Af bæjarstjórnarmálum er þetta helst

Ásgeir Sveinsson

Útboð leikskóla í Helgafellshverfi
Eftir árstafir hefur loksins verið ákveðið að bjóða út byggingu leikskólans í Helgafelli. Það stóð til að gera það fyrir ári síðan en þá ákvað meirihlutinn að fresta því og setja á fót starfshóp. Bæjarfulltrúar D-lista lögðu ítrekað fram tillögu um að bjóða bygginguna út strax því annars myndi kostnaður hækka verulega. Niðurstaða starfshópsins var svo sú að bjóða út byggingu leikskólans og var þar lægsta boð um 30% yfir uppfærðri og hækkaðri kostnaðaráætlun og hefur því kostnaðurinn hækkað um hundruð milljóna króna. Inni í þeirri upphæð er þó ekki kostnaður við útboð á stoðveggjum á lóðinni sem var hluti af verkinu en meirihlutinn tók þá sérstöku ákvörðun að bjóða það sérstaklega út 2 vikum fyrir útboð á byggingu hússins.
Þessi niðurstaða er ekki góð fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.

Rekstur Hlégarðs

Jana Katrín Knútsdóttir

Starfsemi í Hlégarði er nú komin vel af stað eftir bæði heimsfaraldur og gagngerar endurbætur innanhúss undanfarin ár. Meirihlutinn ákvað í síðustu viku eftir margra mánaða tafir að stofnað yrði B hlutafélag í eigu Mosfellsbæjar um reksturinn. Búið var að ráða öflugan viðburðarstjóra sem mun sjá um að fjölbreytt menning muni blómstra í húsinu.
Það sem vekur furðu í málinu er að meirihlutinn ákvað að Mosfellsbær myndi sjá um vínveitingasölu í Hlégarði í stað þess að bjóða þann þátt út eins og gert er nánast undantekningarlaust með sambærilega starfsemi. Lýðheilsubærinn Mosfellsbær er þar með kominn í samkeppni við einkaaðila í veitingarekstri í bænum, þar með talið í sölu á áfengi.
Bæjarstjórinn er þannig orðinn ábyrgur ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi vínveitingasölu á viðburðum í Hlégarði. Það verður athyglisvert að sjá hvað G&T eða bjór muni kosta á barnum. Ætli það verði happy hour? … svo tala oddvitar meirihlutans fallega um að styðja við atvinnulíf í Mosfellsbæ. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla. Fulltrúar D-lista lögðu fram tillögu um að útvista veitingarekstri til einkaðila en sú tillaga var felld.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjárhags- og tekjuáætlun
Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar bentu fulltrúar D-lista ítrekað á að tekjuhlið áætlunarinnar væri vanáætluð og þá sérstaklega þegar kæmi að tekjum varðandi lóðasölu og byggingarréttargjöld.
Í nýrri uppfærðri tekjuspá til loka árs 2023 sem var birt nú um miðjan júní, kom svo á daginn að tekjur bæjarins verða mun hærri en reiknað var með, í samræmi við það sem bent hafði verið á. Það er auðvitað mjög jákvætt.
Það sem vakti mesta athygli er að tekjur af lóðasölu sem voru áætlaðar 500 milljónir verða a.m.k. 1.700 milljónir þannig að þar munar 1.200 milljónum. Þetta var nokkuð ljóst við gerð fjárhagsáætlunar en það má velta fyrir sér hvort ástæða þessara vanáætlana gæti verið sú að það hafi verið þægilegra fyrir meirihlutann að afsaka sögulegar skattahækkanir á húsnæði o.fl. með því að hafa tekjuáætlunina lága.
Áætlanir hjá Mosfellsbæ hafa staðist með ótrúlegri nákvæmni undanfarin ár en það virðist nú vera úr sögunni.

Helga Jóhannesdóttir

Svið fyrir viðburði í Álafosskvos
Á síðasta fundi bæjarráðs lögðu fulltrúar D-lista fram tillögu um að Handverkshúsið Ásgarður og Mosfellsbær tækju höndum saman um byggingu viðburðasviðs við áhorfendabrekku í Álafosskvos.
Tillagan gerir ráð fyrir að sviðið verði úr eins umhverfisvænum hráefnum og kostur er og yrði sviðið í anda verka Ásgarðsmanna sem hafa komið að ýmsum verkefnum í Mosfellsbæ og víðar undanfarin ár.
Með tilkomu sviðs í Álafosskvos gefst enn betra tækifæri fyrir fjölbreytta viðburði og menningu í Kvosinni.
Tillögunni var vísað til áframhaldandi vinnslu innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar og mun þá umhverfissvið Mosfellsbæjar væntanlega koma að málinu. Vonandi getur orðið af þessu samstarfi og að reist verði svið við Álafosskvos sem fyrst.

Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúar D-lista

Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2022-2040

Valdimar Birgisson

Undanfarin ár hefur verið unnið að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem gilda á til ársins 2040.
Skipu­lags­nefnd og bæj­ar­stjórn Mos­fells­bæj­ar samþykktu að kynna frumdrög og vinnslu­til­lögu að nýju aðalskipulagi í vor og er hægt að nálgast þau gögn á skipulagsgátt (www.skipulagsgatt.is/issues/214). Þar er einnig hægt er að koma að umsögnum og athugasemdum til 12. ágúst.
Hér er ekki um að ræða end­an­lega til­lögu og munu gef­ast frek­ari tæki­færi til kynn­ingar og at­huga­semda á síð­ari stig­um.

Aðalskipulag Mosfellsbæjar er eitt meginstjórntæki sveitarfélagsins og sýnir framtíðarsýn og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Aðalskipulagið er því leiðarvísir um alla uppbyggingu innan marka Mosfellsbæjar. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ber ábyrgð á gerð aðalskipulagsins en skipulagsnefnd vinnur það í umboði bæjarstjórnar í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð. Arkís arkitektar unnu að gerð þessara tillagna með starfsmönnum Mosfellsbæjar.

Núverandi aðalskipulag var samþykkt 2013 og gildir til 2030. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að fara í þessa endurskoðun aðeins fimm árum eftir samþykkt núverandi skipulags er m.a. hraðari fjölgun íbúa en núverandi skipulag gerir ráð fyrir, þá liggur líka fyrir endurskoðað og breytt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og fleira mætti tína til t.d. samgöngusáttmálinn.

Á síðustu tuttugu árum hefur íbúafjöldi í Mosfellsbæ tvöfaldast og búast má við áframhaldandi fjölgun íbúa og gera má ráð fyrir að íbúar Mosfellsbæjar verði um 20 þúsund árið 2040.

Í þessum drögum er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á þéttbýlismörkum Mosfellsbæjar fyrir utan það að bætt er við íbúðasvæði í Teigslandi. Einnig er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustukjarna við gatnamót Þingvallavegar og Vesturlandsvegar. Talsvert er um óbyggð íbúðasvæði innan núverandi þéttbýlismarka og er gert ráð fyrir því að byggð vaxi innan þeirra.

Eins er haldið í þá stefnu að fjölga ekki frístundasvæðum í sveitarfélaginu en leyfa byggingu frístundahúsa á núverandi frístundasvæðum.

Þá er gert ráð fyrir meiri þéttleika byggðar við áhrifasvæði Borgarlínu í Blikastaða­landi og á miðbæjarsvæðinu. Í skipulagsgátt, sem finna má á vef Mosfellsbæjar, er rammahluti aðalskipulags Blikastaða eitt af þeim gögnum sem liggja frammi og ágætt að skoða til þess að glöggva sig á þeirri uppbyggingu sem gert er ráð fyrir að muni eiga sér stað þar. Þar verður þéttleikinn meiri en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar.

Í drögunum er enn fremur lögð aukin áhersla á vistvænar samgöngur t.d. með Borgarlínu og uppbyggingu göngu- og hjólastíga í Mosfellsbæ. Þannig eru skapaðar aðstæður til þess að byggja upp þjónustu í göngufæri og styðja þannig við lýðheilsu og stuðla að loftslagsvænni byggð.

Friðlýstum svæðum hefur fjölgað og einnig eru hverfisverndarákvæði bætt og hverfisvernd sett á toppa fella við bæjarstæðið til þess að vernda ásýnd og yfirbragð þeirra. Þar verður þó heimilt að vinna að stígagerð og aðgengi fyrir almenning. Þá er gert ráð fyrir loftlagsskógi á Mosfellsheiði.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til þess að skoða þessi gögn og koma með athugasemdir eða umsagnir ef einhverjar eru og taka þannig þátt í að móta framtíðarskipulag sveitarfélagsins okkar.

Valdimar Birgisson
Formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar

 

Betri vinnutími á leikskólum

Dagný Kristinsdóttir

Upp úr áramótum 2020 fóru fyrstu kjarasamningar sem fólu í sér styttri vinnutíma að líta dagsins ljós. Í hönd hófst heljarinnar ferli stjórnenda allra stofnana við að finna út úr því hvernig ætti að leysa þetta nýja verkefni. Í fyrstu umferð var þetta mjög skrítið verkefni þar sem ekkert skapalón fylgdi en eitt var alveg ljóst – enginn kostnaður átti að felast í innleiðingunni. Á mörgum stöðum varð ferlið auðveldara eftir því sem samtalið átti sér stað oftar en mjög fljótt varð þó ljóst að meðal ákveðinna starfsstétta yrði þetta erfitt samtal vegna eðli starfanna og er leikskólastéttin ein þeirra.

En af hverju?

Starfsfólk leikskólanna ver 7-7.5 tímum á dag með sínum nemendum. Þegar viðveran er svo mikil er vinnuhagræðið sem felst í innleiðingarferlinu mjög snúið, því allur vinnutíminn er nú þegar undir. Ef það á að stytta vinnutíma starfsmanna á leikskólum segir það sig sjálft að einhver annar þarf að stíga inn og leysa starfsmanninn af. En þá er innleiðingin og verkefnið farið að kosta og það mátti ekki.

Þetta var verkefni leikskóla bæjarins fyrstu tvö árin af innleiðingunni en í vetur bættist við mönnunarvandi. Þá vantaði fólk bæði í daglega starfið og eins til að leysa af. Ef það vantar í hópinn að þá getur fólk ekki farið í burtu, það er bara svo einfalt.

Tillaga til fræðslunefndar

Miðvikudaginn 3. maí kom fyrir fræðslunefnd tillaga að útfærslu á betri vinnutíma á leikskólum bæjarins. Í henni fólst að teknir yrðu upp svokallaðir skráningardagar í leikskólum bæjarins eftir kl. 14 á föstudögum og í skólafríum, alls 15 dagar yfir skólaárið. Í fyrri umferð umræðunnar þennan dag komu ekki fram mörg sjónarmið önnur en frá fulltrúa meirihlutans, undirritaðri og fulltrúa foreldra sem báðar lýstu efasemdum um þetta fyrirkomulag. Ákveðið var að senda hugmyndina til umræðu inn í leikskólastarfið og eins til foreldraráða á leikskólum og þann 6. júní kom tillagan aftur inn til fræðslunefndar og þá með umsögnum foreldraráða og skólastjórnenda.  Öll foreldraráð sýndu tillögunni skilning en bentu á mikilvægi góðrar upplýsingagjafar og góðs undirbúnings. Sérstaklega má hrósa foreldraráði Krikaskóla sem sendi frá sér ítarlega ályktun, í henni voru margar hugmyndir og útfærslur að leiðum. Stjórnendur fögnuðu tillögunni og skil ég það vel, því þeir eru búnir að prófa og hugsa allar mögulegar leiðir. Á þessum seinni fundi fræðslunefndar voru heldur meiri efasemdir ef eitthvað er.

Ég hef sagt það á öllum stigum að ég hef skilning á því að þessi tillaga sé komin fram, verkefnið er flókið og erfitt í þeim aðstæðum sem ríkja á vinnustöðunum. En til að maður geti sýnt fullan stuðning þurfa að liggja fyrir ákveðin gögn og rökstuðningur sem hafa ekki verið til staðar. Ég er því ekki viss um að þessi pólitíska afstaða sem tekin var sé rétt og ætla að færa rök fyrir því.

Heimild eða skylda?

Þetta finnst mér einn stærsti punkturinn í öllu málinu og í raun hafa ekki fengist skýr svör frá meirihlutanum. Í fræðslunefnd og bæjarráði var ítrekað rætt um að þessi tillaga yrði heimild fyrir leikskólastjóra en í öllum upplýsingapóstum til foreldra og í frétt á facebook síðu bæjarins var þetta lagt upp sem verkefni sem verið væri að fara í. Það er munur á því að hafa heimild til einhvers eða að vera skyldaður til að gera eitthvað.

Því hafa nokkrar spurningar vaknað:

  • Hvort er rétt, má þetta ef þarf eða á að fara í verkefnið. Þetta skiptir máli, ekki einvörðungu fyrir foreldra heldur líka okkur sem sátu fundina – fengum við ekki réttar upplýsingar?
  • Ef leikskólastjórar hafa heimild til að setja inn skráningardaga, þá þarf að svara þeirri spurningu hvort ekki eigi að ríkja jafnræði í þjónustunni. Getur einn leikskóli haft opið á meðan annar skerðir þjónustu? Við vitum af einum leikskóla sem hefur náð að lenda þessu verkefni svo vel sé. Á sá leikskólastjóri að taka upp verkefnið og sátt innanhúss til að fara aðra leið?
  • Hvað á að gera með vistun mosfellskra barna sem fara í leikskólann í Grafarvogi? Eiga þau að fylgja skráningardögum barna sem fá vistun heima fyrir?
  • Eins hefur verið spurst fyrir um vistunargjaldið á skráningardögum.

Við þessum spurningum hafa ekki fengist skýr svör og er það miður.

Í öðru lagi fékk fræðslunefnd eina tillögu frá Fræðslu- og frístundasviði. Til að nefndin og kjörnir fulltrúar geti tekið upplýsta og góða ákvörðun hefði ég viljað sjá minnisblað með 3-4 tillögum, útfærðum og kostnaðargreindum. Þessi vinna hefði ekki bara verið fyrir okkur heldur fyrir alla sem að málinu koma, starfsfólk og ekki síst þjónustuþega, þ.e. foreldra. Það hefði einnig verið mjög sterkt að taka saman minnisblað um þær hugmyndir og aðferðir sem voru prófaðar og gengu ekki upp. Og þær hugmyndir sem komu fram en voru ekki unnar lengra.

Til dæmis hefði verið gagnlegt að sjá útfærslur eins og þessar:

  • Hvaða leiðir vill starfsfólkið fara í styttingu? Það skiptir máli hvernig styttingin er, því styttingarmöguleikar eru nokkrir og
  • Hvað kosta skráningardagar yfir árið?
  • Hvað kostar að greiða fyrir stöðugildi starfsmanna sem kæmu inn þegar starfsfólk færi í styttingu.
  • Hvað kostar að kaupa styttinguna af þeim sem það kjósa?
  • Hvað kostar að fara aðrar leiðir í styttingu Þá er verið að hugsa um t.d. að taka heila daga, föstudaga og/eða mánudaga, klemmudaga og hafa lokað v. styttingar en þessar lokanir gætu róterað á milli leikskóla þannig að alltaf sé aðgangur að plássi, ef fólk þarf. Þetta er í anda þeirra hugmynda sem foreldraráð Krikaskóla kom með og Kópavogursbær sömuleiðis. Við erum vön þessu vinnulagi úr sumarleikskólanum.
  • Hefði bærinn verið tilbúinn að stíga inn í og greiða ákveðinn hluta styttingar? Eins og Akureyrarbær er að gera.
  • Hvaða leiðir getur verið samræmdar, það er hvað getur sveitarfélagið lagt fram og á móti foreldrum. Auðveldlega mál líta til Kópavogsbæjar í þeim efnum.

Á fundi fræðslunefndar kom fram að þessi tillaga væri ekki fullmótuð og úthugsuð.

Ekki fengust svör við því hvað yrði gert ef foreldrar myndu láta börnin sín klára skóladaginn. Það fengust heldur ekki svör við því hvert plan B væri – svörin voru á þá leið að tillagan væri þá fallin og yrði að hugsa um annað.

Þegar maður er að leiða starf, hvort sem það er á okkar vettvangi, stjórnsýslu, sem íþróttaþjálfari eða úti í skólunum að þá verðum við að hugsa 2-3 leiki fram í tímann. Þessi tillaga hefði aldrei átt að fara út úr Kjarna fyrr en hún var að fullu skipulögð og allir þræðir tilbúnir. Ég er því hjartanlega sammála bókun Sjálfstæðismanna frá seinni fundi fræðslunefndar þar sem athugasemd var gerð við málsmeðferðina.

Kostnaðarliður verkefnisins var á reiki. Á fundi fræðslunefndar var sagt að þetta kostaði 10 milljónir, en á fundi bæjarráðs var talan 25 milljónir nefnd sem kostnaður á ársbasis. Ef að við erum tilbúin að setja fjármagn í verkefni sem á ekki að innifela kostnað, þurfum við að skoða allar aðrar færar leiðir, til samanburðar.

Bæjarstjórn er æðsta ákvörðunarvald sveitarfélagsins og þangað fara allar ákvarðanir til staðfestingar. Þessi tillaga sem hér er til umræðu er þar ekki undanskilin. Tillagan kemst því ekki til framkvæmda fyrr en bæjastjórn hefur samþykkt hana.  Að morgni þess dags sem bæjarstjórnarfundur fór fram birtist frétt á facebooksíðu Mosfellsbæjar um þá ákvörðun bæjarráðs að taka upp skráningardaga á leikskólum, að auki fengu foreldrar tölvupósta frá leikskólastjórum barna sinna um sama efni og þar kom hvergi fram að leikskólastjórar hefðu val um að fara þessa leið. Þetta gerist áður en tillagan er endanlega samþykkt í bæjarstjórn.

Akureyrarbær

Á fundi fræðslunefndar var ítrekað bent á að Akureyrarbær væri að fara sömu leið, án þess þó að það væri útskýrt nánar og því fór ég í smá rannsóknarvinnu. Þegar skóladagatöl leikskóla Akureyrarbæjar eru skoðuð kemur í ljós að á komandi skólaári eru 25 heilir skráningardagar fyrirhugaðir. Akureyrarbær tók jafnframt þá miðlægu ákvörðun að allir starfsmenn fengju fulla styttingu, en það var gert, að mér skilst, til að mæta mismunandi stéttarfélögum og einfalda vinnuna á leikskólum. Sveitarfélagið greiðir jafnframt hlut í 65 mínútna styttingu sem er í kjarasamningum, sem væri hægt að nýta til að fá inn afleysinga fólk, svo dæmi sé tekið.

Hvað viljum við?

Þegar okkar verkefni er skoðað með hliðsjón af leið Akureyrarbæjar vakna enn fleiri spurningar. Skráningardagar á komandi vetri verða 15. Það eru þrjár vikur sem foreldrar taka að sér til viðbótar við 4 vikna sumarfrí. Við þurfum að taka mönnunarvanda með í reikninginn. Mjög auðveldlega geta 2 vikur bæst við þar. Þá erum við að tala um 9 vikur yfir árið  sem foreldar þyrftu að bakka upp starfið á leikskólunum.

Einnig þarf að ræða það hvort eðlilegt og rétt sé að foreldrar standi einir að allri skerðingu á þjónustu við leikskólabörn. Hér eru dæmi um það sem foreldrar sögðu þegar þeir fréttu af þessu nýja verkefni:

  • eiga foreldrar að taka einir á móti styttingu vinnuvikunnar á leikskólum?
  • hvernig á ég að geta stundað fulla vinnu með börn á leikskóla ef þetta er niðurstaðan?
  • Það eiga ekki allir gott bakland.
  • Ég næ ekki að uppfylla mína vinnuskyldu.

Á þessi sjónarmið þarf að hlusta.

Við þurfum að hafa í huga að foreldrar leikskólabarna er yfirleitt ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu með tilheyrandi stressi og álagi. Að auki verður að taka það með í reikninginn að ekki eiga allir foreldrar sama rétt til styttri vinnutíma og getur stytting foreldra verið með allt öðrum hætti en sú tillaga sem hér er til umræðu. Og í þriðja lagi er bakland foreldra misjafnt.

Vandi leikskólanna

Einnig þarf að ræða þann vanda og þá erfiðu stöðu sem leikskólarnir okkar eru komnir í. Þar er einkum þrennt sem er mest aðkallandi –  styttri vinnutími, mönnunarvandi og lengra sumarfrí starfsmanna. Sumarfrí starfsmanna hefur alltaf verið lengra en sumarlokun, en með nýlegum kjarasamningum eiga flestir starfsmenn 30 daga orlofsrétt. Það er 10 daga umfram sumarlokun og það hefur flækt málin. Hinir tveir þræðirnir, styttri vinnutími og mönnunarvandi eru nýrri verkefni.   Þessir þrír þræðir haldast í hendur og ég tel ekki skynsamt að kippa í einn þráðinn, því þá þenjast hinir. Við erum ekki að leysa mönnunarvanda með þessari tillögu.

Stöldrum við

Nú verðum við að staldra við. Við erum með frábært fólk í vinnu, við viljum bjóða börnunum upp á faglegt og gott skólastarf og við viljum bjóða upp á eftirsóknarverða vinnustaði. En aðstæðurnar sem ríkja í þessum málaflokki í dag krefjast þess að við setjumst niður og endurhugsum starfið. Það gerum við með samtali fagfólksins, fulltrúa stjórnsýslunnar, kjörinna fulltrúa og foreldra.

 

Tillaga Vina Mosfellsbæjar

Á fundi bæjarstjórnar 21.júní sl. lagði undirrituð fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar leggur til að farið verið heildstætt yfir stöðu leikskóla í bænum. Verkefni leikskólastigins eru mörg og krefjandi og í lausninni felst að endurhugsa þarf starfið og skipulagið. Yfir þessi verkefni þarf að leggjast og koma með tillögur að heildrænni lausn og er lagt til að það sé gert með myndun starfshóps.

Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna.  Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.

Ég tel að breytingar sem þessar þurfi að ræða vel og ítarlega innan stjórnsýslunnar, meðal kjörinna fulltrúa, starfsfólks og ekki síst við foreldra því þetta er mikil breyting frá því sem fólk þekkir í starfi leikskóla.

Að mínu mati væri eðlilegt að sveitarfélagið komi til móts við þessi nýju verkefni, eins og mögulegt er.

Skemmst er frá því að segja að meirihlutinn felldi tillöguna með þeim orðum að þetta starf væri þegar hafið. Miðvikudaginn 28.júní samþykkti bæjarstjórn Kópavogs tillögu starfshóps sem hafði gert nákvæmlega það sama og ég lagði til að yrði gert. En helstu markmið þessa starfshópsins voru að skapa meiri stöðugleika og vellíðan í leikskólum, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta. Mér þykir afgreiðsla meirihlutans í Mosfellsbæ miður, því þetta samtal er algerlega nauðsynlegt.

 

Að lokum

Við verðum að hafa það í huga að leikskólaforeldrar hafa allt síðastliðið ár verið í þeirri stöðu að sækja börnin sína vegna manneklu, þau hafa staðið af sér fjögurra vikna verkfall sem er fylgt eftir af fjögurra vikna sumarfríi og eiga svo að taka við skerðingu á þjónustu eftir kl 14 alla föstudag og í jóla og páskafríum á komandi vetri. Að auki má gera ráð fyrir manneklu og þá mun sú staða koma upp að loka þarf deildum og þá þarf að sækja börnin fyrr.

Starfsfólk leikskólanna á það skilið frá okkur að þeirra starfsumhverfi sé tekið til alvarlegrar endurskoðunar og að allt sé gert til að endurhugsa það. Við getum ekki boðið þeim upp á annan vetur sem einkennist af misvel mönnuðum starfsmannahópum og miklu álagi.

Þessir hópar eiga það skilið frá okkur sem störfum í umboði kjósenda að við vöndum okkur meira en gert er í þessu máli.

Þó vinnutímastyttingin sé leyst með þessum hætti eru enn aðrar áskoranir óræddar og allt helst þetta í hendur. Við verðum að endurhugsa og endurskapa leikskólastarf sem er faglegt, gott og eftirsóknarvert að vinna við.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

 

 

 

 

 

Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu. Sumir eru nú þegar komnir í frí og enn aðrir farnir að telja niður dagana af tilhlökkun.

Samvera mikilvæg
Lífsmynstur margra breytist á sumrin og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Hreyfing og útivist
Sumarið er svo sannarlega tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar, förum út að ganga með fjölskyldunni, hjólum, hlaupum, förum í golf, á línuskauta og/eða hjólabretti, búum til hreyfibingó – hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir. Þarna spilar félagsskapurinn að sjálfsögðu mikilvægt hlutverk auk hreyfingar og útivistar.

Munum eftir hollustunni
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, drekkum vatn, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæðahráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Sofum nóg
Þó að það verði gaman í sumar þá þurfum við að muna að svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Hann veitir okkur hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur og er því nauðsynlegur þáttur heilbrigðra lífshátta. Svefn styrkir jafnframt ónæmiskerfið og hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti okkar við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.
Tökum höndum saman kæru Mosfellingar og höldum áfram að byggja upp fyrirmyndar Heilsueflandi samfélag í bænum okkar með vellíðan allra íbúa að leiðarljósi. Þegar við leggjumst öll á árarnar getum við nefnilega gert alveg stórkostlega hluti. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hlégarður og menning í Mosó

Helga Jóhannesdóttir

Um síðustu áramót tók Mosfellsbær við rekstri Hlégarðs.
Hlégarður hefur verið lokaður undanfarin misseri vegna mikilla endurbóta innahúss og vegna takmarkana er tengdust Covid. Það er því ánægjulegt að framboð menningarviðburða hafi aukist í Hlégarði og víðar í Mosfellsbæ, jafnt og þétt undanfarin misseri.
Tillaga okkar um nýjan menningarviðburð, Menning í mars, var samþykkt og fór dagskrá tengd þeim viðburðum fram í mars síðastliðnum. Frumraunin tókst vel og gaman var að sjá hversu margir tóku þátt. Menning í mars er komin til að vera.
Nú styttist í 17. júní og þar á eftir bæjarhátíðina Í túninu heima en auk þessara viðburða er mikilvægt að vera einnig með smærri viðburði því áhugi Mosfellinga er svo sannarlega til staðar og tilefnin eru næg.
Fulltrúar D-listans vilja styðja við listsköpun og auka framboð menningar- og listviðburða í Mosfellsbæ og fagna því að ráðinn hafi verið viðburðastjóri Hlégarðs. Það er jákvætt og mun sú staða eflaust efla og auka framboð og fjölbreytni menningar- og listviðburða.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Nauðsynlegt er að halda áfram að hlúa að endurnýjun Hlégarðs og eru tækjakaup, hljóðkerfi, lýsing o.fl. hlutir sem þarf að klára sem fyrst svo húsið nýtist sem best og sem flestum.
Áform eru uppi hjá nýjum meirihluta að Mosfellsbær sjái um allan veitingarekstur og áfengissölu í Hlégarði í stað þess að fela rekstrar­aðila/viðburðastjóra þann rekstur eins og annan rekstur í húsinu. Með þeim fyrir­ætlunum má segja að bærinn sé kominn í samkeppni um veitinga- og áfengissölu. Það er mat fulltrúa D-listans í bæjarstjórn að lýðheilsubærinn Mosfellsbær eigi ekki sjálfur að standa í sölu á áfengi á viðburðum í Hlégarði.
Margt er fram undan í menningu og listum í Mosfellsbæ og mun Hlégarður gegna lykilhlutverki í mörgum af þeim viðburðum.
Við munum áfram styðja við endurnýjun og þróun Menningarhússins Hlégarðs á þessu kjörtímabili, Mosfellingum öllum til heilla.

Helga Jóhannesdóttir og Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúar D-lista

Niðurstaða stjórnsýslu- og rekstrarúttektar

Lovísa Jónsdóttir

Í árslok 2022 var ákveðið að gerð yrði stjórnsýslu- og rekstrarúttekt hjá Mosfellsbæ og voru allir bæjarfulltrúar sammála um að tímabært væri að fara í slíka úttekt. Það var ráðgjafafyrirtækið Strategía sem ráðið var til verksins og niðurstaðan lá fyrir í byrjun maí.
Í stuttu máli var niðurstaða úttektarinnar sú að mikil tækifæri eru til úrbóta í stjórnsýslu bæjarins svo unnt sé að þjónusta bæjarbúa enn betur og tryggja að vel sé farið með almannafé.
Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að nauðsynlegt er að fara í umbætur á fjármála- og áhættuferlum, þá þarf að gera umbætur í stefnumörkun, skipulagi og stjórnarháttum auk þess sem mælt er með umbótum til að ná markmiðum í stafrænni þjónustu.

Nýtt skipurit
Alls eru lagðar fram 74 umbótatillögur í skýrslunni og hvetjum við alla bæjarbúa til að kynna sér efni skýrslunnar en hana má nálgast í fundargerð bæjarráðs frá 17. maí og fundargerð bæjarstjórnar frá 24. maí.
Fyrsta tillagan sem unnin er á grundvelli þessarar úttektar hefur nú þegar verið lögð fram og samþykkt, þ.e. tillaga að nýju skipuriti.
Engum starfsmanni er sagt upp störfum í kjölfarið breytinganna en ljóst er að kostnaður vegna innleiðingar á breytingunum verður 27 milljónir króna á árinu 2023. Fyrst og fremst vegna ráðningar verkefnisstjóra í upplýsingatækni og vegna aukinna verkefna á fjármála- og áhættustýringarsviði. Á ársgrundvelli er gert ráð fyrir að um tvö stöðugildi sé að ræða og kostnaðurinn verði 35 milljónir kr.

Það er mat ráðgjafa Strategíu að talsverð tækifæri séu til sparnaðar á aðkeyptri þjónustu sem vegur þá upp á móti þeim kostnaðarauka sem liggur fyrir að felist í breytingunum.
Í fyrsta sinn í Mosfellsbæ er innri endurskoðun nú tilgreind sérstaklega í skipuriti og er það til bóta og í samræmi við nútímalegan rekstur sístækkandi sveitarfélags að þessu eftirliti sé tryggt skýrt hlutverk í skipuriti bæjarins.
Einnig er rétt að minnast á breytingu á fjármálasviði sem nú mun heita fjármál og áhættustýring. Í skýrslu Strategíu er fjallað um mikilvægi þess að bæjarfélagið setji sér skýra stefnu um fjármagnsskipan og áhættustefnu en hvorug er til staðar í dag.
Það er rauður þráður í gegnum skýrsluna að skýra þurfi hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnareininga og stjórnenda og er nýja skipuritið fyrsta skrefið í átt að þessu takmarki.
Eins og fram hefur komið þá eru margar umbótatillögur í skýrslunni og nú bíður það verkefni bæjarstjórnar og bæjarstjóra að meta og ákveða hvað af þessum umbótaverkefnum verður ráðist í til að bæta þjónustu bæjarins við íbúa.

Lovísa Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi Viðreisnar

Stjórnsýsla Mosfellsbæjar

Ásgeir Sveinsson

Í lok síðasta árs var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar að fara í stjórnsýsluútekt í Mosfellsbæ. Bæjarfulltrúar D-lista samþykktu tillöguna, en síðast var farið í úttekt á stjórnsýslu bæjarins árið 2014.
Þó svo að stjórnsýslan hafi þróast og tekið jákvæðum breytingum í gegnum árin þá er alltaf gott að fá utanaðkomandi aðila til þess að skoða hlutina, rýna til gagns og koma með nýjar hugmyndir með það að markmiði að bæta þjónustu og starfsemi bæjarins enn frekar.

Ráðgjafafyrirtækið Strategía var fengið til þess að vinna úttektina og í framhaldinu lagði bæjarstjóri fram viðamiklar breytingar á stjórnsýslu og skipuriti Mosfellsbæjar sem byggðar voru á skýrslu Strategíu. Bæjarfulltrúar D-lista komu ekki að gerð tillagna um skipulagsbreytingarnar og sátu hjá við afgreiðslu málsins meðal annars fyrir þær sakir. Breytingarnar eru sumar eðlilegar og margt jákvætt sem kemur fram, bæði í skýrslunni og tillögunum, en þar eru jafnframt ágallar sem við setjum fyrirvara við.
Það vekur einna helst athygli í samþykktum tillögum að það virðist eins og verið sé að innleiða skipurit Reykjavíkurborgar og færa skipulagseiningar í sama búning og gerist þar. Það er spurning hversu jákvætt það er fyrir Mosfellsbæ að færa stjórnsýsluna í átt til þess sem gert er í Reykjavík sérstaklega þegar kemur að fjármálum, stjórnun, skipulags- og starfsmannamálum.

Jana Katrín Knútsdóttir

Vonandi horfir nýr bæjarstjóri og meirihluti í Mosfellsbæ ekki of mikið til félaga sinna í Reykjavík þegar kemur að skipulagi og stjórnun í Mosfellsbæ.

Miklar og dýrar breytingar
Breytingatillögurnar sem lagðar voru fram af bæjarstjóra og meirihlutinn samþykkti eru viðamiklar og útgjöld vegna þeirra óljós, en öruggt er að kostnaðurinn verður hár.
Í tillögunum er t.d. gert ráð fyrir mikilli fjölgun starfsfólks og það skýtur skökku við í því efnahagsástandi sem nú ríkir að ætla að ráða þennan fjölda af nýju starfsfólki. Staðreyndin er sú að fram undan er niðurskurður á útgjöldum bæjarins sem felur jafnvel í sér frestun framkvæmda. Við þær aðstæður er stórfelld fjölgun starfsfólks ekki ákjósanleg.
Það hvort þær breytingar sem nú hafa verið innleiddar séu til þess fallnar að bæta þjónustuna, verklag, samhæfingu og starfsumhverfi starfsfólks Mosfellsbæjar mun tíminn einn svo leiða í ljós.

Hver er tilgangur með breyt­­­­i­ngum?
Samkvæmt skýrslunni er breytingatillögunum ætlað að endurspegla áherslur sem koma fram í málefnasamningi meirihlutans. Þetta er tiltekið á a.m.k. fjórum stöðum í skýrslu Stategíu sem og í kynningum og tillögunum byggðum á henni.
Við bæjarfulltrúar D-lista teljum að breytingar í stjórnsýslu og á skipuriti bæjarins eigi fyrst og fremst að snúast um að hámarka gæði, hagkvæmni og skilvirkni þjónustu fyrir alla bæjarbúa, en eigi ekki að snúast um málefnasamning meirihlutans, því meirihlutar koma og fara.
Markmið síðasta meirihluta D- og V-lista í Mosfellsbæ var að sýna ábyrgð í rekstri bæjarins, fara vel með skattfé og halda álögum á íbúa eins lágum og kostur var. Það eru leiðarljós sem nýr meirihluti virðist ekki ætla að viðhalda á sinni vakt, eins og bæjarbúar hafa nú þegar fengið að finna fyrir í gríðarlegum hækkunum fasteignagjalda og hækkun á útsvari.
Áhersla okkar bæjarfulltrúa D-lista í bæjarstjórn er að íbúar Mosfellsbæjar fái áfram eins góða þjónustu og hægt er þannig að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ.
Við þurfum að muna eftir að halda í gildi Mosfellsbæjar sem hér hafa verið höfð að leiðarljósi; virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.

Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúar D-lista.

Óvissu eytt um rekstur Skálatúns

Halla Karen Kristjánsdóttir

Á dögunum voru undirritaðir samningar varðandi framtíðaráform á Skálatúni.
Samningarnir marka tímamót bæði fyrir rekstur heimilisins sem þar hefur verið rekið í áratugi en einnig fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Mosfellsbær mun nú taka við rekstri Skálatúns. Það þýðir meðal annars að starfsfólk Skálatúns verður framvegis hluti af starfsliði Mosfellsbæjar. Samningarnir tryggja að íbúar Skálatúns geti áfram búið þar en mörg þeirra hafa haft búsetu á Skálatúni frá barnæsku. Þar með er búið að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um rekstur heimilisins um nokkurt skeið.
Um er að ræða talsvert flókna samninga þar sem margir koma að. Á síðustu árum hafa verið gerðar nokkrar atlögur að því að leysa málin sem snúast bæði um erfitt rekstrarumhverfi í málaflokki fatlaðs fólks en einnig um áratugalanga sögu heimilisins að Skálatúni.
Það er því mikill léttir fyrir alla hlutaðeigandi að komin sé niðurstaða í málið. Að okkar mati eiga allir sem komu að þessum samningum miklar þakkir skilið og það var lykilatriði að bæjarstjórnin stæði einhuga á bakvið samningana.

Aldís Stefánsdóttir

En þó langar okkur að nefna sérstaklega framlag mennta- og barnamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar sem leiddu þessa vinnu af mikilli hugsjón og auðmýkt gagnvart öllum hlutaðeigandi.

Verkefni án hliðstæðu
Varðandi framtíðaráform á svæðinu þá var einnig skrifað undir viljayfirlýsingu milli Mosfellsbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytis um uppbyggingu á starfsemi á svæðinu sem verður í þágu barna og ungmenna.
Þetta þýðir að á Skálatúnsreitnum er ætlunin að byggja upp aðstöðu fyrir stofnanir og samtök sem vinna í þágu barna, svokallaða Barnadeiglu. Þetta er uppbyggingarverkefni án hliðstæðu hér í Mosfellsbæ. Um er að ræða sérstakan þjónustukjarna sem á að halda utan um þær stofnanir sem koma að þjónustu við börn af öllu landinu.

Fjöldi starfa flyst í Mosfellsbæ
Hugmyndin er að skapa aðstöðu sem er til þess fallin að efla samstarf og auðvelda aðgengi með því að hafa alla þessa þjónustu á einum stað. Þetta mun hafa í för með sér gríðarlega atvinnuuppbyggingu í Mosfellsbæ og fjölda starfa sem mun flytjast í bæinn.

Sævar Birgisson

Orð eru til alls fyrst og það er mikilvægt að vera með framtíðarsýn og metnaðarfull áform fyrir bæinn okkar. Hvort sem um er að ræða atvinnuuppbyggingu eða þjónustu við fatlað fólk. Í framhaldi af þessum ákvörðunum er mikilvægt að halda áfram að vanda sig og hafa hagsmuni íbúanna að leiðarljósi við þessar breytingar. En við erum vongóð um að uppbygging sé fram undan enda býður þetta landsvæði upp á mikil tækifæri til þess að búa til magnaða umgjörð sem snýr að því að auka samtal og samvinnu þvert á kerfi og stofnanir í þágu barna og ungmenna á landinu öllu.

Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.
Bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ.

Örvar

 

Fjölbreyttir búsetukostir í Mosfellsbæ

Anna Sigríður Guðnadóttir

Því miður hefur Mosfellsbær ekki staðið sig sem skyldi hvað varðar uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk á liðnum árum.
Þegar núverandi meirihluti tók við fyrir einu ári síðan var einn búsetukjarni á áætlun, þ.e. búsetukjarni sem Þroskahjálp mun reisa í 5. áfanga Helgafellshverfis og Mosfellsbær síðan reka. Engir aðrir búsetukjarnar voru á áætlun.
Þegar horft er til þess að gera áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fram í tímann er auðvitað nærtækast að horfa til þess fjölda ungra fatlaðra einstaklinga sem þegar býr í sveitarfélaginu og mun, þegar fram líða stundir, að sjálfsögðu þurfa stað til að búa á. Stað þar sem þau fá þjónustu og njóta þess öryggis og sjálfstæðis sem þeim ber.
Í meirihlutasamkomulagi B, S og C lista kemur fram að unnið skuli að áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og er undirbúningur þeirrar vinnu þegar hafinn.

Ólafur Ingi Óskarsson

Fjölbreytt byggð
Eitt af mikilvægum verkefnum bæjarstjórnar er að móta sýn um framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins, til lengri og skemmri tíma. Það er sýn okkar og meirihlutans að við uppbyggingu hverfa skuli horft til þess að byggt sé íbúðarhúsnæði sem svarar þörfum sem flestra samfélagshópa. Við deilum þeirri skoðun að til að byggja farsælt samfélag þurfi að gera ráð fyrir að pláss sé fyrir okkur öll.
Eins og margir vita þá er stærstur hluti byggingarlands sem skilgreint er í aðalskipulagi í eigu einkaaðila en ekki Mosfellsbæjar. Sú staðreynd getur flækt uppbyggingaráform bæjarstjórnar á hverjum tíma. Gera þarf uppbyggingarsamninga við handhafa þess lands sem um ræðir t.d. um uppbyggingu innviða eins og skóla og leikskóla en einnig um samsetningu íbúðarkosta, þ.e. hvort ráð sé gert fyrir fjölbreyttum búsetukostum.
Athyglisvert er að í samningum um uppbyggingu Blikastaða, sem gerðir voru undir lok síðasta kjörtímabils, eru fjölbreyttir búsetukostir fyrir mismunandi þjóðfélagshópa ekki meðal ákvæða.

Carlsberg ákvæðið
Í Danmörku var árið 2015 sett nýtt ákvæði inn í skipulagslög sem stuðla átti að blandaðri byggð í landinu. Ákvæðið gengur út á að heimila sveitarfélögum að setja inn kvaðir um fjölbreytta íbúðarkosti á uppbyggingarsvæðum. Umrætt ákvæði gengur undir heitinu Carlsberg ákvæðið og hefur reynst vel.
Hérlendis hefur verið til umfjöllunar sams konar breyting í tengslum við rammasamning innviðaráðuneytis fyrir hönd ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðisuppbyggingu frá sumrinu 2022. Lagaákvæðið myndi heimila sveitarfélögum að gera kröfu um að allt að 25% byggingarmagns innan deiliskipulagssvæðis skuli vera fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir eða aðrar íbúðir sem njóta fjárhagslegs stuðnings ríkis og/eða sveitarfélaga.
Innleiðing slíks ákvæðis myndi til lengri tíma litið auka fjölbreytni á fasteignamarkaði og tryggja fleirum húsaskjól og húsnæðisöryggi. Því miður er ekki að sjá að umrætt lagaákvæði verði afgreitt á yfirstandandi þingi en þá má vona að það verði tekið upp á Alþingi í haust.
Hvort sem ofangreind lagabreyting gengur í gegn á Alþingi eða ekki bíður það meirihlutans sem nú situr í Mosfellsbæ að ganga frá aðgerðaáætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og að sjá til þess að við skipulag byggðar verði alltaf gert ráð fyrir því að þar geti búið fólk úr flestum tekjuhópum og með mismunandi þjónustuþarfir á öllum æviskeiðum.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Ólafur Ingi Óskarsson, formaður velferðarnefndar

Stjórnsýsluúttekt og samvinna

Dagný Kristinsdóttir

Nú er rétt ár liðið af kjörtímabili bæjarstjórnar og eru mál farin að þokast áfram og ný að koma fram.
Eitt þeirra er úttekt á stjórnsýslu bæjarins en fleiri en einn flokkur hafði það á sinni stefnuskrá að slík úttekt færi fram. Það eru eðlileg og fagleg vinnubrögð að stokka spilin af og til, skoða hvernig hlutirnir eru gerðir og hvort ekki sé hægt að gera þá enn betur. Um það voru allir flokkar sammála enda var tillagan um stjórnsýsluúttekt samþykkt með 11 atkvæðum.
Mér fannst margt gagnlegt koma fram í úttekt Strategíu og mér fundust margar tillögur bæjarstjóra til stjórnkerfisbreytinga skynsamar. Ég segi bæjarstjóra, því hún lagði fram tillögurnar í nafni og krafti síns embættis en ekki meirihlutans, þó gera megi ráð fyrir að oddvitar hans hafi verið hafðir með í ráðum.

Þó að ég sé jákvæð fyrir mörgu sem fram kom þá hef ég staldrað við nokkur atriði.
Það fyrsta er samtalið. Niðurstöðum úttektarinnar var skilað inn í byrjun apríl. Minnihlutinn fékk niðurstöðurnar afhentar 3. maí kl. 17.02 en kynningarfundur með úttektarfyrirtækinu hafði verið boðaður 4. maí kl. 09.00. Síðari vinnufundur var boðaður 8. maí en engin gögn voru send fyrir þann fund, en á honum voru lagðar fram tillögur bæjarstjóra að skipulagsbreytingum. Málið var svo ekki rætt frekar fyrr en á fundi bæjarráðs 17. maí þar sem þær voru bornar upp til samþykktar og svo endanlega samþykktar á fundi bæjarstjórnar 24. maí síðastliðinn.
Þegar maður fær skjöl með stuttum fyrirvara er maður ekki fær um að spyrja spurninga vegna þess að það hefur ekki gefist tími til að lesa vel yfir gögn fyrir fund.

Ein spurningin sem ég hef er t.d. hvert er hlutverk og starfslýsing væntanlegs sviðsstjóra menningar, íþrótta og lýðheilsu, því við erum ekki með yfirgripsmikinn rekstur íþrótta- eða menningarmannvirkja og vísa í önnur sveitarfélög sem við berum okkur gjarnan saman við.
Ég myndi líka vilja spyrjast fyrir um tillögurnar 74 sem Strategía leggur fram. Á að fara eftir þeim í einu og öllu án frekari skoðunar, ígrundunar eða samtals. Hvaða tillögur eru góðar og henta okkur, hvaða tillögur henta ekki okkar kerfi o.s.frv.
Ég hefði líka viljað fá skýringar á heildarmynd og framtíðarsýninni. Hvert vill bæjarstjórinn og ekki síst meirihlutinn fara með breytingunum. Hvað viljum við fá út úr þeim og hverju eiga þær að skila okkur?
Engin heildaryfirsýn virðist vera til staðar um umfang þessara breytinga og hve mikið þær koma til með að kosta en þegar ákveðið er að fara í úttekt sem þessa liggur ljóst fyrir að það hafi einhvern kostnað í för með sér. Kostnaðurinn hleypur á einhverjum tugum milljóna króna en engin fjárhæð var áætluð í verkið á fjárhagsáætlun þessa árs.

Og að síðustu er það samráðið og samvinnan í þessu verkefni en við vorum öll sammála um að fara í það. Því hefði það verið faglega sterkt í samvinnu og ekki síst stjórnsýslulega að við stæðum öll að niðurstöðunni og tillögunum.
Í ljósi ummæla meirihlutans um breytt vinnubrögð hefði þetta verkefni verið tilvalið til að sýna öllum fram á það að nú séu nýir og breyttir tímar. Og það hefði verið hægt að gera með samtali, vinnufundum og sameiginlegri niðurstöðu allra kjörinna fulltrúa, því við vorum flest ef ekki öll sammála mörgu í úttektinni og hefðum getað talað okkur niður á lausn með stjórnkerfisbreytingar.
Þá hefði ég sem kjörinn fulltrúi ekki setið hjá við afgeiðslu málsins, heldur með gleði greitt breytingunum mitt atkvæði. Þá hefði bæjarstjórinn óskorað umboð allra bæjarfulltrúa til þessa verkefnis og meirihlutinn gæti sett fjöður í hatt sinn fyrir vel unnið verk.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi og oddviti Vina Mosfellsbæjar

Rekstrarniðurstaða ársins 2022

Ásgeir Sveinsson

Í ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 má vissulega sjá að rekstrarumhverfið undanfarið hefur ekki verið hagstætt.
Mosfellsbær býr þó vel að ábyrgri fjármálastjórn undanfarinna ára þar sem meðal annars voru teknar góðar ákvarðanir í hagstæðum lántökum sem greiddu upp önnur óhagstæðari lán og skuldbindingar sveitarfélagsins.
Fyrir heimsfaraldurinn lækkaði skuldahlutfall bæjarins því hratt þrátt fyrir stöðuga uppbyggingu í bænum og framkvæmdir upp á 2-3 milljarða á ári í formi nýframkvæmda og viðhaldsverkefna.
Í kjölfar þess tekjufalls sem fylgdi heimsfaraldrinum var tekin meðvituð og samhljóða ákvörðun af fyrrverandi bæjarstjórn, að halda áfram vinnu samkvæmt gildandi framkvæmdaáætlun við uppbyggingu innviða og endurnýjun og viðhald á fasteignum í eigu bæjarins. Þessi sama bæjarstjórn ákvað einnig að auka þjónustu við íbúa eins og áætlanir gerðu ráð fyrir en á undanförnum árum hefur meðal annars verið lögð áhersla á lækkun skatta og annarra gjalda á Mosfellinga.
Þetta voru góðar ákvarðanir í ljósi sögunnar og líklega grundvöllur þess að niðurstöður ánægjukannana sveitarfélaga hafa sýnt að ánægðustu íbúarnir búa einmitt hér í okkar góða bæ.

Jana Katrín Knútsdóttir

Tekjur Mosfellsbæjar ársins 2022 voru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Kostnaður við framkvæmdir var í takt við áætlanir, þrátt fyrir að dýrar framkvæmdir við Kvíslarskóla hafi komið óvænt til á árinu.
Öðrum framkvæmdum var frestað af meirihlutanum, meðal annars framkvæmdum í uppbyggingu að Varmá og á nýjum leikskóla í Helgafellshverfi. Þessar frestanir gera það að verkum að kostnaður við framkvæmdir var innan áætlana á árinu 2022. Kostnaður við nýframkvæmdir hefur síðan hækkað verulega og allar líkur á enn meiri kostnaði fyrir sveitarfélagið þegar þær loks hefjast.

Há verðbólga og mikil hækkun vaxta útskýrir það að útkoma síðasta árs er lakari hjá Mosfellsbæ en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna aukins fjármagnskostnaðar.
Þetta er vonandi tímabundið ástand sem Mosfellsbær ætti að þola ef rétt verður haldið á málum hvað varðar fjármálastjórn næstu misserin og árin.

Hærri tekjur og skattahækkanir

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Tekjur bæjarins munu áfram vera hærri en gert er ráð fyrir í áætlunum, bæði vegna hækkunar á útsvari og á fasteignasköttum – á íbúða- og atvinnuhúsnæði, en líklega ekki síður vegna vanáætlaðra tekna af lóðaúthlutunum.
Tekjuhliðin og reksturinn ættu því að halda áfram að vera góð en í því óvissuástandi sem nú ríkir reynir mjög á rekstrarhæfni meirihlutans í að beita aðhaldi í rekstri og mögulega breyta framkvæmdaáætlunum ef verðbólga og háir vextir dragast á langinn eins og teikn eru á lofti um. Þá er mikilvægt að meirihlutinn sé skilvirkur í verkum sínum, hafi þor til að taka erfiðar ákvarðanir og nái saman um forgangsröðun í mögulegum niðurskurði á framkvæmdum, þjónustu og starfsmannahaldi.

Íbúum í Mosfellsbæ mun halda áfram að fjölga en traustur rekstur undanfarinna ára og sterk fjárhagsstaða, þrátt fyrir tímabundin ytri áföll, eiga að gera bæjarfélaginu kleift að veita íbúum Mosfellsbæjar áfram framúrskarandi þjónustu sem stöðugt hefur verið að aukast undanfarin ár og mun vonandi gera áfram.
Bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munu sem fyrr styðja góðar tillögur meirihlutans og hvetja þau

Helga Jóhannesdóttir

áfram til góðra verka, en mun vissulega halda áfram að koma sínum tillögum og stefnumálum á framfæri svo áfram verði best að búa í Mosó.

Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir

Verum stórhuga í menningarmálum

Kristján Erling Jónsson

Sögukvöldið í Hlégarði þann 30. mars síðastliðinn fór fram úr okkar björtustu vonum, sjálfur var ég þó sannfærður um að við gætum fyllt Hlégarð af Mosfellingum ef við hefðum eitthvað áhugavert fram að færa.
Saga Mosfellsveitar er stórmerkileg og við bæjarbúar ættum öll að vera henni kunnug. Mikið af heimildum eru til staðar bæði í Héraðsskjalasafninu sem og á heimilum fólks í bænum.
Því langar mig að benda bæjarbúum sem eiga myndir eða muni frá gamalli tíð að hafa samband við Birnu Mjöll á Héraðsskjalasafninu og hún kemur því í örugga geymslu.
Umtalsefnið þetta kvöld var heita vatnið og ylræktin og annað sem því tengist, þetta er aðeins smá brot af sögunni okkar. Hægt væri að halda mörg svona kvöld næstu árin til að rekja hana og er ekki ólíklegt að það verði gert.
Í Hlégarði þetta kvöld var húsfyllir en ríflega 200 manns mættu til að hlýða á erindin. Það telst vera vel sótt en samt sem áður er þetta aðeins um 1,5% bæjarbúa.
Þegar Hlégarður var vígður 17. mars árið 1951 voru sveitungar um 500 manns og ber bygging hússins því gott merki hvað menn voru stórhuga í þá daga. Talið er að á opnunarhátíðina hafi 400-500 manns mætt. Væri ekki draumurinn að geta verið með viðburði í bænum sem myndi hýsa stærri hluta bæjarbúa, kannski 10% eða um 1.400 manns?
Svæðið í kringum Hlégarð býður upp á allskonar möguleika til stækkunar og hafa þegar komið fram hugmyndir frá Vinum Mosfellsbæjar þess efnis.
Ég, sem áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í menningar- og lýðræðisnefnd, vil áfram leggja mitt af mörkum til framgangs menningarmála í bænum okkar og vil að við hugsum stórt þegar kemur að því að skipuleggja framtíðina.

Kristján Erling Jónsson
Vinur Mosfellsbæjar

Mannleg samskipti fram yfir símana

Halla Heimis

Þetta er setning sem ég nota í kennslu hjá mér, oftast virða þau það og við tölum um hversu mikilvægt það er að geta hlustað á hvert annað og hvílt símana á meðan.
Það þarf ekki að segja það hér að „síminn getur eitrað sálina“ við vitum það öll. Við vitum að þetta tæki hefur áhrif á kvíða, einmanaleika og hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, ekki bara barna og unglinga heldur einnig fullorðins fólk.

Nemendur okkar í FMOS eru hluti þeirrar kynslóðar sem hefur alist upp við símanotkun og það að taka upp síma og hringja til að panta tíma í klippingu eða pizzu, hvað þá að mæta á staðinn til að sækja um vinnu er mjög mikið vandamál hjá mörgum og það er áhyggjuefni.
Við viljum að nemendur okkar tali saman í frímínútum og höfum við því aukið afþreyingu fyrir þá. Hvað höfum við gert? Við keyptum körfuboltaspjald, körfubolta og fótbolta í skotið okkar, við límdum „gamaldags“ borðspil á nokkur borð í anddyrinu, taflborð, badmintonspaða og borðtennisborð.
Er þetta að bera árangur? Já, heldur betur! Það er mjög góð tilfinning þegar gengið er um skólann að sjá borðin þéttsetin af nemendum sem eru búnir að búa til alls kyns nýjar reglur í lúdó og slönguspili, hugsandi nemendur við taflborðin, mikla keppni í borðtennis, keppni í að halda flugunni á lofti í badminton og aðrir að fá sér súrefni og spila körfubolta. Þetta gerir það að verkum að skólabragurinn verður annar og maður heyrir hlátur og samtöl í staðinn fyrir þögnina.
Við fullorðna fólkið þurfum að vera fyrirmyndir og auka afþreyingu sem hvetur til samskipta og á meðan er síminn í hvíld.

Halla Heimis.
íþrótta- og lýðheilsufræðingur hjá FMOS

FMOS: Alltaf á tánum

Björk Margrétardóttir

Í FMOS leggjum við metnað í að þróa kennsluhætti og námsefni reglulega. Námið í FMOS er verkefnamiðað leiðsagnarnám, sem þýðir að nemendur fá leiðsögn eftir hvert verkefni og hluti af námi nemenda felst í því að tileinka sér leiðsögnina, sem leiðir þá áfram skref fyrir skref í átt að framförum (e. feed forward).
Til að leiðsagnarnám sé árangursríkt er nauðsynlegt að virðing og traust ríki á milli nemenda og kennara. Við í FMOS lítum á góð samskipti við nemendur sem órjúfanlegan hluta af leiðsagnarnáminu og leggjum mikla áherslu á umræður og samtal á milli kennara og nemenda.

Starfendarannsókn
Á haustönn 2022 unnu enskukennararnir Björk og Helena María, ásamt Þorbjörgu Lilju íslenskukennara, að starfendarannsókn sem bar heitið Leiðsagnarnám og markviss úrvinnsla nemenda. Tilgangur

Helena María
Smáradóttir

rannsóknarinnar var að skoða hvernig nemendur í þriðja þreps áföngum nýttu leiðsögn frá kennara til að taka framförum í ensku og íslensku. Í rannsókninni var lögð áhersla á aukið samtal á milli kennara og nemenda, munnlega og skriflega úrvinnslu leiðsagnar og nemendur látnir halda ferilmöppu.

Framkvæmdin
Kennari og nemendur hittust þrisvar sinnum yfir önnina í einstaklingsviðtölum þar sem rætt var heildstætt um námsframvindu hvers og eins nemanda, styrkleika hans og hvar væri sóknarfæri. Lagt var upp með heiðarleg og hvetjandi samskipti. Jafnframt voru nemendur beðnir um að leggja mat á hversu vel leiðsögn nýttist þeim og hvers konar leiðsögn skilaði sér best til þeirra.
Lögð var áhersla á að setja leiðsögnina fram á sem fjölbreyttastan máta, þ.e. skriflega, munnlega, í upptökum, í myndböndum, með aðstoð gervigreindarforrita og síðast en ekki síst í samtölum. Lögð var fyrir könnun í lok áfanganna þar sem nemendur áttu að meta gagnsemi hverrar leiðsagnarleiðar fyrir sig.

Þorbjörg Lilja Þórsdóttir

Niðurstaðan
Niðurstaðan var áhugaverð en í ljós kom að nemendur vildu fá hnitmiðaðar skriflegar umsagnir þegar gæði verkefna þeirra voru mikil og leiðsögnin því eðli málsins samkvæmt stutt. Þegar um heimildaverkefni var að ræða þótti nemendum gagnlegt að fá send stutt myndbönd þar sem kennarinn notaði forritið Turnitin til að leiða nemendur áfram varðandi næstu skref í heimildavinnunni.
Öllum þóttu einstaklingsviðtölin afar gagnleg – bæði nemendum og ekki síður kennurunum, sem fannst viðtölin gefa aukið tækifæri til að sníða nálgun verkefna í samráði við nemandann. Þar að auki fengum við kennararnir aukna innsýn inn í það hvers konar verkefni höfðuðu til nemenda og hvers vegna. Gagnsemi þessarar rannsóknar var gríðarmikil og höfum við nú þegar tekið mið af niðurstöðum úr könnunum til að bæta leiðsagnaraðferðir okkar. Þess má til gamans geta að litaglaðir kennararnir hafa jafnframt tileinkað sér litakóðaðar skriflegar leiðsagnir, nemendum til einföldunar.

Næstu skref …
Við erum hvergi nærri fullnuma í leiðsagnarnámsfræðunum en einsetjum okkur að fylgjast með nýjungum í fræðunum, sem og alhliða tækninýjungum sem geta nýst í námi.
Næsta áskorun okkar er að finna leið til að nýta okkur gervigreindarforrit til gagns og framfara. Sú vinna er þegar byrjuð hjá okkur í FMOS og við hlökkum til að takast á við það verkefni af virðingu og einlægum áhuga.

Björk Margrétardóttir, Helena María Smáradóttir og Þorbjörg Lilja Þórsdóttir.
Höfundar eru framhaldsskólakennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Korpa – gömul afbökun?

Guðjón Jensson

Í Morgunblaðinu þann 29.3.2023 er sagt frá undirbúningi að nýju hverfi syðst í landi Blikastaða. Þetta nýja hverfi er nefnt Korputún.
Mér þykir þetta heiti alveg ótækt enda mun ábyggilega vera til heppilegra örnefni í landi Blikastaða en að sækja það til Reykjavíkur.
Orðið Korpúlfsstaðaá og stytting í Korpu mun ábyggilega ekki vera gamalt í málinu, líklegast tengt umsvifum Thor Jensen á Korpúlfsstöðum. Úlfarsá hét áin fyrrum alveg frá upptökum í Hafravatni og til ósa þar sem hún rennur í Leiruvog. Áin á ekki að vera kennd við Korpúlfsstaði fremur en Blikastaði enda rennur hún síðasta spölinn á mörkum þessara gömlu bújarða.

Mér þótti ástæða til að skoða betur þetta mál. Fyrst kannaði ég örnefnaskrá Blikastaða sem Magnús Guðmundsson sagnfræðingur og skjalavörður tók saman fyrir rúmum 30 árum: nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/24867
Á síðu 7 í þessari örnefnaskrá segir að Emil Rokstad hafi fyrstur manna nefnt neðri hluta Úlfarsár Korpu og er Guðmundur Þorláksson (1894-1994) bóndi í Seljabrekku borinn fyrir þessum upplýsingum. Í gamallri grein í Tímanum 31.10.1969 segir Guðmundur: „nafnbreyting sem oft heyrist nú, er Korpa í stað Úlfarsá. Fyrir 40-50 árum var þetta nafn ekki til. Áin hét Úlfarsá eins og hún mun hafa heitið til forna. En í daglegu tali var hún oft kennd við suma bæina, sem áttu land að henni og þó einkum Korpúlfsstaði og Lambhaga. Kunnust mun hún hafa verið sem Korpúlfsstaðaá enda lá þjóðvegurinn yfir hana fram hjá Korpúlfsstöðum og fyrir landi þeirrar jarðar og Blikastaða, var laxveiðin mest og beztu stangveiðistaðirnir. Einnig má á það benda að land Korpúlfsstaða er lengst meðfram ánni, þeirra jarða sem að henni liggja. Þetta Korpunafn mun þannig til komið, að norskur maður, Emil Rokstad, hafði laxveiðina í ánni á leigu yfir langan tíma og af hans vörum heyrði ég Korpu nafnið fyrst, líklega þótt það þægilegra í framburði. Líka má vera að þetta hafi verið eins konar gælunafn hjá honum, því að hann tók miklu ástfóstri við ána og undi þar löngum.“
Heimild: timarit.is/files/64638401
Texti undirritaður GÞ sem er Guðmundur Þorláksson en var fæddur á Korpúlfsstöðum.
Ætli þurfi nánar að grennslast fyrir um þetta Korpu örnefni? Það er væntanlega ekki mikið eldra en aldargamalt. Guðmundur var mikill fróðleiksmaður og ritaði Jón M. Guðmundsson á Reykjum minningagrein um Guðmund látinn sem vert er að vísa til: timarit.is/files/58426187

Eigum við að láta styttingu á heiti Korpúlfsstaðaár/Úlfarsár ráða nafngift á heilu hverfi? Væri ekki nær að kenna það við eitthvað annað örnefni sem er nær eins og Hamrahlíð?

Hvað segja Mosfellingar?
Er bæjarstjórn Mosfellsbæjar með grein þessari hvött til að skoða betur þetta mál.

Staddur á Heilsuhælinu í Hveragerði
Guðjón Jensson tómstundablaðamaður
og eldri borgari – arnartangi43@gmail.com