Kom mínum nánustu ekki á óvart

disalinnvidtal

Arndís Guðríður Bernhardsdóttir Linn tók við embætti prests í Lágafellssókn þann 1. maí 2016.

Í Lágafellssókn eru tvær kirkjur, að Lágafelli og að Mosfelli. Í sókninni fer fram fjölbreytt starf fyrir unga jafnt sem aldna og næsta víst að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn hóf nám í guðfræði komin á fertugsaldur. Átta árum eftir útskrift tók hún við prests­­­­e­­­m­bætti í Lágafellsókn. Arndís segir starfið einstaklega gefandi, skemmtilegt og fjölbreytt.

Arndís er fædd í Reykjavík 12. septem­­­ber 1970. Foreldrar hennar eru þau Dagbjört Pálmey Pálmadóttir húsmóðir og Bernhard Linn fyrrverandi vörubílstjóri. Arndís er elst fimm systkina, Pálma, Steinunnar Svandísar, Ágústs og Hauks.
„Ég er alin upp í Mosfellssveit. Við fjölskyldan bjuggum fyrst í Hlíðartúninu en þegar ég var fjögurra ára fluttum við í Teigana. Við krakkarnir lékum okkur mikið í gilinu í Teigunum, löbbuðum stokkinn og alltaf var gengið fram hjá Brúarlandi á leið í skólann.
Síðustu árin hef ég gengið mikið hér um bæinn og smátt og smátt rifjast upp fyrir mér að ég á minningar frá hverri þúfu. Fyrir vikið þykir mér óendanlega vænt um þessa sveit.“

Ævintýralegar ferðir með ömmu
„Uppáhalds æskuminning mín er þegar við amma fórum saman til höfuðborgarinnar, en við fórum alltaf bara tvær. Þetta voru algjörar ævintýraferðir sem endaðu með viðkomu á Hressingarskálanum.
Ég gekk í Varmárskóla og svo í Gaggó Mos. Ég söng í kór, var í skátunum, lærði á blokkflautu, fiðlu og horn og var í Skólahljómsveit Varmárskóla. Ég spilaði aðeins fótbolta en handboltinn náði svo yfirhöndinni. Ég náði meira að segja að æfa með unglingalandsliðinu.“

Rekin heim úr skólanum
„Mér fannst stundum erfitt að vera unglingur og var ekki alltaf til fyrirmyndar. Ég var þónokkur gelgja og svolítið uppvöðslusöm. Það var stundum pínu uppreisn í manni og það kom fyrir að ég var rekin heim úr skólanum í einhverja daga. Ætli ég hafi ekki stundum verið dálítið dramatísk,“ segir Arndís og glottir.

Lærði mikið af dvöl minni í Þýskalandi
„Ég byrjaði ung að passa börn, vann í sjoppu og í Kaupfélaginu. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík og eftir útskrift starfaði ég í Kaupfélaginu í hálft ár. Þaðan fór ég sem aupair til Baden Baden í Þýskalandi og var þar í rúmt ár. Þar passaði ég Paul sem var dásemdardrengur og fjölskylda hans reyndist mér einstaklega vel.
Þegar ég kom heim fór ég að vinna hjá Hans Petersen. Ég hef verið með ljósmyndadellu alveg síðan ég fékk mína fyrstu myndavél að gjöf frá mömmu og pabba, þá var ég níu ára. Ég hætti störfum í versluninni 1996 og tók eina önn í þýsku í Háskóla Íslands.“

Athöfnin fór fram í kyrrþey
Arndís er gift Hilmari Kristni Friðþjófssyni vélfræðingi en hann er Mosfellingur í húð og hár. Þau hafa verið saman síðan árið 1993 og eiga tvö börn, Sigríði Maríu fædda 1997 og Bernhard Linn fæddan 1998.
„Við Kiddi trúlofuðum okkur í hlíðum Úlfarsfells með súkkulaðisnúða og kampavín í bakpoka 1993 en giftum okkur ekki fyrr en 2012. Ég segi stundum að athöfnin í Lágafellskirkju hafi farið fram í kyrrþey því einungis foreldrar okkar og börn voru viðstödd. Það voru ekki allir sáttir við þessa leið okkar en svona vildum við hafa þetta.“

Trúin braust einhvern veginn í gegn
„Ég hef alltaf verið trúuð alveg frá því ég man eftir mér. Það var amma Dísa sem kynnti mig fyrir Guði og trúnni, hún kenndi mér bænir og talaði við mig um Jesú. Hún hafði mikil áhrif á mig og er mér sterk fyrirmynd.
Ég las Nýja testamentið sem ég fékk að gjöf frá skólanum, sótti styrk í Biblíuna á unglingsárunum og þegar ég hugsa til baka þá var þetta leið sem átti alltaf eftir að liggja fyrir mér. Í gömlu myndaalbúmunum mínum má finna myndir af kirkjum, altörum og styttum af Jesú, trúin braust svona einhvern veginn í gegn. Það kom mínum nánustu því ekki á óvart þegar ég skráði mig í guðfræði en ég byrjaði í náminu haustið 2003 og útskrifaðist um vorið 2008.“

Mikill áhugi á femínískri guðfræði
„Áður en ég fór í guðfræði sá ég um foreldramorgnana í Lágafellskirkju. Ég byrjaði árið 2002 og hef unnið þar alla tíð síðan því seinna varð ég meðhjálpari, kirkjuvörður, sá um barnastarf, skúringar, heimasíðu og ýmislegt fleira.
Ég vígðist til kvennakirkjunnar, sem er sjálfstætt starfandi hópur innan þjóðkirkjunnar, 14. júlí 2013. Starfið í kvennakirkjunni er í sjálfboðavinnu og þar starfa ég við hlið sr. Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur sem er fyrsta konan sem vígðist til prests á Íslandi árið 1974. Ég hef mikinn áhuga á femínískri guðfræði en Kvennakirkjan byggir á henni. Messurnar eru léttari og öðruvísi.“

Draumur minn rættist
„Ég hef sótt um þó nokkur embætti innan íslensku þjóðkirkjunnar síðustu átta árin og ekki fengið. Draumur minn var alltaf að geta verið prestur í minni heimabyggð, hann rættist og fyrir það er ég afskaplega þakklát. Það var einstaklega skemmtilegt að ég var kosin til prests á brúðkaupsdaginn minn 18. mars 2016 og tók síðan við embætti 1. maí.
Það eru forréttindi að fá að vinna og þjóna í bæjarfélaginu þar sem ég hef kynnst svo mörgum í gegnum tíðina. Starf mitt er einstaklega fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi. Við prestarnir erum mikið á ferðinni, meðal annars í kirkjunum, safnaðarheimilinu og förum inn á heimili fólks. Starfið getur tekið á andlega því við mætum fólki líka á erfiðustu stundum lífs þess.“

Fólk finnur sig ekki alltaf í helgihaldi
„Ég held að fólk hafi þörf fyrir að rækta hið andlega og kirkjan er staður til þess. Fólk finnur sig ekki alltaf í helgihaldi kirkjunnar og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að koma betur til móts við fólkið í samfélaginu. Við höfum leitast við að gera guðþjónusturnar aðgengilegri, létta helgihaldið til dæmis með því að syngja sálma sem ná betur til fólks. Breyta orðaforða, það má ekki gleyma sér í orðaforða sem enginn skilur, einhverskonar himnesku.
Það er alltaf hægt að bæta leiðir til að finna samfélagið við Guð,“ segir Arndís með bros á vör er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 29. september 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs