Henti mér út í djúpu laugina

gdrn

Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eða GDRN eins og hún kýs að kalla sig hlaut fern verðlaun þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Hörpu nýlega. Þar var hún valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar, plata hennar „Hvað ef“ var valin poppplata ársins og hún átti lag og tónlistarmyndband ársins.
Í þakkarræðu sinni hvatti Guðrún Ýr ungar stelpur til þess að láta sig dreyma risastórt, því þetta væri mögulegt.

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir er fædd 8. janúar 1996. Foreldrar hennar eru þau Kristín María Ingimarsdóttir grafískur hönnuður og kennari í Borgarholtsskóla og Jóhannes Eyfjörð Eiríksson öryggisstjóri hjá Origo.
Guðrún Ýr á tvo bræður, Matthías Eyfjörð f. 2002 og Andra Eyfjörð f. 2004.

Sveit í bæ fílingur
„Ég er fædd í Reykjavík en flutti í Mosfellsbæ þegar ég var fjögurra ára. Það var frábært að alast hér upp því þetta var smá sveit í bæ fílingur og mikið frelsi. Það var gaman að banka upp á hjá jafnöldrum mínum og fara svo saman út að leika.
Ég var fimm ára þegar ég byrjaði að læra á fiðlu í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar. Þegar kennarinn minn flutti til Írlands þá færði ég mig yfir í Suzukitónlistarskólann í Reykjavík. Ég hætti í fiðlunáminu 17 ára og ákvað stuttu eftir það að hefja söngnám í Tónlistarskólanum í Mosfellsbæ og þar var ég í nokkur ár. Ég færði mig svo yfir í Tónlistarskóla FÍH og fór að læra jazz-söng og seinna á píanó og ég er enn við nám þar í dag.
Ég æfði líka knattspyrnu í mörg ár hjá Aftureldingu og dreymdi um að verða fótboltastjarna en þurfti því miður að hætta vegna hnémeiðsla.“

Ætlaði að verða læknir
„Mér fannst alltaf gaman í skóla en ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Uppáhaldsfögin mín voru myndmennt og textíl. Gelgjan var nú svolítið í hámarki síðustu árin í gaggó,“ segir Guðrún Ýr og brosir.
„Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík á náttúrufræðibraut því ég ætlaði mér að verða læknir. Ég fann samt fljótt út að þetta var ekki leiðin sem hentaði mér, ég kláraði stúdentinn og fór svo af fullum krafti í tónlist.“

GDRN
Guðrún Ýr segist hafa hent sér út í djúpu laugina þegar hún fór að búa til sína eigin tónlist. Það gerir hún undir nafninu GDRN sem stendur fyrir Guðrún án sérhljóða.
Hún gaf út sína fyrstu tónlist árið 2017 en það var ekki fyrr en hún gaf út lagið „Lætur mig“ sumarið 2018 sem boltinn fór almennilega að rúlla. Hún gaf síðan út plötuna „Hvað ef“ í ágúst 2018 og vakti hún gríðarlega athygli. Platan var valin plata ársins á Grapevine Music Awards og hlaut einnig Kraumsverðlaunin. Platan var líka tilnefnd á Nordic Music Prize í Noregi en í sama flokki var söngkonan Robyn tilnefnd sem gerði garðinn frægan árið 2010 með laginu sínu „Dancing on my own“ sem náði vinsældum á heimsvísu.
Á milli lagasmíða kemur Guðrún Ýr fram á tónleikum.

Með ótrúlegt tóneyra
„Það þýðir ekkert annað en að vera kræfur í þessum bransa, ég er alveg óhrædd við að spyrja hvort ég megi syngja með þeim sem mig langar að syngja með og fæ alltaf góð viðbrögð. Það er gott að vera kona í tónlistarbransanum á Íslandi og ég finn fyrir miklum stuðningi frá öðrum tónlistar­konum. Ég vil vera innblástur fyrir ungar stúlkur sem eru að taka sín fyrstu skref.“
Guðrún Ýr vinnur einnig með upptökustjórateyminu ra:tio sem samanstendur af þeim Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni en þau hafa þekkst síðan í MR. Þeir félagar segja hana tónlistarlegan suðupott sem sé með óvenjulega rödd og komi með óvænt áhrif inn í poppið. Hún sé einlægur karakter, föst á sínu og með ótrúlegt tóneyra.

Þetta var draumi líkast
Fjölbreytni og fagmennska var í fyrirrúmi á glæsilegri verðlaunahátíð tónlistargeirans þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Silfurbergi í Hörpu.
Plata Guðrúnar „Hvað ef“ var valin poppplata ársins, lagið „Lætur mig“ sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Guðrún Ýr var valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hún fékk einnig verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins.
Hún segir verðlaunin hafi komið sér reglulega á óvart.
„Ég var búin að gera mér vonir um að vinna titilinn söngkona ársins en fékk svo þrenn verðlaun til viðbótar, þetta var bara draumi líkast. Það er svo gaman að fá svona viðurkenningu sérstaklega þegar maður hefur lagt svona mikla vinnu í hlutina, það er bara æðislegt.“

Kemur fram á þjóðhátíð í Eyjum
Guðrún Ýr er ein af þeim sem kemur fram á þjóðhátíð í Eyjum í ár og segist hún full eftirvæntingar. Hún fór fyrst á þjóðhátíð í fyrra og segir þau kynni hafi verið ansi köld og blaut því veðrið var ekki upp á sitt besta.
„Ég hef nú oftast verið á unglingalandsmótum um þessa helgi að keppa í fótbolta og frjálsum eða að ferðast með fjölskyldunni um landið. Það var því mikið upplifelsi að prófa eitthvað nýtt og fara á þjóðhátíð, þetta var svona fyrsta skrallhelgin.
Það verður örugglega enn skemmtilegra núna þar sem maður fær að taka þátt í dagskránni á stóra sviðinu og ég hlakka mikið til,“ segir Guðrún Ýr að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. apríl 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs