Mikið áunnist í fræðslumálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fræðslumál eru stærsti málaflokkur sveitarfélagsins okkar en árlega fara um 60% af rekstrarkostnaði Mosfellsbæjar í málaflokkinn.
Á þessu kjörtímabili sem nú er að líða hefur mikil áhersla verið lögð á skólamálin og þrátt fyrir að kórónuveiran hafi lagst þungt á sveitarfélögin hefur þjónustan verið aukin í Mosfellsbæ. Ástæðan er að hér hefur verið haldið vel utan um fjármál og rekstur bæjarins.

Áherslan á fræðslumálin
Þessu kjörtímabili fer senn að ljúka og er vert að skoða hvað hefur áunnist í fræðslumálum á tímabilinu. Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var lögð mikil áhersla á að standa við bakið á okkar skólum og fagfólki, en þar stendur:
Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og D- og V-listi leggja megináherslu á öflugt og metnaðarfullt skólastarf. Miklar breytingar hafa átt sér stað í leik- og grunnskólum á síðustu áratugum, í kjölfar aukinna væntinga samfélagsins til skólakerfisins. Um leið eru stöðugar breytingar á þörfum nemenda. Heilbrigt skólaumhverfi stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsfólks.

Eftirfarandi voru áherslur D- og V-lista sem koma fram í málefnasamningi flokkanna:
Sama gjald frá 12 mánaða aldri – Foreldrar barna sem njóta þjónustu hjá Mosfellsbæ greiða sama gjald frá 12 mánaða aldri sama hvort barnið er hjá dagforeldri eða á leikskóla.
12 mánaða börn fá pláss á leikskólum – Nýr árgangur er kominn á leikskólana og eru 125 pláss á ungbarnadeildum. Leikskólinn Hlíð er nú ungbarnaleikskóli. Leikskólaplássum var fjölgað og eru nú 933 pláss í boði.
Lækka leikskólagjöld um 25% – Leikskólagjöld hafa lækkað um 5% á ári síðan 2018.
Bæta skólaþjónustuna – Ráðgjöf skólaþjónustunnar hefur verið efld með fleiri stöðugildum sálfræðinga og auknu stöðugildi talmeinafræðings. Meiri samvinna við fjölskyldusvið og barnavernd.
Átak í upplýsingatæknimálum – Spjaldtölvur og krómbækur eru nú í hverjum grunnskóla. Sérstakur ráðgjafi fenginn til að innleiða rafræna kennsluhætti. Leiðtogateymi nú í hverjum skóla.
Endurbætur skólahúsnæðis – Öll skólamannvirki skimuð og miklar endurbætur gerðar, sérstaklega í Varmárskóla.
Endurskoðun menntastefnu – Unnið er að endurskoðun menntastefnu og verður rafrænt Íbúaþing nú á laugardaginn. Innleiðing á stefnunni hefst byrjun árs 2022.
Helgafellsskóli heildstæður 200 daga skóli – Í upphafi skólaárs var fullbúinn skóli tekinn í notkun og 200 daga skóli hefur verið innleiddur á yngsta stigi.
Fjölga stöðugildum í Listaskólanum – Stöðugildum í Listakólanum hefur verið fjölgað á undanrörnum árum.

Eins og sést á upptalningunni hér á undan hefur gengið vel að framkvæma þau stefnumál sem kynnt voru af meirihlutanum í upphafi kjörtímabilsins og eru þau öll orðin eða alveg að verða að veruleika.

Áframhaldandi uppbygging
Áfram verður haldið með uppbyggingu í Mosfellsbæ og hefur m.a. verið tekin ákvörðun um byggingu leikskóla í Helgafellshverfi sem hefst á næsta ári. Í drögum að fjárhagsáætlun til ársins 2025, sem nú er til umræðu í bæjarstjórn og nefndum, er gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýrri þjónustubyggingu við íþróttahúsið að Varmá. Í þjónustubygginguinni er m.a. gert ráð fyrir nýju anddyri, búningsaðstöðu og aðstöðu fyrir Aftureldingu. Höldum áfram að gera góðan bæ betri.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
og formaður fræðslunefndar.

Skólaþing Mosfellsbæjar

Hulda M. Eggertsdóttir

Mosfellsbær bauð til skólaþings á dögunum til að endurskoða skólastefnu Mosfellsbæjar. Væntanlega til að bæta brag og gefa þeim sem veita og nýta þjónustuna tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Frábært framtak.
Ég ákvað að skella mér, svona bara til þess að breyta heiminum. Þetta var vel skipulagt, búið að raða foreldrum í hópa eftir aldri barns. Ég lenti í frábærum hóp foreldra. Mér kom skemmtilega á óvart erindi Ingvar Hrannars Ómarssonar kennara og frumkvöðuls. Hann talaði um að það væri ekki lengd skjátíma heldur hvað væri verið að vinna í á skjánum sem skipti öllu. Spurningarnar voru helst til of margar og því var oft erfitt að klára að svara þeim á stuttan og einfaldan hátt. Bestar fundust mér spurningarnar um hvernig myndi ég breyta og bæta ef ég réði öllu. Og hin spurningin sem mér fannst betri og betri eftir því sem leið á frá þinginu, eru framúrskarandi skólar í Mosfellsbæ?
Það var augljóst að foreldrunum var mjög umhugað um velferð barnanna sinna. Það kom fram að þeir vildu starfsfólk sem væri hlýtt í viðmóti og myndaði tengsl við börnin. Að börnunum liði vel í skólanum, að þau lærðu góða siði, væru kurteis og til fyrirmyndar. Þá var mér hugsað til allra barnanna sem líður illa í skólanum og eru ókurteis.
Það er verið að gera mjög margt gott í skólastarfinu í Mosfellsbæ en engu foreldri á svæðinu fannst einhver skóli í Mosfellsbæ framúrskarandi, það virtist koma nærstöddum á óvart. En eftir sem ég hugsa þessa spurningu betur þá hef ég vissulega upplifað framúrskarandi fólk í skólanum. Framúrskarandi er eitthvað sem er eftirtektarvert og vel gert.
Mér finnst ekkert merkilegt að kennari kenni nemanda sem er sterkur fyrir og sá nemandi sé hæstur í öllu og finnist gaman að læra. Það sem mér finnst framúrskarandi eru kennarar eins og íþróttakennararnir í Varmárskóla sem fá nemendur sem finnst erfitt að fara í sund og íþróttir til að fá áhuga og gleði á því að fara í sund og íþróttir. Það er töluvert auðveldara að læra það sem liggur vel fyrir manni heldur en það sem er erfitt. Að geta mætt nemandanum þar sem hann er staddur, með mildi og gleði. Að vekja áhuga á því sem verið er að læra. Það er gífurlegur kraftur í því að upplifa að vera mætt þar sem maður er staddur, að sett séu raunhæf markmið, vakinn sé áhugi. Að upplifa að það sé traust, að kennarinn hafi trú á viðkomandi. Það er framúrskarandi kennsla.
Mér fannst mikið til nýja skólastjórans í Varmárskóla koma þegar hún sagði að mestu skipti að börnum liði vel og að þau lærðu að taka þátt í samfélagi. Það væri hægt að googla Pýþagórasregluna. Tækniframfarir eru gríðarlega hraðar og hlutirnir eru að breytast hratt.
Ég tel að við þurfum að endurhugsa hvernig við kennum börnunum okkar og hvað við þurfum að kenna þeim. Ég tel að svarið sé ekki að bæta stanslaust á nemendur, kennara og foreldra. Við þurfum að breyta um viðhorf og aðferðir.
Ef ég réði öllu í skólastefnu Mosfellsbæjar þá myndi ég byrja á því að senda starfsfólk á námskeið í virkri hlustun. Það kostar ekki mikið og skilar miklum árangri. Það veldur svo mikilli streitu að upplifa að það sé ekki hlustað, að vera ekki mætt þar sem maður er staddur. Þetta er ekki flókið en mjög skilvirkt. Byrja skólann kl. 9, minnka streitu hjá nemendum, kennurum og foreldrum. Sleppa heimanámi. Gera skapandi lærdómi hærra undir höfði. Finna leiðir til að fá sem mest fyrir minnst erfiði. Finnar eru að fá góðar niðurstöður úr Pisa könnunum. Kenna gagnrýna hugsun, sköpunarkraft, samkennd og sjálfsvirðingu. Hætta að reyna að troða öllum í litla þrönga boxið. Virkja kraftinn, ekki bæla niður.
Sumir kennarar eru framúrskarandi og eru alveg með þetta en skólakerfið er ekki með þetta almennt. Ég vona heitt og innilega að menntastefna Mosfellsbæjar sem verður kynnt verði framúrskarandi.

Hulda M. Eggertsdóttir
Foreldri skólabarna í Mosfellsbæ

Fimm leiðir í átt að vellíðan!

Berta Þórhalladóttir

Langt síðan síðast, Berta hér að skrifa. Það er frábært að sjá hvað Mosfellingar eru duglegir að hreyfa sig. Þar sem ég brenn fyrir því að miðla því hvað veitir okkur vellíðan þá langaði mig að deila með ykkur fimm leiðum sem eru byggðar á rannsóknum í átt að aukinni vellíðan.
Eflaust vita margir af þessum leiðum en það er hollt og gott að minna sig á!

1. Mynda tengsl
– Við höfum þörf fyrir að mynda tengsl við fólkið í kringum okkur. Hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnufélagar eða nágrannar. Það getur aukið hamingjuna að bjóða góðan daginn og brosa til náungans.

2. Að hreyfa sig
– Öll hreyfing er af hinu góða, hvort sem það er göngutúr, að rækta garðinn, dansa eða mæta í ræktina. Með því að æfa með hóp af fólki eða vinum þá aukum við líkurnar á því að við hreyfum okkur oftar.

3. Að taka eftir
– Höldum áfram að vera forvitin, tökum eftir því hvernig umhverfið breytist þegar veturinn skellur á. Verum vakandi fyrir því hvað er að gerast í kringum okkur og hvernig okkur líður.

4. Að prófa nýja hluti og skora á okkur sjálf
– Prófum að fara nýja leið í vinnuna, skráum okkur á nýtt námskeið eða ef til vill breytum okkar hefðbundnum venjum eins og að setjast á nýjan stað við matarborðið. Það getur verið skemmtilegt að prófa nýja hluti og enn fremur getur það leitt til jákvæðra áhrifa á vellíðan okkar og sjálfstraust.

5. Gefum af okkur
– Að gefa af sér þarf ekki að kosta neitt. Í einföldustu mynd getur það verið að brosa til náungans, segja eitthvað fallegt við vini okkar, sýna þakklæti eða gefa af tíma okkar. Það getur jafnframt verið gott að muna eftir því að vera góður við sjálfan sig og hrósa sér af og til.

Rannsóknir sýna að lítilsháttar aukning á vellíðan getur hjálpað okkur að blómstra í lífinu og það að gefa þessum þáttum gaum getur styrkt okkur í þeirri vegferð.
Að lokum má ég til með að segja ykkur frá námskeiði sem ég mun leiða í World Class Mosfellsbæ, sem heitir Súperform! Þar munum við styrkja tengslabönd okkar með því að æfa saman í hóp, skorum á okkur með því að prófa nýja hluti og styrkjum sjálfstraust okkar.
Þetta er 6 vikna námskeið sem hefst þann 1. nóvember næstkomandi.
Æfingar fara fram á mánu-, miðviku- og föstudögum kl. 17:30. Föstudagstíminn mun fara fram í heitum sal og er í mýkri kantinum þar sem hann er tileinkaður sjálfsumhyggju.
Ef þetta er eitthvað sem heillar þig þá er hægt að skrá sig á námskeiðið hjá World Class.

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir

Menntastefna Mosfellsbæjar í mótun

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Bærinn stækkar og börnum fjölgar.

Umhyggja og vellíðan eru orð sem heyrðust á skólaþinginu sem haldið var í Helgafellsskóla þann 11. október síðastliðinn. Þar sátu fulltrúar foreldra og lögðu fram sínar hugmyndir í vinnu við endurskoðaða menntastefnu Mosfellsbæjar. Fyrr þennan sama dag höfðu nemendur og kennarar sagt sínar skoðanir og lagt sitt af mörkum við mótun stefnunnar.
Stefnan sem nú er í mótun byggist á Skólastefnu Mosfellsbæjar frá 2010 en sú stefna gaf nýjan og metnaðarfullan tón þar sem raddir barna voru í hávegum hafðar. Þar sýndi Mosfellsbær mikið frumkvæði. Stefnan er einnig, líkt og aðrar stefnur sem gerðar hafa verið, byggð á heildarstefnumótun Mosfellsbæjar þar sem mótuð var framtíðarsýn og áherslur fyrir sveitarfélagið.
Bærinn hefur stækkað og börnum fjölgað og mikilvægt að sem flestir komi að gerð stefnunnar því þannig náum við sátt um hverjar áherslurnar eiga að vera í skólastarfi í okkar bæ. Þann 6. nóvember verður haldið íbúaþing í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ og hvetja bæjaryfirvöld Mosfellinga til þátttöku á þinginu.

Fulltrúi frá hverjum skóla
Vinna við stefnuna hófst í maí sl. og á stefnan, samkvæmt áætlun, að verða tilbúin til útgáfu og innleiðingar í byrjun árs 2022. Öll vinna og utanumhald um nýja menntastefnu er í höndum verkefnateymis og Ragnheiðar Agnarsdóttur ráðgjafa. Í verkefna­teyminu eru fulltrúar frá hverjum skóla bæjarins ásamt fulltrúa frá frístundaseli.

Stöðug þróun
Þótt skólar séu í eðli sínu íhaldssamar stofnanir er stöðug þróun í gangi og sífellt verið að skoða hvernig mæta megi börnum betur í skóla fjölbreytileikans. Til að hefja þessa endurskoðun á menntastefnu voru lagðar fram nokkrar spurningar til umræðu og má nefna; hver eru og verða okkar meginviðfangsefni næstu 3-5 árin? Hvernig ætlum við að mæta áskorunum? Hver eiga gildi skólastarfs að vera? Hver eru markmið skólastarfsins? Hvernig getum við lagt mælikvarða á árangur daglegs starfs? Hvernig birtum við og miðlum mælikvörðum? Hvernig tölum við meira um það sem vel er gert? Getum við sýnt meiri samstöðu þegar upp koma áskoranir í skólastarfinu? Hver er sérstaða skólastarfs í Mosfellsbæ?
Þetta eru mikilvægar spuringar og er ég sannfærð um að við náum góðri sátt um hvert við stefnum í fræðslumálum í Mosfellsbæ.

Fræðslumál í forgangi
Nú í tíð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafa skólamálin ávallt verið í forgangi. Fyrir utan vinnu við menntastefnuna eru ótal mörg verkefni á dagskrá. Í kjölfar mikillar fjölgunar íbúa í bæjarfélaginu á síðastliðnum árum hefur verið byggður nýr grunnskóli í Helgafelli og á næsta ári verður byggður nýr leikskóli í sama hverfi.
Eins árs gömul börn er okkar nýi árgangur á ungbarnadeildum sem hefur kallað á miklar breytingar á leikskóladeildum og leikskólalóðum. Má nefna að leikskólinn Hlíð er nú eingöngu ungbarnaleikskóli en þar fer fram gríðarlega faglegt og fallegt starf með okkar yngsta fólki. Einnig má nefna átak í upplýsingatæknimálum og síðast ekki síst miklar endurbætur á skólahúsnæði og íþróttamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt.

Meðfylgjandi eru töflur sem sýna fjölgun leik- og grunnskólabarna sl. 10 ár. Þetta eru okkar mikilvægustu verkefni og verða áfram.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Skipulag og andmæli til heimabrúks

Ljósmynd tekin frá tjaldstæði Mosfellsbæjar yfir í átt að Esjunni.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þ.e. á fundi skipulagsnefndar nr. 453 þann 19. janúar 2018, var samþykkt harðorð bókun um áform Reykjavíkurborgar að koma fyrir mengandi iðnaði á Esjumelum.
Fund þennan sátu: Bryndís Haraldsdóttir, Bjarki Bjarnason, Theódór Kristjánsson, Samson Bjarnar Harðarson, Júlía Margrét Jónsdóttir og Gunnlaugur Johnson sem áheyrnarfulltrúi. Að auki sat Ólafur Melsteð skipulagsfulltrúi fundinn sem staldraði reyndar stutt við sem starfsmaður Mosfellsbæjar og starfar nú á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar sem verkefnastjóri skipulagsfulltrúa.
Í bókun nefndarinnar segir m.a.: ,,Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar lýsir yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á athafnasvæði á Esjumelum norðan við Leirvogsá. Nefndin mótmælir því ef koma skal mengandi iðnaður með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa í Mosfellsbæ og nágrenni. Slík starfsemi væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur því svæðið er skipulagt sem athafnasvæði en ekki iðnaðarsvæði.“
Í bókun nefndarinnar er svo m.a. minnst á áformaða moltugerð, Leirvogsá sem dýrmæta laxveiðiá og útivistarperlu. Það er því greinilegt að nefndarmönnum var mikið niðri fyrir enda stutt í kosningar.
Á bæjarstjórnarfundi númer 709 var þessi dagskrárliður samþykktur með öllum atkvæðum bæjarstjórnarmanna, þ.e. með 9 atkvæðum. Þann bæjarstjórnarfund sátu: Bjarki Bjarnason, Rúnar Bragi Guðlaugsson, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Haraldur Sverrisson, Hafsteinn Pálsson, Theódór Kristjánsson, Anna Sigríður Guðnadóttir, Ólafur Ingi Óskarsson og Sigrún H. Pálsdóttir ásamt fundarritaranum Arnari Jónssyni. Því er greinilegt að mikil samstaða var um að mótmæla þessum áformum Reykjavíkurborgar harðlega.
Á síðari fundi skipulagsnefndar númer 457 þann 16. mars 2018 sátu allir sem sátu á fyrrnefndum fundi. Þar voru teknir fyrir og samþykktir dagskrárliðirnir nr. 3 um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um breytta afmörkun landnotkunar, og nr. 4 einnig um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 en sérstaklega um iðnað og aðra landfreka starfsemi sem nefndin gerði réttilega athugasemd við. Það er í góðum takti við harðorða bókun nefndarinnar á 453. fundi nefndarinnar frá því í janúar.
Á fundi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins (SSH) 2. mars 2018, sem Bryndís Haraldsdóttir sat fyrir hönd Mosfellsbæjar, var þrátt fyrir allt samþykkt undir 5. dagskrárlið áform Reykjavíkurborgar um „endurskilgreiningu landnotkunarheimilda á einstökum“ atvinnusvæðum og engin athugasemd gerð um það af hálfu fulltrúa Mosfellsbæjar, síður en svo. Bókun nefndarinnar er eftirfarandi: „Svæðisskipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við verklýsinguna enda verði horft til greiningar svæðisskipulagsnefndar um landþörf iðnaðar- og athafnasvæða á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að viðhafa gott samstarf allra sveitarfélaganna þegar kemur að staðsetningu á starfsemi sem hefur ónæði í för með sér.“
Gufuðu andmælin öll upp? Síðar á 83. fundi svæðisskipulagsnefndarinnar 4. maí 2018 var tekin fyrir 2. dagskrárliður þar sem fulltrúi VSÓ kynnti frumniðurstöður úttektar á athafna- og iðnaðarsvæðum innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Ekki er annað séð á bókun nefndarinnar í heild sinni, þar sem 2 fulltrúar Mosfellsbæjar sátu rétt fyrir kjördag, að kynningunni og áformunum hafi verið fagnað.
Nú er svo komið að ágætt fyrirtæki, sem vissulega gætir sinna hagsmuna, hefur reist malbikunarstöð á Esjumelum. Markmiðið var að um væri að ræða mengunarlausa stöð þar sem illa nýtt metan frá Sorpu gerði stöðina grænni en hún annars yrði. Fregnir herma að enn hafi ekkert orðið úr þeim áformum þar sem Sorpa getur ekki afhent með góðu móti nægt metan í því magni sem til þarf svo þurrka megi fylliefnið í malbikið án þess að dregið sé úr afköstum.
Eftir stendur fyrir okkur Mosfellinga að útsýnið er orðið allt annað „þökk“ sé mótmælum meirihlutans í bæjarstjórn o.fl. Svo virðist sem gufan hafi hér stigið mönnum til höfuðs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar og á sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins (SSH) fyrir Mosfellsbæ.

Helgafellshverfi í mikilli uppbyggingu

Deiliskipulag 5. áfanga Helgafellshverfis sem er í auglýsingu.

Ásgeir Sveinsson

Uppbygging í Helgafellshverfi er komin vel á veg, fjöldi fólks er fluttur á svæðið og glæsilegur grunnskóli farinn að þjónusta nýja íbúa Mosfellsbæjar.
Hið stóra hverfi hefur að mestu byggst upp í samræmi við rammaskipulag sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar árið 2005. Fyrsti áfangi var miðsvæði hverfisins sem jafnan nefndist „Augað“. Þar er vönduð og þétt byggð næst þjónustunni. Síðan hafa tveir vel heppnaðir áfangar fullbyggst í kjölfarið, 2. og 3. áfangi.
Framkvæmdir í 4. áfanga Helgafellshverfis hófust árið 2020 og er það Byggingafélagið Bakki ehf. sem sér um uppbyggingu á því svæði. Byggðarmynstur 4. áfanga einkennist helst af sérbýli bæði sem einbýli og raðhús en einnig verður úrval eigna í smærri tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 21. október sl. var samþykkt að setja í auglýsingu deiliskipulag fyrir 5. áfanga Helgafellshverfis. Í 5. áfanga er gert ráð fyrir að verði um 150 íbúðareiningar, mestmegnis einbýlis-, par- og raðhús. Auk þess verða nokkur lágreist tveggja hæða fjölbýli neðst í áfanganum. Þannig njóta allar lóðir útsýnis og sólarátta. Síðan er svo gert ráð fyrir í skipulaginu lóð undir 5 íbúða búsetukjarna fyrir fólk með fötlun. Hönnun skipulagsins hefur tekist einstaklega vel og þá sérstaklega að laga það vel að umhverfinu í kring. Það er því óhætt að segja að 4. og 5. áfangi Helgafellshverfis verði mjög góð viðbót við það glæsilega hverfi sem hefur verið að byggjast upp í suðurhlíðum Helgafells.

Helga Jóhannesdóttir

Markmið deiliskipulags hverfisins eru meðal annars að móta byggð sem sé til þess fallin að stuðla að góðu mannlífi, tryggja góð tengsl við umhverfið og gott fyrirkomulag stíga, gatna og opinna svæða. Byggð mun auk þess stuðla að góðri skjólmyndun fyrir svæðið í heild. Gata hins nýja áfanga mun bera heitið Úugata, eftir persónunni Úu úr bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness.
Mosfellsbær er eigandi þessa landskika og mun því sveitarfélagið annast úthlutun nýrra lóða á næsta ári. Það þykir frekar sjaldgæft því eins og margir vita er mikið land innan landamerkja Mosfellsbæjar í einkaeigu.

6. áfangi næstur í röðinni
Uppbygging mun svo halda áfram og því hefur verið ákveðið að auglýsa skipulagslýsingu fyrir 6. áfanga Helgafellshverfis. Um er að ræða nyrsta hluta hverfisins fyrir norðan Ásahverfið og er þar gert ráð fyrir 90 nýjum sérbýliseignum.
Auk ofangreindra áfanga er svokölluð Helgafellstorfa á skipulagi Helgafellshverfisins, en það er svæði í kringum Helgafellsbæina gömlu. Þar er gert ráð fyrir byggð í framtíðinni.
Í framhaldi af nýbyggðum glæsilegum Helgafellsskóla þar sem er bæði grunn- og leikskóli, hefur verið ákveðið að byggja annan leikskóla í hverfinu. Áætlað er að hann verði svo tilbúinn árið 2023. Verða þessar frábæru byggingar barna og ungmenna hjarta hverfisins.
Það er ánægjulegt að geta aukið framboð lóða fyrir íbúðahúsnæði í Mosfellsbæ. Þetta fallega hverfi er með frábæra staðsetningu, sérstaklega fjölbreytt og fallegt, þar sem stutt er í náttúru Mosfellsbæjar, góðar gönguleiðir, skóla og aðra þjónustu.

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar.
Helga Jóhannesdóttir
nefndarmaður í skipulagsnefnd.

Forn klukkuómur frá 9. öld í Mosfellsdalnum

Björn Pétursson

Ævaforn kirkjuklukka í Mosfellskirkju frá frumkristni á Íslandi.

Mosfellsdalurinn hefur verið sögusvið merkra atburða sem tengjast kristninni, allt frá kristnitökunni á Íslandi er Grímur Svertingjason lögsögumaður að Mosfelli er skírður, þegar kristnin var lögtekin á Alþingi, en hann var giftur Þórdísi Þórólfsdóttir bróður- og stjúpdóttur Egils Skallagrímssonar, lét Grímur fljótlega reisa kirkju að Hrísbrú um 1001-1002, en sú kirkja er síðan ofan tekin að Hrísbrú, er Grímur hafði látið gera og kirkja reist að Mosfelli, lætur Þórdís þá flytja Egil Skallagrímsson til kirkju að Mosfelli.

Hundrað og tuttugu árum fyrr verður atburður, sem átti eftir að tengja sögu kirkjunnar á Mosfelli við landnámsmanninn Örlyg Hrappsson, sem nemur land í landnámi Helga Bjólu Ketilssonar frænda síns, sem gefur honum land milli Mógilsár og Ósvifslækjar á Kjalarnesi um 880, reisir hann þar kirkju kennda við Esjuberg, hefst þá sagan sem tengir kirkjuna kennda við Esjuberg frá um 880 og kirkjuna á Mosfelli um 1523.

Landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson kemur til Ísland frá Iona á Suðureyjum við vesturströnd Skotlands, en áður ákveður hann þó að mennta sig í hinum virta klausturskóla Kólumba á Iona, ásamt Kolli fóstbróður sínum, en frá árinu 865 var klaustrið á Iona á suðureyjum við vesturströnd Skotlands, nefnilega undir stjórn ábóta sem hét Federach mac Cormaic, hann leggur honum til kirkjuviðinn til að reisa kirkjuna kennda við Esjuberg; gullpening, vígða mold til að leggja undir hornstafi kirkjunnar, plenarium (írska messubók) og járnklukku vígða, en járnklukkan góða, er sú sem vefur saman söguþráð kirkjunnar sem kennd er við Esjuberg og kirkjunnar á Mosfelli.

Járnklukkan vinstra megin við altarið í nýju Mosfellskirkjunni, vígð 4. apríl 1965.

Járnklukkan góða er sú sama sem Halldór Kiljan Laxness skrifar um í Innansveitarkroniku bls 179–180, er hann lýsir kirkjuklukkunni (járnklukkunni) sem kom úr Mosfellskirkju eldri (1852-1888) og segir m.a :
Ramböldin eru fest ofan í klukkuhöfuðið með digrum koparlykkjum og mynda sexálma krónu (6–skipta) er klukkan hrjúf áferðar; hvorki kólfur né króna steypt, aðeins óvandlega hamrað.
Skrautrendur tvær sem ganga kringum bumbuna (krónuna), uppi og niðri í meira lagi skakkar, gerðar í mótið fríhendis eftir auganu.
Fróðleg væri að vita hvar svona klukka hafi verið steypt síðan fyrir árið 1000, en að dómi fornleifafræðinga virðist hún vera frá níundu öld, var klukkan fest upp í kórnum vinstra megin við altarið í þessari nýju kirkju á Mosfelli vígð 4. apríl 1965.
„Það er einginn efi á því að þessi klukka geymir hljóm síðan úr fornöld.
Tónn hennar er mikill í sér, lángur og skær og dvín titrandi.
Presturinn sagðist ætla að hríngja henni sjálfur við barnaskírnir af því hljómurinn í henni væri svo fallegur meðan hann væri að deyja út.“

Ferðalag kirkjuklukkunnar (járnklukkunnar) úr kirkjunni kenndri við Esjuberg um 1269-1275, hefst þegar Árni Þorláksson Skálholtsbiskup (1269-1298) tekur kirkjuklukkuna (járnklukkuna) um 1269, er hafði verið spillt af ryði, lét búa og líma öll blöðin í kjölinn, en eftir viðgerðina í Skálholti um 1275 fer kirkjuklukkan (járnklukkan) að Hofi á Kjalarnesi í hálf kirkjuna og er hún þar til um 1523, þegar Ögmundur Pálsson verður Skálholtsbiskup (1521-1541), færist þá kirkjuklukkan (járnklukkan) frá hálf kirkjunni að Hofi á Kjalarnesi í Mosfellskirkju frá um 1523, en hverfur þá af sjónarsviðinu, og verður aftur sýnileg, þegar hún birtist í klukkuturninum á Mosfellskirkju eldri (1852–1888).

Kirkjuklukkan (járnklukkan) hverfur síðan aftur af sjónarsviðinu 1888, er saga hennar þekkt úr Innansveitarkroniku Halldórs Kiljan Laxness, þar til hún birtist síðan aftur í nývígðri Mosfellskirkju 4. apríl 1965, þar sem hún er fest upp vinstra megin við altarið, en þarna er hún með sinn fornaldarhljóm frá 9. öld, sem óskilgetið barn, sem bíður þess að uppruni hennar verði sannaður, og telst þá vera elsta kirkjuklukka Íslands um 1150 ára.

Björn Pétursson

Helgafellshverfi – nýir áfangar og nýr vegur

Stefán Ómar Jónsson

4. áfangi
Eins og íbúar í Helgafellshverfi hafa eflaust orðið varir við eru hafnar framkvæmdir við 4. áfanga í Helgafellshverfi og miðar þeim vel í höndunum á traustum byggingaraðila, Byggingarfélaginu Bakka ehf.

5. áfangi
Á síðasta fundi skipulagsnefndar var til umræðu uppbygging á 5. áfanga í Helgafellshverfi og er sá áfangi alfarið á hendi Mosfellsbæjar, bæði að skipuleggja og í framhaldinu að úthluta þeim lóðum sem þar verða til.
Í 5. áfanga er ráðgert að íbúðir verði í fjölbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum, einbýlishúsum auk búsetukjarna og verða áformin kynnt íbúum og hagsmunaaðilum svo sem skipulagslög gera ráð fyrir.

Vegtenging austur úr Helgafellshverfi
Á þessum sama fundi skipulagsnefndar varð umræða um vegtengingu austur úr Helgafellshverfi þar sem fulltrúi Vina Mosfellsbæjar lét bóka eftirfarandi. „Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar minnir á að hann hefur í tvígang flutt tillögu um að þegar verði hafinn undirbúningur að gerð vegar austur úr Helgafellslandi og mun fylgja þeim tillöguflutningi eftir“.
Vegur austur úr Helgafellshverfi er á aðalskipulagi Mosfellsbæjar, vegurinn er ráðgerður og nauðsynlegur og hefjast þarf handa við undirbúning lagningar hans svo fljótt sem verða má.

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Ófærð í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í nýliðnum mánuði kom fram í fréttum að fyrrverandi forseti Íslands kæmist ekki lengur með góðu móti í reglulegan göngutúr um Mosfellsbæ.
Ástæða þess er að samgöngumannvirki fyrir gangandi til og frá heimili hans meðfram Varmá væru ekki aðeins torfær heldur ófær. Hafði Varmáin blessunin bólgnað nokkuð og flæddi yfir bakka sína. Forsetinn fyrrverandi reyndi að fara með löndum og birti athugasemd sína á Twittersíðu sinni á enskri tungu. Stillti hann athugasemdum sínum í hóf en engu að síður fengu þær heimsathygli.
Í 3. ml. 3. mgr. yfirmarkmiða 6. kafla um staðarmótun og landslagsvernd, sem lesa má í tillögu Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðherra að landsskipulagsstefnu (2015-2026) frá í febrúar sl., segir: „Eins getur húsum, götum í þéttbýli, vegum í sveitum og útivistarstígum verið þannig fyrir komið að fólki gefist tækifæri til að skynja og öðlast nýja sýn á landslag viðkomandi svæðis.“ Þessi texti á vel við hvað umhverfið meðfram Varmá varðar.

Svo virðist sem bæjaryfirvöld hafi eitthvað tjáð sig um málið. Segir sagan að ástæðan fyrir því að útivistarstígurinn væri forsetanum fyrrverandi ófær sé sú að íbúar við Varmá vildu ekki fórna landi sínu svo hemja mætti á sem væri á náttúruminjaskrá.
Svo virðist sem að deilur hafi staðið í áraraðir og Mosfellsbær ákveðið að friða ána alla árið 2012 til að lægja öldurnar. En Varmá tók þessu greinilega fálega enda flæðir hún enn yfir bakka sína, nú víðs fjarri heimili fyrrverandi forsenda landsins eða í um 300 metra fjarlægð. Fullyrt er að einhver skýrsla hafi verið tekin af forsetanum fyrrverandi af hálfu Mosfellsbæjar en engar spurnir eru af henni og hún líklega flotið hjá kerfinu í vorleysingum.

Mynd tekin við göngustíg á bökkum Varmár í Mosfells­bæ. Ljósmyndari: Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti Íslands og íbúi í Mosfellsbæ.

Fyrir leikmenn, m.a. þá sem ekki hafa komið nálægt opinberri stjórnsýslu svo nokkru nemi, virðist sem þarna þurfi tvo til þrjá vaska menn með skóflu í tvo til þrjá daga svo leysa megi vandann. En það þarf víst að bíða eftir skýrslunni.
Samkvæmt forstöðumanni Þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar, sem er jafnframt staðgengill bæjarstjóra í erfiðum málum, er Varmá á náttúruminjaskrá eins og að framan er getið.
Ekki má lesa úr þeirri tilvitnun, sem finna má á vef Fréttablaðsins 17. september 2021, annað en að fyrrverandi þjóðhöfðingi okkar verði að búa við torfæra stíga mun lengur en vænta mátti. Sama á einnig við um aðra bæjarbúa sem bregða sér reglulega í göngutúra í Mosfellsbæ.
Rétt er hér að ítreka að friðun árinnar allrar gekk í gildi 2012 en gildandi deiliskipulag, sem gerir ráð fyrir útivistarstíg með Varmánni, er frá árinu 2004. Því hefði verið í lófa lagið, þ.e. í tíð fyrri meiri hluta Sjálfstæðisflokks og VG, að koma málum þannig fyrir að göngustígar séu fremur færir en torfærir og hvað þá ófærir. Til að tryggja upplýsingaflæði og gagnsæi gagnvart bæjarbúum hefur bærinn merkt stíga torfæra.
Reikna má með að rosknir íbúar Mosfellsbæjar þurfi nú að ráða til sín fjallaleiðsögumenn áður en haldið er í göngutúr um bæinn, a.m.k. meðfram Varmánni.
Mosfellsbær rekur hér metnaðarfulla stefnu sem byggir á verkefninu Heilsueflandi samfélagi. Þar er sérstök áhersla lögð á hreyfingu og útivist. Ítrekað er mikilvægi þess að „einstaklingar á öllum aldri hafi tækifæri til að þroskast í leik og starfi, að hægt sé að bæta hið manngerða og huga að félagslegu umhverfi íbúa.“
Um lífsgæði segir: „Hér er einnig komið inn á heilsusamlegt húsnæði og umhverfi fyrir alla.“. Yfir þessu verkefni er stýrihópur sem ætti að standa með forsetanum fyrrverandi og þrýsta á úrbætur áður en vetur konungur gengur í garð. Það er ekki auðsamið við hann þegar allt frýs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins
í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Andlegt ferðalag

Í lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tímanum atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og það getur verið erfitt að átta sig á því.
Ég er þarna engin undantekning og fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slokknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega búinn á því, gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu.
Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með en var ekki ánægður. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel, einangraði mig og sinnti ekki mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.
Dag einn hitti ég vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist sjálfur við ástandið. Hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna og hvernig hann hafði náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt, fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara.
Á einum vetri hafði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann tileinkaði sér nýjan lífstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því varð hann aftur sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég fyndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Kynningarfundur verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, miðvikudaginn 6. október kl. 19.30. Næstu þrjú miðvikudagskvöld eftir það verða opnir fundir til frekari kynningar en 27. október, kl 19.30 er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.
Bestu kveðjur

Vinur í bata

Ádrepa

Guðjón Jensson

Mörgum hefur ofboðið grasslátturinn á vegum Mosfellsbæjar í sumar sem leið. Oft hefur kappið borið skynsemina ofurliði en nú virðist þessi sláttustefna hafa færst heldur betur í aukana. Verið var að þessu sinni að fram yfir lok september og jafnvel enn verið að slá þá þessar línur eru ritaðar. Það ætti að vera sjaldséð að blettir séu hafðir snöggslegnir að hausti.

Allir skynsamir garðeigendur hætta slætti um mánuði fyrr og leyfa grasinu að vaxa síðsumars og hafa grasblettina dálítið loðna yfir veturinn. Það kemur í veg fyrir kal og að mosi nái sér á strik.
Þessi grassláttarstefna bæjarfélagsins hlýtur að kosta verulega háar fjárhæðir sem mætti verja í annað þarflegra eins og að lagfæra göngustíginn sunnan við Varmá ofan við Dælustöðina. Það aðgerðarleysi er bæjaryfirvöldum vægast sagt til mjög mikils vansa.

Mosfellsbær er þekktur fyrir að vera mikill útivistarbær. Óvíða eru jafn margar skemmtilegar gönguleiðir og hér enda fjölbreytni mjög mikil. Vinsælar gönguleiðir eru á Úlfarsfell, Helgafell, Reykjaborg, Reykjarfjall, Mosfell og fleiri mosfellsk fjöll. Nýverið var bætt gönguleið við Bringur áleiðis að Helgufossi en betur má ef duga skal.
Mætti ekki verja sláttupeningnum fremur í að bæta stígakerfi innan bæjarmarkanna en hvarvetna eru verkefni? Ýmsar leiðir mætti skoða.

Hestafólkið í Mosfellsbæ þarf beitarhólf og slægjur og hafa hestar bæjarbúa verið fluttir jafnvel landshornanna á milli, í og úr sumarbeit. Einnig hefur heyskapur farið fram utan Mosfellsbæjar hestafólkinu til mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. Víða mætti nýta slægjur bæjarins í þágu hestafólks. Ég fæ ekki skilið annað en að hafa mætti fyrirmyndar samstarf bæjaryfirvalda við Hestamannafélagið Hörð um þessi mál enda eru hestar bæði umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri en sláttuvélar.

Við þurfum að forgangshraða verklegum framkvæmdum. Víða hafa verið gerð mjög alvarleg mistök eins og við skipulag neðst í Súluhöfða þar sem betur hefði mátt vanda til undirbúnings verka. Meira tillit hefði mátt taka til þeirra húseigenda sem fá allt í einu hús örstutt frá sinni lóð, beint framan við stofugluggann sinn í stað góðs útsýnis yfir Leirvoginn og til Esjunnar. En það er efni í aðra grein.

Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com

Fræðsluganga

Úrsúla Jünemann

Eins og lesa má á vef Mosfellsbæjar skipulagði Mosfellsbær, í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélag, fræðslugöngu um Blikastaðakró þann 5. september.
Járngerður Grétarsdóttir grasa­­- fræðingur fræddi fólk um plöntulífið sem fyrir augu bar. Þó að flestar plöntur séu á þessum árstíma ekki lengur í blóma er ekki síður skemmtilegt að læra að þekkja þær á fræi og blöðum. Hrefna Sigurjónsdóttir líffræðingur sagði frá lífríkinu í fjörunni.
Blikastaðakró, þar sem Úlfarsá rennur í sjóinn, er með mjög næringarríka fjöru og spennandi að skoða. Mikið af mismunandi tegundum af þangi og þara er þar að finna. Margæsirnar sem eru á leið frá varpstöðvum sínum á Norðuríshafsströndum til Írlands á haustin stoppa á Íslandi til að næra sig og er eyjan okkar eins konar bensínstöð tvisvar á ári.
Þátttakendur í göngunni skoðuðu einnig alls konar skeljar, kuðunga og hrúðurkarla á steinum. Í leirunum lifa sandormar og burstaormar sem margir fjörufuglar gæða sér á.
Góð þátttaka var og gaman að það voru börn með í göngunni og hversu áhugasöm og virk þau voru í að skoða og fræðast. Ég skora á Mosfellsbæ að stofna til annarrar svona fræðslugöngu snemmsumars þegar fyrstu plönturnar byrja að blómstra og fuglalífið er í fullu fjöri.
Takk fyrir þessa velheppnaða haustgöngu.

Úrsúla Jünemann

Drengirnir okkar í vanda

Karl Gauti Hjaltason

Drengirnir okkar eiga í vanda. Þjóðfélaginu hefur mistekist að styðja við þá á viðkvæmum tíma mótunaráranna, efla þá og þroska á þeirra eigin forsendum. Á sama tíma hefur verið dýrmætt að sjá stöðu stúlkna batna á undanförnum árum, þó vissulega megi þar margt bæta ennþá. En drengirnir mega ekki gleymast.
Slæm staða drengja er eitthvert alvarlegasta vandamál íslensks samfélags í dag. Síðustu ár hafa þúsundir einstaklinga lokið grunnskóla sem munu eiga erfitt uppdráttar í lífinu. Afleiðingarnar eru alvarlegar og margvíslegar, fyrir drengina sjálfa og fyrir samfélagið allt.

Grafalvarleg staða
Sjálfsvíg eru algengasta ástæða dauðsfalla af hjá ungum mönnum. Ef litið er til tíðni sjálfsvíga er hlutfall karla 87% á árinu 2015 í yngsta aldurshópnum, 15 til 35 ára. Komið hefur fram að lestrarvandi drengja við útskrift úr grunnskólanum er geigvænlegur. Árlega ljúka 700 drengir grunnskólanámi án þess að vera þokkalega læsir. Er það boðlegt skólakerfi? Aðeins 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu úr háskólanum eru karlar og karlmenn eru einungis þriðjungur þeirra sem stunda háskólanám. Skólakerfið er gert fyrir duglegar stelpur, segir dr. Hermundur Sigmundsson prófessor sem mest hefur rannsakað ólíka upplifun kynjanna af skólakerfinu. Svo virðist sem tápmiklir og fjörugir drengir finni lítið við sitt hæfi í skólunum, sem eru skipulagðir af konum með þarfir og smekk kvenna í huga. Fyrirmyndir skortir en hlutfall karlkennara í grunnskólum hefur farið lækkandi áratugum saman og er nú komið niður í 17%.

Vandinn eykst með árunum
Vanlíðan drengja birtist með ýmsum hætti. Ef við lítum til notkunar hegðunarlyfja meðal drengja í grunnskólunum er hún meira en helmingi algengari en meðal stúlkna á sama aldri. Þá er brottfall drengja úr framhaldsskólum mun meira en hjá stúlkum. Aukning á nýgengi örorku hefur á undanförnum árum verið örari meðal yngri karla en kvenna. Og þannig mætti áfram telja. Orsakaþættirnir eru margir en líklega vegur þungt að grunnskólar taka ekki nægjanlegt tillit til líffræðilegs munar á kynjunum. Áhugasvið drengja og stúlkna eru ólík en þroski stúlkna virðist henta betur að skólakerfinu sem virðist gera sömu kröfur til allra óháð eiginleikum.

Skólakerfið þarf að henta bæði drengjum og stúlkum
Afleiðingar af vanlíðan margra drengja á mótunarárunum hefur keðjuverkandi áhrif á líf þeirra til framtíðar. Þess vegna er þjóðfélagslega hagkvæmt að ráðast að vandanum þar sem hann birtist í upphafi. Allir kannast við afleiðingarnar. Þunglyndi, fíkniefnaneysla, offita, kvíði, einangrun, afbrot og tölvufíkn ungra manna. Þeir finna ekki sína hillu í lífinu. Skólakerfið þarf að vera í stakk búið til að mennta bæði stúlkur sem drengi. Fyrir ríflega 20 árum var mælt fyrir þingsályktunartillögu um að kanna sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu, en því miður hefur lítið gerst síðan. Miðflokkurinn hefur ítrekað vakið athygli á alvarleika málsins. Vandinn er öllum ljós, það er tímabært að bregðast við.

Karl Gauti Hjaltason, kgauti@althingi.is.
oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Til hamingju, stelpur!

Jón Fannar Árnason

Íþróttaárið 2021 hefur verið frábært hjá stelpum í Aftureldingu. Mörg afrek hafa unnist á síðustu mánuðum. Hérna verður farið yfir þau helstu í tímaröð.
Sunnudaginn 2. maí tryggðu stelpurnar í handbolta sér sæti í Olís deildinni á næsta tímabili. Liðið gerði það með útisigri á Fjölni/Fylki þó að einni umferð væri ólokið.
Nokkrum vikum seinna eða laugardaginn 22. maí urðu blakstelpurnar Íslandsmeistarar með sigri í oddaleik gegn HK. Leikurinn vannst 3-0. Þetta var í fjórða sinn sem Afturelding vinnur þennan titil.
Nýjasta afrekið var fimmtudagskvöldið 9. september en þá unnu stelpurnar í fótbolta sér sæti í Pepsi Max deildinni næsta sumar. Liðið vann 4-0 sigur gegn FH í lokaumferðinni.
Framtíðin er björt hjá stelpum í Aftureldingu. Þið eruð flottar fyrirmyndir.
Til hamingju, stelpur!

Jón Fannar Árnason
tómstunda- og félagsmálafræðingur

Bætt lýðheilsa = sparnaður í heilbrigðiskerfinu

Bryndís Haraldsdóttir

Lýðheilsuaðgerðir miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu.
Hið opinbera á að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Fáir deila um mikilvægi þess að íslenska ríkið greiði niður skuldir þar sem það sparar vaxtagreiðslur til framtíðar.
Svipað er hægt að segja um fjármuni sem varið er til aukinnar heilsueflingar til að bæta lýðheilsu. Slíkt sparar umtalsverð útgjöld til heilbrigðismála til lengri tíma.

Heilsubærinn Mosfellsbær
Mosfellsbær hefur staðið sig einstaklega vel í að viðhalda og varðveita útivistarsvæði bæði innan byggðarinnar og í útjaðri byggðar. Í þessu felast raunveruleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir sem við fáum líka að njóta strax. Tveir golfvellir, tvær sundlaugar, mikið magn göngu- og hjólastíga og stikaðar gönguleiðir á öll fellin okkar meðfram ám og vötnum.
Óhætt er að segja að á tímum Covid hafi útivistarsvæðin sannað gildi sitt svo um munar. Yndislegt hefur verið að fylgjast með fjölskyldum í fjöruferð, fólki á öllum aldri á golfvellinum og aukinn áhugi á fellunum okkar og fossunum hefur heldur betur sýnt sig á þessum furðulegu tímum.
Rannsóknir sýna að gott aðgengi að útivist og fallegu umhverfi eru álitin ómetanleg lífsgæði og það eykur hamingju íbúa. Það stuðlar að aukinni lýðheilsu og sparar fjármuni til framtíðar í heilbrigðis­þjónustu.

Framtíðin er björt
Með bætta lýðheilsu og bjartsýni að leiðarljósi býð ég fram krafta mína til setu á Alþingi. Ég hef í störfum mínum talað fyrir enn betra samfélagi fyrir fjölskyldur í landinu.
Ég hef talað fyrir jafnrétti og umhverfisvernd, ég hef talað fyrir nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Ég hef talað fyrir bættum samgögnum og auknu valfrelsi í samgöngum. Ég hef talað fyrir nýrri nálgun í heilbrigðis­málum. Árangur núverandi ríkisstjórnar hefur ekki látið á sér standa.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ríkissjóður haft bolmagn til að taka á móti heimsfaraldri með öflugum stuðningsaðgerðum sem tryggðu rekstrargrundvöll fyrirtækja og um leið afkomu heimilanna í landinu. Allir mælikvarðar benda til þess að aðgerðir okkar síðustu kjörtímabil og þær ákvarðanir sem teknar voru í ríkisfjármálum séu grundvöllur þeirrar viðspyrnu sem Ísland býr yfir nú þegar við búum okkur undir að vaxa út úr faraldrinum.
Setjum X við D, strax í dag, og tryggjum að Ísland verði áfram land tækifæranna.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins