Gott fólk

Heilsumolar_Gaua_30nov

Það er fátt eins gott fyrir heilsuna og að vera í kringum gott fólk. Fólk sem er ánægt með lífið og hefur gaman af því sem það er að gera. Fólk sem hefur jákvæð og hressandi áhrif á mann. Fær mann til að brosa, hugsa, gera skemmtilega hluti. Við þekkjum öll svona fólk og núna þegar jólamánuðurinn er að keyrast í gang er upplagt að umgangast þetta fólk eins mikið og við getum. Leyfa því að hafa jákvæð áhrif á okkur þannig að við getum haft jákvæð áhrif á aðra. Það er gott fyrir alla.

Ég hitti einmitt gott fólk í dag sem ég hef ekki hitt lengi. Það var virkilega gaman og hressandi á allan hátt og gaf mér bæði hugmyndir og löngun til að hitta þetta fólk oftar. Sem ég ætla að gera. Maður þarf að passa upp á þetta góða í lífinu, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og bæði ná sér í góða orku og gefa frá sér góða orku. Ég trúi því að við getum öll breytt heiminum örlítið, hvert okkar, með því að hugsa vel um sjálf okkur og aðra. Haft þannig jákvæð og smitandi áhrif út í heiminn. Við þurfum ekki að bíða eftir því að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Ríkið, bærinn, vinnustaðurinn, félagið og eða aðrir. Við tökum auðvitað fagnandi á móti jákvæðum breytingum að ofan eða utan en getum haft miklu meiri áhrif sjálf en við gerum okkur grein fyrir. Akkúrat eins og þetta góða fólk sem ég hitti í dag. Þetta fólk sýnir frumkvæði, kemur hugmyndum í framkvæmd og nýtir þau tækifæri sem lífið býður upp á alla daga. Er þannig góðar fyrirmyndir fyrir okkur hin.

Hvet að lokum alla til að hreyfa sig mikið og vel í desember. Gera eitthvað líkamlega krefjandi alla daga!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. nóvember 2017

Hafsteinn gefur kost á sér í 3. sæti

hafsteinn3

Hafsteinn Pálsson gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer 10. febrúar. Hafsteinn situr í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og er formaður bæjarráðs. Haf­steinn er ritari stjórnar Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands þar sem hann leiðir heiðurs­ráð sam­bands­ins. Hann er stjórn­ar­formaður Íslenskra get­rauna og áður gegndi hann ýms­um trúnaðar­störf­um fyr­ir Aft­ur­eld­ingu. Hafsteinn er byggingarverkfræðingur að mennt og starfar hjá umhverfis- og auðlindarráðuneytinu. Haf­steinn er kvænt­ur Láru Torfa­dótt­ur, kenn­ara í Lága­fells­skóla, og þeirra börn eru Guðrún Erna viðskiptafræðingur, Jó­hanna Rut ljósmóðir og Snæv­ar Ingi íþróttafræðingur.

Ný bók frá Bjarka Bjarnasyni

bjarkitíminn

Bjarki Bjarnason hefur sent frá sér bókina Tíminn snýr aftur sem hefur að geyma örsögur og ljóð.
„Undirtitill bókarinnar er örsöguljóð,“ segir höfundurinn í viðtali við Mosfelling. „Oft eru óljós mörk á milli þessara bókmenntagreina. Ég skipti henni í nokkra hluta, sem bera kunnugleg nöfn, svo sem Hagfræði, Biblíusögur og Landbúnaður. En þegar betur er að gáð liggur hér fiskur undir steini.
Eitt grunnstefið er í raun og veru tíminn og hugleiðingar mínar um hann. Við getum ekki upplifað liðið andartak, ekki bókstaflega. Sú stund kemur aldrei aftur en á hinn bóginn erum við iðulega að endur­lifa horfna lífsreynslu, tíminn er lúmskt fyrirbæri og snýr oft aftur í einhverri mynd. Það er hugsunin á bakvið titil bókarinnar.“
Bjarki hefur sent frá sér um 20 bækur af ýmsum toga á sínum ferli, sagnfræðirit, skáldverk, barnabækur og ljóð.
„Ég hef ekki viljað binda mig við eitt bókmenntaform en hef sérstakt dálæti á að feta fíngerða slóð á milli sagnfræði og skáldskapar, á milli ímyndunar og svokallaðs raunveruleika. Því hvað er sannleikur þegar öllu er á botninn hvolft?“
Vilborg Bjarkadóttir myndskreytti bókina, Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir sá um hönnun og umbrot en útgefandi er Bókaútgáfan Sæhestur.

Ávallt með mörg járn í eldinum

hakon

Veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn er vinsæll og sívaxandi veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar en hann var stofnaður árið 2011. Á Hvíta, eins og oft er sagt manna á milli, er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og skemmtilegt umhverfi ásamt barnahorni.
Ungi athafnamaðurinn Hákon Örn Bergmann er eigandi staðarins og hefur hann gert ýmsar breytingar frá því hann tók við árið 2014. Hann segir mikla þörf fyrir svona stað í Mosfellsbæ þar sem fólk geti hist við alls kyns tilefni og notið góðra veitinga.

Hákon Örn er fæddur í Reykjavík 4. nóvember 1993. Foreldrar hans eru þau Edda Herbertsdóttir tölvunarfræðingur og Hilmar Bergmann viðskiptafræðingur. Systkini hans eru þau Hildur fædd 1979, Hilmar Þór fæddur 1989, Helgi Björn fæddur 1991 og Hafþór Ingi fæddur 1995.

Gaman að leika í Leynigarði
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og þegar ég lít til baka til æskuáranna þá koma upp í hugann margar góðar minningar. Það var til dæmis alltaf gaman að vera í kringum vinkonur mömmu. Ein þeirra, Gulla, byggði sér hús rétt hjá Dælustöðinni sem fékk nafnið Leynigarður. Þar eyddum við Hafþór bróðir mörgum góðum stundum.
Eins get ég nefnt allar góðu stundirnar sem ég átti með skólafélögum mínum. Ég var átta ár í Lágafellsskóla en færði mig svo yfir í Gaggó Mos. Það gerði ég einfaldlega út af því að flestir af bestu vinum mínum voru í þeim skóla.“

Skólakerfið hálf gallað
„Mér fannst alltaf gaman í skólanum og þurfti ekki mikið að hafa fyrir náminu. Kennararnir voru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir en Elli eðlisfræðikennarinn minn var í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er skemmtilegur karakter, hreinskilinn og sanngjarn.
Mér hefur alltaf fundist skólakerfið hérna á Íslandi vera hálf gallað, þá er ég að tala um námsgreinar í skyldunámi. Það voru þarna áfangar sem ég hafði engan áhuga á og taldi ekki vera nauðsynlega fyrir mig og framtíð mína. Það hafði vissulega áhrif á endasprettinn á grunnskólagöngu minni en samt ekki svo að ég komst inn í Verzlunar­skóla Íslands haustið eftir.“

Tók mikinn þátt í félagslífinu
„Ég byrja í Verzló haustið 2009 og allt gekk eins og í sögu. Ég kynntist frábæru fólki, námið gekk vel og ég tók mikinn þátt í félagslífinu. Það var algjört prinsipp hjá mér að fara í Versló, mér fannst það alltaf heillandi skóli. Hilmar, elsti bróðir minn, fór í Verzló og var alltaf mikil fyrirmynd. Hann útskrifaðist vorið áður en ég byrjaði þannig að við náðum ekki að vera þarna á sama tíma, því miður.
Á öðru ári í skólanum byrjaði lífið aðeins að flækjast. Ég vann allt of mikið með náminu sem hafði áhrif. Ég er bara þannig gerður að ég verð að hafa mörg járn í eldinum og er í raun vinnualki. Ég get sagt þér að þegar ég var 11 ára fór ég að bera út blöð. Ég var varla byrjaður þegar ég bætti við mig hverfum og fjölmiðlum. Ég hefði aldrei ráðið við þetta ef mamma hefði ekki hjálpað mér. Það var hún sem dröslaði mér á fætur. Frá þessum tíma hef ég bara ekki slakað á.“

Fjölskyldan: Hákon Örn, Alba Rós og Alexandra.

Fjölskyldan: Hákon Örn, Alba Rós og Alexandra.

Var að flýta mér að hefja lífið
Samhliða náminu í Verzló bætti Hákon við sig námi í Flugskóla Íslands. Hann segist hafa verið að flýta sér að hefja lífið en hafi síðan áttað sig á að þetta var of mikið í einu. „Ég leyfði mér í rauninni aldrei að njóta menntaskólaáranna sem eru svo dýrmæt. Ég kláraði þó tvö ár í Verzló og hætti í Flugskólanum.
Á þessum tímapunkti fór ég í mína stærstu niðursveiflu. Ég lokaði mig inni í tvo mánuði, sem betur fer ekki lengur, en þarna lauk námsferli mínum, alla vega í bili.“

Reynslan hefur kennt mér mikið
„Næstu árin vann ég á hinum ýmsu vinnustöðum, lengst af í Krónunni eða í átta ár með hléum. Ég byrjaði þar daginn fyrir fermingardaginn minn og sinnti ýmsu á þessum árum. Ég á í raun yfirmönnum í Krónunni mínum mikið að þakka því þarna lærði ég að vinna og reynsla mín hefur hjálpað mér mikið með flest allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur.
Ég byrjaði svo að vinna á Dönsku kránni og þar kynntist ég barbransanum en áður hafði ég unnið á nokkrum veitingastöðum. Þar kynntist ég kærustunni minni, Ölbu Rós Jónínudóttur, en hún tók þátt í að ráða mig til starfa. Það leið ekki langur tími þangað til við fórum að búa saman ásamt Alexöndru, dóttur hennar.“

Símtalið sem breytti öllu
„Vorið 2014 fékk ég símtal frá Geir vini mínum. Hann spurði hvort mig vantaði ekki vinnu því hann hafði frétt að það vantaði pítsubakara á Hvíta Riddarann. Ég sló til og sé ekki eftir því.
Í desember sama ár kom í ljós að það vantaði nýjan rekstraraðila fyrir staðinn. Ég og Agnar vinur minn slógum til en stuttu seinna kom í ljós að Agnar gat ekki tekið þetta að sér sökum verkefna. Ári seinna tók ég við sem eigandi. Ég hafði enga reynslu af að reka veitingastað en ákvað að hoppa út í djúpu laugina.“

Búin að gera miklar breytingar
„Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær sem þarf á góðum veitingastað að halda sem og stað sem fólk hittist á við alls kyns tilefni. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn. Ég er mjög þakklátur bæjarbúum fyrir viðtökurnar.
Við erum með heimilismat í hádeginu á virkum dögum og hlaðborð á föstudögum. Hér fara líka fram hinir ýmsu viðburðir. Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltaíþróttirnar og hér er góð aðstaða til að horfa á leiki. Við reynum líka að styðja vel við íþróttastarfið í bænum.
Ég hef fengið mikla hjálp frá mínum nánustu við uppbyggingu á staðnum og þá sérstaklega frá tengdamóður minni Jónínu og auðvitað hefur Alba Rós staðið með mér í gegnum þetta allt saman eins og klettur.“

Fullir vasar
„Í sumar stofnaði ég kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Aktive Productions. Í framleiðslu núna er kvikmyndin Fullir vasar sem kemur í kvikmyndahús í febrúar 2018. Myndin fjallar um fjóra menn sem ræna banka til að eiga fyrir tugmilljóna skuld eins þeirra við hættulegasta mann Íslands og þá fer af stað ótrúleg atburðarás sem enginn sá fyrir.
Það eru fleiri verkefni á prjónunum fyrir næstu ár svo það má segja að framtíðin bíði bara björt,“ segir Hákon brosandi að lokum.

Mosfellingurinn 9. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fékk áskorun um að skrifa spennandi bók

peturoghalla_inga

Ingibjörg Valsdóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók, barnabókina Pétur og Halla við hliðina – Fjöruferðin. Ingibjörg lærði sjúkraþjálfun og lauk mastersnámi í ritstjórn og útgáfu árið 2014. Hún hefur síðan starfað sjálfstætt við þýðingar, ritstörf og yfirlestur.
„Ég fékk áskorun frá vinkonum mínum um að skrifa spennandi bók fyrir krakka. Ég hef skrifað eitt og annað sem situr fast í skjölum í tölvunni minn en ekkert sem hefur komið út. Ég tók þessari áskorun og vissi svosem ekki að þessir krakkar væru þarna í höfðinu á mér fyrr en ég byrjaði að skrifa. Fyrst kom Pétur og svo Halla og áður en ég vissi af voru þau lent í smá veseni,“ segir Ingibjörg og segir alveg jafn líklegt að bækurnar um Höllu og Pétur verði fleiri.

Hentar yngri lesendum
Bókin er gefin út af Bókabeitunni og er í seríu sem kallast Ljósaserían. Bækurnar í seríunni henta elstu börnum í leikskóla og yngri stigum grunnskóla. Allar bækur Ljósaseríunnar eru með þægilegu letri, myndskreyttar og auðveldar aflestrar.
„Ég hef fengið góð viðbrögð frá lesendum á öllum aldri. Halla og Pétur eru skemmtilegir en ólíkir krakkar sem lenda í ævintýrum í fjörunni.
Sagan gæti gerst svo til hvar sem er en það er óneitanlega hægt að segja að umhverfið í Mosfellsbæ sé kveikjan að sögunni. Ég er alin upp í Arnartanganum. Túnin þar fyrir neðan og Leirvogurinn voru leikvöllur æskunnar.“

Útgáfuboð næsta fimmtudag
Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum en einnig er hægt að nálgast hana á Heimkaup. Þann 16. nóvember verður haldið útgáfuboð í Eymundsson í Smáralind og vonast Ingibjörg eftir að sjá sem flesta Mosfellinga.

Bók um Alla Rúts kemur út fyrir jólin

alliruts

Seinna í mánuðnum kemur út ævisaga hins eina sanna Alla Rúts. Hann er Mosfellingum að góðu kunnur enda rekið Hótel Laxnes og Áslák í þó nokkur ár. Lesblindur drengur flosnar upp úr námi á Siglufirði og verður einn mesti braskarinn á Íslandi; rekur hér stærstu bílasöluna, flytur út hesta í tugatali og kemur sér bæði í og úr vandræðum eins og honum sé borgað fyrir það. Hér er skyggnst inn í heim sem fáir þekkja til — heim Alla Rúts — sem fékk ódrepandi sjálfstraust og dugnað í vöggugjöf og lætur ekkert buga sig. Hann kemur við á mörgum sviðum mannlífsins, tekur stundum dýfur, en lendir þó alltaf standandi. Höfundur bókarinnar er Helgi Sigurðsson sagnfræðingur og dýralæknir en það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur út. Meðal þess sem kemur fram í bókinni: Voveiflegir atburðir verða í Fljótum. Sprúttsali festir tappana ekki vel. Landsþekktur danskennari er hrekktur. Jeppi er pikkfastur í Meyjarhafti. Tunnuverksmiðjan brennur. Rangur brandari er sagður á réttum stað. Bankastjóri þiggur mútur. Hauskúpa veldur uppþoti í tollinum. 112 milljónir óvart lagðar inn á bankareikning. Forsætisráðherrann segir ósatt. Gjaldþrot verður — og ekki bara eitt. Túristar vaktir með brunabjöllu og svona mætti lengi telja.

Peter Bronson ráðinn golfkennari

Davíð Gunnlaugsson íþróttastjóri GM, Peter Bronson golfkennari og Gunnar Ingi framkvæmdastjóri GM.

Davíð Gunnlaugsson íþróttastjóri GM, Peter Bronson golfkennari og Gunnar Ingi framkvæmdastjóri GM.

Í ágúst auglýsti GM stöðu golfkennara hjá klúbbnum lausa til umsóknar og hátt í 80 umsóknir bárust.
Ráðningarferlið tók töluverðan tíma en niðurstaðan var sú að ráða Peter Bronson til starfa. Peter mun því á næstu vikum hefja störf og starfa samhliða Davíð Gunnlaugssyni íþróttastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar við þjálfun barna og ungmenna hjá klúbbnum.

Atvinnumaður og hefur lokið PGA-námi
Peter Bronson er fæddur í Boston í Bandaríkjunum árið 1972. Peter útskrifaðist frá Georgetown University þar sem hann lærði tungumál og heimspeki og lék í 1. deild í bandaríska háskólagolfinu.
Árið 1996 flutti Peter til Spánar þar sem hann lauk PGA-námi og lék sem atvinnumaður. Árið 2004 sigraði hann tvisvar á EPD-mótaröðinni, sem nú heitir ProGolf Tour. Peter lék einnig á Challenge-mótaröðinni árið 2008.

Fyrrum landsliðsþjálfari Póllands
Árið 2006, eftir að Peter sigraði á Opna Pólska mótinu í fyrra skiptið af tveimur, flutti hann til Póllands. Peter hefur starfað þar síðan sem golfkennari og landsliðsþjálfari Póllands og er ábyrgur fyrir unglingalandsliðinu. Peter hefur verið þjálfaður hjá PGA í Evrópu og hefur komið að menntun golfkennara á Spáni og í Póllandi.
Peter starfaði sem formaður PGA á Spáni árið 2011 til 2012 og hefur gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa í gegnum tíðina. Hann hefur skrifað fjöldann allan af greinum í tímaritum ásamt því að skrifa bókina „Golf Abroad“.
Peter hefur einnig réttindi sem dómari frá PGA í Evrópu og hefur dæmt á Evrópumótaröðinni. Eins og sjá má hefur Peter komið víða við á sínum ferli. Að síðustu má nefna til gamans að hann bar kylfurnar fyrir Miguel Angel Jimenez í nokkur skipti á Evrópumótaröðinni en það er heiður sem ekki öllum hlotnast.

Ásgeir býður sig fram á lista Sjálfstæðisflokksins

asgeir_sveins

Ásgeir Sveinsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í forystusveit Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ásgeir er framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. auk þess sem hann hefur verið virkur í sjálfboðaliðastarfi innan handknattleiksdeildar Aftureldingar, m.a. sem formaður meistarflokksráðs karla. Hann hefur, ásamt öflugum hópi, stýrt uppbyggingu á sterku meistarflokksliði karla.
„Ég hef lengi haft brennandi áhuga á pólitík og fylgst vel með bæjarmálunum í Mosfellsbæ og því faglega og öfluga starfi sem hefur verið unnið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að víðtæk reynsla mín sem stjórnandi í atvinnulífinu til margra ára og í félagsmálum geti reynst vel innan bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.“
Ásgeir og fjölskylda hans hafa búið í Mosfellsbæ í 18 ár og er hann giftur Helgu Sævarsdóttur hjúkrunar- og lýðheilsufræðingi. Þau eiga þrjú börn, Elvar 23 ára, Ásu Maríu 19 ára og Hilmar 17 ára.

Líkaminn í rúst

Heilsumolar_Gaua_9nov

Ég hlustaði á viðtal við athafnakonu á rúmlega miðjum aldri í gær. Hún var spræk í anda og ánægð með það sem hún hafði fengist við um ævina. Það tengdist mest þjónustu og rekstri veitingastaða.

En það stakk mig að heyra hana segja „Líkaminn er náttúrulega í rúst. Maður vann svo mikið og gerði ekkert til að sinna líkamanum þegar maður átti frí. Ég hefði auðvitað átt að gera það, fara í sund, liðka mig og svona“. En hún gerði það ekki. Eins og svo margir aðrir. Og þarf að taka afleiðingunum af því í dag.

Ég hitti fólk í hverri viku sem segir það sama. „Ég veit alveg að ég þarf að hreyfa mig, ég bara kem mér ekki í það.“ Hvaða rugl er þetta eiginlega? Af hverju gefa svona margir skít í eigin heilsu og heibrigði? Er betra að vinna yfir sig og eyða svo síðustu áratugum, já áratugum, ekki árum, ævinnnar í að gera ekki það sem manni langar til af því að heilsan leyfir það ekki. Og láta aðra sjá um sig, hjúkra sér og halda manni gangandi. Í mínum huga er þetta ábyrgðarleysi og langt frá því að vera til fyrirmyndar. Það er til fyrirmyndar að taka ábyrgð á eigin heilsu. Sinna sjálfum sér þannig að maður geti sinnt öðrum.

Ef þú ert í rugli í dag hvet ég þig til að rífa upp sokkana, henda þér í skó og fara út úr húsi. Farðu í langan göngutúr. Njóttu náttúrunnar. Klæddu þig vel ef veðrið er vont. Ekki detta í afsakanir og aumingjaskap þótt það sé kalt. Notaðu göngutúrinn til að hugsa um þig og þína heilsu. Hvernig þú ætlar að hreyfa þig reglulega. Koma þér í form. Njóta þessa að vera á lífi. Hraust/ur. Hress. Lifandi. Þú getur þetta!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2017

Breytingar á leiðakerfi Strætó um áramótin

straeto_mosfellingur

Umtalsverðar breytingar verða á leiðakerfi Strætó um næstu áramót. Breytingarnar eru liður í að ná fram því markmiði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta þjónustu og fjölga þannig notendum.
Einföldun leiðakerfis og aukin tíðni ferða eru mikilvægt skref í þá átt að gera Strætó að ferðamáta sem er samkeppnishæfur við aðrar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Þær breytingar sem snúa að Mosfellsbæ eru m.a. að leið 15 mun aka lengur á kvöldin og ekki verður lengur dregið úr ferðatíðni á sumrin eins og verið hefur síðustu ár.
Leið 6 mun hætta að keyra upp í Mosfellsbæ, en í staðinn mun leið 7 keyra frá Egilshöll og upp í Mosfellsbæ og tengjast Helgafellshverfi. Þannig verður unnt að tryggja þjónustu við það hverfi. Næturakstur á völdum leiðum um helgar

Akstur í nýjum hverfum Mosfellsbæjar
Að sögn Bryndísar Haraldsdóttur, fulltrúa Mosfellsbæjar í stjórn Strætó bs. er enn unnið að því að leggja mat á það hvernig væri unnt að auka þjónustu við íbúa Leirvogstungu. Þar eru þrír kostir í mati.
Í fyrsta lagi að leið 7 keyri inn í Leirvogs­tungu, í öðru lagi að leið 57 keyri í gegnum hverfið í stað þess að stoppa á gatnamótunum við Vesturlandsveg og í þriðja lagi að koma á svokallaðri pöntunarþjónustu. Niðurstaða þessarar skoðunar mun líta dagsins ljós á næstu vikum.

Stórt sameiginlegt verkefni
„Ég er afskaplega ánægð að það skuli hafa verið samþykkt í stjórn Strætó að auka þjónustuna hér í Mosfellsbæ. Við þurftum að hafa fyrir því að ná því fram. Efling og þróun almenningssamgangna er eitt af stóru sameiginlegu verkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Mikill árangur hefur náðst á síðustu misserum og árið 2016 ferðuðust um 45 þúsund manns með Strætó daglega. Sá árangur sem við erum nú að ná við að efla strætisvagnasamgöngur í Mosfellsbæ eru hluti af góðu samtali okkar við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu innan stjórnar Strætó.” sagði Bryndís Haraldsdóttir.

Halda herra- og kvennakvöld Aftureldingar

karlakveannakvold

Í nóvember mun Afturelding standa fyrir tveimur stórum viðburðum. Herrakvöld Aftureldingar fer fram 10. nóvember í Harðarbóli og degi síðar eða 11. nóvember fer Kvennakvöld Aftureldingar fram á sama stað. Meistaraflokkar félagsins í blaki, handbolta og knattspyrnu standa sameiginlega að þessum tveimur viðburðum. „Þetta verður frábær helgi fyrir Mosfellinga og stuðningsmenn Aftureldingar,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Aftureldingar. „Við höfum horft með öfundaraugum á sambærilega viðburði hjá öðrum félögum. Meistaraflokkar félagsins ákváðu því að snúa bökum saman og vinna sameiginlega að því að skapa þessa hefð líka hér í Mosfellsbæ. Undirbúningur hefur gengið afar vel og við erum öll virklega spennt fyrir því að félagið sé nú að standa að þessum viðburðum sem ein heild.“ Miðasala er hafin og fer fram í afgreiðslu íþróttahússins að Varmá. Einnig er hægt að panta miða með því að senda póst á herrakvoldumfa@gmail.com eða kvennakvoldumfa@gmail.com.

Herrakvöld Aftureldingar á facebook

Kvennakvöld Aftureldingar á facebook

Myndir skipta miklu máli

Helga Dögg og Nanna Guðrún eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.

Helga Dögg og Nanna Guðrún eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.

Þær Helga Dögg Reynisdóttir og Nanna Guðrún Bjarnadóttir hafa stofnað fyrirtækið Fókal sem sérhæfir sig í viðburða- og fyrir­tækjaljósmyndun. Þær starfa einnig sem sjálfstætt starfandi ljósmyndarar og eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.
„Við erum fjórir ljósmyndarar sem höfum aðstöðu hér í Kjarnanum. Hér erum við með fullbúið ljósmyndastúdíó og tökum að okkur alla vega verkefni.
Auk okkar Helgu eru hér Ása Magnea Vigfúsdóttir og Kolbrún María Ingadóttir. Við störfum allar sjálfstætt en svo erum við Helga saman með Fókal,“ segir Nanna.

Gaman að vinna saman
„Leiðir okkar Nönnu hafa legið saman í langan tíma, við vorum saman í ljósmyndanáminu og höfum báðar lokið námi í grafískri miðlun. Við höfum mikið myndað fjölskyldur og börn undanfarin ár og okkur langaði að gera eitthvað saman. Við sáum tækifæri í þessari hugmynd, því fáir að gefa sig út fyrir þessa þjónustu við fyrirtæki.
Við höfum fengið ótrúlega góðar viðtökur og fjölbreytt verkefni. Við myndum ráðstefnur, starfsdaga hjá fyrirtækjum, árshátíðir, ýmsa fundi, vöruframleiðslu og hefðbundnar starfsmannamyndir,“ segir Helga.

Myndir eru mikilvægar fyrir fyrirtæki
„Við leggjum áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð og skilum af okkur verkefnum á því formi sem viðskiptavinurinn óskar.
Á heimasíðunni okkar eru allar upplýsingar um fyrirtækið og sýnishorn af þeim verkefnum sem við höfum verið að fást við. Okkur finnst gott að vinna saman og fá faglegan stuðning hvor af annarri,“ segir Nanna.
„Það eru okkar sýn að góðar myndir skipti miklu máli í kynningar- og markaðsefni fyrirtækja. Það vantar öll fyrirtæki góðan ljósmyndara. Við bíðum sérstaklega spenntar eftir að þjónusta fyrirtæki í Mosfellsbæ,“ segir Helga að lokum.

Hef alltaf haft áhuga á mótorsporti

steini

Steingrímur Bjarnason er þaulreyndur akstursíþróttamaður og hefur tekið þátt í torfæru- og sandspyrnukeppnum víða um land.

Það eru ekki margir sem keyra um á 12 metra langri rútu með torfærubíl í skottinu en það gerir aksturs­íþróttamaðurinn Steingrímur Bjarnason þegar hann leggur af stað í ferðir sínar út á land. Fjölskyldan er oftar en ekki með í för enda rútan innréttuð sem húsbíll með gistirými fyrir sex fullorðna.

Steingrímur, eða Steini eins og hann er ávallt kallaður, hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki.

Steingrímur er fæddur á Akureyri 11. ágúst 1967. Foreldrar hans eru Aðalheiður Valgerður Steingrímsdóttir frá Kroppi í Eyjafjarðarsveit og Bjarni Indriðason frá Víðigerði í Mosfellsdal en þau eru bæði látin.
Steingrímur á tvo bræður, þá Gunnlaug Indriða fæddan 1970 og Eyþór Má fæddan 1974.

Á skellinöðru í gryfjunum
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og það var mjög gott að alast hér upp. Ég bjó í Álafosskvosinni þangað til ég var tólf ára en þá fluttum við fjölskyldan í Byggðarholtið. Maður var alltaf úti að leika í alls konar leikjum eða úti að hjóla en svo tóku skellinöðrurnar við og þá var farið í gryfjurnar við Gagnfræðaskólann eða í Ullarnesgryfjurnar. Er ég lít til baka þá held ég að torfæruáhugi minn hafi byrjað þarna.
Þegar ég var að alast upp þá þekktu allir alla hérna í sveitinni en nú hefur bærinn stækkað mikið. Hér er samt alltaf jafn rólegt og gott að vera.
Á sumrin í æsku var ég í sveit hjá afa mínum og ömmu í Eyjafirði. Þar var alltaf skemmtilegt að vera enda var maður innan um dýrin og tók þátt í heyskapnum.“

Fékk vinnu á Álafossi
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskólann, í raun höfum ég og skólar aldrei átt samleið, en það var samt ágætt að vera þar. Helga Richter var minn uppáhaldskennari.
Eftir útskrift úr Gaggó fór ég að vinna í ullarverksmiðjunni á Álafossi þar sem foreldrar mínir störfuðu og þar var ég í fjögur ár. Ég byrjaði að vinna í tætaradeildinni við að tæta ullina, blanda saman litum og svo blés maður ullinni milli klefa en þetta var gert með höndunum. Síðar kom vél sem sá um þennan hluta og þá varð þetta allt mun léttara. Þetta var góður tími og ekki skemmdi fyrir að ég vann í sömu deild og pabbi.“

Hugsa til þeirra á hverjum degi
Foreldrar Steingríms kynntust í ullarverksmiðjunni og unnu þar alla tíð. Bjarni varð bráðkvaddur árið 1999 en sama ár greindist Heiða með krabbamein. Hún lést sjö árum síðar. „Þetta hafði gríðarleg áhrif á mann og skrítin tilfinning að hafa þau ekki lengur hér meðal okkar en ég hugsa til þeirra á hverjum degi,” segir Steini alvarlegur á svip er ég spyr hann út í foreldramissinn.
Eftir Álafossárin fór Steini að vinna á dekkjarverkstæði og smurstöð og er búinn að vera lengst af í þeim störfum. Í dag starfar hann hjá Kletti – sölu og þjónustu við þjónustu á dekkjalager og sér einnig um útkeyrslu.

Ferðalögin í uppáhaldi
Steini kynntist eiginkonu sinni Jóhönnu Hólmfríði Guðmundsdóttur lyfjafræðingi árið 1990 og þau giftu sig tíu árum seinna. Þau eiga þrjú börn, Ingimund Bjarna fæddan 2001 og tvíburana Aðalheiði Valgerði og Hlyn Bergþór fædd 2003.
„Við fjölskyldan höfum mjög gaman af því að ferðast, við förum til útlanda og eins höfum við gaman af að fara í útilegur um landið og förum þá á rútunni okkar.“

Bíllinn orðinn stór hluti af manni
„Ég hef haft áhuga á mótorsporti frá því ég man eftir mér. Ég keypti mér Willys jeppa árgerð 1964 í janúar 1990 og byrjaði að keppa á honum í júní sama ár. Ég skírði hann Strumpinn því það á vel við litinn á honum. Nú er ég búin að eiga hann í 27 ár og í gegnum tíðina hef ég breytt honum mikið. Það er óhætt að segja að bíllinn sé orðin stór hluti af manni eftir öll þessi frábæru ár saman.
Ég keppti í þrjú ár en svo tók ég hlé á keppnum og var aðstoðarmaður hjá félögum mínum á árunum 1993-2006. Eftir það byrjaði ég að keppa aftur á sama bílnum og geri enn í dag.“

Allir til í að hjálpa ef eitthvað bilar
Steini hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki. Hann varð Íslandsmeistari í torfæru árið 1991 og 2009 og varð Íslandsmeistari í sandspyrnu í jeppaflokki 2009.
Ég spyr Steina hvað sé skemmilegast við torfæruna? „Fyrir utan að keyra í brekkunum þá er það félagsskapurinn, allt þetta frábæra fólk sem er í þessu sporti. Það eru allir vinir þótt menn séu að keppa hver á móti öðrum, allir eru til í að hjálpa ef eitthvað bilar eða skemmist í veltu.“

Mosfellingurinn 19. október 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Ráðist verður í framkvæmdir við fjölnota íþróttahús að Varmá

Tölvugerð mynd af útliti hússins.

Tölvugerð mynd af útliti hússins.

Fyrir bæjarráði Mosfellsbæjar liggur nú til samþykktar tillaga um byggingu 3.200 fermetra fjölnota íþróttahúss sem staðsett verði austan við núverandi íþróttamannvirki að Varmá.
Um er að ræða svokallað hálft yfirbyggt knatthús þar sem eldri gervisgrasvöllur að Varmá er nú.

Samræmist stefnumörkun UMFA
Undirbúningur málsins hefur staðið yfir frá árinu 2014 og fólst í upphafi í öflun og úrvinnslu gagna þar sem ólíkar útfærslur voru vegnar og metnar.
Í upphafi var t.d. skoðað hvaða leiðir önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu farið í þessum efnum, fjallað um mögulega staðsetningu innan bæjarins, kostir og gallar ólíkra rekstrarforma voru reifaðir og loks kannað hvort að unnt væri að reisa slíkt hús í samstarf við Reykjavíkurborg.
Við þarfagreininguna var víða leitað fanga, m.a. til knattspyrnudeildar Aftureldingar, en sú tillaga sem nú liggur fyrir bæjarráði er í samræmi við stefnumörkun Aftureldingar um uppbyggingu knattspyrnusvæðis Aftureldingar.

Gert ráð fyrir hlaupabraut
Niðurstaða þessarar vinnu var sú að Mosfellsbær eigi og byggi sjálfur húsið og sú lausn sem varð ofan á hefur nú verið frumhönnuð og er áætlaður byggingarkostnaður um 308 m. kr.
Við undirbúnings verksins var jafnframt litið til þess að tryggja að fleiri aðilar í Mosfellsbæ en knattspyrnufólk geti nýtt húsið undir sína starfsemi og því er til að mynda gert ráð fyrir hlaupabraut í húsinu.

Bylting í aðstöðu íþróttafólks
„Það er ánægjulegt að nú sjái fyrir endann á þessari vinnu með þessari góðu niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er ljóst að hér verður um byltingu að ræða í aðstöðu íþróttafólks í Mosfellsbæ og þá sérstaklega þeirra sem stunda knattspyrnu sem og foreldra sem fylgjast með börnum sínum í leik og keppni. Um leið gerir þetta okkur kleift að taka á móti nýjum iðkendum við fjölgun íbúa í stækkandi bæjarfélagi.“
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við húsið hefjist á næsta ári þegar hönnun hússins og deiliskipulagsferli er lokið.

Nýtt gervigras hefur verið lagt á stóra völlinn að Varmá. Nær íþróttahúsinu mun síðan rísa nýtt fjölnota íþróttahús eins og sést á yfirlitsmyndinni hér að ofan.

Nýtt gervigras hefur verið lagt á stóra völlinn að Varmá. Nær íþróttahúsinu mun síðan rísa nýtt fjölnota íþróttahús eins og sést á yfirlitsmyndinni hér að ofan.

Tugur frá Kiðafelli besti hrúturinn

Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður á Kiðafelli næsta árið.

Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður á Kiðafelli næsta árið.

stjórn sauðfjárræktarfélagsins: Ingibjörg, Ólöf ósk og hafþór

Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins: Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir, Ólöf Ósk Guðmundsdóttir og Hafþór Finnbogason.

Hin geysivinsæla hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós var haldin þriðjudaginn 17. október á Kiðafelli.
Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, Kjalarnesi, Mosfellsbæ og Mosfellsdal og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum: veturgömlum hrútum, hyrndum lambhrútum, kollóttum lambhrútum og svo var besti misliti lambhrúturinn sérstaklega verðlaunaður.
Mæting á sýninguna var með besta móti og höfðu gestir á orði að féð liti sérlega vel út þetta árið.

Bestu hrútarnir voru eftirfarandi:
Hyrndir lambhrútar
1. Hrútur númer 87 frá Kiðafelli, 87 stig. Sérlega breiðvaxinn og fallegur samanrekinn köggull.
2. Hrútur númer 736 frá Morastöðum, 87 stig. Útlögumikill hrútur.
3. Hrútur númer 370 frá Kiðafelli, 85 stig. Sprækur mjög.

Kollóttir lambhrútar
1. Hrútur númer 778 frá Miðdal, 86 stig.
2. Hrútur númer 43 frá Kiðafelli, 85,5 stig.
3. Hrútur númer 2 frá Kiðafelli, 85,5 stig.
Besti misliti lambhrúturinn var Svartur frá Kiðafelli. Sá var seldur samstundis.

Veturgamlir hrútar
1. Tugur frá Kiðafelli, 85 stig. Holdugur, breiðvaxinn og útlögumikill hrútur.
2. Garður frá Morastöðum. Fallegur, holdmikill hrútur með gott skap.
3. Prins frá Kiðafelli. Kollóttur hrútur, feiknalega holdgóður en stuttur. Köggull!

Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins óskar sigur­vegurum til hamingju, þakkar gestum fyrir komuna og bóndanum á Kiðafelli fyrir frábæra aðstöðu.