Glæný hjólahreystibraut tekin í notkun í samgönguvikunni

pumpan1

pumpan2Samgönguvika fór fram í Mosfellsbæ 16.-22. september. Málþing var haldið í Hlégarði undir yfirskriftinni „Hjólum til framtíðar“. Þá var fjöldi smærri viðburða í boði þessa vikuna.
Hjólahreystibraut var tekin í notkun á Miðbæjartorginu við mikla kátínu yngri kynslóðarinnar. Brautin er sett upp í samstarfi við LexGames þar sem Alexander Kárason ræður ríkjum.
„Já, þetta er Pumpan í Mosó, pumptrack-braut. Hún er hönnuð þannig að þú þarft ekki að hjóla til að halda þér á ferð heldur notar líkamann til að pumpa þig áfram,“ segir Lexi. „Þetta er allt vísindalega hannað og hentar mörgum hópum, þeim sem eru á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum, hjólabrettum, BMX og fl.“

Stefnan sett á að keppa í hjólahreysti
Um er að ræða fyrstu braut sinnar tegundar á Íslandi. Pumpan stenst allar þær vottanir og kröfur sem leiktæki þurfa að hafa í dag. „Svo er auðvitað hjálmaskylda í brautinni.“
„Þetta er íþróttaaðstaða sem mikil þörf er á og er Mosfellsbær fyrsta sveitarfélagi sem tekur slíka braut í notkun. Brautin hentar gríðarlega breiðum hóp sem hefur litla sem enga aðstöðu fengið fyrir sitt sport.“
Lexi segir að næsta skref sé að fjölga brautum og standa fyrir keppni á milli bæjarfélaga og skóla. „Mig langar að koma á keppni í hjólahreysti. Snýst bæði um að fara sem hraðast og gera trikk.

Krakkar sem finna sig ekki í venjulegum íþróttum
Lexi segir að í Mosfellsbæ sé stærsti BMX-hópurinn á landinu. „Þetta eru krakkar sem margir hverjir eru greindir með ADHD eða eitthvað í þeim dúr. Þessir velvirku krakkar sem eiga erfitt með að vera kyrrir fá frábæra útrás í þessu. Oft er krökkum úthýst sem vandræðagemsum af því þeir þurfa á þessari hreyfingu að halda en finna sig kannski ekki í venjulegum íþróttum.
Lexi tók nýverið þátt í að breyta skólareglum í Lágafells- og Varmárskóla varðandi hjólabretti. „Áður var bannað að vera á hjólabrettum en nú er komið sérstakt svæði fyrir bæði hjól og bretti.“
Lexi hefur verið að nota sína eigin palla í verkefnin og bætir við að hjálmaskylda sé algjört lykilatriði.

Pumpan komin til að vera í Mosó
Pumpan mun á næstu vikum flytjast að íþróttahúsinu að Varmá þar sem hún mun fá varanlegan stað. Hjólabrettapallarnir sem hafa verið að Varmá munu þá flytjast á svæðið við hliðina á Áhaldahúsinu í Völuteigi. „Þetta er því allt í áttina,“ segir Lexi að lokum en hann hefur verið ötull í því að bæta þessa aðstöðu í samstarfi við Mosfellsbæ.