Breytum þessu

Valdimar Birgisson

Við stöndum nú á tímamótum. Alþingiskosningarnar þann 30. nóvember 2024 munu marka stefnuna fyrir framtíð landsins og þar býður Viðreisn upp á skýra, raunhæfa og framsækna stefnu fyrir samfélag þar sem frelsi, jöfnuður og ábyrg hagstjórn eru í fyrirrúmi.
Nú er kominn tími til að taka á helstu áskorunum okkar með alvöru lausnum. Það er kominn tími til að breyta.

Alvöru hagstjórn til að ná niður verðbólgu
Verðbólga hefur leikið íslenskan almenning grátt síðustu misseri. Hún étur upp kaupmátt og veldur óstöðugleika í efnahagslífi heimilanna og fyrirtækja með háum vöxtum sem eru fylgikvilli verðbólgunnar.
Viðreisn leggur áherslu á stöðugleika. Með ábyrgri hagstjórn getum við dregið úr verðbólgu og tryggt jafnvægi í efnahagslífinu. Við viljum lækka verðbólgu og vexti, greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði ríkisins með því að leggja áherslu á að fara betur með opinbert fé með því að fækka stofnunum og verkefnum þeirra.

Líðan barna og ungmenna í forgang
Félagsleg staða barna og ungmenna hefur versnað á undanförnum árum, og margar fjölskyldur glíma við erfiðleika. Viðreisn vill auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum, styðja betur við fjölskyldur og tryggja að börn fái að njóta öryggis og stuðnings sem þau þurfa til að blómstra.
Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er að tryggja velferð næstu kynslóðar.

Lausnir í húsnæðismálum
Viðreisn vill stuðla að raunverulegum lausnum í húsnæðismálum sem hjálpa ungu fólki og fjölskyldum að koma sér þaki yfir höfuðið. Við viljum framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað sem innborgun á húsnæðislán, losa ríkisjarðir fyrir húsnæðisuppbyggingu og einfalda reglugerðir til að flýta byggingu og lækka kostnað.

Stöndum vörð um frelsi einstaklingsins
Frelsi einstaklingsins gagnvart ríkinu er grunnstoð í stefnu Viðreisnar. Frelsi til þess að elska og lifa lífinu án afskipta hins opinbera, frelsi kvenna til að ráða yfir sínum líkama, atvinnufrelsi og frelsi til að vera eins og hver og einn kýs eru okkar leiðarljós.
Ríkið á ekki að skipta sér af því hvað við skírum börnin okkar eða hvern við elskum. Við viljum samfélag þar sem einstaklingar fá að njóta sín og hafa val um hvernig þeir lifa lífi sínu, án óþarfa inngripa ríkisins.

Kosningarnar 30. nóvember eru tækifæri til að velja stefnu sem skilar raunverulegum breytingum. Við í Viðreisn trúum því að saman getum við gert Ísland að landi þar sem lífsgæði, réttlæti og framtíðarsýn eru í fyrirrúmi. Nú er tíminn til að breyta með því að kjósa Viðreisn.

Valdimar Birgisson

Opnun jólatrjáasölu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Björn Traustason

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar opnar sunnudaginn 8. desember klukkan 13-14. Fyrsta tréð verður sagað, harmonikkuleikur mun óma um skóginn, Álafosskórinn mun syngja nokkur lög og að sjálfsögðu munu jólasveinar mæta í skóginn.
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður 70 ára á næsta ári, en félagið var stofnað árið 1955 af Kvenfélagi Lágafellssóknar, Ungmennafélaginu Aftureldingu og Skógræktarfélagi Skáta við Hafravatn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan félagið var stofnað og mörg svæði innan Mosfellsbæjar orðin skógi vaxin. Á tíma Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem var formaður frá 1983 til 2003, bættust fjölmörg svæði við og þar má nefna Æsustaðahlíð, Þormóðsdal, Lágafell, Norður-Reyki, Helgafell og Úlfarsfell gegnt Skarhólabraut. Þetta eru svæði sem eru orðin útivistarsvæði Mosfellinga og munu verða um ókomin ár.
Fyrsta skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar var í Hamrahlíð við Vesturlandsveg, en þar hófust gróðursetningar árið 1957. Það þýðir að elstu trén í Hamrahlíðarskóginum nálgast 70 árin og eru þau hæstu komin yfir 22 metra hæð.
Hamrahlíðarskógurinn samanstendur af fjölmörgum trjátegundum en þær algengustu eru sitkagreni, stafafura og blágreni, en einnig er nokkuð um birki, lerki og fleiri trjátegundir. Eins og Mosfellingar þekkja er þetta orðið eitt af bestu og fjölsóttustu útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins og þó víðar væri leitað. Í Hamrahlíðarskóginum eru fjölmargar gönguleiðir sem tengjast svo við hina ýmsu göngustíga sem liggja um Úlfarsfellið þvert og endilangt. Það er einmitt á þessu svæði félagsins þar sem jólatrjáasala Skógræktarfélagsins er staðsett.
Heimsókn í skóginn til að næla sér í jólatré er orðinn fastur liður í undirbúningi jólanna hjá fjölmörgum Mosfellingum og nærsveitungum. Eins og áður gefst fólki bæði kostur á að sækja sér jólatré í skóginn, en það er fátt sem toppar það að finna hið eina sanna jólatré með sög í hönd og finna jólaandann færast yfir sig. Svo er einnig afar vinsælt að heimsækja rjóðrið okkar og kanna úrvalið af þeim trjám sem koma úr skógum Skógræktarfélagsins. Í rjóðrinu ríkir mikill jólaandi enda er þar góð lýsing og svo er alltaf skjól í skóginum.

Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Samningar byggja á samvinnu

Willum Þór Þórsson

Til þess að tryggja jafnt tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er mikilvægt að semja um alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Án samninga við stofnanir og fagfólk er hætta á að tekjulægri hópar neyðist til að neita sér um nauðsynlega þjónustu. Samningar gefa okkur jafnframt frekari tækifæri til að skipuleggja þjónustuna heildstætt, tryggja samfellu og stuðla að bættum gæðum og öryggi.

Samningar við sérfræðilækna
Búið er að semja við sérfræðilækna til fimm ára sem batt enda á langt samningsleysi með ofangreindum neikvæðum afleiðingum. Samningurinn tryggir aukna greiðsluþátttöku og sparar heimilunum um það bil 3 milljarða á ári. Samningnum er jafnframt ætlað að styðja við framþróun í þjónustu sérfræðilækna með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu til að gera hana aðgengilegri óháð búsetu.

Samið við sjúkraþjálfara
Í kjölfarið tókust samningar við sjúkraþjálfara til fimm ára sem einnig höfðu verið samningslausir í lengri tíma með framangreindu óhagræði. Með samningnum lækkaði kostnaður þeirra sem sækja sér þjónustuna og öll aukagjöld sem lögð höfðu verið á þjónustuþega felld niður.
Þjónusta sjúkraþjálfara er okkur mikilvæg og umfangsmikil en rúmlega 62.000 einstaklingar nýttu þjónustu sjúkraþjálfara í fyrra. Við þekkjum það hversu mikilvægu hlutverki sjúkraþjálfarar gegna á mjög víðtæku sviði endurhæfingar. Ljóst er að bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara dregur úr álagi annars staðar í heilbrigðiskerfinu og hefur jákvæð áhrif á fjölda Íslendinga.

Samningur við tannlækna og tannréttingasérfræðinga
Það voru ánægjuleg tímamót þegar fyrsti heildarsamningur um tannlækningar var undirritaður. Samningurinn tryggir greiðsluþátttöku hjá tannlæknum fyrir börn, aldraða og öryrkja til næstu fimm ára en einnig fjölgaði meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum.
Samhliða samning um tannlækningar þá var gerður tímamótasamningur um tannréttingar og þjónustu tannréttingasérfræðinga. Samningurinn er sá fyrsti sem gerður er um þjónustuna hér á landi og fól m.a. í sér nær þreföldun á styrk vegna almennra tannréttinga. Með samningnum hækkuðu styrkir til tannréttinga úr 150.000 kr í 430.000 kr. sem leiðir af sér aukið og jafnara aðgengi að þjónustunni, óháð efnahag.

Lýðheilsutengdar aðgerðir
Búið er að ljúka samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða. Samningarnir gilda til áramóta en áfram er unnið að samningum til lengri tíma. Lýðheilsutengdar aðgerðir eru aðgerðir sem teljast ekki til bráðaaðgerða heldur eru valkvæðar þannig að hægt er að skipuleggja þær fram í tímann, s.s. liðskiptiaðgerðir á hné og mjöðm, kviðsjáraðgerðir vegna endómetríósu, bakaðgerðir vegna brjóskloss og þrenginga í mænugöngum og augasteinsaðgerðir.
Þessar aðgerðir eiga það sammerkt að geta komið einstaklingum aftur til heilsu og í samfélagslega virkni, og það er verðugt takmark í sjálfu sér. Það eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins, bæði efnahagslegir og félagslegir, að tryggja tímanlegt aðgengi að slíkri þjónustu sem veitt er á réttu þjónustustigi og styður við virkni einstaklingsins í samfélaginu.
Samhliða auknum afköstum og auknu aðgengi að þjónustunni innan íslenska heilbrigðiskerfisins hefur t.a.m. þeim sem leitað hafa út fyrir landsteinana í liðskiptaaðgerð, á grundvelli biðtímaákvæðis EES-samningsins um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, fækkað um rúmlega helming. Það er jákvæð þróun í samhengi við áherslur okkar í Framsókn um skilvirkni og hagkvæmni.

Þessir samningar skipta máli
Íslenska heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu, er tryggt og um það ríkir samstaða í íslensku samfélagi. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi. Með samningum sköpum við faglega umgjörð um heilbrigðisþjónustu á sama tíma og við tryggjum jafnræði í aðgengi að henni.

Willum Þór Þórsson,
heilbrigðisráðherra og oddviti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Kæri Mosfellingur

Bryndís Haraldsdóttir

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna fyrir þig síðustu ár, fyrst sem bæjarfulltrúi og seinna sem þingmaður. Nú er komið að kosningum og ég legg störf mín í þinn dóm.

Árangur fyrir okkur öll
Á þessu kjörtímabili hef ég verið formaður allsherjar- og menntamálanefndar ásamt því að hafa setið bæði í fjárlaganefnd og velferðarnefnd. Í allsherjar- og menntamálanefnd höfum við afgreitt ýmis mál. Þar ber að mínu mati hæst þær mikilvægu breytingar sem gerðar voru á útlendingalögum, breytingar sem gengu út á að styrkja kerfið og færa það til samræmis við kerfin á hinum Norðurlöndunum. Þá samþykktum við jafnframt breytingar á lögreglulögum, breytingar sem styrkja lögregluna í störfum sínum, einkum og sér í lagi gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Ég er ekki síður stolt af þeim lögum sem við samþykktum um miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Miðstöðin verður lykilstofnun fyrir skóla landsins en þar er, meðal annars, verið að þróa samræmd hæfniviðmið. Slík viðmið eru auðvitað ein grundvallarforsenda öflugs skólakerfis og veita nauðsynlegar upplýsingar um það hvar börnin okkar standa. Þau veita okkur innsýn í styrkleika barnanna, hvar þau blómstra, og hverju megi hlúa betur að.
Auk þessa hef ég sjálf lagt fram ófá mál á Alþingi, mál sem ég tel samfélaginu öllu til bóta, sum stór, önnur smærri, en öll nauðsynleg. Þar á meðal eru mál um dánaraðstoð, um að gefa dreifingu ösku frjálsa og um að setja Sundabraut strax í einkaframkvæmd, svo fátt eitt sé nefnt.
Þótt árangur hafi náðst í mörgum málum eru sum ekki komin jafn langt og ég myndi helst hafa kosið. Það er til dæmis löngu orðið tímabært að ráðast í alvöru umbætur á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Ég hef þess vegna verið mikill stuðningsmaður höfuðborgarsáttmálans. Við Mosfellingar þekkjum það enda af eigin raun hversu mikill tími fer í ferðir á milli staða. Slíkt gengur ekki til lengdar. Við þurfum að bretta upp ermar og ráðast í þær samgöngubætur sem þörf er á ekki seinna en strax.

Hvers vegna er ég Sjálfstæðismaður?
Á laugardag eru kosningar. Úrslit þeirra munu ráða hvert við stefnum sem samfélag á næstu árum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill létta undir með heimilum landsins, það gerum við með hagræðingu í ríkisrekstri, lægri sköttum, minni verðbólgu og lægri vöxtum.
Jöfn tækifæri allra eru forsenda framfara og velferðar. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið en ekki kerfið, þar sem þjónusta er veitt tímanlega og er aðgengileg öllum óháð efnahag. Sjálfstæðisflokkurinn vill aukna nýsköpun og fjölbreyttari rekstrarform sem stuðlar að betri þjónustu.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séreignarstefnuna og ætlar að ryðja í burtu hindrunum sem standa í vegi fyrir því að einstaklingar geti eignast eigið húsnæði. Í því felst að byggt verði hraðar, meira og hagkvæmar. Það gagnast jafnt þeim sem vilja eiga og leigja.
Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar. Sjálfstæðisflokkurinn vill að það sé eftirsóknarvert að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Til þess þarf að tryggja stöðugleika, hóflega skattheimtu og einfalt regluverk.

Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með frjálsum viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum. Við viljum ekki ganga í ESB enda er hag íslensku þjóðarinnar betur borgið utan Evrópusambandsins.
Ég vil meiri árangur fyrir okkur öll. Þess vegna er ég Sjálfstæðismaður.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Meiri árangur fyrir okkur öll
Settu X við D á kjördag

Með enga menn og engin vopn?

Vala Garðarsdóttir

Við í Framsókn verðum seint vænd um það að sitja með hendur í skauti. Í 108 ár hefur Framsókn unnið að velferð og framförum okkar allra, óþreytandi og óslítandi sama hvernig á okkur viðrar.
Stjórnarsamstarfið, síðasta misserið áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað upp á sitt einsdæmi að sprengja ríkisstjórnina, var oft erfitt.
Við héldum þó ótrauð áfram að berjast fyrir okkar hjartans málum, að styrkja fjölskyldur, börnin okkar, heilsuna og öryggi fólks í lífi og starfi enda er sú barátta hryggjarstykkið í hugsjón Framsóknar og þar gefum við engan afslátt. Þetta er okkur mikilvægast.
Að því sögðu verður að segjast að undanfarnar vikur hafa verið okkur þungur róður, óánægja fólks á liðnu stjórnarsamstarfi og ítrekaðar atlögur að flokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sannleikurinn virðist með öllu virtur að vettugi er erfitt að kyngja og ómögulegt að berjast við í því fjaðrafoki sem á sér stað þessar vikurnar.
En hvað ætlum við að gera?
Við stöndum berskjölduð frammi fyrir alþjóð-
Hálfnakin en þó með þá óbilandi trú að okkar trausta bakland og skynsemi fólks sjái hvað það er sem raunverulega skiptir samfélagið máli.
Við erum eins og sagt er, með fáa menn og engin vopn, en einmitt á slíkum stundum afhjúpast úr hverju maður er gerður og þá skiptir liðsheildin öllu máli.

Framtíðin
Framsókn mun halda áfram að setja fjölskylduna í forgang, bæta lífsgæði okkar allra og hugsa um heildina og sérstaklega velferð þeirra sem minnst mega sín og þurfa á mestri hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós. Allt annað kemur samhliða þeim vexti.
Góðar og skilvirkar samgöngur eru nauðsynlegar og skipta okkur miklu máli og okkur Mosfellinga sérstaklega, við þurfum einfaldar og skjótar aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar og fyrir því munum við berjast.
Við viljum frelsi í fæðingarorlofi, að fjölskyldur hafi val um það hvernig þær ráðstafa sínum rétti og afnema allar eyrnamerkingar á þeim ráðahag, að auki viljum við hækka launin og lengja samverutímann upp í 20 mánuði.
Þetta er vel gerlegt og við sem þjóð höfum efni á því að stórbæta kerfið því ávinningurinn er ekki alltaf mældur í krónum og aurum heldur því sem mikilvægast er, andleg heilsa og öryggi barnanna okkar.
Forvarnir skipta að sama skapi gríðarlega miklu máli, að andleg og líkamleg heilsa sé á oddinum í okkar daglega lífi, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, á vinnumarkaðinum eða í félags- og tómstundastarfi, að styrkja kerfisbundið okkar heilbrigði og fylgja því eftir um aldur og ævi er besta fjárfesting sem við gerum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir allt samfélagið.
Við þurfum lægri skatta, aukna verðmætasköpun svo við höfum efni á þessu öllu saman og það er vel gerlegt og við treystum okkur best í það verkefni. Það bíða okkar verk eins og virkjanir, samgöngubætur, styrking löggæslu og það sem brýnast er, að bæta vinnuumhverfi kennaranna okkar og allra þeirra sem eru að hugsa um börnin okkar. Við getum þetta saman!

Ég segi meiri samvinna, meiri umhyggja,
meiri Framsókn.

Vala Garðarsdóttir
Mosfellingur og fornleifafræðingur
Skipar 3. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Tillögur til fjárhags­áætlanagerðar

Dagný Kristinsdóttir

Í lok hvers árs þarf að horfa fram á veginn og leggja drög að því hvernig verja skuli því fjármagni sem skilar sér til sveitarfélagsins í formi útsvars og gjalda.
Vinir Mosfellsbæjar hafa lagt fram fimm tillögur til fjárhagsáætlanagerðar.

Námssjóður
Sú fyrsta er tillaga að stofnun námssjóðs fyrir starfsfólk sveitarfélagsins. Hugmyndin vaknaði í umræðu um fólkið okkar sem sinnir lægst launuðustu störfunum og er með litla menntun að baki.
Hugsunin er sú að sjóðurinn verði hvatning fyrir starfsfólk til að sækja sér menntun og jafnvel geri fólki það kleift.

Fjármálaráðgjafar fyrir skólastjórnendur
Grunnskólar bæjarins eiga það sameiginlegt að vera fjölmennir og stórir. Auknar kröfur eru á hendur skólastjórnenda um að vera faglegir leiðtogar og reka óaðfinnanlega skóla. Þeir eiga að vera sýnilegir, tengjast starfsmönnum, nemendum, foreldrum og samfélaginu og innleiða nýjar stefnur. Til að okkar stjórnendur geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra þurfum við að skapa þeim svigrúm til þess.
Góður stuðningur af hálfu sveitarfélags við skólastjórnendur sína er að veita þeim stuðning í fjármálum. Að þeir hafi fjármálaráðgjafa sem getur tekið saman upplýsingar um stöðu fjármála, hver staðan á stöðuhlutföllum í skólanum sé og geti veitt ráðleggingu er gríðarlega mikilvægt.
Með því aukast líkur og skilningur á að skóli standist fjárveitingar eða hljóti aukafjárheimildir eftir því sem nauðsynlegt er. Eins fæst yfirsýn yfir það hvernig fjármunum er varið sem getur aukið skilvirkni og er í takti við nýlega samþykkt um úttekt á upplýsingatæknimálum.

Almenningssamgöngur
Vinir Mosfellsbæjar leggja til að Mosfellsbær taki forystu í að efla almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost og legga til þrjár tillögur þar að lútandi.
Tillaga 1: Lagt er til að leið 15 verði gerð að borgarlínuhraðstrætó til að stytta eins og kostur er ferðatíma milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.
Tillaga 2: Lagt er til að settur verður á laggirnar innanbæjarstrætó sem keyrir á 15 mínútna fresti eftir leiðum sem tengja hverfi Mosfellsbæjar og koma þannig í staðinn fyrir þann hluta af núverandi leið 15 sem tillaga 1 tekur til, sem og núverandi leið 7. Innanbæjarstrætó fæðir jafnframt hraðstrætó númer 15 farþegum sem halda áfram út fyrir bæjarmörkin.
Tillaga 3: Lagt er til að frítt verði í strætó fyrir börn í 7.-10. bekki grunnskóla bæjarins (12-16 ára) sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Eins er lagt til að Mosfellsbær hvetji jafnframt eldri ungmenni til notkunar almenningssamgangna með því að tryggja 50% niðurgreiðslu á Nemakorti strætó til 18 ára aldurs.

Þessar tillögur eru lagðar fram í ljósi þess að langt er í að borgarlínan komi í bæinn. Breytingar á rótgrónum venjum og hugarfari taka langan tíma og því ekki til neins að bíða ef tryggja á að þær gríðarlegu fjárfestingar sem borgarlínan kallar á skili fullum ávinningi þegar þeim lýkur.
Við förum úr því að reka lestina í það að draga vagninn og bjóða upp á samtalið um breytta tíma.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Veldu leið sem virkar

Bjarni Benediktsson

Nú renna upp síðustu klukkustundir kosningabaráttunnar. Á laugardaginn er kosið milli tveggja leiða.
Annars vegar Reykjavíkur­módelsins, undir forystu flokkanna sem þar leiða. Hins vegar leiðar okkar sjálfstæðismanna, sem hefur endurspeglast í rekstri sveitarfélaganna í Suðvesturkjördæmi.

Kosningarnar fara ekki fram í neinu venjulegu árferði. Segja má að nú renni upp eins konar ögurstund fyrir íslenskt samfélag. Klára þarf verkefnið að ná niður verðbólgu og vöxtum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin og ef við höldum áfram á réttri leið munu verðbólga og vextir lækka hratt á næsta ári. Það er langstærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á Íslandi.

Fyrir unga …
Sumir segja að ég tali of mikið um fortíðina, þylji upp iðagrænar hagtölur og reifi gamla sigra. Stundum er nokkuð til í því, en við megum þó aldrei gleyma þeim árangri sem hefur náðst, vegna þess að á honum byggjum við. Við megum ekki kaupa heimsmynd þeirra sem stöðugt selja einhvers konar niðurrifsmynd af samfélaginu okkar. Við höfum lækkað skatta, hagur fólks hefur heilt yfir vænkast ár frá ári, nýjar atvinnugreinar vaxið hratt og Ísland orðið stærra og meira spennandi á alla vegu.

Með þessu er hins vegar ekki sagt að allt sé fullkomið, frekar en annars staðar, og nú verður að horfa til framtíðar. Fæðingartíðni fer lækkandi og við höfum áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði. Við þessu þarf að bregðast og stuðla að því að ungt fólk hafi trú á Íslandi og vilji stofna hér fjölskyldu. Til þess viljum við meðal annars veita foreldrum barna að þriggja ára aldri skattaafslátt og efla fæðingarorlofskerfið enn frekar.
Það mikilvægasta er svo að tækifærin séu til staðar – að hér verði til eftirsóknarverð störf á fjölbreyttum sviðum. Á húsnæðismarkaði þarf að einfalda skipulagsferli og regluverk, auk þess að skylda sveitarfélög til að tryggja nægt lóðaframboð. Það gengur ekki að höfuðborgin reki stöðugt lestina í þeim efnum. Samhliða þarf að afnema óþarfa þröskulda á borð við stimpilgjöld og efla séreignarleiðina enn frekar, sem hefur hjálpað tugum þúsunda íslenskra fjölskyldna að eignast eigið húsnæði.

… sem aldna
Við heyrum sömuleiðis eðlilegt ákall um að styðja enn betur við fólk á seinni hluta æviskeiðsins. Fólkið sem byggði upp landið okkar og lagði hér grunn að lífskjörum sem eru með þeim bestu í heiminum á skilið áhyggjulaust ævikvöld. Hér á að vera gott að eldast.
Við viljum sveigjanlegri starfslok og ætlum að hækka frítekjumörk ellilífeyris. Þar munar mestu um frítekjumark atvinnutekna – ekkert hjálpar fólki meira en að gera því kleift að hjálpa sér sjálft. Nýta verður tækifærin í nýju fyrirkomulagi við uppbyggingu hjúkrunarheimila, en það er ekki síður mikilvægt að veita betri þjónustu svo fólk geti búið lengur á sínu eigin heimili.

Taktískar kosningar
Það er skiljanlegt að margir kalli eftir breytingum við kosningar. Hins vegar er mikilvægt að þær breytingar felist ekki í kollsteypum fólks sem við þekkjum alltof vel af vettvangi Reykjavíkurstjórnarinnar, sem nú vill einnig taka við taumunum á landsvísu.

Þær breytingar sem mestu skipta að mínu mati eru þessar: Lægri álögur á fólk og fyrirtæki, fleiri tækifæri fyrir fólk til að blómstra og bæta hag sinn á sínum eigin forsendum, opinber þjónusta þar sem lausnirnar fæðast úti í samfélaginu – ekki eingöngu á forsendum ríkisins.

Til að koma þessum breytingum til leiðar þarf að kjósa taktískt, og eina taktíska kosningin í þeim efnum er stærri Sjálfstæðis­flokkur.

Bjarni Benediktsson
forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Hverjum treystið þið?

Elín Anna Gísladóttir

Á laugardaginn er komið að kosningum til Alþingis. Þá kemur í ljós hverjum þjóðin treystir til þess að leiða íslenskt samfélag inn í framtíðina.
Við í Viðreisn höfum verið í samtali við kjósendur um allt land þar sem við höfum lagt okkur fram um að hlusta á hvað það er sem brennur á fólki.
Þar kemur skýrt í ljós að fólk er orðið langþreytt á því að kerfin okkar eru brotin, margir eiga erfitt með að ná endum saman, matarkarfan hækkar og hækkar, ungt fólk sér fyrir sér betri framtíð annars staðar en á Íslandi, kennarar eru langþreyttir á erfiðri stöðu, fólk kemst ekki í sálfræðiþjónustu því það hefur ekki efni á því og börnunum okkar líður verr.
Þessu viljum við breyta.

Mosfellingar fyrir Mosfellinga
Rödd Mosfellinga er sterk á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Listinn er skipaður fimm Mosfellingum sem búa hér og tveimur til viðbótar sem ólust upp í Mosfellsbæ.
Valdimar Birgisson er í 5. sæti, Ester Halldórsdóttir er í 6. sæti, Elín Anna Gísladóttir er í 8. sæti, Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir er í 10. sæti, Helgi Pálsson er í 17. sæti, Guðrún Þórarinsdóttir er í 26. sæti og Lovísa Jónsdóttir er í 28. sæti.

Kjósum framtíðina
Munum það að kosningar eru tækifæri okkar sem þjóðar að hafa áhrif á samfélagið okkar og móta það til framtíðar. Við í Viðreisn höfum skýra sýn á hvaða forgangsmál skipta máli.
Hér þarf að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við þurfum að styrkja og endurskipuleggja heilbrigðiskerfið svo að fólk fái þá aðstoð sem það þarf en hangi ekki á biðlistum svo árum skipti – þá sérstaklega börnin okkar. Og við þurfum að búa við frelsi þar sem við fáum, hvert og eitt okkar, að vaxa og dafna og leggja okkar til samfélagsins.

Því bið ég ykkur kæru Mosfellingar að hafa okkur í Viðreisn í huga þegar þið gangið inn í kjörklefann. Setjum x við C og kjósum þá sem þora að breyta því sem ekki þjónar sínum tilgangi lengur.

Elín Anna Gísladóttir

Að eldast með reisn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Við Vinstri græn leggjum ríka áherslu á öflugt velferðarkerfi sem grípur og sinnir öllum aldurshópum. Eldra fólk á rétt á góðri þjónustu sem og að því sé mætt af virðingu og skilningi.
Í ríkisstjórnartíð Vinstri grænna hófum við umbætur í þjónustu við eldra fólk. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði.

Það á að vera gott að eldast
Aðgerðaáætlunin „Gott að eldast“ er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem ég fékk samþykkta á Alþingi. Hún felur í sér grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að veita betri og heildstæðari þjónustu, gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér, efla dagdvalir og endurhæfingu og draga úr þörf á hjúkrunarrýmum. Þessi vinna er hafin með þróunarverkefnum víða um land.

Bætum kjör þeirra sem minnst hafa
Annað forgangsverkefni er að hækka framfærslu þeirra í hópi eldra fólks sem minnstar tekjur hafa. Við tökum skref í þá átt í fjárlögum næsta árs að mínu frumkvæði, þar sem almennt frítekjumark ellilífeyris verður hækkað.
Þessu þarf að fylgja eftir með frekari kjarabótum á næsta kjörtímabili. Markmiðið á að vera að ellilífeyrir þeirra sem engar aðrar tekjur hafa sé aldrei lægri en lágmarkslaun.

Aukum samskipti kynslóða
Ég hef einnig talað fyrir því að efla tengsl milli kynslóða, þar sem hin yngstu í samfélaginu geta lært af reynslu og visku þeirra eldri.
Sjálfur naut ég þeirrar gæfu í æsku að umgangast ömmu mína á hverjum degi. Þessi samskipti eru ómetanleg, þar sem þau flytja menningu og þekkingu á milli kynslóða og skapa dýrmætan félagsskap.

Verjum velferðina
Varðstaða um velferðarkerfin og grunninnviðina eru hluti af hjartslætti okkar Vinstri grænna. Saman getum við séð til þess að Ísland verði samfélag sem tryggir heilbrigða öldrun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Varaformaður VG og skipar 1. sæti VG í Suðvesturkjördæmi

Menning í aðdraganda jóla

Hrafnhildur Gísladóttir

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir,
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar

Nýtt upphaf með Samfylkingunni

Þórunn Sveinbjarnardóttir

Við kjósum til Alþingis á laugardaginn 30. nóvember. Kosningar, sem boðað var til þegar stjórnarflokkarnir þrír sprungu endanlega á limminu eftir sjö ár af brokkgengu samstarfi.
Á laugardaginn gefst kjósendum langþráð tækifæri til að stokka upp í stjórnmálunum. Það skiptir máli fyrir framtíð Íslands að nýta það vel.

Undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur Samfylkingin kynnt þrjú veigamikil útspil í kosningabaráttunni. Þar eru stefnumál og markmið sem við höfum sett okkur í þéttu samráði við fólkið í landinu.
Við lofum ekki töfralausnum og erum alveg hreinskilin með að við þurfum tvö kjörtímabil til að marka Íslandi nýja og betri framtíð. Þá framtíð þarf að marka í ríkisstjórn sem Samfylkingin leiðir.

Örugg skref
Samfylkingin ætlar að setja heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra í hæsta forgang með því að taka örugg skref að betra og öruggara aðgengi að heilbrigðiskerfinu og vinna upp halann sem myndast hefur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það hefur reynst kostnaðarsöm vanræksla.
Hver einasti íbúi hér á landi þarf að fá fastan heimilislækni. Það eitt eykur öryggi og lækkar kostnað í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur aðeins helmingur landsmanna

Alma D. Möller

aðgang að föstum heimilislækni. Þetta viljum við laga á tveim kjörtímabilum.

Krafa um árangur
Samfylkingin gerir kröfu um árangur í samgöngu- og atvinnumálum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um innviðskuldina sem bíður okkar í samgöngum um allt land.
Mesta fólksfjölgun í Evrópu og rúmlega tvær milljónir ferðamanna á ári hafa reynt á samgöngukerfið svo um munar. Fjárfesting í samgöngum þarf að hækka um helming og nema 1% af vergri landsframleiðslu.
Við viljum líka ljúka uppbyggingu betri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þó fyrr hefði verið.

Umbætur á húsnæðismarkaði
Samfylkingin vill ráðast í bráða­aðgerðir svo að stærri hluti íbúðarhúsnæðis nýtist sem heimili fólks fremur en fjárfestingarvara hinna efnameiri.
Við viljum ná stjórn á Airbnb, herða eftirlit og takmarka heimagistingu við lögheimili eða sumarbústað. En 90 daga reglan verður að sjálfsögðu áfram í gildi. Við leggjum til að gististarfsemi í atvinnuskyni verði aðeins í samþykktu atvinnuhúsnæði en ekki íbúðarhúsnæði, óháð því hvenær rekstrarleyfi var gefið út.
Samfylkingin stendur með ungu fólki og vinnandi fjölskyldum og auðveldar þeim að koma sér þaki yfir höfuðið.

Til grundvallar allri okkar pólitík liggur jafnaðarstefnan og hugsjónir hennar um algild mannréttindi og frelsi einstaklingins í samfélagi þar sem öll njóta velferðar og öryggis án tillits til stöðu. Í samfélagi þar sem atvinnugreinar blómstra í heilbrigðri samkeppni og gætt er að fjölbreyttri nýsköpun og framþróun okkur öllum til heilla.

Kjósum Samfylkinguna fyrir nýtt upphaf á Íslandi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Alma D. Möller
eru í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðvestur­kjördæmi í alþingiskosningunum 30. nóvember.

Miðflokkurinn – fyrir framtíðina

Lóa Jóhannsdóttir

Landsmenn eru orðnir þreyttir á stöðunni í íslenskum stjórnmálum. Það er vegna þess að stjórnmálaflokkar gleyma oftast að hlutverk þeirra er að þjóna samfélaginu og gæta hagsmuna allra landsmanna.
Stjórnmál eiga ekki að snúast um hagsmuni eða pólitík flokka, heldur um velferð þjóðarinnar á grunni skýrrar hugmyndafræði. Þess vegna viljum við Miðflokksmenn breyta stöðunni í efnahags-, útlendinga- og orkumálum en einnig í húsnæðismálum þar sem ráðist verði á rót vandans. Það þarf að rjúfa áratuga kyrrstöðu í nauðsynlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að festa okkur í vítahring óraunhæfra og kostnaðarsamra hugmynda borgarlínunnar. Hugum að nokkrum þáttum:

1. Setjum þjóðina framar flokkspólitík
Miðflokkurinn vill endurskoða hvernig við hugsum um stjórnmál. Við stöndum fyrir innihald umfram umbúðir og viljum hætta að fylgja úreltri hugmyndafræði prinsipplausra stjórnmála. Þess í stað viljum við leggja áherslu á lausn aðkallandi verkefna á grundvelli þess hvað sé skynsamlegt að gera. Við viljum flokk sem forgangsraðar í þágu fólksins og grunnkerfa samfélagsins.

2. Heildstæð nálgun á efnahagsmál og atvinnulíf
Miðflokkurinn vill tryggja að skattpeningar fari í það sem skiptir okkur raunverulega máli – heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð. Til þess er nauðsynlegt að draga úr óþarfa útgjöldum og stöðva viðvarandi halla á ríkissjóði undanfarinna ára. Um leið viljum við Miðflokksmenn efla nýsköpun og styrkja sjálfstæði atvinnulífsins enda verður engin velferð án verðmætasköpunar.

3. Ábyrg innflytjendastefna sem tekur mið af íslenskum veruleika
Miðflokkurinn telur að innflytjendastefna eigi ekki að byggjast á skyndiákvörðunum undir pólitískum þrýstingi. Þvert á móti á hún að vera ábyrg, mannúðleg og í samræmi við það sem íslenskt samfélag getur staðið undir.
Nauðsynlegt er að endurskoða lög um hælisleitendur, þá þannig að þau taki mið af getu samfélagsins til að taka á móti hælisleitendum í stað óstjórnar síðustu ára. Um leið þarf að vera til kerfi sem tryggi að nýir íbúar landsins fari eftir lögum og virði okkar samfélag. Þar með verðum við betur í stakk búin til að bæta þjónustu og stuðning við þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

4. Velferð sem stuðlar að jafnrétti fyrir alla
Velferðarkerfið okkar þarf að vera öryggisnet fyrir alla, ekki aðeins þá í neyð. Miðflokkurinn vill bæta þjónustu fyrir aldraða, þá sem hafa sérstakar þarfir og fjölskyldur. Við viljum samfélag þar sem allir hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og öryggi, samfélag þar sem börn geta alist upp í umhverfi sem styður við velferð þeirra.

5. Sjálfbær framtíð og raunhæf
Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á vísindum og heilbrigðri skynsemi og nýjustu tækni. Við teljum mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka lífskjör á Íslandi. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur til að bæta kjör landsmanna.

Miðflokkurinn – flokkurinn fyrir framtíðina
Ég býð mig fram fyrir Miðflokkinn til að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af.
Ef þú vilt sjá breytingar og tryggja að Ísland verði fyrir okkur öll, þá er Miðflokkurinn rétta valið fyrir þig. Við getum gert betur og við eigum að krefjast þess að stjórnmál snúist um hagsmuni þjóðarinnar. Við eigum það öll skilið.

Lóa Jóhannsdóttir.
Höfundur er Mosfellingur og er í 6. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hvað vantar í aðstöðuna við Varmá?

Ari Trausti Guðmundsson

Hér í bæ er áberandi hve margvísleg tækifæri eru til þess að rækta líkamann (og hugann þar með).
Það á við alla aldursflokka og ekki hvað síst við 60+ aldursflokkinn og til dæmis starf FAMOS og Gaman saman. Enn fremur alls konar tilboð og atburði sem felast í stefnumiði bæjarins og kjarnast í hugtakinu heilsueflandi samfélag.
Góð lýðheilsa er ótrúlega mikilvæg. Áhrif hennar á efnahag fólks og sveitarfélagsins eru mikil og líka á líðan hvers og eins og á andann í Mosfellsbæ.
Eftir því sem greina má er fyrirhugað að stækka húsnæði íþróttaklasans við Varmárlaug á næstunni. Leitað er eftir hugmyndum um starfsemi sem þar gæti farið fram og áhugasömum aðilum sem gætu sinnt henni.
Hvað sem komið hefur fram í þeim efnum er eitt ljóst í mínum huga: Sá þáttur heilsueflandi starfsemi sem ber einna mestan árangur er líkamsrækt með tækjum, lóðum og liðkandi æfingum. Slík aðstaða var í klasanum en var lokað. Samfélagið stækkar og hópurinn 60+ enn hraðar en áður.
Ég tala fyrir munn margra þegar ég skora á sveitarstjórn að fella inn í komandi framkvæmdir góðan líkamsræktarsal með viðveru a.m.k. eins starfsmanns sem er vel sjóaður í því sem þar fer fram, hvort sem reksturinn er boðinn út eða ekki.
Þar með væri stoðin enn sterkari undir heilsueflandi samfélaginu sem allir eru sammála um að sé af hinu góða. Fleiri mættu láta í sér heyra varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir.

Ari Trausti Guðmundsson

Uppfærsla samgöngusáttmála – nei takk

Dagný Kristinsdóttir

Mál málanna hjá bæjarstjórn í september var uppfærður samgöngusáttmáli en markmiðið með honum er að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og bjóða upp á fjölbreyttari valkosti til ferða á milli svæða.
Það er margt gott í sáttmálanum en það eru líka margir þættir sem eru óljósir og þarfnast umræðu.

Hvað er í þessu fyrir okkur?
Einhverjir vilja að við horfum til þess hvað sáttmálinn færir höfuðborgarsvæðinu í heild sinni en við getum ekki annað en skoðað hvað þessi uppfærsla færir okkur, íbúum í Mosfellsbæ. Stutta svarið er í raun einfalt. Á komandi ári er lagt til að ferðir á leið 15 verði tíðari.
En sú breyting ein og sér gerir ekki mikið. Aðrar samgöngubætur fyrir okkur eru annars vegar Borgarlína sem á, samkvæmt uppfærslunni, að fara í keyrslu upp úr 2032. Það er eftir átta ár.
Og hins vegar Sundabraut sem á að vera tekin í gagnið á svipuðum tíma. En líkurnar á að það gerist myndi ég telja harla litlar. Á sama tíma mun ferðatími okkar lengjast ár frá ári samhliða gríðarlegri uppbyggingu í bæjarfélaginu, t.d. á Blikastöðum og á Korputúni.

Af hverju segi ég nei?
Eftir að hafa kynnt mér málin og rætt við fólk sem hefur meiri þekkingu á þessu sviði ákvað ég að segja nei við uppfærslunni. Ástæðan er ekki það fjármagn sem við leggjum til verkefnisins, heldur aðrir þættir málsins.
Það er margt í sáttmálanum sem er óljóst, sem dæmi má nefna gríðarlegar fjárhæðir sem geta tengst hinum ýmsu verkefnum og framkvæmdum, en ekki hefur verið ákveðið hvar kostnaðarhliðin leggst.
Við, oddvitarnir í minnihlutanum, bentum á þetta við umræðu málsins og ekki að ástæðulausu. Í dag er staðan sú að ríkisstjórnin er fallin og verkefnin í sáttmálanum eru ófrágengin af ríkisins hálfu.

Önnur ástæða fyrir því að ég var ekki tilbúin að segja já við þessari uppfærslu er sú að á sama tíma og uppbygging samgönguinnviða fer fram, verðum við í framkvæmdum á Blikastöðum sem eiga eftir að kosta bæinn gríðarlega fjármuni.
Ég hefði viljað spyrja að því, fyrir undirritun, hvað ætlum við að gera ef samgönguframkvæmdir sigla í strand eða kostnaður eykst, á sama tíma og fjárfrekar framkvæmdir eru í gangi hjá okkur. Það er okkar ábyrgð að hugsa út í það.
Svo er það annað veigamikið atriði. Kjörnir fulltrúar eru fulltrúar íbúa. Ég er ekki tilbúin að koma fram sem kjörinn fulltrúi og segja við mína kjósendur að ég hafi samþykkt sáttmála sem gefi okkur einhverjar umferðarbætur eftir átta ár, hið fyrsta. Hagsmunir bæjarfélagsins eru gríðarlegir, góðar samgöngur til og frá bænum eru ein forsenda þess að fólk vilji flytja í bæinn og það er okkar hlutverk að standa vörð um þann málstað.
Hver og einn bæjarfulltrúi kaus eftir sinni sannfæringu. Mín sannfæring var þessi. Ég er ekki tilbúin að samþykkja svo stórt verkefni án þess að hafa allar staðreyndir á pappír fyrir framan mig. Þarna vantaði samráð og samtal, kjörnir fulltrúar fengu vitneskju um sáttmálann tveimur dögum fyrir undirritun. Svoleiðis vinnubrögð finnast mér ekki góð.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Samgöngusáttmáli

Ásgeir Sveinsson

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 25. september sl. var samþykkt uppfærsla á Samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið sem fyrst var samþykktur árið 2019.

Það er margt jákvætt í uppfærðum samgöngusáttmála sem er nauðsynlegur til að komast úr þeirri kyrrstöðu sem ríkt hefur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er einnig jákvætt að ríkið komi með aukið fjármagn í verkefnið og taki þátt í stofnun og rekstri félags um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Kostir og gallar í uppfærðum samningi
Bæjarfulltrúar D-lista gerðu athugasemdir og fyrirvara varðandi uppfærðan samgöngusáttmála, einkum hvað varðar forgangsröðun verkefna, skipulagsmál og kostnaðaráætlun.
Frestun verkefna samgöngusáttmálans síðustu árin, ásamt skipulagsbreytingum meirihlutans í Reykjavík varðandi skerðingu á umferð einkabíla eru forsendubrestur við markmið sáttmálans. Þessar breytingar kalla á annars konar framkvæmdaröðun en þá sem kveðið er á um í uppfærðum samgöngusáttmála.

Jana Katrín Knútsdóttir

Má til dæmis nefna mislæg gatnamót við Bústaðarveg, legu, skipulag og hönnun Sundabrautar. Í kostnaðaráætlun virðist vanta áætlaðan kostnað m.a fyrir vagnakaup og  uppkaup lands vegna fyrirhugaðrar legu Borgarlínu.

Samgöngusáttmálinn er langtímaverkefni og líklegt að þetta mikilvæga verkefni eigi eftir að fara í gegnum fleiri uppfærslur á komandi árum og taka breytingum í tíma, skipulagi og kostnaði.
Það er margt sem þarf að ganga upp svo að tímalína sáttmálans standist. Það sem snýr að okkur Mosfellingum er m.a. uppbygging í Keldnalandi, uppbygging í Blikastaðalandi og bygging Sundabrautar en sú framkvæmd er ekki hluti af sáttmálanum sem eru viss vonbrigði út af fyrir sig. Fjármögnun sáttmálans frá hendi ríkisins hefur ekki verið samþykkt og það verður áskorun að fá bæði verktaka og fjármagn til að vinna að þessari miklu uppbyggingu innan þeirra tímamarka sem áætluð eru í uppfærðum sáttmála.
Bráðabirgðaframkvæmdir strax
Það er ljóst að með áframhaldandi fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að umferðarþungi aukist mikið á næstu árum. Það er nauðsynlegt að bregðast við strax með viðbótaraðgerðum til að auka flæði strætó og almennrar bílaumferðar þar til stærri verkefni sáttmálans s.s. Borgarlínan, stokkar og göng verða tilbúin og munum við bera fram tillögur í þeim efnum á næstu misserum.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í sáttmálanum kemur fram að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp árið 2030 og gert er ráð fyrir að þessi gjaldtaka hafi áhrif á ferðavenjur íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ef markmiðið er að auka notkun almenningssamgangna meðal íbúa er nauðsynlegt að hefja sem fyrst vinnu við að bæta gæði þjónustunnar og ímynd almenningssamgangna í samfélaginu, sem og að hafa áhrif á ferðavenjur fólks.

Hlutverk okkar bæjarfulltrúa er að standa vörð um hagsmuni íbúa Mosfellsbæjar í öllum málum og athugasemdir okkar við uppfærslu samgöngusáttmálans eru í samræmi við það. Áhyggjur okkar beinast að óljósum heildarkostnaði sáttmálans, tímalínu framkvæmda og forgangsröðun verkefna auk tímasetningar á uppbyggingu Sundabrautar. Í ljósi reynslunnar má teljast ólíklegt að sú tímalína sem sett er upp í uppfærðum sáttmála muni standast og því leiða til aukins umferðavanda á höfuðborgarsvæðinu þ.m.t. til og frá Mosfellsbæ.
Áfram skal haldið
Þrátt fyrir ákveðna ágalla í uppfærðum samgöngusáttmála teljum við nauðsynlegt að halda áfram með þetta stóra samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Helga Jóhannesdóttir

Við munum áfram styðja við framgang sáttmálans en um leið horfa gagnrýnum augum á þær tillögur til breytinga sem eiga eftir að koma fram á áætluðum framkvæmdatíma með hagsmuni Mosfellinga að leiðarljósi.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi  D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista