Steig langt út fyrir þægindarammann

einarhreinn

Einar Hreinn Ólafsson matartæknir á Leikskólanum Reykjakoti eflir heilsu barnanna með góðri næringu en hann eldar allan mat frá grunni.

Einar Hreinn hóf störf í eldhúsi Reykjakots í september 2014. Hann hefur breytt fæðuvali og aðgengi barna og starfsfólks að hollum næringarríkum mat svo eftir hefur verið tekið, enda eldar hann allt frá grunni.
Hann útskrifaðist um jólin sem matartæknir og stefnir á áframhaldandi nám. Einar Hreinn segir matreiðsluna spennandi viðfangsefni og ætlar sér alla leið í þeim efnum.

Einar Hreinn er fæddur í Reykjavík 5. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Sólrún Maggý Jónsdóttir ræstitæknir á Reykjalundi og Ólafur H. Einarsson húsasmíðameistari. Einar á tvö systkini, Hugrúnu Ósk fædda 1975 og Daníel Óla fæddan 1991.

Lánsamur að eiga góða að
„Ég sleit barnsskónum í Mosfellssveit og átti hamingjuríka æsku fulla af leik í óbyggðum sveitarinnar. Amma mín, Unnur, og fimm systkini mömmu hafa alltaf verið stór hluti af mínu daglegu lífi og það er líf í tuskunum alla daga. Ég er lánsamur að eiga þessa fjölskyldu að.
Pabbi minn veiktist alvarlega af krabbameini þegar ég var sex ára og settu veikindi hans varanlegt mark á mig. Spítalaheimsóknir og ótti við að missa góða pabba minn sem og aðra ástvini var sífellt í bakgrunni. Mamma var kletturinn í lífi okkar og stóð sig eins og hetja í gegnum þetta allt saman. Hún gerði þessa lífsreynslu eins bærilega fyrir okkur systkinin eins og hægt var. Í dag er pabbi laus við meinið.“

Níuþúsundasti íbúi Mosfellsbæjar
„Ég gekk í Varmárskóla og eignaðist góða vini í skólanum og þá sérstaklega Benjamín­ Inga, sem er gæðablóð og minn besti vinur enn í dag. Eftir útskrift úr Gaggó prófaði ég nokkra skóla og vinnustaði og lærði að vinna erfiðisvinnu.“
Fljótlega upp úr tvítugu kynntist Einar Hreinn eiginkonu sinni, Ingunni Stefánsdóttur, leikskólakennara, sem ávallt er kölluð Inga, og með þeim tókust ástir. Þau eiga fjögur börn, Bryndísi Emblu fædda 1993, Davíð Ísar fæddan 2001, Ólaf Nóa fæddan 2007 og Edward Leví. Gaman er að segja frá því að Edward fæddist heima við 15. janúar 2013 og varð níuþúsundasti íbúi Mosfellsbæjar.

Fann sér nýtt áhugamál
„Þegar yngri drengirnir okkar tveir voru litlir starfaði konan mín á leikskóla á daginn og ég á Hlein á Reykjalundi á kvöldin. Ég fór í sjúkraliðanám og var þetta fyrirkomulag okkar hjóna mjög heppilegt fyrir börnin. Það var alltaf einhver heima til að taka á móti þeim eftir skóla og eins ef þau urðu veik.
Þegar Ólafur Nói fór í leikskóla þá myndaðist mikill frítími hjá mér svo ég ákvað að finna mér nýtt áhugamál. Bakstur varð fyrir valinu og ég æfði mig út í eitt. Ég fékk einnig leiðsögn hjá tengdamömmu þar til ég var orðinn fær um að baka góð brauð og eiginlega allt sem flokkast undir nytjabakstur.
Börnin vöndust því að fá brauðbollur og heit vínarbrauð þegar þau komu heim úr skólanum og þetta nýja áhugamál nýttist því heimilinu og buddunni vel.“

Leitaði sér að nýrri vinnu
„Það kom að því að ég þreyttist á vaktavinnunni og litlum samvistum við konuna mína svo ég fór að kíkja í kringum mig eftir nýju starfi. Inga hvatti mig til að sækja um matráðsstarf á leikskólanum Reykjakoti.
Ég hugsaði af hverju ekki, fyrst ég gat kennt sjálfum mér að baka, af hverju ætti ég þá ekki að geta kennt sjálfum mér að elda fyrir heilan leikskóla. Blanda saman áhugamálinu með vinnu og stíga óþægilega langt út fyrir þægindarammann.“

Mætti blautur bak við eyrun
„Gyða Vigfúsdóttir fyrrum leikskólastýra á Reykjakoti gaf mér tækifæri til að spreyta mig í eldhúsinu. Ég kom gjörsamlega blautur bak við eyrun í nýju vinnuna mína og hélt í fáfræði minni að allir í mötuneytum elduðu allt frá grunni. Ég og konan mín höfðum reynslu af hversu mikill peningasparnaður er fólginn í því.
Bakstursævintýrið mitt hafði fengið byr undir báða vængi og ég eignaðist ástríðufullt áhugamál, matreiðsluna. Ég aflaði mér eins mikillar þekkingar og ég gat upp á eigin spýtur. Lærði um matreiðsluaðferðir, hráefni og næringarþörf barna.
Sjúkraliðanámið reyndist góður grunnur að nákvæmni og hreinlæti svo í raun var ég að byggja ofan á það.“

Auknar líkur á hollum matarvenjum
„Ég kynnti mér skólaverkefni sem Jamie­ Oliver hefur unnið við, að bæta matarmenningu skólaeldhúsa og barna yfir höfuð. Ég setti mig í samband við fyrirtækið hans og í framhaldi fékk ég leiðsögn frá þeim til að hefja matreiðslukennslu fyrir börnin og tengja það við grænmetisræktun sem hafði þegar verið framkvæmd í skólanum í nokkur ár.
Grunnhugmyndin hjá Jamie Oliver er að ef börn læra að rækta, elda og borða hollan mat unninn frá grunni þá séu auknar líkur á hollum matarvenjum þegar þau eldast.“

Matreiðsla með börnunum næsta skref
„Við vorum nú þegar að rækta og elda svo matreiðslan með börnunum var eiginlega næsta skref. Við Inga konan mín höfum þróað þetta í sameiningu. Hún hefur séð um fræðilega þáttinn og ég um framkvæmd. Við erum með matreiðslukennslu fyrir elstu tvo árgangana í Reykjakoti og börnin koma sex sinnum á vetri til mín.
Í tímunum tölum við um mat, næringu og tannvernd ásamt því að matreiða einfalda rétti. Börnin fá svuntu og áhöld við hæfi og umfram allt höfum við gaman til að gleðin við að matreiða smitist yfir til barnanna. Þetta verkefni er ótrúlega skemmtilegt og hefur gefið mér meiri þekkingu á hugarheimi og vitneskju barna um mat en ég hefði annars fengið.“

Gerir kröfu um gæði hráefna
„Ég elda allan mat frá grunni og fel eins mikið grænmeti og ég get í réttunum svo börnin borða mikið af því án þess að vita það sjálf.
Ég leita bestu tilboða hverju sinni, geri kröfur um gæði hráefna og nýti þau vel. Ég kýs að næra dýrmætu leikskólabörnin mín eins vel og ég mögulega get. Þannig legg ég mitt af mörkum við að fara vel með fjármagn leikskólans og þar með bæjarbúa.
Ég hefði aldrei getað þetta allt nema með stuðningi og hvatningu frá Gyðu vinkonu minni leikskólastýru og ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst þeirri einstöku konu.“

Naut þess að vera í skólanum
„Í haust ákvað ég að afla mér réttinda til að stýra mötuneyti og lauk nú um jólin námi í matartækni. Ég lærði margt nýtt og naut þess að vera í skólanum. Hluti af náminu var að reikna út næringargildi matseðla og því hef ég nú reiknað út næringargildi alls sem ég elda fyrir börnin og set viðmið um skammtastærðir. Í náminu var sérstaklega kennt um sérfæði sem er alltaf einhver hluti af mötuneytismatreiðslu og fékk ég alls kyns góð ráð um mat fyrir börn með óþol og ofnæmi.
Matreiðsla er mjög spennandi viðfangsefni og um þessar mundir er ég að hefja matreiðslunám. Ég get ómögulega látið staðar numið hér, ég ætla alla leið,“ segir Einar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 11. janúar 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

Þægindi og tímasparnaður fyrir fjölskyldur

Sveinn Matthíasson og Guðrún Helga Rúnarsdóttir.

Sveinn Matthíasson og Guðrún Helga Rúnarsdóttir.

Matarboxið er ný þjónusta fyrir fólk sem vill þægindi og tímasparnað við undirbúning máltíða fyrir fjölskylduna.
Nýverið opnaði fyrirtækið Matarboxið í Desjamýri 1. Það eru þau Guðrún Helga Rúnarsdóttir og Sveinn Matthíasson sem eiga og reka Matarboxið. Matarboxið býður upp á heilsusamlegt, fjölbreytt gæðahráefni ásamt uppskriftum fyrir alla fjölskylduna sem raða má saman að óskum hvers og eins.
„Minn grunnur er að ég er næringarráðgjafi,“ segir Guðrún Helga. „Það sem ég hef rekið mig á þegar ég er að hjálpa fólki er að það er ekkert mál að segja því hvernig það á að borða. Vandamálið er að fara í búðina, kaupa inn ný hráefni og fara heim og elda.
Matarboxið er einfalt, þú pantar, við tökum saman pöntunina og sendum þér heim að dyrum þér að kostnaðarlausu,“ segir Guðrún Helga.

Hollur matur úr úrvals hráefni
Á heimasíðunni matarboxid.is er að finna fjölbreytt úrval rétta sem fólk getur valið og fengið senda heim. Hægt er að velja fyrirfram ákveðin box eða velja sinn eigin matseðil. Hægt er að fá alla rétti fyrir annað hvort tvo eða fjóra einstaklinga.
„Matarboxið er þjónusta fyrir fólk sem vill borða fjölbreyttari og hollari mat úr úrvalshráefni, prófa nýja rétti, vill aukin þægindi og minnka matarsóun og kostnað.
Fólk fær senda til sín þá rétti sem það velur, allt hráefni sem til þarf og uppskrift. Það sparar tímann að fara í búðina og notar hann frekar til að elda heima.“

Bjóða upp á fjölbreytt val
„Við bjóðum upp á 10-15 rétti í hverri viku og skiptum út matseðlinum vikulega. Við setjum saman box með þremur réttum. Núna bjóðum við upp á Box vikunnar og Veganbox og ætlum svo að bæta við Lágkolvetnaboxi fljótlega.
Það sem okkur sýnist vera vinsælast hjá fólki er að blanda saman réttunum og jafnvel taka mismunandi rétti fyrir fjölskylduna. Það er hægt að panta hjá okkur og fá heimsent alla virka daga.
Við opnuðum í desember og þetta hefur farið vel af stað, við erum opin fyrir öllum ábendingum. Við ætlum að mæta þörfum viðskiptavina okkar á sem bestan hátt,“ segir Guðrún Helga að lokum og bendir fólki á heimasíðuna þeirra þar sem allar upplýsingar að finna.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2018

fyrstabarn_stærrimynd

Þann 1. janúar kl. 15:37 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2018 á Landspítalanum. Það var stúlka sem mældist 3.502 gr og 50 cm. Foreldrar hennar eru Arnannguaq Hammeken og Maciek Kaminski og búa þau í Skeljatanga 39.
Stúlkan er fyrsta barn foreldra sinna en þau fluttu nýverið í Mosfellsbæinn og líkar vel. „Hún átti að koma í heiminn 27. desember en kom mjög snögglega fyrsta daginn á nýju ári. Allt gekk mjög vel og hún er vær og góð, drekkur bara og sefur,“ segir Arnannguaq sem kemur frá Grænlandi en Maciek kemur frá Póllandi. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með stúlkuna.

Rafræn kosning um íþróttakarl og -konu

Kosning fer fram í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar.

Kosning fer fram í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar.

Búið er að tilnefna 23 einstaklinga til íþróttakarls og -konu Mosfellsbæjar 2017. 10 karlar eru tilnefndir og 13 konur.

Bæjarbúum gefst kostur á, ásamt aðal- og varamönnum í íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa. Kosningin fer fram á vef Mosfellsbæjar www.mos.is dagana 11.-15. janúar. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti. Úrslit verða kynnt fimmtudaginn 18. janúar kl. 19 í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þangað eru allir velkomnir. Á myndinni hér að ofan má sjá íþróttamenn Mosfellsbæjar 2016, þau Telmu Rut og Árna Braga.

Smelltu hér til kynna þér íþróttafólkið nánar og kjósa!

Jón Kalman Mosfellingur ársins 2017

mosiarsins2018

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson er Mosfellingur ársins 2017. Hann gaf út skáldsöguna Saga Ástu fyrir jólin og fékk hún hvern fimm stjörnu dóminn á fætur öðrum.
Jón Kalmann er einn af fremstu rithöfundum þjóðarinnar og hefur margsinnis verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Á árinu var hann jafnframt orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.
Jón Kalman býr með eiginkonu sinni, börnum og hundi í Svöluhöfða og hefur fjölskyldan búið í Mosfellsbæ í rúm 20 ár.
„Maður er bara glaður að fólki finnst ástæða til þess að velja mig,“ segir Jón Kalman um útnefningu Mosfellings. „Þá kannski hefur maður gert eitthvað gott.“

mosfellingurarsins_afhendingByrjaður að skrifa næstu bók
Fyrsta bók Jóns Kalmans kom út árið 1988 og á hann því 30 ára rithöfundaafmæli á árinu. Hann hefur gefið út 3 ljóðabækur og 12 skáldsögur.
Er reglan að gefa út bók annað hvert ár?
Það hefur verið rytminn síðustu árin en ekkert kappsmál. Ég tek mér svona rúmt ár í hverja bók en kannski á eftir að hægjast eitthvað á manni.
Ertu byrjaður á nýrri bók?
Já, ég byrjaði á nýrri bók undir lok síðasta sumars en ég kláraði Sögu Ástu um vorið. Annars tala ég aldrei um það sem ég er að vinna að.
Hvenær megum við eiga von á næstu bók?
Það verður bara að koma í ljós. Ef takturinn helst þá verður það í lok árs 2019 en svo gæti það líka alveg eins orðið 2029. Skáldskapurinn er þannig að þú getur ekki sagt honum fyrir verkum.
Og skrifarðu mest heima í Svöluhöfðanum?
Yfirleitt vinn ég heima en hef farið í sumarbústað eða til útlanda. Ég kláraði t.d. Sögu Ástu með því að vera tvo mánuði í París. Ætli ég geri ekki meira af því í framtíðinni. Það er mjög gott að geta einbeitt sér algjörlega að því sem maður er að gera.

Ekkert lát á hugmyndaflæðinu
Í kvöld verður Himnaríki og helvíti frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.
„Þetta verður löng sýning í þremur hlutum. Ég hef svosem ekkert skipt mér af uppfærslunni en ég er mjög spenntur að sjá útkomuna. Vonandi sér maður eitthvert nýtt og sjálfstætt verk.
Fram undan hjá Jóni er einnig útgáfa nýjustu bókarinnar erlendis og eftirfylgni sem tengist því.
En fær maður endalausar hugmyndir að nýjum sögum?
„Ég er alltaf opinn og með alla anga úti, þó oftast án þess að velta því fyrir mér. Maður er alltaf að taka inn umhverfið. Hingað til hefur ekkert lát verið á hugmyndaflæðinu en verkin verða oft til á meðan maður er að skrifa þau. Skáldskapurinn er þannig að það er svo mikil óvissa í honum að þú getur ekki skipulagt hann. Það finnst mér mjög fallegt og mikilvægt.
Færðu einhvern innblástur í Mosó?
Maður er alltaf undir áhrifum frá umhverfi sínu og yfirleitt áhrif sem erfitt er að setja fingur á. Ég sæki mikið í náttúruna hér í kring og það andar einhvern veginn inn.
Nafn þitt kom upp í tengslum við Nóbelsverðlaun, hefur þú eitthvað pælt í því?
Ekki þannig, en auðvitað ákveðin truflun inn í hversdaginn manns. Ég lá samt ekkert andvaka. Ég átti ekkert von á því að hljóta titilinn, það eru svo margir góðir höfundar til í heiminum. En auðvitað mikill heiður og ánægja að vera nefndur.
Hvað myndir þú gera ef þú ynnir Nóbelinn?
Ef ég á að segja alveg eins og er þá hef ég ekkert velt því mikið fyrir mér. En ég myndi kaupa besta viskíið sem til er í ríkinu og njóta gleðinnar.

Ný strætóleið tekin í notkun

Strætó gengur nú í Leivogstungu- og Helgafellshverfi.

Strætó gengur nú í Leivogstungu- og Helgafellshverfi.

Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á leiðarkerfi Strætó um áramótin. Breytingarnar eru liður í að ná fram því markmiði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta þjónustu og fjölga þannig notendum.
Fyrir Mosfellinga ber helst að nefna leið 7 sem kemur ný inn í leiðarkerfið og gengur á 30 mínútna fresti. Leiðin eflir verulega þjónustu við íbúa og gesti Leirvogstungu- og Helgafellshverfis. Leiðin ekur frá Spöng, framhjá Egilshöll, í gegnum Staðarhverfi, inn í Helgafellshverfi, í Leirvogs­tunguhverfið og til baka.
Nánari upplýsingar um ferðir má finna á www.straeto.is.

Fulltrúum íbúasamtakanna boðið á rúntinn
Fyrsta ferð nýrrar leiðar var farin sunnudagsmorguninn
7. janúar og fóru nokkrir í vettfangsverð um nýju hverfin. Þar á meðal starfsmenn frá Mosfellsbæ, bæjarstjóri, framkvæmdastjóri Strætó og fulltrúar íbúasamtaka Leirvogs­tungu- og Helgafellshverfis.
Góður rómur var gerður að þessari nýjung í samgöngumálum í Mosfellsbæ og farþegar lukkulegir að sjá.

leid7kort

taflan

 

Ánægðir íbúar í Mosfellsbæ

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

Mosfellsbær er í öðru sæti samkvæmt árlegri könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga en könnunin mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 91% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. Athyglisvert er að varla sést neinn munur á afstöðu til þessarar spurningar eftir bakgrunnsbreytum eins og aldri, kyni, menntun eða tekjum.

Í fremstu röð meðal sveitarfélaga
Alls eru 84% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 84% mjög eða frekar ánægðir sem er óbreytt hlutfall milli ára. Þegar spurt er um gæði umhverfisins í nágrenni við heimili reynast 83% ánægðir og 78% eru ánægð með þjónustu í tengslum við sorphirðu bæjarins og er Mosfellsbær þar í efsta sæti meðal sveitarfélaga. Ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 75%.
Mosfellsbær er samkvæmt könnuninni vel yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum og raunar í fremstu röð meðal sveitarfélaga sem mældir eru nema einum. Sá málaflokkur er þjónusta grunnskóla bæjarins sem dalar lítillega milli ára. Þessar niðurstöður er því mikilvægt að rýna og nýta þannig til þess að gera enn betur á nýju ári, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Mikill uppbygging
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ þar sem nýtt hverfi í Helgafellslandi rís nú á miklum hraða og stefnt er að opnun Helgafellsskóla í byrjun árs 2019. Íbúum fjölgaði á síðasta ári um 8% sem verður að teljast verulegur vöxtur og verkefni bæjarins er að sjá til þess að þessi vöxtur hafi jákvæð áhrif á íbúana og þjónustu við þá.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist ánægður með útkomuna og að könnunin veiti upplýsingar sem unnt sé að nýta til að gera gott enn betra.
„Það er gott að fá það enn og aftur staðfest að Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn. Við höfum ávallt verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á, og ég er stoltur af því. Fólk vill setjast að í bænum okkar eins og sést á hinni miklu íbúafjölgun sem nú á sér stað. En það má alltaf gera betur og við þurfum að huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni.“

Heildarúrtak í könnuninni er 11.700 manns, þar af 438 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.

Undirbúningur hafinn fyrir þorrablót UMFA

alefliþorra

Þorrablót Aftureldingar verður haldið í íþróttahúsinu að Varmá 20. janúar. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 12. janúar á Hvíta Riddaranum.
Líkt og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Mikil stemning hefur myndast í aðdraganda blótsins og uppselt hefur verið undanfarin ár.
Þorrablótið á sér langa sögu í menningu bæjarins, fyrsta blótið sem haldið var í þessari mynd var árið 2008 og er því 10 ára afmælisblót í ár. Þetta er stærsta fjáröflunarsamkoma Aftureldingar sem haldin er en það eru handknattleiksdeildin og knattspyrnudeildin sem halda blótið ár hvert.

Þorramatur og lambalæri úr Kjötbúðinni
Að vanda sér Geiri í Kjötbúðinni um matinn og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því auk hins hefðbundna þorramatar verður á boðstólnum lambalæri og með því.
Hin þjóðkunni Gísli Einarsson er veislustjóri og Salka Sól, Magni og Eyþór Ingi munu halda uppi stuðinu á dansgólfinu fram eftir nóttu ásamt hljómsveit Mosfellingsins Tomma Tomm.
Borðaskreytingar munu fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi. Mikill metnaður hefur verið í borðaskreytingum hjá blótsgestum og er það orðinn stór partur af þorrablóts­undirbúningnum. Veitt eru verðlaun fyrir skreytingarnar, þar sem óháð dómnefnd dæmir borðin og gefur stig.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.

Ein á viku

heilsumolar11

Við hjónin ákváðum yfir hátíðarnar að fara með fjölskylduna í eina fjallgöngu á viku árið 2018. Fell telja líka með, sem er praktískt þegar maður býr í Mosfellsbæ. Ástæðan fyrir ákvörðuninni var sú okkur fannst vanta aðeins meiri samverustundir, utandyra, með yngstu guttunum okkar. Við vorum dugleg í fjallaferðum með elstu syni okkar en áttuðum okkur á því að þeir yngri, sérstaklega sá yngsti, hafa fengið minni skammt en hinir. Það var alls ekki meðvitað og kom okkur eiginlega á óvart þegar við gerðum okkur grein fyrir þessu. Þetta bara gerðist, að við fækkuðum útivistarferðunum. Líklega vegna þess að það er margt í gangi hjá okkur og dagarnir þéttskipaðir. En það er engin afsökun fyrir því að nýta ekki þessa frábæru náttúru sem við höfum svo góðan aðgang að.

Í gær gengum við á Lágafell. Í fyrsta skipti! Það er ótrúlegt eftir að hafa búið í næstum 18 ár í Mosfellsbæ. Það hefur bara einhvern veginn ekkert togað okkur upp á Lágafellið. Við hófum gönguna í Krikahverfinu, fórum upp göngustíg sem liggur frá Litlakrika. Þaðan í roki, hálku og stundum rigningu upp á Lágafellið. Við fundum góðan snjó, gerðum skakkan snjókarl og nutum útsýnisins þegar við vorum komin á toppinn. Útsýnið af Lágafellinu er betra en maður gerir ráð fyrir. Síðan fórum við niður við Olíshringtorgið, komum við í bakaríinu til að ná okkur í munkabrauð og röltum svo í rólegheitum þaðan yfir brúna í Krikahverfið til að ná í bílinn.

Miklum rólegheitum verður að segjast, það var mjög hált og við lengi að koma okkur á milli staða. Allt í allt tók þetta um 2 klukkustundir. Komum hundblaut en katthress heim eftir góða samverustund í hressandi vetrarveðri í mosfellskri náttúru. Nú er bara að láta sig hlakka til næstu fjalla- eða fellagöngu. Þetta verður gott ár!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. janúar 2018

Býður sig fram til að leiða listann áfram

halli1

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri mun bjóða sig fram til að leiða lista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ tók ákvörðun um það fyrir nokkru að viðhaft skyldi prófkjör við val á lista og fer það fram 10. febrúar nk. Haraldur hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og verið bæjarstjóri Mosfellsbæjar frá október 2007. „Ég hef brennandi áhuga á sveitarstjórnarmálum og vil bjóða fram krafta mína og reynslu til að vinna að málefnum Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili. Ég er Mosfellingur inn að beini og hef notið þess að vinna fyrir bæjarbúa sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri undanfarin ár og langar til að halda því áfram,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Haraldur er giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi og forstöðumanni hjá Fjársýslu ríkisins og á hann þrjú börn Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára.

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

mosfellingurársinsáheimasíðu2018

Val á Mosfellingi ársins 2017 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar hér að neðan. Þetta er í þrettánda sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir og Guðni Valur Guðnason.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 11. janúar.

Gefur kost á sér í 4.-6. sæti

solveigfrankl

Sólveig Franklínsdóttir gefur kost á sér í 4.- 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 10. febrúar. Sólveig er markþjálfi frá Evolvia og starfar einnig sem klinka á tannlæknastofunni Fallegt bros. Hún er í fulltrúaráði Sjálfstæðis­flokks Mos­fells­bæjar og situr í þróunar- og ferðamálanefnd bæjarins og áður sem áheyrnar­fulltrúi í fræðslunefnd. Hún var áður formaður foreldrafélags Varmárskóla og hefur verið virk í sjálfboðaliðastarfi innan skóla- og skátasamfélags bæjarins. Sólveig gegnir einnig trúnaðarstörfum fyrir Skylmingafélag Reykjavíkur og situr í stjórn þess félags. Hún hefur brennandi áhuga á að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu bæjarins. Sólveig er ekkja og hefur búið í Mosfellsbæ í 15 ár. Sambýlismaður hennar er Örn Gunnarsson greiningar­sérfræðingur hjá Landhelgisgæslu Íslands og sonur hennar er Franklín Ernir 15 ára.

Rúnar Bragi gefur kost á sér í 4. sæti

runar4

Rúnar Bragi Guðlaugsson varabæjarfulltrúi gefur kost á sér á lista Sjálfstæðismanna í prófkjörinu 10. febrúar nk. „Ég hef ákveðið að sækjast eftir fjórða sæti listans, og óska ég eftir þínum stuðningi í prófkjörinu,“ segir í tilkynningu frá Rúnari Braga. „Ég er varabæjarfulltrúi, formaður íþrótta- og tómstundanefndar og einnig formaður þróunar- og ferðamálanefndar, ásamt því að gegna varaformennsku í heilbrigðisnefnd Kjósasvæðis. Ég hef tekið þátt í starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá því við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2006, hef verið í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Mosfellsbæ og er í dag í stjórn fulltrúaráðsins í Mosfellsbæ.“
Rúnar er giftur Bylgju Báru Bragadóttur og eiga þau tvö börn, Braga Þór 23 ára og Birtu Rut 16 ára. Rúnar starfar sem framkæmdastjóri hjá Einari Ágústssyni & Co.

Fyrirmyndin Rey

gaui21des

Áttu dóttur? 10 ára eða eldri? Bjóddu henni með þér á nýju Star Wars myndina. Þar fær hún að sjá virkilega öflugar fyrirmyndir. Heilsteyptar, yfirvegaðar, öruggar, leitandi, traustar og hugaðar konur sem eru í lykilhlutverkum í myndinni. Rey, aðalpersóna myndarinnar, fer þar fremst í flokki.

Það sem mér fannst best við kvenpersónurnar í myndinni var að þær eru fyrst og fremst persónur í stað þess að vera stillt upp sem kynþokkafullum gyðjum. Myndin snýst um jafnvægi, baráttu milli góðs og ills, á mörgum sviðum. Ég er enginn Star Wars aðdáandi og hef held ég bara séð fyrstu myndina – eða þá fjórðu, eftir því hvernig maður telur þær. Það var fyrir mörgum tugum ára. En þessi mynd er virkilega góð, það eina slæma við hana er íslenska hléið sem rífur mann hratt og örugglega út úr myndinni og hendir inn í raunheima með krafti. En maður var reyndar snöggur að komast aftur inn í myndina eftir hléið, hún er það grípandi.

Ég fór með 15 ára syni mínum. Þeir eldri voru búnir að sjá hana og sá yngsti aðeins of ungur enn. Ég á engar dætur en hefði að sjálfsögðu tekið þær með. Ég á litla frænku, en hún er bara tveggja ára og því nokkur ár í að hún fái að horfa á myndina. Kvikmynd eins og þessi sem gerir ekki út á týpísk hlutverk kynjanna, eins og oft verður í bíómyndum, ætti að vera skylduáhrif fyrir alla sem hafa aldur til. Hún sýnir manni að kynið skiptir ekki máli þegar kemur að því að hugsa, læra, meta aðstæður og taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Hún sýnir manni að það sem skiptir máli er að vera trúr sjálfum sér og sínu fólki, þora að fylgja eigin samvisku, trúa á það sem skiptir máli og láta ekki aðra fara illa með sig.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. desember 2017

Vanda mig við að njóta hvers dags

elisabet_hreiðar

Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara segist lánsöm að eiga góða fjölskyldu og trausta vini. Hún segir það ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í lífi Elísabetar Sigurveigar Ólafsdóttur síðastliðin tvö ár. Hún missti eiginmann sinn úr heilakrabbameini eftir 14 mánaða veikindi og sex ára barnabarn hennar greindist með bráðahvítblæði á árinu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuárin á Vopnafirði, líflegan tíma á Hressingarskálanum, árin hjá Ríkissáttasemjara og veikindaferli eigin­mannsins.

Elísabet Sigurveig er fædd á Akureyri 9. júní 1955. Foreldrar hennar eru þau Þrúður Sigríður Björgvinsdóttir og Ólafur Pétursson en þau eru bæði látin. Þau hjónin voru lengst af bændur á Vopnafirði. Elísabet á hálfbróður, Sigurð Þór, fæddan 1938. Hann var bóndi á Vopnafirði en seldi jörðina og nýtur þess nú að ferðast um heiminn.

Hlakkaði til að fá borgarbörnin í sveitina
„Ég ólst upp á Vopnafirði þar sem veðrið er best á Íslandi á sumrin. Það var gott og áhyggjulaust að alast upp í sveitinni. Ég og bróðir minn ólumst ekki upp saman þannig að ég saknaði þess að eiga ekki systkini á svipuðum aldri. Ég hlakkaði mikið til á vorin þegar borgarbörnin komu til okkar í sveitina. Mér fannst alltaf skemmtilegast að vera úti og vinna með pabba. Elskaði hestana og kindurnar en mér fannst kýrnar alltaf­ frekar leiðinlegar.“

Vináttan dýrmætari með ári hverju
Elísabet var í heimavistarskóla á Torfastöðum og fór svo í gagnfræðaskóla Vopnafjarðar. „Mér fannst alltaf gaman í skólanum og stærðfræði var mitt uppáhaldsfag. Í dag er ég í félagi sem heitir „Skotveiðifélagið“ sem samanstendur af skólasystrum og vinkonum frá Vopnafirði. Við hittumst einu sinni í mánuði og vináttan verður dýrmætari með hverju árinu sem líður.
Ég tók landspróf í Reykholtsskóla sem var mikil upplifun og þaðan á ég marga góða vini.
Eins og margar stelpur í „gamla daga“ langaði mig til að verða búðarkona. Sá draumur rættist mörgum áratugum seinna þegar við vinkonurnar skelltum okkur í sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum. Við fengum að starfa í búðinni þeirra á Laugaveginum. Ég held svei mér þá að ég hefði getað orðið ágæt búðarkona,“ segir Elísabet og hlær.

Kenndi mér að gera gott úr hlutunum
„Það er mikil frændrækni í fjölskyldum mínum og það voru því mikil samskipti við ættingjana á Vopnafirði. Af öllu þessu góða fólki langar mig að nefna föðursystur mína, Sigríði, sem var einstök kona. Við vorum miklar vinkonur og töluðum oft saman en hún varð 100 ára.
Sigga var jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst, alltaf bjartsýn, en samt raunsæ. Hún kenndi mér, öðrum fremur, að sjá björtu hliðarnar og gera gott úr hlutunum þótt eitthvað bjátaði á.“

Hressó var aðalstaðurinn
„Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var 17 ára og fór að vinna á Hressingarskálanum í Austurstræti sem var þá aðalstaðurinn. Það var lærdómsríkt fyrir sveitastelpuna og margt sem kom mér á óvart.
Hjá Búnaðarfélagi Íslands var ég í nokkur ár en þaðan fór ég til Kjararannsóknarnefndar og þegar embætti ríkissáttasemjara var stofnað 1980 óskaði þáverandi ríkissáttasemjari eftir því að nefndin flytti aðsetur sitt í sama hús og sáttasemjaraembættið til að auðvelda samstarfið og það varð úr.“

Er ennþá sátt og sæl með starfið mitt
Árið 1982 bauð Guðlaugur Þorvaldsson, þáverandi ríkissáttasemjari, mér síðan starf skrifstofustjóra hjá embættinu. Ég ákvað að þiggja boðið en ætlaði aldrei að vera nema í nokkur ár. Ég var þá ófrísk að Evu minni og byrjaði að vinna þegar hún var þriggja mánaða. Nú er hún allt í einu orðin 35 ára og ég er ennþá sátt og sæl með starfið mitt.”
Elísabet á tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Jóni Arnari Guðmundssyni, en þau slitu samvistir árið 2000. Eva Hrönn er fædd 1982 og starfar sem hæstaréttarlögmaður og Stefán Óli er fæddur 1991 og er sagnfræðingur, fréttamaður og mastersnemi. Barnabörnin eru þrjú, þau Emilía Íris 9 ára, Viktor Óli 7 ára og Elísabet Eva sem er eins árs.

Honum leið vel í Mosó frá fyrsta degi
Í lok árs 2002 byrjuðu Elísabet og Hreiðar Örn Gestsson húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur að rugla saman reytum. Þau voru bæði í háskólanámi á þessum tíma, Hreiðar í viðskiptafræði og Elísabet í opinberri stjórnun og stjórnsýslu. Hreiðar átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Heið­rúnu fædda 1983, Davíð Örn fæddan 1989 og Ingvar Örn fæddan 1992. Elísabet og Hreiðar Örn gengu lífsleiðina saman í 15 ár en í apríl sl. lést Hreiðar eftir erfið veikindi.
„Hreiðar sagði oft söguna þannig að ég hefði flutt hann inn í Mosó en bætti svo við að honum hefði liðið vel hér frá fyrsta degi enda var hann opinn og fljótur að aðlagast samfélaginu. Hreiðar var einlægur, glaðlyndur og vinamargur, mikið náttúrubarn og ástríðufullur veiðimaður. Hann var líka einstaklega barngóður og öll börn elskuðu hann. Hann lék við þau, kenndi þeim og gaf þeim tíma sem er það mikilvægasta af öllu.
Við ferðuðumst mikið bæði innanlands sem utan. Fyrstu árin ferðuðumst við með strákana okkar þrjá og eitt sumarið vorum við 30 nætur í fellihýsinu.“

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Lagði áherslu á að njóta hvers dags
„Við lifðum skemmtilegu og innihaldsríku lífi, Hreiðar lagði alltaf mikla áherslu á að njóta hvers dags. Kannski hefur það viðhorf hans ráðist að einhverju leyti af því að pabbi hans fékk heilablóðfall þegar hann var 53 ára, lamaðist og missti málið.
Árleg ferð í Veiðivötn með fjölskyldu og vinum var hápunktur hvers sumars. Eftir þriggja daga veiði komu svo allir heim til okkar og við elduðum saman.
Við bjuggum nokkra mánuði í Danmörku veturinn 2006, þar sem ég var í skiptidvöl hjá danska ríkissáttasemjaraembættinu. Stefán Óli kom með okkur og var í fjarnámi frá Varmárskóla auk þess að vera í dönskum grunnskóla.“

Sjónvarpsþátturinn Hæðin
„Það örlagaríka ár 2008 tókum við þátt í sjónvarpsþættinum Hæðinni á Stöð 2. Verkefnið var að hanna og skipuleggja raðhús í Garðabæ og búa í húsinu á meðan. Við fluttum því í nokkra mánuði í Garðabæinn og helltum okkur í byggingabasl.
Þetta var mikil áskorun, nánast allt sem við gerðum var tekið upp. Þetta var skemmtilegt en reyndi stundum á þolinmæðina. Okkur gekk vel að vinna saman. En mikið var gott að flytja heim í Mosó aftur.
Þetta sama ár giftum við okkur og fórum í framhaldinu í brúðkaupsferð til Brasilíu.“

Áhugamálin margvísleg
„Áhugamál mín eru mörg, ferðalög bæði innanlands og utan, ég hef mikla ánægju af útivist og Hreiðar minn bætti við þá flóru með því að kenna mér að meta veiðar. Ég hef ánægju af þátttöku í félagsstarfi og hef starfað lengi með góðu sjálfstæðisfólki. Þegar Eva og Stefán voru yngri tók ég þátt í starfi Aftureldingar og Skátafélagsins Mosverja og var líka þátttakandi í starfi foreldrafélagsins í Varmárskóla.
Ég er líka í bókaklúbbi með skemmtilegum skátakonum og við hittumst reglulega. Ég er í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar og var önnur af tveimur fyrstu konunum sem gengu í klúbbinn. Um tíma starfaði ég líka með Lionsklúbbnum Úu.“

Var á bráðamóttökunni í marga daga
„Hreiðar átti sex systkini. Haustið 2014 dóu tveir bræður hans á besta aldri með fimm vikna millibili vegna hjartavandamála. Þetta var mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna og í framhaldinu fóru systkinin í rannsókn. Sem betur fer var niðurstaðan sú að þau voru ekki með hjartagalla.
Rúmu ári síðar, í febrúar 2016, veikist Hreiðar mikið, fékk krampaflog og var á bráðamóttökunni í marga daga. Fyrstu mánuðina vissum við ekki hver ástæðan var. Það var talið að þetta væri annað hvort vírus í heila, heilabólga eða æxli.“

Læknarnir ekki sammála
„Við vorum búin að skipuleggja fjölskylduferð til Flórída í mars og Hreiðar tók ekki annað í mál en við héldum okkar striki. Eftir að hafa fengið samþykki lækna og ítarlegt læknabréf á ensku fórum við í ferðina og vorum óendanlega þakklát fyrir að hafa gert það.
Áður en við fórum út sendum við vinkonu okkar, sem er yfirlæknir á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, niðurstöðu úr myndtökunum frá LSH. Þegar við komum heim lá niðurstaða hennar fyrir, að þetta væri krabbamein og hún og hennar teymi ráðlagði skurðaðgerð strax. Eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir tók við erfiður biðtími. Læknarnir á Landspítalanum voru ekki sammála þessari greiningu og vildu bíða í nokkra mánuði og sjá til.“

Boðaður í bráða heilaskurðaðgerð
„Í byrjun júní fengum við viðtal við heilaskurðlækni sem reyndi að sannfæra okkur um að það væri engin ástæða til að óttast, en til að róa okkur ákvað hann að senda Hreiðar í aðra myndatöku. Daginn eftir fékk Hreiðar svo símtal sem staðfesti niðurstöðu vinkonu okkar og var boðaður í bráða heilaskurðaðgerð. Þá hafði æxlið stækkað verulega og breyst í 4. stigs krabbamein. Ekki reyndist unnt að fjarlægja allt æxlið en tekið var eins mikið og læknarnir treystu sér til án þess að valda varanlegum alvarlegum skaða.
Þegar niðurstaða lá fyrir úr sýnatöku var hún mjög afdráttarlaus. Krabbameinið var ólæknandi og bráðdrepandi. Með það vorum við send heim og aldrei boðin nein aðstoð eða ráðgjöf til að vinna úr áfallinu.“

Þakka fyrir það sem ég hef
„Við ákváðum strax að segja fjölskyldu og vinum hvernig staðan væri og tala um krabbameinið. Það reyndi oft á, en við gátum ekki hugsað okkur að vera í einhverjum feluleik.
Næstu mánuði var Hreiðar bæði í lyfja- og geislameðferð, en í byrjun nóvember kom í ljós að æxlið var aftur farið að stækka og þá tók Hreiðar þá hugrökku ákvörðun að hætta í meðferðinni í þeirri von að honum liði betur. Hann sýndi aðdáunarvert æðruleysi í veikindum sínum.
Hann lést 6. apríl, 14 mánuðum eftir að veikindin gerðu fyrst vart við sig. Ég er óendanlega þakklát fyrir árin sem við áttum saman og er að vanda mig við að njóta hvers dags og þakka fyrir það sem ég hef.“

Ósanngirnispytturinn ekki langt undan
„Í janúar sl. greindist svo 6 ára gamall sonur Evu minnar með bráðahvítblæði og var strax settur í meðferð sem mun standa í tvö og hálft ár. Þetta varð okkur öllum mikið áfall og margar áleitnar spurningar sóttu á hugann. Ósanngirnispytturinn var ekki langt undan og stundum datt ég á bólakaf ofan í hann.
Með hjálp fjölskyldu og góðra vina tókum við á þessum breyttu aðstæðum. Gamli málshátturinn „Sá er vinur sem í raun reynist” öðlaðist nýja og dýpri merkingu því það er ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.
Ég er svo lánsöm að eiga allt þetta góða fólk að. Það er ómetanlegt að finna samúð og vináttu á svona erfiðum stundum og það verður seint fullþakkað.”

Mosfellingurinn 21. desember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs