Mosfellsbær fyrir barnafjölskyldur

Una Hildardóttir

Í febrúar birtust niðurstöður þjónustukönnunar Mosfellsbæjar en þær sýndu ánægju notenda þjónustu sveitarfélagsins,en Mosfellsbær var yfir landsmeðaltali í 11 flokkum af 13.
Er það sérstakt fagnaðarefni að 97% foreldra leikskólabarna eru ánægðir með þjónustu leikskóla bæjarins enda hefur bæjarstjórn lagt mikla áherslu á eflingu skólastigsins. Plássum á ungbarnadeildum og opnun sérstaks ungbarnaleikskóla hefur stytt biðlista töluvert og hafa leikskólagjöld lækkað um 25% á ári frá síðustu sveitastjórnarkosningum.
Þessi aukna þjónusta við barnafjölskyldur er mikilvæg og kemur til móts við aðgerðir stjórnvalda sem hafa nú lengt fæðingarorlof í 12 mánuði. Öflugir leikskólar og metnaðarfull uppbygging í sveitarfélaginu hefur gert Mosfellsbæ að eftirsóttum stað fyrir ungt fólk að skjóta niður rótum.

Barnvænt sveitarfélag
Nýlega skrifaði Mosfellsbær undir samstarfssamning við UNICEF og félagsmálaráðuneytið um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á öllum stigum stjórnsýslu sveitarfélagsins. Mun innleiðing sáttmálans auka gæði þjónustu við börn og barnafjölskyldur og vernda réttindi barna. Síðastliðin ár hefur bæjarbúum fjölgað hratt og mikill áhugi er meðal ungs fólks á að ala upp börn í Mosfellsbæ.
Samspil góðrar þjónustu, bæjarbrags og nálægð okkar við náttúru- og útivistarsvæði gerir Mosfellsbæ að góðum stað til þess að búa á. Tilkoma hlutdeildarlána hefur auðveldað ungu fólki og tekjulágum að fjárfesta í íbúðum sem nú eru í uppbyggingu í nýjum miðbæ og virðist fjölgun Mosfellinga ekki vera á undanhaldi.

Hvernig getum við gert betur?
Þrátt fyrir að ánægja sé meðal bæjarbúa er kemur að þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins er mikilvægt að gera betur. Þegar kemur að þjónustu við ungt fólk, og þá sérstaklega barnafjölskyldur er mikilvægt að bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur. Nú þegar hefur Mosfellsbær byggt upp öflugt hjólastígakerfi sem tengir okkur við Reykjavík.
Á næstu árum munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við stjórnvöld hefja uppbyggingu Borgarlínu. Mikilvægt er að tryggja að þau sveitarfélög sem liggja við jaðar höfuðborgarsvæðisins geti áfram treyst á að leiðakerfi Strætó bs. og tenging við nýtt kerfi geri almenningssamgöngur að raunhæfum kost fyrir Mosfellinga. Öflugar almenningssamgöngur geta bætt lífsgæði okkar til muna, sérstaklega ungs fjölskyldufólks sem sér Mosfellsbæ sem framsækið og barnvænt sveitarfélag og vill setjast hér að.

Una Hildardóttir
Höfundur býður sig fram í 1.-2. sæti í forvali VG í Suðvesturkjördæmi

Okkar Mosó 2021

Margrét Guðjónsdóttir

Kæru Mosfellingar.
Íbúalýðræði er eitt af stefnumálum Vina Mosfellsbæjar því við vitum að íbúarnir eru sérfræðingar í nærumhverfinu. Því er það gleðiefni að verkefnið Okkar Mosó er komið af stað að nýju.
Markmiðið með verkefni sem þessu er að fá almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó er tilvalinn staður fyrir íbúa til að koma með bæði skemmtilegar hugmyndir svo og góðar ábendingar að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum.
Hugmyndirnar geta verið af ýmsum toga og til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa, unga sem aldna. Í ár er áætlað að verja um 35 milljónum króna í verkefnið sem kemur til framkvæmda frá sumri 2021 og fram á árið 2022 eftir umfangi verksins.
Nokkur skilyrði eru fyrir því að hugmyndin komist áfram í kosningu og þá helst að hún nýtist hverfum eða íbúum bæjarins í heild, sé auðveld í framkvæmd, sé í verkahring bæjarins, falli að skipulagi og stefnu Mosfellsbæjar og kostnaður sé ekki mjög mikill þannig að nokkrar hugmyndir geti hlotið brautargengi.

Í Okkar Mosó 2017 tóku um 14,0% íbúa þátt og komust tíu hugmyndir áfram, svo sem fjölgun bekkja fyrir eldri borgara, ungbarnarólur á róluvelli bæjarins, fuglafræðslustígur meðfram Leirvoginum og strandblakvöllur á Stekkjarflöt. Í Okkar Mosó 2019 komu fram margar frábærar hugmyndir og nýttu 19,1% bæjarbúa sér atkvæðisétt sinn sem er mesta þátttaka sem verið hefur í sambærilegum kosningum hér á landi.
Verkefni sem þá fengu brautargengi voru meðal annars, ærslabelgur á Stekkjarflöt sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, betri lýsing við göngustíga, leikvellir fyrir yngstu börnin, Miðbæjartorgið fegrað, kósý Kjarni ásamt ýmsu fleiru sem sjá má á heimasíðu verkefnisins. Öllum þeim sem komu fram með tillögur eru færðar bestu þakkir fyrir hugmyndaauðgi.

Hugmyndavefurinn er opinn til 6. apríl nk. og verður kosið um bestu hugmyndirnar dagana 31. maí til 6. júní nk. Nú þegar hafa margar frábærar tillögur komið fram og vil ég hvetja alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og hafa þannig áhrif á nærumhverfi okkar.
Allir íbúar sem hafa lögheimili í Mosfellsbæ geta kosið og vil ég sérstaklega geta þess að kosningin er opin öllum sem verða 15 ára eða eldri á kosningaárinu, því hvet ég ungt fólk til þátttöku og taka þannig þátt í málefnum bæjarins. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu mos.is/okkarmoso
Tökum þátt, því saman byggjum við upp betri bæ.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.

Það er best að búa í Mosfellsbæ!

Guðmundur Hreinsson

Ekki alls fyrir löngu þá barst mér skoðanakönnun sem fjallaði um upplifun mína á því hvernig mér fyndist að búa á þeim stað sem ég bý. Að mínu mati þá var ekki erfitt að svara þeim spurningunum öllum í þá veru að hvergi á jarðríki er betra að búa en í Mosfellsbæ.
En eftir á að hyggja þá fékk ég bakþanka vegna þess að marg oft hef ég orðið var við það að pólítíkusar bæjarins veifi þessari skoðannakönnun sem merki um eigið ágæti og afrek og þess vegna vil ég hér með koma því á framfæri að það er ekki vegna þeirra afreka sem ég svaraði þessari skoðanakönnun eins og ég gerði eða að það er hvergi betra að búa en í Mosfellsbæ. Ég tala svo nú ekki um umhverfið og náttúruna!

Ég bý í þeim hluta Mosfellsbæjar sem oft er kallað olnbogabarn Mosfellsbæjar eða í Mosfellsdal. Nafnið dregur sennilega taum af því að við erum oftast síðust í röðinni þegar kemur að ýmsum framkvæmdum á vegum bæjarins og drífa ekki öll þau gæði sem bærinn veitir bæjarbúum upp í Mosfellsdal einhverra hluta vegna.
Af mörgu er hægt að taka hvað þetta varðar og töluvert misræmi sem er á milli Mosdælinga og annara bæjarbúa og má t.d. nefna að til stóð að leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og var sá samstarfssamningur undirritaður fyrir nokkrum árum í votta viðurvist og smellt mynd af virtum bæjarpólitíkusum og forstjórum og birt hér í þessu ágæta blaði.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun þá var Mosfellsdalur síðastur í röðinni. Þegar kom svo að Mosfellsdal þá kom babb í bátinn. Fyrirtækið Míla var ekki tilbúið að leggja ljósleiðara um Mosfellsdal vegna þess að það þótti ekki hagkvæmt og ekki bissness fyrir fyrirtækið þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar að það skyldi leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og viljayfirlýsingu þar um. Var brugðið á það ráð að sækja um dreifbýlisstyrk til Fjarskiptasjóðs til að fjármagna verkefnið í ljósi átaksins „Ísland ljóstengt“. Fékkst styrkur sem miðast af því að þeir sem ekki hafa kost á því að tengjast ljósneti gætu fengið styrk.

Efla verkfræðistofa var fengin í það að skipuleggja verkefnið og komast að því hverjir væru styrktarhæfir og hverjir ekki. Virðist vera að þeirra vinna hafi verið fólgin í því að fara inn á heimasíðu Mílu og slá inn heimilisföngum hverjir gætu hugsanlega tengst ljósneti og hverjir ekki og niðurstaða fengin samkvæmt því með frekar óvísindalegum niðurstöðum.
Niðurstaða bæjarfélagsins var sú að þeir sem væru styrktarhæfir greiddu 125 þúsund og óstyrktarhæfir greiddu 375 þúsund krónur til að fá ljósleiðara. Míla mátti svo sjálft velja eftir eigin geðþótta úr þau heimili sem gátu fengið tengingu á lægra gjaldinu burt séð hvort styrkur fengist eða ekki. Nú spyrja margir af hverju ættu íbúar Mosfellsdals að greiða eitthvað umfram aðra sérstaklega í ljósi þess að allir aðrir íbúar greiddu ekki neitt, en svona er nú að vera olnbogabarn Mosfellsbæjar.

Mikil áhersla var lögð á það af hálfu íbúafélagsins Víghóls að bæjarfélagið sem hafði yfirumsjón og var ábyrgðaraðili að framkvæmdinni framkvæmdi þetta allt í nánu samstarfi við íbúa og íbúasamtökin. Ekki er hægt að segja að það hafi verið gert með nokkrum hætti og allar ákvarðanir teknar í reykfylltu bakherbergi og svo að lokum tilkynnt hvernig þetta ætti allt saman að vera.
Það sjá það allir að hér er ekki um opið og sanngjarnt ferli að ræða og samkvæmt skoðanakönnun sem íbúafélagið gerði á meðal íbúa þá hefðu þeir sjálfir kosið, af því á annað borð væri gjaldtaka, að þá yrði hún jöfn og sama greiðsla sem öll heimili greiddu jafnt.
Einnig vildi fólk að Mílu hefði ekki verið gefið opið leyfi að bjóða eftir eigin geðþótta betri kjör á tengingu til einstakra heimila. Þetta endurspeglar heilbrigðan hugsunarhátt hjá íbúum Mosfellsdals sem er að skipting á einhverjum gæðum skuli skipt með jöfnum og réttlátum hætti á milli allra íbúa dalsins.

Eins og ferlið var framkvæmt þá er það allt mjög ámælisvert og allt til þess fallið að skapa sundrung á meðal íbúa. Hið gagnstæða gerðist hins vegar sem var að þetta þjappaði fólki frekar saman í því að fordæma svona vinnubrögð og munum við leggja mikla áherslu á í framtíðinni að allar ákvarðanatökur verði gerðar í sátt og í samvinnu við íbúa í gegnum íbúasamtökin.
Já, gott fólk! Það er þess vegna sem það er best að búa í Mosfellsbæ. Það er vegna þess að íbúar Mosfellsdals- og bæjar er gott og réttlátt fólk og niðurstöður allra kannana um hvar best er að búa hefa bara alls ekkert með bæjaryfirvöld eða pólitíkusa að gera.

Guðmundur Hreinsson
Greinarhöfundur situr í stjórn Víghóls íbúasamtaka Mosfellsdals.

Lifandi málaskrá og dagbók

Stefán Ómar Jónsson

Kæru Mosfellingar.
Bættur aðgangur að upplýsingum er forsenda gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar en það er eitt af áherslum Vina Mosfellsbæjar.
Það er því okkar kjörinna fulltrúa að búa svo um hnútana að íbúarnir geti á auðveldan hátt nálgast upplýsingar og öðlast þannig innsýn í verkefni stjórnsýslunnar.
Aukin upplýsingagjöf og gott aðgengi að upplýsingum eykur traust á störf stjórnsýslunnar um leið og íbúum er gert það sem auðveldast að kynna sér hin ýmsu mál sem þar eru til meðferðar hverju sinni. Málsnúmer og heiti mála úr málaskránni getur allur almenningur svo nýtt sér til að óska frekari upplýsinga um mál á grundvelli heimilda í upplýsingalögum nr. 140/2012.

Með þetta í huga lagði undirritaður fram tvær tillögur í bæjarráði Mosfellsbæjar í þessari viku um:
– Rafrænan aðgang almennings að málaskrá Mosfellsbæjar og
– Rafræna birtingu helstu daglegra verkefna bæjarstjóra.
Þess má geta að ráðuneytin eru um þessar mundir að undirbúa að birta málaskrár sínar á vef stjórnarráðsins og er tilgangurinn einmitt sá að auðvelda almenningi að fá yfirsýn yfir verkefni hvers ráðuneytis. Núverandi forsætisráðherra hefur einnig beitt sér fyrir því að dagbækur ráðherra í ríkisstjórn Íslands eru nú þegar aðgengilegar á vef stjórnarráðsins.

Hér að neðan fylgir slóð á dagbók forsætisráðherra þar sem fólk getur kynnt sér hvernig undirritaður sér fyrir sér að birting á dagbók bæjarstjóra Mosfellsbæjar gæti litið út.
En af hverju dagbók bæjarstjóra? Jú vegna þess að öll verkefni sem bæjarstjóri innir af hendi í nafni embættis bæjarstjóra eru opinber embættisverk sem eðlilegt væri að íbúar Mosfellsbæjar gætu fylgst með.

Það er von mín að bæjarráð taki vel í fyrirliggjandi tillögur mínar um rafrænan aðgang íbúa að annars vegar málaskrá Mosfellsbæjar og hins vegar að dagbók bæjarstjóra.

Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Til upplýsingar er hér hlekkur á dagbók forsætisráðherra 1. – 7. mars 2021.

Friðlandið við Varmárósa stækkað

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Í síðustu viku undirritaði ég stækkun friðlandsins við Varmárósa. Ósarnir hafa verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978 og voru fyrst friðlýstir árið 1980.
Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því að þar er að finna fágæta plöntutegund, fitjasef, auk þess sem sjávarfitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.
En það er samt fleira sem gerir svæðið einstakt; það er nefnilega einstakt að hafa aðgang að lítt snortnu votlendissvæði í næsta nágrenni við byggð. Svæði sem iðar af lífi og býður upp á ótal möguleika til fræðslu, útivistar og náttúruskoðunar. Markmið friðlýsingar Varmárósa er að vernda náttúrulegt ástand votlendis og sérstakan gróður sem á svæðinu er að finna. Fitjasef finnst bara á einum öðrum stað á landinu svo vitað sé, fyrir utan Varmárósa, sem gerir verndarsvæðið mjög merkilegt.
Það hefur verið virkilega ánægjulegt að finna hversu ríkur vilji hefur verið af hálfu Mosfellinga til þess að tryggja vernd þessa einstaka svæðis, en votlendissvæði hafa svo sannarlega átt undir högg að sækja undanfarna áratugi. Ég er sannfærður um að stækkun friðlandsins muni enn frekar stuðla að því að íbúar og gestir svæðisins geti rannsakað og notið þess fjölskrúðuga lífs sem finna má á svæðinu.

Átak í friðlýsingum
Stækkun friðlýsts svæðis við Varmárósa er 16. friðlýsingin sem undirrituð er á þessu kjörtímabili. Eitt það fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð umhverfis- og auðlindaráðherra var að setja af stað átak í friðlýsingum, sem unnið hefur verið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á meðal þeirra svæða sem hlotið hafa vernd í ráðherratíð minni eru náttúruperlur á borð við Geysi, Goðafoss, Kerlingarfjöll og Látrabjarg. Ég stefni að því að áður en kjörtímabilið er á enda muni 15-20 svæði til viðbótar verða friðlýst.

Til hvers að friðlýsa?
Með friðlýsingu tökum við ákvörðun um að setja náttúruna í fyrsta sæti og stuðla að sjálfbærri nýtingu sem gengur ekki í berhögg við náttúruna, okkur og komandi kynslóðum til heilla. En mörgum friðlýsingum fylgir líka umsjón og styrking innviða. Fyrr í þessum mánuði var í fjórða sinn tilkynnt um úthlutun fjármagns úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum vítt og breitt um landið. Landsáætlun er þannig öflugt verkfæri í þágu náttúrunnar.
Á Íslandi eru nú, auk Varmárósa, rösklega 120 friðlýst svæði og mörg þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða næsta nágrenni þess. Ég hvet þig, lesandi góður, til að fletta þeim upp og velja þér einhverja einstaka náttúruperlu í nágrenninu til að heimsækja og njóta náttúrunnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
umhverfis- og auðlindaráðherra

Von og vellíðan

Sonja Riedmann

Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar fagnaði 25 ára afmæli þann 19. mars.
Hvernig við náum von og vellíðan er nokkuð sem flestir velta fyrir sér. Sjálf hef ég fundið leið með svokölluðu NEWSTART Program (newstart.com).
Það er byggt á meira en 100 ára kenningum E.G. White. Fólk sem lifir eftir þessum kenningum, lifir hvað lengst í heiminum í dag. Í Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar kenni ég þessar aðferðir samhliða sjúkraþjálfun.

Lífsstílsbreytingar skila sér og eru vel rannsakaðar af mörgum fræðimönnum um allan heim. Neal D. Barnard læknir skrifaði í bók sinni Foods That Fight Pain að maturinn sem við borðum geti valdið verkjum.
Hann útskýrir að með því að sleppa ýmsum fæðutegundum, getum við minnkað bólgur, fundið sökudólgana og náð vellíðan í líkama okkar (Barnard, 1998).
Shushana Castle og Amy-Lee Goodman gáfu út bókina Rethink Food: 100+ Doctors Can´t Be Wrong. Þessir hundrað læknar skrifa sögur um fólk, sjúkdóma og lífsstíl og hvernig matur tengist vellíðan (Castle og Goodman, 2014). Eddie Ramirez skrifaði um sykursýki 2 Diabetes Can Be Defeated og hvernig hægt er að losna við eða minnka sykursýki með hundrað prósent breyttum lífsstíl (Ramirez, 2014). Neal Nedley læknir kynnir hvernig mögulegt er að losna við eða minnka þunglyndi í bók sinni Depression the Way Out (Nedley 2001).

Á þessum tímamótum vona ég að sem flestir nái betri heilsu. Því má ekki gleyma að góð heilsa er ekki síst undir því komin að lifa í sátt. Samanber hina svokölluðu æðruleysisbæn:
„Guð, gefi mér æðruleysi, til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“ (Reinhold Niebuhr)
Ég þakka gott samstarf.

Sonja Riedmann, sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar

Umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi

Ásgeir Sveinsson

Í Leirvogstunguhverfi sem og í öðrum hverfum Mosfellsbæjar snýst umferðaröryggi að miklu leyti um hegðun íbúanna í umferðinni. Leirvogstunga er nýlegt hverfi í Mosfellsbæ og í meirihluta hverfisins er leyfilegur hámarkshraði 30 km. á klukkustund.
Að beiðni Mosfellsbæjar var Verkfræðistofan EFLA fengin til að meta umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi og samhliða því var íbúum hverfisins gefin kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir varðandi umferð og umferðaröryggi í hverfinu.
Megin tilgangur vinnu þessarar var að taka sama ábendingar og athugasemdir sérfræðinga EFLU og íbúa um hvað megi bæta í umferðaröryggi hverfisins, hverju þurfi mögulega að breyta, hvernig þá og af hverju.

Íbúasamráð
Auglýst var á Facebook síðu Leirvogstunguhverfisins eftir ábendingum íbúa. Sérstakur hlekkur var á Facebook síðu þessari þar sem hægt var að merkja við staðsetningu og koma með athugasemdir og ábendingar varðandi hættulega staði með tilliti til umferðaröryggis.
Hlekkurinn var virkur í eina viku og alls bárust 134 athugasemdir. Samráð sem þetta við íbúa er mikilvægt til að ná sem bestu, hagkvæmustu og skilvirkustu niðurstöðu til að auka umferðaöryggi í hverfinu, því íbúar hverfisins þekkja það best hvað betur má fara.
Það er þakkarvert hve margar góðar ábendingar og athugasemdir bárust og verða þær allar skoðaðar.

Helga Jóhannesdóttir

Slysagreining
Samkvæmt slysagögnum Samgöngustofu voru 18 slys og óhöpp skráð í Leirvogstungu og Tunguvegi á árunum 2015 – 2019. Voru 17 þeirra óhöpp án meiðsla og eitt slys með litlum meiðslum.
Flest slysanna voru einslys, það er að segja slys þar sem einungis einn aðili átti hlut að slysinu. Einslysin voru meðal annars þegar ekið var á ljósastaur, vegrið og á ökutæki sem er lagt við hægri brún götu.
Í slysagreiningunni kemur til dæmis fram að töluvert sé ekið á bíla sem eru kyrrstæðir í bílastæðum við götukanta.
Nokkrir staðir í hverfinu vekja meiri athygli en aðrir út frá slysagreiningunni. Ber hér helst að nefna Laxatungu við gatnamót Leirvogstungu (austur tenging) og gatnamót Laxatungu og Kvíslartungu (suður tenging).

Umferðaröryggi í hverfinu
Ábendingar og athugasemdir bárust meðal annars frá íbúum varðandi lýsingu í hverfinu, varðandi mikinn hraða ökutækja, skertrar sjónlengdir, til dæmis vegna gróðurs sem nær út fyrir lóðamörk, skjólveggja og óhagstæðra legu vinkils götu.
Hraðatakmarkandi aðgerðir eins og hraðahindranir sem styðja 30 km. hraða eru nú þegar til staðar í hverfinu og bann­svæði hafa verið máluð á vissum stöðum til að lágmarka árekstrarhættu og hraða. En gera þarf betur og er til dæmis mælt með því í skýrslunni að kynna fyrir íbúum hættu sem myndast við gatnamót þar sem sjónlengdir eru skertar og þar sem gróður nær út fyrir lóðarmörk.

Skýrsla EFLU hefur verið kynnt í skipulagsnefnd og rædd í Bæjarstjórn Mosfellsbæjar auk þess sem skýrslan var birt á Facebook síðu Leirvogstunguhverfis. Umhverfissviði Mosfellsbæjar hefur nú verið falið að rýna niðurstöður skýrslunnar og verða tillögur íbúa og sérfræðinga EFLA nýttar til þess að auka enn frekar umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Helga Jóhannesdóttir, nefndarmaður í skipulagsnefnd og varabæjarfulltrúi

STRAX-heilkennið í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Embættismenn í Kína tilheyra gamalli stétt. Sú er mun þróaðri en sú íslenska. Rekja má kínverska embættismannakerfið langt aftur í aldir.
Réðu þar konungar og keisarar sem oft á tíðum voru fremur lítt stjórntækir. Má þar m.a. nefna síðasta keisarann Puyi. Puyi sagði af sér embætti „STRAX“ í upphafi síðustu aldar. Við tók borgarastyrjöld, svo árásir Japana og að lokum kommúnistar.
Á bæjarstjórnarfundum í Mosfellsbæ virðist þessu öðruvísi farið en þar sem best lætur. Í Mosfellsbæ á embættis- og stjórnmálamaður það til að renna saman í einn mann rétt eins og í óræðu listaverki eftir uppáhaldið mitt, sjálfan Salvador Dali. Heima hjá Dali, í spænska sjávarþorpinu Port Lligat við Miðjarðarhafið, er stigi sem liggur upp í ekkert. Ætli að þar sé að finna hinn eiginlega metorðastiga hins íslenska pólitískt ráðna embættismanns sem haldinn er „Stokkhólms-heilkenni“?
Bóseindir eðlishyggjunnar birtast er embætti forseta bæjarstjórnar, pólitískt ráðna bæjarstjórans og kjörna bæjarfulltrúans, þ.e. oddvita Sjálfstæðisflokkins, renna saman í einn mann. Á sér þá stað fremur óstöðugur kjarnasamruni, sérlega þegar fara á „STRAX“ í fundarhlé. Ekki er séð hvaða neyðarástand er uppi þegar svo brátt skal brugðist við.

„Únglingurinn í skóginum“ varð til hér í Mosfellsbæ. Frá þeim tíma er Hriflubóndinn bannfærði Laxness hefur ekki verið uppi súrrealískara ástand í Mosfellsbæ, þökk sé meirihluta Sjálfstæðisflokks og VG. Hvorki eru anemónur kysstar næ hlegið. Það er miður.
Fréttir herma að nýlega hafi Mosfellsbær tapað dómsmáli í héraði gegn fjölfötluðum einstaklingi. Samkvæmt efni dómsins varðar málið NPA samning sem bærinn dró að ganga frá. Þegar bæjarfulltrúar, sem vilja hreyfa við viðkæmum málum en mikilvægum er slíkt túlkað, af helstu „súrrealistum“ bæjarstjórnar, sem árás á Mosfellsbæ eins og hann leggur sig. Í versta falli er í slíkum málum fullyrt að viðkomandi bæjarfulltrúar, sem gagnrýna lélegan rekstur og gerræðislegt stjórnarfar, séu að ráðast með ofbeldi á starfsmenn bæjarins.
Hversdagsleiki illskunnar á sér hér engin takmörk í augljósri ógnarstjórn er skákar hér í skjóli aumkunarverðs meirihluta. Sá sem stýrir er sá sem ber ábyrgð en ekki einstakir starfsmenn. Ábyrgðina á þessu ber embættismaðurinn og bæjarstjórinn í senn. Mun meirihlutinn axla hana?

Þessu til fyllingar skal bent á grátkór sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sá kallar stöðugt eftir fjármagni úr ríkissjóði, jafnvel í gegnum gjallarhorn banka. Ríkissjóður reynir að halda sig við langtíma fjármálaáætlun í sama mund og sveitarfélögin mörg hafa úr ónýttum skattheimildum að moða. Þetta staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra nýlega.
Ekki skal mærð aukin skattlagning en þarna virðist hnífurinn standa í heilagri kú. Sveitarfélögin mörg sóa ítrekað af almannafé og það í gæluverkefni eins og hönnun á óarðbærri borgarlínu. Nefna má einnig sóun í SORPU og illa rekinn Strætó. Þau senda nú sjálfsagt brátt frá sér hágrát úr fjarskiptakerfinu vegna NPA samninga við fatlaða einstaklinga. Er það þar sem á að spara og láta hart mæta hörðu?
Vonum að embættismannakerfið á Íslandi, sérstaklega í yfirstjórn Mosfellsbæjar, breytist. Þurfum við að bíða þar til enn einn vel meinandi embættismaðurinn gefst upp, hættir, hverfur? Já, hverfur rétt eins og í Kína.

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Verður byggð blokk í bakgarðinum hjá þér?

Jón Pétursson

Þegar fólk kaupir sér húsnæði er að mörgu að hyggja. Byggingin þarf að uppfylla lög og reglugerðir en því miður virðast allt of margir gallar koma í ljós eftir að eigendur taka við fasteign. Margir slíkra galla eru á ábyrgð hönnuða, byggingastjóra eða meistara.
Skv. lögum má Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (áður Mannvirkjastofnun) ávíta og svipta starfsréttindum þá sem vanrækt hafa starfsskyldur sínar. Ekki hefur komið til þess að hönnuður, byggingastjóri eða iðnmeistari hafi hlotið áminningu og misst löggildingu eða starfsleyfi á grundvelli 57. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ótrúlegt! Hér er ekki við byggingafulltrúa að sakast heldur Húsnæðisstofnun svo að það sé tekið fram. Yfirvöld í bænum ættu hins vegar að beita sér fyrir að byggingaeftirlit fái nægt fjármagn til þess að veita aðhald þeim sem starfa í mannvirkjagerð innan bæjarmarka.
Aðrir hagsmunir vega einnig þungt, t.a.m. skipulagsþátturinn. Þar gilda önnur lög en í grófum dráttum má segja að skipulagsvaldið sé pólitískt. Bæjarstjórn tekur ákvörðun um aðalskipulag sem er áætlun eða stefna. Það má segja að aðalskipulag sé framtíðarsýn.
Deiliskipulag er áætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti sem í manna máli eru kölluð hverfi. Þetta er þó ekki algilt.
Skipulagsþátturinn er alfarið á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Skipulagsvaldið er nánast alltaf í höndum sveitarfélagsins.
Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur tekið þá afstöðu að deiliskipulagi sem er í gildi eigi ekki að breyta. Átæða þess er sú að við breytingar skerðast gæði þeirra sem fyrir eru.
Á þessu eru að vísu fáeinar undantekningar. Þær eru t.d. breytingar er lúta að umferðaröryggi íbúa og aðgengi. Miðflokkurinn hefur líka verið fylgjandi breytingum á deiliskipulagi hverfa sem eru óbyggð enda vita fasteignakaupendur þar að hverju þeir muni ganga.
Það er nefnilega raunin að þegar verið er að gera breytingar er of algengt að horft sé til gróðasjónarmiða vertaka. Rökin sem beitt er geta verið að markaðurinn kalli eftir tilteknum stærðum eigna og því sé eðlilegt að fjölga íbúðum. Yfirleitt fylgja slíkum fullyrðingum engin gögn.
Greiningardeild Ríkislögreglustjóra gaf út skýrslu um skipulagða brotastarfsemi 2019. Í skýrslunni var vitnað í Noreg og ástandið þar.
„Í kafla um spillingu á bæjar- og sveitarstjórnarstigi segir að sakamál síðustu ára gefi til kynna sérstaka áhættu á spillingu í tengslum við leyfisveitingar vegna skipulagsmála og byggingaframkvæmda. Sú hætta sé fyrir hendi að starfsmenn á bæjar- og sveitarstjórnarstigi ýmist reyni að hagnast á aðstöðu sinni með tilliti til leyfa vegna framkvæmda eða þeim séu boðnar mútur. Fjallað er um að framferði sem almenningur upplifi sem siðleysi og spillingu á þessu sviði stjórnsýslunnar þurfi ekki nauðsynlega að fela í sér lögbrot. Sagt er frá rannsókn á vegum samtaka sveitarfélaga í Noregi árið 2018. Í henni kváðust 85% stjórnenda á bæjar- og sveitarstjórnarstigi telja spillingu „litla eða mjög litla“ á þessu sviði opinbers reksturs. Í sömu könnun sögðu 13% þátttakenda að þeir hefðu á síðustu 12 mánuðum orðið fyrir þrýstingi um að hygla sérstaklega tilteknum aðilum í störfum sínum.“
Vonandi stöndum við okkur betur en Noregur.

Jón Pétursson, fulltrúi Miðflokksins í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar

Einn eða tveir skólar?

Foreldar barna í Varmárskóla fengu rafræna kynningu á niðurstöðum HLH ráðgjafar um stjórnskipulag Varmárskóla og tillögu hans um að skipta skólanum í tvo skóla.
Fámennt var á fundinum og því ákvað stjórn foreldrafélgsins að varpa spurningunni yfir til foreldra/forráðamanna um álit þeirra á fyrirhugaðar breytingar stjórnskipulagsins. Á heimasíðu foreldrafélagsins var einfaldlega spurt; einn eða tveir skólar?
Alls svöruðu 147 foreldar/forráðamenn könnuninni. Rúmlega helmingur eða 51% af þeim voru sammála tillögum HLH ráðgjafar um að betra væri að skipta skólanum upp í tvo sjálfstæða skóla. Það voru 26.5% sem svöruðu neitandi og 22.4% voru hlutlaus. Foreldrum/forráðamönnum gafst einnig kostur á að svara spurningunni: „Viltu koma einhverju á framfæri?”. Tæplega þrjátíu manns svöruðu og komu með ýmis konar ábendingar og tillögur. Það sem helst kom stjórn foreldrafélagsins á óvart við úrvinnslu gagnanna var hversu mikill fjöldi foreldra/forráðamanna hafði ekki vitneskju um fyrirhugaðar aðgerðir og skildi því ekki ástæðu könnunarinnar. Það er því ljóst að upplýsingaflæði varðandi skýrslu HLH ráðgjafar til foreldra/forráðamanna hefði mátt vera ýtarlegra og með meiri fyrirvara.

Hér er að neðan er samantekt úr þeim ábendingum sem barst frá foreldrum/forráðamönnum:
Jákvæð viðhorf: Eins og fram hefur komið var meirihluti forráðamanna jákvæður fyrir því að skólanum yrði skipt upp í tvo sjálfstæða skóla. Nokkrir þeirra tóku fram að tilvalið væri að skipta skólanum upp í smærri einingar. Fram kom að skólinn væri sprunginn og að með skiptingunni fengist eflaust meiri yfirsýn yfir skólastarfið.
Nýir skólastjórnendur: Algengasta ábend­ingin sem kom fram var ósk forráðamanna um að ráðnir yrðu nýir skólastjórnendur fyrir nýja skóla og mikilvægt væri að auglýsa báðar stöðurnar. Foreldrafélagið tekur undir þessar ábendingar foreldra.
Ónægar upplýsingar: Margir höfðu spurningar um hvaða breytingar þetta myndi í raun hafa í för með sér. Hvort mötuneyti yrði í báðum skólum? Hvort stoðþjónustan myndi eflast? Hvort tvö foreldrafélög yrðu starfrækt? Skýr ósk kom fram um að nauðsynlegt væri að hafa ýtarlega kynningu fyrir foreldra/forráðamenn.
Annað: Aðrir voru sáttir við stöðuna eins og hún er í dag. Fram kom að kosturinn við óbreytt fyrirkomulag væri samnýting ýmissa starfsmanna. Einnig var bent á að ef einungis væri um stjórnarfarslega breytingu að ræða myndi þetta í raun skipta litlu fyrir nemendur og foreldra/forráðamenn.
Stjórn foreldrafélags Varmárskóla mun senda fræðslunefnd Mosfellsbæjar niðurstöður könnunarinnar í von um að ábendingar foreldra reynist gagnlegar og að mark verði tekið af þeim í komandi skipulagningu skólanna.

Fh. stjórn foreldrafélags Varmárskóla
Ólafía Bjarnadóttir

Leiruvogurinn – útivistaperla í Mosfellsbænum

Úrsúla Jünemann

Við sem búum í Mosfellsbænum erum stolt af náttúrunni allt í kringum okkur.
Hér getur hver og einn stundað útivist við sitt hæfi. Það er sérlega mikilvægt á þessum erfiðu tímum þar sem COVID setur okkur svo þröngar skorður. Fjöllin í kringum okkar laða að alveg eins og skóglendin. Fjórar fallegar ár renna í gegnum bæjarlandið eða rétt hjá. Þar eru fossar og frábærar gönguleiðir.
En svo er ein perla í landi Mosfellsbæjar sem ég vil nefna sérlega: Strandlengjan við Leiruvoginn. Innst í voginum er friðlandið við Varmárósa. Það er nýbúið að stækka þetta svæði og er það gott.
Æskilegt væri að Leiruvogurinn, sem hefur verið lengi á náttúruminjaskrá, væri einnig friðlýstur í heild. Reykjavíkurborg hefur stigið skrefið til fulls og nýlega friðlýst sína strandlengju frá Blikastaðarkró og vestur úr.
Hvers vegna gátu mosfellsku yfirvöldin ekki verið í samfloti í þessu til að skapa eina heild?
Leirurnar í voginum eru sérstakar og mjög dýrmætt lífríki. Þær eru ákaflega frjósamar og þar þrífst urmull af smádýrum sem gefa hundruðum jafnvel þúsundum fugla fæði allt árið í kring.
Í leirurnar leita vetrarfuglar þegar lítt annað er að fá í gogginn. Svæðið er líka afar mikilvægt fyrir umferðarfugla sem stoppa hér á leiðinni til að birgja sig upp áður en þeir halda áfram. Má þar nefna margæs, rauðbrysting og fleiri tegundir.
Útivistarfólk í Mosfellsbænum og reyndar líka í Reykjavík vilja væntanlega varðveita þessa strandlengju og vernda hana. Það á við alla þá sem njóta einstakrar náttúru við sjóinn: göngufólk, skokkarar, hestamenn, hjólreiðafólk og golfarar. Að fara meðfram strandlengjunni jafnt að sumri sem vetri er alltaf sérstök upplifun.

Úrsúla Jünemann

Býrð þú yfir þrautseigju og seiglu?

Ólöf Kristín Sívertsen

Mörg okkar gera markvissar æfingar til að efla líkamlegt úthald og vöðvastyrk en spurning hversu mörg okkar gera æfingar til að auka andlegan styrk og verða sterkari í daglegu lífi?

Hvað er þrautseigja/seigla?
Þessi hugtök eru sannarlega ekki ný af nálinni enda voru þau og merking þeirra til umræðu hjá forngrískum heimspekingum á borð við Aristóteles og Plató. Hugtökin er náskyld og segja sumir að seigla sé hluti af þrautseigju en hér verða þau lögð að jöfnu.
Þrautseigja/seigla er notað um þá færni sem við beitum þegar við mætum mótlæti í lífinu og það að gefast ekki upp þó að á móti blási. Hún einkennist af staðfestu, andlegum styrk og og úthaldi til að takast á við áskoranir og krefjandi breytingar í lífi okkar. Þeir sem hafa náð að tileinka sér þrautseigju/seiglu eiga það flestir sameiginlegt að hafa trú á eigin getu, vera sjálfsöruggir, sjálfstæðir, ábyrgðarfullir og líta jákvæðum augum á lífið.

Vellíðan og farsæld
Þrautseigja/seigla kemur ekki í veg fyrir erfið tímabil eða áföll í lífi okkar en þessir eiginleikar gera það af verkum að við eigum auðveldara með að takast á við áskoranir og halda áfram farsælu lífi þrátt fyrir krefjandi tímabil. Þótt við búum yfir þessum eiginleikum kemur það ekki í stað þess að leita aðstoðar sérfræðinga ef á þarf að halda á erfiðum tímum, slíkt getur verið mikilvæg leið til vaxtar og þroska.

Þrautseigja/seigla er talin samstanda af félagslegri hæfni, samskiptahæfni, lífsleikni, sjálfsstjórn og því umhverfi og aðstæðum sem við búum við.
Það sem styður við þrautseigjuna/seigluna, og þar með vellíðan okkar og farsæld í lífinu, er að ástunda heilbrigðan lífsstíl sem einkennist af góðum venjum s.s. að vinna með eigin tilfinningar, hvílast og nærast vel, hreyfa sig reglulega, stunda útivist og eiga í góðum félagslegum samskiptum.

Leggjum rækt við andlegan styrk, lærum um leiðir hugans og látum það endurspeglast í viðhorfum okkar og hegðun.
Bjartsýni og þrautseigja/seigla eru eitt af því mikilvægasta sem við lærum því þannig tekst okkur betur að takast á við hindranir og njóta lífsins.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnastjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Guðrún Marínósdóttir

Í nóvember 2020 bauð félagsmálaráðuneytið fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, ásamt sex öðrum sveitarfélögum í landinu, að vera með í tilraunaverkefni um framkvæmd félagslegrar ráðgjafar sem sérstaklega snýr að skilnaðarráðgjöf.
Markmið samkomulagsins um verkefnið er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Verkefnið snýr að eflingu félagslegrar ráðgjafar með áherslu á skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál.

Félagsmálaráðuneytið tryggir innleiðingu verkefnisins hvað varðar kostnað vegna samninga, annars vegar við danska fyrirtækið Samarbejde Efter Skilsmisse (SES) og hins vegar við íslenska sérfræðinga sem hafa umsjón með innleiðingu verkefnisins á Íslandi, þ.m.t. þýðingu efnis, fræðslu og handleiðslu til starfsmanna. Gildistími verkefnisins er 1. janúar til 30. júní 2021.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fékk kynningu á verkefninu 17. nóvember 2020. Verkefnið var síðan staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. nóvember 2020. Félagsráðgjafar fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hafa nú fengið þjálfun og kennslu frá sérfræðingum SES í þeim gagnreyndu aðferðum sem notaðar eru í verkefninu og geta þannig stutt við þá foreldra sem taka þátt í SES.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir foreldrar sem taka þátt í SES skilnaðarráðgjöf líður betur bæði andlega og líkamlega, en þátttaka foreldra hefur einnig áhrif á bætta líðan barna þeirra.

Ráðgjöfin er miðuð við foreldra barna 0-18 ára. Ráðgjöfin miðar að því að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi milli foreldra sem standa í skilnaðarferli og á þann hátt að vernda börn þeirra í ferlinu. Í gegnum verkefnið öðlast foreldrar færni og verkfæri til að takast á við óvæntar uppákomur sem tengjast skilnaðinum sem og skilning á viðbrögðum barna sinna við honum.

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda hagsmuni barnsins í ferlinu og bæta andlega og líkamlega líðan foreldra og barns. Úrræði verkefnisins sem í boði eru:
1. Rafrænt námskeið.
Námskeiðið samanstendur af þremur áföngum: Áhrif skilnaðar á foreldra, viðbrögð barna við skilnaði og samvinna foreldra við skilnað.
2. Sérhæfð ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Mosfellsbæjar.
3. Hópnámskeið. Námskeið fyrir foreldra er fyrirhugað á árinu (2021) þar sem ítarlega verður fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Mikilvægt er að hafa í huga að ráðgjöfin þarf ekki að fara fram jafnhliða í skilnaðarferli og er einstaklingsmiðuð. Þannig er hún líka fyrir foreldra þótt lagt sé um liðið frá skilnaði. Ekki er þörf á að báðir foreldrar taki þátt í SES verkefninu, þó svo það sé æskilegt, heldur getur annað foreldrið hæglega nýtt sér úrræðin sem í boði eru.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á samvinnaeftirskilnad.is, og á heimasíðu Mosfellsbæjar, þar sem einnig er hægt að sækja um í ráðgjöfina í gegnum mínar síður. Þá hefur samstarfsaðilum fjölskyldusviðs verið kynnt úrræðið.

Fyrir hönd SES hjá Mosfellsbæ,
Guðrún Marinósdóttir,
Stjórnandi barnaverndar

Vorhreingerningar

Michele Rebora

Veturinn í vetur hefur verið afskaplega blíður hér í bænum og lítið tilefni til að kvarta undan veðri.
Því kitlar hækkandi sól og lengri dagsbirta eflaust marga til að huga að vorverkum, hvort sem er í görðum, hesthúsum, bílskúrum eða geymslum. Vorinu fylgir oft innileg löngun til endurnýjunar, til þess að taka til og gera hreint. Tiltektin og endurnýjunin skila okkur vellíðan og snyrtilegu nærumhverfi en leiða jafnan af sér einhvers konar úrgang, eitthvert „drasl“ sem við þurfum að losa okkur við. Þá er gott að staldra dálítið við og velta fyrir sér hvernig best er bera sig að.
Sumt sem við sjálf höfum ekki lengur not fyrir getur komið sér vel fyrir aðra. Nýtum okkur t.d. hverfissíður á Facebook og auglýsum hlutina gefins, spörum okkur sporin og stuðlum um leið að betri nýtingu auðlinda. Endurnotkun er besta tegund endurvinnslu.
Ef við erum með garð er tilvalið að koma sér upp moltugerð sem getur tekið við laufum, grasi og öðrum minni garðúrgangi, ásamt flestum lífrænum eldhúsúrgangi. Þannig drögum við úr akstri, viðhöldum hringrás næringarefna á staðnum og fáum fínan áburð án búðarferða.
Auðvitað verður þó alltaf eitthvað sem við þurfum að losa okkur við og fara með í SORPU. En þá er gott að kíkja á vef fyrirtækisins, sorpa.is, og skoða vel hvaða flokkar eru í boði á okkar ágætu endurvinnslustöð hér að Blíðubakka. Rusl er nefnilega ekki bara rusl og fullt af því er hægt að endurvinna sé því komið í réttan farveg. Það er því mikilvægt að kynna sér möguleikana og skipuleggja ferðirnar eftir því.
Hreingerningarþörfin nær að sjálfsögðu líka til bílanna okkar; meira og minna salt-skítugir kaggar bíða þess eins að verða þrifnir. Munum þá að innkeyrslur og bílaplön eru almennt ekki staðurinn til þess. Tjöruhreinsir og drullugt sápuvatn mega ekki renna niður götuna og hverfa ofan í niðurfall. Þau hverfa nefnilega ekki, heldur berast óhreinsuð í læki og ár og eyðileggja lífiríki þeirra. Notum viðurkenndar bílaþvottastöðvar og þvottaplön bensínstöðvanna þar sem frárennsli fer í gegnum viðunandi hreinsivirki áður en því er veitt í fráveitukerfi.
Sleppum svo fram af okkur beislinu í vorhreingerningum og hjálpumst að í að fegra bæinn okkar eftir veturinn. Að plokka er til að mynda frábær leið til að sameina útihreyfingu og umhverfismál. Og það er ekki bara ruslið sem tínt er upp, heldur ýtir snyrtilegt umhverfi undir betra umgengni. Svo ekki sé talað um mikilvægi jákvæðs fordæmis.
Já, það er vor í lofti og gildir einu þótt eitthvert páskahret sé eftir, tiltektin er hafin.

Michele Rebora
Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd

Hlégarður – Hús okkar Mosfellinga

Bjarki Bjarnason

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að ráðast í viðamiklar endurbætur innanhúss á félagsheimilinu Hlégarði.
Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið á næstu fjórum árum, nú þegar hefur fyrsti áfanginn verið boðinn út og er hann fólginn í gagngerum breytingum og endurbótum á jarðhæð hússins. Í síðari áföngum verksins verður opnuð leið upp á efri hæð Hlégarðs svo hægt verði að nýta það rými betur. Áður hefur húsið verið endurbætt að utan, skipt um klæðningu og glugga og þakið endurgert.

Merkileg saga
Félagsheimilið Hlégarður á sér merka sögu, það var vígt 17. mars 1951 og fagnar því 70 ára vígsluafmæli í þessum mánuði. Arkitekt hússins var Gísli Halldórsson (1914-2012) sem teiknaði meðal annars Laugardalshöll og fleiri stórbyggingar í Reykjavík.
Þegar Hlégarður var reistur bjuggu einungis rúmlega 500 manns í Mosfellshreppi, byggingin var stórátak fyrir sveitarfélagið en Ungmennafélagið Afturelding og Kvenfélag Lágafellssóknar lögðu einnig hönd á plóginn og áttu reyndar eignarhlut í húsinu næstu áratugina. Salurinn rúmaði 230 manns og var haft á orði að félagsheimilið nýja væri það glæsilegasta í sveit á Íslandi. Öllum Mosfellingum var boðið til vígslunnar, þar flutti Halldór Laxness hátíðarræðu þar sem hann kvaðst

Haraldur Sverrisson

óska þess að hér mætti „ … blómgast siðmentað skemtana- og listalíf í ýmsum myndum og hér verði mörgum góðum ráðum ráðið um hvaðeina sem vera má til velgeingni mentunar og eindrægni innan héraðs í samræmi við félagslegar hugsjónir nútímans.“
Hlégarður varð strax kjölfestan í félagslífi Mosfellinga, húsið hefur tekið allmiklum breytingum í tímans rás, það hefur verið stækkað og innra rýmið tekið nokkrum stakkaskiptum. Á heilum mannsaldri hefur Hlégarður gegnt afar fjölþættu hlutverki, þar hafa til dæmis verið leiksýningar og leikfimikennsla, tónleikar og tombólur, alls konar fundir, basarar, bíósýningar og böll.

Nútímalegt hús á gömlum grunni
Markmið endurbótanna í Hlégarði er að tryggja aukið notagildi hússins og það verði ein af miðstöðvum menningarlífsins í Mosfellsbæ. Er þetta í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að unnið verði „ … að stefnumótun fyrir Hlégarð og að eitt höfuðmarkmið þeirrar vinnu verði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.“
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fer með málefni Hlégarðs í umboði bæjarstjórnar og samþykkti nefndin fyrir nokkrum árum að fá arkitektastofu til að gera tillögur að breytingum á innra rými hússins. Arkitektastofan Yrki tók það verkefni að sér og hugaði sérstaklega að heildaryfirbragði og sögu hússins og að byggingin héldi sem mest sínu upphaflega svipmóti. Um leið yrði kappkostað að húsið svaraði nútímakröfum og notagildi þess verði í senn mikið og fjölbreytt.
Það er von okkar og vissa að þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast í Hlégarði muni efla allt félags- og menningarlíf í Mosfellsbæ í lengd og bráð.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.