Skólarnir í forgangi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mikil gróska hefur verið í skólaumbótum hér á landi undanfarin misseri. Skólinn breytist stöðugt líkt og samfélagið sjálft og sveitarfélögin fylgja eftir þeirri þróun með auknum stuðningi.
Mosfellsbær hefur stækkað og breyst mikið á stuttum tíma og næg hafa verkefnin verið. Stærsta hlutfall fjármagns bæjarins fer í rekstur skólanna og vega skólarnir langþyngst í þjónustu við bæjarbúa.

Við stöndum með skólunum
Við sjálfstæðisfólk ætlum að halda áfram á braut þróunar og framfara í skólamálum því við viljum að skólarnir í Mosfellsbæ séu ávallt í fremstu röð. Við í Mosfellsbæ getum það því fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er sterk og góð fjármálastjórn sveitarfélagsins gefur okkur svigrúm til góðra verka. Fram undan eru spennandi tímar og göngum við áfram galvösk til verka. Skólamál eru í forgangi í Mosfellsbæ því skólinn varðar allar fjölskyldur. Við höfum verið óhrædd að fara ótroðnar slóðir eins og Krikaskóli og Höfðaberg sýna. Kallað er eftir aukinni stoðþjónustu eins og talmeinaþjónusta og annarri nauðsynlegri þjónustu við börn.
Nýr skóli í Helgafelli verður tekinn til notkunar um áramót. Helgafellsskóli er metnaðarfull skólabygging þar sem hugað er að þörfum nemenda í nútímasamfélagi.
Við ætlum sannarlega ekki að gleyma „gömlu“ skólunum okkar en þar er sérstaklega hugað að úrbótum sem stöðugt þarf að vinna að. Eldri byggingar kalla á mikið viðhald og því þarf að fylgja vel eftir. Miklu fé hefur verið varið í að efla og þróa tölvutæknina í skólunum og er því verkefni hvergi nærri lokið. Grunnskólarnir okkar eru velbúnir list- og verkgreinastofum og er það mjög mikilvægt til að efla kennslu í verkgreinum svo allir nemendur fái notið krafta sinna. Í Listaskólanum hefur stöðugildum verið fjölgað og kennslan verið aukin út í grunnskólunum. Mjög gott samstarf er við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og mikilvægt að það haldi áfram.

Arna Hagalínsdóttir

Arna Hagalínsdóttir

Aukin þjónusta í leikskólunum
Mikil aukning hefur verið í þjónustu við yngstu börnin á kjörtímabilinu. Settar hafa verið á laggirnar ungbarnadeildir á leikskólunum og einnig hafa verið gerðir samningar við aðra ungbarnaskóla á höfuðborgarsvæðinu. Leikskólaaldur verður lækkaður í 12 mánuði og leikskólagjöld lækkuð. Einnig verður sumarþjónusta leikskólanna aukin enn frekar. Allt er þetta mikil þjónustuaukning við foreldra ungra barna í Mosfellsbæ.
Undanfarin ár hefur verið unnið eftir metnaðarfullri skólastefnu í Mosfellsbæ og hefur nú verið kallað eftir endurskoðun stefnunnar. Það verður gert og eins og áður verða kallaðir að borðinu aðilar frá skólasamfélaginu, foreldrar, börn og allir þeir sem málið varðar. Það er mikilvægt að sátt ríki um skólasamfélagið og við annað verður ekki unað. Það er fræðsluyfirvalda að styðja við skólana svo menningin blómstri og börnunum líði vel.
Eftir margra ára aðhald í efnahagsmálum og góða stjórn fjárhagsmála er nú loks kominn tími til að uppskera. Það má með sanni segja að bjart sé fram undan í Mosfellsbæ og sýnir fjölgun bæjarbúa það að fólk treystir vel núverandi stjórnvöldum.
Við sjálfstæðisfólk viljum að Mosfellsbær sé öflugt lærdómssamfélag með metnað og árangur í fyrirrúmi og munum standa með skólunum. Þar verður ekkert gefið eftir.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir kennari og bæjar­fulltrúi, skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Arna Hagalínsdóttir kennari, skipar 5. sæti á lista sjálfstæðismanna.