Flokkun á plasti í Mosfellsbæ

Tómas G. Gíslason

Tómas G. Gíslason

Mosfellsbær hefur frá því sl. vor boðið íbúum upp á aukna þjónustu varðandi flokkun á plasti frá heimilum til endurvinnslu, þar sem heimilt er að flokka plast í lokuðum plastpokum í gráu sorptunnuna.
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbæjar, Hafnafjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar. Sérhæfður vélbúnaður SORPU flokkar síðan plastið frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Ekki er nauðsynlegt að setja hreina plastið í sérstaka poka en þeir þurfa að vera úr plasti. Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að auka endurvinnslu og draga úr urðun plasts og endurnýta þannig betur plastið sem hráefni.
Verkefnið hefur farið vel af stað og hefur magn af flokkuðu plasti frá íbúum í Mosfellsbæ aukist verulega. Þó er ennþá talsvert um að íbúar fleygi plasti óflokkuðu með blönduðum heimilisúrgangi, og því er tækifæri til að gera enn betur. Íbúar í Mosfellsbæ eru því hvattir til þess að kynna sér þessa nýju leið til flokkunar á plasti í plastpokum í gráu tunnuna, en einnig má benda á að hægt er að skila flokkuðu plasti á grenndargámastöðvum við Háholt, Olís Langatanga, Bogatanga og Dælustöðvarveg, auk endurvinnslustöðvar SORPU við Blíðubakka.
Vegna þessara breytinga, er nýjum límmiðum dreift með þessu eyðublaði Mosfellings og eru íbúar hvattir til að líma þá innan á lok sorptunna sinna, bæði bláu pappírstunnuna og gráu tunnuna fyrir almennt sorp og plast.

Hvers vegna að flokka plast?
Áætlað er að á árinu 2017 hafi að jafnaði um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu endað í hefðbundinni sorptunnu og farið á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Eingöngu um 5 kg af plasti á íbúa skilaði sér flokkað til endurvinnslu. Markmiðið er að auka þetta magn verulega og er plastflokkun í plastpoka í gráu tunnuna mikilvægt skref í þá átt.

Tómas G. Gíslason
Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar