Kosningarnar snúast um fólk en ekki flokka

oddvitar_mosfellingur_stefanomar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Vina Mosfellsbæjar.

Nafn: Stefán Ómar Jónsson.

Aldur: 63 ára.

Gælunafn: Stebbi
(en bara gamlir skólafélagar úr Gaggó Mos 🙂

Starf: Stjórnsýsluráðgjafi og verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu.

Fjölskylduhagir: Einstæður, þrjú uppkomin börn og átta barnabörn.

Hvar býrðu?
Ég bý í Teigahverfinu.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Ég kom í Mosfellssveit tveggja ára og hef búið hér síðan með nokkrum hléum inn á milli.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Ég á 255 vini … abb það var einn að bætast við akkúrat núna, 256 vinir.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um fólk en ekki flokkana.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Heimsþekktastur og merkur er auðvitað Halldór Laxness. Merkastir eru nokkrir sem ég get ekki gert upp á milli. Minnist þó eins þeirra, Jóns heitins á Reykjum, fyrir það hvað hann sagði við mig þegar hann óskað mér, þá 24 ára gömlum, til hamingju með ráðningu mína sem sveitarstjóri í Garði. „Stefán, vertu alltaf heiðarlegur og samkvæmur sjálfum þér.“ Þetta hefur verið greypt í huga mér allar götur síðan.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Átta konur og tíu karlar. Þar af þrjár konur í efstu fimm sætunum. Úlla er elst og Lilja er yngst.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já, hraðasekt á Kjalarnesinu fyrir margt löngu. Sagði lögreglumönnunum að ég hefði verið að taka fram úr bíl og þá mætti auka hraðann. Þeir keyptu ekki þessa afsökun 🙁

Er pólitík skemmtileg?
Fer eftir hugarfari þeirra sem taka þátt. Já, hún á að vera það.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima og aftansöngur í Lágafellskirkju á aðfangadagskvöld.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Tvo bolla.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Að ganga meðfram Varmánni á góðviðrisdegi, frá Reykjum og niður í Álafosskvos og upplifa í leiðinni sögu hitaveitunnar, heilsutengdrar starfssemi að Reykjalundi og ullarvinnslu í Mosfellssveit á árum áður, o.fl. o.fl.

Besti matur í Mosó?
Yam í Kjarna, ekki spurning.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Það veit ábyggilega ekki að ég var í raun fyrsti trommari Stuðmanna sem þá hét Skólahljómsveit Menntaskólans í Hamrahlíð. Grunar samt að Hafsteinn viti þetta 🙂

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Engan. Ég færi einn og tæki með mér gervihnattarsíma svo ég geti láti sækja mig þegar ég er orðinn leiður á einverunni. Úbbs, er batteríið búið 🙁

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lyftukláf upp á Úlfarsfellið svo allir komist auðveldlega upp og geti þaðan virt fyrir sér fallega bæinn okkar.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
„Jú það geri ég ráð fyrir, annars græja ég það.“

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Við stefnum á þrjá.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Allir sem vilja starfa af einlægni, eru tilbúnir að hlusta, skiptast á rökum og aðhyllast opna og gagnsæja stjórnsýslu eiga samleið með Vinum Mosfellsbæjar.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð sem á sér ekki rætur í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum. Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum, með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.
Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista? Vegna þess að við erum eina algerlega óháða framboðið og án tenginga við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka. Í sveitarstjórnarmálum eru það aðeins hagsmunir sveitarfélagsins sem eiga að ráða för og ekkert annað. Í Vinum Mosfellsbæjar býr sú þekking og reynsla sem þarf við stjórn Mosfellsbæjar.

—–

Kynning á framboðslista Vina Mosfellsbæjar – Óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn

Vinir Mosfellsbæjar á Facebook