Hjóla í gegnum Mosó og keppa í hjólaspretti

hjolasprettur

Hjólreiðaviðburðurinn Tour of Reykjavik verður haldinn í fyrsta sinn sunnudaginn 11. september. Tour of Reykjavík býður upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum en keppnin sjálf er haldin í Laugardalnum og ýmist hjólað alla leið á Þingvelli eða styttri hringi í Laugardal og miðborginni.
Í lengstu vegalengdinni (110 km) verður hjólað í gegnum Mosfellsbæ. Bæði er um einstaklingskeppni og liðakeppni karla og kvenna að ræða en liðin samanstanda af fimm keppendum þar sem þrír bestu tímarnir telja.
Liðakeppni eykur spennuna í keppninni og er mjög þekkt í götuhjólreiðum erlendis eins og t.d. Tour de France en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt fyrirkomulag verður í keppni hérlendis.

Mesta spennan í Mosfellsbæ
Einn mest spennandi hluti keppninnar verður í Mosfellsbæ en þar fer POLAR spretturinn fram. Fjörið fer fram í Langatanga við Eirhamra þar sem hjólreiðafólkið mun taka u.þ.b. 300 metra sprett upp götuna.
Verðlaunað verður sérstaklega fyrir besta árangur karls og konu á þeim kafla en búast má við fyrstu hópunum um kl. 11. Tímatökubúnaður verður á staðnum, ásamt klukku, stóru uppblásnu marki, drykkjarstöð og plötusnúð.
Vonir standa til að Mosfellingar fjölmenni á göturnar og taki vel á móti keppendum en algengt er erlendis að berja á trommur, potta og allt það sem gefur frá sér hávaða. Hjólreiðafólkið kemur m.a. í fylgt lögreglu, dómarabíla, fjölmiðlabíls en útvarpað verður frá þessu í beinni útsendingu frá Rás 2.
Kjartan Freyr Ásmundsson frá ÍBR ásamt samstarfsfélögum sínum hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur segir: „Bæjarstjórn Mosfellsbæjar tók strax tekið vel í viðburðinn og starfsfólk aðstoðað við undirbúninginn en þess má geta að skátafélagið Mosverjar munu einnig annast brautargæslu um Nesjavallaleið, Grafning, Þingvallaleið og í gegnum Mosfellsbæ. Við kunnum öllum þessum aðilum bestu þakkir fyrir samstarfið.“

Skráning í keppnina er í fullum gangi á www.tourofreykjavik.is
en netskráningu lýkur föstudaginn 9. september kl. 23:00.