Varmárósar og friðlýsing Leirvogs

Anna Sigríður Guðnadóttir

Samfylkingin í Mosfellsbæ hefur á stefnuskrá sinni að friðlýsa Leirvoginn vegna mikilvægis svæðisins fyrir fugla og vegna fjölbreyttra vistgerða á svæðinu. Nú þegar friðlýst svæði Varmárósa hefur verið stækkað virðist sem jarðvegur sé að skapast til að við málinu verði hreyft.
Varmárósar eru hluti af stærra svæði, Leirvoginum, sem er mikilvægur í alþjóðlegu samhengi sem áningarstaður margæsa og sendlings. Náttúrufræðistofnun hefur gefið það út að Leirvogurinn og Blikastaðakró séu verðmæt svæði í þessu tilliti og beri að líta á voginn og Varmárósa sem eitt svæði. Friðlýsing Leirvogsins er því eðlilegt og skynsamlegt næsta skref.
Verðmæti og verndargildi þessa svæðis er óumdeilt. Það er annar tveggja vaxtarstaða fágæts sefs, fitjasefs, sem er á válista Náttúrufræðistofnunar, auk þess sem svæðið er mikilvægt vistkerfi fyrir fugla. Friðlýsing Varmárósa felur í sér að rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins verða tryggð með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær vistgerðir votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða sem er að finna á svæðinu. Henni er einnig ætlað að treysta útivistar-, rannsóknar- og fræðslugildi svæðisins. Þess misskilnings hefur nefnilega gætt að friðlýsingar þýði bann við umferð manna um friðlýst svæði. Því fer fjarri. Friðlýsingum er beitt til að vernda svæði og náttúrufyrirbrigði til að þeirra megi njóta á ábyrgan og sjálfbæran hátt til framtíðar þannig að vistkerfi plantna og dýra raskist ekki.

Þórunn Sveinbjarnardóttir

Umræður um friðun Leirvogs og Blikastaðakróar í samstarfi við Reykjavíkurborg hafa farið fram í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar og sameiginlegur starfshópur skipaður fulltrúum frá Mosfellsbæ, Reykjavík og Umhverfisstofnun hefur verið myndaður um málið. Auka þær umræður bjartsýni okkar á að hafinn verði undirbúningur að því þarfa verkefni að friðlýsa voginn. Þar mun Samfylkingin leggja sitt lóð á vogarskálarnar.
Leirvogurinn er vin á höfuðborgarsvæðinu. Hann er umkringdur þéttbýli að stórum hluta og norðan við hann er er iðnaðarstarfsemi Sorpu. Mosfellsbær hefur enn á sér yfirbragð sveitar í borg og það yfirbragð er almenn sátt um í bænum. Hingað sækja aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins til að njóta náttúrunnar til fjalls og fjöru. En þau lífsgæði að geta brugðið sér örstuttan spöl til að upplifa ósnerta náttúru er okkar að vernda og verja fyrir komandi kynslóðir.

Eftir Önnu Sigríði Guðnadóttur bæjarfulltrúa og Þórunni Sveinbjarnardóttur fv. umhverfisráðherra
sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust.

Ritskoðun í Rusllandi

Sveinn Óskar Sigurðsson

Enn er talsvert fjör í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og nýsköpun bætist við annars talsverða listsköpun forseta bæjarstjórnar í gegnum árin.
Í upphafi ársins 2021, nánar tiltekið 27. janúar, var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi nr. 775 mál er sneri að brunanum í SORPU 8. janúar þegar landsins stærsta gúanó, þ.e. hann Gýmir blessaður, kviknaði bókstaflega til lífsins. Um atburðarrásina segir í gögnum frá SORPU: ,,Aðfaranótt föstudagsins 8. janúar 2021 kom upp eldur í aflögðum móttökustað lífræns- og lyktarsterks úrgangs, Gými. Orsök brunans er sjálfsíkveikja þar sem eldur kviknaði í (lífrænum úrgangi), greinum, timbur- og dekkjakurli sem notað var sem yfirlag, ásamt því að komast í „lausarusl“ sem losað er í nágrenninu, og varð af mikið eldhaf.“
Byggðasamlagið SORPA, sem hefur gengið í gegnum fjárhagslegar hremmingar, hvorki náð að framleiða nothæfa moltu né koma Gas- og jarðgerðarstöðinni (GAJA) nægjanlega vel í gagnið leitaði þá á náðir annars byggðasamlags á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins. Það var gert til að berja Gými til hlýðni enda ekki vitað hvað hann vildi upp á dekk. Það tókst með tilsvarandi umhverfisspjöllum í formi mengunar sem stafaði af litríkum strókum er stóðu upp úr Gými rétt áður en í honum var slökkt.
Þessi áformaða „yfirtaka“ Gýmis á SORPU er líklega ein sú heiðarlegasta sem gerð hefur verið frá sveitarstjórnakosningunum árið 2018. Frá þeim tíma hefur forstjóra SORPU verið vikið úr starfi til að auðveldara yrði að draga fjöður yfir skelfileg mistök stjórnar SORPU, skilnings- og aðgerðarleysi svo árum skiptir.
Sökum þessa lagði greinarhöfundur fram eftirfarandi bókun á framangreindum fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar: „Enn og aftur áréttar bæjarfulltrúi Miðflokksins að stjórn SORPU á að segja af sér. Sífellt eru að skapast vandræði í kringum þetta mikilvæga byggðasamlag. Hefur stjórn þessa samlags ekki sætt ábyrgð varðandi sóun, mengun og úrræðaleysi á mörgum sviðum í rekstri. E
innig virðist fulltrúi Mosfellsbæjar fara með fleipur um ákveðin mikilvæg mál er SORPU varðar er m.a. tengjast gjaldskrá og rekstur almennt. Fundagerðir eru illa unnar, ekki upplýsandi og vart hægt að sjá mun á fundargerð og dagskrá funda. Við framangreint hefur nú bæst við stórbruni, sem er mjög alvarlegt atvik og hefur örugglega ekki bætt loftgæði í Mosfellsbæ og þar með á höfuðborgarsvæðinu.“
Við tók eitt af lengri fundarhléum sem meirihlutinn í Mosfellsbæ hefur tekið. Kemur það greinarhöfundi spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að á meðal þeirra er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þ.e. forseti bæjarstjórnar, sem segir sig vera skáld. Það kom loksins á daginn að „hæfileikarnir“ komu að gagni.
Lausn forseta bæjarstjórnar var þessi og færð til bókar undir þeim dagskrárlið er fjallaði um sorpbrunann við bæjardyr Mosfellinga: „Bæjarfulltrúi M-lista óskaði eftir að leggja fram tvær bókanir. Fundarstjóri bauð bæjarfulltrúa að stytta eða breyta bókunum sem var hafnað af hálfu bæjarfulltrúa M-lista. Fundarstjóri hafnaði bókununum.“
Hið rétta er reyndar að fulltrúi Miðflokksins lagði fram eina bókun og aðra til að leita sátta en báðum var hafnað. Efnislega voru þær eins. En það er þessi nýsköpun sem heillar, þ.e. hin frumstæða ritskoðun reiðinnar.
Gleðilegt sumar.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Framtíðin er unga fólksins

Bryndís Haraldsdóttir

Öflugt atvinnulíf til framtíðar, framboð af húsnæði og góðar samgöngur eru forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins á Íslandi. Samkeppni um unga fólkið er einn af hornsteinum framtíðarinnar. Getur unga fólkið byggt upp sitt líf í Mosfellsbæ, á höfuðborgarsvæðinu, á Íslandi eða velur það að fara eitthvað annað?

Við sem hér búum þekkjum kosti þess hversu mikil lífsgæði eru fólgin í því að hafa greiðan aðgang að náttúru og útivist. Mikilvægi okkar góðu skóla og leikskóla. Hvað samfélagið, félagsstarfið og samhugurinn gefur okkur öllum mikið. Allt þetta þurfum við að varðveita því það eru þessir þættir sem gera Mosfellsbæ að frábærum bæ.

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf
Það er hlutverk stjórnvalda að búa þeim framtíð, skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta okkar einstaklinganna til fulls. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og hvetja til fjárfestinga og eðlilegrar samkeppni. Stjórnmálamenn þurfa að skapa skýrt og stöðugt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar. Við þurfum að vera meðvituð um að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulíf og það á ekki síður við hér í Mosfellsbæ.

Bryndís Haraldsdóttir í 2. sæti
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja á þingi í 5 ár sem 2. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Ég var bæjarfulltrúi hér í Mosfellsbæ í 8 ár og varabæjarfulltrúi 8 ár þar á undan. Ég var lengi formaður skipulagsnefndar og formaður bæjarráðs, ég var forseti bæjarstjórnar, stjórnarformaður Strætó og sat í svæðisskipulagsnefnd.

Ég hef látið mig ýmis mál varða, bæði í sveitarstjórn og á þingi, og eitt þeirra mála eru samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að horft sé til framtíðar og horft sé á raunhæfar lausnir fyrir svæðið allt. Ég er stolt af því að hafa komið að og stutt höfuborgarsáttmálann, samning á milli ríkis og sveitarfélaga um alvöru uppbyggingu samgöngumannvirkja þar sem horft er til fjölbreyttra samgöngukosta, bæði einkabílsins og almenningssamgangna.
Ég hef líka kallað eftir Sundabraut strax og lagt fram þingsályktun um að hún verði boðin út í einkaframkvæmd.

Ég sækist nú eftir því að fá að vinna áfram fyrir Mosfellsbæ og unga fólkið okkar að því að byggja upp öruggt, frjálst og opið og gott samfélag þar sem allir geta nýtt tækifærin sín. Ég býð fram krafta mína, reynslu og þekkingu.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri flokksins í SV-kjördæmi 10.-12. júní næstkomandi.
Frekari upplýsingar www.bryndisharalds.is

Rödd atvinnulífsins inn á Alþingi

Sigþrúður Ármann

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur velferðar, framþróunar og hagsældar fyrir alla. Atvinnulífið stendur undir grunnstoðum samfélagsins; menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu, samgöngum, innviðum og menningu. Það er því hagur okkar allra að atvinnulífið blómstri.

Hvetjandi umhverfi
Við fæðumst með ólíka forgjöf. Bakland fólks er misjafnt en við þurfum öll að fá tækifæri til að nýta hæfileika okkar. Til þess þurfum við sem samfélag að standa saman og hafa það að sameiginlegu markmiði að byggja upp samfélag sem stuðlar að velferð, lífsgæðum og efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar.
Við þurfum að skapa hvetjandi umhverfi þannig að hver og einn finni hvata til þess að láta til sín taka. Þennan hvata má ekki skerða þegar fólk kemst á efri ár. Tækifærin eru víða og við þurfum að virkja kraftinn. Minnka umsvif í rekstri hins opinbera og útvista verkefnum. Það er atvinnulífsins að leiða vöxt á vinnumarkaði og fjölga störfum en ekki hins opinbera.

Aukin verðmætasköpun
Við þurfum að auka verðmætasköpun með öflugri innlendri framleiðslu og treysta stoðir útflutningsfyrirtækja því að þar liggur grunnurinn að gjaldeyrisöflun landsins. Þannig tryggjum við stöðug lífskjör í landinu og löðum að erlendar fjárfestingar.
Við þurfum að efla atvinnulífið og auka ráðstöfunartekjur fólks með lágum sköttum og gjöldum. Samkeppnisforskot okkar er græn orka og við þurfum að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi.

Menntun, heilbrigði og nýsköpun
Aðgangur að framúrskarandi og fjölbreyttri menntun og góðu heilbrigðiskerfi er lykilatriði fyrir samfélagið allt. Við eigum að efla nýsköpun á öllum sviðum og bjóða upp á valfrelsi. Framþróun byggist á nýsköpun. Við þurfum að byrja strax í grunnskólum að þjálfa börn í að hugsa á skapandi hátt.

Með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu
Ég vil nýta víðtæka reynslu mína úr atvinnulífinu á Alþingi. Ég er fædd og alin upp í heimi viðskipta. Ég er einn eigenda og stjórnarformaður framleiðslufyrirtækis í Hafnarfirði. Ég er fulltrúi í fjölskylduráði í Garðabæ sem jafnframt er barnaverndarnefnd bæjarins.
Félagsleg mál, málefni eldri borgara og fatlaðra heyra einnig undir nefndina. Ég brenn fyrir samfélagsmálum og finnst fátt meira gefandi en að eiga góð samskipti við fólk. Ég hef verið framkvæmdastjóri öflugs umræðuvettvangs í 15 ár, þar sem viðfangsefni eru rædd þvert á atvinnugreinar á málefnalegan, uppbyggilegan og árangursríkan hátt.

Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð – þurfum skýra framtíðarsýn
Alþingi á að vera vettvangur fyrir uppbyggilega og málefnalega umræðu þar sem mótuð er skýr framtíðarsýn. Sem alþingismaður mun ég vinna markvisst að því að efla málefnalega umræðu á milli atvinnulífs og stjórnvalda.

Virk í starfi Sjálfstæðisflokksins
Í rúma tvo áratugi hef ég tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Ég aðhyllist stefnu flokksins um frelsi einstaklingsins, atvinnufrelsi og jafnrétti. Ég býð mig fram í prófkjöri til að geta unnið að krafti á Alþingi að þessum hugsjónum. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu minni www.sigthrudur.is

Ég óska eftir þínum stuðningi í 3. sætið.

Sigþrúður Ármann
Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hugsum stærra, gerum meira og gerum betur

Jón Gunnarsson

Það viðhorf er ekki óalgengt hjá fólki á öllum aldri að það skipti engu máli hverjir fari með stjórn landsins eða í sveitarfélögunum, það sé sami rassinn undir öllu þessu liði.
Engin ástæða sé til þess að drattast á kjörstað, þetta verði allt óbreytt eftir kosningar hvort eð er. En er það þannig? Skiptir virkilega engu máli hver heldur um stjórnartaumana?

Reynslan sýnir okkur að það skiptir miklu máli og þá er ég ekki að tala um fjarlæga fortíð, heldur nútímann. Auðvelt er að bera saman stöðu fjármála í sveitarfélögunum hér í Kraganum við ástandið í Reykjavík. Á meðan bæjarstjórnirnar í Kraganum reka bæjarsjóði af ábyrgð, skynsemi og með jákvæðri niðurstöðu við erfiðar aðstæður þessi misserin, en halda um leið uppi fullri þjónustu við bæjarbúa, þá er fjárhagur stærsta sveitarfélagsins á svæðinu – Reykjavíkurborgar – rjúkandi rúst. Og það gerist þrátt fyrir að hún sé langstærsta sveitarfélagið og með alla skattstofna fullnýtta.
Og hver skyldi nú vera galdurinn á bak við þetta? Jú, hann er einfaldur, sveitarfélögunum í Kraganum er stýrt af sjálfstæðismönnum, en Reykjavík lýtur forsjá vinstri flokkanna með Viðreisnarhækjuna sér til stuðnings.

Samgönguvandi í boði borgarinnar
Við sem búum í nágrenni borgarinnar þekkjum umferðarteppurnar sem fyrst og fremst eru heimatilbúinn vandi, vegna þess að Reykjavíkurborg sinnir ekki þeim skyldum sínum að greiða fyrir umferðinni. Öll þekkjum við tafirnar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðarvegar, tafir sem kosta óheyrilegar fjárhæðir vegna vinnutaps.
En þótt umferð gangi á margan hátt greiðlega hér á svæðinu, þá þekkjum við nokkra staði þar sem hraða þarf framkvæmdum til þess að greiða okkur leið og auka jafnframt umferðaröryggi allra vegfarenda. Um þessar mundir eiga sér stað miklar framkvæmdir í samgöngumálum, ekki síst í nágrenni höfuðborgarinnar. Ýmsar þeirra eru verkefni sem ég barðist fyrir að kæmu til framkvæmda þegar ég gegndi embætti samgönguráðherra árið 2017.
En fyrirliggjandi framkvæmdaáætlanir munu ekki standast eins og skrifað var upp á í Samgöngusáttmálanum 2019, vegna þess m.a. að leiðsögn skortir hjá ríkinu á sama tíma og Reykjavíkurborg er látin komast upp með það að tefja lykilframkvæmdir. Þar á ég t.d. við mislægu gatnamótin á Reykjanesbraut við Bústaðaveg sem áttu að koma til framkvæmda á þessu ári.
Mér finnst sorglegt að þetta skuli látið viðgangast á meðan brýn lykilverkefni hér í Kraganum fá ekki jafn skjótan framgang og nauðsynlegt væri. Þar er ég m.a. að tala um Arnarnesveginn sem átti að klárast á þessu ári með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut, en Reykjavíkurborg er látin komast upp með að tefja. Ekki síður er brýnt að hraða bráðnauðsynlegum framkvæmdum í Garðabæ, en þar er búið að setja áform um stokk á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ á framkvæmdaáætlun áranna 2028–2030, en þessi framkvæmd er mjög mikilvæg.
Og í Hafnarfirði er ekki síður aðkallandi að taka fyrr til hendinni en hugmyndir eru uppi um. Þar er ég með í huga algjöra lykilframkvæmd á Reykjanesbraut, þ.e. við Lækjargötu og Álftanesveg, Kaplakrika. Þetta verkefni á að teygja yfir árin 2024 til 2028. Framkvæmdir í Hafnarfirði eiga skv. þessu ekki að hefjast fyrr en í lok næsta kjörtímabils og í Garðabæ í lok þarnæsta kjörtímabils. Það er óásættanlegt.
Mér hefur oft fundist – og ég er alls ekki einn um það – að við framkvæmdir á vegum hins opinbera ríki of oft skammsýni og að unnt sé að hraða framkvæmdum og nýta fjármuni betur en gert er, með fyrirhyggju sem síðan leiðir til sparnaðar. Það hefur margoft komið í ljós að með því að hugsa stærra, gera meira og gera betur má ná fram aukinni hagkvæmni vegna stærðar og umfangs. Það mun, þegar upp verður staðið, geta sparað okkur milljarða í samgönguframkvæmdum. Þann ávinning mætti síðan nota í önnur verkefni, eða skattalækkanir sem ekki er vanþörf á.

Jón Gunnarsson
Höfundur óskar eftir stuðningi í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum dagana 10. – 12. júní.

Látum verkin tala

Kristín Thoroddsen

Íslendingar eru í grunninn samheldin þjóð og þegar á reynir stöndum við saman og klárum verkefnin. Áskoranir komandi missera verða margvíslegar og þar er einna stærsta verkefnið uppbygging og endurreisn atvinnulífsins.
Með því að taka lítil en ákveðin skref munum við komast í gegnum verkefnin. En til að halda uppi traustu og öflugu atvinnulífi þurfum við sterka einstaklinga, unga sem aldna og sterka forystu. Við þurfum að hlúa að fólkinu til að gera því kleift að takast á við verkefnin, fyrir okkur öll.

Stöndum með unga fólkinu okkar – framtíðaríbúum landsins
Á undanförnum árum hefur unga fólkið okkar þurft að færa fórnir og setja líf sitt á hilluna um stund og það er aðdáunarvert hvernig því hefur tekist það. Inn á milli leynast þó brotnir einstaklingar, líklega fleiri en okkur grunar, sem þurfa stuðning og skýr markmið fyrir framtíðina. Við státum okkur af sterku heilbrigðiskerfi og sterku menntakerfi. En erum við að gera allt sem við getum til að grípa unga fólkið?
Við höfum félagsmiðstöðvar fyrir ungt fólk að 16 ára aldri en eftir situr hópur ungs fólks á aldrinum 16-25 ára sem þarf á stuðningi að halda. Sem formaður fræðslumála hjá Hafnarfjarðarbæ og bæjarfulltrúi veit ég að líðan fjölda ungs fólks er alls ekki góð núna eftir COVID. Það er því einstaklega mikilvægt að nýta öll þau úrræði sem til eru. Þekking og reynsla er til staðar, en hún er dreifð og óaðgengileg. Það er því mikið baráttumál að stofnað verði miðlægt þekkingarsetur sem Samfés hefur nú þegar unnið grunninn að.
Meginmarkmið verkefnisins er að ná til þeirra sem vinna með ungu fólki á öllu landinu og tryggja þannig samræmt faglegt starf. Slíkt setur hefði það einnig að markmiði að veita ungu fólki stuðning, styðja við erlent samstarf, samþætta vinnu fagfólks og veita ráðgjöf og stuðning. Það ætti að vera baráttumál allra sem að stjórnmálum koma að veita þessu verkefni brautargengi. Ég mun leggja mitt af mörkum til að þekkingarsetur muni verða að veruleika, til að við getum stolt sagst hafa staðið með framtíð landsins og ungu fólki, hvar sem það er búsett á landinu.

Sköpum skilyrði fyrir fólk og fyrirtæki
Til að standa með unga fólkinu okkar er mikilvægt að bakland þess sé sterkt. Öll þekkjum við til fjölskyldna þar sem annar eða jafnvel báðir hafa misst vinnuna og standa höllum fæti sem hefur áhrif á alla fjölskylduna. Við erum baráttuþjóð sem breytir vandamálum í verkefni. Sköpum skilyrði svo hugmyndir fólks fái að vaxa og dafna.
Með því að styðja við einkaframtakið, treysta fólkinu og fyrirtækjum til að skapa hér vinnu og verðmæti munum við áður en langt um líður verða sterkari til að takast á við framtíð okkar og framtíð barna okkar. Þannig getum við byggt upp sterkt samfélag, þannig verðum við sterkari til að bregðast við áskorunum unga fólksins og þannig munum við leysa verkefni nánustu framtíðar. Látum verkin tala og bregðumst strax við vandanum. Við þekkjum söguna, við þekkjum afleiðingarnar. Sofnum því ekki á verðinum!

Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10.-12. júní.

Snjallar lausnir og betri þjónusta í skólamálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Skólamálin eru einn mikilvægasti málaflokkur Mosfellsbæjar og hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ávallt lagt mikla áherslu á málaflokkinn ásamt því að auka og bæta þjónustu við barnafjölskyldur.
Í málefnasamningi flokkanna tveggja stendur m.a. að fjölga eigi plássum á ungbarnadeildum þannig að fleiri 12 mánaða gömul börn fái leikskólapláss á kjörtímabilinu, að lækka skuli leikskólagjöld og halda áfram að bæta upplýsingatæknimál skólanna. Einnig kemur fram í málefnasamningnum að endurbæta eigi skólahúsnæði, bæði ytra byrði húsanna og vinnuaðstöðu kennara og nemenda. Við þetta hefur verið staðið og áfram höldum við að gera góðan bæ enn betri.
Mikið átak hefur verið gert í upplýsingatæknimálum í grunnskólum og lengri sumarfrístund fyrir nemendur sem hefja skólagöngu í Varmárskóla og Lágafellsskóla er nýjasta viðbótin við bætta þjónustu við barnafjölskyldur í Mosfellsbæ.

Snjallir skólar
Árið 2019 hófst mikil umbótavinna varðandi upplýsingatæknimálin í grunnskólum bæjarins og í framhaldi af þeirri vinnu var gerð áætlun um tækjakaup til rafrænna kennsluhátta. Allir nemendur hafa nú aðgang að svokölluðum Krómbókum og spjaldtölvum og aukast nú tækifæri til að vinna að verkefnum með rafrænum hætti.
Gerður hefur verið samningur um See­saw aðgang fyrir alla nemendur í 1.-6. bekk og kennara þeirra en það eru rafrænar ferilmöppur sem einfalda kennurum, nemendum og foreldrum að fylgjast með náminu. Nemendur á unglingastigi vinna með Google for Education eða rafræna kennslustofu. Útdeiling á Krómbókum og spjaldtölvum miðaði við stöðu tækjaeignar í hverjum skóla og þess gætt að tækjakostur sé nú sambærilegur milli grunnskólanna.
Upplýsingateymi kennara og stjórnenda eru í skólunum og ráðinn hefur verið verkefnastjóri til að hafa yfirumsjón með upplýsingatæknimálum og búnaði. Skólarnir eru nú mun betur settir með að undirbúa nemendur fyrir framtíðina en tækniþróun er hröð og óhætt að segja að framtíðin er núna. Skólaþróun í Mosfellsbæ heldur áfram og eru þetta stór skref sem stigin hafa verið í rétta átt.

Sumarfrístund fyrir 6 ára börn
Frá 9.–20. ágúst næstkomandi verður boðið upp á Sumarfrístund fyrir sex ára börn í Varmárskóla og Lágafellsskóla. Sumarfrístund er eins konar skólaaðlögun fyrir sex ára börn sem eru að hefja skólagöngu og fá þau í sumarfrístund að kynnast betur skólahúsnæðinu og skólalóð. Með sumarfrístund er komið á móts við þarfir margar fjölskyldna þegar sumarfríum er að ljúka og skólarnir að hefjast. Það getur verið krefjandi tími í lífi barnafjölskyldna.
Árið 2019 var í fyrsta sinn boðið upp á sumarfrístund og var sú þjónusta í boði viku fyrir skólabyrjun. Sama fyrirkomulag var árið 2020 og þá einnig fyrir 2. bekk. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir hjá þeim foreldrum sem nýttu þjónustuna og hefur verður aukið við framboðið og einni viku bætt framan við. Sú vika kemur í stað námskeiðsviku hjá íþrótta- og tómstundaskólanum.

Barnvænt samfélag
Markmið Mosfellsbæjar er að leita sífellt leiða til að auka og bæta þjónustu við bæjarbúa. Mosfellsbær hefur laðað til sín barnafjölskyldur og leggur ríka áherslu á að mæta á sem bestan og fjölbreyttasta hátt þeim fjölskyldum sem á þjónustu bæjarfélagsins þurfa á að halda.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

 

Friðun Leirvogs

Michele Rebora

Töluvert hefur verið fjallað um friðun Leiruvogs, m.a. á samfélagsmiðlum og hér í bæjarblaðinu, sérstaklega í kjölfar stækkunar friðlands við Varmárósa nú á dögum. Það er engin furða, enda um mikilvægt svæði að ræða út frá sjónarmiði náttúruverndar.
Sá hluti Leiruvogs sem fellur innan sveitarfélagamarka Mosfellsbæjar er í raun hluti af stærra heildarsvæði sem nefnist Blikastaðakró-Leiruvogur og liggur á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið afmarkast að vestan við Geldinganes og Gunnunes og nær inn voginn til austurs, þar sem Varmá og Leirvogsá renna til sjávar. Sjávarfitjar, grýttar þangfjörur og víðáttumiklar leirur einkenna svæðið og eru heimkynni fjölmargra smádýra- og fuglategunda. Náttúrufræðistofnun Íslands skilgreinir Blikastaðakró-Leiruvog sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði en mikið fuglalíf er á öllum árstímum og tvær tegundir ná alþjóðlegum verndarviðmiðum; margæs á fartíma og sendlingur að vetri.
Svæðið er jafnframt vinsælt til útivistar og hreyfingar og liggja meðal annars fjölfarnir göngu- og reiðhjólastígar svo og reiðleiðir meðfram ströndinni. Hlíðavöllur Golfklúbbs Mosfellsbæjar liggur svo meðfram stórum hluta svæðisins.
Í tengslum við afstaðna vinnu við stækkun friðlandsins við Varmárósa bendir Náttúrufræðistofnun Íslands á í sinni umsögn að stofnunin „telur Blikastaðakró – Leiruvogur vera mikilvægt alþjóðlegt fuglasvæði sem þörf er að vernda, en Varmárós er aðeins lítill hluti af því svæði. Til að tryggja vernd fugla, vistgerða votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða, þarf friðlýsta svæðið að vera mun stærra.“

Reykjavíkurborg hefur samþykkt að undirbúa friðlýsingu þess hluta svæðisins sem tilheyrir borginni.
Á síðasta fundi umhverfisnefndar lagði ég fram tillögu um að Mosfellsbær myndi beita sér fyrir því að friðlýsingin næði yfir allt svæðið þvert á sveitarfélögin, enda vistkerfi ekki bundin sveitarfélagamörkum frekar en fuglar.
Umhverfisstofnun hefur nú beðið Mosfellsbæ um að taka þátt í vinnuhópi um málið og er undirritaður þar einn af þremur fulltrúum bæjarins, ásamt formanni umhverfisnefndar og umhverfisstjóra Mosfellsbæjar. Mikil samstaða er um friðlýsingaráformin innan umhverfisnefndar og það sama virðist vera upp á teningum í bæjarstjórninni, svo ástæða er til bjartsýni.
Vinir Mosfellsbæjar munu að minnsta kosti leggja sitt af mörkum til að þessu dýrmæta svæði verði tryggð viðeigandi vernd svo komandi kynslóðir, bæði dýra og manna, geti notið þess.

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd

Fjölbreyttari ferðamáti

Valdimar Birgisson

Nú þegar farið er að hrinda í framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er eðlilegt að deilur um einstaka þætti hennar verði háværari.
Áætlað er að að framkvæmdin kosti 120 milljarða og því eðlilegt að sitt sýnist hverjum. Framkvæmdir hófust í raun 2019 með breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ og Reykjanesbrautar í Hafnarfirði og er áætlað að þeim ljúki 2033 með lagningu Borgarlínu upp í Mosfellsbæ.
Í þessum sáttmála togast á tvö sjónarmið. Annars vegar áhersla á greiðari leið einkabílsins og hins vegar á aðrar samgöngubætur svo sem almenningssamgöngur og fjölgun hjóla- og göngustíga. Fjármagnið skiptist ca 50/50 á milli þessara tveggja áherslna. Greiðari samgöngur og fjölbreyttir ferðamátar.

Af hverju sáttmáli um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Er eitthvert vandamál til staðar? Jú, það eru í grunninn þrjú vandamál sem þarf að leysa. Í fyrsta lagi þá annar gatnakerfið ekki umferð á háannatíma þegar fólk er að fara í og úr vinnu eins og fólk úr Mosfellsbæ þekkir allt of vel. Í öðru lagi er almenningssamgöngukerfið það ófullkomið að það er ekki raunhæfur valkostur og í þriðja lagi eru hjólastígar annað hvort ekki til eða ekki nothæfir með góðu móti.

En af hverju ekki að nota allt fé í að bæta samgöngur fyrir bíla? Svarið við þessu er að það einfaldlega ekki hægt. Því er spáð að umferð ökutækja, að öllu óbreyttu, muni aukast um 40% á næstu 15 árum. Það gefur því auga leið að það mun ekki vera hægt að anna þeirri aukningu með fjölgun vega þannig að við verðum að beina hluta af umferð annað. Svo er það hreinlega krafa stórs hluta íbúa að boðið sé upp á valkost við einkabílinn.

Fulltrúar Viðreisnar í borgar- og bæjarstjórnum höfuðborgarsvæðisins styðja áform um fjölbreyttari ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu svo að val okkar um hvernig við kjósum að haga okkar ferðum verður meira.
Viðreisn styður líka lagningu Sundabrautar til þess að greiða fyrir umferð á svæðinu og létta á umferð í gegnum Mosfellsbæ.

Valdimar Birgisson

Lifandi málaskrá og dagbók – afdrif málsins

Stefán Ómar Jónsson

Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 30. mars sl. var fyrst á dagskránni mál mitt um „Rafrænan aðgang almennings að málaskrá Mosfellsbæjar“.
Málið er tvíþætt, annars vegar að birta með rafrænum hætti málaskrá stjórnsýslu Mosfellsbæjar og hins vegar að birta dagbók bæjarstjóra.
Í 4. tölublaði Mosfellings þann 1. apríl sl. var gerð ýtarleg grein fyrir aðdraganda og tilgangi þess að ég flutti málið en aðal­atriðið er að gera almenningi kleift að fylgjast með þeim málum sem beint er að stjórnsýslu Mosfellsbæjar og að fá innsýn í dagleg verkefni bæjarstjóra.
Til að upplýsa íbúa Mosfellsbæjar um afdrif málsins er skemmst frá því að segja að málinu var, að tillögu minni, vísað til umsagnar þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar og er niðurstöðu deildarinnar nú beðið, en um sex vikur eru síðan málið var til afgreiðslu í bæjarráði.
Mikið er talað um að gera almenningi kleift að fylgjast með og hafa innsýn í daglega stjórnsýslu hins opinbera. Aðkoma almennings er stundum bundin í lög og reglur eins og t.d. aðkoma að skipulagsmálum og nú aðgangur að málaskrá Stjórnarráðs Íslands, en annað er valfrjálst eins og til að mynda ofangreint mál mitt.
Hvað varðar Mosfellsbæ er í 1. kafla í Lýðræðisstefnu bæjarins, um stjórnsýslu og gegnsæi, meðal annars talað um að íbúar skuli hafi greiðan aðgang að öllum gögnum sveitarfélagsins. Í því ljósi geri ég ráð fyrir því að þjónustu- og samskiptadeild Mosfellsbæjar muni leggja fram tillögur um með hvaða hætti opna má aðgang að málaskrá Mosfellsbæjar og dagbók bæjarstjóra.

Ég færi öllum íbúum og starfsmönnum Mosfellsbæjar óskir um gleðilegt sumar.

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Hestar og menn

Margrét Dögg Halldórsdóttir

Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ var stofnað árið 1950. Í bænum okkar er því löng og rík hefð fyrir hestamennsku og umferð ríðandi fólks, þótt vissulega hafi margt tekið breytingum á þessum 70 árum, bæði byggðin og líka hestamennskan sjálf, en hún er nú orðin fjórða stærsta íþróttagreinin innan ÍSÍ.
Hestamennska er margs konar, líkt og aðrar íþróttir, sumir æfa fyrir keppni, aðrir til langferða, enn aðrir stunda hana til þess að njóta útivistar og samveru með hestinum. En það er pláss fyrir alla innan hestamennskunnar, fólk af öllum aldri og stigum samfélagsins sameinast í ást á hestum og hestamennsku. Nærveran við dýrin gefur fólki sérstaka sálarró, hestar eru sannir vinir.
Undanfarið hefur borið á mikilli og háværri umræðu um árekstra á milli hestamanna og annarra vegfarenda sem eru að stunda útivist. Reiðleiðir og aðrir stígar skarast eða liggja hver nærri öðrum, fólk fer inn á stíga sem eru sérmerktir annarri umferð og svo framvegis. Jafnvel hefur fólk slasast þegar hestar hafa brugðist við áreitinu á þann hátt að leggja á flótta, verandi flóttadýr.
En það er alls ekki þannig að við knapar séum farþegar sem eru stanslaust í hættu, alls ekki. Fram fer samspil manns og hests, hesturinn treystir á knapann og að hann leiði og leysi þau verkefni sem báðir standa frammi fyrir. Almennt og yfirleitt gengur þetta allt að óskum og allir njóta sín, hestamenn og aðrir. Eðli hestsins getur þó orðið allri samvinnu yfirsterkara ef flóttaviðbragðið tekur yfir. Stundum nær knapi að vinna traust strax aftur og hesturinn vinnur sig út úr óttanum. Stundum tekst það ekki og þá getur hlotist slys af, jafnvel alvarlegt. Hesturinn er annar hugur og annað hjarta, rökhugsun er ekki til staðar. Þetta er mikilvægt að þekkja sé maður í samskiptum við hesta, eða vegfarandi þar sem hestar og hestamenn eru á ferð.
Íþróttamannvirki okkar hestamanna eru að stærstum hluta reiðvegirnir. Við sjáum að hluta um að leggja þá, sinna viðhaldi og margir þeirra eru alveg sérstaklega byggðir upp fyrir ríðandi umferð. Önnur umferð getur hreinlega valdið skemmdum á þeim. Sérmerktir reiðstígar eru merktir með boðmerki. Boðmerkið sem er hvítur hestur á bláum grunni þýðir að stígurinn er eingöngu ætlaður hestamönnum. Önnur umferð er bönnuð. Svo eru til sameiginlegir stígar þar sem hestamenn geta átt von á annarri umferð og þurfa að sýna sérstaka aðgát eins og aðrir sem þá stíga nota. Kurteisi, skilningur og tillitssemi er lykillinn að því að okkur öllum gangi vel að nýta þessi svæði saman.
Sáttmáli milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi var undirritaður um síðustu helgi. Útivistarhópar hafa nú tekið höndum saman um að fræða almenning um það hvernig allir þessir hópar geti deilt saman heilbrigðri og öruggri útiveru. Hægt er að sjá sáttmálann og nánar um hverjir standa að honum á vef Samgöngustofu www.samgongustofa.is/hestarogumferd. Á sama tíma var gefið út fræðslumyndband sem einnig er að finna á vefnum og á heimasíðu hestamannafélagsins Harðar www.hordur.is.
Það er von mín að með víðtæku samtali, fræðslu og gagnkvæmri virðingu takist okkur að njóta útiveru í sátt og samlyndi hvert við annað.

Margrét Dögg Halldórsdóttir
Formaður hestamannafélagsins Harðar

Við erum öll áhrifavaldar!

Ólöf Kristín Sívertsen

Flestallt sem við segjum og gerum hefur áhrif á okkur sjálf og einnig þá sem eru í kringum okkur. Því er mikilvægt að við vöndum framkomu okkar, verum meðvituð í samskiptum og gleymum því aldrei að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Reynum að forðast það eftir fremsta megni að dæma fólk því við vitum nefnilega sjaldnast alla söguna.

Félagsleg tengsl
Margar rannsóknir hafa verið gerðar í því skyni að finna út hvers vegna sumir lifa lengur og betur en aðrir. Má þar m.a. nefna hin svokölluðu „Bláu svæði“ (e. Blue Zones) í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa íbúa virðast haldast í hendur. Sýnt hefur verið fram á að þar spili félagsleg tengsl hreinlega stærsta hlutverkið. Þetta hafa íslenskar rannsóknir einnig sýnt okkur, þ.e. að góð félagsleg tengsl, gæði sambands við fjölskyldu og vini og samvera foreldra og barna segi best til um hamingju.

Samskiptahæfni
Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gera lífið innihaldsríkara og gleðilegra. Samskiptafærni okkar er því mjög mikilvæg þegar kemur að uppeldi, ástarsamböndum, samstarfi ýmiss konar og hreinlega öllu því sem snýr að mannlegum tengslum. Við verðum að geta sett okkur í spor annarra, hugsað á lausnamiðaðan hátt, rökrætt á málefnalegum grunni, leyst ágreining á farsælan hátt og miðlað málum. Forðumst hegðun, viðmót og orð sem við myndum ekki vilja verða fyrir sjálf.

Samskiptaboðorðin
Samskipti geta verið alls konar, þau geta t.d. verið gefandi, nærandi, eflandi, slítandi, óútreiknanleg, niðurbrjótandi, meiðandi, ástrík og þakklát. Hvernig sem þau eru þá hafa þau mikil áhrif á líf okkar, hvernig okkur líður og jafnvel hvernig okkur farnast í lífinu. Samskiptaboðorðin eru runnin undan rifjum Aðalbjargar Stefaníu, á Heilsustofnun NLFÍ, og er þeim ætlað að efla þekkingu almennings á nærandi og eflandi samskiptum. Boðorðin eru þessi:
1) Horfa – náðu blíðu augnsambandi til að skapa traust og áhuga.
2) Heilsa – heilsaðu og brostu með augunum. Slíkt sýnir umhyggju, eflir sjálfstraust og öryggiskennd.
3) Hlusta – notaðu virka hlustun og lestu ekki eingöngu í orðin heldur líka hegðun og líkamstjáningu. Sýndu einlægan áhuga og virðingu.
4) Hljóma – notaðu hlýlegan tón og blæbrigði, slíkt eykur sjálfsvirðingu og vellíðan.
5) Hrósa – hrósaðu einlæglega til að styrkja jákvæða hegðun.
6) Hjálpa – vertu til staðar þegar fólk þarfnast þín, slíkt sýnir umhyggju og byggir upp gagnkvæmt traust, vellíðan og öryggi.
Komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Verum jákvæðir áhrifavaldar í eigin lífi og annarra og látum gott af okkur leiða, ávinningurinn er okkar allra!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

 

Íþróttahús við Helgafellsskóla

Margrét Gróa Björnsdóttir

Ég starfa sem stuðningsfulltrúi við Helgafellsskóla. Meðal þeirra verkefna sem ég sinni er að fara ein með um 40 nemendur í rútu tvisvar sinnum í viku niður að Varmá í íþróttatíma.
Ferðin tekur okkur 80-85 mínútur frá því við förum frá Helgafellsskóla og þar til við komum til baka. Íþróttatíminn er 40 mínútur og það fara aðrar 40 mínútur í ferðir. Það hlýtur að vera eitthvað skakkt í þessu! Auk tímans sem þessi ferðalög taka þá er þetta mjög stressandi og kvíðavaldandi fyrir nemendur.
Á teikningum Helgafellsskóla er gert ráð fyrir íþróttahúsi en mér skilst að ekki sé enn búið að taka endanlega ákvörðun um hvenær það verði byggt. Við stuðningsfulltrúar sem störfum við Helgafellsskóla skorum á stjórn bæjarins að setja íþróttahús við Helgafellsskóla í algeran forgang.
Helgafellsskóli er ört stækkandi skóli í vaxandi íbúahverfi og er gert ráð fyrir um 450 nemendum í skólanum á næsta skólaári og því finnst okkur brýnt að drifið verði í því að setja íþróttahúsið á fjárhagsáætlun hið fyrsta.

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa í Helgafellsskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir

Hvernig er heilsugæslan mín og hver passar upp á heilsu mína?

Una María Óskarsdóttir

Nú þegar vonandi fer að líða að því að við Íslendingar getum farið að lifa eðlilegra lífi, hugsa ég til margs sem kófið hefur haft í för með sér.
Að mörgu leyti höfum við Íslendingar haft það gott og betra en aðrar þjóðir. Margt mætti þó gagnrýna eins og hæga viðspyrnu við efnahagsvanda þjóðarinnar, lélegt aðstreymi bóluefnis og lítil sem engin viðbrögð við versandi líðan og heilsu fólks. Hér hafa skólar verið opnir, enda þekkjast síður dæmi um mikil alvarleg veikindi barna vegna veirunnar. Sömu sögu er ekki að segja t.d. frá Bandaríkjunum þar sem barnafjölskyldur hafa tekið sig upp og flutt á milli fylkja í þeim eina tilgangi að börnin þeirra kæmust í skóla og fengju menntun eftir árs lokun.
Þrátt fyrir minni takmarkanir hér á landi en víða í mörgum öðrum löndum, þá er hér vaxandi atvinnuleysi og fólk býr við einsemd og vanlíðan sem sumt má skrifa á afleiðingar kóvids. Bæði eldra fólk og yngra hefur einangrað sig og forðast samneyti við aðra. Það leiðir hugann að því hvort þetta fólk leiti síður til læknis en þeir sem svo er ekki ástatt um?
Hvernig er aðgengi að læknum og þjónustu hjá heilsugæslunni í heimabyggð? Heilsugæslan í Mosfellsbæ heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er nú komin í nýtt húsnæði. Því miður hafa þær sögur gengið að löng bið hafi verið eftir tíma hjá lækni. Það leiddi án efa til þess að einhverjir skráðu sig á aðrar heilsugæslustöðvar sem ekki eru í heimabyggð. Má þar nefna Höfða í Reykjavík eða í Urðarhvarfi í Kópavogi. Kenni fólk sér meins er bið óboðleg og skaðleg. Vonandi verða breytingar til batnaðar og ber að fagna nýrri heilsugæslustöð við Sunnukrika í Mosfellsbæ.
Mér virðist blasa við að endurskipuleggja þurfi heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti þar sem búast má við að þegar kófinu slotar muni fleiri þurfa þjónustu og einnig sérhæfðari þjónustu. Heilsugæslan er skilgreind sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þar vill fólk geta fengið þjónustu síns læknis eða sinna lækna og myndi án efa auka líkurnar á því að rétt greining fengist sem fyrst.
Það er einnig umhugsunarvert hvort inn í kerfið eigi ekki að vera innbyggt ríkara eftirlit/eftirfylgni með sjúklingum en nú virðist raunin. Ef einstaklingur fer t.d. í uppskurð þar sem mein er fjarlægt, væri þá ekki eðlilegt að honum yrði fylgt eftir næstu árin ef einhverjar líkur væru á upptöku meinsins? Auðvitað eigum við sjálf að fylgjast með heilsu okkar eins vel og við getum. Leita aðstoðar fyrr en seinna enda skilar það betri andlegri og líkamlegri heilsu. Það er eðlileg krafa að aðgengi að þjónustu heilbrigðisstarfsfólks sé gott, vel sé hlustað á sjúkrasöguna og að bið eftir sérfræðilækningum verði ekki til skaða.

Una María Óskarsdóttir
uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur
varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Unglingarnir okkar – harðnaðir glæpamenn eða hæfileikaríkir og kurteisir einstaklingar?

Guðrún Helgadóttir

Við í félagsmiðstöðinni Bóli vinnum með unglingunum okkar alla virka daga. Það er fjölmennur hópur sem leggur leið sína til okkar dag hvern, annaðhvort í skipulagt starf eða „bara“ til þess að spjalla. Þess á milli lesum við, á hinum ýmsu samfélagsmiðlum, athugasemdir um krakkana okkar.
Við, starfsfólkið, lokum ekki augunum fyrir þeirri hópamyndun sem hefur átt sér stað að undanförnu, en við vitum líka að það er verið að vinna, í samvinnu við foreldra, með þessa örfáu einstaklinga sem rötuðu aðeins út af sporinu.
Það er upplifun starfsmanna Bólsins að stærsti hluti unglinganna okkar er á hárréttri braut og við gerum allt sem við getum til að aðstoða þessa örfáu við að komast aftur á rétta sporið. Hafa skal þó í huga, að Bólstarfsmönnum þykir einstaklega vænt um þessa örfáu, sem og aðra unglinga Bólsins, og innan okkar veggja eru þeir skemmtilegir, tillitsamir og kurteisir.
Við fengum nokkra einstaklinga til að skrifa niður af hverju þeir koma til okkar í Bólið. Rauði þráðurinn í þeirra punktum var að þeim finnst gott að koma og spjalla við starfsfólkið.
Á unglingsárunum eru krakkarnir að taka út þroska og átta sig á hvaða persóna þeir eru og/eða vilja vera. Mikilvægt er að mæta þeim á jafningjagrundvelli og virða þeirra skoðanir. Við verðum að forðast að setjast í dómarasætið, heldur reyna frekar að ná fram umræðum þar sem allar hliðar eru skoðaðar.
Í Bólinu eru samræðurnar oft mjög líflegar, en hvernig eiga þessir krakkar að geta speglað sig í fullorðnum einstaklingum, ef þeir fá ekki tækifæri til að tjá sig og finna að á þá sé hlustað?
Eins og með okkur öll, þá þurfum við mismikla aðstoð við að finna okkar hillu í lífinu, en við getum verið sammála um það að það er gott að fá stuðning. Öll upplifum við það að mistakast eða taka, á einhverjum tímapunkti, ranga ákvörðun. Það á jafnt við um börn, unglinga og fullorðna einstaklinga.
Það sem unglingarnir eiga sameiginlegt hjá okkur er að vera kurteisir og vel upp aldir. Þeir bera oftast virðingu fyrir skoðunum annarra og vilja þá líka fá þá virðingu til baka.
Við fullorðna fólkið getum lært mikið af þessum aldurshópi því í þeirra augum er ekkert ómögulegt og þeir eru ávallt tilbúnir að læra eitthvað nýtt eða horfa á málin frá fleiri sjónarhornum. Þeir eru hæfileikaríkir og jákvæðir, en þurfa að fá tækifæri. Tækifæri til að gera vel, en líka tækifæri til að misstíga sig og fá aðstoð við að standa aftur á fætur.
Við viljum með þessum skrifum skora á bæjarbúa að mæta unglingunum okkar með opnum huga og jákvæðni. Þeir eiga það svo sannalega skilið. Hjálpumst að við að styrkja þá og styðja þannig að leiðin inn í fullorðinsárin verði auðveld og ánægjuleg.

Fyrir hönd starfsmanna Bólsins og unglinganna okkar,
Guðrún Helgadóttir, forstöðumaður Bólsins.