V-listinn gengur óbundinn til kosninga

oddvitar_mosfellingur_bjarkibja

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Vinstri-grænna.

 

Nafn:
Bjarki Bjarnason.

Aldur:

65 ára.

Gælunafn:

Í Mosfellsdal var ég stundum kallaður Bjarkmundur eftir að við Guðmundur bróðir minn gerðumst áskrifendur að Þjóðviljanum undir nafninu Bjarkmundur Bjarnason.

Starf:

Rithöfundur og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Fjölskylduhagir:

Ég er kvæntur Þóru Sigurþórsdóttur leirlistakonu, börnin okkar eru Bjarni sem er gullsmiður, Vilborg þjóðfræðingur og Guðmundur húsasmiður. Við Þóra eigum fjögur yndisleg barnabörn.

Hvar býrðu?

Á Hvirfli í Mosfellsdal.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?

Ég hef búið hér í sveitarfélaginu frá árinu 1954 þegar foreldrar mínir fluttu að Mosfelli og faðir minn gerðist sóknarprestur Mosfellinga.

Hvað áttu marga vini á Facebook?

2.864.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?

Í grunninn snúast þær um það sem skiptir alla máli, jafnt Mosfellinga sem aðra:
– Aukin lífsgæði og félagslegt réttlæti, öllum til handa.
– Umhverfið okkar og Móður jörð.
– Heiðarleika og gegnsæi.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?

Allir Mosfellingar eru merkir, hver á sinn hátt, ég hvorki get né vil gera upp á milli þeirra.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Kynjahlutfallið er hnífjafnt. Elst er kjarnakonan Elísabet Kristjánsdóttir en yngstur er Bjartur Steingrímsson heimspekinemi.

Hefur þú komist í kast við lögin?

Já, umferðarlögin.

Er pólitík skemmtileg?

Hún er líkt og lífið sjálft: Fjörleg, stundum óvægin, en umfram allt spennandi og full af fyrirheitum.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?

Þegar kveikt er á kyndlunum við setningu bæjarhátíðarinnar í Álafosskvos og þeir lýsa upp þéttsetna brekkuna.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?

2-3 bolla.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?

Lengst inni á Mosfellsheiði
er lítil hringlaga seftjörn.
Á bakkanum verpir himbrimi;
sperrtur óðinshani á sundi
kinkar til mín kolli og segir:
Hér er fallegasti staðurinn
og hann þarf ekkert nafn.

Besti matur í Mosó?
Ýsa í raspi, beint úr fiskbúðinni okkar.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?

Ég kenndi einu sinni á blokkflautu við Grunnskóla Grímseyjar.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?

Róbinson Krúsó og Frjádagur yrðu efstir á gestalistanum.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?

Kaffihús.

Síðasta SMS sem þú fékkst?

Gangi þér vel í kosningunum, Bjarki minn.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?

Markmiðið er að gera okkar besta í kosningabaráttunni – síðan spyrjum við að leikslokum.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?

V-listinn gengur óbundinn til kosninga, við metum stöðuna þegar úrslitin liggja á borðinu.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?

Það er ekki gott að segja; vegir atkvæðanna eru ­órannsakanlegir.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?

Við erum með markvissa stefnu í öllum málaflokkum og frambjóðendur sem eru reiðubúnir að fylgja henni eftir af fullri einurð. Kjósum V-listann!

—–

Kynning á framboðslista Vinstri-grænna í Mosfellsbæ– Reiðubún að láta gott af okkur leiða í samfélaginu

VG í Mosfellsbæ í Mosfellsbæ á Facebook