Seljadalsnáma eða ekki?

Margrét Guðjónsdóttir

Hvar er Seljadalsnáma? Hún er í Þormóðsdal skammt fyrir ofan Hafravatn. Náman var starfrækt frá 1985 til 2016 samkvæmt samningi Mosfellsbæjar sem landeiganda og Reykjavíkurborgar f.h. Malbikunarstöðvar borgarinnar. Malbikunarstöðin vann steinefni úr námunni til að nota í malbik.
Til að hefja að nýju efnistöku úr námunni þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Þetta hefur helst gerst eftir 2016:
Júní 2017 Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að heimila umhverfissviði bæjarins að hefja vinnu við gerð matsáætlunar (mat á umhverfisáhrifum) vegna Seljadalsnámu.
Júlí 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til kynningar drög að tillögu að mats­áætlun (mat á umhverfisáhrifum) fyrir efnistöku í Seljadalsnámu sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu dags. 29. júní 2020.
Sept. 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til afgreiðslu drög að tillögu að matsáætlun (mati á umhverfisáhrifum) er senda skal Skipulagsstofnun.

Stefán Ómar Jónsson

Skipulagsstofnun fær tillöguna nú til athugunar og mun stofnunin skoða hvort tillagan uppfylli formsatriði og auglýsir hana að óbreyttu. Í því auglýsingaferli fá hagsmunaaðilar og almenningur tækifæri til að koma að athugasemdum sínum.

Það er fyrst þegar öll þessi formsatriði eru að baki, sem hér eru í grófum dráttum tíunduð, að Mosfellsbær tekur afstöðu til þess hvort opna eigi Seljadalsnámu að nýju eða ekki.
Vinir Mosfellsbæjar áttu ekki aðild að bæjarstórn Mosfellsbæjar þegar ákvörðun var tekin um að hefja það ferli sem lýst er hér að ofan. Fulltrúar Vina Mosfellsbæjar í skipulagsnefnd sátu hjá við afgreiðslu skipulagsnefndar í júlí og september sl. en munu taka afstöðu þegar og ef, til þess kemur að tillaga um opnun námunnar kemur fram. Afstaða Vina Mosfellsbæjar verður þá byggð á lokaniðurstöðu skýrslu um matsáætlun, þeim athugasemdum sem komið hafa fram og munu ef til vill koma fram á síðari stigum.
Að mörgu er að hyggja áður en svo stór ákvörðun kann að verða tekin. Náttúran og nærumhverfi íbúa í Mosfellsbæ skipta þar máli.
Sjá má drög að tillögu að matsáætlun:
https://www.efla.is/media/umhverfismat/Seljadalsnama-Drog-ad-kynningu-29.07.2020.pdf

Margrét Guðjónsdóttir varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Leiguíbúðir við Þverholt

Anna Sigríður Guðnadóttir

Árið 2014 tók bæjarstjórn þá sameiginlegu ákvörðun að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að efla almennan leigumarkað í Mosfellsbæ og auka þannig við fjölbreytta búsetukosti fyrir bæjarbúa.
Hugsunin var að fólk gæti fengið öruggt leiguhúsnæði til lengri tíma í bænum. Þá var einnig í umræðunni að bærinn gæti fengið leiguhúsnæði fyrir sína skjólstæðinga enda er viðvarandi biðlisti eftir húsnæði á vegum bæjarins.
Bærinn ákvað að nýta lóð í sinni eigu á besta stað í bænum, í göngufjarlægð frá verslun og þjónustu og með almenningssamgöngur nánast við húsvegginn ásamt frábæru útsýni.
Bærinn auglýsti lóðirnar við Þverholt með kvöðum um leiguíbúðir og var lóðunum úthlutað til fyrirtækis sem síðar kom í ljós að hafði ekki burði til að sinna verkefninu eins og það lá fyrir. Fyrirtækið Bakki sem einnig hafði boðið í verkefnið gekk þá inn í samkomulagið. Eftir því sem verkefninu hefur undið fram hefur fyrirtækið leitað til bæjaryfirvalda um að fá kvöðum aflétt og fá þannig tækifæri til að selja íbúðirnar til einkaaðila og innleysa þannig ábatann strax.
Til að koma til móts við óskir félagsins var gert samkomulag á árinu 2019 um að flytja leigukvaðir af lóðum 27-29, nema 6 íbúðum, yfir á lóðir 21-23 ásamt því að fest var í samning, að frumkvæði Bakka, að leiguverð yrði sambærilegt við útleigu hjá Félagsstofnun stúdenta.
Í sumar kom fyrirtækið aftur til bæjaryfirvalda og vildi niðurfellingu allra leigukvaða. Fyrirtækið tiltók í beiðni sinni árangurslausar viðræður við ýmsa aðila um að kaupa og reka íbúðirnar samkvæmt samningnum. Bærinn sjálfur hefur ekki átt aðild að þeim viðræðum, svo vitað sé, þannig að ekki hefur reynt á að bærinn ræddi við þessa aðila um einhverjar lausnir á vanda Bakka. Því vandinn er Bakka en ekki bæjarfélagsins.
Meirihluti Vinstri grænna og sjálfstæðismanna bauð fyrirtækinu að ganga að flestum kröfum þess þannig að leigukvöðum verði aflétt strax af lóðum 21 og 27-31 en varðandi Þverholt 23, þá skuli kvaðirnar gilda í 15 ár en þó geti Bakki óskað endurskoðunar eftir 5 ár. Miðað við hvernig þetta mál hefur verið unnið verða engar leiguíbúðir á þessum lóðum eftir 5 ár og ekkert eftir af upphaflegri ákvörðun bæjarstjórnar.

Ólafur Ingi Óskarsson

Upphafleg ákvörðun bæjarins gekk út á að efla almennan leigumarkað, stuðla að leiguöryggi og fjölbreyttum búsetukostum í bænum. Þess vegna var umræddri lóð við Þverholt úthlutað með íþyngjandi kvöðum. Af þessari verðmætu lóð á besta stað í bænum voru greidd lögbundin gatnagerðargjöld og byggingarréttargjald eins og af öðrum byggingum í bænum. Byggingarlóðir í eigu bæjarins innan þéttbýlis eru takmörkuð auðlind og mikilvægt að bærinn gæti vel að eigin hagsmunum við úthlutun þeirra gæða.
Þess vegna hefði legið beint við þegar meirihluti VG og sjálfstæðismanna vildi falla frá leigukvöðum á umræddum lóðum að kveðja til óvilhalla matsmenn til að meta virði umræddra lóða við Þverholt og horfa þá til staðsetningar á besta stað í bænum. Þannig að Bakki myndi þá greiða markaðsverð fyrir lóðirnar án íþyngjandi kvaða hvert sem það verð er.
Það hryggir okkur að vinir okkar í Vinstri grænum skuli nú hverfa endanlega frá upphaflegu hugmyndinni um að huga að almennum hagsmunum leigjenda um öruggt, varanlegt leiguhúsnæði í Mosfellsbæ. En kannski er ekki við öðru að búast af VG þar sem hreyfingin hefur verið sammála sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ í einu og öllu í a.m.k. 14 ár.
Við erum ósammála meirihlutanum um langtímahagsmuni bæjarins í þessu máli. Við teljum langtímahagmunum íbúa Mosfellsbæjar best borgið með því að standa við þá ákvörðun sem tekin var um uppbyggingu leiguhúsnæðis með þeim kvöðum sem nú eru í gildi og höfnum þeirri niðurstöðu sem VG og sjálfstæðismenn komust að.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingar

Öll skólamannvirki Mosfellsbæjar skimuð fyrir raka

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ekkert sveitarfélag lagt í jafn viðamiklar aðgerðir.

Vorið 2019 lagði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna til við bæjarstjórn að allt skólahúsnæði Mosfellsbæjar yrði skimað fyrir rakaskemdum og hugsanlegum örveruvexti tengdum þeim.
Ekkert sveitarfélag á landinu hefur lagt í svo viðamiklar aðgerðir til að kanna ástand skólastofnana sinna. Töluverð umræða hefur verið um ástand skólahúsnæðis bæði hér í Mosfellsbæ og annars staðar. Vegna efasemda um heilsufarsvottorð mannvirkjanna ákvað meirihlutinn að láta kanna málið til hlítar. Tillagan var samþykkt einróma af bæjarstjórninni allri.

Sjö leikskólar, tveir grunnskólar og báðar íþróttamiðstöðvarnar
Umhverfissviði bæjarins var falið að láta framkvæma skoðun á öllu skólahúsnæði Mosfellsbæjar m.t.t rakaskemmda og hugsanlegs örveruvaxtar þeim tengdum. Enn fremur var samþykkt að láta gera reglulegar loftgæðamælingar.
Heildarúttektin var boðin út og á endanum samið við EFLU verkfræðistofu og Orbicon um úttekt á mannvirkjunum. Orbicon tók út leikskólana Hulduberg, Höfðaberg, Leirvogstunguskóla, Hlíð, Haðhamra og Reykjakot ásamt Íþróttamiðstöðinni að Lágafelli. EFLA verkfræðistofa tók út Krikaskóla, Lágafellsskóla og Íþróttamiðstöðina að Varmá. Áður hafði EFLA verfræðistofa tekið út allar byggingar Varmárskóla.
Nú liggja niðurstöður fyrir og á heildina litið kom skoðun frá báðum aðilum vel út bæði hvað varðar loftgæði og ástand mannvirkja með tilliti til rakaskemmda. Um var að ræða skimun á loftgæðum ásamt rakamælingum og sjónskoðun eftir sýnilegum rakaummerkjum. Unnið var eftir því hefðbundna verklagi að fara einvörðungu í sýnatöku þar sem ástæða þótti til að lokinni sjónskoðun.
Farið var ítarlega yfir alla leikskólana og íþróttamiðstöðvarnar báðar þ.e að Varmá og Lágafelli. Má nefna að í skýrslum úttektaraðilanna kemur fram að dúkur á eldhúsum leikskólanna er ekki heppilegt gólfefni og verður dúknum skipt út. Einnig skal tekið fram að viðgerðir á þaki íþróttahúsnæðisins að Varmá eru þegar hafnar enda verið á viðhaldsáætlun bæjarins um tíma.

Endurbætur og viðhald á viðhaldsáætlun
Eins og áður var nefnt koma niðurstöður skimunar koma heilt yfir vel út og úrbótum verður forgangsraðað í samræmi við tillögur ráðgjafa. Tekið skal fram að viðgerðir eru þegar hafnar á stærstu verkefnunum eins og þak– og gluggaviðgerðum á Varmárskóla en skólinn hefur verið stórlega endurbættur síðastliðin ár, bæði að utan og innan. Mosfellsbær gerir viðhaldsáætlun ár hvert og hefur fjármagn til viðhalds bygginga bæjarins aukist umtalsvert undanfarin ár.

Verkefnum næstu missera hefur verið forgangsraðað
Unnið hefur verið úr niðurstöðum úr skýrslum EFLU verkfræðistofu og Orbicon og verkefnum forgangsraðað á grunni mats sérfræðinga. Verkefnið mun halda áfram út þetta ár og fram til ársins 2021. Með því að fara í svona viðamikla skimun hefur Mosfellsbær sýnt ákveðið frumkvæði í þessum efnum á landsvísu.
Meirihluti bæjarstjórnar hefur sýnt dug í að ráðast í svo mikið verkefni sem hér um ræðir enda er það markmið að vera ávallt fremst í flokki þegar kemur að skólamálum á Íslandi, bæði hvað varðar innra starf og gæði húsnæðis.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Íþrótta- og tómstundastarf eldri borgara í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi er holl og góð bæði líkamlega og andlega fyrir fólk á öllum aldri.
Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag þar sem heilsa og heilsuefling eru í forgrunni í allri stefnumótun og þjónustu. Nú þegar heimsfaraldurinn hefur geisað undanfarna mánuði hefur aldrei verið mikilvægara að ná til og hvetja fólk til þátttöku í íþróttum og tómstundum til að viðhalda góðri heilsu og koma í veg fyrir félagslega einangrun.

Fjölbreytt framboð
Í Mosfellsbæ er fjölbreytt framboð af íþrótta- og tómstundastarfi fyrir eldri íbúa þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Nú fer vetrarstarfið að hefjast og í skipulagningu er horft til þess að aðgengi og umgjörð geri sem flestum kleift að taka þátt og horft er til líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta.
Meðal þess sem er í boði má nefna vatnsleikfimi í Lágafellslaug, leikfimitíma í World Class fyrir byrjendur og framhaldshópa í samstarfi við Mosfellsbæ, dansleikfimi að Varmá á miðvikudögum, útileikfimi hjá Höllu Karen, Boccia og Ringó, gönguhópa 3 x í viku og stólajóga á Eirhömrum.

Golfaðstaða hjá golfklúbbnum
Í lok sumars gerðu Mosfellsbær og Félag aldraðra í Mosfellbæ (FaMos) samning við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að eldri borgarar sem eru skráðir í FaMos fái fría aðstöðu þrjá morgna í viku til að spila golf á púttsvæðum klúbbsins bæði á útisvæði og á innisvæðinu á neðri hæð golfskálans. Þetta er skemmtileg viðbót við fjölbreytta möguleika fyrir eldri íbúa í bænum til hreyfingar sem mun örugglega njóta vinsælda.

Handverk og aðrar tómstundir
Eldri íbúum stendur einnig til boða þátttaka í hópum og námskeiðum eins og t.d. gler- og leirgerð, bókbandi, tréútskurði, módelsmíði, listmálun, postulínsmálun, perluhópi og ýmsum fleiri stuttum námskeiðum. Spilamennska og söngstund liggja niðri eins og er vegna Covid, en vonandi verður hægt að hefja þá starfsemi sem allra fyrst.
Nýjasta verkefnið sem Mosfellsbær styrkir og er að komast á laggirnar er verkefni sem ber heitið „Karlar í skúrum“ og verður stofnfundur verkefnisins haldinn innan skamms, en þetta verkefni er aðeins fyrir karlmenn. Meiri upplýsingar um verkefnið má finna hér: www.raudikrossinn.is/karlariskurum
Ég hvet eldri íbúa í Mosfellsbæ til að kynna sér það framboð sem er af íþróttum og tómstundum í bænum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Þátttaka gefur öllum aukna vellíðan, betri heilsu og góðan félagsskap. Í Mosfellsbæ er einnig starfandi öflugt félag eldri borgara (FaMos) þar sem fer fram fjölbreytt og skemmtilegt starf og hvet ég þá eldri Mosfellinga sem nú þegar eru ekki skráðir í félagið að skrá sig í þann skemmtilega félagsskap.

Frekari upplýsingar
Þeim sem vilja fá frekari upplýsingar um hvar sé hægt að skrá sig til þátttöku í íþróttum og tómstundum er bent á að hafa samband við forstöðumann félagsstarfsins, Elvu Björgu, í síma 586-8014 eða 6980090 eða senda tölvupóst á elvab@mos.is
Félagsstarfið er með facebook-síðu sem ber heitið „Félagsstarfið Mosfellsbæ“ og einnig má finna upplýsingar inn á síðunum www.famos.is og www.mos.is

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Áskoranir haustsins!

Birna Kristín Jónsdóttir

Haustið er fram undan með fullt af nýjum áskorunum. „Þetta verður eitthvað,“ hugsaði ég um daginn, en nýjar áskoranir eru spennandi og þær eru sannarlega til staðar hjá okkur í Aftureldingu þessa dagana.
Auðvitað hef ég þungar áhyggjur af stöðunni, hún er grafalvarleg fjárhagslega hjá okkur, en félags- og mannauðurinn okkar hefur sýnt það undanfarið að við förum létt með að aðlagast nýju umhverfi. Við höfum náð að tækla alla þá bolta sem hefur verið kastað til okkar hvort sem það er að færa æfingar yfir á rafrænt form eða „mastera“ sóttvarnaraðgerðir og allt þar á milli.

Fjárhagslegar áskoranir eru þær áskoranir sem eru okkur erfiðastar þessa dagana og þar liggja mínar áhyggjur. Ljóst er að Afturelding hefur orðið af mörgum mjög stórum fjáröflunum og gríðarlegum tekjumissi það sem af er þessa Covid-ástands og ekki útséð með hvernig endar. Hvernig við leysum það á eftir að koma betur í ljós, en það er alveg á hreinu að allir verða að leggjast á árar þar og eru allar góðar hugmyndir og framlög mjög vel þegin.
Vissulega kom styrkur frá ÍSÍ en ljóst er að sú úthlutun er bara dropi í hafið í samanburði við þann tekjumissi sem við höfum orðið fyrir en sannarlega munar mikið um engu að síður.
En eins og Helgi Björns söng „Það bera sig allir vel,“ það er ekkert annað í boði. Það hefur aldrei verið mikilvægara að halda börnunum okkar við efnið og við í Aftureldingu höfum mikinn metnað fyrir því að halda úti því allra besta íþróttastarfi sem völ er á.
Við bjóðum upp á íþróttir í ellefu greinum og eru stundatöflur haustsins komnar á heimasíðu félagsins afturelding.is og þar held ég að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Keppni í meistaraflokkum er eitthvað sem við horfum ekkert mjög langt fram í tímann með, þar erum við háð því sem sérsamböndin og þríeykið ákveður hverju sinni í samræmi við ástandið. Íslandsmótið í fótbolta gengur ennþá og ljóst er að það mun teygja sig ansi langt inn í haustið og veturinn. Það er augljóst að þegar handboltinn og blakið fara af stað verður krefjandi verkefni hjá okkur miðað við þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi núna að láta þetta allt ganga upp, en til þess að það verði þurfum við öll að vera reiðubúin til þess að sýna mikla tillitssemi og aðlögunarhæfni.
Ég er engu að síður bjartsýn fyrir veturinn og það er von mín að við leggjumst öll á eitt til þess að láta þetta ganga vel og vonandi getum við fljótlega horft til baka til þessa ástands og haldið áfram óheft. Verum góð hvert við annað og hlýðum Víði.

Áfram Afturelding,
Birna Kristín Jónsdóttir
Formaður Aftureldingar.

Enn ein breyting á deiliskipulagi í Helgafellshverfi

Stefán Ómar Jónsson

Á síðasta fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar samþykkti meirihluti nefndarinnar breytingu á deiliskipulagi lóðar við Uglugötu.
Breytingin felur í sér að í stað þess að ekið sé að húsunum við Uglugötu 14-20 frá Uglugötu sjálfri, á nú að aka að húsunum í gegnum botnlanga frá Vefarastræti fram hjá bílastæðum og aðkomu að bílakjallara þess húss. En af hverju?
Jú, vegna þess að byggingaraðilinn gerði mistök þegar hann lagði aðkomu að húsunum við Uglugötu sem leiddi til þess að halli frá innkeyrslunni að húsunum nr. 14-20 varð allt of mikill og aðkoman Uglugötumegin þar með ófær. Í stað þess að gera byggingaraðilanum að bæta úr þessum mistökum sínum var ráðist í það að leysa málið með því að gera nágrönnunum við Vefarastræti 8-14 að þola breytingu á sínu deiliskipulagi (deiliskipulag 1. áfanga Helgafellshverfis) í stað þess að deiliskipulagi fyrir Uglugötuna (deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis) væri haldið til streitu og byggingaraðilanum gert að laga mistök sín.
Undirritaður fulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar ásamt fulltrúa M-lista Miðflokksins í skipulagsnefnd bókuðu eftirfarandi við afgreiðslu málsins í skipulagsnefnd.

Bókun fulltrúa L-lista og M-lista:
Undirritaðir fulltrúar í skipulagsnefnd (umferðarnefnd) sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og vísa allri ábyrgð á uppkominni stöðu á byggingaraðila að Uglugötu 6-20. Það hefur verið ljóst í málinu frá upphafi að það var handvömm byggingaraðila sem leiddi til þess að aðkoma að Uglugötu 14-20 varð erfið sökum mikils hæðarmunar milli Uglugötu 14-20 og Uglugötu 6-12. Það hefur því allan tímann verið hans að leiðrétta þau mistök og ósanngjarnt að leysa þann vanda með því að ganga á skipulagsleg réttindi íbúa við Vefarastræti 8-14.

Það er afstaða Vina Mosfellsbæjar að breytingar á deiliskipulagi eigi ekki að gera nema að vel ígrunduðu máli. Við deiliskipulagsbreytingar eigi ekki bara að líta til hagsmuna þess sem óskar eftir breytingunni heldur eigi einnig að líta til þess hvort hagsmunir séu af breytingunni fyrir aðra íbúa/hagsmunaaðila sem eiga að lifa með breytingunni, hagsmunir næstu nágranna, götunnar, hverfisins, samfélagsins alls.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Íþróttalífið af stað eftir sumarfrí

Hanna Björk Halldórsdóttir

Nú fer að líða að því sem allir hafa verið að bíða eftir: Íþrótta- og tómstundastarf hefst á ný eftir sumarfríið!
Við erum svosem alltaf spennt á haustin, en það er ekki laust við að fiðringurinn sé örlítið meiri en venjulega að þessu sinni.
Fyrir margar vetraríþróttir var þetta sumar heldur lengra en við höfðum séð fyrir okkur – af ástæðum sem ættu að vera öllum kunnar. Þannig þurftum við að læsa dyrunum að okkar æfingasölum og slökkva ljósin talsvert fyrr en við erum vön.

Í haust ætlum við að keyra allt starf í gang strax í næstu viku. Við búum sérstaklega vel þegar kemur að starfsfólki og erum ákaflega stolt af því hvernig þjálfarar okkar og sjálfboðaliðar tóku á málunum í vor þegar samkomubann var sett á vegna COVID-19. Þá kynntu þau til sögunnar fjaræfingar sem fóru ýmist fram í gegnum Facebook eða æfingaforritið Sideline.

Sideline Sports er forrit sem allir foreldrar með iðkendur hjá okkur ættu að hafa heyrt um og kynnt sér. Þar eiga öll samskipti á milli þjálfara og foreldra — og þjálfara og iðkenda í eldri flokkum — að fara fram.
Þjálfarar geta sett upp æfingaplön og tímatöflur, auk þess að senda skilaboð til iðkenda eða foreldra þeirra í kringum æfingar og keppnir.
Félagið hefur unnið hægt og örugglega að því að taka Sideline í notkun síðan í fyrra, en í haust er stefnan sett á að keyra það í almenna notkun og ættu allir foreldrar að sækja það og koma sér inn í það.
Frekari leiðbeiningar er að finna á heimasíðunni okkar, www.afturelding.is, en þar er einnig að finna aðrar nauðsynlegar upplýsingar, eins og stundatöflur vetrarins. Að auki má finna ítarlegar upplýsingar um þær 11 deildir sem við starfrækjum fyrir alla aldurshópa.

Með Mosfellingi í dag ætti líka að fylgja bæklingur þar sem deildirnar kynna sitt starf. Við hvetjum foreldra til að setjast niður með börnunum sínum og aðstoða þau við að finna sport við sitt hæfi. Skráningar eru hafnar í öllum deildum, nema knattspyrnudeildinni.
Þar sem fótboltafólkið okkar er enn að spila sitt tímabil tefjast skráningar í hana örlítið. Yngstu flokkarnir klára í byrjun september og hefst nýtt tímabil hjá þeim um miðjan þann mánuð.
Við hlökkum svo sannarlega til næstu vikna þegar íþróttalífið kviknar.
Sjáumst!
Bestu kveðjur,

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi

Breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Það er mikið ánægjuefni fyrir okkur Mosfellinga og reyndar landsmenn alla að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ séu loksins hafnar.
Þessi framkvæmd er búin að vera baráttumál bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í mörg ár og hafa bæjarstjóri og starfsmenn bæjarins verið óþreytandi og lagt á sig mikla vinnu við að þrýsta á Vegagerðina til að koma þessari nauðsynlegu framkvæmd á koppinn.
Þolinmæði og þrautseigja er dyggð og nú er þetta loksins orðið að veruleika, með samstarfssamningi milli Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar.

Aukið umferðaröryggi
Þessi framkvæmd felur í sér miklar samgöngubætur og aukið umferðaröryggi fyrir Mosfellinga og alla þá sem keyra um Vesturlandsveg. Um er að ræða 1,1 km kafla frá hringtorgi við Skarhólabraut að Langatanga. Að framkvæmdum loknum verða þarna fjórar akreinar með vegriði á milli akstursstefna, auk þess sem settar verða upp hljóðmanir og biðstöð fyrir strætó.

Umferðartafir á framkvæmdatíma
Á meðan á framkvæmdatíma stendur verður ein akrein í hvora átt á vegakaflanum auk þess sem talsvert er búið að þrengja að umferð svo framkvæmdaaðilar geti athafnað sig. Hámarkshraði á þessum kafla verður 50 km og eru ökumenn minntir á þeirra umferðarhraða með ljósskiltum.
Nú á fyrstu dögum framkvæmda hefur umferðin gengið vel, en það er ljóst að á álagstímum mun umferðin í kringum framkvæmdasvæðið vera hæg og einhverjar raðir myndast í báðar áttir. Það er því skynsamlegt að reikna með aðeins lengri ferðatíma í gegnum svæðið á háannatíma meðan framkvæmdir eru í gangi.
Það er fórnarkostnaður sem við Mosfellingar ættum að taka á okkur með bros á vör, enda verður um mikla breytingu fyrir okkur að ræða að framkvæmdum loknum sem er áætlað 1. desember 2020.

Förum varlega og verum tillitsöm
Ég hvet Mosfellinga og alla vegfarendur til að virða 50 km hámarkshraða á framkvæmdasvæðinu, fara varlega og taka tillit til aðstæðna meðan á framkvæmdum stendur. Með því drögum við úr slysahættu og tryggjum að allir komist heilir að heiman og heim aftur.

Gleðilegt umferðarsumar.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs
og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar

Gaman saman í sumar

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu eftir þennan vægast sagt sérkennilega vetur sem einkennst hefur af vindi, verkföllum og veiru.
Hann hefur að mörgu leyti verið erfiður en um leið lærdómsríkur og jafnvel fært okkur enn nær kjarna þess sem skiptir máli í lífinu.

Samvera mikilvæg
Margir hafa verið óvenju mikið með fjölskyldumeðlimum á síðustu mánuðum og þá hefur oft reynt á lausnamiðaða hugsun og þrautseigju og jákvætt viðhorf sjaldan verið mikilvægara. Lífið er þó óðum að færast í eðlilegt horf og við skulum sannarlega njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum í sumar. Heimsækjum fólkið okkar, tölum saman, veltum upp hugmyndum, skiptumst málefnalega á skoðunum, gefum af okkur, prófum eitthvað nýtt, spilum, leikum okkur, hlökkum til og hlæjum dátt.

Hreyfing og útivist
Sumarið er svo sannarlega tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og vonandi hafa flestir tök á því að ferðast innanlands og njóta alls þess sem fallega landið okkar hefur upp á að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar, förum út að ganga með fjölskyldunni, hjólum, hlaupum, förum á línuskauta og/eða hjólabretti – hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir.

Hvetjum ykkur sérstaklega til að nýta glænýjan heilsársratleik sem liggur úr Álafosskvos og um Reykjalundarskóg. Ratleikurinn er unninn í samvinnu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ, Ferðafélags Íslands og FMOS og er markmiðið með honum að fá alla aldurshópa út til að hreyfa sig í dásamlegu umhverfi og njóta samvista með öðrum #mosoratleikur

Munum eftir hollustunni
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, drekkum vatn, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæðahráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Sofum nóg
Þótt það verði gaman í sumar þá þurfum við að muna að svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Hann veitir okkur hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur. Svefn styrkir jafnframt ónæmiskerfið og hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti okkar við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.

Við vonum að þið eigið dásamlegt sumar fyrir höndum og hlökkum til að hitta ykkur í haust. Þá verður blásið til Heilsudagsins í Mosfellsbæ, sem við frestuðum í vor, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar „Gulrótin“ verður veitt og ótalmargt fleira skemmtilegt og spennandi.

Þökkum fyrir einstakt samstarf í vetur frábæru Mosfellingar – höfum það gaman saman í sumar!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Besta íþróttagreinin

Selma Birna Úlfarsdóttir

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á ávinning þess fyrir líkamlega, andlega og félagslega heilsu að stunda íþróttir. Það sem mestu máli skiptir er að hafa gaman og njóta þess að hreyfa sig, til að hreyfingin skili sem mestri vellíðan.
Skipulagt íþróttastarf hefur verndandi áhrif á börn og þau eru ólíklegri til að neyta vímuefna á borð við áfengi, reykingar, munn- og neftóbak, kannabis og rafrettur. Rannsóknir hafa einnig sýnt að því oftar sem unglingar stunda íþróttir því ólíklegri eru þeir til að nota vímuefni.
Þegar verið er að greina líkamlega hæfileika eða hreysti skiptast þeir í níu þætti: liðleika, styrk, þol, kraft, hraða, jafnvægi, samhæfingu, fimi og færni. Allar íþróttir eru góðar og engin ein íþróttagrein er öðrum betri. Hins vegar hafa íþróttirnar ólíka styrkleika. Sem dæmi má nefna að boltagreinar auka þol, sundíþróttin kennir okkur að bjarga okkur í vatni og bardagaíþróttir kenna okkur að verja okkur. Allt eru þetta góðir eiginleikar.
Fimleikaíþróttin hefur þann styrkleika að vinna með átta af níu líkamlegum getuþáttum: Liðleika, styrk, kraft, hraða, jafnvægi, samhæfingu, fimi og færni. Það sem mætti bæta er þolið en til að bæta það má nýta sér aðrar íþróttagreinar og fara t.d. í göngu, hlaup eða hjólatúra.
Eins og áður segir er engin ein íþróttagrein best en þó er hægt að „besta“ hverja íþróttagrein með því að bæta við ákveðnum æfingum til að hún verði enn betri. Því ætlar fimleikadeildina að bjóða í haust upp á námskeið sem kallast Fimi. Um er að ræða 45 mínútna tíma sem eru ætlaðir börnum frá 6 ára og að fullorðinsaldri með það að markmiði að bæta líkamlega getu auk þess að leika sér í vel útbúnum fimleikasal.
Opinn prufutími í Fimi í fimleikasal Aftureldingar sunnudaginn 16. ágúst klukkan 12:30-13:15. Allir velkomnir 🙂
Hægt er að skrá á Fimi-námskeið á afturelding.felog.is

Selma Birna Úlfarsdóttir
íþróttafræðingur

Ræktum okkur sjálf í sumar!

Berta Þórhalladóttir

Sumarið er frábær tími til þess að rækta okkur og blómstra! Þar sem sólin skín hátt, dagarnir eru lengri og gleðin er við völd! Á sumrin erum við orkumeiri, njótum útiverunnar betur, förum oftar í sund og jafnvel niður á „strönd“.
Þegar við fækkum fötum vaknar ef til vill sjálfsóöryggið og púkinn á öxlinni byrjar að tala! En við ætlum ekki að láta púkann né óöryggið stoppa okkur í að njóta og gera það sem okkur langar í sumar!
Hér koma fimm atriði til að minna sig á til að njóta sumarsins í botn – fáklædd sem velklædd!

1. Notum líkamann okkar
Líkaminn okkar er mun meira en það sem við sjáum. Hann er gerður til að hreyfa sig, upplifa ævintýri, leika sér og framkvæma nýja hluti. Í stað þess að einblína á útlitið skulum við hugsa um styrkinn og frelsið sem líkaminn veitir okkur. Prófum nýja hluti eins og fjallagöngur, hjólreiðar, sjósund eða bara eitthvað sem veitir okkur vellíðan. Það eflir sjálfmyndina að sjá og upplifa hvað líkaminn okkar er fær um.

2. Iðkum þakklæti
Við erum oft of upptekin af því hvað megi betur fara þegar við skoðum líkamann. Með því að iðka þakklæti og þakka fyrir allt sem líkaminn gerir fyrir okkur getur margt breyst. Verum þakklát fyrir að geta gengið, teygt okkur, beygt okkur, hjólað, synt eða hlaupið. Sundlaugar landsins eru mikil auðlind. Er kannski kominn tími á sundferð?

3. Stundum jákvætt sjálfstal
Það er auðvelt að detta í niðurrrif. Sérstaklega þegar púkinn er mættur á öxlina! Þá er mikilvægt að vera meðvitaður um að hann sé mættur og grípa inn í og eiga falleg orð um okkur. Hvatningin styrkir okkur og heldur okkur á beinu brautinni.

4. Verðlaunum okkur
Hér er ekki verið að tala um mat eða nudd á hverjum degi heldur það að gera eitthvað sem veitir okkur raunverulega vellíðan daglega. Þetta eru litlu hlutirnir sem hjálpa okkur að líða vel eins og göngutúr, fara í bað eða heitan pott, hugleiða eða velja okkur þau verðlaun sem næra okkur og veita okkur orku. Þessar einföldu aðgerðir geta hjálpað okkur til að öðlast aukinn styrk og enn meiri vellíðan.

5. Hættum að fylgja þeim sem láta okkur líða illa á samfélagsmiðlum
Fylgjum fólki sem veitir okkur innblástur og vellíðan. Þar sem samfélagsmiðlar geta haft gríðarlega áhrif á líðan okkar, ýmist nært okkur eða dregið úr okkur orku. Það er okkar að velja það sem bætir okkur og kætir.

Látum ekki leiðindapúkann á öxlinni okkar halda aftur af okkur í sumar! Gerum það sem okkur langar og njótum þess að vera til. Við eigum það skilið!
Berum höfuðið hátt og verum stolt af sjálfum okkur!
Gleðilegt sumar!

Berta Þórhalladóttir

Bylting í umhverfismálum á Íslandi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi er eitt stærsta umhverfisverkefni sem Íslendingar hafa ráðist í hingað til. Upphaf verkefnisins má rekja til ársins 2013 með undirritun eigendasamkomulags allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um meðhöndlun úrgangs. Fram kom m.a. í eigendasamkomulaginu að byggð skyldi gas- og jarðgerðarstöð og með því gert kleift að hætta urðun lífræns úrgangs. Stöðin er í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað í sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Nú er komið að stóru stundinni en starfsemi hefst í gas- og jarðgerðarstöðinni (GAJA) á næstu dögum.

Stenst allar kröfur
Álfsnes er í eigu Reykvíkinga en blasir við í bakgarði okkar Mosfellinga og því hafa bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og fulltrúar bæjarins í stjórn Sorpu lagt mikla áherslu á að urðun yrði hætt í Álfsnesi. Fulltrúar Sorpu, tæknimenn sveitarfélaga og verkfræðingar frá verkfræðistofum lögðust yfir hvaða lausn væri heppilegust og var niðurstaðan sú lausn sem nú hefur verið byggð.
Gas- og jarðgerðarstöðin í Álfsnesi stenst allar nútíma kröfur og var gert enn betur þegar samþykkt var að stöðin yrði yfirbyggð að kröfu okkar Mosfellinga. Við það hækkaði kostnaðurinn en það er nauðsynleg viðbót af umhverfsástæðum, sérstaklega fyrir okkur Mosfellinga.
GAJA markar byltingu í umhverfismálum á Íslandi og mun jafngilda því að taka 40 þúsund bensín– og díselbíla úr umferð og hefur mikil áhrif á kolefnisbúskapinn hér á landi. Um 80% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og stöðin því stórt skref í þá átt að koma umhverfismálum höfuðborgarsvæðisins í lag.

Tilgangurinn að hætta urðun lífræns úrgangs
Í stöðinni verður heimilissorpi eða lífrænum úrgangi breytt í metangas og moltu. Það skal skýrt tekið fram að tilgangur GAJA er ekki að framleiða metangas eða moltu heldur að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs og um leið spara útblástur sem nemur 90 þúsund tonnum af koltvísýringi árlega.
Allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á samlagssvæði SORPU er forflokkaður í móttökustöðinni í Gufunesi og lífrænu efnin síðan flutt í GAJA. Lífrænu efnin verða unnin í stöðinni í metangas og jarðvegsbæti eða moltu, en málmar og önnur ólífræn efni svo sem plast fara til endurnýtingar.
Metangas og molta eru jákvæðar afurðir stöðvarinnar sem munu nýtast samfélaginu. Mikið hefur verið horft á þessar afurðir og margir efast um ágæti stöðvarinnar af þeim sökum. Stöðin var ekki byggð til að framleiða metagas og moltu, hún var byggð til að hætta urðun úrgangs samkvæmt Evróputilskipun og kröfum Umhverfisstofnunar og einnig að kröfu okkar Mosfellinga.

Komið að tímamótum
Þótt ferlið að byggingu stöðvarinnar hafi verið langt og strangt er ánægjulegt að það sé komið að þeim tímamótum að taka í notkun gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Sérstaklega er þetta ánægjulegt fyrir okkur Mosfellinga því þegar GAJA verður komin í full afköst mun lyktarmengum úr Álfsnesi heyra sögunni til.
Nánari upplýsingar um starfsemi GAJA á www.sorpa.is

Kolbrún Þorteinsdóttir bæjarfulltrúi
og fulltrúi Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu.

Í sumarbyrjun

Stefán Ómar Jónsson

COVID-19, í senn áskoranir og tækifæri
Öll þekkjum við glímuna við veiruna skæðu sem undanfarna rúma tvo mánuði hefur ekki aðeins breytt daglegu lífi okkar Mosfellinga heldur allra Íslendinga og íbúa heimsins. Ýmsar áskoranir hafa mætt starfsfólki í hinum ýmsu þjónustustörfum hjá Mosfellsbæ, skipuleggja hefur þurft breytt vinnubrögð, setja upp viðbragðsáætlanir, sóttvarnir og svo framvegis. Þessar áskoranir hafa starfsmenn leyst vel úr hendi og af yfirvegun og það ber að þakka.
Við kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn og nefndum bæjarins höfum einnig þurft að breyta venjum okkar varðandi fundarhöld. Tækifæri okkar fólst m.a. í því að með breytingu á sveitarstjórnarlögum var heimilað að halda svokallaða fjarfundi. Skemmst er frá því að segja að sú frumraun tókst með miklum ágætum og ekki kæmi á óvart og reyndar væri skynsamlegt að útvíkka þessa heimild þannig að nota mætti hana í venjulegu árferði ef svo ber undir og þá væri þessi heimild til staðar þegar við þurfum næst á að halda.
Þegar er ljóst að efnahagslegar afleiðingar af COVID-19 verða miklar, sumir hagfræðingar segja þær mestu sem heimurinn hefur upplifað. Mosfellsbær mun því miður ekki fara varhluta af þessu. Núna eru fram undan og bíða okkar bæjarfulltrúa áskoranir í þessum efnum bæði hvað varðar áhrif þessa á núgildandi fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 og þá ekki síður vegna komandi fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Tækifæri okkar og áskorun liggur í því að okkur auðnist að taka ákvarðanir í þessum efnum, með samtali þar sem allar raddir fái að hljóma, af yfirvegun og af ábyrgð.

Skipulagsmál
Núna er hafin í skipulagsnefnd vinna við endurskoðun á aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ. Aðalskipulag hvers sveitarfélags er eins konar stjórnarskrá um fjölmarga hluti. Hluti eins og hvar við ætlum að byggja og hvernig, hvar útivistarsvæðin eigi að vera, hvar eigi að vera hverfisvernd og fjölmörg önnur atriði sem hér er of langt mál að tíunda. Þetta verður í senn krefjandi en líka spennandi verkefni því hver vill ekki eiga hlut í að semja stjórnarskrá sem ætlað er að vera lifandi plagg um áratugi. Hugur þess sem þetta ritar er að Mosfellingar hafi sem mesta og besta aðkomu að þessari endurskoðun.

Vonandi tekst okkur Mosfellingum að gæta áfram allra varúðarreglna og takast sem best á við veiruna skæðu. Með þeim orðum óska ég Mosfellingum öllum gleðilegs sumars og velfarnaðar.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Félagsskapur er lýðheilsumál

Silja Ingólfsdóttir

Manneskjan er félagsvera. Fólki sem býr við langvarandi félagslega einangrun er hættara við ýmsum líkamlegum kvillum og verri heilsu en öðrum. Félagsskapur, má því segja, er því lýðheilsumál. Félagsleg einangrun á sér gjarnan erfiðan fylgifisk: Einmanaleikann.
Nú á tímum COVID-19 eru margir að upplifa einangrun í fyrsta sinn og eiga erfitt með að takast á við tilfinningarnar, streituna og þá vanlíðan sem getur fylgt því. Sjálfsefi, kvíði og erfiðar hugsanir geta leitað á fólk. Það er eðlilegt að eiga erfitt með að takast á við aðstæðurnar, við höfum fæst þurft að gera þetta áður.
Einmanaleiki er ekkert til að skammast sín fyrir, við getum öll upplifað hann. Til allrar hamingju er ástandið tímabundið fyrir flesta. Því miður er það þannig að sumir þekkja aðstæðurnar alltof vel og hafa glímt við slíkt í lengri tíma. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru allt of algeng og fylgja fólki á öllum aldri í öllum kimum samfélagsins.

Á meðan við sjáum fólk fjalla um áskoranir sem fylgja því að vinna heima með alla fjölskylduna og börnin í kringum sig þá eru margir sem búa einir og hafa ekki þann félagsskap í kringum sig. Að búa einn og vinna að heiman, hafa lítil sem engin tengsl við vinnufélagana eða fólkið sem maður hittir annars oft í viku í líkamsrækt eða öðrum tómstundum. Þarna skiptir miklu máli að átta sig á því að það er eðlilegt að finna fyrir erfiðum tilfinningum í einangrun og þessum óeðlilegu aðstæðum.
Það skiptir öllu máli að átta sig á því að þetta ástand tekur enda og á meðan getum við öll leitað eftir aðstoð, tengt okkur við félagsskap, leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og fengið síma- eða gönguvin hjá Rauða krossinum til að spjalla við.

Við berum öll ábyrgð á því að gera það sem við getum til að sýna náunganum kærleik og eftirtekt. Við eigum öll erindi og skiptum öll máli í samfélaginu. Fólk sem fer nú út að ganga: Takið hvert eftir öðru, horfið á fólk, heilsið, brosið hvert til annars. Allir þessir litlu hlutir sem kosta okkur ekki neitt gera samt svo ótrúlega margt til að bæta samskipti og samfélagið. Rétt eins og við erum öll almannavarnir og öll barnavernd, þá erum við öll mikilvægur hluti af samfélaginu sem við byggjum saman.
Á meðan faraldurinn er enn viðloðandi eru margir kvíðnir, hræddir og smeykir við að fara út úr húsi. Á meðan býður Rauði krossinn fólki að fá símavin eða gönguvin. Símavinir eru sjálfboðaliðar sem hringja daglega, eða tvisvar í viku, í fólk sem þess óskar.
Á nokkrum vikum hefur fjöldi þátttakenda í símavinunum margfaldast, margir eru tímabundið í einangruðum aðstæðum á meðan aðrir glíma við það til lengur. Rauði krossinn kemur til móts við þarfir hvers og eins. Fólk sem vill gjarnan fara út að ganga, en vill síður gera það eitt eða þarf smá hvatningu til að fara, getur fengið gönguvin. Þá miðast samveran við að farið sé í göngutúr einu sinni í viku og spjallað.
Hægt er að óska eftir tímabundnum göngu- og/eða símavin á kopavogur@redcross.is og það má líka halda því opnu hvort maður vill e.t.v. halda áfram að hitta sjálfboðaliða þegar COVID-19 takmörkunum verður aflétt.

Silja Ingólfsdóttir,
deildarstjóri Rauða krossins í Kópavogi.

„Það bera sig allir vel“

Margrét Guðjónsdóttir

Þennan texta hafa landsmenn sungið með Helga Björnssyni tónlistamanni á hverju laugardagskvöldi meðan hinn alræmdi COVID-19 sjúkdómur hefur gengið yfir heimsbyggðina.
Segja má að með þessum orðum hafi Helgi hitt naglann á höfuðið, við höfum almennt borið okkur vel. Ekki hefur þessi veira þó látið okkur Íslendinga ósnerta með andláti tíu einstaklinga sem smituðust af veirunni og aðrir þjást enn af eftirköstum sjúkdómsins.

Þessi veira hefur líka leikið efnahag þjóðarinnar grátt og margir einstaklingar eiga í vanda vegna þess. Atvinnuleysi er mikið sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir hvern þann sem í því lendir. Vonandi er þó að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða í þeim málum. Þessi veira hefur þó líka orðið til þess að við höfum haft meiri tími til að sinna okkar nánustu fjöldskyldu og haft tíma til að staldra við og fara yfir hvað það er sem er verðmætast í okkar lífi.

En við höfum borið okkur vel og virðumst vera að koma ótrúlega vel út úr þessu hættustigi sem enginn vissi hvert gæti leitt okkur. Þetta hefur verið óvissuferð en við höfum öll verið í henni saman. Samstaða og samtakamáttur þjóðarinnar allrar hefur verið til fyrirmyndar, fagmenn fengið að stjórna og eigum við mörgum að þakka.

Það hefur oft sýnt sig að með samtakamætti stendur íslenska þjóðin saman þegar vá steðjar að. Upplýsingafundir um stöðu mála frá degi til dags hafa veitt þjóðinni öryggi og vissu um að heilbrigðiskerfið réði við verkefnið. Þetta gagnsæi er mjög mikilvægt í hverju verki sem er og á það einnig við á sveitarstjórnarstigi. Að íbúar séu vel upplýstir um hvað stendur til, bæði í þeirra nærumhverfi og sveitarfélaginu öllu og komi þannig að stefnumótun allri.

Ég veit að ef við stöndum saman og leyfum þeim mannauði sem byggir landið okkar góða að njóta sín eigum við góða tíma fram undan. Við skulum þó ekki horfa fram hjá því að margir eiga erfitt og hugum að þeim eins og kostur er. Lítum í kringum okkur og athugum hvort við séum fær um að veita hjálp.
Það er óskandi að þetta erfiða tímabil verið skammvinnt og með hækkandi sól getum við horft bjart fram á veginn, því lífið er gott sem betur fer.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar