„Þakklát fyrir að vera á lífi“

siggasveinbjorns

Mosfellingurinn Sigríður Sveinbjörnsdóttir lenti í alvarlegu bílslysi á Þingskálavegi í Rangárvallasýslu þann 20. ágúst.
Slysið var með þeim hætti að bíll sem kom úr gagnstæðri átt fór yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl Sigríðar. Bílstjóri hins bílsins lést samstundis.
„Við hjónin erum að byggja sumarbústað í Heklubyggð, ég skaust í Húsasmiðjuna og var á leið til baka þegar slysið varð. Ég var sem betur fer á stórum bíl og er ekki í neinum vafa um að það, loftpúðarnir og bílbelti björguðu því að ekki fór verr,“ segir Sigríður.

Var send með þyrlu á Landspítalann
„Ég man nú ekki alveg atburðarásina á slysstað en það var björgunarsveitamaður sem kom að slysinu og tilkynnti það. Ég náði að hringja í Frímann manninn minn og þegar hann kom á vettvang voru lögreglan, sjúkraflutningamenn og læknir kominn á staðinn.
Slysið var tilkynnt um kl. 13:30 og þyrlan lenti með mig á Landspítalanum um kl. 14:30, ótrúlegur viðbragðsflýtir.“
„Þegar ég kom á spítalann fór í gang ferli með ítarlegri skoðun og myndtökum. Í kjölfarið fór ég í fjögurra tíma aðgerð á fótunum. Áverkarnir sem ég hlaut voru miklir, ég var með opin beinbrot á báðum ökklum, hægri hnéskelin margbrotnaði en sú vinstri fór bara í tvennt. Auk þess brákaðist beinið sem er utan um hægri mjaðmakúlu, bringubein brákaðist, rifbein brotnaði, áverkar á hægri hendi og svo fékk ég stórt brunasár og mikið mar eftir bílbeltið.
Þrátt fyrir alla þessa áverka þá er ég svo þakklát að bakið á mér og hálsinn er í lagi,“ segir Sigríður af æðruleysi.

Byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi
„Ég var 11 daga á spítalanum, fékk að fara heim 31. ágúst eftir að fagaðilar höfðu tekið heimilið út og gefið grænt ljós á að ég gæti athafnað mig. Ég var með gifs á báðum fótum og við þurftum að gera lítilsháttar breytingar til að auðvelda mér lífið.
Það var yndislegt að koma heim og vera umvafinn sínum nánustu. Ég losnaði við gifsið þann 5. október, það var mikill léttir þó að ég þurfi enn að notast við hjólastólinn. Ég er byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi, er þar í góðum höndum frábærs fagfólks. Ég sóttist eftir því komast að þar enda stutt að fara og yndislegt að vera þar.“

Þakklæti er mér efst í huga
„Þetta hefur gengið vel og ég er þakklát fyrir hvert lítið skref sem ég næ í bataferlinu. Ég er endalaust þakklát fyrir fjölskylduna, vini mína og lífið. Ég ætla að taka þessu verkefni með jákvæðni og brosi á vör og sigrast á þessu.
Svona slys hefur mikil áhrif á fjölskylduna og vini. Við Frímann eigum 6 börn og öll upplifum við þetta á misjafnan hátt. Við höfum notið stuðnings sr. Arndísar Linn til að takast á við þetta og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir frábær og fagleg vinnubrögð. En það sem er mér efst í huga er þakklæti,“ segir Sigríður að lokum.