Neikvæð niðurstaða en við erum jákvæð!

Lovísa Jónsdóttir

Í byrjun mánaðarins voru birtar rekstrarniðurstöður bæjarins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Því miður er niðurstaðan sú að bæjarfélagið var rekið með tæplega milljarð í mínus, sem er 500 milljón krónum meiri halli en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarins.

Verðbólgan bítur
Eins og gefur að skilja þá vega verðbætur vegna aukinnar verðbólgu á árinu þyngst í þessari miklu hækkun enda Mosfellsbær með næst hæsta skuldahlutfallið af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 eða 134%, sem í krónum talið þýðir 1.391.595 kr. á íbúa.
Gjaldfærður kostnaður vegna reiknaðra verðbóta af langtímalánum á fyrstu sex mánuðum ársins er 466 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir. Því miður er ekki útlit fyrir annað en að verðbólgan haldist há það sem eftir lifir árs þannig að ljóst er að árið 2022 er þungt í rekstri bæjarfélagsins.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Stór verkefni
Nýr meirihluti, sem tók við þann 1. júní, fékk stór verkefni í vöggugjöf. Þar má til dæmis nefna viðgerðir á Kvíslarskóla. Kostnaður bæjarfélagsins vegna þess verkefnis féll ekki til á fyrstu sex mánuðunum nema að litlu leyti og er því ekki í þessari rekstrarniðurstöðu.
Það er því ljóst að það hefur ekki mikla þýðingu að fara mikinn í aðdraganda kosninga um vel rekið sveitarfélag þegar viðnám þess við stórum verkefnum er ekki meira en raun ber vitni. Við rekstur samfélags, þar sem skylduverkefnin eru mýmörg, er það ein af frumskyldum kjörinna fulltrúa að sýna ábyrgð í meðferð sameiginlegra sjóða samfélagsins. Það verður því að gera raunhæfa áætlun til framtíðar til að bæta stöðuna.

Framtíðarsýnin
Rekstrarniðurstaðan sýnir okkur ótvírætt að sýn meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar um sterka atvinnustefnu fyrir Mosfellsbæ er gríðarlega mikilvæg. Engin slík stefna hefur verið gerð fyrir bæinn þar sem kjörnir fulltrúar í samvinnu við atvinnurekendur í bænum, íbúa og aðra hagaðila draga fram skýra sýn og markmið til framtíðar í málaflokknum.
Möguleikum sveitarfélaga til tekjuöflunar eru takmörk sett af löggjafanum og þess vegna verðum við að nýta öll þau tækifæri sem við höfum. Það er sýn okkar að sterkt atvinnulíf laði fleiri íbúa að bænum og skapi þannig fjölbreytt og blómlegt líf í bæjarfélaginu.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Spennandi tímar
Í málefnasamningi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar er kveðið á um að ný nefnd, Atvinnu- og nýsköpunarnefnd, taki til starfa, nefnd sem mun á kjörtímabilinu vinna markvisst að málaflokknum. Við lítum svo á að jafn mikilvægt sé að fela ákveðinni nefnd skýrt umboð til að móta stefnuna og að vinna með stjórnsýslunni til þess að hægt verði að ná árangri í málaflokknum.
Það eru til dæmis vonbrigði að ekki hafi byggst upp fjölbreytt starfsemi á Tungumelum sambærileg þeirri sem við höfum á sama tíma séð byggjast upp á Esjumelum. Þessu viljum við breyta.
Á kjörtímabilinu hefst ein umfangsmesta uppbygging sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir, uppbygging Blikastaðalandsins. Fyrsti áfanginn í þeirri uppbyggingu er einmitt uppbygging atvinnusvæðis sem er gríðarlega vel staðsett auk þess sem stefnt er að uppbyggingu þar sem sjálfbærni og umhverfisvernd er í fyrirrúmi. Við teljum að mörg fyrirtæki vilji taka þátt í uppbyggingu á slíku svæði en það gerist ekki af sjálfu sér.

Sérstaðan
Við viljum líka hampa sérstöðu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélags. Samfélags sem hefur þá sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu að nánast allir íbúar eru í mikilli nálægð við náttúruna, lífsgæði sem sífellt verða verðmætari.
Þessi sérstaða Mosfellsbæjar er að okkar mati vannýtt auðlind sem við viljum beina sjónum okkar að. Í undirbúningi er stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins og sjáum við mikil tækifæri í því að vinna á þeim vettvangi að nýsköpun og þróun Mosfellsbæjar sem áfangastaðar. Hér er til mikils að vinna og mun ný nefnd Atvinnu- og nýsköpunar vinna ötullega að þessum málum.

Jákvæðnin að leiðarljósi
Á sama tíma og við finnum til mikillar ábyrgðar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánuði ársins svo sannarlega sýnir, þá trúum við engu að síður á að framtíð Mosfellsbæjar sé björt og vaxandi.
Við munum halda áfram að takast á við þau stóru verkefni sem lágu fyrir okkur í upphafi kjörtímabilsins en ekki síður munum við stefna ótrauð að því, með jákvæðnina að leiðarljósi, að styrkja enn frekar undirstöður bæjarfélagsins þannig að við verðum betur í stakk búin til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Gaman saman í Mosó

Franklín Ernir Kristjánsson

Eftir tveggja ára bið og mikla tilhlökkun var bæjarhátiðin okkar, Í túninu heima, loksins haldin dagana 26. – 28. ágúst síðast liðinn.
Það var fjöldinn allur af áhugaverðum, fjölbreyttum og flottum viðburðum í boði auk þess sem gamlir siðir voru teknir upp á ný með endurkomu Útvarps Mosfellsbæjar, sem ég vona að verði áframhaldandi siður á bæjarhátíðinni.
Við hjá menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fengum það heiðurshlutverk að ferðast um bæinn og dæma í hinni árlegu skreytingakeppni hverfanna. Það var yndislegt að sjá fólk á öllum aldri þeysast um bæinn okkar og njóta þeirrar dagskrár sem var í boði.
Það er ekki spurning að allir þeir sem voru með viðburði eða tóku þátt í að skreyta húsin sín eiga margfalt hrós skilið því það er einmitt það sem gerir bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ kleift að standa undir heitinu „Í túninu heima“.
Við í dómnefndinni vorum svo sannarlega látin hafa fyrir því að velja sigurvegarana þar sem auðséð var að mikill metnaður og vandvirkni hafði verið sett í að skreyta hús bæjarbúa.
En svona hátíðir þarfnast mikillar vinnu, bæði frá þeim sem eru með viðburði en ekki síst þeirra sem skipuleggja hátíðina og vil ég hrósa þeim sem komu að því að skipuleggja hátíðina og þá sérstaklega honum Hilmari Gunnarssyni. Í Mosó hefur alltaf verið best að búa en nú leikur enginn vafi á því, takk fyrir mig Mosó.

Franklín Ernir Kristjánsson,
menningar- og nýsköpunarnefnd

Hamrahlíðarskógurinn

Guðjón Jensson

Hamrahlíðarskógurinn er stolt okkar Mosfellinga. Fjölmargir erlendir ferðamenn aka framhjá Hamrahlíðinni og þarna er einna best hægt að sjá hversu góðan árangur unnt er að ná í skógrækt á Íslandi.
Fyrir framsýni og dugnað frumherjanna var hafist í þetta góða starf á sínum tíma en plöntun mun hafa hafist 1957 eða á öðru ári eftir að Skógræktarfélagið í Mosfellssveit var stofnað.
Þarna í hlíðinni hafa yfir 1.000.000 trjáplantna verið plantað á þeim 65 árum sem nú eru liðin og árangur verður að teljast mjög góður. Mest hefur verið plantað af stafafuru, sitkagreni og ösp en þarna eru auk þess fjölmargar aðrar tegundir að finna sem þrifist hafa misvel. Má t.d. nefna að í fyrstu var plantað um 8.000 birkiplöntum en nú hafa fáar lifað af enda sótti sauðfé bænda stíft í spilduna.
Eftir að ég fluttist frá Reykjavík ásamt unnustu minni í ársbyrjun 1983 í Mosfellssveitina var eitt af fyrstu verkunum okkar að ganga til liðs við Skógræktarfélagið. Við tókum mjög oft þátt í sjálfboðaliðastarfi við útplöntun og sitthvað annað tengt starfinu eins og við árlegu jólatrjáasöluna.
Vorið 1983 var plantað aðallega stafafuru norðan við núverandi bílastæði og þar sem rafmagnslínan liggur meðfram hitaveitustokknum. Má sjá vöxtinn í dag en nokkuð af trjánum hefur mátt þoka til að trufla ekki rafmagnsflutninginn. Fyrir mörgum árum hefði mátt huga að setja línuna í jörð til að tryggja betur öryggi en margt hefur verið láta mæta afgangi við framkvæmdir eins og gengur.
Eftir að börnin okkar komu til sögunnar þá voru þau tekin með og tóku þátt í gróðursetningum með okkur. Er fátt ungum börnum jafn hollt og að vera í sem nánustu tengslum við gróðurinn sem vex upp fyrir tilstuðlan þeirra. Þau læra með móðurmjólkinni að virða náttúruna og gróður landsins, víða vex viðkvæmur meiður sem eftir atvikum er orðið að vöxtulegu tré eða visnað sem annað.
Þessi grein er ágrip af stærri grein sem birtast mun í Skógræktarritinu sem Skógræktarfélag Íslans gefur út.

Guðjón Jensson

Framkvæmdir í Mosfellsbæ, frestun og aukinn kostnaður

Jana Katrín Knútsdóttir

Ásgeir Sveinsson

Nýr bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Regína Ásvaldsdóttir, tók til starfa þann 1. september sl. og bjóða sjálfstæðismenn hana velkomna til starfa.
Fyrir kosningar lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram ígrundaða og fjölbreytta stefnuskrá og mun reyna að tryggja sínum málum framgang á kjörtímabilinu.
Mikilvæg mál bíða nýrrar bæjarstjórnar í stækkandi sveitarfélagi í samfélagi sem einkennist af verðbólgu og óstöðugleika. Áhersla ætti að vera á að halda álögum á íbúa eins lágum og kostur er, viðhafa ábyrga stjórn fjármála og taka upplýstar og faglegar ákvarðanir um mál sem snerta hagsmuni bæjarins. Það er ljóst að Mosfellsbæ verður ekki stjórnað eingöngu á brosi og bjartsýni.

Uppbygging að Varmá – frestun
Fyrirhuguð uppbygging að Varmá er mikilvægt verkefni. Núverandi meirihluti hefur stöðvað þær áætlanir og er með í endurskoðun uppbyggingu á þjónustuhúsi sem hefja átti sl. vor. Við útboð bárust ekki tilboð í verkið en í stað þess að hefja samningaviðræður við verktaka eða breyta forgangsröðun var verkinu frestað. Ástæðan sem gefin var fyrir þeirri frestun var sú að endurskoða ætti meðal annars stærð og notkun hússins.

Helga Jóhannesdóttir

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Það er skemmst frá því að segja að í janúar fór fram endurskoðun á teikningum og gerðar breytingar í samráði við Aftureldingu. Þær teikningar voru samþykktar í bæjarstjórn og bæjarráði en þá höfðu fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar, sem nú eru í meirihluta engar athugasemdir. Meirihlutinn veit ekki í hverju möguleg stækkun á að felast, hver nýting stækkunarinnar ætti að vera og þá hefur ekki komið fram hver viðbótar kostnaður verður.
Ákvörðunin um frestun framkvæmda að Varmá kemur sér illa fyrir Aftureldingu. Kostnaður mun aukast vegna verðbólgu og hærri vaxta og framkvæmdir munu tefjast a.m.k. um eitt ár. Til þess að lágmarka skaðann af þessum töfum lögðu bæjarfulltrúar D-listans fram tillögu í bæjarráði um að breyta forgangsröðun og byrja á að leggja nýjan gervigrasvöll sem fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Þeirri tillögu var því miður hafnað.

Fimmti áfangi Helgafells­hverfis – tafir á úthlutun lóða
Annað hagsmunamál Mosfellsbæjar er úthlutun lóða í fimmta áfanga Helgafellshverfis. Í ár var á dagskrá hjá fyrri meirihluta að úthluta lóðum undir 140 íbúðareiningar, aðallega einbýli, par- og raðhús, strax að loknum kosningum.
Úthlutun lóðanna hefur ekki getað átt sér stað vegna málaferla. Fyrir nokkrum dögum féll dómur í málinu þar sem fallist var á öll sjónarmið Mosfellsbæjar.
Málið hefur verið óþægilegt og erfitt í meðferð og meðhöndlun fyrir nýjan meirihluta vegna náinna tengsla og hagsmuna oddvita Framsóknarflokksins. Það er eflaust einsdæmi að sitjandi formaður bæjarráðs sé í málaferlum við bæinn sem hafa haft í för með sér mikinn kostnað og tafir fyrir sveitarfélagið. Það hefði verið heiðarlegra af oddvitanum að upplýsa kjósendur um þessi málaferli fyrir kosningar þar sem upplag Framsóknarflokksins í sinni kosningabaráttu var einmitt heiðarleiki, gagnsæi og góð upplýsingagjöf.
Við erum öll að vinna að sama markmiði sem er að vinna að hagsmunum Mosfellsbæjar og gera það sem í okkar valdi stendur til að gera samfélagið okkar enn betra. Ekki má gleyma að bæjarstjórn er fjölskipað stjórnvald þar sem meiri- og minnihluti bera sameiginlega ábyrgð og eiga að vera jafn upplýstir. Von okkar er sú að samvinna bæjarstjórnar verði árangursrík og farsæl og að upplýsingagjöf, gagnsæi og heiðarleika verði raunverulega fylgt eftir svo að bæjarfulltrúar minnihlutans þurfi ekki að halda áfram að lesa fréttir af málefnum bæjarins í fjölmiðlum.

Bæjarfulltrúar D-lista,
Ásgeir, Jana, Rúnar og Helga.

Ég elska að búa í Mosó

Hrafnhildur Gísladóttir

Bæjarhátíðir eru haldnar víðsvegar um allt land og ein af þeim skemmtilegustu er haldin hér í bænum okkar. Í túninu heima, bæjarhátíð Mosfellinga, verður að veruleika dagana 26. til 28. ágúst eftir þriggja ára bið.
Eins og áður verður margt spennandi í boði á vegum einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélagsins.Hátíðin dregur nafn sitt af minningar-skáldsögu Halldórs Laxness, en þar segir hann í kafla 19, „Maður verður listamaður á því einu að vanda smáatriðin – alt hitt gerir sig sjálft.“ Í þeim anda langar mig, fyrir hönd Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar að hvetja íbúa til að vera með viðburði sem lífga upp á stemninguna, leggja sitt af mörkum við að skreyta bæinn, taka þátt í viðburðum og taka vel á móti gestum.

Við í Menningarnefnd höfum fengið það skemmtilega verkefni að ferðast um bæinn okkar á laugardaginn til að skoða skreytingar og velja best skreytta húsið og götuna.
Einnig hefur nefndinni verið falið að velja bæjarlistamann Mosfellsbæjar árið 2022 úr tilnefningum bæjarbúa. Verður tilkynnt um hver hlýtur þann heiður við hátíðlega athöfn í Hlégarði sunnudaginn 28. ágúst og hvetjum við Mosfellinga til að fjölmenna.

Fjölbreytt menning og skemmtilegt mannlíf auðgar lífið og bætir geðheilsuna. Við sem höfum nýlega hafið störf í Menningar- og nýsköpunarnefnd erum mjög spennt fyrir næstu árum og hlökkum til að vinna með bæjarbúum að því að efla menningarstarf og auka sýnileika þess sem bæjarbúar eru að gera og hafa upp á að bjóða.

Ég elska Mosó. Þannig byrjar lag sem sungið hefur verið í leikhúsi Leikfélags Mosfellssveitar. Mér finnst það eiga svo vel við hér og geri það að tillögu minni að brekkusöngsstjóri læri lagið og Mosfellingar læri texta og svo syngjum það saman í brekkunni í Álafosskvos föstudagskvöldið 26. ágúst.

Ég elska mosó að morgni
Ég elska mosó um kvöld
Ég elska mosó í roki þegar rignir
Ég elska Mosó um nætur þegar lygnir

Ég elska mosó á daginn
Allan daginn út og inn
Ég elska mosó
Ég elska að búa í mosó
Þar finn ég hjartsláttinn

Lag: I love paris
Texti: Sóla

Hrafnhildur Gísladóttir
Formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar

Fyrstu 100 dagarnir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Það fór væntanlega ekki fram hjá mörgum að í vor kusu Mosfellingar að endurnýja talsvert í hópi bæjarfulltrúa.
Síðustu vikur hjá nýjum meirihluta hafa því að hluta til farið í að fá upplýsingar um gang mála frá síðasta kjörtímabili. Þar kennir ýmissa grasa og eins og við var að búast nokkur mál sem fóru ekki hátt í aðdraganda kosninga.

Þar má nefna rakaskemmdir í húsnæði Kvíslarskóla sem kalla á gríðarlegar endurbætur á skólanum. Nú er unnið af miklu kappi að uppsetningu lausra kennslustofa til að skólahald geti hafist á næstu dögum.
Verkefnið er afskaplega umfangsmikið og kostnaðarsamt en að sama skapi óumflýjanlegt. Það er mikilvægt að skólasamfélagið geti treyst því að þarna verði gengið heiðarlega til verka og engu sleppt þannig að tryggt sé að nemendur og starfsfólk geti gengið til starfa í heilsusamlegu húsnæði.

Annað mikilvægt verkefni eru viðræður um yfirtöku á rekstri Skálatúns. Það er að sjálfsögðu hluti af skyldum Mosfellsbæjar að annast um velferð heimilismanna þar. En reksturinn í núverandi mynd hefur ekki gengið vel árum saman og málið hefur legið ófrágengið á borði sveitarfélagsins í langan tíma. Við munum ganga að samningaborðinu með hagsmuni heimilismanna og Mosfellsbæjar til lengri tíma í huga.

Þriðja málið sem ástæða er til að nefna hér eru endurbætur á Varmársvæðinu. Hvort sem það lýtur að þjónustubyggingu, nýju gervigrasi, lýsingu eða annarri aðstöðu þá er mikil pressa á að taka ákvarðanir og hefjast handa sem fyrst. Þar viljum við vanda til verka og hugsa til framtíðar í stækkandi bæjarfélagi. En vinna er í fullum gangi við að skoða forgangsröðun og undirbúa framkvæmdir.

Hér er aðeins tæpt á nokkrum málum sem hafa verið til umfjöllunar síðustu vikur. Þau eru að sjálfsögðu fleiri og öll mikilvæg fyrir þá sem að þeim koma. Við sem buðum okkur fram í sveitarstjórn í vor vissum auðvitað að hér væri verk að vinna.
Við vissum að það þyrfti að taka stórar ákvarðanir sem varða framtíð Mosfellsbæjar. Við vissum að fjárhagsstaðan væri ágæt en auðvitað er hún ekki góð frekar en í rekstri sveitarfélaga almennt í landinu. Við lögðum áherslu á samráð, samvinnu og forgangsröðun. Við munum standa við það og vanda okkur við þá ákvarðanatöku sem bíður okkar. Sumt er brýnt en annað verður að bíða eins og venjan er í rekstri.

Fyrstu 100 dagarnir eru ekki liðnir en núverandi meirihluti leggur mikla áherslu á að auka traust á milli stjórnmála, stjórnsýslu og bæjarbúa. Það gerum við með því að auka gagnsæi, efla upplýsingagjöf og auka lýðræðislegt samtal.

Við viljum aftur þakka fyrir traustið og velvildina sem okkur hefur verið sýnd í hvívetna í bænum. Hvort sem það eru bæjarbúar á förnum vegi eða starfsfólk stjórnsýslunnar sem aðstoðar okkur og deilir af þekkingu sinni eða aðrir kjörnir fulltrúar sem sýna samstarfsvilja og hugsa fyrst og fremst um hagsmuni bæjarins og þeirra sem í honum búa.

Framsókn, Samfylking og Viðreisn

Fjölbreytni og leikur

Hilmar Smári

Íþróttablanda 1. og 2. bekkjar í íþróttamiðstöðinni Lágafelli

Íþróttablanda Aftureldingar er nýtt námskeið sem verður í boði á haustönn 2022.
Þetta námskeið er fyrir börn í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla. Íþróttabland er samvinnuverkefni blak-, frjálsíþrótta- og sunddeildar Aftureldingar.

Það er mikið um að vera hjá nemendum 1. og 2. bekkjar – við viljum aðstoða! Við hjá Aftureldingu tökum opnum örmum á móti þessum börnum, sem gjarnan eru á staðnum því mamma og pabbi senda þau. Eða af því að vinirnir eru þarna.
Allt eru þetta góðar og gildar ástæður fyrir viðveru barna í íþróttastarfi. Og vissulega er félagslegi þátturinn gríðarlega mikilvægur í okkar starfi.
En börn á þessum aldrei eru alls ekki alltaf tilbúin að velja í hvaða íþrótt þau vilja vera 2-3 sinnum í viku næstu ár. Með íþróttablöndunni viljum við skapa umhverfi þar sem iðkendur fara á milli deilda vikulega, en þó er bara ein skráning og eitt skráningargjald, og leyfa þeim að kynnast okkur og íþróttunum.

Almennt styðja allar íþróttir við bakið á annarri íþrótt, sérstaklega á þessu aldursbili barna. Á námskeiði íþróttablöndunar verður lögð áhersla á hreyfifærni og samhæfingu sem er grunnur að velgengni í flest öllum íþróttum.
Börnin fá þá að kynnast starfi þriggja deilda á einni önn. Von og markmið er svo að iðkendur finni sinn farveg í íþróttastarfinu og eigi auðveldara með að velja sér íþróttgrein þegar þau verða eldri.

Markmið íþróttablöndunar
– Minnka líkur á leiða og þar með brottfalli úr íþróttum.
– Auka hreyfifærni og samhæfingu
– Auka gleði í íþróttum
– Allir finna sér eitthvað við hæfi

Íþróttablandan fer fram að Lágafelli frá 15.00-16.00. Skráning fer fram í gegnum Sportabler.
Aðeins er eitt gjald fyrir þrjár íþróttir og ein skráning.
Iðkendur skipta um íþróttagrein á viku fresti fram að jólum – æfingatafla verður sýnileg í Sportabler og því ætti ekki að fara á milli mála hvað er á dagskránni.
Æfingar eru á mánudögum og miðvikudögum klukkan 15:00 til 16:00. Hægt er að taka frístundarútu frá Varmá.
Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Aftureldingar.

Fyrir hönd þjálfara og stjórna blak-, frjálsíþrótta- og sunddeildar
Hilmar Smári
Yfirþjálfari sunddeildar Aftureldingar

Aftureldingarhjartað slær sterkt hjá íbúum Mosfellsbæjar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Margir Mosfellingar tengja sterkt við Ungmennafélagið Aftureldingu. Flest okkar tengjast félaginu með einhverjum hætti. Það eru núverandi eða fyrrverandi iðkendur, foreldrar, systkini, sjálfboðaliðar, þjálfarar, ömmur og afar. Öll þekkja þau íþróttamiðstöðina að Varmá og svæðið í kring eins og lófann á sér.
Það er samfélagslega mikilvægt fyrir sveitarfélag eins og Mosfellsbæ að vera með íþróttafélag eins og Aftureldingu og íþróttasvæði sem heillar og stendur fyrir sínu.

Er íþróttamiðstöðin að Varmá í sínu besta formi?
Við þurfum að minna okkur á að viðhald er töff og það er ekki nóg að byggja eitthvað og halda því svo ekki almennilega við. Í öllum þessum hraða í samfélaginu okkar og tækniveröld er svo gott að hvíla stundum hugann og hreyfa sig. Hvort sem það er sund, ganga, hjól, hlaup eða að stunda æfingar innan Aftureldingar. Þetta er allt hægt að gera við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Mosfellsbær bæði rekur íþróttamiðstöðina að Varmá og sér um uppbyggingu svæðisins auk þess að veita styrki inn í íþrótta- og tómstundastarfsemi í bænum en þar er Afturelding langstærst. Við erum sammála því að þetta skiptir máli. Við erum sammála því að þetta skiptir miklu máli. En það þarf að halda áfram að gera betur og hugsa til framtíðar þegar kemur að aðstöðumálum.

Það er mikil krafa að íþróttamannvirki standist nútímakröfur. Á meðan Mosfellsbær hefur staðið í mikilli uppbyggingu á ýmsum svæðum hefur viðhald að Varmá því miður setið eftir. Það sést best á búningsaðstöðu, aðkomu að húsinu og fleiru. Uppbygging á svæðinu hefur verið í gangi á síðustu árum en að margra mati skortir þar skýra framtíðarsýn.
En nú er kominn tími á breytingar. Við viljum hugsa stórt og móta framtíðarsýn með Aftureldingu sem og stjórnendum um uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá fyrir iðkendur og alla bæjarbúa.
Það er nauðsynlegt fyrir hvaða bæjarfélag sem er að vera með öflugt íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla, óháð aldri, efnahag eða félagslegum aðstæðum. Það skilar sér margfalt til baka til samfélagsins og gerir einstaklinginn heilsuhraustari bæði á líkama og sál. Með því að stunda íþróttir læra börn og ungmenni að sigra og tapa, setja sig í spor annarra og samvinnu.

Hér fyrir þónokkrum árum heyrði maður og fann að önnur sveitafélög horfðu til íþróttasvæðisins að Varmá með aðdáun.
Við viljum að þannig verði það aftur. Því er framtíðarsýn okkar að láta teikna upp allt svæðið og tímasetja og búa til aðgerðaráætlun til að fylgja eftir. Sú vinna fer fram á samráðsvettvangi Mosfellsbæjar og Aftureldingar. Á þeim vettvangi er þessa dagana verið að endurskoða forgangsröðun á svæðinu þar sem engin tilboð bárust í útboð þjónustubyggingar nú á vordögum.
Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Komdu og vertu með!

Hanna Björk Halldórsdóttir

Íþróttastarf á Íslandi er og hefur alltaf verið að miklu leyti byggt upp með aðkomu sjálfboðaliða.
Foreldrar og forráðamenn iðk­enda eru vitanlega stærstur hluti þessa hóps en í meistaraflokksstarfinu er þó einnig að finna almennt áhugafólk um íþróttir og „gamlar kempur“, í bland við vini og fjölskyldur leikmanna.

Við hjá Aftureldingu erum ákaflega heppin og ánægð með okkar sjálfboðaliða, drífandi hóp fólks sem er tilbúið að leggja hönd á plóg til að gera íþróttastarfið frábært.
Þetta er þó ekki sérlega stór hópur, því þótt ég segi stolt frá þessum 150 einstaklingum sem vinna hörðum höndum að því að byggja upp starfið, þá er bæjarfélagið okkar ört vaxandi sem þýðir að Afturelding vex með og við fáum fleiri iðkendur.
Allt þetta frábæra fólk sem styður starfið okkar með sjálfboðavinnu sinni þarf að sinna miklum fjölda verkefna, 11 deildir, 18 ráð og 6-9 meistaraflokkar, en fjöldi þeirra fer eftir hversu mörgum U-liðum við teflum fram hverju sinni.

Starfið sem fer fram á skrifstofu Aftureldingar væri annað, líklega ekkert, ef ekki væri fyrir þessa sjálfboðaliða. Við treystum á þau þegar kemur að því að tækla misjöfn verkefni sem þarf að sinna til að hægt sé að halda úti starfinu, en á hverju hausti hefja nýir iðkendur æfingar og félagið stækkar og stækkar.

Þökk sé sjálfboðaliðunum að börnin okkar geta valið úr fjölda íþróttagreina og gengið að því vísu að markið sé sett hátt þegar kemur að gæðum þjálfunarinnar.

Ánægjuvogin gefur okkur vísbendingar um að ánægja með starfið á meðal iðkenda sé yfir meðallagi, og þá er nú hálfur sigur unninn. Því við erum jú að þessu fyrir iðkendur – börnin í bænum. Og þau eru almennt ánægð með félagið sitt, þjálfarana og félagslífið sem fylgir því að vera í Aftureldingu.

Ánægjuvogin er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk.
Í Ánægjuvoginni felst að spurningum sem tengjast íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar 2020 og var svarhlutfallið 85%. (Tekið af vef ÍSÍ)

Við sem störfum í þessum heimi þekkjum vel mikilvægi þess að iðka íþróttir, að stunda æfingar með þjálfara í skipulögðu starfi. En þau gögn sem Rannsóknir og greining hafa safnað síðan 1992 segja mun merkilegri sögu.
Samkvæmt Margréti Lilju hjá Rannsóknum og greiningu – sem stendur fyrir og framkvæmir Ánægjuvogina – er tómstundastarfið einn af verndandi þáttum íslenska forvarnamódelsins.
„Þannig eru minni líkur á vímuefnaneyslu, betri andleg og líkamleg líðan, betri námsárangur og lengi mætti telja meðal barna og ungmenna sem eru virk í skipulögðu starfi.“ (www.isi.is/fraedsla/anaegjuvogin/)

En betur má ef duga skal.

Við þurfum fleiri sjálfboðaliða! Fleiri hendur vinna létt verk og það vantar fleiri til að létta undir með þeim sem fyrir eru: í foreldraráðin, í heimaleikjaráðin, í hugmyndavinnu og í ýmiss konar tilfallandi verkefni.
Við sem störfum hjá Aftureldingu erum hæstánægð og ákaflega þakklát fyrir alla okkar sjálfboðaliða, en við viljum líka alltaf kynnast fleirum. Við hvetjum því alla foreldra og forráðamenn til að kynna sér starf Aftureldingar og koma og taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri með okkur.

Allar deildir og ráð félagsins eru reknar af stjórnum með formönnum, gjaldkerum, riturum og öðrum stjórnarmeðlimum.

Ég skora á þig að hafa samband og vera með!

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi Aftureldingar

Gleðilega hátíð!

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa þið öll notið sumarsins í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða ykkur jákvæðri orku fyrir veturinn.
Við í Mosfellsbæ höldum að sjálfsögðu áfram í heilsueflingunni og mun ýmislegt spennandi og skemmtilegt verða á döfinni í haust og vetur.

Í túninu heima
Bæjarhátíð okkar Mosfellinga, Í túninu heima, verður haldin með pompi og prakt núna um helgina. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð með heilsueflandi ívafi þar sem aðal markmiðið er að ungir sem aldnir komi saman, auðgi andann og njóti samverunnar með fjölskyldu og vinum.
Dagskráin er að venju glæsileg en hana má finna á heimasíðu bæjarins og að sjálfsögðu hér í Mosfellingi.

Tindahlaupið
Eitt skemmtilegasta hlaup sumarsins, Tindahlaupið í Mosfellsbæ, er fram undan og verður einn af hápunktum bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Í þessu náttúru- og/eða utanvegahlaupi verða fjórar útfærslur í boði, þ.e. 7 tindar (38 km), 5 tindar (34 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km).
Hlaupið fer fram laugardaginn 27. ágúst og því tilvalið að reima á sig skóna og velja sér áskorun við hæfi. Nánari upplýsingar má finna á www.hlaup.is

Perlum fyrir Kraft
Í tilefni af bæjarhátíðinni okkar leggur Kraftur leið sína í Mosfellsbæinn til að perla sín landsfrægu armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum öllum.
Armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og rennur allur ágóði af sölu þeirra til Krafts. Sýnum kærleika í verki, mætum með fjölskyldunni, eigum góða stund saman og perlum af Krafti til að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra.
Perlað verður í Hlégarði í dag, þriðjudaginn 23. ágúst kl. 17:00-20:00.

Fellahringurinn
Afturelding stendur fyrir frábærri hjólakeppni, Fellahringnum, fimmtudaginn 25. ágúst. Hjólað verður um stíga og slóða umhverfis fallegu fellin okkar og hægt er að skella sér annaðhvort 15 km eða 30 km hring.
Frábær skemmtun fyrir fjölskyldur, verðlaun verða veitt í aldursflokkum (frá 12 ára) og auk þess verða líka vegleg útdráttarverðlaun, m.a. glæsilegt fjallahjól frá Markinu. Er þetta nokkur spurning?

Göngum í skólann
Árlega taka milljónir barna þátt í Göngum í skólann verkefninu í yfir fjörutíu löndum víðs vegar um heim.
Markmið verkefnisins eru meðal annars að hvetja börn og fjölskyldur til aukinnar hreyfingar með því að nota virkan ferðamáta, auka færni barna til að ferðast á öruggan hátt, stuðla að heilbrigðum lífsstíll fyrir alla fjölskylduna, minnka umferð við skóla og stuðla þar með að hreinna lofti og öruggari og friðsælli götum/hverfi.

Það er sem sagt gleði í kortunum og hvetjum við ykkur að sjálfsögðu til að taka þátt. Skemmtum okkur fallega saman – gleðilega hátíð!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Nýtt kjörtímabil – nýjar áskoranir

Ásgeir Sveinsson

Nú er hafið nýtt kjörtímabil með nýjum meirihluta og við bæjarfulltrúar XD í Mosó hlökkum til að eiga gott samstarf í bæjarstjórn og við hið frábæra starfsfólk Mosfellsbæjar hér eftir sem hingað til.
Fyrir kosningarnar í maí sl. lögðum við fram góða og fjölbreytta kosningastefnu um þau mál sem við viljum leggja áherslu á til að gera Mosfellsbæ enn betri og mál sem bæta enn frekar gæði þjónustunnar við bæjarbúa.
Þótt stutt sé liðið frá kosningum og lítið búið af kjörtímabilinu höfum við lagt fram þrjú mál úr stefnuskrá okkar í bæjarráði sem vonandi fá jákvæða umfjöllun og afgreiðslu hjá meirihlutanum.

Lækkun fasteignagjalda fyrir árið 2023
Undanfarin ár hefur fasteignmat hækkað verulega í Moefellsbæ sem og á landinu öllu með tilheyrandi auknum útgjöldum fyrir fasteignaeigendur. Til þess að bregðast við þessum hækkunum höfum við fyrrverandi meirihluti Sjalfstæðisflokks og Vinstri Grænna í Mosfellsbæ lækkað fasteignagjöld á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Nýlega var gefið út nýtt fasteignamat og hefur það aldrei hækkað eins mikið á milli ára.
Við í XD Mosó viljum halda áfram að koma í veg fyrir þessar ósanngjörnu skattahækkanir og lögðum því fram tillögu í bæjarráði á fundi þann 9. júni að fasteignagjöld í Mosfellsbæ fyrir árið 2023 myndu ekki hækka umfram vístölu.
Tillögunni var vísað til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og munum við fylgja henni eftir í þeirri vinnu og leggja allt í sölurnar um að tillagan nái fram að ganga.

Opnun Fab Lab smiðju í Mosfellsbæ
Bæjarfulltrúar XD Mosó lögðu fram tillögu um að opnuð verði á árinu 2023 Fab Lab (Fabrication Laboratory) smiðja í Mosfellsbæ sem myndi nýtast öllum skólum bæjarins, bæði leik- og grunnskólum, auk þess sem leitað verði eftir samstarfi við FMos um verkefnið.
Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Samkvæmt lauslegri athugun kostar búnaður og tæki í nýja Fab Lab smiðju um 18 milljónir króna. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið styrkir rekstur Fab Lab smiðja með myndarlegu framlagi auk þess sem mennta- og barnamálaráðuneytið kemur einnig með framlag til Fab Lab í gegnum aðstöðu eða notkun framhaldsskólanna.
Lagt er til að tillögunni verði vísað inn í vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Auk þess er lagt til að Fræðslusviði Mosfellsbæjar verði falin vinna við undirbúning á opnun Fab Lab smiðju í Mosfellsbæ sem myndi hefja starfsemi í byrjun árs 2023.

Þróunar- og nýsköpunarmiðstöð
Samvinnuverkefni Mosfellsbæjar, ríkisins og fyrirtækja í atvinnulífinu.
Þriðja tillaga okkar að þessu sinni er að hafin verði vinna við undirbúning um að sett verði á stofn Þróunar- og nýsköpunarmiðstöð í Mosfellsbæ sem hefur það markmið að byggja upp og styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun í Mosfellsbæ til framtíðar.
Þar verður áhersla lögð á þróun og hátækni í ólíkum og fjölbreyttum greinum m.a. snjalltækni, heilbrigðis- og ferðaþjónustu, lýðheilsumálum og áhersla lögð á umhverfis-, atvinnu-, menningar- og fræðslumál svo eitthvað sé nefnt.
Einnig verður áhersla lögð á að starfrækt verði fjarvinnslurými samfara starfseminni þar sem fólk getur unnið í fjarvinnu með því að leigja rými á staðnum.
Ríkið styrkir stofnun verkefnis sem þessa á myndarlegan hátt og fara þarf í samningaviðræður um fyrirkomulag samstarfsins með ríkinu auk þess sem Mosfellsbær og fyrirtæki í atvinnulífinu myndu koma að verkefninu.

Næstu skref til undirbúnings
Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar með starfsfólki og einum fulltrúa úr meirihluta og einum úr minnihluta sem hefði það verkefni að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að koma á stofn Nýsköpunar- og þróunarsetri í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Helstu fréttir af framgangi málefnasamnings

Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur nú tekið til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hlökkum við nýkjörnir bæjarfulltrúar til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða okkar.
Í anda gagnsæis og lýðræðislegra vinnubragða munum við taka upp þá nýbreytni að upplýsa hér í Mosfellingi með reglubundnum hætti um helstu verkefni sem við erum að takast á við á hverjum tíma. Verkefnin eru mýmörg og þess vegna munum við stikla á stóru og fyrst og fremst upplýsa bæjarbúa um nýjar ákvarðanir eða framgang verkefna úr málefnasamningi okkar.

Bæjarstjóri
Í samræmi við ákvörðun meirihlutans þá hefur staða bæjarstjóra verið auglýst laus til umsóknar og er umsóknarfrestur til 28. júní.

Kvíslarskóli
Framkvæmdir við skólann ganga samkvæmt áætlun og er unnið hörðum höndum að því að ljúka heildarúttekt á húsnæðinu. Reglulega verða veittar upplýsingar um framganginn á mos.is og í tölvupósti til forráðamanna. Samhliða framkvæmdunum er unnið að viðbragðsáætlun ef ekki tekst að ljúka viðgerðum áður en kennsla hefst aftur í haust.

Þjónustubygging að Varmá
Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar var ákveðið að taka til endurskoðunar áætlanir um þjónustubyggingu við Varmá.
Í ljósi þess að ekki bárust nein tilboð í byggingu hússins hefur verið tekin ákvörðun um það í samráði við Aftureldingu að fara strax í þessa endurskoðun.

Lenging opnunartíma sundlauga
Í samkomulagi meirihlutans er kveðið á um að sundlaugar bæjarins verði opnar lengur. Fyrsta skrefið í þeirri þjónustuaukningu verður tekið í sumar þegar tíminn verður lengdur um hálfa klukkustund á virkum dögum.

Fasteignagjöld
Ástandið á fasteignamarkaði hefur valdið mjög mikilli hækkun fasteignamats. Í meirihlutasamkomulagi B, S og C lista er kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats. Nánari útfærsla mun koma fram í fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta.

„Við erum byrjuð að vinna samkvæmt málefnasamningnum og erum að koma málefnum í farveg og nánari útfærslu,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs.
„Við viljum bæta upplýsingaflæðið frá bæjarstjórn til íbúa eins og við segjum í samningnum. Okkur finnst mjög mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við bæjarbúa og viljum tryggja það að raddir sem flestra heyrist þannig að þjónustan sé framúrskarandi.“

Framsókn, Samfylking og Viðreisn

Athugasemdir við deiliskipulag í Bjarkarholti

Fyrir hönd eigenda allra íbúða í Bjarkarholti 20 í Mosfellsbæ viljum við koma á framfæri athugasemdum við auglýsta breytingu á deiliskipulagi nefnt Bjarkarholt 22 til 30 sem er breyting við gildandi deiliskipulag Bjarkarholts 1,2 og 3.
Okkur var ljóst samkvæmt núgildandi deiliskipulagi að á aðliggjandi lóð Bjarkarholti 1 væri gert ráð fyrir almenningsgarði og litlu fjölbýlishúsi með aðkomu að vestanverðu.
Breytt deiliskipulag gerir hinsvegar ráð fyrir að byggð verði 2 hús á lóðinni þ.e. Bjarkarholt 22 og 24.
Bjarkarholt 22 er skilgreint sem skáli og virðist hvorki hafa skilgreinda lóð né bílastæði. Þó er ljóst að öll starfsemi kallar á bílastæði og í þessu tilfelli verða þá stæði á aðliggjandi lóðum notuð sem er óásættanlegt.
Gert er ráð fyrir að Bjarkarholt 24 verði „stórhýsi“ þ.e. 7.700 m² fjölbýlishús með aðkomu að austanverðu og er það margföldun á stærð miðað við núgildandi deiliskipulag. Einnig er gert ráð fyrir aðkomu og fjölda bílastæða á lóðamörkum við hús nr. 20.
Við gerum athugasemdir við stærð hússins sem og hæð þess og nálægð við hús okkar nr. 20. Þetta hefur veruleg áhrif á okkur bæði hvað skuggavarp varðar sem og útsýni til vesturs. Einnig teljum við að tilfærsla aðkomu að húsi nr. 24 verði til verulegra óþæginda fyrir okkur enda aðkoma að tugum íbúða og væri mikil truflun af aðkomu og bílastæðum við lóðamörk. Einnig kallar tilfærslan á að fella þurfi tré á lóðarmörkum sem er fráleitt að gera.
Tilfærsla aðkomunnar hefur einnig þau áhrif að eðlileg tenging milli miðbæjargarðs, friðlandsins og gangstígakerfis bæjarins verður rofin. Þessi svæði þurfa að tengjast saman með eðlilegum hætti eins og gert er ráð fyrir í núgildandi skipulagi.
Breytt skipulag gerir ráð fyrir gönguleið um undirgöng sem liggja í gegnum hús nr. 26 og að gengið verði um bæjarhelluna á húsi nr. 24.
Varðandi skipulagið í heild viljum við gera eftirfarandi athugasemdir:
Á lóðunum 1 til 5 á samkvæmt skipulagsdrögum að rísa 225 metra langt fjölbýlishús á 4 til 5 hæðum með fjórum útbyggingum. þetta finnst okkur afar óaðlaðandi „múr“ og úr öllu samhengi við núverandi umhverfi og alls ekki það sem við áttum von á að sjá þegar við festum okkur íbúðir hér.
Byggingarmagn á lóðum 1 til 3 hefur verið aukið um nær 40% frá gildandi skipulagi og íbúðum fjölgað úr 44 í 150 og teljum við þetta óhóflegt og alls ekki standast reglur um meðal­hóf.
Okkur virðist að fjárhagslegir hagsmunir lóðarhafa leigulóða í eigu bæjarfélagsins séu verulega veigameiri en hagsmunir okkar íbúanna hér í götunni, það finnst okkur vera öfugmæli.

Við erum öll ánægðir íbúar hér í götunni sem og í bæjarfélaginu en verði þetta skipulag samþykkt mun það breytast.
Við förum því fram á að þessi skipulagstillaga verði dregin til baka og endurunnin í samráði við íbúa nærliggjandi húsa en ekki bara lóðarhafa.
Við teljum að meðalhófs hafi ekki verið gætt við gerð þessarar skipulagstillögu.

Magnús Jónsson
Bjarkarholti 20

Þakkir

Dagný Kristinsdóttir

Að loknum kosningum viljum við færa kjósendum okkar þakkir fyrir stuðninginn.
Vinir Mosfellsbæjar er þriðja stærsta stjórnmálaaflið í bænum, með 13% fylgi og er annað tveggja framboða sem jók við fylgi sitt. Það styrkir okkur og eflir í þeirri trú að okkar málstaður er mikilvægur og að kjósendur hafi trú á honum.

Okkar hlutskipti þetta kjörtímabilið er að vera í minnihluta. Við látum það ekki stoppa okkur í því að vekja athygli á heiðarlegum og lýðræðislegum vinnubrögðum, ásamt því að veita meirihlutanum aðhald með málefnalegum hætti og vönduðum vinnubrögðum.
Frá og með haustinu verður starfið okkar byggt upp til framtíðar og er það markmið okkar að vera sýnileg og aðgengileg meðal kjósenda.
Vinaspjallið verður á sínum stað, bæði í raunheimum og á streymisveitum. Þar sem við heyrum í Mosfellingum og ræðum um dægurmálin og það sem er í umræðunni hverju sinni.

Guðmundur Hreinsson

Við erum mætt til starfa og reiðubúin að starfa í þágu bæjarbúa næstu fjögur árin.

Dagný Kristinsdóttir og Guðmundur Hreinsson skipuðu 1. og 2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar

Mannvænt eða bílvænt skipulag?

Bjartur Steingrímsson

Í huga mínum er Mosfellsbær grænn og nútímalegur bær. Hér er góður aðgangur að óspilltri náttúru og grænum svæðum, byggðin fjölbreytt og í góðu samræmi við umhverfi sitt.
Þegar ég var í fæðingarorlofi með litlu stúlkuna mína var ég duglegur að ganga með hana í kerrunni sinni. Ég held að ég hafi á þessum sumarmánuðum gengið nokkurn veginn hvern einasta göngustíg bæjarins þrisvar, og fannst mér það nær alltaf jafn skemmtilegt og endurnærandi – með einni undantekningu. Það var ef þörf var á að gera krók á göngutúrnum til að skjótast í Bónus eða Krónuna. Umferðin, skarkalinn og breiðar göturnar fældu frá eftir rólega göngu upp með Varmánni eða niður í Leiruvog.

Sé horft á loftmynd af miðbæ Mosfellsbæjar kemur ein staðreynd í hug ofar öðrum. Það er að húsin eru smá og bílastæðin ógnarstór. Þegar við skipuleggjum umhverfi okkar og byggð er það augljóslega gert eftir þörfum mannfólksins sem þar býr. Þær þarfir eru þó síbreytilegar og þarf skipulagsvaldið að vera sveigjanlegt eftir því.
Þegar umhverfið í miðbæ Mosfellsbæjar er skoðað með það að sjónarmiði sjást glögglega þarfir fortíðarinnar.

Mosfellsbær er bæjarfélag í örum vexti og eftirsótt. Þessi sístækkandi hópur bæjarbúa hefur fjölbreyttari þarfir og væntingar en áður og eðlilegt að bæjarumhverfið breytist í takt við það.
Þótt einkabíllinn sé og verði áfram þarfur þjónn í þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi þarf að gera öðrum samgöngumátum og áherslum jafnhátt undir höfði.
Við í Vinstri Grænum höfum þegar sýnt það í verki með stuðningi við Borgarlínu og uppbyggingu fjölþátta samgöngustíga hér í bænum. En við getum gengið enn lengra, sér í lagi í nærumhverfi okkar.
Breiðgata getur hæglega orðið að göngugötu, bílastæði að torgi eða almenningsgarði þar sem börn geta leikið og foreldrar setið og sötrað kaffi. Þannig gætum við svarað kalli nútímans um vistvænni samgöngur og lífshætti, en einnig gagnrýni þeirra sem kalla Mosfellsbæ svefnbæ.
Ég sé fyrir mér að hér muni rísa lífvænlegri, fjölbreyttari og grænni miðbær sem fólk mun vilja heimsækja og jafnvel eyða tíma í – hvort sem það komi gangandi, hjólandi, í strætó eða á bílnum. Það er bara að þora að taka af skarið.

Bjartur Steingrímsson
Höfundur skipar 3. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.