Fjörumór

Guðjón Jensson

Þegar ég las jarðfræði í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld var lesin nýútkomið rit Þorleifs Einarssonar jarðfræðings sem bar það yfirlætislausa nafn Jarðfræði, saga bergs og lands.
Þetta rit heillaði mig og átti ég oft margar stundir með þessu merka riti löngu eftir að ég las á námsárunum mínum.

Á einum stað segir frá fyrirbærinu fjörumó og minnisstæð er mynd Sigurður Þórarinssonar af fjörumónum yst á Seltjarnarnesi móts við Gróttu. Fjörumó má rekast á nokkuð víða á Íslandi. Auk Seltjarnarness, má finna hann á Kjalarnesi, Akranesi, við Stokkseyri og á Höfn í Hornafirði.

Fjörumór er leifar mýra í landslagi sem sigið hefur vegna jarðskorpuhreyfinga á löngum tíma. Telur Þorleifur að Seltjarnarnes sem og land við innanverðan Faxaflóa hafi sigið um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum (Jarðfræði Þ.E. 1968, bls. 199).

Fyrir nokkru var ég á gangi um Leirutangann sem teygir sig fram í Leirvoginn. Á stórstraumsflóði verður hann lítil eyja og efst er þar varpstaður ýmissa fuglategunda eins og tjalds. Áður minnist ég þess að kría hafi orpið þar. Nú varð ég var við að eftir stórviðri af vestri fyrr í vetur hafði orðið töluverðar breytingar á tanganum. Nokkur fet af möl hafði skolast burt af vestanverðum tanganum, efnið flust að einhverju leyti ofar á tangann og þrengt að varpstöðvum fuglanna, lagt undir sig nokkra tugi fermetra af melgresi sem þarna vex og er gott skjól fyrir fuglalífið. Þarna á tanganum vestanverðum má sjá fjörumó eins og Þorleifur getur um í jarðfræðibók sinni. Hvet ég sem flesta Mosfellinga að leggja leið sína í fjöru og skoða þetta jarðfræðifyrirbæri.

Nú vil ég taka fram að jarðfræði er fyrst og fremst áhugamál mitt sem og annað sem heyrir náttúrufræðum til. Hefi ég reynt að lesa mig til sem mest og fylgjast vel með.

Fyrir þá sem þykir saga áhugaverð þá eru fornar leifar mannvirkja yst og vestast á Blikastaðanesinu. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður og forseti rannsakaði þetta umhverfi á sínum tíma. Birtist grein hans í Árbók fornleifafélagsins 1980 og má nálgast hana hér: https://timarit.is/files/68889713.
Því miður eru þessar minjar að verða eyðingunni að bráð og hverfa okkur sjónum ef ekkert verður að gert. Þarna hafa öldur sjávar skolað í burtu einhverjum metrum og verður það að teljast miður.
Ég hef bent umhverfisnefnd Mosfellsbæjar á þetta mál og vænti þess að það verði skoðað og tekin ákvörðun um hvernig unnt verði að bjarga því sem unnt er frá frekari eyðingu.

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ

Blikastaðabærinn – hvað verður um hann?

Kristján Erling Jónsson

Uppbygging á svæðinu kallar á yfirvegaða umræðu og virðingu fyrir þeirri starfsemi sem þar fer nú fram.
Nú liggur fyrir gríðarleg uppbygging á Blikastöðum sem mun móta samfélag okkar til framtíðar. Slíkar framkvæmdir kalla á yfirvegaða umræðu og gagnrýna hugsun, því sporin hræða. Í gegnum tíðina hafa skipulagsákvarðanir verið teknar sem hafa haft óafturkræf áhrif á bæjarmyndina. Við hljótum að spyrja: Var rétt ákvörðun á sínum tíma að byggja Kjarnann í þeirri mynd sem hann er í dag? Er blokkaklasinn í Þverholti miðbær Mosfellsbæjar? Og verða Blikastaðir hinn nýi miðbær?

Menningarstarf sem skiptir máli
Á gamla Blikastaðabænum fer nú fram merkileg og lífleg menningarstarfsemi. Þar hefur Fornvélafélagið & Ferguson-félagið haft aðstöðu í tólf ár. Félagið, sem telur um 330 félagsmenn, er áhugamannafélag um dráttarvélar og sögu landbúnaðarins. Starfsemin byggir á eldmóði og áhuga, og félagið rekur sig alfarið sjálft – án nokkurra opinberra styrkja.
Félagið sér um húsnæðið og umhverfi þess og heldur reglulega fundi með tugum þátttakenda, en hefur því miður enga fasta fundaraðstöðu og þarf því að leigja sal út í bæ fyrir hvern fund. Árlega stendur félagið fyrir opnum degi í maí þar sem starfsemin er kynnt og gestum gefst tækifæri til að skoða vélarnar og þiggja veitingar í boði félagsins og hafa þeir einnig verið virkir þátttakendur í „Í túninu heima“.
Margir félagsmenn eru eldri borgarar og er því mikil umferð af fólki á hverjum degi og mikið spáð, spjallað og spekúlerað og má því í raun segja að þetta sé félagsmiðstöð.

Byggjum á því sem er
Ég sé fyrir mér að á Blikastöðum verði til menningarsetur sem endurspeglar sögu bæjarins og þeirri öflugu starfsemi sem þar hefur verið og er enn í formi menningarstarfs. Þar væri kjörið að hýsa einnig annað menningarlegt og sögulegt efni, til dæmis hernámsafn Tryggva Blumenstein, veita Sögufélaginu aðstöðu og jafnvel færa starfsemi Héraðsskjalasafnsins þangað. Við gætum haft notalegt kaffihús og rými fyrir listamenn til að koma fram og sýna verk sín. Það er fullt tilefni til að ræða möguleikana á nýtingu gamla bæjarins með aðkomu bæjarbúa sem áhuga hafa á málefninu.
Það þarf ekki að finna upp hjólið – við eigum þegar frábæran grunn að menningarstarfsemi sem við ættum að vera stolt af. Byggjum ofan á það sem þegar hefur rætur, og styðjum það sem er að blómstra í bænum okkar.

Hagsmunir í ójafnvægi?
Það sem vekur áhyggjur er sú staðreynd að bankinn á bæði Blikastaði og landið þar í kring, og hefur ráðið talsmann til að kynna sínar hugmyndir og hafa áhrif á umræðuna. Bankinn hefur augljósa fjárhagslega hagsmuni af uppbyggingunni – enda snýst bankastarfsemi um að hámarka verðmæti fjárfestinga.
Mosfellsbær fer hins vegar með skipulagsvaldið. Þannig eru tveir aðilar með ólíka hagsmuni að stýra þessu verkefni. Fyrir mér minnir þetta svolítið á Davíð og Golíat. Þess vegna verðum við, kjörnir fulltrúar bæjarins, að standa í lappirnar, staldra við og tryggja að uppbyggingin sem framundan er sé í sátt við samfélagið og í samræmi við gildi bæjarins okkar.
Við eigum ekki að sætta okkur við uppbyggingu sem þóknast fyrst og fremst fjármagninu. Við eigum að krefjast þess að það sem byggt verður á Blikastöðum nýtist fólkinu í bænum – okkur öllum – og virði söguna, menninguna og samfélagið sem þar er nú þegar lifandi.
Munum það að saga Mosfellsbæjar er sérstök á landsvísu og er fullt tilefni til að koma henni á framfæri fyrir alla landsmenn sem og erlenda gesti.

Kristján Erling Jónsson
Vinur Mosfellsbæjar

Hvert fara skattpeningarnir þínir?

Aldís Stefánsdóttir

Þegar kjörnir fulltrúar fjalla um fjármál sveitarfélaga þá er mikilvægt að þeir geri það með þeim hætti að íbúar skilji stóru myndina.
Það er ósanngjarnt að taka út litla búta af púslinu sem sýna í raun bara það sem fólk vill sýna hverju sinni en lætur þann sem hlustar, eða les, um að geta sér til um hvernig heildarmyndin lítur út í raun og veru. Þannig verður umræðan ómarkviss og full af staðreyndavillum.
Að fjalla um rekstur sveitarfélags er í raun ekki alveg einfalt mál og kannski ekkert voðalega skemmtilegt heldur. En flest viljum við samt vita hvernig gengur og í hvað skattpeningarnir okkar fara.

Hvað má eyða miklu núna?
Þegar við veltum fyrir okkur hvað má eyða miklum peningum í heimilisbókhaldinu þá byrjum við á að skoða tekjurnar ekki satt? Á þessu ári eru áætlaðar tekjur Mosfellsbæjar í A hluta um 21.1 ma.
Af þessum tekjum fara um 11 milljarðar í laun og launatengd gjöld þegar tekið er tillit til nýlegra kjarasamninga. Annar rekstrarkostnaður nemur rúmum 10 milljörðum.
Má ekki alltaf gera betur?
Miðað við þetta umfang þá er nauðsynlegt að það fari fram reglulega skoðun á því hvort hægt sé að gera betur í rekstrinum. Við fjárhagsáætlunargerð ársins 2025 var lagt upp með að leitað yrði leiða við að hagræða um 200 milljónir. En það er um 1% af heildargjöldum. Hagræðingarkrafan var sett á allan rekstur bæjarins. Ekki bara á fræðslumál eða á grunnskólana. Í því felst engin gagnrýni á það sem gert hefur verið. Þetta er einfaldlega eðlileg krafa í rekstri. Sá meirihluti sem fer með stjórnartaumana að þessu sinni telur að stjórnendur stofnana séu vel til þess fallnir að koma með tillögur að því hvar má hagræða. Enda hafa nú þegar verið lagðar fram góðar tillögur sem hafa ekki afgerandi áhrif á reksturinn og fela ekki í sér fækkun stöðugilda né minna þjónustustig. Þær staðhæfingar að þessar hagræðingaraðgerðir séu skaðlegar skólastarfinu og feli í sér þjónustuskerðingu eru rangar.
Að stilla upp einni ákvörðun á móti annarri eins og forvarnarátakinu Börnin okkar og þeirri kröfu að grunnskólarnir okkar (sem velta um sex milljörðum króna) leiti leiða til hagræðingar um samtals 100 milljónir króna á þessu ári er í besta falli einföldun.
Umræðan á síðasta ári og undanfarnar vikur og mánuði um málaflokk barna. Aukningu á vímefnanotkun, ofbeldi, vopnaburði og vanlíðan barna verður að mæta með aðgerðum. Það teljum við okkur hafa gert með afgerandi hætti og erum sátt með þá ákvörðun.

Allar hugmyndir velkomnar
Eins og rakið hefur verið hér þá erum við að vinna með takmarkaða fjármuni. Það er nánast ógjörningur að sækja frekari tekjur þar sem það kæmi illa niður á heimilunum og það er ekki í samræmi við markmið hins opinbera um að lækka verðbólgu og vexti. Þannig verðum við að vinna með gjaldahliðina – þó að það sé einnig afskaplega vandmeðfarið þar sem sveitarfélög veita viðkvæma og mikilvæga nærþjónustu – lögbundna og ólögbundna. Við fetum því stíginn mjóa og reynum að taka góðar ákvarðanir í samstarfi við þau sem veita og þiggja þessa góðu þjónustu.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ og formaður fræðslunefndar

Með djörfung og dug – Mannkostamenntun í FMOS

Björk Margrétardóttir

Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ starfar samhentur hópur fólks að því markmiði að skapa lærdómssamfélag þar sem nemendur vaxa og þroskast jafnt sem námsmenn og manneskjur.
Hjarta námsins er því ekki síður lærdómsferlið en lokaafurðin en FMOS er verkefnamiðaður leiðsagnarnámsskóli og leggur áherslu á framfarir í námi og vaxtarhugarfar. Við erum sífellt að leita leiða til að gera námið í skólanum öflugra og í því augnamiði er hafin þróunarvinna á innleiðingu svokallaðrar mannkostamenntunnar (character education). Hugmyndafræðin sækir í brunn dygðasiðfræðinnar en rætur hennar má rekja allt aftur til gríska heimspekingsins Aristótelesar.
Í stuttu máli er kjarni mannkostamenntunar sá að nám þurfi að efla persónulegan og siðferðislegan þroska nemenda ekki síður en hæfni þeirra í hefðbundnum námsgreinum. Farsæld er því miðlægt hugtak í þessum fræðum – með því að þroska mannkosti á borð við hugrekki og virðingu erum við að lifa til góðs, bæði fyrir okkur sjálf og annað fólk.

Hrafnhildur Þórhallsdóttir

Lengi verið í farvatninu
Mannkostamenntunin hefur verið okkur í FMOS hugleikin um nokkurt skeið og í raun hófst vinnan við að innleiða hana í skólastarfið og skólabraginn fyrir mörgum árum.
Ferlið hófst með því að kennarar og stjórnendur sóttu alþjóðlegar ráðstefnur og heimsóttu erlenda skóla til að kynna sér nýjustu hugmyndir bandaríska fræðimannsins Charles Fadel, svokallað „Four-Dimensional Education“-líkan, sem sameinar þekkingu, hæfni og mannkostamenntun undir regnhlíf metacognition – eða hæfni til að hugsa um eigin hugsun.
Æ síðan hafa þessar hugmyndir litað skólastarfið og kveiktu neistann að því þróunarstarfi sem nú er hafið með aðkomu alls skólasamfélagsins.

Starfendarannsókn og stefnumótun
Á síðasta skólaári lögðu fjórir kennarar með ólíkan bakgrunn og sérhæfingu í leiðangur til að dýpka þekkingu sína og skilning á þessum fræðum.

Vibeke Svala Kristinsdóttir

Kennararnir skráðu sig í diplómanám í mannskostamenntun og fóru af stað með sameiginlega starfendarannsókn þar sem fjórar dygðir voru í brennidepli; hugrekki (siðferðisleg dygð), seigla (framkvæmdadygð), forvitni (vitsmunaleg dygð) og kurteisi/virðing (borgaraleg dygð). Sjónum var beint að hverri dygð fyrir sig í tvær til þrjár vikur, þar sem áherslan var bæði á að læra af fyrirmyndum (character caught) og vinnu með dygðina í skipulagðri kennslu í gegnum verkefni af ýmsu tagi (character taught).
Í framhaldinu voru hönnuð afar falleg veggspjöld fyrir hverja dygð sem nú skreyta veggi skólans. Hugmyndin var að með því að gera dygðirnar sýnilegar í skólaumhverfinu og í kennslunni sjálfri, yrði mannkostamenntunin hluti af daglegu lífi nemenda. Hvort sem þeir væru að ræða hugrekki í bókmenntum eða æfa forvitni í náttúruvísindum myndu þeir upplifa dygðirnar sem hluta af menntuninni, læra að þekkja þær og efla hugsun sína og meðvitund um þær.
Nú á haustdögum var svo blásið til þróunarvinnudags helguðum mannkostamenntun þar sem allt starfsfólk skólans kom að borðinu og ræddi næstu skref og framtíðarsýn skólans í þessari vegferð. Lykilatriði í þeirri þróunarvinnu sem nú er í gangi er að mannkostir séu sýnilegir í skólastarfinu öllu og samofnir bæði kennslu og skólabrag.
Verkefnið er um margt einstakt, ekki síst fyrir þær sakir að það hefur þróast í gegnum starfendarannsóknir kennara sem og samtal og samstarf milli nemenda og alls starfsfólks skólans.

Breyttir tímar, breytt nálgun
Það sem gerir mannkostamenntun í FMOS sérstaklega heillandi er að hún tekur á áskorunum nútímasamfélags með persónulegri nálgun. Hún veitir nemendum verkfæri til að takast á við lífið af hugrekki, sýna seiglu í erfiðum aðstæðum, virða aðra og rækta forvitnina; verkfæri sem eru nauðsynleg til að byggja upp farsælt líf.
Næstu skref í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru að endurskoða stefnu skólans með mannkostamenntun að leiðarljósi svo hún verði órjúfanlegur hluti alls skólastarfsins.

Björk Margrétardóttir,
Hrafnhildur Þórhallsdóttir
og Vibeke Svala Kristinsdóttir

Niðurskurður í grunnskólum Mosfellsbæjar 2025

Ásgeir Sveinsson

Þegar meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar lagði fram og samþykkti fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2025, bentum við, fulltrúar D-lista í bæjarstjórn á að það væru gul og jafnvel rauð blikkandi ljós í fjármálum bæjarins sem þyrfti að gefa gaum og bregðast við að okkar mati.
Við bentum á að annað árið í röð væru engar tillögur eða hugmyndir sem lægju fyrir um sparnað eða niðurskurð til að mæta auknum útgjöldum auk þess sem rekstur bæjarins væri ekki sjálfbær þar sem rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs fyrir árið 2025 væri áætluð neikvæð um 41 milljón.
Við spurðum fulltrúa meirihlutans hvort ekki ætti að bregðast við neikvæðri fjárhagsstöðu bæjarins, og svörin sem við fengum voru þau að kynna ætti sparnaðartillögur í byrjun árs 2025.

Átakið „Börnin okkar“
Þegar fjárhagsáætlunin var lögð fram í nóvember 2024 var átakið „Börnin okkar“ kynnt. Átak sem á að stuðla að velferð barna og unglinga í Mosfellsbæ og koma til móts við auknar áskoranir, en í því felast aðgerðir sem efla forvarnir, barnaverndarstarf og fleiri mál sem snúa meðal annars að starfi í skólum bæjarins.
Tilkynnt var að setja ætti 100 milljónir í verkefnið á þessu ári. Mikið hefur farið fyrir þessu verkefni og það vel kynnt í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af fulltrúum meirihlutans enda allir sammála um að þetta sé mjög þarft og jákvætt framtak.

Elín María Jónsdóttir

Við spurðum hvar ætti að taka þetta fjármagn og hvort skorið yrði niður í málefnum barna og unglinga á öðrum sviðum til að mæta þessum viðbótarkostnaði og svarið við því var að það ætti ekki að gera.

Skólarnir eiga að spara 100 mill­jónir á árinu 2025
Nú hefur meirihlutinn ákveðið að grunnskólar Mosfellsbæjar þurfi að spara allt að 100 milljónir á þessu ári.
Upphæðir eru misjafnar milli skóla en meðal upphæð er í kringum 20 milljónir á hvern skóla.
Þessi krafa um sparnað kemur mjög illa við rekstur skólanna sem glíma við stærri og flóknari áskoranir með hverju árinu. Til að ná þessum sparnaðarmarkmiðum er ljóst að skólarnir þurfa að skerða þjónustu og mögulega fækka stöðugildum.
Það vekur athygli okkar að þessar sparnaðarkröfur hafa hvorki verið kynntar í fræðslunefnd né í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, meirihlutinn hefur heldur ekki séð ástæðu til að kynna málið í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, eins og gert var þegar 100 milljónir voru settar í átakið „Börnin okkar“ fyrir þremur mánuðum.

„Börnin okkar“ í Mosó fengu og misstu
Þessar aðgerðir koma mjög á óvart miðað við tal fulltrúa meirihlutans um mikilvægi þess að auka fjármagn til barna og ungmenna.
Settar voru 100 milljónir í átakið „Börnin okkar“ og næsta skref meirihlutans þremur mánuðum seinna er að skipa skólum bæjarins að spara allt að 100 milljónir í ár í rekstri.Það lítur því þannig út að átakið „Börnin okkar“ eigi að fjármagna með sparnaði í skólum bæjarins. Það er slæm ákvörðun að okkar mati og ekki í samræmi við það sem var lagt upp með.

Þessi vinnubrögð meirihlutans eru til skaða fyrir skólasamfélagið í Mosfellsbæ sem má ekki við þessum niðurskurði.
Til viðbótar við þetta hefur bæjarstjóri lýst því yfir að skoða þurfi niðurskurð á þjónustu bæjarins til að geta mætt þeim kröfum sem nýgerður kjarasamningur kennara felur í sér.
Sá niðurskurður má ekki koma niður á skólum bæjarins.

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn og fræðslunefnd skora á meirihlutann að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurðarkröfu á skóla Mosfellsbæjar á þessu ári.

Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista og fulltrúi í fræðslunefnd
Elín María Jónsdóttir
fulltrúi í fræðslunefnd

Eir í þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar í 20 ár

Eybjörg H. Hauksdóttir

Eir hjúkrunarheimili hefur verið í samstarfið við Mosfellsbæ um þjónustu til íbúa sveitarfélagsins síðan þann 7. júlí 2005 en þá var undirritaður rammasamningur aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ.
Þá var sveitarfélagið talsvert minna, með lítilli þjónustumiðstöð að Hlaðhömrum auk um tuttugu íbúða fyrir aldraða. Síðan hefur þjónustumiðstöðin stækkað og þjónustuíbúðum fjölgað umtalsvert. Eir hefur jafnframt tekið við framkvæmd heimaþjónustu fyrir Mosfellsbæ, þ.á m. matarþjónustunni, sem og heimahjúkrun fyrir íbúa Eirhamra. Þá hefur bæst við dagþjálfun að Eirhömrum og heilt hjúkrunarheimili, Hamrar, sem er sambyggt þjónustumiðstöðinni.
Undanfarin misseri hefur svo Eir, í áframhaldandi góðu samstarfi við Mosfellsbæ, unnið að fjölgun dagþjálfunarrýma, stækkun hjúkrunarheimilisins og aukinni samþættri þjónustu til aldraðra í gegnum tilraunaverkefni stjórnvalda „Gott að eldast“.
Eir leggur mikið upp úr að veita faglega og góða þjónustu til íbúa Mosfellsbæjar, sem og annarra skjólstæðinga sinna. Gerðar eru þjónustukannanir með reglubundnum hætti og niðurstöður þeirra nýttar í úrbótavinnu innan starfseminnar. Enda er eðli þjónustustarfsemi þannig að alltaf þarf að halda sér á tánum og yfirleitt hægt að finna tækifæri til að gera betur.
Mosfellsbær framkvæmdi þjónustukönnun á meðal notenda heimaþjónustu Mosfellsbæjar árið 2024 og skilaði ítarlegri niðurstöðuskýrslu. Ánægjulegt var að sjá að 100% svarenda upplifa vingjarnlegt viðmót frá starfsfólkinu okkar sem sinnir félagslegu innliti og 99% starfsfólks sem sinnir þrifum. Þá sögðust 79% svarenda vera ánægðir með félagslegu innlitin, og enginn var óánægður (hlutlausir 21%). Einnig sögðu 100% svarenda heimsenda matinn lystugan og enginn var óánægður með matinn (hlutlausir 43%). Einnig komu fram góðar ábendingar, t.d. um að heimsendi maturinn bærist of snemma dags. Er verið að leita leiða til að koma til móts við það en mikil aukning hefur orðið á heimsendingu matar undanfarin ár.
Þó skýrslur séu nauðsynlegar, þá finnst mér sjálfri gott að heyra af og til beint frá fólkinu okkar. Í því skyni tók ég rölt um Hamra um daginn og spjallaði við nokkra íbúa sem ég hitti þar á göngunum. Á stuttum tíma náði ég spjalli við um fjórðung allra íbúa Hamra, enda lítið heimili. Ég spurði þá hvernig þeim liði og hvernig þeim þætti þjónustan vera hjá okkur. Allir sem ég hitti fullvissuðu mig um að þeir fengju nóg að borða hjá okkur, þætti maturinn almennt bragðgóður og að þeim liði mjög vel á Hömrum. Sem mér þótti mjög vænt um að heyra.
Við á Eir og Hömrum viljum gera vel í þjónustu við okkar skjólstæðinga en við erum auðvitað ekki gallalaus. Við erum mannleg og viljum vita af því þegar við getum gert betur.
Því hvetjum við fólk til að nota ábendingarhnappinn okkar á heimasíðunni okkar, www.eir.is til að koma á framfæri skilaboðum til okkar um það sem betur má fara.
Við erum ákaflega stolt af því góða samstarfi sem við höfum átt við Mosfellsbæ í gegnum árin og viljum þakka Mosfellingum fyrir samfylgdina síðastliðin 20 ár. Framtíðin er björt og við viljum gera okkar til að það verði alltaf gott að eldast í Mosfellsbæ.

Eybjörg H. Hauksdóttir, forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra
og Mosfellingur.

Fasteignagjöld í Mosfellsbæ

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fasteignagjöld eru reiknuð sem hluti af fasteignamati hverrar eignar. Fasteignamatið tekur mið af verðmati húss og lóðar og eru forsendur fasteignamats meðal annars flatarmál eignar, staðsetning, aldur og ástand eignar og tölfæðileg gögn um kaupsamninga. Árlega er fasteignamatið endurmetið.
Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á milli áranna 2023 og 2024 um 13,% og á milli áranna 2024 og 2025 um 2,1%. Hér er um meðal­tals­hækkun að ræða en hækkun fasteignamats sérbýla, fjölbýla og atvinnuhúsnæðis getur verið mjög ólík á milli ára meðal annars vegna framboðs og eftirspurnar eigna.
Fasteignaskattur, lóðaleiga, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva eru fasteignagjöld. Álagning fasteignagjalda er ákveðin af hverju sveitarfélagi og eru þau stór hluti tekna sveitarfélaga.

Fasteignaskattur á íbúarhúsnæði í Mosfellsbæ
Á höfuðborgarsvæðinu er Mosfellsbær meðal þeirra sveitarfélaga sem eru með hæstan fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði árið 2025. Að undanförnu hefur borið mikið af ábendingum og kvörtunum íbúa Mosfellsbæjar um hækkandi fasteignagjöld.
Umræðan hefur t.d. verið áberandi á íbúasíðum Mosfellsbæjar á facebook. Þessi umræða á rétt á sér því alger stefnubreyting hefur átt sér stað hvað varðar þennan skatt síðan nýr meirihluti tók við fyrir bráðum þremur árum

Helga Jóhannesdóttir

Raunhækkun fasteignaskatts staðreynd
Í tíð fyrri meirihluta var sú venja viðhöfð að fasteignaskattsprósenta var aðlöguð fyrir hækkun á fasteignamati og verðlagi þannig að aldrei yrði um raunhækkun fasteignaskatts að ræða miðað við þróun verðlags.
Þetta þýddi nær undantekningarlaust að við hverja fjárhagsáætlunargerð lækkuðu álagningahlutföll fasteignagjalda þar sem fasteignamatið hafði hækkað umfram verðlagsbreytingar.
Eftir að nýr meirihluti tók við árið 2022 hefur þessi venja verið aflögð. Strax við fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta fyrir árið 2023 varð veruleg raunhækkun fasteignagjalda í bænum.
Þetta þýddi að raunhækkun fasteignaskatts var milli 15 og 16% sem var gríðarlega mikið og stórt högg fyrir mosfellsk heimili. Síðan þá hefur þessi þróun haldið áfram og m.a. hækkaði álagningarhlutfall fasteignaskatt í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 með tilheyrandi raunhækkun fasteignagjalda meðan flest sveitarfélög lækkuðu hlutfallið.
Önnur gjöld hafa líka hækkað mikið og hefur t.d. sorpuhirðugjald og rekstur grenndar- og söfnunarstöðva hækkað um 73% frá árinu 2022. Til samanburðar hefur almennt verðlag hækkað um 30% á sama tímabili.

Samanburður við önnur sveitarfélög
Ef borin eru saman álagningarhlutföll fasteignaskatts sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur í ljós að Mosfellsbær er þar í hæstu hæðum, aðeins Hafnarfjörður hefur hærra álagningarhlutfall. Meira að segja Reykjavík hefur mun lægra hlutfall en Mosfellsbær.

Skattar eru pólitískar ákvarðanir
Breyting álagningarhlutfalla eins og fasteignagjalda eru pólitískar ákvarðanir þeirra sem eru við stjórnvölinn hverju sinni.
Meirihlutinn í Mosfellsbæ virðist standa fyrir hærri skattlagningu á íbúa meðan við sjálfstæðismenn hér í Mosfellsbæ stöndum hins vegar fyrir hið gagnstæða.
Ljóst má vera að aðferðafræði núverandi meirihluta við ákvörðun álagningahlutfalla fasteignagjalda er önnur en hún var í tíð fyrri meirihluta.

Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi

Úr sjoppunni í formannssæti VR

Halla Gunnarsdóttir

Nú þegar ég hef heimsótt fjölda vinnustaða í tengslum við kosningar til formanns VR hugsa ég oft til baka til sjoppuáranna í Snæland Vídeó í Mosó og um það hversu mikið afgreiðslustörf hafa breyst.
Í sjoppunni höfðum við ákveðið sjálfsforræði, við máttum lauma aðeins meira blandi í pokann, semja um skuldir fyrir spólur og gefa ísinn sem var óvart of linur. Þetta sjálfsforræði, ásamt óborganlegum vinnufélögum og frábærum viðskiptavinum, gerði vinnuna skemmtilega. Okkur fannst við eiga sjoppuna saman og vorum stolt af vinnunni okkar.
Þetta er mér mjög hugfast í dag þegar ég sæki heim vinnustaði ólíkra VR-félaga. Starfsánægja virðist nánast alltaf haldast í hendur við traust og forræði yfir sinni eigin vinnu, að ógleymdum sveigjanleikanum (sem við höfðum reyndar aldrei í sjoppunni, þar voru matar- og kaffitímar ekki einu sinni virtir).

Láttu konuna fá peninginn
Þau eru ýmis áföllin sem dynja yfir fólk á unglingsárunum. Ef litið er fram hjá því sem raunverulega teljast áföll í lífinu, þá er mér mjög minnisstætt það mikla sjokk sem ég fékk þegar ég var að afgreiða barn um bland í poka í Snæland Vídeó og móðir barnsins sagði hátt og snjallt: „Nú máttu láta konuna fá peninginn.“ Ég var fjórtán ára og alls engin kona! En ég tók við peningunum og sneri mér að næsta viðskiptavini sem vildi líka bland í poka fyrir afganginn.
Snæland Vídeó var miklu meira en bara sjoppa á þessum tíma. Snæland var sjoppan, með ákveðnum greini, og þangað lagði fólk leið sína til að leigja spólu, ná sér í bland fyrir skrall helgarinnar eða fá sér eina pulsu (tómatsósuna undir steikta laukinn takk). En fólk kom líka í sjoppuna sér til dægrastyttingar. Hópar ungs fólks komu þar saman og unglingar gerðu ítrekaðar tilraunir til að hanga inni í sjoppunni en þurftu að sætta sig við að safnast saman fyrir utan í staðinn.
Um helgar skapaðist oft mikil stemming á bílaplaninu og í eina skiptið sem ég hef komist í kast við lögin (fyrir utan eina hraðasekt, afsakið) var þegar ég ílengdist á sjoppuplaninu eftir vinnu og löggan kom og keyrði mig heim, enda útivistartími barna löngu liðinn.
Í sjoppunni í Mosó steig ég mín fyrstu skref á vinnumarkaði. Starfið var fjölbreyttara en það kann að hljóma, við seldum ís og pulsur, snakk og bland í poka, og leigðum vídjóspólur og síðar DVD-diska. Síðan þurfti að fylla á, pússa glerið og halda öllu hreinu. Það var nánast alltaf brjálað að gera og sjoppan iðaði af lífi. Stundum var ég svo þreytt eftir vaktir að ég settist upp um miðjar nætur og spurði út í tómið „get ég aðstoðað?“.
Ég vann í sjoppunni með skóla og á sumrin í mörg ár. Og núna, aldarfjórðungi síðar, er ég enn að hitta fólk sem segist kannast við mig og spyr hvort ég hafi ekki unnið í sjoppunni í Mosó.

VR-ingar, nýtið atkvæðisréttinn
Þessari grein var ætlað að vera smá kosningaáróður, þar sem ég gef nú kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður VR. Þess í stað rann greinin niður slóð minninganna! En mig langar samt að hvetja alla VR-félaga í Mosfellsbæ til að nýta atkvæðisrétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórn. Og ekki þætti mér verra ef „konan“ í sjoppunni fengi ykkar atkvæði!

Kosning stendur yfir frá 6. mars kl. 10 og fram á hádegi 13. mars. Allar nánari upplýsingar um mig eru inni á halla.is og upplýsingar um kosninguna eru á vr.is. Svo fáum við okkur bland í poka fyrir afganginn.

Halla Gunnarsdóttir
Formaður VR og fyrrum sjoppukona í Mosó

Opið bréf til sóknarnefndar

Már Karlsson

Haustið 2023 réðist organisti til sóknarinnar sem mikils var vænst af. Það má síðan ljóst vera að sóknarnefndin hafði því miður ekki kynnt sér sem skyldi fyrri störf umsækjandans, sem virðast að jafnaði hafa staðið stutt á hverjum stað.
Ástæður þess hafa orðið okkur ljósari sem tökum þátt í kórstarfi kirkjunnar eftir því sem tíminn hefur liðið. Kórfélagar hafa ekki áður kynnst svo miklu áhugaleysi og slælegri ástundun nokkurs fyrirrennara hans.

Undirritaður gekk á fund prestanna sl. haust og reyndi með því að hjálpa til við að starfsemin kæmist í betra horf. Greindi þeim frá því að þjónusta organistans við kirkjukórinn væri langt frá því að vera viðunandi. Ekki væri einleikið hversu oft æfingar væru felldar niður.
Það er ekki frekar af því að segja en að mér var fálega tekið og þótti mér afar miður að vera vændur um ósannindi. Aðvörun mín hefur greinilega að engu verið höfð til að bæta starfið.

Út yfir alla þjófabálka tók þó þann 11. febrúar sl. en þann dag boðaði organisti til æfingar en þá höfðum við ekki séð hann síðan 5. janúar. Engin varð æfingin. Nei. Hann lýsti því hvernig honum hefði ekki tekist að ná þeim árangri með kórinn sem hann vænti.
Í stað þess að taka sig á við æfingar og halda þær reglulega eins og í kjarasamningi er ráð fyrir gert þá lýsti hann því yfir að hann legði kórinn niður!
Í framhaldinu spurði hann síðan hvort við værum samt ekki tilbúin að syngja fram á vorið, svo sem þrjá mánuði í viðbót og verða blessuð í lokin. Virðingarvert og vel boðið það? Svar félaganna við því hefur verið nokkuð í þá veru sem einn kórfélaginn sagði: „Ég er ekki tilbúinn að leggjast á höggstokkinn og syngja þar til öxin fellur.“

Framkoma þessa manns er með ólíkindum. Hann er ráðinn til safnaðarins til þess að styðja og styrkja safnaðarstarf og greidd laun úr safnaðarsjóði – þ.e. af safnaðarbörnum – en telur sig þess umkominn að vísa hópi þeirra frá starfi með söfnuðinum. Hópi safnaðarbarna sem iðulega eru uppistaða þeirra er messur sækja. Og hvers vegna skyldi það vera?
Ástundun hans gefur ekki annað til kynna en það sé fyrst og fremst til þess að komast undan vinnuskyldu, erfiðinu við að halda kóræfingar vikulega.

Með því að bera sig aumlega síðastliðið haust lét sóknarnefnd eftir organistanum að spila ekki nema hluta þeirra sunnudaga er samningar organista og þjóðkirkunnar kveða á um. Einsdæmi? Hver varð skerðing á starfshlutfalli við það? Einnig er gert ráð fyrir kórstarfsemi sem föstum lið í fyrrgreindum samningi. Hvaða hugmyndir skyldu vera um starfshlutfallsminnkun við að losna undan kóræfingum?
Mér hefur í engu verið svarað erindi til sóknarnefndar sem ég sendi 17. febrúar. Þar sem svo tregt hefur verið um svör hef ég sent biskupi afrit af bréfinu. Geri það samvisku minnar og réttlætis vegna í þeirri trú að þar megi vera stuðningur við almennt safnaðarstarf sóknarbarna.
Svar hefur borist um að framkvæmdastjóri biskupsstofu og biskupsritari muni boða til fundar með prófasti. Hlutverk prófasts er m.a. að hafa tilsjón með kirkjulegu starfi og annast sáttaumleitanir þar sem vígðum jafnt sem leikum hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli eins og það er orðað í starfsreglum þjóðkirkjunnar.

Þeirri mikilvægustu spurningu sem komið hefur upp í hugann er hér varpað fram hvort sóknarnefnd telji hlutverk sitt vera fyrst og fremst að gæta hagsmuna starfsmanna fremur en að styðja við hið almenna safnaðarstarf með þátttöku safnaðar. Ef svo skyldi vera má spyrja hvort kirkju- og safnaðarstarf sé orðið fyrst og fremst fyrir starfsfólk til þess að hafa af því atvinnu?

Að endingu fer ég fram á að sóknarnefnd Lágafellssóknar taki til málefnalegarar umfjöllunar erindi sem til hennar hefur verið beint og svari mér, sóknarbarni til 42 ára, er nú í fyrsta sinn hefur sent henni umkvörtunarbréf.

Már Karlsson

Blikastaðalandið

Úrsúla Jünemann

Frekar mikill hiti var í Mosfellingunum sem sóttu upplýsingarfundinn um Blikastaðalandið í Hlégarði þann 13. janúar. Þarna er fyrirhugað að reisa byggð með um og yfir 3.000 íbúum.
Mosfellsbærinn hefur stækkað hratt og nýju hverfin sem hafa bæst við þykja mörgum ekki of aðlaðandi, sér í lagi Helgafellshverfið þar sem húsin standa mjög þétt. Byggð á Blikastöðum stefnir í sama hátt og verður jafnvel þéttari.
Þegar ég flutti í Mosfellsbæinn fyrir 40 árum voru íbúar 3.000 talsins og það sást hvergi íbúðarblokk. Strætósamgöngur voru mjög lélegar og það var algengt að húkka sér far. Við hjónin voru þekkt í bænum fyrir að eiga ekki bíl, fórum ferða okkar gangandi eða hjólandi í öllum veðrum. En þá vorum við ung og spræk og í dúndurformi.
Ég var svo heppin að geta sótt vinnu hér í bænum, en fór reyndar allt að fjórum sinnum á íþróttaæfingar til Reykjavíkur þrátt fyrir að Mosfellsleið gekk svona 5-6 sinnum á dag. Þetta krafðist mjög góðs skipulags og oft komst ég ekki heim á kvöldin nema á puttanum.
Nú erum við hjónin komin á efri ár og bíllinn er orðinn þarfaþing.Við veigrum okkur að fara gangandi eða hjólandi þegar það er hálka eða mikill snjór. Auk þess erum við þakklát fyrir að þurfa ekki bera þungar vörur heim.
Nú leyfi ég mér að spyrja: Hver myndi vilja búa í Blikastaðalandi? Gamalt fólk? Fólk með ungbörn? Ég efast um þetta. Allt fyrirhugað skipulag lítur vel út á teikningunum. En flestum finnst einkabíllinn ómissandi. Auðvitað eigum við Íslendingar að læra að spara bílinn, skipuleggja ferðir okkar, verða meira samferða og nota fæturna, hjólið eða strætó þar sem það á við.
En að planta svona nýju og stóru bæjarhverfi þarna niður þar sem umferðavandinn úr og í Mosfellsbæinn er nú þegar mjög mikill er vanhugsað. Og Borgarlínan ein og sér mun ekki leysa hann.

Úrsúla Jünemann

Blikastaðaland 1. áfangi

Ásgeir Sveinsson

Nú hefur tillaga á vinnslustigi á deiliskipulagi 1. áfanga Blikastaðalands verið lögð fram til kynningar og hægt er að gera athugasemdir við hana til 10. febrúar nk.
Áætlað er að uppbygging á Blikastaðalandi, hverfinu milli fells og fjöru, muni taka 20-25 ár í þremur til fimm áföngum. Áhersla er lögð á að tengja og aðlaga byggðina að hverfinu og aðliggjandi náttúru í góðu samráði við íbúa.
Hér er um nýtt hverfi að ræða sem er mikilvægur þáttur í húsnæðisuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og tekur það tillit til samfélagsgerðar og þarfa íbúa til framtíðar. Áhersla er lögð á áberandi græn svæði og samspil og aðgengi að þeirri náttúru sem landið hefur upp á að bjóða.

Kostir svæðisins
Umræðan um uppbyggingu á landinu er áratugagömul. Vinna við skipulagið sjálft hefur verið í gangi um langa hríð og tekur meðal annars mið af samkomulagi og samstarfi Mosfellsbæjar í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þátttöku í samgöngusáttmálanum.
Mikil og fagleg vinna er lögð í gerð skipulagsins þar sem áhersla er lögð á að íbúar hafi góðan aðgang að aðliggjandi náttúru og útivistarsvæðum og fjölbreytta möguleika til útivistar.

Jana Katrín Knútsdóttir

Íbúðagerðir
Í 1. áfanga svæðisins mun byggjast upp fjölbreytt byggð með mismunandi tegundum íbúða, sem henta fjölbreyttum hópi fólks, bæði einstaklingum og fjölskyldum. Fjölbýli verða í meirihluta í þessum fyrsta áfanga hverfisins en þar er átt við blöndu af 2-4 hæða húsum, smærri fjölbýlum og svo sérbýlum. Mesti þéttleiki hverfisins verður í þessum fyrsta áfanga svæðisins svo að hægt sé að byggja upp nauðsynlega innviði samhliða.
Hverfið verður „BREEAM“ vottað þar sem leitast er við að hlúa að samfélaginu með samfélagslegri ábyrgð, sjálfbærni og kolefnishlutleysi. Mikil áhersla er lögð á hönnun og legu lóða og húsa með tilliti til birtu og legu í landinu.
Byggðin í 1. áfanga hverfisins byggist upp í kringum gamla Blikastaðabæinn sem verður endurgerður. Þar verður miðbær hverfisins með verslun og þjónustu sem skapar svo einnig mannlíf og menningu. Í þessum áfanga verður einnig reistur skóli og leikskóli.
Tillögurnar um staðsetningu skólans falla afar vel að umhverfinu, þar sem þær taka mið af náttúrunni í kring. Skólalóðin mun snúa í suður þar sem hluti hennar eru opin græn svæði.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Samgöngur og umferð
Hluti af samkomulagi við landeigendur er að góðar almenningssamgöngur liggi í gegnum Blikastaðaland í miðbæ Mosfellsbæjar og þaðan til Reykjavíkur. Almenningssamgöngur sem ættu að nýtast öllum Mosfellingum vel.
Fjölbreyttar samgöngur og blönduð byggð á svæðinu eru m.a. til þess fallnar að takmarka þörf á bílaumferð innan hverfisins þar sem þjónusta og atvinnustarfsemi verður í göngufæri.
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn telja þó að bílastæði á svæðinu séu of fá samkvæmt fyrirliggjandi vinnslutillögu og leggja áherslu á að þeim verði fjölgað. Auk þess munum við leggja áherslu á að samið verði um tengingu úr hverfinu suður að Korpúlfsstaðavegi, samhliða uppbyggingu þessa fyrsta áfanga, til að tryggja gott umferðarflæði til og frá hverfinu.

Helga Jóhannesdóttir

Langtímaverkefni
Uppbygging á Blikastaðalandinu er langtímaverkefni. Um er að ræða nýtt hverfi sem er að mörgu leyti ólíkt öðrum hverfum Mosfellsbæjar – hverfi sem tekur mið af breyttum samfélagslegum þörfum og kröfum næstu kynslóða.
Þegar horft er til uppbyggingarinnar er einmitt mikilvægt að átta sig á að hún mun eiga sér stað á næstu 20 -25 árum og því nauðsynlegt að hún taki mið af þörfum þess fólks sem hér vill búa í framtíðinni. Við uppbyggingu á þessu stóra verkefni sem mun ná yfir langan tíma er mikilvægt að upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir séu réttar og byggðar á staðreyndum. Lögð hefur verið áhersla á af hálfu stjórnsýslunnar hjá Mosfellsbæ að veita góðar upplýsingar um skipulagið og uppbygginguna til íbúa bæjarins, upplýsingar um þéttleika byggðar, húsagerðir, áfangaskiptingar og ekki síst um umferðarmál.

Við hvetjum bæjarbúa að kynna sér deiliskipulagstillöguna á mos.is, blikastadaland.is og í Skipulagsgátt, mál nr. 1010/2023.

Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir
Bæjarfulltrúar D-lista

Reykjalundur í 80 ár

Pétur Magnússon

Um þessar mundir fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli en það var árið 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var formlega innritaður á Reykjalund.
Frá þessum atburði hefur sannarlega mikið vatn runnið til sjávar en saga Reykjalundar er auðvitað samofin sögu endurhæfingar í landinu, Mosfellsbæjar og merkilegri sögu SÍBS, eiganda Reykjalundar.
Reykjalundur hefur lengi verið einn stærsti vinnustaðurinn hér í Mosfellsbæ. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.
Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Meðferðin einkennist af þverfaglegri samvinnu fagfólks sem myndar átta sérhæfð teymi, sem starfrækt eru á dagvinnutíma að mestu. Auk þess er þverfagleg legudeild, Miðgarður, opin allan sólarhringinn. Einnig er fjöldi gistirýma í boði fyrir sjúklinga sem þess þurfa vegna aðstæðna sinna.
Markmið endurhæfingar er að endurheimta fyrri getu eða bæta heilsu. Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustuna á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi sjúklinga í viðtöl á göngudeild á hverju ári.
Afmælisárið verður haldið hátíðlegt með ýmsum hætti. Meðal annars heldur Reykjalundur glæsilega afmælisráðstefnu um endurhæfingu þann 12. febrúar, sem stefnir í að verða fjölsótt.

Gaman er að segja frá því að í tilefni af afmælisárinu er verið að leggja lokahönd á ritun sögu Reykjalundar. Það er Pétur Bjarnason sem hefur haldið utan um söguritunina en honum til halds og trausts hefur verið ritnefnd skipuð þeim Bjarka Bjarnasyni, Birgi D. Sveinssyni og Jónínu Sigurgeirsdóttur auk undirritaðs og Ragnars Ólasonar ljósmyndara. Rósa María Guðmundsdóttir og margir fleiri hafa einnig komið að málum og er sjálfsagt að þakka öllum fyrir aðstoðina og þátttökuna. Bókin mun formlega koma út á haustdögum og verður þá kynnt sérstaklega.
Það er sannarlega ástæða til að óska öllum, sem komið hafa að 80 ára sögu Reykjalundar með einhverjum hætti, hjartanlega til hamingju með tímamótin.

Pétur Magnússon
forstjóri Reykjalundar

Samgöngumál

Dagný Kristinsdóttir

Nú er janúarmánuður liðinn og við finnum að daginn er tekinn að lengja. Í janúar var heilt yfir nokkuð rólegt við fundarborðið í Reykjafelli en þeim mun meira að ræða þar fyrir utan.
Tveir opnir fundir voru haldnir þar sem mikilvæg mál voru til umræðu, annars vegar kynningarfundur um skipulagslýsingu á 1. áfanga Blikastaðalands og hins vegar um Samgöngusáttmálann. Þegar maður fer yfir fundina og samtöl í kringum þá er eitt sem er oftast nefnt og það eru samgöngur. Samgöngur frá Blikastaðahverfinu og út á Vesturlandsveginn og samgöngur til og frá bænum okkar.

Samgöngumálin eru sameiginlegt verkefni
Samgöngumálin eru sameiginlegt verkefni okkar allra. Því skiptir máli að íbúar láti í sér heyra og sýni áhuga með því að mæta á fundi þar sem þessi mál eru til umræðu. Á fundinum um Samgöngusáttmálann hefði til dæmis verið gott að sjá fleiri íbúa. Umræðan var góð og snerist í raun minna um Samgöngusáttmálann sjálfan og meira um samgöngur, því það er það sem liggur á okkur. Til umræðu var ferðatíminn, tafir og hvernig framtíðin gæti litið út.

Atvinnusvæði Mosfellinga
Meginþorri atvinnubærra Mosfellinga sækir vinnu og skóla í öðrum sveitarfélögum. Við sem erum í þeim hópi finnum áþreifanlega fyrir því hve umferðin hefur aukist. Það skiptir orðið máli hvort maður leggi af stað þremur til fimm mínútum fyrr eða seinna. Það sást vel sl. mánudagsmorgun þegar ökumaður á hraðferð keyrði á hægri öxl Vesturlandsvegar alla leið að Korputorgi.
Það er því fullkomlega eðlilegt að íbúar hafi áhyggjur af þessu þrjú þúsund manna hverfi að Blikastöðum og öllum nýju íbúunum sem eiga eftir að bætast í hópinn við Baugshlíðina og fara út á Vesturlandsveginn. Því ekki mun fólk sækja vinnu innan þessa nýja hverfis, í einhverjum mæli.

Hvað getum við gert?
Ég held að við, kjörnir fulltrúar, höfum öll heyrt áhyggjuraddirnar og hlustum á þær. Ef það er eitthvað sem skiptir máli hjá okkur kjörnu fulltrúunum þá er það að standa vörð um hagsmuni Mosfellinga og tala fyrir mikilvægi þess að samgönguuppbygging eigi sér stað samhliða annarri uppbyggingu.
Okkar hlutverk er líka að gera allt sem við getum til að auðvelda samgöngur og koma með hugmyndir. Við getum lagt grunninn að breyttu hugarfari í garð almenningssamgangna eins og við í Vinum Mosfellsbæjar höfum gert, því miður við lítinn hljómgrunn. Það er hægt að óska eftir því við Strætó að leið 15 verði gerð að borgarlínuleið og innanbæjarstrætóar gangi um bæinn. Það kostar ekkert að skrifa bréf og óska eftir því að þetta sé skoðað. Það tekur að lágmarki 1½-2 ár að fá slíka breytingu í gegn.
Um það fjallaði tillaga sem við lögðum fram við gerð fjárhagsáætlunar og var hún felld. Við þurfum líka að vera nokkuð samhljóma í okkar málflutningi, það styrkir málstað sveitarfélagsins. Við getum einnig talað fyrir mikilvægi Sundabrautar og lagt ríka áherslu á það við okkar þingmenn að þeir tali máli okkar.
En fyrst og síðast erum við öll lið sem hefur það sameiginlega markmið að vilja að samgöngurnar gangi hraðar og betur fyrir sig. Það gerum við með því að halda okkar málstað á lofti og vera óhrædd að ræða málin.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Lífshlaupið í febrúar – Sameinumst í hreyfingu og hvatningu!

Það er alltaf líf og fjör í Mosfellsbænum.
Við Halla Karen og Berta, þjálfarar 60 ára og eldri hérna í bænum, höfum hvatt okkar frábæru hópa til þátttöku í Lífshlaupinu 2025. Það hófst 5. febrúar og stendur yfir í þrjár vikur.
Okkar markmið eru skýr, að hreyfa okkur saman, hvetja hvert annað áfram og sýna fram á að aldur er engin fyrirstaða þegar kemur að heilsueflingu.

Við erum ótrúlega stoltar af okkar öflugu þátttakendum. En nú hafa þegar yfir 100 einstaklingar skráð sig til leiks í Lífshlaupinu! Þetta er ekki bara metþátttaka heldur líka mikilvæg áminning um hvað hreyfing skiptir miklu máli fyrir líkamlega, andlega sem og félagslega heilsu.
Til að gera þetta enn skemmtilegra höfum við skipulagt innanbæjarkeppni á milli hópanna okkar í Varmá og World Class. Þessi keppni er ekki bara til að bæta stigatöfluna heldur til að skapa aukna samheldni, gleði og jákvæða hvatningu.

Hvatning til bæjarbúa
Við viljum nýta tækifærið og hvetja ykkur öll sem þekkið þessa frábæru þátttakendur, hvort sem það eru vinir, fjölskyldumeðlimir eða nágrannar, að hvetja þau áfram. Sendið þeim jákvæða orku, bjóðið þeim í göngutúr, eða jafnvel skráið ykkur sjálf í Lífshlaupið og verið með!
Lífshlaupið er frábært tækifæri til að bæta hreyfingu inn í daglega rútínu, kynnast nýju fólki og finna kraftinn sem felst í því að hreyfa sig saman.
Við vonumst til að sjá sem flesta á hreyfingu í bænum á næstu vikum! Hvort sem það er í göngutúr, á hlaupum, í leikjum eða í ræktinni. Tökum þátt saman, styðjum hvert annað og höldum áfram að búa í heilsueflandi samfélagi.

Með hreyfikveðju,
Halla Karen & Berta,
þjálfarar

Skipulagið á Blikastaðalandi

Halla Karen Kristjánsdóttir

Rétt fyrir sveitastjórnarkosningar 2022 var undirritaður samningur við landeiganda Blikastaðalands um uppbyggingu á svæðinu.
Á þessum þremur árum sem liðin eru hefur mikil vinna átt sér stað við hönnun og greiningu á umhverfisáhrifum sem byggðin mun hafa fyrir hverfið. Rík áhersla hefur verið lögð á þætti eins og skuggavarp, birtuskilyrði, hljóðvist og loftgæði ásamt umferðargreiningum. Nú stendur yfir kynning á deiliskipulagi 1. áfanga Blikastaðalands á vinnslustigi. Hægt er að senda inn athugasemdir til 10. febrúar.

Íbúðabyggð á milli fells og fjöru
Blikastaðaland er mjög fallegt og veðursælt land þar sem áhersla verður á að flétta saman náttúru og mannvænt bæjarhverfi. Íbúðabyggðin verður tengd með grænum geirum sem tengist vel göngu- og hjólreiðastígum. Hér eru mikil tækifæri til að byggja framsýnt hverfi sem hentar ungum sem öldnum og ýtir undir breytingar á samgönguvenjum og notkun virkra ferðamáta.

Breyttar samgönguvenjur
Það þarf að horfa til framtíðar, og ég veit að margir, eins og ég, hafa vanist því að fara nánast allt á bíl. Við sjáum ekki fyrir okkur að fjölskylda eigi bara einn bíl eða jafnvel engan. En staðreyndin er að við þurfum að hugsa öðruvísi ef við ætlum ekki að vera föst í bílaumferð alla daga. Bílum í umferðinni fjölgar að meðaltali um 70 í hverri viku og það þarf engan sérfræðing til að sjá að það verður fljótt ófremdarástand. Borgarlína mun ekki leysa allan vandann, en hún er hluti af lausninni.

Við þurfum að sporna gegn þeirri venju okkar að vera nánast alltaf ein á bíl. Þið getið ímyndað ykkur hvernig ástandið verður eftir 20 ár ef við höldum uppteknum hætti. Fyrir utan lýðheilsuleg áhrif! Unga fólkið hugsar margt hvert öðru vísi en við miðaldra fólkið. Það er t.d. ekki eins algengt og áður var að bílprófið og bíllinn væru komin í hús á 17 ára afmælisdaginn. Það er dýrt að kaupa og reka bíl og þau vita að það er ýmislegt annað hægt að gera við þá fjármuni.
Áætlað er að Borgarlína komi til okkar árið 2033, og samkvæmt samningum um uppbyggingu hennar er það forsenda að vera með þétta byggð íbúða og þjónustu í kringum hana. Blikastaðahverfið er einmitt skipulagt þannig að fólki er gert kleift að fara flestra sinna erinda gangandi eða hjólandi.

Ungt fólk og húsnæðisþarfir
Sumir upplifa tilhugsun um þéttari byggð á neikvæðan hátt en sannleikurinn er sá að til að uppfylla þörf samfélagsins fyrir íbúðir og fjölbreyttara húsnæði þá verðum við að nýta landið og innviðina betur en gert var áður fyrr. Þetta þýðir ekki sjálfkrafa að lífsgæði fólks verði minni.

Þegar vinnslutillagan er skoðuð sést að hugað er að þáttum eins og skuggavarpi og birtustigi íbúða. Fjölbýlishúsin brotin upp í mismunandi hæðir til þess að létta yfirbragðið. Þannig að það verði ekki eins og einhver múr. Framboð minni íbúða er allt of lítið hér í Mosfellsbæ og því miður staðreynd að margt ungt fólk hefur þurft að flytja héðan og í önnur bæjarfélög þvert á sínar vonir um að stofna heimili í sínum heimabæ.

Í Blikastaðahverfinu verður blönduð byggð þar sem fólk hefur val um að kaupa minni íbúðir í fjölbýli eða vera í sérbýli og íbúar hafa val um að nýta vistvæna ferðamáta og sækja verslun og þjónustu í nærumhverfinu. Það er auðvitað val líka að búa í eldri hverfunum þar sem er stærra húsnæði og lóðir. Eitt hentar ekki öllum og fólk þarf að hafa val.
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það verður áfram gott að búa í Mosfellsbæ.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknar