Styrkjum beint lýðræði í Mosfellsbæ

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Lýðræði
Lýðræði byggir á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Í lýðræðissamfélagi á valdið sér uppsprettu hjá fólkinu. Í menntastefnu fyrir öll skólastig frá 2011 er lögð áhersla á að borgarar taki lýðræðislega afstöðu til álitaefna, frá siðferðislegum áherslum til ákvarðana um mótun samfélagsins og ráði þannig í sameiningu öllum meiriháttar málum sínum. Í beinu lýðræði eru haldin regluleg íbúaþing um helstu málefni bæjarfélagsins, þar sem íbúar upplifa að þeir geti haft raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku og að hlustað sé á það sem þeir hafa fram að færa. Lykilatriði er að íbúar finni að það sem þeir leggja til skipti máli. Að loknum fundum eru málefnin tekin saman og íbúum gert fært að fylgjast með framvindu mála.

Lýðræðið á undir högg að sækja
Í Mosfellsbæ hefur sú stjórnmálamenning skapast að niðurlægja pólitíska keppinauta. Bæjarstjóri hefur gengið svo langt að setja hömlur á upplýsingagjöf til löglega kjörinna bæjarfulltrúa með því að mæla svo fyrir að allar upplýsingar um ákveðna þætti stjórnsýslunnar sé einungis hægt að sækja í gegnum hann sjálfan. Slík vinnubrögð á ekki að líða. Aðgengi að upplýsingum er ein af grundvallarforsendum lýðræðislegs samfélags.

Í-listinn leggur áherslu á að stjórnmálamenn hlusti á íbúana og ræði allar hliðar mála, hvaðan sem hugmyndirnar koma. Að ákvarðanir séu teknar í samráði og með málamiðlunum þar sem á þarf að halda. Við viljum setja hámarkstíma á setu bæjarfulltrúa í embætti, sem mætti vera tvö til þrjú kjörtímabil. Þannig er mögulegt að koma í veg fyrir að óæskilegar venjur og hagsmunatengsl nái að festa sig í sessi og að endurnýjun verði í öllum flokkum. Við viljum að ópólitískur bæjarstjóri verði ráðinn til að stuðla að meiri fagmennsku og gæta að velferð allra Mosfellinga.

Kjósum gegnsæi og fagmennsku
Í-listinn hvetur til þess að skipulag og fjárhagsáætlanir séu gerðar á ábyrgan og gegnsæjan hátt. Íbúahreyfingin hefur hvatt til opins bókhalds á yfirstandandi kjörtímabili líkt og Píratar hafa unnið að hjá Reykjavíkurborg. Í-listinn fagnar því að bókhald Mosfellbæjar verði loks opið öllum. Aðhald er mikilvægt svo traust og ábyrg fjármálastjórnun eigi sér stað.

Íbúahreyfingin hefur unnið að því gera störf bæjarstjórnar gegnsæ svo sú vinna sé sýnileg borgurum. Að upptökur séu til af fundum og að auðvelt sé að nálgast þær.
Nefndarfundir Mosfellsbæjar eru í dag ekki opnir og því verður að breyta. Þegar trúnaður þarf að ríkja um viðkvæm málefni samkvæmt persónuverndarlögum má gera undantekningar, en aðrar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar.
Fundargerðir allra funda bæjarfélagsins eru mjög stuttar og í þær vantar ítarefni eins og hvernig atkvæði falla. Upptökur af fundum bæjarstjórnar eiga að vera merktar dagskrárliðum og þannig gerðar aðgengilegar á vefsíðu. Í-listinn mun berjast fyrir því að bæta þessa annmarka á vinnubrögðum bæjarstjórnar.

Þann 26. maí næstkomandi þurfa frambjóðendur að endurnýja umboð sitt. Þegar sömu öfl eru við völd of lengi er hætt við stöðnun. Við á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata hvetjum alla bæjarbúa til að horfa langt fram á veginn og hugsa um tækifæri komandi kynslóða. Veljum traust, heiðarleika og gagnsæi.

Kristín Vala Ragnarsdóttir er í 2. sæti
á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ.