Kærleiksvikan haldin 14.-21. febrúar

kaerleiksvika

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 14.-21. febrúar, frá Valentínusardegi til konudags.
„Þá viku hvetjum við alla til að brydda upp á einhverju skemmtilegu og helst óvenjulegu,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir einn skipuleggjenda. „Vonandi verða allir vinnustaðir bæjarins með eitthvað kærleiksríkt á sinni dagskrá þessa viku.“
Vigdís skorar t.d. á karlmenn að sjá svipinn á elskunni sinni þegar þeir bjóðast til að lakka á þeim táneglurnar.
„Nefndin stendur fyrir nokkrum atriðum. Í ár ætlum við að heiðra Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Sú hefð hefur skapast að einhver í sveitarfélaginu er heiðraður fyrir frábær störf í þágu okkar allra. Í fyrra var það Leikfélagið. Skógræktarfélagið býður okkur upp á þetta dásamlega svæði í Hamrahlíðarskógi sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Koma þar og ganga, kaupa jólatré um jól eða grilla á sumrin. Svo er það nú þessi líka dásamlegi reitur norðanvert í Úlfarsfelli. Einnig vaxandi starfsemi í lundinum uppi í Teigahverfi.
Starfsmenn Ásgarðs eru svo elskulegir að smíða grip sem veittur er þeim sem heiðurinn hlýtur.
Þá verður spákaffi á Kaffihúsinu Álafossi sunnudagana 14. og 21. febrúar kl. 15.
Heilunarguðsþjónustu í Lágafellskirkju þann 18. febrúar kl. 20.
Ungmenni úr Lágafellsskóla og Varmárskóla setja falleg skilaboð á innkaupa­kerrurnar í Krónunni og Bónus.
Skógræktarfélagið verður svo heiðrað miðvikudaginn 17. febrúar kl. 16.30 í Kjarnanum.
Einnig verður Kærleikssetrið með dagskrá að vanda. Þar verður boðið upp á heilun, nudd, markþjálfun, miðlun, tarot­spá, stjörnuspeki og skyggnilýsingar svo eitthvað sé nefnt.“
Dagskrána má svo sjá í heild sinni er nær dregur á Facebook-síðu kærleiksvikunnar og á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

Vinna gegn afleið­ingum beinþynningar

halldora

Beinvernd eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík og var aðalhvatamaður um stofnun þeirra Ólafur Ólafsson þáverandi landlækir.
Síðastliðin átta ár hefur Beinvernd haft skrifstofu að Háholti 14, sem er vel staðsett í heilsubænum Mosfellsbæ. Starfsmaður Beinverndar, Halldóra Björnsdóttir, heimsækir gjarnan vinnustaði, félagasamtök aldraðra og önnur samtök með fræðsluerindi. Varmárskóli, Lágafellsskóli, Lionsklúbbinn Úa, Reykjalundur og félagsstarf aldraðra hér í bæ hafa öll verið heimsótt á undanförnum árum.

Beinagrindin lifandi vefur
En hvers vegna að stofna félag eða landssamtök um beinþynningu?
„Beinagrindin er lifandi vefur sem alla ævi er brotinn niður og um leið endur­byggður,“ segir Halldóra. „Heilbrigði beinanna er háð margvíslegum þáttum, sem tengjast fæðu, hreyfingu og aldri. Beinþynning verður til, þegar kalk í beinum minnkar og styrkur þeirra þar með. Hin harða og þétta skurn, sem jafnan umlykur beinin, þynnist og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar. Þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak. Þessar breytingar eru því miður einkennalausar og uppgötvast oft ekki fyrr en við beinbrot.“

Fræðsla skipar stóran sess
Beinvernd hefur sett sér fjögur markmið til að vinna gegn afleiðingum beinþynningar, þar sem vitundarvakning og fræðsla skipa stóran sess. Markmið félagsins eru:
1. Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli
2. Að miðla hverju sinni nýjustu þekkingu á þessum vanda og vörnum gegn honum til almennings og heilbrigðisstétta.
3. Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
4. Að eiga samskipti við erlend félög, sem starfa á svipuðum grundvelli.
Beinvernd hefur gefið út fjölmarga fræðslubæklinga og fréttabréf, og heldur úti heimasíðunni www.beinvernd.is og síðu á Facebook. Á þessum síðum er að finna mikinn fróðleik um beinþynningu, orsakir, áhættuþætti, greiningu og meðferð.

Mosfellingar áfram áberandi í Eurovision

gretagummi

Mosfellingarnir Greta Salóme og Gummi Snorri taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Mosfellingar hafa verið áberandi í Euro­vision undanfarin ár, bæði í undankeppnunum og sem fulltrúar okkar Íslendinga í keppninni sjálfri, og það er engin undantekning þar á í ár.
Tólf lög taka þátt í undankeppninni og fer hún fram laugardaginn 6. febrúar og sú seinni viku síðar, úrslitakeppnin fer svo fram í Laugardalshöll 20. febrúar.
Guðmundur Snorri Sigurðarson flytur lagið Spring yfir heiminn ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur. Júlí Heiðar Halldórsson samdi lagið en þeir Guðmundur sömdu textann saman.
Greta Salóme Stefánsdóttir á tvö lög í undankeppninni í ár og samdi einnig textana við lögin. Greta Salóme flytur sjálf lagið Raddirnar en Elísabet Ormslev sem vakti mikla athygli í The Voice flytur lagið Á ný.

Euro-stemningin í Mosfellsbæ
Mosfellingurinn María Ólafsdóttir sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins eftirminnilega í fyrra með laginu Unbroken og keppti fyrir Íslands hönd í Vín í Austurríki.
Greta Salóme hefur áður tekið þátt og fór með sigur af hólmi með Jóni Jósepi Snæbjörnssyni árið 2012. Þau fluttu lagið Mundu eftir mér.
Þá hafa fleiri Mosfellingar getið sér gott orð í keppninni að undanförnu og má þar nefna Stefaníu Svavars, Jógvan Hansen, Írisi Hólm og Hreindísi Ylvu.

Hér hægt að hlusta á lagið sem Greta Salóme flytur 6. febrúar:

Hér hægt að hlusta á lagið sem Gummi Snorri flytur ásamt Þórdísi Birnu 13. febrúar:

Sendum fullskipað lið á landsmót

jonadis

Jóna Dís Bragadóttir framhaldsskólakennari og formaður Harðar segir stórt ár framundan í hestamennskunni.
Þann 26. febrúar 1950 kom saman hópur manna úr Mosfellssveit, Kjalarnesi og Kjós. Sameiginlegt áhugamál þeirra var íslenski hesturinn og ræktun hans. Þessir menn stofnuðu Hestamannafélagið Hörð og var fyrsti formaður félagsins Gísli Jónsson í Arnarholti á Kjalarnesi.
Hörður er í dag fjórða stærsta hestamannafélag landsins með um 800 félaga. Formaðurinn, Jóna Dís Bragadóttir, segir mikinn uppgang hjá félaginu og að þau leggi mikla áherslu á barna- og unglingastarfið.

Jóna Dís er fædd í Reykjavík 4. apríl 1963. Foreldrar hennar eru þau Edda Hinriksdóttir hárgreiðslumeistari og fv. framhaldsskólakennari og Bragi Ásgeirsson tannlæknir. Jóna Dís á tvö yngri systkini, þau Hinrik og Guðrúnu Eddu.

Gott að alast upp í Borgarnesi
„Ég ólst upp í Borgarnesi frá sjö ára aldri til tvítugs, fyrir utan menntaskólaárin. Þar var gott að alast upp og ég átti yndislega æsku. Foreldrar mínir hafa alltaf verið í hestamennsku og mín fyrsta bernskuminning er þegar pabbi fór með mig á hestbak og sat með mig fyrir framan sig en þannig byrjaði ég að ríða út. Það var mikil gróska í hestamennskunni á þessum tíma og við fjölskyldan ferðuðumst mikið á hestum.
Nú eigum við sumarbústað á þessum slóðum með foreldrum mínum og erum dugleg að fara þarna í hestaferðir því umhverfið er hvergi fallegra,“ segir Jóna Dís og brosir.

Flutti til Reyjavíkur í nám
„Úr Borgarnesi flutti ég í Stykkishólm þar sem ég bjó í nokkur ár. Þar var líka gott að vera, gaman að koma úr landbúnaðarhéraði yfir í samfélag þar sem allt snérist um fisk, gaman að kynnast því. Þar byggði ég hesthús og reið mikið út.
Ég flutti svo til Reykjavíkur árið 1988 og fór í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum. Síðar eða árið 2001 lauk ég kennsluréttindanámi og M.Ed.-prófi í stjórnun menntastofnana. Eftir að ég flutti í bæinn stundaði ég hestamennsku með foreldrum mínum og fjölskyldu í Fáki.“

Sameiginlegt áhugamál að ferðast
„Árið 1989 kynntist ég eiginmanni mínum, Helga Sigurðssyni, dýralækni og sagnfræðingi og fljótlega flutti ég í Mosfellsbæinn. Við Helgi eigum samtals sex börn og sjö barnabörn þannig að fjölskyldan er orðin ansi stór. Eygerður er fædd 1978, Fjóla Dögg fædd 1980, Bragi Páll fæddur 1984, Marel fæddur 1987, Anna Jóna fædd 1993 og Hinrik Ragnar fæddur 1994.
Fljótlega eftir að ég flutti fengum við okkur hesta. Á þessum tíma var mikið að gera hjá okkur en ég fann alltaf tíma til að ríða út, það algjörlega bjargar sálartetrinu,“ segir Jóna Dís og hlær.
Í dag hefur þetta breyst, Helgi ríður ekki eins mikið út, hann sinnir hestum í sinni vinnu og hans áhugamál er að skrifa bækur. Sameiginlegt áhugamál okkar hjóna í gegnum árin hefur verið að ferðast og höfum við komið til rúmlega 70 landa og allra heimsálfa nema einnar. Auðvitað höfum við komið oft til sumra landa oftar en einu sinni en reynum að komast öðru hverju á nýjar slóðir.
Ég vann hjá Mosfellsbæ í sautján ár, fyrst á leikskólanum Reykjakoti og kenndi síðan í Varmárskóla í fjórtán ár. Nú kenni ég í Tækniskólanum í Reykjavík sem er mjög skemmtilegt en þar kenni ég útlendingum íslensku.“

Reiðhöllin er hornsteinninn okkar
„Fyrir rúmum þremur árum var ég beðin um að taka að mér að vera formaður Hestamannafélagsins Harðar og ég tók þeirri áskorun.
Hörður er fjórða stærsta hestamanna­félag á landinu með um 800 félaga og er jafnframt fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.
Stjórn Harðar vinnur vel saman en við erum níu í stjórn. Við vorum heppin þegar við tókum við, en þá var nýbúið að byggja reiðhöllina en hún er hornsteinninn í okkar félagsstarfi á veturna. Hún er mjög mikið notuð og mikið skipulag þarf til að koma öllum þeim námskeiðum fyrir sem við bjóðum upp á. Helmingur af höllinni er svo ávallt opinn almenningi. Einnig leigjum við FMOS reiðhöllina undir hestabrautina sem þar er kennd.“

Öflugt starf fyrir fatlaða
„Í Herði er rekið öflugt starf fyrir fatlaða en þeir koma á hestbak sex daga vikunnar frá september fram í maí. Öll sú starfsemi er rekin af sjálfboðaliðum og hefur það starf hlotið margar viðurkenningar. Starfið við fatlaða er unnið í samstarfi við skólana í Mosfellsbæ, en krakkarnir koma og aðstoða og fá einingar fyrir.
Við leigjum líka út reiðhöll sem er í einkaeign á svæðinu svo að við getum boðið upp á enn fjölbreyttari námskeið. Reiðkennar­arnir okkar eru allir menntaðir og við leggjum mikla áherslu á barna- og unglingastarfið. Þau fara í hinar ýmsu ferðir, fá fyrirlesara og fleira fyrir utan námskeiðin sem eru vel sótt.“

Félagsheimilið stækkað um helming
„Síðastliðið ár höfum við verið að byggja við félagsheimilið okkar, Harðarból. Það var karlaklúbbur Harðar, Áttavilltir, sem stóð að þeirri byggingu og var öll sú vinna unnin í sjálfboðavinnu og félagsmennirnir lögðu til efni og annað sem til þurfti.
Það er ótrúlegt hvað félagsmenn eru tilbúnir til að leggja mikla vinnu á sig fyrir félagið.
Félagsheimilið var stækkað um helming og er nú orðið hið glæsilegasta. Salurinn tekur 180 manns í sæti og næsta vers er að safna fyrir stólum, borðum og borðbúnaði. Salurinn er líka leigður út til almennings.“

Landsmót framundan að Hólum
„Framundan er stórt ár í hestamennskunni, landsmót verður haldið að Hólum í Hjaltadal og verður það mjög spennandi. Við sendum fullskipað lið og erum þegar farin að undirbúa það.
Sumarið 2015 var mjög ánægjulegt fyrir okkur Harðarmenn en þá eignuðumst við heimsmeistara í Herning í Danmörku. Það var Reynir Örn Pálmason sem vann þann titil ásamt því að fá tvö silfur.“
Reynir Örn hlaut á dögunum titilinn íþróttamaður Mosfellsbæjar.

Landsbyggðin hefur alltaf heillað mig
„Fyrir rúmu ári var ég kosin í stjórn Landssambands hestamannafélaga og er þar varaformaður. Þar kynnist maður landsbyggðinni sem hefur alltaf heillað mig. Stjórn LH hefur farið víða í heimsóknir til hestamannafélaga og er ótrúlega gaman að sjá hvað grasrótin vinnur mikið og gott starf.
Það er mikið að gerast í hestamennskunni, t.d. viðamikið markaðsverkefni sem stjórnað er af Íslandsstofu og styrkt af ráðuneytum. Að þessu verkefni koma öll fag­félög hestamennskunnar ásamt háskólunum.
Við héldum ráðstefnu í haust þar sem rætt var um framtíð landsmóta og eru hestamenn mjög sammála um hvernig landsmót eiga að vera. Nú erum við að fara að ákveða hvar landsmótin 2020 og 2022 eiga að vera og það verður sannarlega áhugavert,“ segir Jóna Dís er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Íþróttamenn Mosfellsbæjar

Íris Eva Einarsdóttir skotfimikona og Reynir Örn Pálmason hestaíþróttamaður.

Íris Eva Einarsdóttir skotfimikona og Reynir Örn Pálmason hestaíþróttamaður.

Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar var tilkynnt við hátíðlega athöfn sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni að Varmá á dögunum.
Alls voru tilnefndar níu konur til kjörs íþróttakonu Mosfellsbæjar frá fimm íþróttafélögum og var Íris Eva Einarsdóttir, skotfimikona úr Skotfélagi Reykjavíkur, kjörin íþróttakona Mosfellsbæjar 2015.

Íris náði í gull á Smáþjóðaleikunum
Íris varð hlutskörpust í öllum innanlandsmótum í loftriffli kvenna sem haldin voru á árinu. Hún náði meistaraflokksárangri á öllum mótum sem og Ólympíulágmörkum í þessari grein.
Hún fékk gullverðlaun á Reykjavíkurleikunum 2015 og vann til gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Reykjavík. Þá varð hún Íslands- og bikarmeistari á árinu. Íris er númer 241 á styrkleikalista Alþjóðaskotsambandsins.

Reynir landaði heimsmeistaratitli
Alls voru tilnefndir átta karlar til kjörs íþróttakarls Mosfellsbæjar frá fimm íþrótta­félögum og var Reynir Örn Pálmason, hestaíþróttamaður úr Hestamannafélaginu Herði, kjörinn íþróttakarl Mosfellsbæjar 2015.
Árið 2015 var besta keppnisár Reynis frá upphafi. Þar bar hæst heimsmeistaratitill á gríðarsterku móti í Herning í Danmörku og tvenn silfurverðlaun sem var besti árangur á öllu mótinu.
Reynir var tvöfaldur Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og í slaktaumatölti, þar sem hann hlaut hæstu einkunn 8,88. Reynir er mjög ofarlega á heimslistum FEIF Worldranking 2015 sem eru heimssamtök Íslandshesta.

Fjöldi viðurkenninga veittur
Einnig voru veittar 105 viðurkenningar fyrir Íslands-, bikar-, landsmóts og deildarmeistaratitla og 96 viðurkenningar fyrir þátttöku og æfingar með landsliðum Íslands í fjölmörgum íþróttagreinum ásamt því að efnileg ungmenni 16 ára og yngri í hverri íþróttagrein voru heiðruð.
Við sama tækifæri hlaut Sigrún Þ. Geirsdóttir sundafrekskona viðurkenningu fyrir þann frábæra árangur að vera fyrst íslenskra kvenna til að synda yfir Ermarsundið, þ.e. 62,7 km á 22 og hálfri klukkustund. Ótrúlegt afrek.

Undirskriftarlistar afhentir

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Rúmlega þriðjungur sóknarbarna í Lágafellssókn hefur skrifað undir áskorun um að prestskosning fari fram. Sr. Skírnir Garðars­son lét af störfum um áramótin og hefur biskup Íslands auglýst laust til umsóknar embætti prests í Mosfellsprestakalli frá 1. mars. Þeim presti er ætlað að starfa við hlið sr. Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests.
Stuðningshópur Arndísar Linn hefur staðið fyrir söfnun undirskriftanna og skilað þeim á tilsettum tíma til Biskupsstofu.
Umsóknarfrestur um starfið rennur út 9. febrúar og má ætla að framkvæmd kosninga verði ákveðin í framhaldinu.

Jákvæðni meðal bæjarbúa
„Undirtektirnar voru mjög góðar,“ segir Helga Kristín Magnúsdóttir talsmaður stuðningshóps Arndísar Linn. „Greina mátti mikla jákvæðni meðal íbúa bæjarins og þökkum við kærlega fyrir móttökurnar og auðveldlega náðist í tiltekinn fjölda undirskrifta. Þá viljum við einnig koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hjálpuðu okkur að safna undirskriftunum, án þeirra hefði þetta ekki tekist.
Með kosningu í embættið er verið að dreifa valdi og ábyrgð meðal íbúa bæjarins og taka ákvörðun um embættið á friðsamlegan máta.
Það er því okkar von að á næstunni verði boðað til kosninga og Mosfellingar hafi um það að segja hver muni gegna stöðunni,“ segir Helga Kristín að lokum.

Fyrsti Mosfellingur ársins

Fjölskyldan í Bjargslundi með litlu prinsessuna. Mynd/RaggiÓla

Fjölskyldan í Bjargslundi með litlu prinsessuna. Mynd/RaggiÓla

Þann 4. janúar kl. 18:58 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2016. Það var stúlka sem mældist 14 merkur og 52 cm. Foreldrar hennar eru þau Lovísa Rut Jónsdóttir og Björn Ingi Ragnarsson. Stúlkan er þriðja barn þeirra Lottu og Binga en fyrir eiga þau drengina Ragnar Inga 8 ára og Arnór Logi 5 ára. Fjölskyldan býr í Bjargslundi.

Fær nafn um páskana
„Ég var gangsett og allt gekk eins og í sögu. Við erum alveg í skýjunum með dömuna og hún er svakalega vær og góð. Við fengum að vita kynið á meðgöngunni og ætluðum varla að trúa því að við værum að fá stelpu. Bingi var sérstaklega montinn að þetta gæti hann,“ segir Lotta og hlær.
„Við ætlum að skíra hana um páskana en þeir bræður eru alveg með skoðun á því hvað hún á að heita.“
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með stúlkuna.

Íþróttamenn Aftureldingar

Telma Rut Frímannsdóttir og Pétur Júníusson.

Telma Rut Frímannsdóttir og Pétur Júníusson.

Telma Rut Frímannsdóttir karatekona og Pétur Júníusson handknattleiksmaður hafa verið valin íþróttakarl og kona Aftureldingar 2015.
Aðalstjórn félagsins stendur fyrir valinu og var hún einhuga í vali sínu. Úrslitin voru kunngjörð á þorrablóti Aftureldingar um síðustu helgi.

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá deildum félagsins: Kristín Þóra Birgisdóttir (knattspyrnudeild), Kristinn Jens Bjartmarsson (knattspyrnudeild), Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir (handknattleiksdeild), Pétur Júníusson (handknattleiksdeild), María Guðrún Sveinbjörnsdóttir (taekwondodeild), Arnar Bragason (taekwondodeild), Fjóla Rut Svavarsdóttir (blakdeild), Jón Ólafur Bergþórsson (blakdeild), Telma Rut Frímannsdóttir (karatedeild), Aþena Karaolani (sunddeild), Arnór Róbertsson (sunddeild), Kristinn Breki Hauksson (badmintondeild), Guðlaug Bergmann Sigfúsdóttir (frjálsíþróttadeild), Guðmundur Ágúst Thoroddsen (frjálsíþróttadeild).

Ertu fáviti?

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ertu fáviti? spurði markalaus og pirraður framherji 4. flokks Selfoss varnarmanninn son minn um síðustu helgi. Bætti svo við: Á ég að lemja þig? Minn maður bauð honum að gjöra svo vel, brosti og hélt áfram að spila leikinn. Stórkostleg viðbrögð, ég var ekki lítið ánægður með hann þegar hann sagði mér frá þessu eftir leikinn. Það er mun algengara að leyfa öðrum koma sér úr jafnvægi. Kenna svo um að hafa gert mann reiðan eða pirraðan og „látið mann“ gera hitt eða þetta. Minn maður hefði getað vaðið í sóknarmanninn eða öskrað á hann á móti og þannig látið hann koma sér úr jafnvægi. Kennt honum svo um að hafa reitt sig til reiði. En hann valdi að gera það ekki. Hann valdi að brosa, halda áfram að spila fótbolta og koma áfram í veg fyrir að nýi vinur hans skoraði mark.

Þegar maður nær að stýra tilfinningunum er maður mun hæfari í því sem maður gerir. Líklegri til þess að ná árangri. Líklegri til þess að klára það sem maður byrjaði á. Líklegri til þess að mæta á æfingu, fara að sofa á skikkanlegum tíma, leika við börnin, hafa gaman af lífinu. Líklegri til þess að líða betur, vera heilsuhraustari á líkama og sál.

Pirraði gaurinn, sem við höfum öll einhvern tíma verið, er líklegri til að taka rangar ákvarðanir, gera mistök, hætta við góðu vanana og gefast upp á því sem hann byrjaði. Næst þegar einhver spyr þig hvort þú sért fáviti, býður þér upp á barsmíðar, kallar þig feitan, mjóan, ljótan, sveitalubba eða pirrar þig á einhvern annan hátt, kallaðu fram mynd í huganum af brosandi varnarmanni í rauðum búningi Aftureldingar og taktu þér hann til fyrirmyndar þegar þú bregst við. Þér á eftir að líða miklu betur og hinn lærir vonandi af mistökum sínum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. janúar 2016

Skipað í nýtt embætti Gufufélagsins

Ólafur Sigurðsson, formaður orðunefndar, Guðbjörn Sigvaldason, heilbrigðisfulltrúi og Valur Oddsson, forseti Gufufélags Mosfellsbæjar.

Ólafur Sigurðsson, formaður orðunefndar, Guðbjörn Sigvaldason, heilbrigðisfulltrúi og Valur Oddsson, forseti Gufufélags Mosfellsbæjar.

Gufufélag Mosfellsbæjar hélt að vanda aðalfund sinn á gamlársdag í gufubaðsaðstöðunni í Varmárlaug. Hæst bar á fundinum að forseti félagsins, Valur Oddsson, tilkynnti um stofnun nýs embættis innan stjórnar; heilbrigðisfulltrúa. Forseti skipaði Guðbjörn Sigvaldason umsvifalaust í embættið.
Um leið veitti forseti, undir öruggri handleiðslu formanns orðunefndar, Ólafs Sigurðssonar, Guðbirni heiðurskross Fálkaorðu Gufufélagsins fyrir að hafa sýnt einstakt umburðarlyndi í garð heilbrigðiskerfisins. „Guðbjörn hefur sýnt biðlund í sex mánuði af átján til að komast í aðgerð til að verða aftur vinnufær,“ sagði Valur forseti orðrétt í rökstuðningi sínum fyrir að veita Guðbirni heiðurskrossinn. Guðbjörn er aðeins fjórði félagi Gufufélagsins sem er veitt Fálkaorðan.

Fulltrúar á öllum sviðum þjóðfélagsins
Í ávarpið sínu sagði Valur forseti ennfremur að árið hafi verið Gufufélaginu afar hagfellt. Talsverð umfjöllun hafi verið um starfsemi félagins. Umsvif Gufufélagsins á fjármálamarkaði hafi verið talsverð en ekki hafi allar áætlanir gengið eftir enda vill stjórnin ekki ana að neinu í verkum sínum. Félagið hafi fært út kvíarnar víða í samfélaginu.
„Nú er svo komið að Gufufélagið á fulltrúa á öllum sviðum þjóðfélagsins, eins og bæjarstjórn, kjörstjórn, elliheimilum, iðnaði og í sveitum landsins, bæði á lögbýlum og eyðibýlum,“ sagði Valur forseti m.a. í ávarpi sínu.
Jafnframt benti forseti á að með tilskipun hafi hann flýtt klukku félagsmanna um þrjá stundarfjórðunga. Sú breyting hafi verið til mikilla framfara og nú kæmi enginn félagsmaður of seint heim af fundum félagsins.

100% stuðningur við forseta félagsins
Forseti Gufufélagsins, Valur Odddsson, hefur setið á farsælum valdastóli í nokkuð á þriðja áratug og sýnir engan bilbug. Þegar kom að stjórnarkjöri vék forseti máli sínu af nokkrum þunga til félagsmanna með eftirfarandi orðum:
„Miklar vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum hvort forseti ætli að gefa kost á sér aftur í embætti eftir öll þessi ár. Þess vegna vil ég árétta að forseti viðheldur lýðræði fyrri ára, virðir mótframboð að vettugi og situr áfram sem fastast. Það er því sjálfgefið að ekki verður kosið í ár.“
Forseti ítrekaði ennfremur að hann hafi ævinlega notið ríflega 100% stuðnings meðal félagsmanna sem væri gott betur en t.d. Kim Young-un hafi meðal sinna þegna en Young-un fékk aðeins 99,7% fylgi í síðustu kosningum í Norður-Kóreu.
Ávarpi forseta var að vanda afar vel tekið. Reikningar félagsins voru með flóknasta móti að þessu sinni. Þeir voru engu að síður samþykktir með öllum greiddum atkvæðum en meginatriði þeirra verða ekki tíunduð hér af tillitssemi við lesendur.

Sungið undir stjórn söngmálastjóra
Að vanda voru veittar stórafmælisgjafir til félaga sem áttu merkisafmæli á árinu. Að þessu sinni voru það þrír félagsmenn. Ívar Benediktsson, blaðafulltrúi, varð fimmtugur 28. desember, Ásgeir Eiríksson, fulltrúi hollustu og heilbrigðra lífshátta átti sextugsafmæli 8. mars og Erlingur Friðgeirsson, fjármála- og efnahagsráðgjafi varð sjötugur 7. október.
Að lokum var sungið við raust undir styrkri stjórn Guðmundur Guðlaugssonar söngmálastjóra áður haldið var heim þar sem félagsmenn tóku hreinir á líkama og sál á móti nýju ári.

Alvarleg réttindabrot framin á hverjum degi

birgir

Birgir Grímsson iðnhönnuður og eigandi V6 Sprotahúss er formaður félags um foreldrajafnrétti. Birgir hefur lengi barist fyrir réttindum skilnaðarbarna eftir að hafa kynnst því af eigin raun eftir skilnað hve staða þeirra er bágborin. Hann hefur ríka réttlætiskennd og hefur mikla þörf fyrir að bæta það sem er brotið í samfélaginu.
Birgir tók við formannsstöðu félags um foreldrajafnrétti árið 2014 en meginstefna félagsins er að tryggja jafnrétti foreldra bæði til forsjár og umönnunar, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Birgir Grímsson er fæddur í Reykjavík 26. apríl árið 1973. Foreldrar hans eru þau Sigríður Ágústsdóttir skrifstofukona og Grímur Heiðar Brandsson skriftvélavirki. Sigríður lést árið 2013. Systkini Birgis eru þau Nína Margrét fædd 1965 og Páll fæddur 1968.
„Ég bjó fyrstu árin á Háaleitisbraut eða til sex ára aldurs en þá fluttum við yfir í Hvassaleitið. Á þessum tíma var einungis búið að steypa upp Hús verslunarinnar en restin af Kringlusvæðinu var mói, þar lék ég mér oft þegar ég var lítill.“

Fór utan í nám
„Skólaskylduna kláraði ég í Álftamýrarskóla og stúdentinn frá MH. Ég hafði alltaf stefnt að því að fara utan í í nám. Ég valdi iðnhönnun og til að undirbúa mig fór ég í húsasmíðina hér heima og kláraði sveinsprófið.
Ég sótti um nám í Danmörku og fann þar íbúð fyrir mig og kærustuna mína. Ég komst ekki inn í skólann um haustið svo ég ákvað að fara á námskeið í Árósum. Það er eitt af því eftirminnilegasta sem ég gerði þarna því þar kynntist ég Dönunum, lærði tungumálið og á danska menningu.“

Frumkvöðlabransinn á vel við mig
„Mér var bent á skóla á Jótlandi, Design Seminariet í Hojer sem ég ákvað að fara í.
Á þessum tíma ákváðum ég og kærasta mín að gifta okkur og eignuðumst við okkar fyrsta barn í framhaldi af því, dóttirin Arney Íris fæddist 2001.
Eftir að námi mínu lauk 2003 fluttum við til Svíþjóðar og um svipað leyti vann ég í samkeppni um viðskiptaáætlanir á Íslandi. Þarna sá ég að frumkvöðlabransinn átti vel við mig. Árið 2004 eignuðumst við svo soninn Hrafnar Ísak.
Á síðasta ári mínu í skólanum ákváðum við hjónin að skilja, ég var þá búinn að finna nám í frumkvöðlafræði í Malmö sem mér fannst mjög spennandi.“

Með fimm háskólagráður
„Konan fór heim til Íslands með börnin og ég varð því að fara á milli landa á meðan ég lagði stund á námið til að geta verið með börnunum mínum.“
Ég spyr Birgi hvað hann hafi lokið við margar háskólagráður? „Ég spaugast oft með það að ég sé búinn að ljúka fimm háskólagráðum rétt eins og frægur karakter í Næturvaktinni hélt fram forðum og finnst það alltaf jafn fyndið, en það er staðreynd.
Eftir að ég kom heim, stofnaði ég heimasíðuna Frumkvöðull.com þar sem ég bauð upp á ráðgjöf.“

Mikil lukka að kynnast Björgu
„Ég kynntist konunni minni, Björgu Helgadóttur, árið 2007. Hún vinnur sem verkefnastjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Það var mér og börnunum mikil lukka að fá Björgu inn í líf okkar. Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ og giftum okkur árið 2013.“

Stofnaði fyrirtæki
„Árið 2010 stofnaði ég ásamt félögum mínum V6 Sprotahús hér í Mosfellsbæ. Markmið okkar var að bjóða upp á ráðgjöf og þjónustu fyrir nýstofnuð fyrirtæki. Svona verkefni er þess eðlis að það nær ekki að lifa nema með stuðningi ríkis eða sveitarfélags en þann stuðning þraut á endanum. Ég keypti félaga mína út og flutti fyrirtækið heim til mín. Ég býð enn upp á ráðgjöf og vinn einnig að eigin hönnunarverkefnum.
Ég tek líka þátt í málefnum sem eru mér hugleikin. Ég stofnaði ásamt öðrum Stjórnarskrárfélagið árið 2011. Þessi hópur fólks telur grundvallarþörf á að Ísland fái notið nýrrar og betri stjórnarskrár því það sé undirstaðan að því að gera þetta samfélag betra.“

Réttarfarsleg staða barna er bágborin
„Ég gekk til liðs við Foreldrajafnrétti árið 2006 eða eftir að ég skildi. Ég sá að réttarfarsleg staða barna eftir skilnað er afar bágborin og alvarleg réttindabrot eru framin á hverjum degi.
Ég byrjaði sem aðstoðarmaður í stjórn en tók við formennsku 2014. Við höfum náð að koma þessum málflokki á kortið í samfélaginu þótt margt sé enn óleyst. Við finnum fyrir meiri áhuga frá kvenfólki, sem upplifir þessa ranglátu stöðu sem skilnaðarbörn eru í.
Við heyrum ýmsa vinkla þar sem fólk almennt áttar sig ekki á hlutunum og sýnir hversu víðtæk áhrif það hefur ef ekki er gætt að réttindum barnanna eftir skilnað, sambúðarslit, eða þeirra barna sem eru rangfeðruð.
Við erum t.d. með eina ömmu í stjórn sem vill leggja sitt af mörkum en hún upplifði að réttur ömmubarnsins til hennar var ekki virtur, óháð deilum foreldranna.“

Mæður borga dagsektir
„Við erum með stjúpmæður í stjórn sem sjá óréttlætið sem börn maka þeirra mæta, gagnvart fyrri barnsmæðrum. Við höfum heyrt sögur af mæðrum sem vilja að feður sinni börnum sínum en skilja með engum hætti ábyrgð sína og taka til sín það verkefni sem felst í því að eiga börn.
Börn lenda í tilfinningaklemmu vegna tálmunarmála þar sem annað foreldrið heldur börnum frá hinu foreldrinu með því að beita andlegu ofbeldi og oft líka brjóta á lögum og rétti barna samkvæmt lögformlegum samningum.
Mæður borga dagsektir svo mánuðum skiptir bara til að koma í veg fyrir að börn fái að hitta feður sína, þótt ekki sé neitt sýnt fram á að þeir séu á einhvern hátt ekki hæfir til þeirrar ábyrgðar.“

Viljum stofna fjölskyldudómstól
„Við viljum að stofnaður verði sérstakur fjölskyldudómstóll. Sá dómstóll væri sérhæfður í öllum félagslegum og fjölskyldulegum málefnum í samfélaginu og hefði á sínum snærum sérhæft starfsfólk, sálfræðinga og félagsfræðinga.
Þessi dómstóll gæti brugðist við innan viku ef beiðni kemur um úrskurð vegna brota og komið til aðstoðar með sérfræðiaðstoð eða aðgerð sem tekur mið af að koma í veg fyrir átök, brot eða óásættanlegar aðstæður.
Á þann hátt væri hægt að koma í veg fyrir flest vandamál án þess að þau verði að óleysanlegum vandamálum með slæmum afleiðingum fyrir alla aðila, þó sérstaklega börnin.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

14 stúdentar brautskráðir frá FMOS

fmos2

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram við hátíðlega athöfn í sal skólans föstudaginn 18. desember. Jón Eggert Bragason skólameistari útskrifaði 14 stúdenta.
Efri röð: Þorgeir Leó Gunnarsson, Guðjón Leó Guðmundsson, Friðgeir Óli Guðnason, Geir Ulrich Skaftason, Örn Bjartmars Ólafsson, Pétur Karl Einarsson, Óskar Þór Guðjónsson
Neðri röð: Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Sesselja Líf Valgeirsdóttir, Guðlaug Harpa Hermannsdóttir, Heiða Hrönn Másdóttir, Steinunn Svavarsdóttir, Kristrún Kristmundsdóttir, Hugrún Þorsteinsdóttir, Halla Björk Ásgeirsdóttir, Jón Eggert Bragason skólameistari.
Nokkrir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur:
Spænska: Heiða Hrönn Másdóttir
Sálfræði: Heiða Hrönn Másdóttir
Knattspyrna: Sesselja Líf Valgeirsdóttir
Raungreinar: Örn Bjartmars Ólafsson
Danska: Heiða Hrönn Másdóttir,
Óskar Þór Guðjónsson og
Sesselja Líf Valgeirsdóttir
Hæsta einkunn á stúdentsprófi:
Örn Bjartmars Ólafsson

Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar

Tölvugerð mynd af fjölbýlis- húsum við Bjarkarholt.

Tölvugerð mynd af fjölbýlishúsum við Bjarkarholt.

Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar er að hefjast af fullum krafti. Auglýstar hafa verið lóðir fyrir fjölbýli við Þverholt og svo núna síðast við Bjarkarholt og Háholt.
Í Þverholti stendur til að byggja 30 leiguíbúðir í bland við 12 íbúðir á almennum sölumarkaði. Til úthlutunar eru lóðir við Bjarkarholt og Háholt þar sem áætlað er að byggja að minnsta kosti 52 íbúðir í fjölbýli.
Ásýnd og þéttleiki byggðar í miðbænum mun því breytast talsvert á næstu misserum í takt við nýlegt deiliskipulag miðbæjarins. Sérstaklega mun verða breyting í Háholti þar sem húsið sem stendur þar númer 23, og hefur hýst margvíslega starfsemi, verður endurbyggt frá grunni í samræmi við núgildandi skipulag. Í útboðsskilmálum er kveðið á um uppkaup á húsinu og endurbyggingu eða niðurrif.

Auðugra mannlíf
„Það er okkar von að fleiri íbúðir miðsvæðis í Mosfellsbæ muni skila sér í enn auðugra mannlífi og aukinni verslun og þjónustu í bænum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Hann upplýsti jafnframt að verið væri að leggja lokahönd á samninga við fyrirtæki á vegum verktakafyrirtækisins Ris vegna uppbyggingar í Þverholtinu og að framkvæmdir þar muni líklega hefjast í sumar.

Þorrablót Aftureldingar fer fram 23. janúar

systur

Undirbúningur árlegs þorrablóts Aftureldingar stendur nú sem hæst, en það fer fram í íþróttahúsinu að Varmá laugardaginn 23. janúar. Miðasala er þegar hafin á Hvíta Riddaranum, en borðapantanir fara fram fimmtudaginn 14. janúar kl. 19:30 – 20:30, einnig á Hvíta Riddaranum.
„Undanfarin tvö ár hefur verið uppselt hjá okkur og í ár ætlum við að stækka salinn aðeins og vera bæði með hring- og langborð. Við ætlum að bjóða upp á 10 manna hringborð sem eru seld í heilu lagi ásamt fljótandi veigum og hægt er að velja þessi borð strax þegar þau eru keypt,“ segir Ásgeir Sveinsson varaforseti þorrablótsnefndar.

Lambalæri fyrir þá sem ekki vilja þorramat
„Ég er mjög spenntur fyrir því að skemmta í Mosó,“ segir Sóli Hólm sem verður veislustjóri kvöldsins. „Þetta er þorrablót sem ég hef heyrt talað um sem eitt af þeim allra skemmtilegustu. Hef heyrt að þangað mæti bara fólk með góðan húmor og söng í hjarta. Umhverfi sem ég og gítarinn minn pössum vel inn í,“ segir Sóli en Ingó Veðurguð ásamt Sverri Bergmann munu svo sjá um fjörið á dansgólfinu.
Tríóið Kókos mun taka vel á móti veislugestum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar og býður upp á hefðbundinn þorramat ásamt lambalæri og Bearnaise fyrir þá sem ekki treysta sér í þorrann.
„Sú hefð hefur skapast að hópar komi og skreyti borðin sín. Mikill metnaður er í skreytingum og góð stemning í salnum þegar þetta fer fram. Skreytingarnar fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi,“ segir Ásgeir og hvetur alla til að fylgjast með framgangi mála á Facebook-síðu þorrablótsins.
Þorrablót Aftureldingar verður nú haldið í 9. skipti í þeirri mynd sem það er nú og er ein stærsta fjáröflun félagsins.

Sigrún valin Mosfellingur ársins


sigrunmosfellingur

mosfellingurarsinsSigrún Þ. Geirsdótti hefur verið valin Mosfellingur ársins 2015. Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu en Sigrún er sú ellefta til að hljóta titilinn.
Sigrún vann það þrekvirki á árinu 2015 að synda fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið. Sigrún sem hefur stundað sjósund undanfarin ár og hafði áður synt boðsund í tvígang yfir Ermarsundið sem varð kveikjan að því að hana langaði að gera þetta ein.
Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sundmanna,“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Bakgrunnur Sigrúnar í íþróttum er enginn og lærði hún skriðsund fyrir þremur árum síðan. Þetta afrek hennar er því ótrúlegt.

Ótrúlegur heiður
„Þetta er æðislegt, ég var tilnefnd sem maður ársins af ýmsum fjölmiðlum en það er ótrúlegur heiður að hljóta nafnbótina Mosfellingur ársins, það er svakalega skemmtilegt,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé alltaf endurnærð þegar hún komi upp úr sjónum, skilji áreiti og áhyggjur eftir og finni fyrir meiri jarðtengingu.
„Þegar ég ákvað að fara í þetta sund átti ég ekki von á allri þessari athygli, ég er nú frekar feimin og því er þetta bæði gaman og erfitt. Þetta var ótrúlegt ævintýri og ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa klárað sundið og ekki gefist upp þrátt fyrir mikið mótlæti á leiðinni.“

Samsvarar 1.254 ferðum í Lágafellslaug
Vegalengdin beint yfir sundið er 33 km en ég synti 62,7 km á 22 klukkustundum og 34 mínútum.
„Ég byrjaði vel en eftir rúmlega þrjá klukkutíma varð ég sjóveik og kastaði upp eftir hverja matargjöf í sjö tíma. Þegar ég var búin að synda í 10 klukkutíma komst ég þó yfir sjóveikina, þá var brugðið á það ráð að gefa mér súkkulaði, kók og Jelly Babies að borða. Það er líklega einsdæmi að einhver hafi synt yfir Ermarsundið á þessu fæði.“
Vegalengdin sem Sigrún synti samsvarar 1.254 ferðum fram og til baka í Lágafells­laug og það í gríðarlega miklum straumum, öldum og að hluta til í svarta myrkri.

Snýst um rétta hugarfarið
Sund Sigrúnar hefur vakið mikla athygli. „Ég hef haldið þónokkra fyrirlestra og mér finnst það voða skemmtilegt. Ég fjalla þá um undir­búninginn en hann er rosalega mikilvægur, bæði æfingarnar og ekki síst hugarfarið.
Ég segi frá lífi mínu áður en ég byrjaði að stunda sjósund og þá aðalega heilsufarslega. Sýni svo myndband af sundinu en fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er fyrr en það sér myndbandið og verður svolítið slegið þegar það sér myrkrið, öldurnar og líkamlegt og andlegt ástand mitt,“ segir Sigrún að lokum.