Það er margt sem þarf að breytast
Það eru fáir sem hafa staðið jafn lengi í baráttu fyrir heimilin í landinu og Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir. Hann gekk til liðs við Hagsmunasamtök heimilanna eftir stofnun þeirra árið 2009 og hefur verið einn af forsvarsmönnum samtakanna síðan. Sú barátta sem hefur staðið þar hæst er að farið sé eftir lögum í landinu og að réttur neytenda sé virtur en á þá kröfu hefur ekki verið nægilega hlustað í 10 ár.
Vilhjálmur er fæddur á Egilsstöðum 13. september 1963. Foreldrar hans eru þau Anna Kristín Vilhjálmsdóttir húsmóðir og þúsundþjalakona og Bjarni Ágúst Garðarsson rafvirkjameistari.
Systkini Vilhjálms eru Garðar Jón f. 1962, Haraldur Rúnar f. 1966, Bjarni Sindri f. 1970, Sigfríð Margrét f. 1972 og Svanur Þór f. 1974.
Frjálsræðið stendur upp úr
„Ég er alinn upp á Reyðarfirði og það var frábært að alast þar upp. Í minningunni var oftast sól og blíða. Þegar maður hugsar til baka þá stendur frjálsræðið upp úr. Við krakkarnir lékum okkur úti frá morgni til kvölds og það var enginn sem hafði áhyggjur. Við fórum í alls konar leiki og svo var farið niður á bryggju að veiða.
Við stukkum einnig á milli í árgilinu og reglulega var stríð á milli innbæjar, miðbæjar og útbæjar með sverðum og öllu tilheyrandi.
Á sumrin hjólaði maður út um allt en svo kom að því að maður fékk sér mótorhjól. Á veturnar renndum við okkur á uppblásnum veghefilsslöngum niður fjallið fyrir ofan bæinn og svo var skautað á tjörninni.“
Fann fjölina í sölumennsku
„Ég gekk í grunnskóla Reyðarfjarðar og mér gekk vel í skóla. Uppáhaldskennarinn minn hét Lára Jónasdóttir og öllum í bekknum þótti vænt um hana. Mér fannst skemmtilegast í smíði og í sjóvinnunni en boðið var upp á pungaprófið svokallaða, þ.e.a.s. 30 tonna skipstjórnarréttindi. Við fórum þrír 14 ára guttar saman á sjóinn á Snæfuglinn frá Reyðarfirði og eftir sumarið áttum við nóg af peningum.
Eftir grunnskóla fór ég í nám í rafvirkjun á Norðfirði og á sumrin vann ég við brúargerð, sprengdi fyrir staurum hjá Rarik og svo var ég á vertíð í Grindavík. Ég vann svo við bílatengda hluti í nokkur ár eða þangað til ég fann fjölina í sölumennsku. Fyrst í heildsölu við að selja barnavörur og leikföng en undanfarin 27 ár hef ég starfað sem fasteignasali.“
Una sér vel í Leirvogstungunni
Eiginkona Vilhjálms er Anna Thelma Magnúsdóttir viðskiptafræðingur og flugfreyja. Börn þeirra eru samtals sex, Arna Íris f. 1987, Magnús Þór f. 1989, Jón Arnar f. 1994, Anna María f. 1994, Mikael f. 2007 og Sara Lillý f. 2008.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ árið 2015 og unir sér vel í Leirvogstungunni. „Hér er bara dásamlegt að vera, stutt að fara út í náttúruna og við erum dugleg að fara í göngutúra með hundinn,“ segir Villi eins og hann er oftast kallaður.
Ákvað að láta ekki mitt eftir liggja
Á milli þess sem Vilhjálmur selur fasteignir hjá VB Eignum berst hann fyrir bættum hag heimila í landinu. Hann hefur veitt fjölda fólks ráðgjöf og hjálp í gegnum tíðina og gerir enn.
Hann kýs að kalla sig „ekki fjárfesti“, til að aðgreina sig frá alnafna sínum sem lengi vel var formaður Félags fjárfesta en þeir nafnar eru ósammála um ansi margt.
„Lítum til baka, það vita allir hvernig þetta var hérna eftir hrun,“ segir Vilhjálmur alvarlegur á svip. „Almenningur missti eigur sínar á grundvelli ólöglegra lána og fólk vissi ekkert hvert það átti að snúa sér. Þessar fjölskyldur hafa enn ekki fengið réttindi sín viðurkennd og munu búa við afleiðingar þess lengi.
Í janúar 2009 tóku nokkrir aðilar sig til og stofnuðu Hagsmunasamtök heimilanna sem eru frjáls og óháð samtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Ég heyrði af þessum samtökum og hugsaði með mér að ég gæti ekki látið mitt eftir liggja. Ég hef nú verið stjórnarmaður þarna sl. 10 ár, þar af formaður í 5 ár og í dag er ég varaformaður.
Eitt helsta baráttumál samtakanna í dag er að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrifum þeirra og afleiðingum fyrir heimilin. Við viljum að farið sé að lögum í landinu og að réttur neytenda sé virtur.“
Framtíð þeirra er ein aðalástæðan
„Ein af aðalástæðum þess að ég hef unnið þessa miklu sjálfboðavinnu í öll þessi ár hjá HH er að við Thelma konan mín eigum sex börn á aldrinum 10 til 32 ára og 4 barnabörn. Framtíðin er þeirra og ég vil ekki láta bjóða þeim upp á verðtryggt lánaumhverfi eða að þau búi við þá lítilsvirðingu sem viðgengst við neytendur hér á landi innan stjórn-, dóms- og embættismannakerfisins.
Ég hef lofað þeim því að ég muni gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að verðtryggð neytendalán verði bönnuð á Íslandi.
Það er margt sem þarf að breytast og við höfum burði og getu til að breyta þessu ef vilji væri fyrir hendi hjá þeim sem ráða í þessu landi.
Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og nánast það eina sem skilur okkur frá öðrum þjóðum er verðtrygging lána heimilanna. Með því að afnema hana gætu allir lifað hér góðu og mannsæmandi lífi,“ segir Vilhjálmur að lokum.
Mosfellingurinn 23. maí 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs