Skrifar sjónvarpsþætti sem gerast í Mosfellsbæ

doriumfa

Þessa dagana stendur yfir undirbúningur að sjónvarpsþáttaröð sem nefnist Afturelding. Þættirnir sem verða níu talsins munu að mestu gerast í Mosfellsbæ.
Það er Mosfellingurinn Halldór Halldórsson eða Dóri DNA sem skrifar handritið í samstarfi við Hafstein Gunnar Sigurðsson, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Jörund Ragnarsson.
„Upphaflega hugmyndin var að gera gamanmynd en svo þróaðist þetta í þá átt að gera sjónvarpsþætti. Þetta er dramasería með glettnu ívafi og sögusviðið er handboltaheimurinn.
Við ákváðum að nota Mosfellsbæ, íþróttahúsið að Varmá og Reykjalund svo eitthvað sé nefnt, þar sem ég er með góða þekkingu á þessum stöðum. Svo komumst við að því að þessir staðir hafa verið lítið notaðir í kvikmyndaheiminum, svolítið eins og óplægður akur,“ segir Dóri DNA.

Þjálfar kvennalið Aftureldingar
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningamálanefnd, Kvikmyndasjóði Íslands og RÚV. „Þættirnir fjalla um Skarphéðinn, sem var leikmaður í sigurliði Íslands á B-keppninni í Frakklandi árið 1989. Hann er að snúa heim eftir veru erlendis og fær það starf að þjálfa kvennalið Aftureldingar. Honum finnst það langt fyrir neðan sína virðingu og það gengur á ýmsu,“ segir Dóri.
Næsta ár mun fara í fjármögnun en stefnt er að tökum árið 2018.