Hafa fengið einkaleyfi á nýrri framleiðsluaðferð

Snorri Hreggviðsson stofnandi Margildis með nýjar vörur.

Snorri Hreggviðsson stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Margildis með nýjar vörur.

Snorri Hreggviðsson er aðalhluthafi og stofnandi mosfellska nýsköpunarfyrirtækisins Margildi sem sérhæfir sig í framleiðslu bragðgóðs hágæða lýsis úr íslenskum uppsjávarfiski.
Fyrirtækið var stofnað af þeim Snorra og Erlingi Viðari Leifssyni og hóf starfsemi árið 2014. „Í dag eru 11 hluthafar í fyrirtækinu, þeir hafa bæði lagt okkur lið fjárhagslega en ekki síður með þekkingu, reynslu og góðu tengslaneti. Við kaupum hrálýsi frá fiskimjölsverkmiðjum á Íslandi og fullvinnum það til manneldis.
Við þróuðum nýja framleiðsluaðferð sem við höfum fengið einkaleyfi á sem stuðlar að nærri tvöfalt betri nýtingu hráefnisins. Lýsið okkar hefur verið selt til sjö landa og fleiri eru í bígerð,“ segir Snorri en Margildi framleiðir og pakkar lýsinu í verktökuframleiðslu hérlendis og í Noregi en undirbýr byggingu eigin lýsisverksmiðju hérlendis.

Markmiðið að gera lýsisneyslu að jákvæðri upplifun
„Síldarlýsi Margildis var fyrsta vara okkar á markað og fæst hérlendis undir merkjum Fisherman en nýverið kom einnig á markað Astalýsi sem Margildi þróaði í samstarfi við KeyNatura sem markaðssetur og selur það hérlendis. Astalýsi er einstök blanda síldarlýsis og astaxanthin, eins öflugasta andoxunarefnis í heimi. Styrkleikar okkar eru að við byrjum með ferskt og gott hráefni og getum þannig framleitt hágæða vöru.
Við höfum í tvígang fengið hin alþjóðlegu Superior Taste Award matvælagæðaverðlaun frá iTQi fyrir síldarlýsið okkar. Verðlaunin eru staðfesting á miklum bragðgæðum lýsisins og þau styðja það markmið Margildis að gera lýsisneyslu að jákvæðri upplifun á allan hátt.“

Öflug markaðssetning í Bandaríkjunum
Nýverið hófu Margildi og Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood samstarf varðandi markaðssetningu í Bandaríkjunum. Áætlað er að sala og dreifing hefjist síðar á árinu. „Þetta verður einhver vandaðasta markaðssetning á íslenskri vöru frá upphafi. Það er gaman að taka þátt í þessari vinnu og bindum við miklar vonir við þennan samning.
Það er mikil vitundavakning neytenda á neyslu á hágæða lýsi. Við sjáum mikil tækifæri í sölu og markaðssetningu okkar hágæðaafurða undir merkjum Icelandic,“ segir Snorri að lokum. Þess má geta að Margildi hefur meðal annars hlotið nýsköpunarstyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, Íslandsbanka og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.