Hlakka til að geta beitt þekkingu minni

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Að taka þátt í sveitarstjórn er ábyrgðarfull ákvörðun. Traust íbúanna á kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins er forsenda hins staðbundna lýðræðis.
Ég hef búið í Mosfellsbæ frá árinu 1989 og þekki bæinn vel. Eitt af þeim málum sem ég hef brennandi áhuga á eru skipulagsmál. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í Mosfellsbæ síðustu ár, sem er jákvætt, en samhliða þurfum við að standa vörð um okkar fjölbreyttu og fallegu náttúru sem er okkar sérstaða á höfuðborgarsvæðinu.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórna en við framkvæmd þess verða íbúar að geta treyst því að jafnræðis sé gætt auk þess sem festa sé í framkvæmd skipulagsins og því verði almennt ekki breytt nema veigamiklar ástæður mæli því með.
Ég vil leggja áherslu á að fá íbúana í lið með okkur, hlusta, taka við rökum, leita til þeirra til að afla upplýsinga og þekkingar og vinna saman að málefnum sveitarfélagsins. Það eru íbúarnir sem eru sérfræðingar í nærumhverfinu og geta komið með áhugaverðar lausnir.

Mosfellsbær er yndislegur staður til að búa í og hlakka ég til að geta beitt þekkingu minni íbúum hans til góðs.

Margrét Guðjónsdóttir
skipar 2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.