Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Ágætu Mosfellingar. Hér á eftir verður greint frá nokkrum stefnumálum V-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fræðslumál
Fræðslumálin eru mjög viðamikill málaflokkur, enda rekur sveitarfélagið bæði leikskóla og grunnskóla bæjarins. Á þessu kjörtímabili hefur Bryndís gegnt varaformennsku í fræðslunefnd en á þeim vettvangi hefur bygging Helgafellsskóla verið stærsta verkefnið.
VG stendur vörð um öflugt skólastarf á öllum vígstöðvum; við viljum að gerð verði áætlun um að eyða biðlistum fyrir tónlistarnám í Listaskóla Mosfellsbæjar, stefna að því skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar og að leikskólagjöld verði felld niður í áföngum.

Íþrótta- og tómstundamál
Blómlegt íþrótta- og tómstundastarf í Mosfellsbæ byggist á náinni samvinnu bæjarfélagsins og frjálsra félagasamtaka. V-listinn vill styrkja þetta samstarf enn frekar og að allri gjaldtöku fyrir íþrótta- og tómstundastarf verði stillt í hóf. Við viljum auka hlut almenningsíþrótta fyrir alla aldurshópa, styrkja félagsstarfið í Bólinu og ungmennahúsi og efla samstarfið við ungmennaráð Mosfellsbæjar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Velferðarmál
Aðgengi allra hópa samfélagsins að lífsins gæðum á að vera tryggt, óháð aldri, heilsu og þjóðerni. V-listinn vill að gerð verði áætlun um að stytta biðlista eftir félagslegum íbúðum og auka framboð á leiguhúsnæði í samvinnu við byggingarfélög þar sem arðsemissjónarmið ræður ekki för. Einnig viljum við stuðla að bestu útfærslunni á heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu.

Jafnréttismál
VG vill standa vörð um jafnrétti kynjanna og uppræta kynbundinn launamun. Einnig viljum við tryggja jafnréttisfræðslu í skólum og fræðslu um kynbundið ofbeldi.

Skipulagsmál – umhverfismál
Umhverfis- og skipulagsmál eru nátengd og skipulag þarf ævinlega að taka mið af umhverfissjónarmiðum. Á þessu kjörtímabili hefur Bjarki verið varaformaður skipulagsnefndar og formaður í umhverfisnefnd þar sem hann hefur beitt sér fyrir mörgum brýnum málum, meðal annars á sviði náttúruverndar.
Undir hans formennsku hefur umhverfisnefnd haldið opna fundi á hverju ári þar sem íbúum hefur gefist kostur að taka þátt í umræðunni. Sá síðasti var í marsmánuði þar sem fjöldi Mosfellinga tók þátt í að vinna að nýrri umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið.

Atvinnumál – ferðamál
VG vill stuðla að fjölbreyttri, sjálfbærri og vistvænni atvinnustarfsemi með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Vinstri-græn vilja huga að vaxtasprotum í atvinnuuppbyggingu og vinna með fyrirtækjum og einstaklingum að uppbyggingu á þessu sviði.
Nábýli Mosfellsbæjar við höfuðborgarsvæðið og Gullna hringinn skapar tækifæri í ferðaþjónustu, við viljum miðla upplýsingum til ferðafólks allan ársins hring.

Menningarmál
Menningarlíf í Mosfellsbæ er gróskumikið og nauðsynleg kjölfesta sem auðgar samfélagið okkar. Vinstri-græn leggja áherslu á að sveitarfélagið styðji myndarlega við bakið á þessari fjölbreyttu starfsemi í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið.
V-listinn lítur á félagsheimilið Hlégarð sem Menningarhús bæjarins með stórum staf og vill taka virkan þátt í stefnumótun um framtíð þessa sögufræga húss.

Fjármál, stjórnsýsla, íbúalýðræði
Traustur fjárhagur sveitarfélaga er forsenda fyrir öllum framkvæmdum og rekstri á vegum þeirra. V-listinn vill sýna áframhaldandi aðhald og hagsýni í rekstri bæjarfélagsins.
Stjórnsýslan á að þjóna almenningi, íbúalýðræði er afar mikilvægt og tryggja þarf bæjarbúum aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku. Hægt er að gera það með ýmsum hætti, til dæmis opnum fundum, skoðanakönnunum og íbúakosningu.

Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason og Bryndís Brynjarsdóttir
skipa 1. og 2. sæti V-listans.