Framtíð Hlégarðs

Hildur Margrétardóttir

Hildur Margrétardóttir

Málefni Hlégarðs eru nú til umræðu í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar.
Framtíð hússins er óviss en niðurstaða mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir svarið við þeirri spurningu hvort Mosfellsbær er úthverfi frá Reykjavík í félagslegu og menningarlegu tilliti eða bæjarfélag með sterka sjálfsímynd.

Um langt skeið hefur húsið verið leigt út til einkaaðila sem samið hafa um reksturinn við bæinn. Einn slíkur samningur er nú að renna sitt skeið og mál margra að rétt sé að endurskoða hann, áður en lengra er haldið, með það að leiðarljósi að efla félagslegan þátt starfseminnar og auka framboð og um leið fjölbreytni viðburða. Sú staðreynd að Hlégarður er eina samkomuhús Mosfellinga leggur bæjaryfirvöldum ríkar skyldur á herðar.

Félagsheimilið Hlégarður var byggt um miðja síðustu öld. Nú er 21. öldin gengin í garð og félagslegar forsendur allt aðrar. Sú spurning vaknar hvort yfirhöfuð sé þörf fyrir samkomuhús í Mosfellsbæ. Til þess að varpa ljósi á það er vert að skoða upphafið og rekja sig þaðan til dagsins í dag.

Upp úr 1900 urðu miklar breytingar á búsetu fólks á Íslandi. Þéttbýli tók að myndast og úr þeim jarðvegi spruttu m.a. ungmennafélög sem þurftu þak yfir höfuðið.
Í loftinu lá krafa um að blása lífi í íslenskt menningarlíf. Lítil samkomuhús litu dagsins ljós en eftir því sem leið á öldina fjölgaði stærri félagsheimilum á borð við Hlégarð.

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Framan af hýstu þessi hús nánast allt félags- og menningarlíf á Íslandi en með tilkomu íþróttamiðstöðva, tónlistarhúsa, leikhúsa, danshúsa, skátaheimila, félagsmiðstöðva eldri borgara og húsnæðis fyrir ýmsa aðra félagsstarfsemi dró úr eftirspurninni. Samkeppnin við kvikmyndahúsin og sjónvarpið hafði líka sín áhrif.

Í upphafi voru samkomuhús samstarfsverkefni félagssamtaka og hreppa. Um miðja öldina lagði ríkið svo sitt lóð á vogarskálarnar með stofnun félagsheimilasjóðs. Sameiginlegur rekstur og bygging samkomuhúsanna tengdi fólkið saman og það sem meira var íbúana og stjórnvaldið. Samkomustaðirnir urðu þannig sameiningartákn.
Öflugt félagsstarf styrkti ímynd hreppanna og gaf fólkinu tilfinningu fyrir því að það væri hluti af sterkri liðsheild. Með því að efla félagsstarfið sendu hrepparnir jafnframt frá sér þau skilaboð að búseta þar væri eftirsóknarverð, að sveitin væri sjálfri sér nóg, ekki eftirbátur annarra.
Viðfangsefni bæjarins núna er að skera úr um hvort bæjarfélagið fullnægi þessum þörfum. Hvort það skilgreini sig sem bæjarfélag eða úthverfi, hvort félagsheildin Mosfellsbær sé sjálfri sér nóg? Mælikvarðinn á það eru innviðirnir, ekki síst félags- og menningarlegir.

Ljóst er að skapandi greinar gætu haft mikil not fyrir Hlégarð. Ungmenni, eldri borgarar, íbúasamtök og önnur félagssamtök sömuleiðis. Húsið var byggt til að hýsa leiksýningar, tónlistarflutning, dansleiki og félagsstarf hverskonar. Forsendan fyrir gróskumiklu starfi þessara hópa er að þeir eigi sér afdrep þar sem fólk getur mælt sér mót, æft sig, talað saman og troðið upp í til þess gerðu umhverfi. Um samfélagslegt gildi þess að njóta í sameiningu líðandi stundar „í hléi fyrir mesta vindinum“ leikur enginn vafi.

Íbúahreyfingin hefur viðrað þá hugmynd að kalla áhugasama íbúa, félagssamtök og fagfólk til skrafs og ráðagerða um framtíð Hlégarðs. Allir hefðu gagn af því.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Hildur Margrétardóttir og Sigrún H. Pálsdóttir

Taktu þátt, kjóstu þinn fulltrúa í bæjarstjórn!

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fer fram 10. febrúar.
Mikilvægt er að sem flestir íbúar taki þátt í að velja fólk á listann og hafa þannig áhrif á gang mála í bæjarfélaginu.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjörinu þann 10. febrúar og hér að neðan eru helstu áherslur mínar varðandi rekstur og þjónustu bæjarins á næstu misserum.

Rekstur og þjónusta
Bæjarmálin snúast um að veita hágæða þjónustu sem þjónar hagsmunum allra bæjarbúa. Mikilvægt er að kappkosta að forgangsraða í fjárfestingum á vegum bæjarins og gæta aðhalds þegar kemur að stórum og dýrum framkvæmdum. Það er mikilvægt því það eru mörg verkefni sem þarf að ráðast í á næstu misserum á vegum bæjarins.
Á sama tíma er það forgangsmál að halda álögum á íbúa sem lægstum. Það þarf að skoða hvort svigrúm sé til að lækka fasteignaskatta enn frekar en þegar hefur verið gert, og þá sérstaklega á eldra fólk.

Íþrótta og tómstundamál
Mosfellsbær er lýðheilsu- og íþróttabær. Að mínu mati þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu í bænum umfram það sem þegar er búið að ákveða. Hér má nefna viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem innihéldi nýja búningsklefa, fjölnota rými sem myndi nýtast Varmárskóla í kennslu og öðrum verkefnum, og sem félagsaðstaða fyrir íþrótta og tómstundafélög í Mosfellsbæ. Það bráðvantar annan gervigrasvöll í fullri stærð, ný gólfefni á íþróttasalina að Varmá og lagfæra aðstöðuna á Tungubökkum.
Þetta eru víðtæk og stór verkefni en mjög aðkallandi. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að finna leiðir og fjármagn til þess að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Framúrskarandi aðstaða er lykillinn að því að tómstundastarf blómstri.
Hröð fjölgun íbúa og iðkenda kallar á hraða uppbyggingu í þessum málum.

Skólamál
Í Mosfellsbæ eru góðir skólar og leikskólar og þar starfar frábært starfsfólk.
Mosfellsbær leggur áherslu á að skólarnir og leikskólarnir okkar séu í fremstu röð, þar á öllum að líða vel. Með fjölgun bæjarbúa eykst álag á skólana sem ekki má bitna á á faglegu starfi þeirra. Hér má nefna húsnæðismál og ráðningar faglærðs fólks bæði í skóla og leikskóla. Það þarf að bæta starfskjör og aðstöðu kennara og fagfólks innan skóla og leikskóla bæjarins.

Skipulagsmál, umhverfismál og samgöngur
Skipulags og umhverfismál eru stórir málaflokkar í Mosfellsbæ. Stækkun bæjarins og ný hverfi þarf að byggja upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru.
Við eigum einstaka náttúru allt í kring um bæinn okkar og þurfum að passa upp á grænu svæðin og halda áfram uppbyggingu á göngustígum o.fl.
Samgöngumál verða einnig fyrirferðarmikil á næstu árum og miklar breytingar fram undan í þeim málum. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi þegar umferðarmál í og umhverfis bæinn eru mótuð. Þar þurfa bæjaryfirvöld að taka virkan þátt með nágrannasveitarfélögum í að móta raunhæfar hugmyndir bæði varðandi einkabílinn og almenningsamgöngur.

Málefni og velferð eldri borgara
Hlutfall fólks 65 ára og eldra mun hækka verulega á næstu árum samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Málefni eldri borgara í Mosfellsbæ eru að mörgu leyti í góðu horfi en það þarf að hlúa enn betur að sumum málefnum þessa hóps. Plássleysi er farið að há félagsstarfi og það þarf að virkja betur lýðheilsustefnu fyrir þennan hóp. Það vantar t.d. stærri aðstöðu fyrir skipulagða leikfimi. Aukin áhersla á lýðheilsu eldri borgara er mjög góð fjárfesting, stuðlar að betri heilsu, auknum lífsgæðum og styrkir félagslega virkni og tengsl þeirra.

Látum verkin tala
Það eru skemmtilegir og krefjandi tímar á næsta kjörtímabili í rekstri Mosfellsbæjar og mikilvægt að bæta úr þar sem þörf er á ásamt því að grípa tækifærin sem gefast.
Ég býð fram krafta mína og víðtæka reynslu sem stjórnandi úr atvinnulífinu auk mikillar reynslu úr félagsmálum til þess að vinn af krafti og heilindum að þeim verkefnum.
Ég óska eftir stuðningi þínum í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Ásgeir Sveinsson

Tilboð! Afsláttur! Lækkun!

Óskar Guðmundsson

Óskar Guðmundsson

Við lifum góðæristíma.
Góðærinu er þó misskipt og lítt fer fyrir því að lagt sé í félagsleg verkefni þegar svo vel árar.
Okkur er þess í stað tjáð að fram undan sé svo bjart að við eigum að fá „lækkun“ en ekki það sem raunin er … „afsláttur“ af hækkun.
Hér er viðtekna módelið að ef ég boða 20% hækkun en hækka svo „bara“ um 10% hafi ég lækkað eitthvað um 10%, jafnvel 50%. Til að koma þessu á skiljanlegt form getur verið gott að fjarlægja „%“ og setja í staðin orðið „hnefahögg“.
Mosfellsbær hefur undanfarin misseri grætt vel á að geta selt lóðir meðan að þéttingastefna Reykjavíkurborgar hefur keyrt lóðaverð á SV-horninu uppúr öllu valdi. Uppkeyrt lóðaverð og uppkeyrt íbúðaverð kemur með uppkeyrð fasteignagjöld hvers grunnur skapar nú rými fyrir „tilboð, afslátt, lækkun“.
Hér í bæ er verið að taka fullan þátt í því sem hefur hækkað húsnæði hvað mest á landsvísu og haldið uppi verðbólgu á tímum sem hefðu átt að vera tímar eðlilegrar verðhjöðnunar. Skortstefna lóða hefur gríðarleg áhrif enda hefur verð lóða farið á einum áratug úr því að vera 5-6% byggingakostnaðar og upp í 25%. Fjármögnunarkostnaður lóða er hærri en fasteigna og eru áhrifin á verðmyndun íbúða því enn meiri. N.B. að svo virðist vera að bæta eigi við innviðagjaldi til að hækka lóðaverð verulega í viðbót og koma lóðaverðinu í 30-33% byggingakostnaðar og þar með 35-40% endanlegs verðs.
Raunin er að við gjaldendur og nýir Mosfellingar hefðu grætt mest á því að lóðir/íbúðir hefðu verið ódýrari og hækkun íbúðaverðs sem og fasteignagjalda þá minni, verðbólga minni, kaupmáttur meiri.
Ekki verður séð að stefnan hafi breyst m.v. að þær 105 íbúðir sem rísa munu við Háholt/Bjarkarholt verða ekki á vegum félags án hagnaðarsjónarmiða líkt og Bjargs íbúðafélags heldur þvert í hina áttina enda verða íbúðirnar á vegum eins þess aðila sem borið hefur uppi verðbólgu síðastliðinna ára með gegndarlausum hækkunum á leiguverði.
Það að „fleyta rjómann“ með slíkum hætti er mjög hættulegt þar sem slíkt kerfi gerir ekki ráð fyrir stöðnun, hvað þá niðursveiflu en þegar að slíkar koma þarf oftar en ekki að grípa niðurskurðarhnífinn og beita á stærsta kostnaðarliðinn … skólana.
Endanlega eru sveitarfélögin á villigötum. Þau hafa tekið við verkefnum frá ríkinu án nauðsynlegs fjármagns eða að ríkið hefur breytt eða aukið kröfurnar eftir á svo að sveitin þarf nú að leita auka fjármögnunar. Útsvar er á flestum stöðum í botni og þá aðeins eitt til ráða … eignasala.
Mest fæst fyrir það sem takmarkað framboð er af og hafa sveitarfélögin því mörg hver valdið lóðaskorti, keyrt upp verðið en um leið íbúðaverð og verðbólgu. Nákvæmlega þetta er það sem veldur því að hér vex nú úr grasi kynslóð sem verður bráð gamma enda munu þau aldrei geta fjármagnað eigin íbúðakaup enda hækkar verðið hraðar og meira en sparnaðurinn.

Óskar Guðmundsson
Greinarhöfundur er formaður
Framsóknarfélags Mosfellsbæjar

Kjósum menningu

Davíð Ólafsson

Davíð Ólafsson

Einu sinni spjallaði ég við forstjóra Villeroy & Boch eftir tónleika sem ég söng á í Þýskalandi. Ég spurði af hverju þeir væru að styrkja tónleika í svona litlu bæjarfélagi.
Svarið var einfalt: „Til að fá hæft fólk til starfa verðum við að halda uppi öflugu menningarlífi á svæðinu. Enginn vill búa þar sem ekkert er um að vera.‘‘
Ég býð mig fram í 3.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ. Ég hef starfað við tónlist og skipulagningu menningarlegra viðburða í 15 ár. Í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þarf að vera öflugur fulltrúi menningar og menntamála.
Ég mun standa vörð um það góða starf sem hér hefur verið unnið og efla það á allan hátt fái ég umboð til þess. Ég treysti á ykkar stuðning.

Davíð Ólafsson

Konur hafa líka skoðanir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Undirbúningur sjálfstæðismanna til sveitarstjórnarkosninga í vor er nú í fullum gangi. Margir einstaklingar með ólíka sýn á bæjarmálum gefa kost á sér sem mér finnst mjög jákvætt því það leiðir til fjölbreyttra hugmynda um hvernig hægt sé að gera Mosfellsbæ betri bæ til að búa í, þótt gott sé að búa þar í dag og óvíða betra.

Ég hef alltaf haft áhuga á bæjarmálum en aldrei fundist rétti tíminn eða þorað að hella mér í framboð því ég hélt að ég hefði ekki nægjanlega reynslu til að stíga skrefið til fulls sem er svo oft með okkur konur. Við erum oft sjálfar duglegastar að draga úr okkur kjarkinn og höldum að við séum ekki nægilega hæfar.
Við þurfum ekki að kunna allt eða hafa þekkingu á öllu til að taka áskorunum heldur lærum við af öðrum reynsluboltum sem hafa starfað á þessum vettvangi. Mér finnst að við konur ættum að vera duglegri að ögra okkur sjálfum og sýna hver annarri meiri stuðning í daglegu lífi hvort sem það er innan veggja heimilisins, í vinnu eða komandi kosningum.

Við getum gert bæinn okkar enn betri, bæ sem fólk vill búa í til frambúðar og það er svo sannarlega gott að búa í Mosfellsbæ. Hér er frábært að ala upp börnin sín og einnig fyrir börn að alast upp fullyrðir dreifbýlistúttan ég, Kristín Ýr, sem naut þess að alast upp í litlu þorpi út á landi.
Mér finnst Mosfellsbær einmitt vera eins og lítill bær út á landi, stutt er í náttúruna, frábærar gönguleiðir, frábært íþróttastarf fyrir alla og nánd við nágrannana.
Nú hvet ég allar konur að velta þessum hlutum fyrir sér, skrá sig í flokkinn og flykkjast á kjörstað og sýna í verki að við konur getum líka gert gagn þó svo að ég sé ekki að gera lítið úr karlmönnunum sem starfa í bæjarmálunum hér.

Það er mín skoðun að konur ættu að fá meira vægi í stjórnmálum almennt. Ég tók ákvörðun fyrir þremur árum að ég ætla aldrei að hallmæla öðrum konum, ég ætla að ögra sjálfri mér, hafa þor til að taka ákvarðanir, þor til framkvæmda, kynnast nýju fólki og taka fólki eins og það er og mynda mér skoðanir um fólk þegar ég hef kynnst því en halda samt sem áður áfram að vera ég sjálf.
Ég er nefnilega mamma, eiginkona, vinkona og mig langar að geta gert gagn í bæjarmálum hér í Mosfellsbæ.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir.
Sækist eftir 5.-9. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Rúnar Bragi í 4. sætið

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í vor eru átta ár liðin síðan ég ákvað að gefa kost á mér í fyrsta skipti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þegar ég tók þessa ákvörðun var það ekki vegna þessa að ég hafði einhvern sérstakan áhuga á pólítik heldur langaði mig að láta gott af mér leiða og um leið leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið okkar.

Á þessum tæpum átta árum hef ég verið afar lánsamur að fá tækifæri til að starfa með mörgum af þeim frábæru starfsmönnum sem starfa hjá Mosfellsbæ og fulltrúum allra flokka sem setið hafa þessi tvö kjörtímabil. Hefur sú reynsla og tími reynst mér afar afar dýrmætur og lærdómsríkur.
Ég hef verið varabæjarfulltrúi sl. tvö kjörtímabil sem hefur gefið mér aukið innsæi og þekkingu í öll þau stóru mál sem þarf að vinna og fram undan eru. Ég tel að með reynslu minni á þessum tíma sé ég tilbúinn að taka næsta skref og láta verkin tala enn frekar.
Til að það geti orðið að veruleika þarf ég á þínum stuðning að halda og bið ég því þig um að kjósa mig í 4. sætið í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fer fram 10. febrúar nk.

Rúnar Bragi Guðlaugsson, varabæjarfulltúi.

Ég er stoltur Mosfellingur

Sturla Sær Erlendsson

Sturla Sær Erlendsson

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Í dag er ég varabæjarfulltrúi og varaformaður þróunar- og ferðamálanefndar sem hefur verið frábær reynsla.
Fyrir 4 árum var ég ekki viss um hvort stjórnmál væru fyrir mig, en eftir að hafa tekið þátt hefur áhuginn vaxið og því ákvað ég að halda áfram. Margir spyrja fyrir hvað ég standi og hverju ég ætla að vinna að í bæjarstjórn. Þar sem ég er tuttugu og þriggja ára myndu einhverjir segja að ég væri fulltrúi unga fólksins í hópnum, en án gríns þá er fátt sem ég hef ekki áhuga á.
Ég er stoltur Mosfellingur og hef alveg ólæknandi áhuga á því sem er að gerast í bænum mínum. Það er ánægjulegt hvað Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn eins og Gallup kannanir hafa sýnt. Það vil ég að verði áfram. Mosfellsbær er bærinn minn og sá staður sem ég vil búa með minni fjölskyldu og veit ég að margir jafnaldrar mínir eru mér sammála.
Ég hvet Mosfellinga til að taka þátt í prófkjörinu sem fram fer 10. febrúar og óska eftir stuðningi í 4.-6. sæti.

Sturla Sær Erlendsson

Áframhaldandi árangur

Hafsteinn Pálsson

Hafsteinn Pálsson

Mosfellsbær er ört vaxandi bæjarfélag og hér er gott að búa. Ég hef haft mikla ánægju af virkri þátttöku í bæjarlífinu sem bæjarfulltrúi og eiga skoðanaskipti við bæjarbúa. Ég hef sinnt þessu starfi af áhuga og alúð og býð mig fram til áframhaldandi góðra verka fyrir bæjarfélagið.

Áherslur
Það er mikilvægt að þjónusta bæjarins haldist í hendur við þá miklu fjölgun bæjarbúa sem átt hefur sér stað og allt bendir til að eigi sér stað á næstu árum. Þjónusta við barnafjölskyldur og sífellt stækkandi hóp eldri Mosfellinga er mikilvægur hluti af starfsemi bæjarfélagsins og gerir það eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ.
Áherslur mínar eru að efla og styrkja það framsækna samfélag sem við höfum búið okkur hér í bænum. Mér er umhugað um að bæjarfélagið sé fjölskylduvænt og þá bæði umhverfið og sú þjónusta sem er veitt með virðingu fyrir þörfum allra aldurshópa.
Áhugasviðin eru fræðslumál, skipulagsmál, íþrótta- og æskulýðsmál og sú grunnþjónusta sem veita þarf af umhyggju í fjölskylduvænu umhverfi.

Reynsla
Ég er formaður bæjarráðs og hef áður á kjörtímabilinu meðal annars verið forseti bæjarstjórnar og formaður fræðslunefndar. Áður gengdi ég m.a. formennsku í íþrótta- og tómstundanefnd.
Samstarf við bæjarfulltrúa, nefndarmenn, starfsmenn bæjarins og ekki síst við bæjarstjóra hefur verið ánægjulegt. Sá stöðugleiki sem ríkt hefur við stjórn bæjarins og samstarf við bæjarbúa hefur verið bænum farsælt. Ég tel mikilvægt að haldið sé áfram á sömu braut með þátttöku reynslumikils fólks við stjórnun bæjarins.

3. sæti
Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn og sækist eftir 3. sæti á listanum. Ég býð mig fram með mína reynslu og á sömu forsendum og áður að leggja góðum málum lið.
Sjálfstæðismenn veljum reynslu og stöðugleika til farsældar fyrir bæjarfélagið.

Hafsteinn Pálsson
formaður bæjarráðs

Um áramót

Fireworks display on 4th of July. Fireworks display on dark sky background. Independence Day, 4th of July, Fourth of July or New Year.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Kæru Mosfellingar!

Við áramót er okkur tamt að taka stöðuna, leggja mat á það sem gerðist á liðnu ári um leið og við horfum fram á veginn. Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg og hvernig blasir framtíðin við okkur?
Árið 2017 var gott ár fyrir marga. Mikil hagsæld hefur ríkt í okkar góða landi undanfarin ár sem skilað hefur sér til þjóðarinnar með meiri velmegun og auknum kaupmætti. Það mátti lesa í fjölmiðli um daginn að yfir stæði fordæmalaust góðæri og laun hefðu aldrei verið hærri. Þótt líklegt megi teljast að við séum nú á toppi hagsveiflunnar, er útlitið til næstu ára samt sem áður bjart. Áfram er spáð vexti í hagkerfinu, fjölgun ferðamanna, góðri stöðu fiskistofna og tryggri afkomu þjóðarbúsins.
Töluvert umrót var í landsmálapólitíkinni á sl. ári. Ríkisstjórnin sprakk eftir stutta setu og kosningar fóru fram. Niðurstaðan leiddi til myndunar nýrrar ríkisstjórnar með mjög breiða pólitíska skírskotun þar sem Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Í Mosfellsbæ hafa Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn myndað meirihluta í bæjarstjórn frá árinu 2006 þrátt fyrir að annar þessara flokka hafi lengst af haft nægan styrk í bæjarstjórn til að vera einn í meirihluta. Þetta samstarf hægri og vinstri flokks hefur gefist afar vel í Mosfellsbæ enda hefur ríkt traust og trúnaður milli aðila. Nú má segja að „Mosfellsbæjarmódelið“ hafi verið tekið upp í landsmálunum og ég hef þá trú að þessi nýja ríkisstjórn eigi eftir að reynast þjóðinni vel og geti haldið áfram þeim góðu verkum sem hafa verið í gangi.
Fyrir Mosfellsbæ var árið gott og ánægja ríkti meðal íbúanna með bæinn sinn samkvæmt könnunum. Mig langar sérstaklega að nefna eitt verkefni sem efnt var til á árinu en það er lýðræðisverkefnið „Okkar Mosó“. Það verkefni tókst einstaklega vel og var þátttaka íbúa mikil sem leiddi til margra góðra verka sem íbúar óskuðu eftir að hrint yrði í framkvæmd. Ljóst er að framhald verður á verkefnum sem þessum.

Mikil íbúafjölgun í Mosfellsbæ
Mjög mikil íbúafjölgun varð í Mosfellsbæ eða um 8% á árinu 2017. Segja má að hér sé um fordæmalausa fjölgun að ræða. Mestu munar um nýju hverfin okkar Leirvogstungu og Helgafellshverfi og er fjölbýlishluti þess hverfis nú að verða fullbyggður. Töluvert er þó eftir af sérbýlishluta Helgafellshverfis en fullbyggt munu um 3.000 íbúar búa þar. Þessu til viðbótar eru að fara af stað verkefni í miðbænum sem felur í sér um 250 nýjar íbúðir við Bjarkarholt, Háholt og Þverholt ásamt verslunarhúsnæði. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann mun samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og menningu ýmis konar.
Svona mikil uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Helgafellsskóli er nú í byggingu og er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi hans verði tekinn í notkun í upphafi árs 2019. Önnur stór framkvæmd sem ráðist verður í á árinu 2018 er bygging knatthúss að Varmá. Húsið verður byggt þar sem eldri gervigrasvöllur er nú og verður um 3.800 fm að stærð. Auk knattspyrnuvallar verður í húsinu hlaupabraut ásamt göngubraut, áhorfendaaðstöðu og snyrtiaðstöðu. Húsið verður án alls efa bylting fyrir íþróttafólk, sérstaklega knattspyrnu, í Mosfellsbæ. Með húsinu verður til góð æfingaaðstaða allan ársins hring.
Áfram verður haldið með atvinnuuppbyggingu í bænum. Lóðum verður fjölgað í Desjamýri og uppbygging þar komin vel á veg. Gerður hefur verið samningur um uppbyggingu á lóðum við Sunnukrika sem er hluti af miðsvæði bæjarins. Þar hefur þremur af fjórum lóðum á svæðinu verið úthlutað þar sem reisa á skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, aðstöðu fyrir ferðaþjónustuaðila og í skoðun er að þar verði einnig 4-5 stjörnu hótel með veitingastað. Uppbygging á Leirvogstungumelum er hafin en þar hefur landeigandi selt lóðir undir atvinnustarfssemi. Þetta eru allt saman góðar fréttir fyrir Mosfellsbæ sem mun auka atvinnutækifæri í bænum sem og tekjur bæjarsjóðs sem hægt er að nota til að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.

Álögur lækka og þjónusta efld
Samkvæmt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 munu skattar og gjöld lækka jafnframt því að þjónusta við íbúana verður efld. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir rúmlega 300 mkr. afgangi af rekstri bæjarsjóðs á árinu. Aukin hagsæld, fjölgun íbúa ásamt traustum rekstri gerir það að verkum að svona er hægt að standa að málum hjá Mosfellsbæ.
Meðal þess sem fjárhagsáætlunin inniheldur má nefna:
Þjónusta við börn og unglinga aukin. Áfram verður unnið að því að auka þjónustu við 12-18 mánaða börn og plássum fjölgað um 20 á þeim ungbarnadeildum sem stofnaðar hafa verið. Frístundaávísun mun hækka um 54% og fara í 50 þúsund kr. og gjaldskrár leikskóla miðast við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða. Jafnframt var ákveðið að almennt gjald í leikskóla lækki um 5% frá áramótum. Þá verður unnið að verkefnum til að skapa enn betri aðstöðu í leik- og grunnskólum m.a. með því að efla tölvukost og aðrar umbætur með verulegum fjármunum á árinu 2018.

Álögur á einstaklinga og fyrirtæki lækka. Álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds lækka um 11% og lækkar kostnaður íbúa og af fasteignum sem því nemur auk þess sem lækkun fráveitu- og vatnsgjalds hefur áhrif til lækkunar fyrir fyrirtæki í bænum. Þá verða ekki almennar hækkanir á gjaldskrám fyrir þá þjónustu sem bærinn veitir og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára þriðja árið í röð. Framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri eldri borgara hækka um 50% milli ára. Loks mun verð á heitu vatni lækka um 5% þann 1. janúar 2018.
Með þessu er tryggt að allir muni með einhverjum hætti njóta góðs af bættu rekstrarumhverfi sveitarfélagsins.
Í vor verður kosið til sveitarstjórna og þá munu landsmenn ganga að kjörborðinu og kjósa fulltrúa í bæjarstjórnir. Ég vænti þess að við Mosfellingar munum sýna lýðræðisvitund okkar í verki og flykkjast á kjörstað síðasta laugardag í maí.
Mosfellsbær fagnaði 30 ára kaupstaðarafmæli þann 9. ágúst sl. Haldið var veglega upp á afmælið og komu m.a. forsetahjónin í vel heppnaða opinbera heimsókn í bæinn okkar. Hátíðarhöldin enduðu síðan með glæsilegri bæjarhátíð „Í túninu heima“ síðustu helgina í ágúst.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2017 og megi árið 2018 verða okkur gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson,
bæjarstjóri

Skólarnir skipta öllu

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Skólar í hverjum bæ eru mikilvægir í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Skólarnir eru hjartað í hverju hverfi og hverjum bæ. Þetta skrifa ég ekki bara vegna þess að það eru kosningar í vor heldur af reynslu minni sem kennari og foreldri.
Það er fátt sem skiptir fjölskyldur meira máli en að allt gangi vel í skólanum. Að allir fari glaðir af stað á morgnana og komi glaðir heim. Ef upp kemur vandi þá spilar kennarinn stórt hlutverk. Það þekki ég líka af eigin raun sem foreldri og þá er mikilvægt að vera í góðum tengslum við skólann. Þannig leysast málin.

Erum að uppskera – Aðstaðan bætt
Á undanförnum árum hefur orðið fordæmalaus fjölgun í bænum og nemendum fjölgað í skólunum. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir að þjónusta í fræðslu- og frístundamálum verði efld samhliða stækkun bæjarfélagsins.
Árin í kringum hrun voru sveitarfélögum erfið en hér í Mosfellsbæ var vel haldið utan um reksturinn og erum við loks að uppskera. Mikilvægt var að fara strax í að bæta aðstöðu í skólum bæjarins bæði í leik- grunn- og listaskóla. Nefna má aukið fjármagn sem fer í að bæta tölvukost og gera fleiri umbætur sem kallað hefur verið eftir m.a. í Vegvísi sem unnin var af rýnihópi kennaranna.
Vegvísir þessi er umbótaáætlun sveitarfélagsins sem er byggð á gögnum úr rýnihópum allra þriggja grunnskólanna. Segja má að vinnan við Vegvísi hafi skilað Mosfellsbæ góðri greiningu á stöðu grunnskólanna þegar kemur að vinnuumhverfi kennara. Nánast allir kennarar í sveitarfélaginu áttu rödd í rýnivinnunni og komu sínum úrbótahugmyndum á framfæri. Þeim hugmyndum var síðan forgangsraðað af stýrihópnum og þær birtast í umbóta­áætlun skóla og sveitarfélagsins.

Þjónusta við yngri börn
Einnig má nefna að almennt gjald í leikskóla lækkar um 5% nú um áramótum og fjölgar plássum á ungbarnadeildum fyrir 12 – 18 mánaða börn um 20 pláss. Gjaldskrár leikskóla miðast nú við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða sem þýðir að leikskólagjald er greitt fyrir barnið frá 13 mánaða aldri þótt barnið sé hjá dagforeldri eða í leikskóla í Reykjavík sem bærinn hefur gert samning við. Allt skiptir þetta máli fyrir fjölskyldur í bænum.
Í Mosfellsbæ er öflugt fræðslu- og frístundastarf sem gerir bæjarfélagið fjölskylduvænt og eftirsóknarvert til búsetu. Fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundasviðs er umfangsmikil og innan hennar eru meðal annars allir leik- og grunnskólar bæjarins, Listaskóli, frístundasel, félagsmiðstöð, ungmennahús, dagforeldrar, vinnuskóli, íþrótta- og tómstundaskóli, íþróttamiðstöðvar, skólaþjónusta og skólaakstur.

Nýr Helgafellsskóli
Að lokum má nefna byggingu nýs leik– og grunnskóla sem er nú byrjað að reisa í Helgafellshverfinu. Undirbúningur skólans hófst í febrúar 2014 þegar ákveðið var hvernig uppbyggingu skólamannvirkja í Mosfellsbæ skyldi háttað á næstu árum. Þar er áætlað að daglegt starf eigi að miðlast í gegnum leik og sköpun.
Með tilkomu Helgafellsskóla mun umhverfi skólanna verða enn betra og rýmra ætti að vera um hvern nemanda. Það eru bjartir tímar fram undan í Mosfellsbæ og fókusinn algjörlega á að bæta þjónustu við viðkvæmustu hópana. Fræðslumálin verða ávallt í forgangi í Mosfellsbæ.
Með ósk um gleðilegt ár.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Formaður fræðslunefndar

Dreymir Mos-Sjalla Dag(s)drauma?

óskarguðmundsson

Þegar líður að kosningum verður eitt aðal umræðuefni kaffistofa og annarra starfsmannasvæða hin alræmda forgangsröðun.
Almennt er talið mikilvægast að menntun, tómstundir og laun gangi fyrir en nú virðist þó svo vera að Mosfellsbæ sé mikilvægast að taka þátt í samgönguverkefni sem enginn getur með neinni vissu sagt fyrir hvað muni kosta. Þetta er svokölluð Borgar-lína sem margir fremur kalla Dag(s)drauma.
Falleg lausreimuð plön ganga út á 1,1 til 1,15 milljarða á km og þannig 63 til 70 ma. Þrátt fyrir það kemur fram í skýrslu Reykjavíkurborgar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) „Borgarlína, hlutverk, hvað, hvar hvernig“ að fyrstu 18 km muni kosta 30-65 ma. (bls. 30 í skýrslunni). Hinir 39 km hljóta þá að vera nánast fríir, jafnvel borga með sér.
Raunhæfara væri að taka meðaltal af útgildum fyrstu 18 km og ætla þá að hver km kosti 2,64 ma. og 57 km verkefnið þá um 150,4 ma.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð.
„Planið“ gengur nefnilega út á að hækka notkun almenningssamgangna úr 4% í 12% auk þess að minnka bílaumferð um 75>58%. Slíkt er vart raunhæft m.v. að notkun almenningssamgangna hefur aðeins einu sinni skriðið yfir 4% og það var á fyrstu mánuðunum eftir Hrun sem notkunin slefaði í 5%.
Hvert 1% sem upp á 12% notkun vantar kostar um hálfan milljarð á ári í „töpuð fargjöld“ og þar af Mosfellsbæ allt að 20 milljónir á ári á hvert 1% sem geta verið allt að 6.
Til 2040, áætlaðra verkloka, myndi slíkt teljast til 66 milljarða á gengi dagsins í dag hvar alls gætu fallið á Mosfellsbæ 2,7 milljarðar.
150 milljarða framkvæmd, 25 ma. frá ríkinu, 66 milljarða reikningsskekkja, 4,1% hlutur Mosfellsbæjar (hlutfall af rekstri Strætó).
125 + 66 = 191 x 0,041 = 7,83 milljarðar.
Það allra skrýtnasta er þó ekki nefnt. Forsendur Borgarlínu eru nefnilega að horfið sé frá nokkrum framkvæmdum mislægra gatnamóta. Þar m.a. er horfið frá mislægum gatnamótum Vesturlandsvegar og Korpúlfsstaðabrautar. Nákvæmlega þau gatnamót eru ein af forsendunum fyrir því að Mosfellsbær geti tengst Borgarlínu beint.
Einu gleyma allir aðilar. Það er stefna Reykjavíkurborgar að eyðileggja flugvöllinn í Vatnsmýri. Þarf þá Borgarlína ekki að ná a.m.k. í vallarstæði nýrra plana í Hvassahrauni? Ef svo er hækkar kostnaðurinn um 10% hið minnsta.
Hluti Mosfellsbæjar þá 8,6 milljarðar. 8 þúsund og sex hundruð milljónir. Um 850 þúsund á hvern einstakling í bænum. 3,44 milljónir á vísitölufjölskylduna.
Helmingur fjárútláta er 2018-2022 eða allt að 4,3 milljarðar. Slíkt er um 20% ætlaðra útsvars- og fasteignaskatttekna kjörtímabilið 2018-2022. Að láni á 5% vöxtum er afborgunin 215 milljónir á ári.
Það er því til lítils að ætla að prumpa út milljónum í kosningaloforð 2018 um „lækkanir“ ef að skuldir bæjarins hækka um meira um meira en sem þeim nemur vegna dag(s)draumaverkefna.

Óskar Guðmundsson
Greinarhöfundur er formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar.

Frístundaávísanir hækka og kosið um íþróttafólk

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í Mosfellsbæ býr mikið af hæfileikaríku fólki sem stundar sínar íþróttir og tómstundir af fullum krafti. Sumir með það að markmiði að skara fram úr og ná langt, og aðrir jafnvel bara til að vera með og hafa gaman af.

Frístundaávísun hækkar um 54%
Mosfellsbær styrkir frístundaiðkun allra barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í Mosfellsbæ með fjárframlagi á móti kostnaði við frístundaiðkun. Markmið þessarar niðurgreiðslu er að hvetja börn og unglinga til að finna sér frístund sem hentar hverjum og einum.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í lok síðasta árs þá samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar að hækka frístundaávísun í kr. 50.000 á barn eða um 54% frá því sem áður var. Nú fá allir kr. 50.000 og fellur þá afslátturinn út sem áður var gefin fyrir annað og þriðja barn o.s.frv.

Markmiðið að nýtingin verði 100%
Við í íþrótta- og tómstundanefnd settum okkur það að markmiði að allir sem eiga rétt á, skyldu nýta sér frístundaávísunina og helst vildum við komast í 100% nýtingu á frístundaávísuninni. Í gegnum árin höfum við verið með á bilinu 70–80% nýtingu.
Einhverra hluta vegna er eins og fólk gleymi að sækja um eða sumir sem halda að ávísunin nýtist ekki af því að íþróttin eða tómstundin er stunduð í öðru bæjarfélagi. Ég vil hvetja alla foreldra barna á aldrinum 6-18 ára að kynna sér betur hvernig hægt er að nýta sér frístundaávísunina.
Styrkurinn er afhentur í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar og geta foreldrar og forráðamenn því með rafrænum hætti greitt fyrir frístundaiðkun barna sinna. Tímabil styrkveitingar hefst 15. ágúst ár hvert til 31. maí árið eftir.

Íþróttakarl og -kona Mosfellsbæjar
Íþróttakarl og íþróttakona Mosfellsbæjar verða gerð kunn fimmtudaginn 18. janúar í íþróttahúsinu að Varmá, og hefst athöfnin kl. 19:00. Við sama tilefni verða ungum íþróttamönnum bæjarins sem orðið hafa Íslands-, deildar-, bikar- eða landsmótsmeistarar 2017 veittar viðurkenningar ásamt þeim sem hafa tekið þátt í og/eða æft með landsliði á liðnu ári.
Hvet ég alla til að mæta og heiðra okkar frábæra íþróttafólk með nærveru sinni nk. fimmtudag, en það er okkar íþróttafólki mikill heiður og áskorun að fá viðurkenningar sem þessar, og um leið ein besta forvörnin. Einnig vil ég hvetja alla til að taka þátt í kosningunni sem er á íbúagáttinni á www.mos.is

Rúnar Bragi Guðlaugsson
Formaður Íþrótta- og tómstunda­nefndar Mosfellsbæjar

Hver er framtíðin í flokkun á sorpi?

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Nú þegar árið 2018 er gengið í garð er verið að brýna fyrir öllum að minnka plastnotkun inn á heimilum.
Minn draumur er sá að Mosfellsbær fari alla leið í flokkun á sorpi því þetta er jú það sem koma skal og ekki mun umfang sorps minnka miðað við að íbúum bæjarins fjölgar, sem og íbúum landsins alls.

Kröfur hafa verið að aukast um flokkun almennt og þurfum við að gera enn betur í þessum málum, við gætum byrjað að flokka allt sorp, plast og allan lífrænan úrgang, einnig allt gler ásamt öðru endurvinnanlegu sorpi. Við ættum að taka til fyrirmyndar önnur bæjarfélög sem hafa stigið þetta skref til fulls og kynna okkur hvernig þau haga flokkuninni og fengið upplýsingar um hverjir séu helstu kostirnir við flokkun. Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið, nýtum okkur frekar reynslu og þekkingu í þessum málum hjá öðrum sveitarfélögum.

Mosfellsbær er nú þegar byrjaður að huga að aukinni sorpflokkun með því að hafa tvær sorptunnur við hvert hús, gráa fyrir almennt sorp og bláa fyrir pappírsúrgang svo sem tímarit, fernur, eggjabakka og bylgjupappa. Grenndargámar eru á nokkrum stöðum hér í Mosfellsbæ sem hægt er að nýta. Ég hvet svo alla hér í Mosfellsbæ að flokka.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir.
Sækist eftir 5.-9. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Litið yfir heilsuárið 2017

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Árið var sérstaklega tileinkað lífsgæðum þar sem horft var til allra áhersluþátta heilsueflandi samfélags, þ.e. næringar og matar­æðis, hreyfingar og útivistar auk geðræktar og vellíðunar.

Gulrótin 2017
Heilsudagurinn var haldinn í júní sl. og hófst að venju með hressandi morgungöngu á Mosfell í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Einnig var blásið til glæsilegs málþings í FMOS þar við heyrðum m.a. af mörgum flottum verkefnum í skólum bæjarins, skyggðumst á bak við tjöldin á EM með Þorgrími Þráinssyni og urðum margs vísari um mikilvægi einstaklingsins í sterkri liðsheild.
Síðast en ekki síst var Gulrótin, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, afhent í fyrsta sinn. Verðlaunahafinn að þessu sinni var Svava Ýr Baldvinsdóttir, íþróttakennari, en hún hefur í áratugi eflt lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ.

Stekkjarflöt og strandblakvöllur
Þetta skemmtilega útivistarsvæði okkar Mosfellinga hefur heldur betur fengið andlitslyftingu og er sannkölluð útivistarparadís fyrir fjölskylduna. Í þessu fallega umhverfi er að finna skemmtileg leiktæki, grill og nýjasta viðbótin er strandblakvöllur sem hefur notið mikilla vinsælla. Við hvetjum alla til að koma út að leika og nýta það sem þetta frábæra svæði hefur upp á að bjóða.

Hreyfivika UMFÍ
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og síðustu ár og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg, mun fleiri stóðu fyrir viðburðum og þátttakan hefur aldrei verið betri. Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra að ári.

Upplýst börn
Í haust gáfu Heilsuvin og Mosfellsbær í samvinnu við TM öllum nemendum í 1. og 2. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar endurskinsvesti til eignar. Vestin voru afhent í tengslum við verkefnið Göngum í skólann og eru mikilvægur liður í öryggismálum yngstu grunnskólanemendanna sem eru að byrja að ganga, hjóla eða ferðast á annan virkan hátt í skólann.

Lýðheilsugöngur FÍ
Ferðafélag Íslands stóð fyrir Lýðheilsugöngum á landsvísu alla miðvikudaga í september og gengið var á tveimur stöðum í Mosfellsbæ undir leiðsögn heimamanna, úr Álafosskvos og upp á Úlfarsfell úr Hamrahlíðarskóginum.
Óhætt er að segja að Mosfellingar hafi hafi tekið þessu framtaki vel og fór þátttaka fram úr björtustu vonum enda margir göngugarpar í heilsubænum Mosfellsbæ.

Þetta er eingöngu hluti af því sem var gert á árinu og við hlökkum til þess sem árið 2018 ber í skauti sér. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja og óskum ykkur heilbrigði og gleði á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Höldum áfram á réttri leið

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Í lok nóvember síðastliðins var samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2018-2021.
Við lestur og greiningu hennar kemur í ljós að fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst verulega á undanförnum árum, skuldir hafa lækkað og tekjur aukast.
Það er mjög ánægjuleg staðreynd og ljóst að meirihluti bæjarstjórnar, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og starfsmenn bæjarins hafa verið og eru að vinna gott starf í þeim fjölmörgu verkefnum og málaflokkum sem tilheyra rekstri á bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ.
Sökum batnandi fjárhagsstöðu er hægt að auka framlög til ýmissa mikilvægra verkefna bæjarins á næsta ári auk þess að létta skattaálögum á bæjarbúa og er það vel.

Ánægja meðal Mosfellinga
Í Mosfellsbæ er gott að búa og sýna kannanir að íbúar Mosfellsbæjar eru ánægðastir með bæinn sinn þegar mælt er viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Það eru væntanlega margir þættir sem eiga þátt í þessari ánægju íbúa Mosfellsbæjar og mikilvægt fyrir bæjaryfirvöld að halda áfram á sömu braut, hlusta áfram á íbúana og leggja kapp á að auka enn frekar lífsgæði Mosfellinga.
Þessar kannanir vekja athygli og útkoma þeirra á eflaust þátt í því að ungt fjölskyldufólk velur í miklum mæli að flytja í bæinn og er það ánægjuleg þróun.

Ört stækkandi bæjarfélag
Mikil fjölgun bæjarbúa undanfarin misseri og á komandi árum er á sama tíma mjög krefjandi verkefni fyrir bæjaryfirvöld. Mikill og hraður vöxtur á fjölda íbúa kallar á miklar framkvæmdir sem þarf að vinna hratt og vel í að koma í framkvæmd. Hér má nefna skólamál, leikskólamál, íþróttaaðstöðu og umhverfismál, svo eitthvað sé nefnt.
Mosfellsbær er í fararbroddi á landinu sem heilsueflandi bær. Þessi heilsumiðaða stefna bæjaryfirvalda hefur aldrei verið mikilvægari en nú.
Það forvarnarstarf fyrir börn, unglinga og fullorðna sem unnið er í skólum, íþróttafélögum og á fleiri stöðum í bænum er ómetanlegt og oft á tíðum vanmetið.
Þessi málefni eru reyndar ofarlega á forgangslista bæjaryfirvalda eins og kemur fram í fjárhagsáætlun, en betur má ef duga skal.
Það er því, að mínu mati, verkefni næstu missera að bæta enn meira fjármagni í þessa málaflokka, bæta verulega íþróttaaðstöðu í bænum, efla enn frekar aðstöðu, tækjakost o. fl. í skólum og leikskólum bæjarins ásamt fleiri þáttum í grunnþjónustu okkar ört stækkandi bæjarfélags.

Spennandi verkefni framundan
Umhverfismál skipta okkur Mosfellinga mikill máli og þau málefni þurfa að vera í brennidepli nú sem fyrr samfara stækkun bæjarfélagsins.
Samgöngumál eru mjög stór og mikilvægur málaflokkur og ljóst að breytingar á þeim verða miklar á næstu árum með stöðugt aukinni umferð bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og innanbæjar í Mosfellsbæ.
Það er því ljóst að bæjaryfirvöld þurfa að leggja mikla áherslu á þau mál eins og stendur til að gera, t.d. með mótun umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins.
Fram undan eru mörg spennandi verkefni og miklar framkvæmdir eru á verkefnalista Mosfellsbæjar og því mikilvægt að vel sé haldið á málefnum sveitafélagsins.

Óska eftir stuðningi í 2.-3. sæti
Ég hef ákveðið á að bjóða fram þekkingu mína og reynslu í rekstri, í mannauðs­málum, auk áralangs sjálfboðaliðastarf í íþrótta- og félagsmálum til þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili.
Ég gef kost á mér í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fer fram 10. febrúar 2018. Ég sækist þar með eftir að bætast í öflugan hóp bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, til að vinna með þeim áfram að framförum og bættum lífsgæðum í Mosfellsbæ.
Ég óska Mosfellingum gleðilegra jóla og velgengni í leik og starfi á komandi ári.

Ásgeir Sveinsson,
framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. og formaður Aftureldingar karla í handbolta.