Mosfellsbæjar. Hann hóf starfsemi sína að Hlaðhömrum þann 8. október 1976, en húsið var áður íbúðarhús. Byggt var við skólann árið 1997 og batnaði þá aðstaðan til muna. Í skólanum eru nú íþróttasalur, listaskáli, eldhús og góð vinnuaðstaða fyrir starfsfólk.
Á Hlaðhömrum ræður Sveinbjörg Davíðs­dóttir ríkjum, en hún tók við leikskólastjórastöðunni árið 2002.

Sveinbjörg Davíðsdóttir er fædd í Reykjavík 9. september 1963. Hún er einkabarn foreldra sinna, þeirra Huldu Kolbrúnar Finnbogadóttur og Davíðs Björns Sigurðssonar. Hulda lést árið 1999.

Yndislegar minningar úr Dalnum
„Ég bjó fyrstu ár ævi minnar í Reykjavík. Við fjölskyldan leigðum litla kjallaraíbúð af frændfólki sem bjó á efri hæðinni. Pabbi sem er húsasmíðameistari hafði hug á að byggja hús fyrir litlu fjölskylduna sína og því var keypt lóð í Mosfellssveit.
Á meðan á byggingu stóð leigðum við risíbúð á Laugabóli í Mosfellsdal. Ég á góðar minningar úr Dalnum, elskaði að leika mér úti í náttúrunni við krakkana.“

Fór sex ára í sveit
„Ég fór alltaf í sveit á sumrin þegar ég var yngri, að Melum í Hrútafirði. Ég byrjaði að fara þegar ég var sex ára og var í tvær vikur.
Þegar ég var 11 ára þá flutti Sigrún Eygló systir pabba á sveitabæ í Borgarfirði. Þá fór ég að fara til hennar og það gerði ég þangað til ég varð 15 ára. Ég á Sigrúnu mikið að þakka, hún hefur kennt mér margt og hefur alltaf stutt mig í gegnum lífið. Við erum bestu vinkonur í dag.“

Vorum reknar úr tíma
„Það var yndislegt að alast upp í Mosfellssveit, hér er gott að vera og ég vil hvergi annars staðar eiga heima.
Ég gekk í Varmárskóla og Klara Klængsdóttir gerði sitt besta til að reyna að kenna mér að lesa og henni tókst það á endanum. Eitt sinn vorum ég og vinkona mín reknar úr tíma fyrir að hlæja of mikið. Þetta var mikill skellur, ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær.
Pabbi fór í það ásamt öðrum að koma af stað handboltadeild innan Aftureldingar. Hann þjálfaði alla flokka á tímabili og hefur oft verið kallaður faðir handboltans í Mosfellsbæ. Ég reyndi fyrir mér í boltanum en það gekk nú því miður ekki eftir,“ segir Sveinbjörg og hlær.

Passaði öll börnin í götunni
„Eftir útskrift úr Gaggó Mos sótti ég um í Fjölbraut í Breiðholti eins og flestar mínar vinkonur. Ég fékk höfnun sem var mikið áfall og var vísað á Kvennaskólann í Reykjavík. Ein vinkona mín sem var í Kvennó var alltaf að læra, það var ekki séns að ná í hana í síma. Ég ætlaði sko ekki í þann pakka.
Í ljós kom að flestum vinkonum mínum var síðan vísað á Kvennó og þangað fórum við. Ég á þeim góða skóla allt að þakka því þar lærði ég að læra.
Á leikskólanum Hlaðhömrum vann ég öll sumur. Þar kviknaði áhugi minn á börnum. Auðvitað hafði ég alltaf haft áhuga á að passa börn enda saknaði ég þess að eiga ekki systkin. Ég held að ég hafi passað öll börnin í götunni á sínum tíma.“

Barnabörnin orðin þrjú
Sveinbjörg á þrjú börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Svani Magnússyni, en þau slitu samvistum árið 2000. Elst barna þeirra er Kolbrún fædd 1981, Davíð Hlíðdal fæddist svo 1985 og yngst er Magnea Rós fædd 1995. Barnabörnin eru þrjú, Gabríel Davíð, Sonja Karen og Viktor Ari.

Mamma hafði mikla ástríðu fyrir börnum
„Árið 1999 lést móðir mín eftir að hafa barist við krabbamein í tvö ár. Þetta er erfiðasta ár sem ég hef upplifað. Ég hélt að það væri ekki hægt að sigrast á þessari sorg, en ég á yndislegan pabba sem hefur stutt mig í blíðu og stríðu. Án hans held ég að ég hefði ekki getað lært að lifa með sorginni.
Mamma var engri lík, hún hafði mikla ástríðu fyrir börnum. Hún starfaði í sundlauginni að Varmá þegar hún lést. Öll börn sem fóru í skólasund muna vel eftir henni enda var hún amma allra barnanna.“

Börn eru skapandi einstaklingar
„Ég útskrifaðist úr Fósturskólanum árið 1985 og fékk starf á leikskólanum Birkibæ.
Vorið 1986 tók ég við deildarstjórastöðu á Leikskólanum Hlaðhömrum og svo við leikskólastjórastöðunni árið 2002.
Leikskólinn starfar í anda Reggio stefnunnar. Hún er að uppruna frá borg í Ítalíu sem nefnist Reggio Emilia. Frumkvöðull þessarar stefnu hét Loris Malaguzzi. Hann sagði að börn hafi 100 mál en frá þeim séu tekin 99, að börn væru skapandi einstaklingar sem búa þarf umhverfi sem hvetur þau til náms.
Barnið lærir með því að kanna, fást við og upplifa.
Til þess að nálgast þessa hugmyndafræði er leikskólinn Hlaðhamrar vel búinn efniviði og aðstöðu s.s. rúmgóðum listaskála. Mikið er notaður verðlaus efniviður til myndlistar og sköpunar.”

Áhersla lögð á gæði í samskiptum
Starfsárinu er skipt í ákveðin þematímabil með ákveðinni yfirskrift sem þó er ekki bindandi því fyrst og fremst er farið eftir áhugasviði barnanna hverju sinni. Sérstök áhersla er lögð á gæði í samskiptum, með aðaláherslu á virðingu, vináttu og kærleik, og svo skapandi starf þar sem tekið er tillit til löngunar barnsins hér og nú og þeim búinn skapandi efniviður og aðstæður í máli og myndum, til leikja sem og í öðru starfi.
Með þessu teljum við að barnið verði skapandi og frjór einstaklingur með hæfni til að velja og hafna í framtíðinni og takast á við formlegra nám síðar meir.
Börn læra best í gegnum leik. Það er mikilvægt að gera leiknum hátt undir höfði og horfa á sterku hliðar barnsins og efla jákvæða sjálfsmynd þess.
Það er mikilvægt að gera fyrsta skólastiginu hátt undir höfði, það er mikilvægasta skólastigið að mínu mati.“

Verðum að halda vel á spöðunum
„Áhugamál fjölskyldunnar er klárlega handboltinn enda er hann okkur í blóð borinn. Börnin mín hafa öll spilað handbolta og í fyrra voru þau öll í sama liðinu hjá Aftureldingu. Þá varð mömmuhjartað stolt.
Ég hef starfað lengi við barna- og unglingastarf og hef verið m.a. í stjórn barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar Aftureldingar og í meistaraflokksráði kvenna.
Ég held að kvennahandboltinn hér í bænum eigi eftir að koma til enda margar efnilegar stúlkur hér í bænum í handbolta. Við verðum að halda vel á spöðunum og ekki slaka á í þeim efnum.“

Mosfellingurinn 8. september 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs