Hafa mikinn metnað fyrir hönd félagsins

Byrjunarlið Aftureldingar gegn Gróttu í síðasta heimaleik. Leikurinn endaði með jafntefli eftir dramatískar lokamínútur.  Efri röð: Andri Þór,  Jose Dominguez, Róbert Orri, Sigurður, Jason Daði og Loïc M’bang Ondo. Neðri röð: Wentzel Steinarr, Andri Már, Hafliði, Steinar og Andri Freyr.

Byrjunarlið Aftureldingar gegn Gróttu í síðasta heimaleik. Leikurinn endaði með jafntefli eftir dramatískar lokamínútur. Efri röð: Andri Þór, Jose Dominguez, Róbert Orri, Sigurður, Jason Daði og Loïc M’bang Ondo. Neðri röð: Wentzel Steinarr, Andri Már, Hafliði, Steinar og Andri Freyr.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hefur byrjað tímabilið af miklum krafti. Liðið er taplaust á toppi 2. deildarinnar þegar átta leikjum er lokið.
Við tókum Arnar Hallsson þjálfara tali.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað?
„Við erum nálægt þeim markmiðum sem við settum okkur, erum efstir og höfum unnið marga leiki. Það hefur kannski komið á óvart að við höfum ekki náð að slíta okkur frá hinum liðunum þrátt fyrir að vera taplausir.“

Er hópurinn að smella saman?
„Ef við horfum fram hjá síðasta leik þá erum við í fínum gír. Menn eru orðnir vanari að spila saman og liðsheildin sterkari. Þetta hefur þróast mjög vel. Við höfum lent undir í 6 leikjum af 8 en alltaf náð að vinna eða jafna. Þetta þurfum við auðvitað að laga en þetta er mikil breyting frá því í fyrra.“

Hvernig er liðið skipað?
„Við erum með 3-4 reynda spilara, restin eru strákar sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Yfirleitt eru 5-6 í byrjunarliðinu uppaldir Mosfellingar.“

Hvernig er framhaldið?
„Við höfum verið að spila góðan sóknarleik og skorað mikið af mörkum. Strákarnir eiga eftir að eflast og styrkjast og seinni helmingurinn af mótinu verður mjög skemmtilegur. Markmiðið er alveg klárt, að fara upp um deild. Liðið hefur sýnt það að það hefur getuna til þess.“

Hvernig hefur umgjörðin og stemningin verið?
„Þetta fór mjög vel af stað en hefur dalað aðeins í kringum HM. Sumarið er tíminn og ég vil hvetja fólk til að taka þátt í gleðinni með okkur, mæta á völlinn og styðja strákana. Þeir eru búnir að leggja hart að sér í marga mánuði og hafa virkilega mikinn metnað fyrir hönd félagsins.“