Skipuleggja Fjölmenningarhátíð í Kjarnanum 11. maí

Rakel Sigurðardóttir, Auður Halldórsdóttir og Margrét Lúthersdóttir sjá um skipulagningu  Fjölmenningarhátíðarinnar í Kjarna fyrir hönd Bókasafnsins og Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Rakel Sigurðardóttir, Auður Halldórsdóttir og Margrét Lúthersdóttir sjá um skipulagningu Fjölmenningarhátíðarinnar í Kjarna fyrir hönd Bókasafnsins og Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Ákveðið hefur verið að fagna fjölmenningu í Mosfellsbæ laugardaginn 11. maí í Kjarna. Fjölmenningarhátíðin stendur frá kl. 13 til 15. Innflytjendum í Mosfellsbæ hefur fjölgað mjög mikið og eru nú um 8% íbúa í bæjarfélaginu.
Að hátíðinni standa Bókasafnið og Rauði krossinn í Mosfellsbæ.
„Þetta er frábært tækifæri til að kynnast annarri menningu og eiga saman góðan dag, segir Margrét Lúthersdóttir deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ. „Við viljum tengja saman Mosfellinga, innfædda og aðkomna. Torgið hér í Kjarna er góður vettvangur til þess og við hlökkum til að sjá sem flesta.“

Viljum ná til sem flestra
Auður Halldórsdóttir forstöðumaður bókasafnsins og Rakel Sigurðardóttir starfsmaður á bókasafninu hittu Margréti í byrjun árs til að ræða hvaða möguleikar væru fyrir hendi fyrir safnið til að ná betur til nýrra íbúa af erlendu bergi brotnu. Ýmsar hugmyndir komu upp á þeim fundi og ein af þeim var hátíð þar sem menning þessara nýju íbúa fengi að blómstra.
„Svona stoðir í samfélaginu eiga einmitt að vinna saman en í Bókasafninu hefur verið opið hús annan hvern mánudag fyrir innflytjendur þar sem þeir hafa fengið aðstoð og nýtt sér tölvuaðstöðuna.
Hingað kostar ekkert að koma og við viljum opna faðminn enn betur og ná til allra,“ segir Auður Halldórsdóttir

Matur og menning í forgrunni
Rakel tekur í sama streng og segir áherslu verða lagða á mat frá hinum ýmsu löndum. „Fólk er alltaf spennt að smakka framandi mat og hér munum við hittast á jafnréttisgrundvelli á torginu í Kjarna,“ segir Rakel.
Innflytjendur munu kynna mat og menningu sína og munu gestir fá að smakka ýmislegt frá t.d. Kúrdistan, Úganda, Afganistan, Litháen, Sýrlandi og eflaust fleiri löndum.
Krakkar í 4. bekk Varmárskóla ætla að sjá um skreytingar og Mosinn mætir með Pop-up ungmennahús. Þá ætlar Skólakór Varmárskóla að syngja nokkur lög og Kvenfélagið mun bjóða upp á bakkelsi og handverk til sölu. Leikfélagið mun sjá um andlitsmálningu.

Nýbúum vel tekið í Mosfellsbæ
70 ný börn bættust við Varmárskóla á síðasta ári frá mismunandi þjóðum. „Ég held að nýbúum sé almennt mjög vel tekið í Mosfellsbæ og það er talað um það hve móttökurnar eru góðar,“ segir Margrét. „Við hlökkum því til að sjá sem flesta á Fjölmenningarhátíðinni þann 11. maí. Tekið verður vel á móti öllum hér við Bókasafnið í Kjarnanum sem er einmitt daglegur viðkomustaður fjölmargra Mosfellinga. Við bjóðum alla velkomna, óháð stétt og stöðu.“