20 ár liðin frá mesta afreki í sögu Aftureldingar

Jói og bjarki áttu stóran þátt í velgengni aftureldingar í kringum aldamótin

Jóhann Guðjónsson og Bjarki Sigurðsson áttu stóran þátt í velgengni Aftureldingar í kringum aldamótin

Í vor eru 20 ár liðin frá því að karlalið Aftureldingar í handknattleik sópaði að sér öllum sigurlaunum sem voru í boði í íslenskum handknattleik. Afturelding var bikarmeistari í febrúar, deildarmeistari mánuði síðar og undir lok apríl lyftu Aftureldingarmenn Íslandsmeistarabikarnum í fyrsta og jafnframt eina skipti til þessa.
Afturelding lagði FH-inga með þremur vinningum gegn einum í úrslitarimmunni. Bjarki Sigurðsson, fyrirliði, tók við Íslandsmeistarabikarnum í Kaplakrika sunnudagskvöldið 25. apríl við ærandi fögnuð sennilega um eitt þúsund Mosfellinga sem flykktust á leikinn til að styðja lið sitt með ráðum og dáð.
„Ég man alltaf eftir ferðinni heim í Mosó eftir leikinn. Við fengum lögreglufylgd inn í bæinn og á móti okkur tók gríðarlegur fjöldi fólks við Hlégarð þegar við mættum með bikarinn. Þetta var einstök stund sem verður ævinlega ofarlega í minningunni,“ sagði Bjarki þegar hann spjallaði við tíðindamann á dögunum.
Lokaleikinn í rimmunni vann Afturelding 25:23, þar sem Bjarki var markahæstur með níu mörk. „Ég held að þetta sé eitt mesta ef ekki mesta afrek nokkurs liðs Aftureldingar í sögu félagsins,“ sagði Jóhann Guðjónsson sem var formaður handknattleiksdeildar Aftureldingar frá 1991 til 2003.

„Þetta vannst ekki fyrir tilviljun“
Jóhann var vakinn og sofinn yfir deildinni árum saman en með honum og samverkmönnum hans var lyft grettistaki í handknattleiknum í Mosfellsbæ á tíunda áratug síðustu aldar. „Þetta vannst ekki fyrir tilviljun. Aðdragandinn var langur og margt hafði verið gert á árunum á undan til að byggja upp liðið allt frá því að við fórum upp í efstu deild vorið 1993 með Guðmundur Guðmundsson núverandi landsliðsþjálfara sem þjálfara Aftureldingar,“ sagði Jóhann og benti á fyrsti stóri titilinn hafi unnist 1997 þegar Afturelding varð deildarmeistari í efstu deild karla. „Við unnum markvisst að því að ná þessu takmarki að verða Íslandsmeistarar en þessa tilteknu leiktíð féllu öll púslin saman.“
Fæðing gullliðsins 1999 var ekki auðveld því þótt Afturelding hafi á árunum á undan verið með eitt besta handknattleikslið landsins þá kvarnaðist úr hópnum eftir hvert tímabil. Leikmenn réru á önnur mið, ekki síst fóru þeir til Evrópu. Til dæmis yfirgáfu átta sterkir leikmenn frá Aftureldingu eftir tímabilið vorið 1998. Ýmist lögðu þeir skóna á hilluna góðu eða gengu til liðs við félagslið í Evrópu eða þá til annarra liða á Íslandi.

Margfaldir meistarar myndaðir að Varmá.

Margfaldir meistarar myndaðir að Varmá.

Litháarnir reyndust happafengur
„Satt best að segja var útlitið ekki bjart um sumarið 1998 þegar við voru byrjaðir að æfa. Sárafáir leikmenn voru á æfingum og ekki margt sem benti til þess að við yrðum með samkeppnishæft lið. Vissulega var talsvert af ungum og efnilegum strákum í hópnum en fleiri reynda leikmenn vantaði,“ sagði Bjarki. Jóhann tekur undir það og segist vel muna efti að hafa fengið samtal frá Skúla Gunnsteinssyni þjálfara þegar leið á sumarið þar sem Skúli hafði þungar áhyggjur af því að eiga ekki í lið um haustið ef fram héldi sem horfði. Skúli var þá á öðru ári sem þjálfari Aftureldingar. „Ég sagði Skúla að hafa ekki nokkrar áhyggjur. Við í stjórninni skyldum sjá um að fá leikmenn. Hann ætti bara að þjálfa,“ sagði Jóhann.
„Það fór að rofa til þegar leið fram á sumarið. Hafsteinn Hafsteinsson kom til okkar og síðan Litháarnir Gintaras Savukynas og Gintas Galkauskas. Þeir reyndust okkur sannkallaður happafengur. Savukynas var leikstjórnandi og við náðum alveg einstaklega vel saman. Það var eins hugur okkar væri einn og hinn sami. Sennilega var það lykillinn að sóknarleik okkar allt tímabilið,“ sagði Bjarki. „Alexei Trúfan og Galkauskas bundu síðan saman vörnina en að baki henni stóð landsliðsmarkvörðurinn Bergsveinn Bergsveinsson vaktina.
Þegar út í mótið var komið þá voru við með hörkugott lið en hópurinn var ekki breiður og við máttum alls ekki við miklum áföllum. Sem betur fer komumst við áfallalítið í gegnum veturinn en það var hætt við að það hefði verið á brattann að sækja ef margir hefðu meiðst alvarlega,“ sagði Bjarki.
Afturelding vann 16 af 22 leikjum sínum í deildinni, gerði tvö jafntefli og tapaði fjórum viðureignum. Stjarnan varð í öðru sæti fjórum stigum á eftir. ÍBV hafnaði í þriðja sæti 10 stigum frá Aftureldingu. Bjarki varð markakóngur deildarinnar með 169 mörk, skoraði 14 mörkum meira en stórskyttan Sigurður Valur Sveinsson sem lék þennan vetur með HK.

Mark Bergsveins vendipunkturinn í bikarleiknum
Rimma Aftureldingar og FH um Íslandsmeistaratitilinn var ekki eina einvígi liðanna á þessu tímabilið því lið félaganna léku einnig til úrslita í bikarkeppninni í Laugardalshöll laugardaginn 13. febrúar. Með frábærum síðari hálfleik vann Aftureldingarliðið úrslitaleikinn með fimm marka mun, 26:21.
„Mark Bergsveins markavarðar okkar yfir endilangan völlinn í jafnri stöðu í síðari hálfleik var vendi­punktur í úrslitaleiknum að mínu mati. Markið slökkti alveg á FH-liðinu,“ sagði Bjarki. Og Jóhann rifjar upp frá sama leik að séra Pálmi Matthíasson prestur hafi komið að máli við sig í hálfleik en þá var Aftureldingarliðið undir og sagt að það blési ekki byrlega fyrir Aftureldingarliðið. „Ég sagði Pálma að það hentaði okkur betur að vera undir og þess vegna litist mér vel á stöðuna. Hvort Pálmi fylgdi okkur eða FH að málum veit ég ekki en við snerum taflinu við í síðari hálfleik og unnum sannfærandi sigur.“

Bjarki var sóttur til Drammen
Að margra mati var koma Bjarka til Aftureldingar sumarið 1998 einn stærsti þátturinn í að Afturelding náði þessum einstaka árangri á fyrri hluta ársins 1999. Bjarki hafði farið á kostum með Drammen veturinn 1997-98 og hélt uppteknum hætti leiktíðina 1998-99 með Aftureldingu og var besti leikmaður Íslandsmótsins.
„Ég var í sambandi við Bjarka allan veturinn sem hann var hjá Drammen enda kynnst honum vel árin sem hann var hjá okkur fyrir Noregsdvölina. Þegar kom fram í ársbyrjun 1998 heyrði ég á Bjarka að hann var ekki sáttur í Drammen þótt honum gengi vel inni á leikvellinum.
Þegar komið var undir vor var ég á leið í bæinn á fimmtudegi eftir að hafa verið í snjósleðaferð. Þá hringdi ég í Einar Pál Kjærnested sem þá var framkvæmdastjóri handknattleiksdeildarinnar og sagði honum að við tveir værum á leið til Drammen morguninn eftir. Ég væri á leið niður í Kringlu á söluskrifstofu Flugleiða að kaupa tvo flugmiða fyrir okkur. Við fórum út morguninn eftir, sömdum við Bjarka á laugardeginum og héldum svo heim til Íslands.
Bjarki flutti heim í Mosfellsbæ með fjölskylduna um sumarið og hefur verið þar síðan eins og fleiri leikmenn sem léku með okkur á þessum árum,“ sagði Jóhann og bætti við:
„Ekki löngu eftir að við sömdum við Bjarka hafði Alfreð Gíslason samband við mig en hann var þá að taka við þjálfun Magdeburg í Þýskalandi. Hann vildi fá Bjarka til sín. Ég sagði við Alfreð að það væri ekkert mál ef félag hans vildi greiða Aftureldingu 10 milljónir króna fyrir. Ekkert varð af kaupunum.“

umfa110vefbordi20 ára afmæli Gullliðsins fagnað
Jóhann og Bjarki segjast minnast þessa árs með gleði í huga. Aðeins góðar minningar standi eftir nú 20 árum síðar. Til stendur að hópurinn komi saman í vor eða í byrjun sumars að sögn Bjarka til að halda upp á áfangann. Góðar vonir standi til þess að svo að segja allir mæti, m.a. Litháarnir tveir, Gintaras Savukynas og Gintas Galkauskas sem búa ekki lengur hér á landi.
„Þessi ár voru skemmtileg, ekki síst meistaratímabilið. Áhuginn var gríðarlegur í bænum, fullt hús á öllum leikjum og við vorum með trausta stuðningsmannasveit sem lét mikið að sér kveða,“ segir Jóhann og bætir við.
„Þess utan voru við afar trausta bakhjarla að deildinni sem voru Bjarni Ásgeir Jónsson og fyrirtæki hans Holtakjúklingur og Örn Kjærnested sem átti Álftárós á þessum árum. Þeir voru burðarásar í fjárhagsstuðningi við deildina. Án þeirra framlaga hefði þetta ekki verið hægt. Fleiri fyrirtæki í bænum komu að og segja má að allir hafi lagst á árar með okkur á þessum árum enda var árangurinn samkvæmt því,“ sagði Jóhann Guðjónsson.

————————————-
Eftirtaldir voru í Íslandsmeistaraliði Aftureldingar: Ásmundur Einarsson, Bergsveinn Bergsveinsson, Jóhannes Lange og Sölvi Már Margeirsson voru markverðir. Aðrir voru Alexei Trúfan, Bjarki Sigurðsson, Einar Gunnar Sigurðsson, Gintaras Savukynas, Gintas Galkauskas, Hafsteinn Hafsteinsson, Haukur Sigurvinsson, Hilmar Stefánsson, Jón Andri Finnsson, Magnús Már Þórðarson, Maxime Trúfan, Níels Einar Reynisson og Sigurður Sveinsson.
Þjálfari var Skúli Gunnsteinsson og aðstoðarþjálfari mágur hans, Siggeir Magnússon. Óskar Jón Helgason var sjúkraþjálfari og Matthías Árni Guðmundsson var liðsstjóri.

Texti: Ívar Ben – Mynd: Raggi Óla