Áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna

undirskrift

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar undirrita samninginn við Hlégarð.

Mál­efna­samn­ing­ur Sjálf­stæðis­flokks og Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs var formlega undirritaður við Hlégarð þriðjudaginn 5. júní. D- og V-listi fengu fimm af níu bæjarfulltrúa kjörna í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og halda meirihlutasamstarfi sínu áfram sem hófst fyrst árið 2006.

Skólar í fremstu röð
D- og V- listar vilja að skólar bæjarins verði í fremstu röð og státi af öflugri kennslu, bæði í verklegum og bóklegum greinum. Lögð verður áhersla á að hlúa að góðri skólamenningu og félagslífi nemenda þar sem gildi bæjarins, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja verði höfð að leiðarljósi.
Leikskólagjöld verða lækkuð um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana og miðað við að öll börn 12 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaþjónustu. Áfram verður unnið að átaki á sviði upplýsingatæknimála allra skóla í bænum.

Fjölnota knatthús á Varmársvæðinu
Á næsta ári verður fjölnota knatthús á Varm­ársvæðinu tekið í notkun og áfram unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja bæjarins í samvinnu við Ungmennafélagið Aftureldingu. D- og V-listi munu kappkosta að styðja myndarlega við allt íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla aldurhópa.
Á sviði velferðar og jafnréttis er lögð áhersla á að allir eigi rétt á lífsins gæðum. Flokkarnir vilja þrýsta á ríkisvaldið að stækka hjúkrunarheimilið Hamra og fjölga félagslegum íbúðum í samræmi við þarfir. Loks verði haldið áfram að hækka afslætti á fasteignagjöld til tekjulægri eldri borgara.

Umhverfisstefnan taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Í umhverfismálum er m.a. lögð sú áhersla að uppbygging nýrra hverfa geri ráð fyrir umhverfisvænum lífsstíl með aðstöðu til sorpflokkunar og hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Þá verði vinnu lokið við gerð umhverfis­stefnu Mosfellsbæjar sem taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á sviði skipulags- og samgöngumála verður m.a. unnið að þéttingu byggðar um leið og hvatt verði til þess að aukið fjármagn verði sett í samgöngur í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að Mosfellsbær verði áfram fyrsti valkosturinn til búsetu á höfuðborgarsvæðinu.

Hlégarður sem hús Mosfellinga
D- og V-listi vilja hvetja til nýsköpunar og frekari uppbyggingar atvinnulífs. Það verði m.a. gert með því að halda áfram að byggja upp miðbæinn með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi. Það er einnig gert með því að hefja uppbyggingu öflugs atvinnusvæðis syðst á Blikastaðalandi.
Á sviði menningarmála er lögð sú áhersla að styðja dyggilega við skapandi starf, í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið. Mörkuð verði stefna fyrir Hlégarð með það að markmiði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.

Snjallar lausnir
Á sviði fjármála, stjórnsýslu og lýðræðis er traustur fjárhagur sveitarfélagsins forsenda fyrir framkvæmdum og framförum. D- og V-listi hyggjast styrkja stoðirnar enn frekar svo vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustustigið.
Tryggja þarf bæjarbúum aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku, til dæmis með opnum fundum, skoðanakönnunum og íbúakosningum eins og Okkar Mosó. Þá verði rafræn þjónusta og íbúagátt efld með snjöllum lausnum og íbúum þannig spöruð sporin.

Allir vegir færir
„Ég er afar ánægður með niðurstöðuna og samstarfið við VG,“ segir Haraldur Sverris­son bæjarstjóri. „Með okkar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – jákvæðni – framsækni og umhyggju eru okkur allir vegir færir.
D- og V- listi hafa verið við stjórnvölinn undanfarin 12 ár og á þeim tíma hefur samfélagið eflst og þjónustan tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ.“

Lístvel á framhaldið
Bjarki Bjarnason oddviti Vinstri grænna tekur í sama streng:
„Okkur líst afar vel á starfið fram undan og málefnasamninginn sem var undirritaður við félagsheimilið Hlégarð í blíðskaparveðri.
Í samningnum er talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti. Mosfellingum fjölgar ört um þessar mundir og við erum reiðubúin að takast á við verkefnin sem stækka með hverju árinu.“