Mosó eða Cagliari?

Heilsumolar_Gaua_23mai

Eitt af því sem ég spái mikið í þegar ég ferðast er umhverfið. Hvernig umhverfi bæjar- eða sveitarfélagið sem ég er staddur í býður íbúum sínum upp á. Sum sveitarfélög eru þannig að mann langar lítið að koma þangað aftur. Önnur heilla mann strax. Núna er ég staddur í Cagliari á Sardiníu. Hér er margt til fyrirmyndar. Göngu- og hjólastígar eru víða og vel afmarkaðir. Það er mikið af almenningsgörðum, stórum og smáum. Við duttum niður á einn í gær, þar voru háværir og litskrúðugir páfuglar á vappi innan um gesti garðsins. Hér er mikið af íþróttamannvirkjum og borgin var kjörin Íþróttaborg Evrópu árið 2017.

Af öllum þeim stöðum sem við höfum sótt heim á ferðalaginu okkar höfum við hvergi séð eins marga íþróttasinnaða á götum úti. Fólk á öllum aldri. Bókstaflega. Það eru allir að hreyfa sig eða á leiðinni í hreyfingu. Fólk lítur vel út, ferskt að sjá og fáir í yfirvigt. Nánast engin börn eru hér of þung, ekki þau sem við höfum rekist á allavega. Það eina sem maður gæti kvartað yfir er aðgengið, gervigrasvellir eru til að mynda yfirleitt læstir og bara aðgengilegir þeim sem eru skráðir félagar hjá þeim sem reka viðkomandi völl. Þar stöndum við Mosfellingar mörgum skrefum framar, það er ómetanlegt fyrir okkar krakka og fullorðna að komast á gervigrasvellina okkar hvaða tíma dags sem er.

Þetta hangir saman, því betra umhverfi og aðstaða sem sveitarfélög bjóða íbúum upp á, því líklegra er fólk til þess að hreyfa sig. Það skilar sér þráðbeint til baka til sveitarfélagsins, heilsuhraustir og hamingjusamir íbúar skila meiru til samfélagsins og kosta minna en þeir sem hafa lent í köngulóarvef langvinna lífsstílsjúkdóma. Mosfellsbær stendur vel í samanburði við þau sveitarfélög sem við höfum verið að skoða, en að sjálfsögðu er svigrúm til bætinga á ýmsum sviðum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. maí 2019