Heilsuhvetjandi vinnustaðir

gaui2maí

Ég er að prufukeyra fjarverkefni með góðu fólki. Verkefnið byggir á því sem við erum að læra hjónin á rannsóknarferð okkar um heiminn, við erum að heimsækja staði sem hafa verið þekktir fyrir langlífi og góða heilsu.

Í síðustu viku vorum við í prufuverkefninu að skoða daglega hreyfingu, hvernig hægt væri að auka hana og koma betur inn í lífið. Öll samfélög þar sem langlífi er þekkt eiga það sameiginlegt að fólk hreyfir sig reglulega yfir daginn. Dagleg hreyfing snýst ekki um að mæta æfingar tvisvar til þrisvar í viku og sitja svo á rassinum eða liggja upp í sófa/rúmi restina af sólarhringnum. Það er ekki nóg ef við viljum byggja upp og viðhalda góðri heilsu.

Við þurfum að koma reglulegri hreyfingu inn í daginn okkar og þá skipta vinnustaðir miklu máli. Ég hef unnið með og heimsótt tugi vinnustaða undanfarin ár og það er mikill munur á viðhorfi atvinnurekenda og stjórnenda fyrirtækja varðandi heilsu starfsmanna. Sumir vinnustaðir eru beinlínis heilsuletjandi á meðan aðrir hafa áttað sig á mikilvægi þess fyrir vinnustaðinn og samfélagið allt að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og hlúa að eigin heilsu.

Mér þótti virkilega vænt um að lesa þessar línur frá einni sem tekur þátt í prufuverkefninu áðurnefnda. Það skín sterkt í gegn hvað hún er ánægð með sinn vinnustað og þá hvatningu sem hún fær til þess að hreyfa sig í tengslum við vinnuna. Það skilar sér í þráðbeint til baka til vinnustaðarins. Meiri vinnugæði, betri starfsandi, færri veikindadagar og fjarvistir svo fátt sé nefnt.
„Ég er svo heppin að ég get fengið borgað aukalega fyrir að koma mér á vistvænan máta til vinnu og svo má ég stunda líkamsrækt á vinnutíma. Með því að hjóla í vinnuna er ég bæði að stytta vinnuvikuna og fá meira útborgað … það er klassi.“

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. maí 2019