Mikið tilhlökkunarefni að hefja kosningabaráttuna

Sex efstu á listanum: Jónas Þorgeir, Branddís, Anna Sigríður, Samson, Steinunn Dögg og Ólafur Ingi.

Sex efstu á lista Samfylkingarinnar: Jónas Þorgeir, Branddís, Anna Sigríður, Samson, Steinunn Dögg og Ólafur Ingi.

Listi Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor var lagður fram og samþykktur einróma á félagsfundi þann 26. febrúar.
Bæjarfulltrúarnir Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Óskarsson skipa efstu sæti framboðslistans. Konur skipa tíu sæti á listanum og karlar átta. Þá er yngsti frambjóðandinn 19 ára og sá elsti 68 ára.
Samfylkingin boðar til stefnuþings laugardaginn 24. mars kl. 11-15 í félagsheimili sínu í Þverholti 3. Þar er félagshyggjufólk velkomið að taka þátt í stefnu Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Stjórnin hvetur fólk til að taka þátt og gera Mosfellsbæ að betri bæ.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Framboðslisti samfylkingarinnar 2018
1. Anna Sigríður Guðnadóttir
2. Ólafur Ingi Óskarsson
3. Steinunn Dögg Steinsen
4. Samson Bjarnar Harðarson
5. Branddís Snæfríðardóttir
6. Jónas Þorgeir Sigurðsson
7. Gerður Pálsdóttir
8. Andrea Dagbjört Pálsdóttir.
9. Daníel Óli Ólafsson
10. Brynhildur Hallgrímsdóttir
11. Andrés Bjarni Sigurvinsson
12. Lísa Sigríður Greipsson
13. Jón Eiríksson
14. Sólborg Alda Pétursdóttir
15. Finnbogi Rútur Hálfdánarson
16. Kristín Sæunnar Sigurðardóttir
17. Guðbjörn Sigvaldason
18. Guðný Halldórsdóttir

Leggjum verk okkar undir dóm kjósenda
Anna Sigríður, sem nú leiðir lista Samfylkingarinnar í annað sinn, er full bjartsýni á kosningavori.
„Ég er óhrædd að fara í kosningabaráttu og leggja verk okkar bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu undir dóm kjósenda. Við höfum unnið að þeim stefnumálum sem flokkurinn lagði fram við síðustu kosningar og höfum náð umtalsverðum árangri með málefnalegu starfi og samtali. Sem dæmi má nefna lækkun leikskólagjalda, hækkun frístundaávísunar og stofnun Ungmennahúss, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er það sérstakt fagnaðarefni að til viðbótar við reynslumeira fólk, fáum við til liðs við okkur öflugt ungt fólk sem er reiðubúið að láta til sín taka í baráttunni um jöfnuð og samfélag fyrir alla. Með slíkan framboðslista er mikið tilhlökkunarefni að hefja undirbúning kosningabaráttunnar.“

Andrea Dagbjört

Andrea Dagbjört

Hlakka til að tala máli unga fólksins
Andrea Dagbjört er 19 ára nýstúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Ungra jafnaðarmanna síðustu fjögur árin og setið m.a. í framkvæmdastjórn ungliðahreyfingarinnar. Nú situr Andrea í stjórn skátafélagsins Mosverja.
„Ég hlakka til að tala máli unga fólksins. Ég vil leggja áherslu á æskulýðsmál og lýðræðisþátttöku ungs fólks. Mikilvægt er að hlúa að og styrkja æskulýðsstarf í bænum og sjá til þess að öll börn hafi jöfn tækifæri til að stunda og blómstra í æskulýðsstarfi. Til þess þarf meðal annars að sjá til þess að leiðbeinendur fái jafnréttisfræðslu við hæfi.“