Eftir kosningar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ég leyni því ekki að niðurstöður kosninganna þann 26. maí voru vonbrigði fyrir Samfylkinguna í Mosfellsbæ.
Framboðum fjölgaði til muna í bænum við þessar kosningar frá þeim síðustu og ljóst að mun meiri samkeppni yrði um atkvæðin. Enda kom það á daginn og niðurstaðan varð að Samfylkingin tapaði einum bæjarfulltrúa.
Miklar breytingar verða nú í bæjarstjórn. Í minnihluta á síðasta kjörtímabili voru tveir flokkar en á þessu nýhafna kjörtímabili verða þeir fjórir og hver þeirra með einn fulltrúa. Vinstri græn höfnuðu tilboði þessara flokka um meirihlutaviðræður og töldu sínum áherslum og málefnum best borgið í fangi Sjálfstæðisflokksins líkt og áður sem kom kannski ekki á óvart.
Ásýnd nýrrar bæjarstjórnar verður einnig gjörbreytt því einungis tvær konur munu sitja í níu fulltrúa bæjarstjórn næsta kjörtímabil. Það er sorgleg staða árið 2018 og endurspeglar að stjórnmálaflokkar treysta konum síður til að sitja í oddvitasætum.
Á síðasta kjörtímabili náðum við Ólafur Ingi bæjarfulltrúar S lista góðum árangri og fengum samþykktar margar tillögur um málefni sem flokkurinn hafði sett á oddinn í kosningabaráttunni 2014. Þeim árangri náðum við með málefnalegu starfi og staðfestu. Þrátt fyrir breytta stöðu þá mun ég sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar halda áfram að vinna málefnum okkar jafnaðarmanna framgang innan bæjarstjórnar og nýta til þess málefnalegar leiðir.
Þeim sem ákváðu að treysta Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu þakka ég af heilum hug. Full auðmýktar gagnvart verkefninu lofa ég að gera mitt allra besta til að vinna að áherslum okkar á ábyrgan rekstur, lýðræðislegt samráð og gagnsæi, mannvænt skipulag, jafnrétti, sjálfbærni og umhverfismál með hagsmuni framtíðarkynslóða í huga, að ógleymdri félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda, en allar þessar áherslur miða að því að auka jöfnuð, velsæld og gleði í bænum okkar góða.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar