Þjálfarar Liverpool mjög ánægðir með umgjörðina

Hanna Símonardóttir í heimsókn hjá Liverpool akademíunni.

Hanna Símonardóttir í heimsókn hjá Liverpool akademíunni.

Liverpool-skólinn verður haldinn í samstarfi við Aftureldingu í níunda sinn nú í júnímánuði.
Skólinn hefur stækkað og dafnað og nú koma 16 þjálfarar frá Liverpool til þess að sýna íslenskum fótbolltasnillingum hvernig þjálfunin fer fram hjá þessu fornfræga félagi.
Gera má ráð fyrir að iðkendur í ár verði rúmlega 350 talsins, en skólinn er haldin hér í Mosfellsbæ og á Akureyri í samvinnu við Þór. Undanfarin ár hefur verið uppselt í skólann í Mosfellsbæ.

Hugmyndin kvikaði á Barbados
Hanna Símonardóttir, einn af virkustu sjálfboðaliðum Aftureldingar, segir að hugmyndin hafi kviknað eftir samtal við Guðjón Svanson. Drengirnir hans höfðu farið í Liverpool-skóla á Barbados þegar fjölskyldan var í heimsreisu.
„Skömmu seinna er ég á leiðinni á leik í Liverpool og Gaui fékk þjálfarana sem hann hafði kynnst á Barbados til þess að hitta mig, en sá þjálfari var kominn í fullt starf hjá Liverpool Academy.
Í stuttu máli þá samþykkti hann að skólinn kæmi til prufu einu sinni. Níu árum seinna er hann ennþá í fullum gangi,“ segir Hanna sem er mjög stolt af Liverpool-skólanum í Mosfellsbæ.

Frábær ávinningur fyrir alla
„Skólinn er lítill á þeirra mælikvarða en þeir eru ánægðir með hvernig þetta gengur og hvernig við gerum hlutina. Þriggja ára reynslutíma lauk og við fengum langtímasamning. Þjálfarar Liverpool, iðkendur og foreldrar eru ánægð með okkur.
Að geta gefið íslenskum krökkum tækifæri á því að sækja æfingar hjá knattspyrnuskóla frá jafn sögufrægu, virtu félagi og Liverpool er frábær ávinningur fyrir Aftureldingu og Mosfellsbæ. Við eigum frábærara þjálfara en öll fjölbreytni er frábær og að krakkarnir fái að kynnast hugarfari erlendra þjálfara er ómetanlegt.“

Með Liverpool í blóðinu
Sjálf er Hanna líklega ein af hörðustu stuðningmönnum Liverpool á Íslandi og fer reglulega á leiki liðsins á Anfield. Hún segir fáa trúa sér þegar hún útskýrir að á tíma hafi hún ekki fylgst mikið með liðinu, enda hafi mikið verið að gera í barnauppeldi og lífinu.
„Það var elsti sonur minn sem reddaði þessu þegar hann kom heim úr skólanum einn daginn og gólaði úr forstofunni að Liverpool væri besta liðið og hann héldi með þeim. Þá datt ég aftur í gírinn og hef vart misst úr leik síðan,“ segir þessi kraftmikla kona að lokum.