Lífið hefur verið dásamlegt í Laxnesi

Hjónin Ragnheiður Gíslason og Þórarinn Jónasson hafa staðið vaktina á Hestaleigunni Laxnesi í 50 ár.

Hjónin Ragnheiður Gíslason og Þórarinn Jónasson hafa staðið vaktina á Hestaleigunni Laxnesi í 50 ár.

Liðin eru 50 ár síðan Hestaleigan í Laxnesi í Mosfellsdal hóf starfsemi en hún er fyrsta hestaleigan hér á landi með skipulagðar ferðir og sú elsta sem er enn starfandi.
Saga fyrirtækisins er um margt merkileg og áhugaverð. Í fyrstu var starfsemin smá í sniðum en óx og dafnaði jafnt og þétt og er nú á dögum veigamikill þáttur í íslenskri ferðaþjónustu.
Ruth Örnólfsdóttir kíkti í heimsókn til Heiðu og Póra eins og þau eru ávallt kölluð. Þau renndu með henni yfir sögu fyrirtækisins, bæði í máli og myndum.

Jörðin Laxnes stendur ofarlega í Mosfellsdal norðan Þingvallavegar. Árið 1967 fluttu ung hjón úr Reykjavík, Ragnheiður og Þórarinn, að Laxnesi. Þeirra beið mikil vinna þar sem íbúðarhúsið á staðnum var í mikilli niðurníðslu, rúður brotnar og jafnvel gekk sauðfé þar um gólf. Eftir að þau fluttu inn létu þau timburklæða húsið. Enginn hiti var á því þar sem heitavatnsleiðslan hafði verið fjarlægð svo þau kyntu húsið í fyrstu með olíu. Köldu vatni var hins vegar dælt úr brunni skammt frá Köldukvísl.

Ævintýri handan við hornið
Þessir nýju Dalbúar höfðu miklar og nýstárlegar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar en draumurinn var að opna sveitaklúbb. Þau hugðust útbúa útivistarsvæði með alls kyns afþreyingu, svo sem sundlaug, gufubaði, golfi, gönguferðum og hestaleigu.
Farið var í að leggja níu holu golfvöll á heimatúninu og var starfræktur golfklúbbur í Laxnesi í rúm fimm ár. Meðfram rekstri golfklúbbsins þróaðist annars konar starfssemi sem þá þótti mikil nýlunda.
Tímar golf og næturklúbbs í Laxnesi runnu sitt skeið og golfvöllurinn breyttist í beitarhaga. Ekkert varð úr annarri afþreyingu ef undan er skilin hugmyndin um hestaleiguna. Mörgum þótti hún fáránleg í fyrstu, meðal annars vegna þess að Laxnes væri of langt frá Reykjavík og holóttur malarvegur var alla leið. Fáa grunaði þá hvaða hestaævintýri beið manna í Laxnesi handan við hornið.

laxnesveturKeypti bókina um járningar
„Það má segja að starfsemi okkar hafi byrjað fyrir slysni þegar við vorum að byrja á þessu árið 1968,“ segir Póri. „Fyrrum blaðafulltrúi hjá Loftleiðum, Sigurður Magnússon, sem starfaði með mér þar hafði samband við mig og bað mig um að taka á móti hópi fólks og fara með upp eftir á hestbak sem ég og gerði og þannig byrjaði boltinn að rúlla.
Í fyrstu voru aðeins sex hestar hér á leigunni og um langt skeið var eingöngu opið á sumrin en þó ekki daglega. Það þurfti að járna hestana og engir járningamenn á þessum tíma svo það var ekkert annað að gera í stöðunni en að kaupa sér bókina um járningar og lesa sér til.
Við vinirnir Flosi Ólafsson og Jóhann í Dalsgarði fórum oft í hestaferðir saman um landið. Ég lærði mikið af þeim sem kom sér mjög vel síðar í lengri hestaferðum mínum með erlenda gesti.“

Riðið upp að Tröllafossi
„Viðskiptavinir okkar voru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þeir voru sóttir til Reykjavíkur og svo höfðum við unglinga til aðstoðar í ferðunum.
Mest var riðið upp að Tröllafossi í Leirvogsá en þar er stórfenglegt gil og margbreytilegt landslag sem mætir manni hvarvetna. Fossinn er líka merkilegur fyrir þær sakir að hann er á náttúruminjaskrá.
Þegar fram liðu stundir bættust aðrar reiðleiðir við, allt eftir getu, tíma og óskum viðskiptavinanna. Það eru í raun hægt að segja að það séu óteljandi reiðleiðir frá Laxnesi. Á meðan á uppbyggingu fyrirtækisins stóð störfuðum við Heiða líka annars staðar, ég var við kennslu í Gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ og Heiða á Tjaldanesi.“

Hestamannafélagið Neisti
Meðfram hestaleigunni var starfrækt tamningastöð um skeið og einnig voru hross á fóðrum. Stóru fjósi var breytt í hesthús og hin geysistóra hlaða nýttist einnig vel fyrir þessa nýju starfsemi.
Hægt var að fara í hestakaup á staðnum. Þá komu menn með eigin hest og gátu fengið hentugri hest í staðinn en hinn var þá tekinn upp í. Starfsemi þessi fór fram undir nafninu Hestamannafélagið Neisti sem nefnt var eftir fyrsta hestinum sem Póri eignaðist. Hugsunin með þessu var svona svipuð eins og að reka bílasölu þar sem hægt væri að koma með gamla bílinn og fá sér einn kraftmeiri í staðinn.
Þetta var virðingarverð þjónusta fyrir þá sem unnu hestaíþróttinni en höfðu ekki tök á að sinna henni á annan hátt, en þurftu á þessari fyrirgreiðslu að halda.
Undir lok 8. áratugarins lögðu tamningastöðin og hestasalan upp laupana en hestaleigan var komin til að vera og er enn í dag starfrækt af miklum krafti.

Með reiðskóla í Viðey
Hestaleigan Laxnesi hefur einnig verið með starfsemi utan heimabyggðar. Um hríð var boðið upp á fastar ferðir til Þingvalla og þegar nær dró aldamótum var reiðskóli á vegum leigunnar í Viðey sem skapaði mikið líf í eynni. Í nokkur sumur voru einnig í boði sex daga langferðir. Í þessum ferðum voru 6-10 knapar en vistir fluttar á 2-3 trússhestum.
Einnig hefur verið leitað til leigunnar þegar mikið stendur til, til dæmis riðu meðlimir hljómsveitarinnar Skriðjökla á hestum frá frá Laxnesi árið 1986 þegar útvarpsstöðin Bylgjan var opnuð. Eins hafa hestar frá Laxnesi birst í nokkrum bíómyndum eins og Game of Thrones.
Hestaleigan varð að ævistarfi Heiðu og Póra og hafa börn þeirra, Dísa f. 1962 tölvunarfræðingur og kennari, Þórunn Lára f. 1968 dýralæknir og Haukur Hilmar f. 1975 framkvæmdastjóri hestaleigunnar öll komið mikið við sögu í uppbyggingu fyrirtækisins.

Hugmyndin rann út í sandinn
Á 9. áratugnum þegar Póri hugði á hrossaútflutning rak hann sig á veggi. Hann fékk fyrirspurn frá Belgíu um útflutning á um 400 hestum á fæti til kjötvinnslu en þá skarst Samband íslenskra samvinnufélaga í leikinn og gerði athugasemdir við að aðrir en Sambandið flyttu út hesta. Þeir kváðust vera með einkaleyfi á útflutningi á öllu kjöti svo ekkert varð úr þessari hugmynd að sinni.
Seint á áratugnum hugði Póri á útflutning á um 40 hestum til Bandaríkjanna en aftur skarst Sambandið í leikinn og hugmyndin rann út í sandinn.

Flutti út sýningarhesta til Hollywood
Póri var þó ekki af baki dottinn varðandi útflutninginn og árið 1992 flutti hann út sýningarhesta til Bandaríkjanna en þar var tiltölulega fátt um íslenska hesta. Fyrirhugað var að að taka þátt í hestasýningu í útjaðri Hollywood eða „The L.A. Agent Equestrian center“ sem er eins konar Víðidalur Los Angeles borgar. Knaparnir voru ekki af verri endanum og sumir þeirra skipuðu íslenska landsliðið á þeim tíma.
Aðdragandi sýningarinnar var sá að maður að nafni Michael Solomon forstjóri Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins hafði verið við laxveiðar hér á landi. Í einni af ferðum sínum kynntist hann íslenska hestinum í gegnum hestaleiguna í Laxnesi. Kunningsskapur Michaels og Póra leiddi síðar til þess að vegna áhrifa Michaels var fengið inni á sýningum sem voru haldnar á nokkrum stöðum og vöktu athygli fjölmiðla. Póri var m.a. tekinn í viðtal hjá sjónvarpsstöðvunum CBS og CNN.
Íslenski hesturinn vakti alls staðar óskipta athygli og var jafnan hápunktur sýningarhaldsins. Í kjölfarið hófst mikill útflutningur á hestum til Bandaríkjanna.

Reyndi á samspil manns og hests
Þol og þrek íslenska hestsins hefur ávallt verið áhugamál Póra og skipulagði hann þolreiðarkeppni að erlendri fyrirmynd í samvinnu við Helga Sigurðsson dýralækni.
Fyrst var efnt til þolreiðar árið 1988 og fór hún þannig fram að knapar riðu einhesta frá Laxnesi til Þingvalla sem er um 30 km leið. Daginn eftir var haldið tilbaka um Almannagjá og að Laxnesi.
Hjartsláttur hestanna var mældur á áfangastað. Ef hann reyndist of hár gilti það sem refsistig og gat leitt til þess að knapi og hestur féllu úr keppni. Þolreiðin reyndi því mikið á samspil manns og hests.
Þolreiðarhugmyndin hefur skotið rótum allvíða í Evrópu, bæði á Norðurlöndum og í Þýskalandi og kom Póri að þeirri skipulagningu í samvinnu við Icelandair. Vegalengdin var ævinlega 20 km. Hestaleigan Laxnes gaf verðlaunabikara en Icelandair farmiða í verðlaun.

Fólk með mismikla reynslu
„Að reka hestaleigu er ekkert ósvipað og eiga fataverslun, það þarf að eiga allar mögulegar stærðir og gerðir,” segir Póri og brosir. „Við erum með 120 hesta og hingað kemur fólk með mismikla reynslu og oft eru börn með í för svo það þarf að eiga hesta sem henta öllum. Það koma um 15 þúsund gestir að Laxnesi á ári, 85% þeirra eru erlendir ferðamenn, alls staðar að úr heiminum.“
„Við sækjum viðskiptavini okkar til Reykjavíkur ef óskað er eftir því,“ segir Heiða. „Það eru farnar tvær skipulagðar ferðir á dag, ein á morgnana og svo önnur eftir hádegi. Þetta eru um tveggja tíma útreiðartúrar og leiðirnar liggja um fallegt og stórbrotið landslag. Í hádeginu er svo boðið upp á súpu og brauð og ilmandi gott kaffi á eftir.
Við bjóðum líka í samvinnu við önnur fyrirtæki ferðir um gullna hringinn, köfun í Silfru, hellaskoðun, hvalaskoðun og lundaskoðun.“

Ræktunin tekið miklum breytingum
Tal okkar berst að ræktun á íslenska hestinum sem þekktur er fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir, fet, brokk, stökk, tölt og skeið. „Ræktunin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áherslum hefur verið breytt, einstaklingar hafa komið þar inn með fjármuni og kunnáttu,“ segir Póri.
„Ég hef séð miklar framfarir og er ánægður með það starf sem unnið er, sérstaklega hjá ungviðinu á Hólum í Hjaltadal. Þetta unga fólk hefur skarað fram úr og hefur unglingastarf átt stóran þátt í uppbyggingu á þróun og ræktun á íslenska hestinum.“

Hlöðupartý í tilefni stórafmælis
Í júní síðastliðnum var haldið upp á 50 ára afmæli Hestaleigunnar í Laxnesi og mættu á annað hundrað manns í hlöðupartý og var mikil gleði við völd. Grillvagninn mætti á svæðið, Dísella Lárusdóttir söng nokkur vel valin lög og KK lék fyrir dansi.
Veislustjóri var skemmtikrafturinn og eftirherman Jóhannes Kristjánsson. Meðal gesta voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Ágústsson.

Forréttindi að vinna við áhugamál sitt
Ég spyr þau hjónin að lokum hvað standi upp úr þegar þau horfi til baka þessi 50 ár sem þau hafa rekið ferðaþjónustu. „Því er fljótsvarað, það er að hafa getað starfað við áhugamál sitt í allan þennan tíma og kynnst öllu þessu góða fólki sem hefur komið hingað til okkar í gegnum tíðina,“ segir Póri og Heiða var fljót að taka undir það.
„Lífið hefur verið dásamlegt hérna í Laxnesi og við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur staðið sig vel og verið boðið og búið að fara með viðskiptavini í útreiðatúra hvernig sem viðrar.
Við sjáum fram á góða tíma. Íslenski hesturinn og náttúra Íslands er svo stórbrotin að það kemur ekki á óvart að fólk sæki okkur Íslendinga heim allt árið um kring og ekki má gleyma að norðurljósin eiga stóran þátt í því.“

Mosfellingurinn 20. desember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Ungu sveinarnir orðnir tvítugir og gefa út afmælisrit

UMFUS-félagar með þjálfarann og ritstjórana fremsta í flokki.

UMFUS-félagar með þjálfarann og ritstjórana fremsta í flokki.

Ungmennafélagið ungir sveinar, UMFUS, er 20 ára um þessar mundir. Í tilefni þess hafa þeir Hallur Birgisson og Jón Guðmundur Jónsson sett saman glæsilegt rit um sögu félagsins sem kemur út á aðalfundi UMFUS þann 29. desember.
„Afmælisritið er byggt á frásögnum formanna félagsskaparins í gegnum tíðina, tveir formenn eru fyrir hvert ár og þeir segja sína sögu. Þetta eru því alls 40 formenn sem hafa verið við völd frá upphafi. Við erum aðeins heimildaaflarar sem skrásetjum söguna,“ segir Hallur.

Þrír þrektímar í viku í 20 ár undir handleiðslu Ella Níelsar
„Þetta byrjaði árið 1998 í Toppformi að Varmá þar sem Elías Níelsson stýrði Karlaþreki og voru það þeir Sigurður Borgar og Halldór Jökull sem stofnuðu félagsskapinn UMFUS. Árið 2000 var komið gott form á þetta hjá okkur og farnar voru bæði vor og haust keppnisferðir. En síðan þá höfum við brallað ýmislegt saman bæði innanlands og erlendis. Í 20 ár hafa verið þrír þrektímar í viku og er gaman að segja frá því að Elli Níelsar er búinn að vera með hópinn frá upphafi,“ segir Jón Guðmundur og tekur fram að tímarnir eru opnir og allir velkomnir.

Allur ágóði til góðra málefna í heimabyggð
„Við höldum alltaf aðalfund í lok hvers árs þar sem nýir formenn eru kjörnir og árið gert upp. Við veitum þar viðurkenningar fyrir ýmis afrek ársins.
Við ætlum að gefa afmælisritið út á aðalfundinum í ár. Ritið verður selt og allur ágóði mun renna til góðs málefnis í Mosfellsbæ,“ segja þeir félagar að lokum en þess má geta að UMFUS hefur einnig staðið fyrir svokölluðum Kótilettukvöldum þar sem ágóðinn hefur verið gefinn til verðugra málefna í heimabyggð.

Helgafellsskóli tekinn í notkun í janúar

helgafellsskolides

Stefnt er að því að skólahald í nýjum Helgafellsskóla í Helgafellshverfi hefjist í janúar 2019. Bygging skólans er stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins um þessar mundir en skóflustunga var tekin í desember 2016. Í vor var ákveðið að flýta framkvæmdum en byggt er í fjórum áföngum og verður sá fyrsti tekinn í notkun í janúar.

Flytja úr Brúarlandi í Helgafellsskóla
Þeir nemendur sem hefja skólagöngu í Helgafellsskóla eru í dag í Brúarlandi, útibúi frá Varmárskóla. „Nemendur og kennarar úr Brúarlandi munu allir fara yfir í Helgafellsskóla en í dag eru 92 nemendur í Brúarlandi í 1. – 5. bekk. Á svipuðum tíma verður opnuð ein deild í leikskólanum fyrir elstu nemendurna,“ segir Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri Helgafellsskóla.
Spár gera ráð fyrir að þegar skólinn verði fullsetinn stundi þar nám um 600 grunnskólanemendur og 110 leikskólanemendur á aldrinum 1–16 ára.

Húsnæði skólans „hálfopið”
„Í skólanum er stórt kennslurými og þrjú minni á hverju kennslusvæði auk þess sem hver tvö svæði hafa sameiginlega lítinn sal til kennslu. Næsta haust verður leikskólahluti hússins tilbúinn og svo innan fárra ára fleiri kennslusvæði, þar með talið fyrir list- og verkgreinar.
Kennsluaðferðir í skólanum verða fjölbreyttar þar sem nám og vellíðan nemenda verður í fyrirrúmi. Kennarar vinna í teymum með hvern árgang, honum verður ekki skipt upp í bekki heldur verður skipt í minni hópa út frá því verkefnum.“

Áhersla lögð á lýðræði
„Áhersla verður lögð á lýðræði þar sem allir í skólanum hafi rödd og verða nemendur virkjaðir í að hafa skoðanir meðal annars á skólastarfinu, rökstyðja þær og koma þeim í framkvæmd.
Helgafellsskóli stendur á fallegum stað og verður útinám ein af grunnstoðum skólans. Jafnframt verður heilbrigði og hollusta útgangspunktar í skólastarfinu þar sem horft verður til aukinnar hreyfingar og heilsusamlegs matar í skólanum.
Lagt verður upp með samþættingu námsgreina og að frístunda- og tónlistarstarf fléttist inn í skólastarfið. Tómstundafræðingar vinna að hópefli og aukinni félagsfærni nemenda í samstarfi við kennara skólans,“ segir Rósa.

Hver er Mosfellingur ársins 2018?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2018 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Þetta er í fjórtánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason og Jón Kalman Stefánsson.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2019, fimmtudaginn 10. janúar.

Mosfellingar fá hraðhleðslu

Frá opnun hlöðunnar í Háholti. Valgerður Fjóla Einarsdóttir, Guðný Rósa, Hafrún, Guðjón og Kristinn.

Frá opnun hlöðunnar í Háholti. Valgerður Fjóla Einarsdóttir, Guðný Rósa, Hafrún, Guðjón og Kristinn.

Orka náttúrunnar hefur í samstarfi við N1 tekið í notkun hraðhleðslu fyrir rafbíla í Mosfellsbæ. Það var rafbílaeigandinn og Mosfellingurinn Valgerður Fjóla Einarsdóttir sem hlóð fyrstu hleðsluna föstudaginn 14. desember.
„Það er gríðarlegur munur að fá hraðhleðslu hingað í heimahagana og þurfa ekki að leita langt yfir skammt þegar hleðslu er þörf,“ sagði Valgerður Fjóla við þessi tímamót.
Viðstödd voru auk Valgerðar Fjólu Guðjón Hugberg Björnsson og Hafrún Þorvaldsdóttir frá ON, Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri hjá N1 og Kristinn Guðmundsson verslunarstjóri Háholti í Mosfellsbæ.

Ánægjulegt samstarf ON og N1
Fyrir tæpum tveimur árum gerðu ON og N1 með sér samkomulag um uppsetningu á hlöðum á þjónustustöðvum N1, sem býr yfir einu stærsta neti þjónustustöðva við vegi landsins. N1 korthafar fá 10% afslátt af mínútugjaldinu í hraðhleðslum ON á 10 þjónustustöðvum N1 víðsvegar um landið.
„Það hefur lengi verið á dagskrá að bæta við hleðslu í Mosfellsbæ og við höfum fengið margar fyrirspurnir. Það skiptir okkur hjá N1 miklu máli að svara þörfum allra okkar viðskiptavina, ekki síst þeirra sem kjósa að aka með umhverfisvænum hætti“, sagði Guðný Rósa.
Hlaðan í Háholtinu er með tveimur hraðhleðslutengjum auk Type 2 hleðslutengis.

Ekki bara íþrótt

Heilsumolar_Gaua_20des

Núna rétt fyrir jólin ætti heilsupistill mögulega að fjalla um það sem flesta skiptir mestu máli um hátíðarnar – samveru, góðan mat, ró og frið, afslappað andrúmsloft. Gjafir skipta máli, en eftir að hafa flakkað á milli vinnustaða í desember til að ræða þetta, leyfi ég mér að fullyrða að við séum að breytast sem samfélag. Sí fleiri forgangsraða samveru ofar en gjöfum og gjafir eru að breytast frá því að vera stórar og dýrar yfir í að snúast að gera eitthvað skemmtilegt. Helst með þeim sem gefur gjöfina. Það finnst mér vera góð þróun. En ég ætla ekki að fjalla um þetta í dag.

Í þessum síðasta pistli ársins langar mig að skrifa um uppáhaldsíþróttina mína, fótbolta. Ég hef gaman af mörgum íþróttum, hef æft og prófað ýmsar íþróttir og á eftir að prófa fleiri. En það er eitthvað við fótboltann sem nær mér alltaf. Sama þótt ég reyni reglulega að sleppa af honum takinu. Ég spila reyndar ekki sjálfur fótbolta reglulega en leik mér við guttana mína og tek öðru hvoru þátt í skemmtilegum viðburðum og mótum. Síðasti viðburður var einmitt í síðustu viku þegar foreldrum og systkinum stráka í 7. flokki var boðið að vera með á æfingu þeirra og spila á móti þeim. Þetta var stórkostlega skemmtilegt og eitthvað sem mætti gera oftar. Tengir foreldra saman, eflir tengsl þeirra við krakkana sína og við þjálfara þeirra.

Fótbolti er miklu meira en bara íþrótt. Fótbolti opnar dyr alls staðar í heiminum. Hvert sem við förum er einhver sem hefur áhuga á fótbolta, það skapar samræðugrundvöll og hann hefur ekki minnkað síðan Ísland fór að gera sig gildandi á heimskortinu. 2019 verður ár Aftureldingar í fótboltanum, bæði karla- og kvennamegin. Við eignuðumst okkar fyrstu Íslandsmeistara í 11 manna bolta á þessu ári. Það var bara byrjunin!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. desember 2018

Ætla að afla sér þekkingar um langlífi og heilsuhreysti

Vala, Patrekur Orri, Snorri Valur og Guðjón.

Vala, Patrekur Orri, Snorri Valur og Guðjón.

Hjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson eru á leið í spennandi rannsóknarleiðangur í janúar næstkomandi. Hjónin reka æfingastöðina Kettlebells Iceland á Reykjavegi í Mosfellsbæ.
Vala er menntaður iðjuþjálfi og vann í mörg ár á Reykjalundi, Guðjón er samskiptafræðingur og starfar sem ráðgjafi í orkustjórnun hjá Hagvangi auk þess að skrifa heilsupistla í Mosfelling. Vala og Gaui eiga fjóra drengi á aldrinum 7-23 ára.

Dvelja á stöðum þar sem fólk lifir lengst
„Við Vala og tveir yngstu drengirnir okkar erum að elta hjartað og erum á leið í fimm mánaða rannsóknarleiðangur í janúar. Förum á staði þar sem fólk lifir lengst og við besta heilsu. Við ætlum að taka viðtöl við heimamenn, lifa eins og þeir og komast að leyndardómum þeirra frá fyrstu hendi. Svo ætlum við að skrifa bók og gefa út haustið 2019 og halda fyrirlestra víða um Ísland og segja frá því sem við höfum komist að. Vonandi náum við að fjármagna það verkefni, en nú stendur yfir hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund,“ segir Gaui.

Í fimm mánuði um fimm blá svæði
„Blue Zones eru fimm svæði í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa fram á síðasta dag er regla frekar en undantekning. Við viljum læra af þessum svæðum hvernig við getum dregið verulega úr stressi og álagi, forðast lífsstílstengda sjúkdóma, bæta heilsuna og lifað lengi – betur.
Bæirnir sem tilheyra Blue Zones svæðunum eru Loma Linda í Bandaríkjunum, Nicoya-skaginn á Kosta Ríka og eyjurnar Okinawa í Japan, Ikaria á Grikklandi og Sardinía á Ítalíu,“ segir Vala en bókin kemur til með að heita Lifum lengi – betur.

Gulrótin hvatning til að fara af stað
„Stundum þarf hvatningu eða smá spark í rass til þess að láta drauma verða að veruleika. Þann 29. maí þegar við hjónin fengum afhenda Gulrótina, lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu bæjarins, ákváðum við að láta slag standa. Fara í Blue Zones ferð, komast að leyndarmálum þessara fimm samfélaga og miðla síðan áfram til Íslendinga því sem við myndum komast að.
Við erum gríðarlega þakklát þeim sem taka þátt í að fjármagna þetta með okkur og dreifa boðskapnum áfram. Okkur langar virkilega að láta þetta gerast.“
Smellið hér til að skoða verkefnið á Karolina Fund.

blue

Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir

Fjölskyldan, Arna Sif, Louisa Sif, Sölvi Már, Lárus Arnar, Júlía Rut og hundurinn Albert

Fjölskyldan, Arna Sif, Louisa Sif, Sölvi Már, Lárus Arnar, Júlía Rut og hundurinn Albert.

Júlía Rut Lárusdóttir Mønster greindist með bráðahvítblæði árið 2017 aðeins þriggja ára gömul.

Föstudagurinn 15. september 2017 byrjaði eins og allir aðrir dagar hjá fjölskyldu Júlíu Rutar sem býr í Klapparhlíðinni. Börnin fóru í skólann og foreldrarnir til vinnu en stuttu síðar fékk faðirinn símtal frá leikskólanum um að Júlía væri komin með hita svo hún var sótt og farið var með hana heim.
Eftir að Júlía Rut var lögst fyrir fann móðir hennar eitthvað ílangt og hart í maga hennar sem var langt frá því að vera eðlilegt og leitaði hún því til læknis. Tveimur dögum síðar var komin endanleg niðurstaða, Júlía var greind með bráðahvítblæði.

Júlía Rut er fædd 11. apríl 2014. Foreldar hennar eru þau Louisa Sif Mønster iðjuþjálfi sem starfar á geðheilsusviði Reykjalundar og Lárus Arnar Sölvason hársnyrtir á Quest Hair, Beer and Wisky Saloon.
Systkini Júlíu Rutar eru þau Sölvi Már f. 2009 og Arna Sif f. 2015.

Keyptu sér íbúð í Mosfellsbæ
„Ég ólst upp í Hafnarfirði og Lárus í Breiðholtinu en árið 2004 keyptum við okkar fyrstu íbúð hér í Mosfellsbæ,“ segir Louisa Sif. „Ástæða þess er kannski sú að við eltum mág minn hingað upp eftir og þegar þau keyptu sér nýja íbúð í Klapparhlíð þá slógum við til líka. Á árunum 2006-2011 bjuggum við í Danmörku þar sem ég stundaði nám í iðjuþjálfun.“

Fann eitthvað ílangt og hart
„Það er ótrúlegt hvað líf manns getur breyst á örskotsstundu,” segir Louisa Sif þegar ég spyr hana hvernig veikindi Júlíu Rutar hafi uppgötvast.
„Lárus fékk símtal frá leikskólanum um það að Júlía Rut væri komin með hita svo að hún var sótt og farið með hana heim. Hún sofnaði í stuttan tíma og þegar hún var að vakna strauk ég yfir magann á henni og finn þá eitthvað ílangt og hart sem mér fannst eitthvað skrítið.
Ég ráðfærði mig við Jennýju vinkonu mína sem starfar sem hjúkrunarfræðingur og hún ráðlagði mér að panta tíma hjá Domus Medica sem ég gerði og við komumst að sama dag. Á móti okkur tók Ólafur Gísli læknir sem skoðaði Júlíu Rut og eftir að skoðuninni lauk bað hann mig um að fara með hana beint á bráðamóttökuna.“

Smávægileg einkenni komu í ljós
Á bráðamóttökunni fór Júlía Rut í rannsóknir og í sneiðmyndatöku. Rétt fyrir miðnætti fengust þær fréttir frá læknunum að þeir töldu að hún væri með bráðahvítblæði. Endanleg greining kom svo í ljós tveimur dögum seinna, bráða­eitilfrumu­hvítblæði (T-ALL).
Það sem fannst í maga Júlíu Rutar var bólgið milta sem var búið að ryksuga allar hvítblæðisfrumurnar. Ef þessi bólga hefði ekki uppgötvast þá hefðu næstu einkenni verið blóðnasir og húðblæðingar. Með tímanum hefði hún líka hækkað í hvítblæðisprósentunni, en hún var með 67% við greiningu.
„Þegar við hugsum til baka þá voru smávægileg einkenni sem tengdust sjúkdómnum smám saman búin að koma í ljós. Hún hafði t.d. kvartað undan verkjum í fótum, þreytu og kulda og að henni væri illt í maganum en það lagaðist oft fljótt þegar hún var búin að borða.
Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir og það eina sem komst að í huga okkar var að við gætum misst hana. Þessi heimur var okkur mjög framandi og okkur leið eins og búið væri að kippa undan okkur fótunum.“

Þurfti ekki að fara til Svíþjóðar
„Þegar við Lárus vorum aðeins búin að ná áttum fengum við fljótlega þær upplýsingar að mikið væri búið að gerast í krabbameinsrannsóknum barna og þá sérstaklega síðustu 10 ár og að batahorfur væru mjög góðar.
Júlía Rut greinist á föstudegi og byrjaði í meðferð þremur dögum seinna eða 18. september. Meðferðartíminn er tvö og hálft ár þannig að hún ætti að klára meðferð vorið 2020.
Hún var nánast á spítalanum samfellt fyrstu átta mánuðina. Hún fór í margar háskammtameðferðir, fór heim í nokkra daga, fékk hita, fór þá í einangrun og fékk sýklalyf og svo byrjaði næsta meðferð, svona gekk þetta í margar vikur.
Í nóvember 2017 eða eftir nokkrar háskammtameðferðir fengum við þær gleðifregnir að hvítblæðisprósentan væri komin niður í 0,04%. Það þýddi á þessum tímapunkti að hún þurfti ekki að fara til Svíþjóðar í beinmergsskipti. Hún hélt því áfram í háskammtameðferð og 13. desember var hvítblæðið horfið. Það þýddi þó ekki að meðferðin væri búin, meðferðin er alltaf tvö og hálft ár, annars er hætta á að hvítblæðisfrumurnar fjölgi sér aftur.“

Dugleg að dunda sér á spítalanum.

Dugleg að dunda sér á spítalanum.

Vorum lömuð af hræðslu
„Eftir stífar átta mánaða háskammta­meðferðir fór Júlía Rut yfir á viðhaldsmeðferð. Í þeirri meðferð er lengra á milli meðferða. Það var búið að segja okkur að nú yrði þetta allt betra og okkur var létt við þær fregnir.
Hún hafði grennst mjög mikið, verið með mikla ógleði, átti erfitt með gang og fleira. En þar sem ónæmiskerfið er oft svo bælt, greindist Júlía Rut með CMV-veiru í júní sl. Þetta er veira sem er ekki hættuleg fyrir heilbrigða einstaklinga en leggst oft mjög illa á ónæmisbælda einstaklinga.
Júlía Rut var því mjög veik í sumar og í september sl. lagðist veiran mjög illa á lungu hennar og hún fékk einnig sveppasýkingu sem varð til þess að hún fékk lungnabilun. Í kjölfarið var hún lögð inn á gjörgæslu þar sem hún dvaldi í 3 vikur og var haldið sofandi í öndunarvél í 17 daga. Ástand hennar var mjög tvísýnt og hún var í lífshættu. Við vorum lömuð af hræðslu og þetta voru hræðilegar aðstæður sem við óskum engum að vera í.“

Fer í gegnum þetta með seiglu og krafti
„Hún hefur nú fengið tíma til þess að jafna sig eftir þessi erfiðu veikindi og ekki verið í krabbameinsmeðferð á meðan. Það er búið að endurskoða meðferðarplanið eftir þessa reynslu og fær hún að sleppa tveimur háskammtameðferðum.
Hún byrjaði aftur að taka krabbameinslyf 13. nóvember og fór í svæfingu 19. nóvember þar sem hún fékk lyf í mænuvökvann. Það fær hún svo á 6 vikna fresti þangað til í lok júlí 2019, en þá tekur önnur meðferð við.
Í svæfingunni var einnig tekið beinmergssýni til þess að athuga hvort sjúkdómurinn væri að taka sig upp aftur eftir langa meðferðapásu vegna veikindanna á gjörgæslunni.
Júlía Rut er ofurhetjan okkar og hún fer í gegnum þetta af mikilli seiglu og krafti. Hún lifir í núinu og það hjálpar henni mikið. Hún er bráðþroska, ofboðslega dugleg að gera allt sem er ætlast til af henni, oft í erfiðum aðstæðum.“

Hjálpar að skrifa og tala um hlutina
„Þegar Júlía Rut greindist var mikið álag á okkur hjónunum að upplýsa fjölskyldur okkar og vini um veikindi hennar. Við stofnuðum því lokaða Facebook-síðu með því markmiði að upplýsa fólk um gang mála.
Það hefur verið ómetanlegt og mikil hjálp að finna fyrir hvatningu, stuðningi, hugsunum og orku sem hefur streymt til okkar í gegnum síðuna. Ég trúi því líka að það hjálpi að skrifa og tala um hlutina.“

Pössum vel upp á góðu stundirnar
„Okkur hjónum þykir mjög mikilvægt að allir í fjölskyldunni fái sinn tíma og leggjum við mikla áherslu á að sinna okkur sjálfum svo við séum betur í stakk búin til þess að takast á við þetta stóra verkefni sem okkur hefur verið úthlutað. Það gerum við m.a. með því að sinna hreyfingu, fara reglulega í viðtöl hjá prestinum á Barnaspítalanum og eiga góðar stundir, bara við tvö.
Systkini Júlíu Rutar, þau Sölvi Már og Arna Sif, skipta ekki síður máli. Þau eiga oft erfitt þar sem athyglin er oft á systur þeirra og við dveljum hjá henni til skiptis á spítalanum í langan tíma. Það er því mikil­vægt að forgangsraða og eiga með þeim ánægjulegar stundir.“

Gáfu Barnaspítala Hringsins eintak
„Ég hef verið að búa til bækur um veikindi Júlíu Rutar og er nú að vinna að sjöundu bókinni. Þessar bækur innihalda allan þann texta sem ég hef sett inn á Face­book-síðuna, myndir og kveðjur. Í framtíðinni verða þetta dýrmætar bækur sem við fjölskyldan getum skoðað. Það verður erfitt að skoða þær en líka gott að geta séð alla sigrana sem við höfum gengið í gegnum.
Við hjónin gáfum Barnaspítala Hringsins eitt eintak af fyrstu bókinni, þ.e. fyrstu 50 daga frá greiningu Júlíu Rutar með von um að hún geti hjálpað fjölskyldum nýgreindra barna. Við gerðum það vegna þess að þegar við lítum til baka, þá hefðum við viljað fá eitthvað svipað í hendurnar. Bara til að sjá að þetta ferli yrði ekki bara ömurleg spítala­dvöl, heldur líka fullt af góðum minningum, gleði, sigrar og hamingja yfir litlu sigrunum í daglegu lífi.“

Heppin að eiga gott tengslanet
„Að ganga í gegnum svona reynslu er langt og strangt ferli þar sem þarf að hafa marga bolta á lofti til þess að allt gangi sem best miðað við aðstæður. En við hefðum ekki getað þetta án allra þeirra hjálpar sem við höfum fengið. Við erum ótrúlega heppin að eiga gott tengslanet, frábærar fjölskyldur og vini sem standa þétt við bakið á okkur, hvort sem það er að passa börnin, hundinn, elda fyrir okkur, skutlast fyrir okkur, hlusta á okkur eða eitthvað allt annað.
Einar bróðir Lárusar og Hafdís kona hans gættu barnanna okkar í viku á meðan við vorum hjá Júlíu Rut á gjörgæslunni. Klara æskuvinkona mín hefur eldað fyrir okkur einu sinni í viku í marga mánuði. Það hafa samstarfsfélagar mínir á iðjuþjálfadeild Reykjalundar líka gert, móðir mín, Kolbrún sambýliskona tengdapabba og fleiri og fyrir það erum við óendanlega þakklát.“

Ómetanlegur stuðningur
„Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur stutt vel við bakið á okkur fjölskyldunni og er mikilvægt að finna fyrir því í svona erfiðu verkefni. Það eru t.d. mömmu- og pabbahópar í boði undir handleiðslu og listþerapía fyrir börn greind með krabbamein eða systkini þeirra.
Stuðningur frá vinnustað mínum, æfingarfélögum, leikskóla, skóla og samfélaginu öllu hefur verið ótrúlegur og það er okkur ómetanlegt. Við þökkum starfsfólki Barnaspítala Hringsins og gjörgæslunnar sérstaklega fyrir góða umönnun og hlýhug í okkar garð.
Við fáum seint fullþakkað fyrir allan þennan stuðning, við lítum björtum augum til framtíðar og viljum fá að nota tækifærið í þessu viðtali og segja, þúsund þakkir.“

Mosfellingurinn 29. nóvember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Leikfimi eldri borgara slær í gegn

eldrileikfimi

eldrikvótÍ haust var hleypt af stokkunum 12 vikna tilraunaverkefni sem byggir á samstarfi FaMos, Mosfellsbæjar og World Class. Um er að ræða leikfiminámskeið fyrir 67 ára og eldri sem fram fer í World Class í Lágafellslaug.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og lögð hefur verið áhersla á að auðvelda eldri borgurum að stunda hreyfingu og er þetta verkefni einn liður í því. Það eru þær Halla Karen Kristjánsdóttir og Sigrún Björg Ingvadóttir sem kenna á námskeiðinu. Æfingar fara fram tvisvar í viku, klukkutíma í senn.

„Það vill enginn missa af tíma”
„Þetta er nú með því skemmtilegra sem við höfum gert. Hóparnir eru frábærir og við erum með fjölbreytta og skemmtilega tíma,“ segir Halla Karen.
Við sjáum og fólkið finnur mikin mun á sér á þessum vikum sem liðnar eru frá því við byrjuðum. Ekki bara í styrkleika því við erum að líka að efla þolið, liðleika og jafnvægi. Það eru 20 manns í hvorum hóp og það má eiginlega segja að það sé alltaf toppmæting, það vill engin missa af tíma.“
„Þetta hefur gengið glimrandi vel og við finnum fyrir mikilli ánægu og sjáum þvílíkar framfarir. Við kynnum þau líka fyrir tækjasalnum og hraðbrautinni og hvetjum þau til að koma í ræktina oftar en þessa tvo tíma í viku.
Það er alltaf glens og gaman hjá okkur í tímunum en alltaf tekið vel á því. Svo eru margir sem notfæra sér sundlaugina og pottana eftir æfingar,“ segir Sigrún Björg.

Áframhaldandi verkefni
„Það er nú þegar búið að taka ákvöruðun um bjóða upp á áframhaldandi 12 vikna námskeið eftir áramót. Við verðum með tvo framhaldshópa og einn byrjendahóp. Svo tökum við stöðuna í framhaldinu hvernig fyrirkomulagið verður.
Það er líka verið að skoða frekara samstarf við t.d. Heilsugæsluna. En það er alveg ljóst að þetta er eitthvað sem verður í boði áfram fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ,“ segja þær Halla Karen og Sigrún að lokum.

Íbúarnir öruggari í vöktuðu hverfi og fælingarmátturinn mikill

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Öryggismyndavél hefur verið sett upp í Krikahverfi að tilstuðlan íbúasamtaka hverfisins. Nú þegar er komin góð reynsla á myndavélina en uppsetning hennar var sett á oddinn strax þegar íbúasamtökin voru stofnuð í Krikahverfinu.
„Það hafði verið hér alda þjófnaðar í hverfinu og svo virðist sem bílaplanið við Krikaskóla hafi verið notað sem smásölumarkaður vafasamra viðskipta,“ segir Helena Kristinsdóttir formaður íbúasamtaka Krikahverfis.
„Í vikunni áður en myndavélin kom var farið í nánast alla bíla í Stórakrikanum og eiginlega bara öllu stolið steini léttara. Þá hafa fundist sprautunálar og annað til fíkniefnaneyslu við skólann.
Eftir að myndavélin kom upp sjást varla ókunnugir bílar hér á kvöldin. Við sjáum mikinn mun og ég veit ekki til þess að það hafi eitthvað misjafnt átt sér stað síðan myndavélin kom upp.“

Aðeins lögreglan með aðgang að efni
Myndavélin er staðsett við aðkomuna inn í hverfið en aðeins ein leið er inn í hverfið. Myndavélin nær því öllum bílum sem koma inn í hverfið, bílaplaninu við Krikaskóla og allt niður að hringtorgi. Myndavélin er með infrarauðu ljósi sem virkar því vel í skammdeginu þegar greina þarf númeraplötur bíla.
„Ef upp koma mál í hverfinu er lögreglan kölluð til og málið fær svokallað málsnúmer. Það þýðir að lögreglan getur óskað eftir myndefni úr eftirlitsvélinni. Mjög strangar reglur lúta að myndavélinni og eingöngu lögregla getur komist í upptökur.
Hér hefur enginn sett sig upp á móti uppsetningu myndavélarinnar og íbúar virðast mjög ánægðir með það öryggi sem fylgir henni. Þeir sem eru með hreinan skjöld og aka hér um ættu ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur.
Þetta er, að mér skilst, eina virka eftirlitsmyndavélin í Mosfellsbæ þessa stundina en ég vona þeim muni fjölga á næstunni.
Við vorum svo heppin að hjón í hverfinu gáfu myndavélin og uppsetningu á henni en það eru eigendur Verslunartækni, þau Sigurður Teitsson og Anna Björg Jónsdóttir. Við erum þeim gríðarlega þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf,“ segir Helena.

Í skoðun að setja upp á fleiri staði
Hafliði Jónsson öryggisráðgjafi hjá Verslunartækni segir myndavélar sem þessa fyrst og fremst hafa mikinn fælingarmátt og auka öryggi íbúa til muna.
„Við erum komin með góða reynslu á öryggismyndavélum víðs vegar um landið og þeim fer alltaf fjölgandi. Myndavélarnar eru með tvíþætta linsu sem virkar bæði dag og nótt. Upplýsingar úr myndavélunum okkar hafa gagnast lögreglu í ótal tilvikum,“ segir Hafliði.
Samkvæmt heimildum Mosfellings hefur verið sett fjármagn í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar til uppsetningar á fleiri ­öryggismyndavélum í bænum í samvinnu við íbúasamtök.
Í undirbúningi er samningur við Neyðarlínuna og lögregluna um rekstur slíkra öryggismyndavéla í Mosfellsbæ. Þegar hafa m.a. íbúasamtök í Leirvogstungu og Helgafellshverfis sýnt verkefninu áhuga.

Framúrskarandi fyrirtæki

Villi

Vilhjálmur hjá Fagverk verktökum og Reykjabændur sem fengu alls þrjár viðurkenningar.

fyrirtæki2018Síðastliðin níu ár hefur Creditinfo greint rekstur íslenskra fyrirtækja árlega og birt lista yfir þau fyrirtæki sem hafa sýnt fram á framúrskarandi og stöðugan árangur í rekstri.
Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að vera ábyrg í rekstri og skapa þannig sjálfbær verðmæti fyrir hluthafa og fjárfesta. Að þessu sinni hljóta 857 fyrirtæki viðurkenningu eða um 2% af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi.

Hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi?
• Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
• Ársreikningi skilað lögum samkvæmt fyrir 1. september
• Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo
• Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
• Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna 2017 (nýtt skilyrði)
• Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú rekstrarár
• Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú rekstrarár
• Eiginfjárhlutfall hærra en 20% síðustu þrjú rekstrarár
• Eignir yfir 100 milljónir króna 2017, 90 milljónir króna 2016 og 80 milljónir króna 2015.

Hér til hliðar má sjá þau mosfellsku fyrirtæki og framkvæmdastjóra þess sem komust á lista.

Jólagjafir

heilsugjafir

Ég gaf konunni minn brimbrettanámskeið í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Brimbrettanámskeið í nágrenni Þorlákshafnar. Mér fannst þetta geggjuð gjöf, hafði sjálfur fengið samskonar afmælisgjöf stuttu áður og fannst magnað að læra að standa á bretti í íslenskum öldum. Ekki það að ég hafi sýnt neina meistaratakta, en náði að hanga á brettinu og skemmti mér konunglega.

Konunni minni fannst þetta ekki jafn geggjuð gjöf. Sendi mér áhugavert augnaráð þegar hún opnaði pakkann. Aðalástæðan fyrir því var líklega að hún var vel ólétt þessi jól, alveg komin á steypirinn, og fannst í því ástandi ekki spennandi að henda sér út í kaldan íslenskan sjó um miðjan vetur.

Þrátt fyrir að hafa aðeins misreiknað mig um þessi jól er ég enn sannfærður um að bestu jólagjafirnar séu hreyfi- og upplifunargjafir. Helst þannig að sá sem gefur gjöfina og sá sem þiggur hana geti farið saman í upplifunarferðina, á námskeiðið, á leikinn eða hvað nú sem gjöfin akkúrat snýst um.

Möguleikarnir eru margir og hægt að sníða þá að þykkum og þunnum veskjum. Það er hægt að kaupa gjöfina en svo er líka hægt að skipuleggja viðburðinn sjálfur, útbúa gjafabréf og sjá um framkvæmdina. Ég held að við höfum flest pláss og þörf fyrir meiri samveru með þeim sem standa okkur svo nærri að við gefum þeim gjafir og með upplifunargjöf getur maður slegið tvær flugur í einu höggi. Gefið góða gjöf og fengið góða og skemmtilega samveru í leiðinni.

Ég gæti talið upp ótal atriði sem hægt er að flokka sem upplifunargjöf. En ég ætla ekki að gera það. Frekar ætla ég að hvetja þig til að velta fyrir þér hvað sá/sú sem þú gefur gjöf hefur gaman af að gera. Eða gæti haft gaman af að gera. Bara passa sig á að gefa ekki háóléttri eiginkonu brimbrettanámskeið að vetri til.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. nóvember 2018

Tilheyrði tveimur ólíkum heimum

hafdishuld

Hafdís Huld Þrastardóttir hefur starfað sem tónlistarmaður í 23 ár. Hún gekk til liðs við hljómsveitina GusGus á unga aldri en hún var einmitt að lesa undir samræmdu prófin þegar upptökur á fyrstu plötu þeirra hófust. Tónleikaferðalög um heiminn tóku svo við og sjóndeildarhringur hennar stækkaði svo um munaði.
Þessa dagana er hún að leggja lokahönd á sínu fimmtu sólóplötu sem hún ætlar að fylgja eftir með tónleikaferðalagi um Bretland.

Hafdís Huld er fædd í Reykjavík 22. maí 1979. Foreldrar hennar eru þau Júlíana Rannveig Einarsdóttir garðyrkjufræðingur og blómaskreytir og Þröstur Sigurðsson verktaki. Hafdís á tvö systkini, Eið Þorra f. 1982 og Telmu Huld f. 1984.

Söng þegar tækifæri gafst
„Ég er alin upp í sama hverfi og foreldrar mínir ólust upp, í vesturbæ Kópavogs út á Kársnesinu. Ég átti ömmur og afa í hverfinu og mikið af skyldfólki. Hverfið var mjög barnvænt og það var alltaf fullt af krökkum til að leika við.
Ég gekk í Kársnesskóla og svo Þinghólsskóla og mér þótti alltaf gaman að læra. Ég held ennþá sambandi við æskuvinkonur mínar og minni bestu vinkonu, Brynju, kynntist ég í 6 ára bekk.
Í æsku var ég syngjandi hvar sem tækifæri gafst, ég held að það hafi ekki komið neinum á óvart þegar ég fór að starfa við tónlist,“ segir Hafdís Huld og brosir.

Gerði alþjóðlegan plötusamning
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Hafdís Huld í Menntaskólann í Kópavogi. Það sama ár gerði hún alþjóðlegan plötusamning með hljómsveitinni GusGus og 17 ára fór hún og ferðaðist um heiminn með hljómsveitinni við tónleikahald. Hún er yngsti Íslendingurinn til að gera plötusamning erlendis svo vitað sé til.
„Ég var mjög heppin að foreldrar mínir treystu mér til þess að takast á við þetta verkefni en þau hafa alltaf stutt við bakið á mér og hafa haft mikla trú á mér. Á þriggja ára tímabili fór ég þrisvar í stór tónleikaferðalög um Bandaríkin og fjórum sinnum til Evrópu auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum þess á milli.
Ég kom til ótrúlega margra landa á þessum tíma en finnst samt eins og ég hafi séð frekar lítið af hverjum stað. Dagarnir fóru að mestu í viðtöl, upptökur fyrir fjölmiðla og svo undirbúning fyrir tónleika kvöldsins.“

Kynntist ólíkum heimum
„Við sváfum í stórri hljómsveitarrútu og oft var það nú þannig að þegar maður sofnaði að kvöldi þá vaknaði maður daginn eftir í nýrri borg eða öðru landi þar sem sama rútínan hófst.
Á þessum tíma leið mér stundum eins og ég tilheyrði tveimur ólíkum heimum, ég spilaði kannski fyrir mörg þúsund manns á kvöldi, mætti í upptöku hjá MTV, fór til Mexíkó þar sem ég sá bikiníið mitt innrammað uppi á vegg á Hard Rock Cafe en var svo tveimur dögum síðar mætt upp í MK að taka jólapróf í stærðfræði.“

Flutti til London
Hafdís Huld flutti til London þegar hún var tvítug og fór að vinna sem gestasöngkona og höfundur með hinum ýmsu listamönnum eins og bresku sveitinni FC Kahuna og Tricky í samstarfi við Big Dipper umboðsskrifstofuna. Þegar því samstarfi lauk fór hún og ferðaðist með sinni eigin hljómsveit. Hún hefur spilað á mörg hundruð tónleikum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.
„Ég stundaði framhaldsnám í söng og tónsmíðum við London College of Creative Media og útskrifaðist þaðan árið 2006. Eftir útskrift gaf ég út mína fyrstu sólóplötu og hef starfað sem sólólistamaður síðan.“

Kynntust í tónlistarnámi
Eiginmaður Hafdísar Huldar er breskur, heitir Alisdair Wright og er tónlistarmaður og myndskreytir. Þau kynntust er þau sóttu sama skóla í Bretlandi. Þau eiga eina dóttur, Arabellu Iðunni 6 ára. Þau hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsdalnum og líkar vel þar.
„Ég kynntist Alisdair í náminu mínu, hann hefur síðan verið minn helsti samstarfsmaður í tónlistinni. Við höfum ferðast víða um heiminn við tónleikahald og höfum komið fram saman á tónlistarhátíðum og útvarps- og sjónvarpsþáttum.“

Fundu bleika húsið í Dalnum
„Við vorum meira og minna á ferðalagi til ársins 2012 eða alveg þangað til við eignuðumst dóttur okkar það sama ár. Þá tókum við meðvitaða ákvörðun um að spila á færri tónleikum og höfum tekið að okkur fleiri tónsmíðaverkefni og stúdíóvinnu undanfarin ár, meðal annars fyrir Bucks Music og BBC.
Þegar við förum svo að spila þá erum við ótrúlega heppin að eiga góða að því það er alltaf einhver til í að koma með og passa Arabellu á tónleikaferðum, enda er hún alveg dásamleg.
Það var alltaf draumur okkar að finna okkur hús þar sem við værum umkringd fjöllum og þar sem við gætum verið með okkar eigið stúdíó heima við og sá draumur rættist þegar við fundum bleika húsið í Mosfellsdalnum.“

Á leið í tónleikaferðalag
Hafdís Huld hefur gefið út fjórar plötur alþjóðlega og svo barnaplöturnar Vögguvísur og Barnavísur sem notið hafa mikilla vinsælda hérlendis. Í þessum mánuði er fimmta plata hennar væntanleg en hún er gefin út á vegum breska fyrirtækisins Redgrape Music. Hjónin eru á leið í tónleika- og kynningarferð til Bretlands til þess að fagna útgáfu hennar. Platan er jafnframt sú fyrsta þar sem Hafdís syngur lög eftir aðra eins og t.d. Tinu Turner og Queen.
„Eftir áramót förum við til Kanada, við vorum svo heppin að vera valin úr hópi mörg hundruð umsækjanda til þess að koma fram á þjóðlagahátíðinni Folk Alliance International 2019 í Montreal. Svo höldum við áfram að kynna nýju plötuna með tónleikahaldi svo það má segja að það séu virkilega spennandi tímar framundan.”

Mosfellingurinn 8. nóvember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Vinnur með einum besta körfuboltamanni í heimi

einar_nba

Mosfellingurinn Einar Einarsson er einka-, sjúkra- og styrktarþjálfari eins besta körfuboltamanns í NBA-deildinni, Joel Embiid.
Joel, sem er 24 ára og 214 cm á hæð, er frá Kamerún í Afríku en flutti til Bandaríkjanna 16 ára gamall til að spila körfubolta. Fyrst í háskólaboltanum en síðan með Philadelphia 76ers. Meiðslasaga Joels er löng en hann var á sínum tíma til meðferðar á Aspetar íþróttameiðslasjúkrahúsinu í Dóha í Katar þar sem Einar hefur starfað frá árinu 2014.
Margir þekktir íþróttamenn leita til Aspetar vegna meiðsla, meðal annars íslensku knattspyrnumennirnir Eiður Smári, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson.

Sjúkrahús fyrir íþróttastjörnur
„Ég fékk boð frá Aspetar haustið 2012 að koma og halda námskeið fyrir sjúkraþjálfarana um íslenska tækni, skynjara sem mæla vöðvaspennu. Námskeiðið var í tvo daga og á þriðja degi var ég kominn í atvinnuviðtal,“ segir Einar.
„Þetta sjúkrahús er í eigu konungsfjölskyldunnar í Katar, þarna starfa um 300 manns og í kringum 50 sjúkraþjálfarar. Það sem gerir þetta einstakt er að þarna erum við með heildræna nálgun á íþróttamanninn, allt frá skurðaðgerðum og endurhæfingu að næringarráðgjöf og þess háttar.
Við sinnum öllum íþróttamönnum í Katar og svo fáum við líka til okkar íþróttafólk alls staðar að úr heiminum og ýmsar íþróttastjörnur.“

Valinn til að sinna Joel Embiid
Joel Embiid var sendur til Aspetar árið 2016 að tilstuðlan Philadelphia 76ers vegna sinna meiðsla. Óskað var eftir manni sem unnið hefði með afreksíþróttamenn og hefði mikla þolinmæði. Á þessum tíma hafði Joel verið frá í tvö ár, bein hafði brotnað í fætinum á honum og hann hafði ekki náð að jafna sig.
„Ég var valinn til þess að sinna Joel. Í stuttu máli þá gekk endurhæfingin upp og hann byrjaði að spila aftur haustið 2016. Um leið og hann komst inn á völlinn gerði ég mér grein fyrir hvað hann er hrikalega góður körfuboltamaður.“

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Náðum strax vel saman
„Ég vissi í rauninni ekkert hver hann var og kom bara fram við hann eins og aðra sjúklinga hjá mér á meðan að aðrir komu fram við hann eins og stjörnu.
Hann var í raun ekki á góðum stað fyrst þegar við hittumst fyrst. Hann var búinn að vera frá í tvö ár og nýbúinn að missa bróður sinn í bílslysi. Ég náði vel til hans strax frá byrjun og hafði ljóslifandi dæmi um að íþróttamaður gæti komið til baka eftir tveggja ára meiðsli. Eiður Smári er systursonur minn og ég hafði fylgst með honum koma til baka eftir erfið meiðsli. Joel var mjög duglegur, vann vinnuna sína vel og uppskar eftir því.“

Var hjá Joel allt síðasta tímabil
Joel Embiid spilaði 30 leiki á sínu fyrsta tímabili og vakti mikla athygli en meiddist svo á hné í febrúar 2017 og var frá það sem eftir var af tímabilinu.
„Hann fór í aðgerð á hné en fimm mánuðum síðar var hann ekki orðin góður. Í fyrrahaust var ég svo beðinn um að koma til Philadelphiu og kíkja á hann að hans beiðni. Það endaði svo þannig að ég var hjá honum allt síðasta tímabil.
Í raun er samningurinn þannig að 76ers leigir mig frá Aspetar. Ég sinnti Joel í raun eins og einkaþjálfarinn hans. Þetta var mjög krefjandi en skemmtilegt verkefni. Í NBA spila leikmennirnir 3-4 leiki í viku, æfa mikið og mikið er um ferðalög.

Einn mest spennandi íþróttamaðurinn
„Þegar ég fór til hans síðasta haust hafði Joel ekki farið í gegnum heilt tímabil í NBA og endalausar spurningar og efasemdir voru um að hann gæti það. Hann var í raun meiddur allt tímabilið og mitt markmið var að koma honum í gegnum næsta leik.
Í mínum huga var hann orðinn heill í mars. Hann fór í gegnum tímabilið, spilaði 71 leik af 80 og var valinn í stjörnuleikinn 2017. Ég ferðaðist með Joel Embiid til Suður-Afríku núna í ágúst á NBA Africa leikinn og þjálfunarbúðir fyrir efnilega krakka sem heita Basketball Without Borders.
Þaðan fórum við til heimalands hans Kamerún til að byrja undirbúninginn fyrir næsta tímabil. Það var mjög skemmtilegt að koma til Kamerún og umhverfið þar er mjög framandi.
Í byrjun október, meðan ég var í æfingaferð í Kína, skrifuðu Aspetar og 76ers svo undir samstarfsamning og það varð ljóst að ég mun fylgja Joel áfram næsta tímabil sem er mjög spennandi. Nú er hann heill og við getum einbeitt okkur að frammistöðuhlutanum. Ég myndi segja að Joel Embiid sé einn af 10 mest spennandi íþróttamönnum í heimi í dag. Margir segja að hann geti orðið besti leikmaður NBA-deildarinnar,“ segir Einar að lokum.

Breytingar á nefndum Mosfellsbæjar

mannrettindi

Við upphaf nýs kjörtímabils samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytingar á fyrirkomulagi nefnda hjá Mosfellsbæ.

Til varð ný nefnd sem heitir lýðræðis- og mannréttindanefnd og mun sinna lýðræðismálum sem áður voru á borði bæjarráðs og jafnréttismálum sem áður var sinnt af fjölskyldunefnd. Formaður þeirrar nefndar er Una Hildardóttir.

Þá varð til ný nefnd sem nefnist menningar- og nýsköpunarnefnd sem tekur við verkefnum sem áður var sinnt af menningarmálanefnd og þróunar- og ferðamálanefnd. Við þá breytingu víkkar verksvið nefndarinnar þar sem atvinnumál sem málaflokkur, að því leyti sem þau eru ekki falin bæjarráði, verður sinnt af menningar- og nýsköpunarnefnd. Formaður þeirrar nefndar er Davíð Ólafsson.

Loks var ákveðið að forvarnamál sem áður var sinnt af fjölskyldunefnd verði í framtíðinni verkefni íþrótta- og tómstundanefndar sem samhliða sinni lýðheilsumálum almennt.