Ákveðið á félagsfundi að leysa upp Kaupfélag Kjalarnesþings

kaupfelagid

Deilur hafa staðið milli stjórnar Kaupfélags Kjalarnesþings og núverandi og fyrrverandi félagsmanna þess.
Skilanefnd hefur verið skipuð yfir félagið sem á fasteignir í hjarta Mosfellsbæjar, ásamt leigulóðarrétti við Háholt 16-24. ViðskiptaMogginn greindi frá stöðu mála á dögunum.
Deilurnar eru meðal annars sagðar snúast um að í aðdraganda aðalfundar voru nöfn tuga félagsmanna afmáð úr félagaskrá.
Á félagsfundi sem fram fór 23. ágúst gerði stjórnin tillögu um að skipuð yrði slitastjórn yfir félagið, eignir þess seldar og andvirðið greitt til félagsmanna eftir tilteknum reglum. Eigin fé félagsins yrði síðan varið til góðgerða- og líknarmála á félagssvæðinu.

Félagsmenn 85 talsins í dag
„Þetta er komið í formlegt slitaferli og skipuð hefur verið sérstök skilanefnd,“ segir Ragnheiður Þorkelsdóttir formaður skilanefndar.
„Kröfulýsingafrestur er tveir mánuðir og í kjölfarið útbýr skilanefnd kröfuskskrá og heldur fund með lánadrottnum félagsins. Þegar kröfurnar eru allar komnar á hreint og eignum félagsins komið í verð þá eru í raun allar kröfur félagsins greiddar.
Í kjölfarið er útbúin úthlutunargerð í samræmi við samþykktir félagsins og samvinnufélagalögin og þær samþykktir sem gerðar voru á þessum félagsfundum,“ segir Ragnheiður.
Samkvæmt skilanefnd eru félagsmenn nú 85 talsins og fær hver félagsmaður sitt stofnsjóðsframlag samkvæmt reglum félagsins.
„Það var ekki búið að uppfæra félagaskrána fyllilega þangað til tekinn var skurkur í því í sumar. Samkvæmt reglum félagsins voru ennþá einhverjir á félagatalinu sem uppfylla ekki skilyrði samþykktar að vera félagsmenn. Ýmist brottfluttir eða látnir.“

Meinaður aðgangur að aðalfundi
Og einhverjum var meinaður aðgangur að síðasta aðalfundi félagsins?
„Já, það voru einhverjir sem voru brottfluttir og svo voru vissulega aðrir sem höfðu verið skráðir en höfðu aldrei greitt félagsgjald samkvæmt bókhaldi félagsins. Það er forsenda félagsaðildar að gjaldið hafi verið greitt.“
En af hverju er þessi óánægja?
„Það eru margir sem spyrja sig hvaða hagsmunir búa þar að baki, sérstaklega í ljósi þess að megintilgangurinn og ætlunin er að peningarnir fari í góð málefni á svæðinu,“ segir Ragnheiður.
Samkvæmt deiliskipulagi er búið að skipuleggja kirkju og menningarhús á svæðinu. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að viðræður standi við ákveðinn aðila um kaup á eignunum fyrir 130 milljónir. „Það er ekkert frágengið með söluna og engar ákvarðanir hafa verið teknar,“ segir Ragnheiður. „Vissulega er þetta ákveðnum erfiðleikum bundið vegna óvissu um framtíð þessara lóða.“