Aldrei jafn margar íbúðir byggðar á sama tíma

helgafellshverfi

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Mosfellsbæjar hafa aldrei verið byggðar jafn margar íbúðir samtímis í sögu bæjarins.
Bara í Helgafellshverfi einu er búið að gefa út byggingarleyfi fyrir ríflega 400 íbúðum en í aðalskipulagi er gert ráð fyrir samtals um 1.050 íbúðum í hverfinu. Auk þessa er búið að úthluta lóðum fyrir um 150 íbúðir í miðbænum, þ.e. við Þverholt og Háholt.

Frumhönnun Helgafellsskóla kynnt
Þessari hröðu uppbyggingu fylgir aukin þjónusta leik- og grunnskóla. Verið er að kynna frumhönnun Helgafellsskóla fyrir kjörnum fulltrúum, fræðslunefnd og stjórnendum Mosfellsbæjar þessa dagana.
Hönnunin er byggð á þarfagreiningu sem unnin var meðal annars með rýnihópum úr skólasamfélaginu ásamt leik- og grunnskólabörnum. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú þegar samþykkt að bjóða út jarðvegsframkvæmdir við 1. áfanga skólans.
Upplýsingar um byggingaráform og hönnun verða aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar innan tíðar.
Helgafellsskóli verður leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 1-15 ára. Gert er ráð fyrir að skólinn rísi í fjórum áföngum. Áætlað­ er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018 og að kostnaður við hann verði um 1.245 milljónir.

Hafa áhuga á hóteli í Sunnukrika
Í Mosfellsbæ er einnig öflug uppbygging á atvinnuhúsnæði. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ hefur verið sótt um lóðir í Sunnukrika. Svæðið er á aðalskipulagi skilgreint sem miðsvæði fyrir verslun og þjónustu. Lóðirnar hafa verið auglýstar til úthlutunar frá árinu 2005 en þær voru skipulagðar samhliða uppbyggingu hverfisins.
Bæjarráð hefur til umfjöllunar umsóknir um lóðirnar frá aðilum sem hafa áhuga á því að byggja upp hótel og/eða aðra starfsemi tengda ferðaþjónustu. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar að svo komnu máli.

Eflir þjónustu og atvinnumöguleika
„Að mati sérfræðinga í skipulagsmálum fer rekstur hótela vel saman við íbúabyggð,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Til dæmis er mun minni og dreifðari umferð við hótel en við íbúðarhúsnæði eða verslunarkjarna auk þess sem umhverfi þeirra er yfirleitt snyrtilegt ásýndar.
Að mínu mati myndi slík uppbygging auk þess að efla þjónustu og atvinnumöguleika í bænum gefa kost á frekari uppbyggingu á verslun og þjónustu í miðbænum,“ segir Haraldur.