Betri menntun í blómstrandi bæ

Hildur Björg Bæringsdóttir

Hildur Björg Bæringsdóttir

Í Mosfellsbæ er fjórðungur bæjarbúa á grunnskólaaldri og málefni dagvistunar, skóla og tómstunda því sjálfkrafa í brennidepli hjá stórum hluta bæjarbúa.
Það er okkur hjartans mál að gera betur í skólamálum, tryggja dagvistun og að börnum og starfsfólki líði vel. Það er alveg frábært hvað kennarar og starfsmenn skólanna standa sig vel miðað við þær aðstæður sem þeir hafa.

Viðreisn leggur áherslu á að bjóða börnum bæjarins upp á nútíma tækni og aðbúnað til að geta tekist á við verkefni sín í takt við þann heim sem við búum í. Samkvæmt gögnum Mosfellsbæjar, þá er gert ráð fyrir 40 milljónum króna til upplýsinga- og tæknimála hjá grunnskólum og gert er ráð fyrir eflingu tæknibúnaðar, bættan aðbúnað kennara og nemanda ásamt stuðningi við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum. Núverandi aðbúnaður er óviðunandi og þessar úrbætur því löngu tímabærar og fær bæjarstjórn klapp á bakið fyrir þær. En hér er ansi knappt í lagt. Heildarframlagið reiknast sem 22 þúsund krónur per barn. Allir kennarar eiga að fá fartölvur og í það fer væntalega helmingur upphæðinnar. Restin, 20 milljónir, fer vonandi í börnin en það dugar skammt. Þetta verður að endurskoða og tryggja raunhæft fjármagn í þennan mikilvæga málaflokk.

Fyrsta áfanga Helgafellsskóla lýkur um næstu áramót og þá hefja börn í 1-5. bekk nám þar. Þegar skólinn er fullbúinn er gert ráð fyrir 110 börnum í leikskóla og 600 í grunnskóla í 1-10. bekk. Við verðum að tryggja að fjöldi íbúa í hverfinu stemmi við stærð skólans. Varmárskóli er hannaður sem 600 barna skóli og það eru mörg ár síðan þar voru 600 börn. Nýr Helgafellsskóli léttir vissulega á, en ekki nægilega mikið.

Varmárskóli er löngu sprunginn og það er tímabært að bæjaryfirvöld opni augun og líti til framtíðar. Það er nauðsynlegt að bregðast strax við og leysa bráðvanda Varmárskóla og gera allsherjar úrbætur á skólabyggingunum. Þó ekki væri nema til samræmis við markmið um heilsueflandi samfélag og kröfur um nútíma skólahald. Nemendur Varmárskóla voru 822 skólaárið 2017/2018 og verða 868 nemendur á næsta skólaári. Þessa fjölgun á að leysa með 2 færanlegum kennslustofum. Hverfið í Leirvogstungu heldur áfram að byggjast upp og áður en við vitum af verður húsnæði í Háholti og Þverholti fullbyggt með nýju fólki sem þarf að koma börnum sínum í skóla. Í Leirvogstungu er leikskóli í færanlegum kennslustofum. Ef við byggjum strax varanlegan skóla í Leirvogstungu fyrir börn 1-9 ára, þá myndi það létta mun betur á Varmárskóla og auðvelda vinnu við endurbætur. Hefjast þarf handa strax við að byggja Leirvogstunguskóla.

Það er því ljóst að löngu tímabært er að móta skólastefnu til framtíðar og endurskoða stefnu í uppbyggingu skólamannvirkja í samráði við alla hagsmunaaðila og sem tekur mið af áætlun um íbúafjölda. Verkefnið er ögrandi og við viljum beisla tækifærin sem þessu fylgja og móta saman með íbúum bæjarins metnaðarfullt fræðslu- og tómstundastarf sem tekur mið af þörfum allra íbúanna.

Hildur Björg Bæringsdóttir
4. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ.