Skrifaði sína fyrstu sjónvarps­þáttaseríu í Lágafellslaug

steindi_listamaður

Á sérstakri hátíðardagskrá á bæjarhátíðinni Í túninu heima var Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.
Steindi Jr. er alinn upp og búsettur í Mosfellsbæ. Hann er skapandi listamaður og hefur náð árangri á fleiri en einu sviði lista. Hann hefur gert sjónvarpsþætti, leikið og skrifað handrit og sannað sig bæði í leiklist og tónlist.

Vann Edduna fyrir leik í Undir trénu
Steindi hefur gert garðinn frægan í gamanhlutverkum og í seinni tíð einnig verkum í alvarlegri kantinum en hann vann Edduna 2018 fyrir hlutverk sitt í myndinni Undir trénu. Hann er skapandi og frjór í sinni listsköpun og höfðar til breiðs hóps.
Þá hefur hann með áberandi hætti verið tengdur við Mosfellsbæ í mörgu af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Í því tilliti hefur hann lagt sig fram um að vekja athygli á uppruna sínum í Mosfellsbæ og tekið þátt í mörgum verkefnum innan bæjarins.

Vill miðla reynslu sinni áfram
„Sem grjótharður Mosfellingur er þetta mesti heiður sem mér hefur hlotnast,“ segir Steindi. „Þetta er mér mikil hvatning og mun ég áfram reyna að tengja bæinn minn við það sem ég er að bralla.
Mig langar að nota tækifærið og nýta mér þessa nafnbót til að miðla reynslu minni áfram til krakka og unglinga í Mosfellsbæ og kynna þau fyrir skapandi listum. Vonandi mun það gerast einn daginn í góðu samstarfi við skólana og félagsmiðstöðina.
Ég hlakka til að hitta krakkana og reyna að smita þau af bakteríunni. Það væri gaman að sjá vini hittast og skapa saman eitthvað skemmtilegt í stað þess að hanga hver í sínu horni í símanum eins og svo algengt er.“

Nýtti hádegishléin vel
„Ég hóf t.d. ferilinn minn hér í Mosó við að gera stuttmyndir og skrifa í bæjarblöðin. Þá stofnaði ég útvarpsstöð í samstarfi við félagsmiðstöðina Ból.“
Steindi skrifaði sína fyrstu sjónvarpsþáttaseríu að hluta til þegar hann vann í Lágafellslaug. „Já, ég nýtti hádegishléin vel og faldi mig stundum með fartölvu inni í klefa. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá,“ segir Steindi að lokum.

„Öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar tengd fyrir áramót“

baldur hauksson verkefna- stjóri ljósleiðarakerfis

Baldur Hauksson verkefnastjóri ljósleiðarakerfis Gagnavetiru Reykjavíkur.

Eins og Mosfellingar hafa orðið varir við vinnur Gagnaveita Reykjavíkur að framkvæmdum í Mosfellsbæ þar sem verið er að tengja ljósleiðarakerfi.
„Ég fékk það skemmtilega verkefni að ljósleiðaravæða minn heimabæ,“ segir Mosfellingurinn Baldur Hauksson sem starfar sem verkefnastjóri hjá Gagnaveitu Reykjavíkur.

Framkvæmdir langt komnar og klárast fyrir árslok
„Verkefni þessa árs er að klára að tengja öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar fyrir árslok 2018, framkvæmdir eru langt komnar og klárast fyrir árslok. Hverfin sem verða tengd á þessu ári eru Höfðar, Tangar, Teigar og Reykjahverfi. Það styttist í að íbúar í Höfðum og Töngum geti pantað sér þjónustu á meðan Tanga- og Reykjahverfi tengist í desember. En áður hefur Gagnaveitan lokið við að tengja önnur hverfi í þéttbýli Mosfellsbæjar á síðustu árum.“

Hágæðatenging inn í framtíðina
Ljósleiðarinn er hágæðasamband fyrir heimili sem uppfyllir kröfur nútímaheimilis og býður upp á nettengingar sem eru bæði hraðari og áreiðanlegri. „Eins og samfélagið er í dag þá eru gagnaflutningar alltaf að aukast, internetið, sjónvarpið og heimasíminn.
Með tilkomu ljósleiðarans eykst hraðinn um 10-20 falt. Flestir eru með tengingu sem flytur 50-100 megabita á sekúndu en ljósleiðarinn býður upp á 1000 megabita tengingu sem hentar nútímaheimilum með margar tölvur, síma og sjónvörp,“ segir Baldur.

Fólki að kostnaðarlausu
Þessar framkvæmdir eru að frumkvæði Gagnaveitunar og eru Mosfellsbæ og íbúum að kostnaðarlausu. „Þegar framkvæmdum við lagningu ljósleiðarans er lokið sendum við póst til íbúanna. Þá þurfa þeir að panta hjá sínum þjónustuveitanda og biðja um færslu yfir á ljósleiðarann.
Ef þú pantar þessa þjónustu hjá okkur þá kemur til þín maður sem tengir og leggur lagnir fyrir þráðlausan beini, heimasíma og sjónvarp. Þessi þjónusta er fólki að kostnaðarlausu, það eina sem fólk borgar er sama mánaðargjald og það hefur greitt ef það er með síma eða internet,“ segir Baldur að lokum.

Allir á völlinn!

Heilsumolar_Gaua_6sept

Á laugardaginn kemur Þróttur frá Vogum í heimsókn í Mosfellsbæinn til að spila við strákana okkar í 2. deildinni. Við erum efstir í deildinni, höfum skorað flest mörk allra liða – reyndar allra liða í fjórum efstu deildum karla á Íslandsmótinu í sumar. Eina liðið hingað til sem hefur náð að rjúfa 50 marka múrinn. En Þróttararnir eru sýnd veiði en langt frá því gefin. Þeir eru eitt af bestu útiliðum deildarinnar, gengur mun betur á útivöllum en heima í Vogum. Það stefnir því allt í hörkuleik að Varmá.

Fjölmargir Mosfellingar fóru með liðinu á Seltjarnarnes í síðasta leik og komu kátir heim eftir baráttu­sigur gegn spræku liði Gróttu. Þar áður mættu margir Mosfellingar á heimaleikinn gegn Hugin frá Seyðisfirði og urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum. Strákarnir, þjálfararnir og teymið í kringum þá hafa lagt hart að sér frá því að undirbúningstímabilið hófst síðasta haust. Það eru þrír leikir eftir í 2. deildinni. Deildinni sem við ætlum að kveðja í ár.

Til þess að það megi gerast er stuðningur okkar Mosfellinga lykilatriði. Við getum gefið þeim sem eru inn á vellinum aukaorku með því að mæta á völlinn og sýna þeim að félagið okkar skiptir okkur máli.

Íþróttir eru að mínu mati besta forvörnin sem við sem samfélag eigum og félagið okkar allra, Afturelding, er stútfullt af fólki sem gerir sitt besta til þess að skapa góða og jákvæða umgjörð fyrir krakka og unglinga sem vilja og þurfa að hreyfa sig. Því meiri árangri sem meistaraflokksliðin okkar ná, því meiri pressa – jákvæð – er á bæjaryfirvöld að efla umgjörð félagsins. Bæði íþróttalega og félagslega. Það er svigrúm til bætingar á báðum sviðum. Stuðningur við strákana okkar á laugardaginn hjálpar til við að mjaka málum áfram. Efla samstarf Mosfellsbæjar og Aftureldingar, okkur öllum til góða. Sjáumst á vellinum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. september 2018

Aukin tannlækna­þjónusta í Mosfellsbæ

ragnar og birgir  í háholtinu

Ragnar Kr. Árnason og Birgir Björnsson í Háholtinu.

Nýverið lauk framkvæmdun við stækkun og breytingar hjá Tannlæknastofu Ragnars Kr. Árnasonar að Háholti 14.
Nú er boðið upp á þjónustu tveggja tannlækna á stofunni auk möguleika á lengri opnunartímum svo eitthvað sé nefnt. Mosfellingur leit við og hitti tannlækna.
Mosfellingurinn Ragnar Kr. Árnason opnaði glæsilega tannlæknastofu sína í febrúar 2010 eftir að hafa rekið stofuna í Kópavogi í 20 ár. Eftir farsæl ár í Mosfellsbænum hefur Ragnari nú borist liðsauki.

Metnaðarfullur með víðtæka reynslu
Birgir Björnsson tekur nú til starfa við við hlið Ragnars en Birgir er 38 ára gamall og hefur starfað sem tannlæknir undanfarin 10 ár. Birgir er fjölskyldumaður með tvö börn, alinn upp í Árbænum, en nýlega flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ.
Fyrr á árum tók Birgir þátt í íþróttastarfi með Fylki í Árbænum og fimleikum með Ármanni og er fyrrum landsliðsmaður og svo síðar landsliðsþjálfari í fimleikum.
Birgir starfaði í sjö ár sem tannlæknir hjá Tannlæknastofum Akureyrar en söðlaði svo um og flutti til Danmerkur. Birgir tók þátt í að stýra uppbyggingu á nýrri stofu í Kaupmannahöfn.
Stofan fór upp í sex stóla á innan við tveimur árum, sem þykir nokkuð gott í Kaupmannahöfn. Birgir var yfirtannlæknir og bar ábyrgð á öllum aðgerðum framkvæmdum á stofunni.

Sveigjanlegri opnunartími
„Eitt af því sem við stefnum á að gera er að bjóða viðskiptavinum okkar upp á rýmri og sveigjanlegri opnunartíma, þ.e. hafa opið lengur 2-3 daga í viku eftir þörfum og eftirspurn,“ segir Birgir. „Þetta opnar fyrir þann möguleika að fólk geti komið til okkar eftir vinnu og þar með sparað sér oft á tíðum slítandi ferðir til og frá vinnu á miðjum vinnudegi.
Það er frábært að starfa hér á stofunni með Ragnari og að vera fluttur hingað í þetta fallega og góða bæjarfélag. Aðstaðan hér er öll alveg fyrsta flokks og hér er gott að vera“.

Álfyssingar koma upp Samfélagsgarði

alafossgardur

Íbúar í Álafosskvos hafa tekið sig saman í samstarfi við Mosfellsbæ og tekið í notkun svokallaðan Samfélagsgarð efst í Kvosinni.
Garðurinn er hugsaður fyrir íbúana til að rækta sitt eigið grænmeti og vera saman úti í náttúrunni. Garðurinn er hringlaga og hefur hver íbúi sína sneið til ræktunar.
„Samfélagslegur ávinningur af verkefni sem þessu getur verið töluverður, segir Guðrún Ólafsdóttir íbúi í Kvosinni. „Garðurinn mun auka tengsl okkar við náttúruna og samvinnu íbúanna ásamt því að auka samveru fjölskyldunnar. Börnin okkar læra í verki að virða og njóta náttúrunnar og rækta sína eigin næringu.“

Í anda heilsueflandi samfélags
Íbúarnir í Álafosskvos leituðu til Mosfellsbæjar þar sem svæðið er í eigu bæjarins. „Okkur fannst þetta í anda Heilsueflandi samfélags, stuðlar að góðum samskiptum, hvetur fólk til að borða hollt og rækta líkama og sál,“ segir Berglind, einn af ræktendunum.
Svæðið sem var áður þakið lúpínu hentar einkar vel til ræktunar, sólríkur blettur og skjólsælt er úr öllum áttum. Mosfellsbær aðstoðaði við að standsetja ræktunarsvæðið og útvegaði mold. Þá var Jón Júlíus hjá Garðmönnum og íbúi í Kvosinni liðtækur og lagði sitt af mörkum.

Þjappar íbúunum saman
Íbúarnir segjast mjög þakklátir fyrir hversu vel bærinn tók í hugmyndina og þá aðstoð sem þeir fengu.
Nafnið Samfélagsgarður kom til vegna hversu mikið hann gerir fyrir samfélagið og þjappar íbúum saman. „Svo dreymir okkur auðvitað um að svona verði í hverju einasta hverfi bæjarins, að íbúar rækti grænmetið sitt, kannski með nokkrar hænur og svona,“ segja ánægðir samfélagsþegnar í Kvosinni.

Hestamennt í nýjar hendur

Guðmundur, Guðbjörn, Berglind, Líney anna og Fredrica

Guðmundur, Guðbjörn, Berglind, Líney Anna og Fredrica.

„Já, ég er að fara flytja til Frakklands, við fjölskyldan ætlum að skipta gjörsamlega um umhverfi, þjálfa hross og takast á við ný ævintýri. Við munum setjast að á búgarði sem er 150 km suðvestur af París,“ segir Berglind Inga Árnadóttir sem rekið hefur reiðskólann sinn í 24 ár.
„Við munum taka hluta af hrossaræktuninni okkar með út en líka vinna með hesta sem eru fyrir á búgarðinum. Íslenski hesturinn er að verða vinsælli úti í Frakklandi en er þó kominn frekar stutt miðað við nágrannaþjóðirnar Þýskaland og Danmörku.“

Blendnar tilfinningar
„Okkur þykir þetta mjög spennandi tækifæri en auðvitað eru tilfinningarnar blendnar. Fredrica Fagerlund og maðurinn hennar eru búin að kaupa fyrirtækið og hesthúsið okkar líka þannig að þau yfirtaka nánast líf okkar hérna í Mosó. Þau munu sjá um reiðskólann og starfið fyrir­ fatlaða áfram. Við erum mjög þakklát fyrir það enda búið að taka mörg ár að byggja þetta upp og við höfðum pínu áhyggjur á tímabili hvernig þetta færi.
Það verður erfitt að sleppa höndunum af starfinu hér hjá hestamannafélaginu enda mjög gefandi. Við ætlum að stökkva út í djúpu laugina.“ Með Berglindi fara eiginmaður hennar, Elías Þórhallsson, og sonur þeirra Rökkvi Dan.

Starfið heldur áfram samkvæmt áætlun
Fredrica tekur við fyrirtækinu Hestamennt og öllu sem því tengist. Fredrica hefur búið á Íslandi í níu ár og verið með annan fótinn í Mosfellsbæ lengi.
Hún rak tamningastöð í nokkur ár og mun halda því áfram en hún tók sér smá frí í kringum fæðingu frumburðar síns sem brátt verður eins árs.
„Þetta leggst mjög vel í mig og starfið með fötluðum hefst samkvæmt áætlun nú í haust,“ segir Fredrica en upplýsingar um starfið verður að finna á www.hordur.is.

Kúrekapartí með frjálsum framlögum
Tvíburabræðurnir Guðmundur og Guðbjörn Pálssynir héldu í haust stórt og mikið kúrekapartí í Reiðhöllinni. Þeir fögnuðu sameiginlegu 50 ára afmæli og tóku við frjálsum framlögum til styrktar fræðslunefnd fatlaðra.
„Þetta var svakalega gott partí, Hebbi frændi mætti og tók lagið og allir voru í þvílíkum fíling,“ segja þeir bræður í kór. Þeir afhentu við sama tilefni 200 þúsund krónur sem söfnuðust í afmælinu og eflaust kemur styrkurinn sér vel í starfinu sem fram undan er.

Í minningu vinar

hansi_mosfellingurinn

Hans Þór hefur unnið jöfnum höndum við sitt fag sem veggfóðrara- og dúklagningameistari og sem hljóðfæraleikari en hann byrjaði að spila 14 ára gamall.
Lengst af spilaði Hansi eins og hann er ávallt kallaður með Lúdó sextettnum en hann hefur einnig spilað með hinum ýmsu böndum í gegnum tíðina. Á dögunum gaf hann út eigin geisladisk sem hann tileinkar góðum vini.

Hans Þór er fæddur í Reykjavík 2. september 1941. Foreldrar hans eru þau Jónína Þorbergsdóttir húsmóðir og Jens Hansson skipstjóri. Hans á tvo bræður, þá Hafstein og Sverri.

Fór upp á stól og jóðlaði
„Ég er alinn upp í Reykjavík og Kópavogi en var öll sumur hjá afa mínum og ömmu á Hellissandi og þar fannst mér gott að vera. Ég lærði að slá með orfi og ljá hjá afa mínum og um 10 ára aldur fékk ég heimasmíðað orf sem passaði sérstaklega fyrir mig.
Þegar ég var ungur, svona um sex ára aldurinn, var ég oft fenginn til að koma í afmæli þar sem ég fór upp á stól og jóðlaði. Þetta voru fyrstu giggin hjá mér og stundum fékk ég aur fyrir,“ segir Hansi og brosir.

Útskrifaðist úr Iðnskólanum
„Ég byrjaði í Miðbæjarskólanum en fór svo í Kópavogsskóla og þaðan í Austurbæjarskóla. Í þeim síðastnefnda varð ég fyrir miklu einelti og mér leið illa í skólanum. Ég gat ekki hugsað mér að fara í gagnfræðaskóla út af eineltinu og fór þá að vinna við innheimtu hjá Sjóvá en fór í kvöldskóla hjá KFUM.
Árið 1957 fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem veggfóðrara- og dúklagningamaður og hef unnið við þá iðn síðan.
Ég hef alla tíð haft gaman af tónlist og byrjaði að læra á saxófón hjá Braga Einarssyni og Vilhjálmi Guðjónssyni klarínettleikara. Ég fór líka í Tónlistarskóla Reykjavíkur og var fyrsti nemandinn í saxófónleik þar.“

Gift í 55 ár
Eiginkona Hansa er Hjördís Sigurðardóttir sölumaður en þau hafa verið gift í 55 ár og eiga þrjá syni. „Hilmar elsti sonur okkar er fæddur 1960. Hann er dúkari eins og ég og mikill veiðisnillingur. Hann er kvæntur Oddnýju Magnadóttur og samtals eiga þau sex börn. Jens er fæddur 1963 og er dúkari og hljóðfæraleikari, lengst af í Sálinni hans Jóns míns. Hann á þrjá syni. Yngstur er svo Sigurður Helgi dúkari og söngvari, hann er kvæntur Öldu Kristinsdóttur og þau eiga þrjú börn.
Barnabörnin okkar eru tólf og svo eigum við fjögur barnabarnabörn.“

Hafa ferðast víða
„Áhugamál okkar hjóna eru margvísleg en við erum búin að ferðast mjög mikið erlendis á öllum þessum árum okkar saman. Við höfum farið í um 30 ár til Kanarí í sólina yfir vetrartímann en einnig til Taílands, Hong Kong, Ameríku, Jamaica og Rússlands.
Nýjasta áhugamálið er húsbíllinn okkar, við eltum góða veðrið og góða ferðafélaga.
Við eigum líka stóra fjölskyldu og við elskum að hittast og njóta þess að borða saman. Eins eyðum við góðum stundum með vinum okkar.“

Með puttann á púlsinum
Hans og Sigurður sonur hans stofnuðu fyrirtæki saman árið 2000, Múrefni ehf. sem staðsett er í Mosfellsbæ. Þeir sérhæfa sig í að selja og þjónusta sérhæfðar byggingavörur og gólfefni frá völdum framleiðendum í Evrópu. Þeir miðla þekkingu til birgja og þá sérstaklega til fagmanna og viðskiptavina til að tryggja hámarks árangur og endingu á þeim vörum sem þeir hafa upp á að bjóða.
„Þetta byrjaði þannig að við fengum umboð fyrir Weber sem selur gæðamúrefni og ýmis viðgerðarefni fyrir hús. Síðan bættum við múrklæðningum við og það nýjasta hjá okkur er vínylparket sem hefur algjörlega slegið í gegn.“

Tónlistin aðaláhugamálið
„Ég byrjaði að læra á saxafón þegar ég var 14 ára og það ár byrjaði ég í Lúðrasveitinni Svaninum. Ég fór með þeim á landsmót lúðrasveita á Akureyri og þar kynntist ég Finni Eydal. Hann bauð mér með sér heim til að hlusta á djass sem síðar varð mín uppáhaldstónlist.
Maður spilaði síðan með hinum og þessum á skólaböllum en árið 1957 var Plúto kvintett stofnaður sem síðar varð Lúdó sextett. Það var spilað í Vetrargarðinum við tívolí sem var ansi líflegur staður. Þar voru ekki vínveitingar en menn mættu með vínið innanklæða. Oftar en ekki lenti allt í slagsmálum, við sviðið var stór bjalla sem við notuðum til að hringja í útkastarana sem hentu áflogaseggjunum út og ballið hélt svo áfram.
Í Þórskaffi spiluðum við fimm kvöld í viku og þangað kom engin inn nema í sparifötum og með bindi. Sveitaböllin tóku svo við og böllin fyrir kanann upp á velli.
Vinsældir hljómsveitarinnar jukust jafnt og þétt og stóð þessi spilamennska yfir í 10 ár á þessum tíma en þetta var oft ansi strembið.“

Palla er sárt saknað
Hans gaf út geisladisk á dögunum með lögum sem eru honum afar kær en diskurinn er gefinn út til minningar um vin hans, Pál Helgason tónlistarmann. „Leiðir okkar Palla lágu fyrst saman í Karlakórnum Stefni þegar hann var endurvakinn. Við urðum góðir vinir og spiluðum saman meðal annars í hljómsveit í Oddfellow-húsinu ásamt Örlygi Richter og fleirum. Palla er sárt saknað.
Diskurinn er svona léttur jazzdiskur, vinur minn Grétar Örvarsson hvatti mig til þess að fara út í þetta og sá hann um upptökur. Þeir sem spila með mér eru Einar Valur Scheving, Grétar Örvarsson, Pétur Valgarð Pétursson, Úlfar Sigmarsson og Þórður Högnason.“
Og hvar er hægt að kaupa diskinn? „Hann er ekki kominn í dreifingu ennþá en fyrir áhugasama þá er hægt að nálgast hann hjá mér.“

Tónlistarveisla Í túninu heima
Nú er bæjarhátíðin á næsta leiti og dagskrá hátíðarinnar glæsileg að vanda. „Við höfum boðið heim til okkar hingað í Akurholtið í sex ár og höfum verið með tónleika í garðinum. Þetta byrjaði þannig að við búum í sama húsi og yngsti sonur okkar sem er í rokkkarlakórnum Stormsveitinni. Við skelltum bara í band fjölskyldan ásamt vinum og höfum líka fengið aðra listamenn til liðs við okkur.
Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína til okkar. Því miður þá verður ekki af tónleikum í ár vegna anna en við fjölskyldan viljum fá að nota tækifærið og óska öllum bæjarbúum gleðilegrar hátíðar,“ segir Hansi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. ágúst 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Skólabörn í Mosfellsbæ með skólavörur frá Múlalundi

Carlos, Óli og Listapúkinn  framleiða möppur á Múlalundi.

Carlos, Óli og Listapúkinn framleiða möppur á Múlalundi.

Mosfellsbær er í hópi 10 sveitarfélaga sem hafa tekið þá góðu ákvörðun að allar möppur og plastvasar sem notuð verða í grunnskólum sveitarfélaganna næsta vetur verði framleidd innanlands, á Múlalundi vinnustofu SÍBS, í stað þess að vera flutt inn frá útlöndum.
Alls er um að ræða 40 þúsund möppur og 20 þúsund plastvasa fyrir 10 þúsund nemendur um allt land.
Þessi ákvörðun hefur margt jákvætt í för með sér, að sögn Sigurðar Viktors framkvæmdastjóra Múlalundar. „Hún skapar hundruð klukkustunda vinnu fyrir fólk með skerta starfsorku. Nú þegar höfum við bætt við okkur einstaklingum sem annars hefðu verið án vinnu. Þar af er einmitt einn Mosfellingur sem nú hefur fengið varanlegt starf hjá okkur.
Við áætlum að möppurnar okkar endist í 3-5 ár sem dregur úr plastnotkun sveitarfélagnna um allt að 6 tonn. Þetta eru einungis nokkrir kostir þess að velja íslenska framleiðslu og þar að auki úr heimabyggð.“
Starfsfólk Múlalundar vinnustofu SÍBS vill koma á framfæri þakklæti til sveitarfélaganna tíu sem ákveðið hafa að nýta vörurnar frá Múlalundi í sínu skólastarfi. Mosfellingar eru hvattir til að kíkja við í verslun Múlalundar eða á vefverslunina á mulalundur.is.

Vilja opna á umræðuna og nálgast verkefnið í kærleika

Mosfellingarnir Óskar  Vídalín og Andrés Kári.

Mosfellingarnir Óskar Vídalín og Andrés Kári Kristjánsson.

Einar Darri Óskarsson lést á heimili sínu í Hvalfjarðarsveit þann 25. maí síðastliðin. Einar Darri var aðeins 18 ára gamall en dánarorsök hans var lyfjaeitrun vegna neyslu á lyfinu OxyContin.
Fjölskylda og vinir Einars Darra hafa stofnað minningarsjóð í hans nafni sem ætlaður er fyrir ýmis forvarnaverkefni og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfjum er hér á landi og þá sérstaklega á meðal ungmenna, allt niður í nemendur í grunnskóla.

Opna umræðuna um hættuna
„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra, þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt og alvarlegt vandamál meðal ungmenna, að stofna minningarsjóð í hans nafni,“ segir Mosfellingurinn Óskar Vídalín, faðir Einars Darra.
„Við vissum ekki hvert þetta myndi leiða okkur, en vildum nálgast þetta stóra verkefni í kærleika en ekki í reiði eða í leit að sökudólgi, því að Einar Darri var afskaplega kærleiksríkur drengur. Við viljum opna á umræðuna um hversu skaðleg, ávanabindandi og líshættuleg þessi lyf eru og hversu algeng misnotkunin er.“

Aukin kvíði ungmenna
Mosfellingurinn Andrés Kári Kristjánsson, æskuvinur Einars Darra, segir að mikið sé að breytast í neyslumynstri ungmenna og að notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum sé eins konar faraldur. „Þegar ég var yngri og fékk forvarnafræðslu þá var talað um alls konar eiturlyf en ekkert minnst á þessi kvíða-, verkja- og róandi lyf.
Ég held að kvíði meðal ungmenna sé að aukast með pressu frá samfélagsmiðlum og samfélagið gerir kröfur á að maður sé með háleit markmið. Tónlistin er líka mikill áhrifavaldur og eru margir textar sem fjalla um neyslu og sölu á ýmsum efnum.“

Ég á bara eitt líf
Minningarsjóðurinn stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif og stendur fyrir ýmsum forvarnagildandi verkefnum.
„Við erum með starfandi skipulagshóp með meðlimum frá ýmsum starfsstéttum í samfélaginu og breiðum aldurshópi. Við eigum það sameiginlegt að vilja öll láta gott af okkur leiða. Öll verkefnin eru unnin af fagmennsku og með kærleika í fyrirrúmi.
Núna eru til rannsóknar hjá Landslæknis­embættinu andlát 29 einstaklinga vegna gruns um misnotkun á lyfjum. Á bak við hvern einstakling er fjölskylda og vinir sem standa eftir í sorg,“ segir Óskar.

Verða sýnileg á bæjarhátíðinni
Gefið hefur verið út myndband þar sem fjölskylda og vinir Einars Darra koma fram. Myndbandið hefur vakið mikla athygli en það gengur út á að fræða ungt fólk um hættuna sem fylgir notkun róandi og ávanabindandi lyfja. Framleidd hafa verið armbönd með áletruninni Ég á bara eitt líf, peysur og húfur allt í neonbleikum lit sem var uppáhalds litur Einars Darra. Hópurinn hefur verið áberandi á ýmsum útihátíðum í sumar og hátt í tvö hundruð manns hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Minningarsjóðnum.
Hópurinn verður sýnilegur á bæjar­hátíðinni Í túninu heima en þeim sem vilja kynna sér málið betur er bent á facebook-síðuna Minningarsjóður Einars Darra og þeim sem vilja leggja sjóðnum lið er bent á reikning sjóðsins. Kennitala: 510718-1510 Reikningsnúmer: 552-14-405040.

—-

Markmið baráttunnar:

  • Sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf.
  • Opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi.
  • Auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja.
  • Opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum.

Í túninu heima 2018 – DAGSKRÁ

ithdagskrá

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 24.-26. ágúst. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í strætó allan laugardaginn fyrir Mosfellinga og gesti þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar 2018 (pdf)

 

ÞRIÐJUDAGUR 21. ÁGÚST

16:00 – 20:00 PERLAÐ MEÐ KRAFTI
Kraftur leggur leið sína í Mosfellsbæ og perlar armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum öllum. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

 

MIÐVIKUDAGUR 22. ÁGÚST

18:00 BRENNIBOLTI FYRIR FULLORÐNA
Brenniboltakeppni fyrir fullorðna verður haldin í fyrsta sinn Í túninu heima. Keppt verður á gamla gervigrasvellinum að Varmá. Fimm saman í liði og eintóm gleði og gaman. Farið eftir brenniboltareglum UMFÍ. Skráning: hannabjork@afturelding.is.

20:00 – 22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga.
Fram koma: Dj Egill Spegill og rapparinn Huginn. Aðgangseyrir: 800 kr.

 

FIMMTUDAGUR 23. ÁGÚST

BÆJARBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

18:00 SÖNGLEIKURINN 1001 NÓTT Í BÆJARLEIKHÚSINU 
13-17 ára krakkar úr Leikgleði sýna ævintýrasöngleikinn 1001 nótt í Bæjarleikhúsinu. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna, byggð á ævintýrinu um Aladdín og töfralampann. Miðaverð er 1.500 krónur og miðasala fer fram í síma 566-7788.

19:00 SKÁLDAGANGA MEÐFRAM VARMÁ 
Safnast verður saman við Hlégarð, gengið niður með Varmá og að Leiruvogi. Bjarki Bjarnason rithöfundur og forseti bæjarstjórnar leiðir gönguna. Kvennakórinn Stöllur verður með í för og syngur lög á leiðinni og fer með bókmenntatexta á völdum stöðum.

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI
Hjólakeppni um stíga innan Mosfellsbæjar. Keppnin hefst við íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir í boði, 16 km og 30 km. Sjá nánar á netskraning.is/fellahringurinn.

18:00 – 20:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Leikhópurinn Lotta kíkir í heimsókn með sína vinsælu söngvasyrpu. Blöðrulistamenn sýna listir sínar og gera skemmtileg blöðrudýr. Wipe-Out brautin snýr aftur og frír ís í boði. Frítt inn fyrir alla fjölskylduna.

20:00 Á LJÚFUM LITAGLÖÐUM NÓTUM
Tónleikar í Lágafellskirkju. Svavar Knútur flytur blöndu af sínum lögum.
Allir hjartanlega velkomnir. Aðgangur ókeypis.

20:15 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER VIÐ KJARNA
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman á bílaplaninu við Kjarna. Keyrður verður rúntur um Mosfellsbæ og svo stilla allir sér upp á planinu. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna verður á svæðinu ef veður leyfir.

21:00 SÓLI HÓLM MEÐ UPPISTAND Í HLÉGARÐI
Sóli Hólm hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Hann hefur farið sigurför um landið með splunkunýtt uppistand. Miðasala á www.midi.is.

 

FÖSTUDAGUR 24. ÁGÚST

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll.

10:00 og 11:00 BÓKASAFN MOSFELLSBÆJAR
Leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn og flytur Söngvasyrpu og skemmtir 5 ára börnum í bænum. Sýningarnar verða tvær, kl. 10 og kl. 11. Öll börn fædd 2013 eru hjartanlega velkomin. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

18:00 – 21:00 VELTIBÍLL Á MIÐBÆJARTORGINU
Veltibíllinn kemur í heimsókn á torgið þar sem Mosfellingum gefst kostur á því að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti.

19:00 TÍMATAKA Í PUMPUNNI
LexGames stendur fyrir æfingum og tímatöku í Pumpunni, hjólabrautinni á Miðbæjartorginu. Allir krakkar hvattir til að mæta á hlaupahjólum, hjólabrettum, línuskautum eða hjólum. Munið eftir hjálmi á höfuðið.

19:30-23:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar alvöru kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Boðið upp á úrval kaffidrykkja, heitt kakó og vöfflur. Poppvélin í gangi yfir brekkusöngnum.

19:30 – 22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:00 BMX BROS Á MIÐBÆJARTORGINU
Snillingarnir í BMX bros hita upp á Miðbæjartorginu áður en skrúðgöngurnar leggja af stað. Þeir munu sýna listir sínar og bjóða upp á kennslu.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR – Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ Í ÁLAFOSSKVOS
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum.
Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar ræsa einn lit af stað í einu.

21:00 – 22:30 ULLARPARTÍ Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina.
Ronja Ræningjadóttir tekur nokkur lög og Hilmar og Gústi stýra brekkusöng.
Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum. Rauði krossinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

22:00 Álafossvegur 20 (Þrúðvangur) – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hljómsveitin Lucy in Blue leikur gömul og góð rokklög í bílskúrnum í Álafosskvos. Rokkbandið hefur leik strax að loknum brekkusöng í Kvosinni og leikur fram að miðnætti. Gestgjafar eru þau Jón Júlíus Elíasson og Ásta Björk Sveinsdóttir.

22:30 HÁTÍÐARBINGÓ OG LIFANDI TÓNLIST
Hátíðarbingó á Hvíta Riddaranum í Háholti að loknum brekkusöng. Glæsilegir vinningar og mikil stemning. Eftir bingó tekur við lifandi tónlist og fjör fram eftir nóttu.

 

LAUGARDAGUR 25. ÁGÚST

• Frítt í Strætó allan daginn • Frítt í Varmárlaug og Lágafellslaug í dag • Frítt á Gljúfrastein

8:00 – 14:00 HLÍÐAVÖLLUR – OPNA FJ MÓTIÐ
„Í túninu heima“ mótið fer fram á Hlíðavelli. Skráning og rástímar á www.golf.is.

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll.

9:00 – 17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu í Mosfellsdal. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Frítt inn á safnið og munu starfsmenn glaðir skeggræða við gesti og gangandi.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

9:00 – 16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km)
og 1 tindur (12 km). www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

9:30 KETTLEBELLS ICELAND – ENGJAVEGUR 12
Opin Ketilbjölluæfing fyrir hrausta Mosfellinga. Gengið með ketilbjöllur upp á Reykjafell þar sem æfing verður tekin á toppnum. Lagt af stað frá Engjavegi. Allir velkomnir.

9:30-10:15 QI GONG ÆFINGAR VIÐ HLÉGARÐ
Heilsueflandi samfélag býður upp á QI GONG æfingar með Guðmundi G. Þórarinssyni. Aldagömul kínversk leið til að höndla og efla lífskraftinn. Aðferðin er sambland af hugleiðingu og léttum líkamsæfingum ásamt öflugri öndun. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

10:00 WORLD CLASS – MOSFELLSBÆ
Opinn tími, LITAGLEÐI, í World Class fyrir alla Mosfellinga. Skemmtileg blanda af styrktaræfingum og góðum teygjum. Kennari: Þorbjörg. Tökum á því í hverfalitunum!

10:30 – 11:30 OPIN ÆFING KARATEDEILDAR AFTURELDINGAR
Boðið verður upp á opna æfingu fyrir alla áhugasama til að koma og prófa.
Íþróttin hentar öllum frá 5 ára aldri og upp úr. Mætið í þægilegum íþróttafötum og með vatnsbrúsa. Erum í bardagasalnum uppi á 3. hæð að Varmá.

10:00 – 16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Kammerkór Mosfellsbæjar tekur nokkur lög kl. 14:30.
Úrslit í sultukeppni kl. 15:00. Skila þarf inn sultum í keppnina fyrir kl. 12.

12:00 Hamratangi 14 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stofutónleikar á æskuheimili Sigrúnar Harðardóttur, fiðluleikara. Tónleikarnir eru um 30 mínútur. Leikin verða verk eftir frönsku impressionistana Ravel, Debussy og Franck. Ásamt Sigrúnu koma fram Jane Ade píanóleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir, sellóleikari. Grænmetissúpa í boði fyrir tónleikagesti.

12:00 – 16:00 SKIPTIFATAMARKAÐUR RAUÐA KROSSINS
Skiptifatamarkaður í Þverholti 7. Barnaföt frá 0-12 ára, komdu með heillegar flíkur og skiptu út fyrir aðrar heillegar eða gerðu reifarakaup.

12:00-17:00 FJÖLSKYLDURATLEIKUR OG KLIFURVEGGUR Í KVOSINNI 
Skátafélagið Mosverjar setur upp klifurvegg við Skálann í Álafosskvos. Öllum boðið að sigra vegginn og komast á toppinn. Mosverjar standa fyrir fjölskylduratleik með þrautum og skemmtilegheitum. Útdráttarverðlaun fyrir þá sem klára allar þrautirnar.

12:00 – 17:00 WINGS AND WHEELS – Tungubakkaflugvöllur
Fornvélasýning: Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla.
Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00 – 14:00 KOMDU OG VERTU MEÐ AFTURELDINGU
Allar deildir Aftureldingar koma saman í íþróttahúsinu að Varmá í sal 3.
Allir velkomnir að prófa þær íþróttir sem þeir vilja.
Fulltrúar frá deildum verða á staðnum og kynna vetrardagskrána.

12:00 – 17:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur.
12:00 Blaðrarinn mætir með sín vinsælu blöðrudýr
12:30 Mosfellskórinn
13:00 Krakkar úr Krikaskóla syngja
13:30 Kammerkór Mosfellsbæjar
14:00 Karlakórinn Stefnir
14:30 Krakkar kveða rímur
15:00 Leikgleði flytur lög úr ævintýrasöngleiknum 1001 nótt
15:30 Skósveinar (Minions) á röltinu um svæðið
16:00 Ukulele-ævintýri undir stjórn Berglindar Björgúlfs

12:00-18:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar alvöru kaffihús í Skálanum í Álafosskvos.
Boðið upp á úrval kaffidrykkja, heitt kakó og vöfflur.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

13:00 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Stöllurnar og María Guðmundsdóttir bjóða til árlegrar garðveislu.

13:00-16:00 ÚGANDA-FESTIVAL HJÁ RAUÐA KROSSINUM
Úganda-festival í húsi Rauða krossins. Í boði verða réttir frá Úganda, lifandi tónlist, atriði og tækifæri til þess að kynnast nýjum íbúum Mosfellsbæjar.

13:00 – 18:00 OPIÐ HÚS Á REYKJAVEGI 84
Keramik, kaffi, konfekt og snafsar frá vínframleiðandanum Eimverk verða í boði á opnu húsi á Leirvinnustofunni Reykjavegi 84, hjá Helgu Jóhannesdóttur. Allir hjartanlega velkomnir.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐRA
Mosfellingar, FaMos-félagar og aðrir gestir velkomnir í heimsókn í þjónustumiðstöðina á Eirhömrum.
Fjölbreytt vetrardagskrá kynnt. Kaffi á könnunni og Vorboðarnir taka lagið um kl. 13:00.

13:00-13:30 BARNADAGSKRÁ Á TÚNINU VIÐ HLÉGARÐ
Barnaleikritið Karíus og Baktus verður sýnt við Hlégarð. Fjallar um tvo skrýtna náunga sem una sér best við sæl­gætisát og holugerð í tönnunum hans Jens. Aðgangur frír.

13:00 – 16:00 SKOTTMARKAÐUR VIÐ KJARNA
Mosfellingum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr skápum og bílskúrum og bjóða gestum og gangandi til sölu. Einnig er handverksfólk velkomið. Nánari upplýsingar á Facebook. Skráning hjá Elísabetu í s. 898 4412.

14:00 UKULELE-ÆVINTÝRI
Ukulele-ævintýri í stigagangi stóra hússins að Álafossvegi 23. Berglind Björg leiðir hóp nemenda.

14:00 – 24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

14:00 – 16:00 REEBOK FITNESS LEIKARNIR
Líf og fjör á Miðbæjartorginu. Zumba undir stjórn Röggu. CrossFit Katla með sýnikennslu. Unglingar fæddir 2003 fá gjafakort frá Reebok Fitness. Lean Body kynning. Kynning á starfsemi Reebok Fitness. LexGames stendur fyrir æfingum og tímatöku í Pumpunni (hjólabrautinni). Street-soccer mót á litla battavellinum. Skráning á staðnum, einn á móti einum. Heilsueflandi samfélag stendur fyrir leikjum á torginu, snú-snú, teygjó, parís o.fl.

14:00 – 16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, sumarbiathlon, harmonikkuleikur, tónlist, uppistand og fleira.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

15:00 Listasalur Mosfellsbæjar
Jóní og Lína bjóða uppá leiðsögn um sýningu sína Frá móður til dóttur – frá dóttur til móður. Íbúar hvattir til að mæta og kynna sér betur þessa flottu sýningu sem hefur verið lýst sem „púlsandi af tilfinningum“.

15:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Davíð Ólafsson óperusöngvari býður til útitónleika í garðinum heima. Frábærir söngvarar til mæta leiks. Kristín Sveinsdóttir sem söng við La Scala óperuna á Ítalíu og bróðir hennar Guðfinnur Sveinsson bariton koma í heimsókn. Þá syngur Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Anna Guðný mun leika á píanóið. Gestgjafinn tekur einnig lagið og býður fólk velkomið.

15:00 OPIN ÆFING STEFNIS Í FMOS 
Karlakórinn Stefnir heldur opna kóræfingu í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
Allir velkomnir og verðum gestum boðið að syngja með ef þeir þora.

15:00 – 16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum á Stekkjarflötinni í boði Hestamenntar.

14:00 VARMÁRVÖLLUR – AFTURELDING – HUGINN
Knattspyrnulið Aftureldingar tekur á móti Hugin frá Seyðisfirði.
Leikur í Íslandsmótinu í knattpyrnu – 2. deild karla.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

16:30 Laxatunga 5 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Heklurnar verður með tónleika í bakgarðinum að Laxatungu 5. Gestgjafi er Kristín Ingvarsdóttir.

17:00 Túnfótur – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og ­félagar verða með stofu- eða palltónleika í Túnfæti í Mosfellsdal. Tónleikarnir standa yfir í klukkustund og mun staðsetning ráðast eftir veðri.

17:00 Bollatangi 2 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Garðtónleikar Sprite Zero Klan ásamt góðum gestum. Mikið stuð og mikil læti. Sigrún Þuríður Ermarsundsfari sér ­
um að baka fyrir gesti og gangandi.

18:00 Álafossvegur 20 (Þrúðvangur) – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennabandið spilar á bílaplaninu við Þrúðvang. Bandið er skipað sjö konum sem koma úr öllum áttum tónlistarlífsins. Gestgjafar eru þau Jón Júlíus Elíasson
og Ásta Björk Sveinsdóttir.

17:00 – 21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins.
Tríóið Kókos fer á milli staða og heimsækir heppna íbúa.
Látið vita ef þið viljið eiga kost á því að fá lifandi tónlist á Facebook-síðu Kókos.

21:00 – 23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður öllum upp á tónleika á Miðbæjartorginu.
Fram koma: Sprite Zero Klan, Karma Brigade, Stjórnin, Páll Óskar, Albatross, Sverrir Bergmann, Jóhanna Guðrún og Ragga Gísla. Kynnir verður Sigmar Vilhjálmsson.
Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

23:00 BJÖRGUNARSVEITIN MEÐ FLUGELDASÝNINGU

23:30 – 04:00 STÓRDANSLEIKUR MEÐ PÁLI ÓSKARI
Hinn eini sanni Páll Óskar mætir í íþróttahúsið að Varmá. Miðverð aðeins 2.000 kr. í forsölu sem fer fram á Hvíta Riddaranum og 3.000 kr. við hurð.

 

SUNNUDAGUR 26. ÁGÚST

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Æfingaboltar á staðnum.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í MOSFELLSKIRKJU
Guðsþjónusta með „Í túninu heima“ hátíðarblæ.
Við guðsþjónustuna syngur kirkjukór Lágafellssóknar ásamt Einari Clausen. Prestur: sr. Arndís Linn.

12:30 og 15:30 ÞORRI OG ÞURA Í MELTÚNSREIT
Álfabörnin Þorri og Þura fagna 10 ára starfsafmæli sínu í ár og bjóða Mosfellingum á ókeypis leiksýningu undir berum himni. Áhorfendur taka virkan þátt í sýningunni sem er full af grípandi tónlist og miklu fjöri. Meltúnsreitur er nýtt útivistarsvæði á bak við Björgunarsveitarhúsið í Völuteig.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr í Mosfellsdal. Aðgangur 800 kr.

14:00 – 17:00 OPIÐ HÚS Á SLÖKKVISTÖÐINNI
Ný og glæsileg slökkvistöð við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Þá gefst almenningi tækifæri til að ganga um slökkvistöðina og skoða tæki og búnað. Allir velkomnir.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
Umhverfisnefnd veitir umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2018.
Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2018.
Skemmtileg tónlistaratriði og hátíðleg stund.
Kynnir Davíð Ólafsson formaður menningarmálanefndar.
Heitt á könnunni og allir velkomnir.

16:00 GLJÚFRASTEINN- STOFUTÓNLEIKAR
Sjálfur tónlistarstjóri Íslensku óperunnar og nýráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Bjarni Frímann Bjarnason, mun blaða í nótnasafni Halldórs Laxness og flytja úrval verkanna á flygil skáldsins.
Miðar eru seldir í safnbúðinni samdægurs og kosta 2.500 kr.

17:00 LEIKHÓPURINN LOTTA – GOSI
Leikhópurinn Lotta sýnir hið klassíska ævintýri um spýtustrákinn Gosa á túninu við Hlégarð. Sagan um gosa gerist inni í Ævintýraskóginum en eins og Lottu er von og vísa blandast fleiri þekkt ævintýri inn í verkið. Miðaverð: 2.300 kr.

20:00 LOKATÓNAR Í TÚNINU HEIMA
Hlégarður kynnir síðasta atriði bæjarhátíðarinnar á svið.
Sjálfur Bubbi Morthens mætir með gítarinn og verður boðið upp á notalega stund í Hlégarði. Nánar á Miði.is

Jeep aðalstyrktaraðili Tindahlaupsins

Guðni forseti á hlaupum um Mosfellsbæ árið 2017.

Guðni Th. Jóhannesson forseti tók þátt í Tindahlaupi Mosfellsbæjar árið 2017.

Tindahlaupið 2018 verður haldið í tíunda sinn þann 25. ágúst.  Líkt og í fyrra er Íslensk-Bandaríska í Mosfellsbæ, umboðsaðili Jeep á Íslandi aðalstyrktaraðili hlaupsins.  Hlaupið hefst við íþróttasvæðið að Varmá og verður ræst í tveimur ráshópum.  Klukkan 9 verða ræstir hlauparar sem hlaupa 5 og 7 tinda og kl. 11 þeir sem ætla sér að hlaupa 1 og 3 tinda.

Jeep hefur verið í fararbroddi og leiðandi framleiðandi á fjórhjóladrifsbílum í hart nær 80 á, rutt þeim braut og ljáð þeim nafn, en fyrsti jeppinn mætti til leiks árið 1941.  Jeep hefur allar götur síðan notið mikilla og verðskuldaðra vinsælda en frá 2016 hefur Ís-Band verið öflugur umboðsaðili Jeep á Íslandi.   Jeppalína Jeep er mjög fjölbreytt og er minnsti jeppinn Jeep Renegade sem undanfarin ár hefur verið valinn besti jeppinn í sínum stærðarflokki víðs vegar um Evrópu.  Jeep Compass er nýr jeppi í millistærðarflokki sem frumsýndur var á bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ á síðasta ári.  Jeep Cherokee er í miðjunni í jeppalínu Jeep, velútbúinn og öflugur jeppi með frábæra aksturseiginleika.   Jeep Grand Cherokee má segja að sé í sérflokki, því hann er sá jeppi sem flestum verðlaunum hefur hampað á heimsvísu. Síðast en ekki síst er það hinn goðsagnakenndi Jeep Wrangler, en Ís-Band mun kynna nýjan Wrangler í byrjun október mánaðar.

Að  sögn forsvarsmanna Ís-Band er góð tenging á milli Jeep og þess kaupendahóps sem stundar útvist, þar með talið fjallahlaup.  Með góðum og öflugum jeppa er hægt að komast að fallegum og spennandi stöðum í náttúrunni og með því að styrkja hlaup eins og Tindahlaupið, þá skapast kjörinn vettvangur til að kynna Jeep fyrir áhugasömum kaupendum.

Þátttaka í Tindahlaupinu hefur aukist ár frá ári og koma m.a. erlendir hlauparar sérstaklega til landsins til að taka þátt í hlaupinu.  Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, sem er eins alþjóð veit mikill hlaupagarpur tók þátt í Tindahlaupinu í fyrra.

Jeep jeppar munu vera áberandi við rás- og endamark og á nokkrum stöðum við hlaupaleiðna og áhugasamir geta eftir hlaup kíkt við í sýningarsal Ís-Band á laugardaginn, en salurinn verður opinn á milli kl. 12 og 16.  Boðið verður upp á reynsluakstur, þá má finna tilboð á völdum Jeep jeppum og boðið upp á léttar veitingar.

Hægt er að skrá sig í Tindahlaupið á hlaup.is og afhending hlaupagagna verður í sýningarsal Ís-Band daginn fyrir hlaup eða föstudaginn 24. ágúst á milli kl. 17 og 19.

Eitt í einu

heilsukarfa

Ég er að prófa á sjálfum mér áhrif þess að bæta mig markvisst á einu sviði heilsu og sjá hvaða áhrif það hefur á önnur svið. Síðan 1. ágúst er ég búinn að hreyfa mig markvisst í alla vega 3 klukkutíma á dag og skrái hjá mér hvert skipti. Hreyfingin er mjög vítt skilgreind – dekkar í raun og veru alla hreyfingu. Garðvinna, göngutúrar, æfingar, smíðavinna svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt sem kemur manni upp af stólnum og sófanum. Fótboltáhorf er hreyfing ef maður sest ekki niður og hreyfir sig á meðan maður fylgist með leiknum.

Þrír klukkutímar á dag í hreyfingu er auðvitað ekki neitt fyrir þá sem eru í vinnu sem krefst þess að þeir séu á hreyfingu yfir daginn. En fyrir þá sem eru í skrifstofuvinnu getur þetta verið áskorun sem krefst þess að maður sé útsjónarsamur og agaður í að finna leiðir til hreyfingar. En þetta skilar sér. Ég er strax farinn að finna það. Rammarnir halda mér við efnið, minna mig á að ég þarf að nota líkamann, ekki bara hausinn. Þeir hjálpa mér að búa mér til góðar venjur og halda þeim við.

Morgungöngur eru eitt dæmi um slíkt. Hugsanlega besta leiðin til þess að byrja hvern dag. En svo geri ég líka meira gagn heima. Vinn meira í garðinum. Er duglegri að mjaka áfram endurbótum á risinu. Ég leik mér líka enn meira. Fæ guttana mína oftar út í körfubolta eða fótbolta. Er duglegri að fara í göngutúra með frúnni.

Áhrifin á aðra þætti heilsu eru þegar farin að skila sér. Meiri hreyfing skilar sér í betri svefni. Maður er þægilega þreyttur í lok dags og á enn auðveldara með að sofna. Mataræðið verður líka betra, nánast sjálfkrafa. Hreyfingarleysi kallar á sætindi, gerviorku. Hreyfing kallar á hollan mat. Fylgist með á instagram.com/gudjon_svansson

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. ágúst 2018

Úr sófanum á 7 tinda

Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram laugardaginn 25. ágúst • Óskar Þór hefur hlotið nafnbótina Tindahöfðingi

Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram laugardaginn 25. ágúst. Óskar Þór hefur hlotið nafnbótina Tindahöfðingi.

„Ef einhver hefði sagt mér vorið 2013 að eftir fjögur ár myndi ég hlaupa alla 7 tindana í Tindahlaupi Mosfellsbæjar og verða Tindahöfðingi þá hefði ég hlegið upp í opið geðið á viðkomandi. Maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Óskar Þór Þráinsson starfsmaður á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar.

Það erfiðasta sem ég hef gert
Hann byrjaði að skokka 17. júní árið 2013 og gat varla hlaupið að milli ljósastaura, eins og hann orðar það sjálfur.
„Tveimur mánuðum seinna fór ég mitt fyrsta 10 km hlaup í Reykjavíkurmara­þoninu. Með viljann að vopni fór ég ári síðar í hálfmaraþon og var það það erfiðasta sem ég hef gert.
Á þessum tíma var ég óviss um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur næst. Þetta sumar hafði ég tekið þátt í mínu fyrsta utanvegahlaupi, hálfu Barðsneshlaupi (13 km) á Austfjörðum, sem ég hafði varla ráðið við.

Er þetta eitthvað fyrir mig?
Konan mín sá þá auglýsingu fyrir Tindahlaupið í Mosó og spurði mig hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir mig. Ég var alls ekki viss. Ég vissi vel af þessu hlaupi en hafði miklað fyrir mér að vera að hlaupa upp á fjall, sérstaklega eftir hrakfarirnar fyrir austan.“
Að áeggjan konunnar ákvað Óskar þó að láta slag standa og prófa að taka þátt. „Ég las meðal annars um Tindahöfðingjanafnbótina og gat ekki ímyndað mér hvernig nokkur maður gæti hlaupið 37 km yfir 7 tinda í einu lagi.“

Hlaupabakterían tekur sér bólfestu
„Ég fór minn fyrsta tind 30. ágúst 2014 í 10° hita og léttri þoku á Úlfarsfellinu. Ég hljóp yfir forarmýrarnar í átt að Hafravatni og kom í mark drullugur upp yfir haus fullur af óstjórnlegri gleði yfir magnaðri upplifun. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var upplifunin alveg mögnuð.
Það var þetta haust sem hlaupabakterían tók sér varanlega bólfestu í mér. Ég tók þátt í fleiri hlaupaviðburðum á götum og utanvega og hljóp síðan mitt fyrsta heila maraþon í RM 2015. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert. Ég gat því eðlilega ekki stillt mig um að skrá mig í þrjá tinda í Tindahlaupinu í kjölfarið.“

Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon
„Tindarnir þrír 2015 voru bókstaflega æði. Það var snilldar utanvega-fjallgönguhlaup í brjálaðri sumarblíðu. Útsýnið var æðislegt, ég átti mun auðveldara með að komast upp á Úlfarsfellið og það var hæfilega krefjandi að koma sér upp á síðari tindana tvo.
Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon á bakinu ákvað ég strax að setja markið hátt og stefna á 5 tinda að ári. Ég vissi að það myndi krefjast enn meiri þjálfunar. Ég fór því að fara reglulega í gönguferðir á fellin í Mosó og önnur fjöll. Sumarið 2016 fór ég í tvöfalda Vesturgötu, 46 km fjallahlaup á Vestfjörðum, sem reyndist mér næstum ofviða. Ég kom mér á strik aftur um sumarið, hljóp yfir Fimmvörðuháls með Náttúruhlaupum og kom mér í stand.“

Stóra áskorunin
„Tindana fimm hljóp ég 27. ágúst 2016 í skýjuðu en annars ágætu veðri. Ég var svo heppinn að hafa frábæran hlaupafélaga meginþorra leiðarinnar, hana Höllu Karen, driffjöður Mosóskokks. Ég verð að viðurkenna að brekkan upp á fyrsta hluta Grímannsfells reyndist mög líkamlega og andlega krefjandi. Ég rúllaði í mark fyrir rest í sigurvímu.
Á þessum tímapunkti sá ég fyrir mér að ekkert annað í stöðunni en að leggja enn meira á mig og fara alla helv… 7 tindana að ári. Ég fór því inn í haustið og veturinn af enn meiri krafti bæði í hlaupum og fjallgöngum. Vorið 2016 kom félagi með þá hugmynd að reyna við Landvættina.
Vorið og sumarið helgaðist því af mörgum fjölbreyttum æfingum og miklum áskorunum. Ég fór í Scaffell Pike fjallamaraþon í Englandi, 44 km maraþon með 1.800 m hækkun og komst það við illan leik á hugarfarinu einu saman. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert til þessa. Síðan synti ég Urriðavatnssundið og fór í Jökulsárhlaupið í ágúst sem voru hluti af Landvættinum. Tveimur vikur seinna var komið að stóru áskoruninni, heilum 7 tindum í Mosó.“

Hvað er ég að spá?
„Að morgni dags 26. ágúst 2017 leit þetta ekki vel út. Veðrið var með allra versta móti. Hífandi rok og rigning. Það kom hins vegar aldrei til greina að hætta við. Ég var vel undirbúinn líkamlega og í góðum vind- og vatnsþéttum búnaði en það er ekki hægt að undirbúa sig undir svona slagviðri.
Á sama tíma og veislutjöld og sölubásar voru að fjúka til á bæjarhátíðinni í Mosó var ég búinn að vera að í þrjá klukkutíma með 20 km að baki að berjast upp að tindi Grímannsfells í svo miklu slagviðri >20m/s að ég gat varla haldið augunum opnum. Ég var hættur að finna fyrir fingrunum af kulda og bleytu. Ég spurði mig hvað ég væri eiginlega að spá.
Það er á svona stundum sem maður kemst að því hvers maður er megnugur. Fyrst setti ég mér markmið að komast upp á topp. Það tókst og á niðurleiðinni frá Grímannsfelli fór mér að líða betur þrátt fyrir að villast örlítið. Ég barðist áfram á þrjóskunni einni saman og komst að lokum í mark um fimm og hálfum tíma seinna.“

Fallegasti verðlaunagripurinn
„Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að klára ekki bara eitt erfiðasta hlaup í einum erfiðustu aðstæðum sem ég hef tekið þátt í heldur að klára fjögurra ára vegferð. Að vera orðinn Tindahöfðingi. Ólýsanlegt. Ég verð líka að segja að verðlaunagripurinn er fallegasti gripur sem ég hef fengið fyrir hlaupaafrek mín.
Ég lít á áskorunina um að prófa utanvegahlaup sem einn af þeim hornsteinum sem hafa breytt lífi mínu. Utanvegahlaup eru mitt helsta og besta áhugamál. Með því sameina ég útivistar- og gönguástríðuna við hlaupabakteríuna. Ég stunda nú bæði hlaup reglulega og reyni að fara svo gott sem vikulega í stuttar göngur upp á bæjarfellin í Mosó. Síðasta vetur kláraði ég síðan að vinna mér inn nafnbótina Landvættur og set nú stefnuna á að hlaupa Laugaveginn næsta sumar.“

Aldrei að segja aldrei
„Ég hef lært það á þessum tíma að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef maður setur sér raunhæf markmið, með nægan tíma til undirbúnings, er bókstaflega allt hægt. Ég er ekkert ofurmenni. Ég fór ég frá því að vera sófakartafla yfir í að gera hluti sem mér fundust áður ofurmannlegir.
Hlaup og sérstaklega utanvegahlaup snúast ekki bara um æfingar og undirbúning heldur um hugarfar. Vilji til þess að skora á sjálfan sig og trú á sjálfum sér. Maður á aldrei að segja aldrei.“

——

Tindahlaup Mosfellsbæjar er krefjandi og skemmtilegt utanvegahlaup sem haldið er í Mosfellsbæ síðustu helgina í ágúst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir: 1 tindur (12 km), 3 tindar (19km), 5 tindar (35km) og 7 tindar (37 km).

Ungu stelpurnar stíga upp og fá tækifæri

Úr síðasta heimaleik. Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Meistaraflokkur kvenna leikur í Inkasso-deildinni í knattspyrnu eftir sigur í 2. deildinni í fyrra. Aftureldingu/Fram er spáð 8. sæti í sumar. Við tókum Júlíus Ármann Júlíusson þjálfara liðsins tali.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað?
„Við byrjuðum á því að standa í Fylkiskonum sem er spáð titlinum en töpuðum 0-1. Þá tóku við þrír jafnteflisleikir. Síðan unnum við Fjölni og töpuðum síðasta leik 2-1 á móti Þrótti.
Það skemmtilega við tímabilið er að við erum með mikla endurnýjun á liðinu. Það eru í raun einungis þrjár úr byrjunarliðinu í fyrra sem spila með okkur núna. Það fóru sjö leikmenn í barneignaleyfi sem er örugglega einsdæmi. Það er mikil frjósemi Mosfellsbænum.“

Hvernig er hópurinn?
„Þetta eru mest stelpurnar okkar úr Aftureldingu. Við eigum orðið fjóra landsliðsmenn í U16 og U17 ára. Það hefur flýtt ferlinu hjá þeim að vera kallaðar ungar inn í meistaraflokk og fengið tækifæri.“

Hver eru markmið sumarsins?
„Ég held að við séum að koma gríðarlega á óvart með góðri frammistöðu það sem af er sumri. Ungu stelpurnar hafa verið að stíga upp og andinn er góður. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að enda ofar en okkur er spáð en liðinu er spáð 8. sæti í sumar.“

Draumur að komast aftur í Pepsi-deild?
„Já, nú er hugsunin sú að reyna að búa til góðan stöðugleika í Inkasso. Á næstu 2-3 árum má alveg gæla við að komast í efstu deild. Á meðan erum við að byggja upp ungt og efnilegt lið.“

Hvernig hefur umgjörðin og stemningin verið?
„Bjartur, formaður meistaraflokksráðs, stendur sig vel en við þurfum að fá fleira fólk í ráðið.“

Uppbygging hafin á kaup­félagsreitnum

kaupfelags50

kaupfelags_mosfellingurFramkvæmdir eru nú hafnar við Bjarkarholt 8-20 sem kallað hefur verið kaupfélagsreiturinn.
Vinna við niðurrif sjoppu og gamla kaupfélagsins er hafin og skipulagsnefnd og bæjarstjórn hafa samþykkt byggingaráformin og byggingarleyfisumsókn er nú í yfirferð hjá embætti byggingarfulltrúa.
Miðað er við að á reitnum rísi fjögur fjölbýlishús á þrem til fimm hæðum. Gert er ráð fyrir allt að 65 íbúðum fyrir 50 ára og eldri og verslunarrými á götuhæð einnar byggingarinnar
Arkitektar húsanna eru ASK arkitektar og Landhönnun og við hönnun er stuðlað að grænni ásýnd umhverfisins. Þannig verða flest bílastæði í bílageymslu og gert er ráð fyrir að hægt verði að hlaða rafmagni á bíla á svæðinu. Þá er gert ráð fyrir að lágmarki tveimur stæðum fyrir reiðhjól á hverja íbúð.