Creedence tónlistin trekkir vel

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir.

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir eru væntanlegir í Bæjarleikhúsið laugardaginn 9. júní. 

Birgir Haraldsson og félagar hafa með reglulegu millibili þeyst um landið og spilað Creedence og John F. Fogerty lög.
Þeir hafa ferðast víða og fengið frábærar undirtektir. „Það er algerlega magnað hvað tónlist þessa manns er vel þekkt,“ segir Birgir. „Hún hefur síast inn í landann með móðurmjólkinni þannig að menn þekkja hvert einasta lag. Við höfum verið að reyna að breyta til og spila lög sem við höldum að séu minna þekkt en það breytir engu. Það er sungið með hverju einasta lagi,“ segir Birgir.
Valinn maður í hverju rúmi
Með Birgi er valinn maður í hverju rúmi. Á gítarnum er Sigurgeir Sigmundsson félagi Birgis til áratuga úr Gildrunni en bassann plokkar Ingimundur Óskarssson úr Dúndurfréttum og húðir lemur Birgir Nielsen sem starfað hefur með hljómsveitum á borð við Vini vors og blóma og Skonrokk.
Hægt er að nálgast miða í 566-7788. „Ljóst að það er að styttast í að það verði uppselt,“ segir rokkarinn geðþekki úr Mosfellsbænum að lokum.