Leggja niður meistaraflokkana?

leggjanidur

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu verður áfram í 2. deild á næsta ári. Það er þriðja efsta deild á Íslandi og þar hefur liðið verið síðan 2009 þegar það féll úr 1. deild ásamt Ólafsvíkurvíkingum. Meistaraflokki kvenna hefur gengið betur síðustu ár, en verður eftir tvö döpur tímabil í röð sömuleiðis í þriðju efstu deild á næsta tímabili.

Mosfellsbær er sjöunda stærsta bæjarfélag landsins og það er hálfbiturt að meistaraflokkarnir okkar séu ekki öflugri en þetta í vinsælustu íþróttagrein landsins. En kannski er þetta blessun í dulargervi. Tækifæri til að gjörbylta því hvernig við hugsum um fótbolta í bænum okkar. Barna- og unglingastarfið hefur verið gott undanfarin ár. Við höfum alið upp mikið af frambærilegu knattspyrnufólki sem spilar í dag með bestu liðum landsins. Þrír af byrjunarliðsmönnum bikarmeistara Vals í karlaflokki voru til dæmis Mosfellingar.

Kannski eigum við að hætta að rembast svona við að búa til samkeppnishæf meistaraflokkslið í fótbolta. Setja alla okkar krafta í yngri flokkana. Leggja enn meiri rækt við krakkana, bæði þá sem stefna á afrek og þá sem vilja vera með til þess að leika sér. Þar eru tækifæri. Semja við eitthvað af nágrannaliðunum um samstarf í meistaraflokkum. Menn fá kannski fyrir hjartað þegar þeir lesa þetta, vilja halda fast í meistaraflokkana. Fyrirmyndir yngri krakkana og allt það. En staðreyndin er sú að það hefur gengið illa að fá fólk til starfa fyrir meistaraflokkana og sömuleiðis til þess að fá okkur íbúana til að mæta á völlinn. Áhorfendur hafa yfirleitt verið taldir í tugum í sumar, ef það.

Þetta er bara pæling. En heilsu- og íþróttabærinn Mosfellsbær verður að gera eitthvað afgerandi í sínum málum varðandi fótboltann. Ef menn vilja alls ekki leggja niður meistaraflokkana, hvað þá með að standa við kosningaloforð um knattspyrnuhús, rífa upp starfið af krafti og koma okkur í hóp þeirra bestu?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. september 2016