Árbók FÍ fjallar um Mosfellsheiði

Höfundar bókarinnar: Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason. Hundurinn heitir Kolur og fylgdi þremenningunum í fjölmörgum gönguferðum. Myndin er tekin við Helgufoss í Bringum, efst í Mosfellsdal. Þessi stæðilega varða til hliðar heitir Gluggavarða og stendur við Seljadalsleið á Mosfellsheiði.

Höfundar bókarinnar: Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason. Hundurinn heitir Kolur og fylgdi þremenningunum í fjölmörgum gönguferðum. Myndin er tekin við Helgufoss í Bringum, efst í Mosfellsdal. Þessi stæðilega varða til hliðar heitir Gluggavarða og stendur við Seljadalsleið á Mosfellsheiði.

Hátt í öld hafa Árbækur Ferðafélags Íslands átt samleið með þjóðinni, sú nýjasta var að koma út og að þessu sinni er viðfangsefnið Mosfellsheiði – Landslag – leiðir og saga. Höfundarnir eru þrír: Bjarki Bjarnason, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Jón Svanþórsson.
„Við höfum unnið að verkinu í nokkur ár, þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt samstarf,“ segir Bjarki í viðtali við Mosfelling.
Hvernig skipulögðuð þið vinnu ykkar?
„Við gengum saman allar þær þjóðleiðir sem eru á heiðinni, þær eru hvorki fleiri né færri en um 20 talsins og flestar þeirra eru fornar. Sumar eru enn notaðar af hestafólki en margar eru ógreinilegar og voru jafnvel alveg týndar.
Á þessum göngum okkar huguðum við að öllu sem fyrir augu bar, hvort sem það tengdist jarðfræði, grasafræði, fuglum himinsins eða sögulegum fróðleik. Samhliða þessari grunnvinnu réðumst við í viðamikla heimildakönnun og skrif á árbókinni sem er prýdd fjölmörgum ljósmyndum og kortum.“
En hvernig tókst ykkur að finna allar þessar leiðir?
„Þær höfðu verið varðaðar í upphafi en áður við þremenningarnar hófum heiðargöngur okkar hafði Jón Svanþórsson gengið allar leiðirnar og hnitasett fjöldann allan af vörðum. Alls hafa fundist um 800 vörður á heiðinni og þar er um heilt samgöngukerfi að ræða. Í sumar kemur einnig út eftir okkur leiðabók um heiðina þar sem þjóðleiðunum verður lýst nákvæmlega. Sú bók mun bæði henta fólki sem ferðast á hestum, reiðhjólum og hestum postulanna.“
Koma þá út tvær bækur um Mosfellsheiði á þessu ári?
„Já, en árbókin er miklu stærri og viðameiri, þar er fjallað um allt sem viðkemur heiðinni, jafnt jarðfræði, dýralíf, raflínur, gömul sæluhús og fólk sem lenti þar í lífsháska.“
Eitthvað að lokum, Bjarki?
„Það er von okkar höfundanna að þessar bækur auki áhuga almennings á Mosfellsheiðinni. Hún er kjörin til útivistar og mikill sögulegur fróðleikur tengist henni. Okkur finnst heiðin vera falið leyndarmál á jaðri höfuðborgarsvæðisins og þess má geta að í tilefni af útgáfu árbókarinnar mun Ferðafélag Íslands skipuleggja þrjár gönguferðir um hana í sumar.“