Endurbætur á Varmárskóla komnar í útboð

varmarskoli_mosfellingur

varmá_yfirlitÍ sumar eru fyrirhugaðar verulegar endurbætur á húsnæði Varmárskóla.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar hefur óskað eftir tilboðum í viðhaldsframkvæmdir við húsnæði yngri deildar skólans. Verkefnið felur í sér endurnýjun á hluta þakefna, glugga auk múrviðgerða og málunar. Lögð verður áhersla á að vinna verkið þannig að lágmarks rask verði á skólahaldi og að því verði að mestu lokið fyrir skólasetningu í haust og að fullu lokið 1. september.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Helstu verkþættir felast í endurnýjun bárujárns og glugga, múr­viðgerðum og málun veggja á suðurbyggingu. Í vesturhluta skólans verður skipt um bárujárn á hluta af þekju ásamt gluggum ofan við þekjuna.
Þetta útboð er fyrsti hluti af þriggja ára áætlun um endurnýjun á ytra byrði skólans og er unnið á grunni úttektar sem umhverfis­svið Mosfellsbæjar gerði.
Heildarumfang þessara framkvæmda nemur um 200 m. kr. á næstu þrem árum.

Heildstæð úttekt á Varmárskóla
Til viðbótar stendur nú yfir ítarleg greiningarvinna á húsnæði Varmárskóla, en verkfræðistofan Efla hefur á síðustu misserum unnið fyrir Mosfellsbæ að úttektum á áhrifum raka á húsnæðið ásamt því að mæla loftgæðin í skólanum.
Fyrirtækið hefur framkvæmt þrjár aðskildar úttektir á þessum atriðum á síðustu þremur árum í náinni samvinnu við starfsmenn Varmárskóla og umhverfissviðs Mosfellsbæjar en í ljósi þess að fram komu nýjar ábendingar frá skólasamfélaginu var Eflu falið að vinna heildstæða úttekt á Varmárskóla. Hófst sú vinna 15. apríl síðastliðinn og er gert ráð fyrir að henni verði að fullu lokið í maí.

Taka hlutverk sitt alvarlega
„Mosfellsbær tekur hlutverk sitt á sviði skólamála mjög alvarlega og gefur enga afslætti á því sviði frekar en öðrum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Starfsmenn og stjórnendur Varmárskóla hafa sinnt góðu starfi og við leitumst við að styðja þá í þeirra mikilvægu störfum fyrir nemendur skólans.
Fram hefur komið í samskiptum Mosfellsbæjar og Eflu að fyrirtækið telji að viðbrögð Varmárskóla og umhverfissviðs Mosfellsbæjar hafi verið í samræmi við tilefni þeirra mála sem komið hafa upp á hverjum tíma, en Efla er einn reynslumesti aðilinn á sviði rakaskemmda hér á landi.“

Bærinn tekur vel á móti ábendingum
„Varðandi umræðuna sem verið hefur um skólamálin á breiðum grunni að undanförnu þá vil ég ítreka að bæjaryfirvöld taka vel á móti öllum ábendingum um umbætur á sviði skólamála og við leggjum áherslu á að vinna úr þeim eins hratt og mögulegt er. Þetta á líka við um ábendingar sem fram hafa komið um Varmárskóla. Varmárskóli stendur sig vel á mörgum sviðum en áfram er þar verk að vinna.
Skólastarf er í eðli sínu þannig að það þarf að vera í stöðugri þróun. Mikilvægt er að skólasamfélagið, sem heild, vinni saman að lausn þeirra verkefna enda segir máltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn.
Starfsemi Varmárskóla er samvinnuverkefni kennara, foreldra og bæjaryfirvalda. Vilji íbúar fá tíðari upplýsingar og koma meira að stefnumótuninni í skólanum þá göngum við í það verkefni, eins og önnur, með gleði í hjarta,“ segir Haraldur.