Finnsku húsin í Arnartanga

finnsku

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Aðfaranótt 23. janúar 1973 hófst mikið eldgos í Heimaey eins og kunnugt er.
Í vetur sem leið voru því 45 ár liðin frá þessum atburði. Frækilegur brottflutningur fólks varð víðfrægur um allan hinn upplýsta heim og dáðust margar þjóðir að hversu Íslendingar reyndust úræðagóðir þegar mikið reyndi á.

Víða barst aðstoð erlendis frá. Norðurlöndin brugðust vel við og sendu hingað heilu raðhúsin til að gefa flóttafólkinu úr Vestmannaeyjum. Stofnaður var sjóður, Viðlagasjóður, og helsti tekjustofn hans var að lagður var sérstakur skattur og bætt við þáverandi söluskatt sem var undanfari virðisaukaskattsins. Þessi viðbótarskattur nam 2% og var hugsunin að hafa þessa skattheimtu tímabundna uns afleiðingarnar þessa goss yrðu til lykta leiddar. En skatturinn stendur enn þrátt fyrir að langur tími sé liðinn!

Í Mosfellsbæ voru byggðar 8 raðhúsalengur með alls 35 íbúðum og standa húsin við Arnartangann. Fram á níunda áratug síðustu aldar var Arnartangi vestasta byggðin í Mosfellssveitinni gömlu. Þessi hús eru falleg, einföld en praktísk og hafa reynst mjög vel enda hæfilega stór með ofurlitlum garði og hafa alltaf verið vinsæl. Er að mörgu leyti undarlegt að ekki séu byggð fleiri hús í svipuðum stíl og stærð.
Raðhúsin voru sérstök gjöf Finna hugsuð til að rétta Íslendingum hjálparhönd í erfiðleikum þeirra vegna eldgossins á Heimaey. Þau eru byggð úr timbri á steyptum sökklum að hluta til á steyptum grunni. Þau voru endurhönnuð með sérstöku tilliti til einangrunar, jarðskjálftahættu og veðurs á Íslandi enda eru aðstæður hér gjörólíkar en í Finnlandi sem er eitt skógríkasta land heims.

Lengi vel nutu húsin í Arnartanganum ekki skógarskjóls en nú eru vaxin upp tré töluvert upp fyrir lágreista byggðina. Austan við Arnartanga var fyrir um 30 árum plantað þremur löngum röðum af öspum sem hafa myndað mjög gott skjól fyrir austlægum áttum. Aspir vaxa yfirleitt mjög hratt en lifa fremur sjaldan lengur en hálfa öld, þá hrörna þær, fúna og deyja. Og þá geta margar og háar aspir reynst stórhættulegar þá Kári gamli er í essinu sínu.
Í Mosfellsbæ getur orðið nokkuð hvasst einkum í suðaustlægum áttum á vetrum. Nú þarf senn að huga að endurnýjun trjáa á þessum slóðum af þessum ástæðum og gróðursetja jafnvel aðrar hentugri tegundir. Má þar nefna sitkagreni sem vex og dafnar og getur orðið 300 ára gamalt en orðið mjög hátt, jafnvel hærra en turn Hallgrímskirkju. Sitkagreni nær hátt í hundrað metra í upprunalegu heimkynnum sínum í Norður Ameríku en verða hér varla mikið hærri en 30-40 metrar. En spurning er hvort við viljum hafa svo há tré í þéttbýli?

Í tilefni af því að finnski forsetinn Kekkonen kom hingað til lands að afhenda Íslendingum Viðlagasjóðshúsin á sínum tíma voru reistar tvær flaggstengur sem enn má sjá milli raðhúsanna og asparskógarins. Milli stanganna var komið fyrir hraunsteini úr Heimaey og fest á hann plata með áletrun um þennan atburð. Sú plata sem nú er mun ekki vera sú upprunalega því sú var úr kopar og fékk ekki að vera þar lengi og þjófar numið hana á brott enda eru þjófar mjög athugulir á fémæti.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti barst hingað önnur gjöf frá finnsku þjóðinni sem minna bar á en þeirri fyrri en ekki síðri. Var það fræpoki með töluverðum slatta af fræi hengibjarkar (betula pendula). Hún er náskyld íslensku ilmbjörkinni enda hvoru tveggja norrænar tegundir.
Nú er liðinn um aldarfjórðungur frá þessari seinni gjöf og hengibjarkirnar finnsku hafa eignast vonandi þúsundir afkvæma sem dafna í íslenskri jörð. Er það tillaga mín að við komum nokkrum afkomendum þessara hengibjarka við minningamarkið austan við raðhúsin finnsku svo þar megi vaxa finnsk-íslenskur trjálundur sem kærkomin viðbót.

Vel gæti ég trúað að einhverjum þætti þetta vera hálfgert tildur en þess ber að geta að við eigum að hlúa sem best að gömlum vináttuböndum og efla þau eftir mætti. Og hvað er ekki betra en trjágróðurinn sem veitir okkur bæði mannfólkinu og fuglum himinsins mikilvægt skjól og yndi.

Guðjón Jensson
arnartangi43@43@gmail.com